Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 366. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 868  —  366. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 31. mars.)I. KAFLI

Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Á eftir 7. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Allir aðilar sem hafa vaxtatekjur hér á landi af bankainnstæðum, verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum, skuldabréfum eða öðrum kröfum og fjármálagerningum, sbr. 3. tölul. C-liðar 1. mgr. 7. gr., skulu greiða tekjuskatt af þeim tekjum. Ákvæði þetta gildir þó hvorki um vexti sem greiddir eru af Seðlabanka Íslands né þá vexti sem greiðast erlendum ríkjum, alþjóðastofnunum eða öðrum opinberum aðilum sem undanþegnir eru skattskyldu í heimilisfestarríki sínu.
     b.      Í stað orðanna „4.–7. tölul.“ í 8. tölul. kemur: 4.–8. tölul.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „Eignaauki“ í 3. tölul. kemur: eða aukning ráðstöfunartekna.
     b.      Við 3. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hið sama á við um eftirgefnar skuldir sem mælt er fyrir um í nauðasamningi til greiðsluaðlögunar skv. X. kafla a í lögum um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með áorðnum breytingum, eða á annan fullnægjandi hátt er sannað að eignir eru ekki til fyrir, að uppfylltum skilyrðum samkvæmt reglugerð sem fjármálaráðherra setur um hlutlægt mat á forsendum eftirgjafar, skilyrði þess að eftirgjöf teljist ekki til tekna, upplýsingagjöf skv. 92. gr. o.fl.

3. gr.

    Á eftir 57. gr. laganna kemur ný grein, 57. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Skattlagning vegna erlends eignarhalds á lágskattasvæðum.


    Skattaðili sem á beint eða óbeint hlut í hvers kyns félagi, sjóði eða stofnun sem telst heimilisföst í lágskattaríki skal greiða tekjuskatt af hagnaði slíkra aðila í hlutfalli við eignarhluta sinn án tillits til úthlutunar. Hið sama á við um skattaðila sem stjórnar félagi, sjóði, stofnun eða eignasafni í lágskattaríki sem skattaðili hefur beinan eða óbeinan ávinning af. Tekjur þessar eru skattskyldar með sambærilegum hætti og um væri að ræða starfsemi hér á landi.
    Ríki eða lögsagnarumdæmi telst lágskattaríki þegar tekjuskattur af hagnaði félags, sjóðs eða stofnunar, sem um ræðir, er lægri en tveir þriðju hlutar af þeim tekjuskatti sem hefði verið lagður á félagið, sjóðinn eða stofnunina hefði hún verið heimilisföst á Íslandi.
    Ákvæði 1. mgr. á við þegar minnst helmingur eignarhalds í aðilum, sbr. 1. mgr., er beint eða óbeint í eigu íslenskra skattaðila eða stjórnunarleg yfirráð hafa verið til staðar innan tekjuárs.
    Ákvæði 1. mgr. á ekki við ef:
     1.      félag, sjóður eða stofnun fellur undir samning milli Íslands og lágskattaríkis til að koma í veg fyrir tvísköttun enda sé unnt á grundvelli samningsins að fá allar nauðsynlegar upplýsingar og tekjur félags, sjóðs eða stofnunar eru ekki að meginstofni til eignatekjur; eða
     2.      félag, sjóður eða stofnun er stofnsett og skráð í öðru EES-ríki og hefur þar með höndum raunverulega atvinnustarfsemi, og íslensk skattyfirvöld geta á grundvelli tvísköttunarsamnings eða annars alþjóðasamnings krafist allra nauðsynlegra upplýsinga, sbr. 1. tölul. Þar sem ekki er fyrir hendi samningur, sbr. 1. málsl., hvílir upplýsingaskyldan á skattaðilanum.
    Tekjur skattaðila með beina eignaraðild miðast við samsvarandi hlutdeild í hagnaði félags, sjóðs eða stofnunar eins og hagnaður yrði ákveðinn hér á landi ef aðilinn væri íslenskur skattaðili. Sé um óbeina eignaraðild að ræða skal miða við sameiginlegt eignarhald á þeirri starfsemi sem skattlagningin tekur til. Tap er því aðeins frádráttarbært skv. 8. tölul. 31. gr. að skattaðili geti, að ósk skattyfirvalda, lagt fram fullnægjandi gögn er liggja að baki útreikningi á tapi.
    Hafi félag, stofnun eða sjóður úthlutað hagnaði til skattaðila, sem skattlagður hefur verið skv. 1. mgr., skal úthlutunin ekki talin til skattskyldra tekna hjá honum nema hún sé hærri en þær tekjur sem skattlagðar eru skv. 5. mgr.
    Fjármálaráðuneytið getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar. Ráðherra skal birta lista yfir þau lönd og svæði sem skattlagning samkvæmt þessari grein tekur til.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 70. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „8. tölul.“ í 1. málsl. 1. mgr. 3. tölul. kemur: 9. tölul.
     b.      Á eftir orðunum „skv. 3. gr. af“ í 4. tölul. kemur: vöxtum.

5. gr.

     Í stað orðanna „5.–8. tölul.“ í 3. mgr. 75. gr. laganna kemur: 5.–9. tölul.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 92. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „umboðsviðskipti“ í 2. mgr. kemur: milligöngu.
     b.      Á eftir orðinu „hlutabréf“ í 2. mgr. kemur: skuldabréf og aðra fjármálagerninga.
     c.      3. mgr. orðast svo:
                  Bankar, sparisjóðir, önnur fjármálafyrirtæki og aðrir þeir aðilar skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1996, sem taka við fjármunum til ávöxtunar, skulu ótilkvaddir veita skattyfirvöldum ókeypis og í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður upplýsingar um greidda eða greiðslukræfa vexti á árinu skv. 8. gr. laga þessara og afdregna staðgreiðslu og innstæður í bankareikningum og hvers konar verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum. Sama gildir um hvers konar útlán til viðskiptamanna og vaxtagreiðslur af þeim.
     d.      Á eftir orðinu „stofnfjárvexti“ í 6. mgr. kemur: skuldabréf og aðra fjármálagerninga sem og vexti af þeim.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 94. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Hafi aðili beint eða óbeint minnst helming eignarhalds eða er með stjórnunarleg yfirráð í dótturfélagi eða útibúi í öðrum ríkjum er honum jafnframt skylt að veita upplýsingar um viðskipti dótturfélags eða útibús við aðila skattskylda skv. I. kafla og félög, sjóði og stofnanir í lágskattaríkjum sem 1. mgr. 57. gr. a laganna tekur til.
     b.      Á eftir 3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Fjármálafyrirtæki, endurskoðendur, lögmenn og aðrir aðilar skulu halda sérstaka skrá yfir þá viðskiptavini sína sem þau veita skattaráðgjöf eða aðra þjónustu, sem snertir umráð eða beina eða óbeina eignaraðild viðskiptavinanna að rekstri félaga, sjóða eða stofnana sem skráð eru erlendis eða eignir þar. Er þeim skylt að láta skattyfirvöldum í té umrædda skrá er þau beiðast þess.
                  Ákvæði annarra laga um trúnaðar- og þagnarskyldu víkja fyrir ákvæðum þessarar greinar.

8. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 8. gr. laga nr. 164/2008, um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum, þá kemur ákvæði 1. gr. laganna til framkvæmdar við álagningu tekjuskatts á árinu 2010.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda,
með síðari breytingum.

9. gr.

    Í stað orðanna „2., 3., 6. og 7. tölul. 3. gr.“ í 2. málsl. A-liðar 2. gr. laganna kemur: 2., 3., 6., 7. og 8. tölul. 3. gr.

10. gr.

    Í stað orðanna „2., 3., 6. og 7. tölul. 3. gr.“ í 6. tölul. 5. gr. laganna kemur: 2., 3., 6., 7. og 8. tölul. 3. gr.

11. gr.

    Í stað orðanna „2., 3. og 7. tölul. 3. gr.“ í 4. mgr. 9. gr. laganna kemur: 2., 3., 7. og 8. tölul. 3. gr.

III. KAFLI
Gildistaka.
12. gr.

    Ákvæði 1. gr. öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda vegna vaxta sem gjaldfalla og verða greiðslukræfir á árinu 2010 eða síðar. Hafi hluti vaxta áunnist fyrir gildistöku laganna eru þeir hvorki skattskyldir né staðgreiðsluskyldir.
    Ákvæði 2. gr. og 6.–8. gr. öðlast þegar gildi.
    Ákvæði 3. og 4. gr. öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda árið 2011 vegna tekna ársins 2010 og eigna í lok þess árs.
    Ákvæði 5., 9., 10. og 11. gr. öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda frá og með 1. janúar 2010.