Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 157. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 839  —  157. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurð Líndal lagaprófessor, Stefán Eiríksson, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, og Kristbjörgu Stephensen borgarlögmann.
    Með frumvarpinu er lagt til að undanþáguheimild til nektarsýninga í atvinnuskyni á veitingastöðum falli brott.
    Nefndin ræddi ýmis atriði frumvarpsins á fundum sínum. Samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald gildir sú meginregla að á veitingastöðum er hvorki heimilt að bjóða upp á nektarsýningar né með öðrum hætti að gera út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru. Í undantekningartilfellum er þó heimilt að fram fari nektardans í atvinnuskyni á veitingastað, að fengnum jákvæðum umsögnum umsagnaraðila um rekstrarleyfi, m.a. heilbrigðisnefndar, slökkviliðs, Vinnueftirlits, byggingarfulltrúa og lögreglu. Nefndin leggur áherslu á að í lögunum er meginafstaða löggjafans til þessarar tegundar starfsemi skýr, að nektarsýningar skuli óheimilar, þótt frá þeirri meginreglu sé undanþága sem ber samkvæmt almennri lögskýringu að skýra þröngt. Nefndin leggur því áherslu á að rekstraraðilum megi vera það ljóst að þessi hluti rekstrarins sem byggist á undanþágu frá meginreglu laganna er háður því að umsagnaraðilar um rekstrarleyfi veiti jákvæðar umsagnir. Telur nefndin rekstraraðila slíkra staða því ekki geta byggt lögmætar væntingar til annars en að sú starfsemi sé háð breytingum á löggjöf.
    Fyrir nefndinni kom fram að starfsemi sem býður upp á nektardans byggist nær eingöngu á ungum erlendum stúlkum sem hingað koma til starfa og að það séu hundruð erlendra stúlka sem hingað koma vegna þessa. Erfitt hefur reynst að kanna stöðu þeirra, aðstæður og ástæður fyrir því að þær stunda þessa iðju eða hvort þær eru þvingaðar til þess með einum eða öðrum hætti þar sem þær stoppa mjög stutt á landinu. Þá hefur einnig reynst erfitt að sinna eftirliti með stöðunum hérlendis. Rannsóknir yfirvalda víða í Evrópu hafa sýnt fram á að stúlkurnar eru almennt mjög ungar, en þó yfir lögaldri, og þolendur misneytingar af ýmsu tagi, svo sem vegna fátæktar og áfengis- og eða eiturlyfjafíknar. Í mörgum tilvikum eru þær fórnarlömb mansals og eða annarra glæpa. Nefndin telur því í ljósi upplýsinga lögreglu að verulegar líkur séu á því að á þessum stöðum starfi í einhverjum mæli einstaklingar sem ekki njóta fullra persónuréttinda og eru mögulega fórnarlömb mansals eða annars konar misneytingar. Nefndin bendir í því sambandi á að alþjóðlegir glæpahringir eru fyrirferðarmiklir í framboði á konum til starfsemi af þessum toga.
    Nefndin telur því engin málefnaleg sjónarmið fyrir því að viðhalda gildandi undanþáguheimild þegar metnir eru þeir hagsmunir sem í húfi eru og sjónarmið um vernd mannréttinda og persónuhelgi þeirra kvenna sem á stöðunum starfa.
    Nefndin leggur til að gildistaka frumvarpsins verði miðuð við 1. september 2009. Með
því vill nefndin koma til móts við þá gagnrýni að í breytingunni felist fyrirvaralaust afnám heimilda til rekstrar af þessum toga og draga úr óhagræði rekstraraðila vegna þessa.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    
    2. gr. orðist svo:
    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2009.

    Birgir Ármannsson og Ólöf Nordal skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Árni Þór Sigurðsson, Sigurður Kári Kristjánsson og Jón Magnússon voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 26. mars 2009.



Árni Páll Árnason,


form., frsm.


Álfheiður Ingadóttir.


Birgir Ármannsson,


með fyrirvara.



Lúðvík Bergvinsson.


Ólöf Nordal,


með fyrirvara.


Siv Friðleifsdóttir.