Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 462. máls.

Þskj. 870  —  462. mál.Frumvarp til laga

um breyting á tollalögum, nr. 88/2005,
og lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)
I.     KAFLI
    Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Fram til 30. nóvember 2010 skal viðskiptaverð vöru skráð í erlendum gjaldmiðli á útflutningsskýrslu, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með síðari breytingum. Við skráningu skal miða við þann gjaldmiðil sem fram kemur á sölureikningi útflytjanda, þó ekki íslenskar krónur. Sé ekki ljóst af sölureikningi hver sé gjaldmiðill útflutningsviðskiptanna eða ef viðskiptin eru gerð í íslenskum krónum skulu viðskiptin skráð í evrum eða bandaríkjadölum á útflutningsskýrslu.

II.     KAFLI
Breyting á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með síðari breytingum.
2. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Við mat á beiðni um undanþágu skal Seðlabankinn horfa til þess hvaða afleiðingar takmarkanir á fjármagnshreyfingum hafa fyrir umsækjanda, hvaða markmið eru að baki takmörkunum og hvaða áhrif undanþága hefur á stöðugleika í gengis- og peningamálum. Synjun um undanþágu má kæra til viðskiptaráðherra.

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. skulu öll útflutningsviðskipti með vöru og þjónustu fram til 30. nóvember 2010 fara fram í erlendum gjaldmiðli.
    Fari útflutningsviðskipti fram á milli tengdra aðila skulu þau gerð á grundvelli almennra kjara og venju í viðskiptum óskyldra aðila.
    Ráðherra getur í reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um viðskipti milli tengdra aðila.
    Brot gegn ákvæði þessu varðar stjórnvaldssektum og refsingu skv. 15. gr. a – 15. gr. d, 16. gr., 16. gr. a og 16. gr. b.

III.     KAFLI
Gildistaka.
4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað binda lög þessi alla þegar við birtingu.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í kjölfar þess að ríkisstjórn Íslands leitaði til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fjárhagslega fyrirgreiðslu í október 2008 gáfu stjórnvöld út viljayfirlýsingu þar sem lýst var þeirri fyrirætlan að koma á stöðugleika á gengi íslensku krónunnar. Lögum um gjaldeyrismál var breytt með lögum nr. 134/2008, sem tóku gildi 28. nóvember 2008, þar sem Seðlabanka Íslands var fengin tímabundin heimild til að setja reglur, að fengnu samþykki viðskiptaráðherra, sem takmarka eða stöðva tímabundið tiltekna flokka fjármagnshreyfinga. Tilgangur laganna var að sporna við hættu á verulegri gengislækkun íslensku krónunnar. Talin var hætta á því að aðilar sem áttu verulegar fjárhæðir í krónum, bæði á innlánsreikningum og í verðbréfum, mundu leggja allt kapp á að selja slík bréf og kaupa gjaldeyri til að koma fjármunum sínum úr landi um leið og færi gæfist. Þar sem um verulegar fjárhæðir væri að ræða gætu slíkir fjármagnsflutningar leitt til verulegrar gengislækkunar íslensku krónunnar vegna keðjuverkandi áhrifa. Með lögunum var Seðlabankanum falið eftirlit með framkvæmd laganna og Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á þeim og reglum settum á grundvelli þeirra. Í kjölfar gildistöku laganna gaf Seðlabankinn út reglur þar að lútandi sem endurskoðaðar voru 15. desember 2008. Eitt grundvallarákvæði reglna Seðlabankans er ákvæði um skilaskyldu gjaldeyris sem felur í sér að öllum erlendum gjaldeyri, sem innlendir aðilar eignast fyrir seldar vörur og þjónustu eða á annan hátt, skuli skilað til fjármálafyrirtækis hérlendis innan tveggja vikna frá því að gjaldeyririnn komst eða gat komist í umráð eiganda eða umboðsmanns hans. Markmið með reglunum og þar með skilaskyldunni er að takmarka útflæði gjaldeyris og byggja upp gjaldeyrisforða.
    Gengi íslensku krónunnar hefur farið lækkandi síðustu vikur og eru sterkar vísbendingar um að því markmiði með skilaskyldunni að byggja upp gjaldeyrisforða vegna útflutningstekna verði ekki náð þar sem aðilar eru ekki skuldbundnir til að selja útflutningsafurðir í erlendum gjaldmiðli. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands og tollyfirvöldum eru vísbendingar um að verðmæti útfluttra vara sem greitt er fyrir með íslenskum krónum á tímabilinu janúar til mars á þessu ári sé nærri 2 milljörðum kr. hærri en á sama tíma árið 2008. Innflutningur til landsins hefur einnig dregist saman sem ætti að gefa frekari grundvöll fyrir styrkingu krónunnar. Veiking gengis gefur því vísbendingar um að einhverjir útflytjendur fái greitt fyrir vörur sínar innan lands með íslenskum krónum en að kaupandinn greiði, annaðhvort beint eða í gegnum millilið, í erlendum gjaldmiðli til aðila utan landsteinanna. Þannig er dregið mjög úr áhrifamætti gjaldeyrisreglna Seðlabankans.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á tollalögum og lögum um gjaldeyrismál sem ætlað er að tryggja að markmiði um styrkingu gengis íslensku krónunnar verði betur náð. Er lagt til að við lög um gjaldeyrismál bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kveði á um að útflutningsviðskipti vöru og þjónustu skuli fara fram í erlendum gjaldmiðli. Þá er lagt til ákvæði til bráðabirgða til breytingar á tollalögum sem felur í sér að viðskiptaverð vöru skuli skráð í erlendum gjaldmiðli á útflutningsskýrslu og enn fremur að við skráningu skuli miðað við þann gjaldmiðil sem fram kemur á sölureikningi útflytjanda, þó ekki íslenskar krónur. Lagt er til að breytingarnar verði tímabundnar, til 30. nóvember 2010, og er þá miðað við sama tímabil og áætlun Íslands um efnahagsstöðugleika vegna lánsumsóknar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum tekur til.
    Þegar heimild var veitt til takmarkana á fjármagnshreyfingum við gildistöku laga nr. 134/2008, um breytingu á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, tilkynntu íslensk stjórnvöld að gripið væri til verndarráðstafana skv. 43. gr. EES-samningsins þar sem telja mátti að takmarkanirnar gengju gegn meginreglu 40. og 41. gr. EES-samningsins um frjálst fjármagnsflæði. Ákvæði 43. gr. samningsins veitir samningsaðilum heimild til slíkra takmarkana reynist það nauðsynlegt til að bregðast við ýmiss konar erfiðleikum eða röskun á fjármagnsmarkaði viðkomandi aðildarríkis og var það mat stjórnvalda að heimildirnar féllu undir fyrrgreint ákvæði.
    Tilgangur þeirra breytinga sem frumvarpið kveður á um er að tryggja að markmið um skilaskyldu gjaldeyris náist þannig að hægt verði að byggja upp gjaldeyrisforða hér á landi. Þar sem frumvarpið felur í sér frekari þróun þeirra takmarkana á fjármagnshreyfingum sem áður höfðu verið tilkynntar í samræmi við viðeigandi ákvæði EES-samningsins munu íslensk stjórnvöld tilkynna þær með sama hætti og áður verði frumvarp þetta að lögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með greininni er lagt til að fram til 30. nóvember 2010 skuli viðskiptaverð vöru skráð í erlendum gjaldmiðli á útflutningsskýrslu. Hingað til hefur mönnum verið í sjálfsvald sett í hvaða gjaldmiðli menn eiga viðskipti. Við skráningu gjaldmiðils á útflutningsskýrslu skal þannig miða við þann gjaldmiðil sem fram kemur á sölureikningi útflytjanda en þó mega viðskipti ekki fara fram í íslenskum krónum. Í greininni er jafnframt kveðið á um það að ef ekki er ljóst af sölureikningi hver sé gjaldmiðill útflutningsviðskiptanna eða ef viðskiptin eru gerð í íslenskum krónum skuli viðskiptin skráð í evrum eða bandaríkjadölum á útflutningsskýrsluna.

Um 2. gr.


    Í ákvæðinu er fjallað um hvaða sjónarmið skuli lögð til grundvallar við veitingu undanþágu frá takmörkunum. Við meðferð Seðlabankans á undanþágubeiðnum gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Þá er lagt til að tekið verði fram að synjun um undanþágu verði kæranleg til viðskiptaráðherra. Í nefndaráliti um breytingu á lögum um gjaldeyrismál með lögum nr. 134/2008 kemur fram að synjun Seðlabankans um undanþágu sé kæranleg til viðskiptaráðherra. Þar sem Seðlabanki Íslands er sjálfstæð stofnun samkvæmt lögum þykir nauðsynlegt að taka af allan vafa um kæruheimild til viðskiptaráðherra í lögum.

Um 3. gr.


         Í 2. gr. laga um gjaldeyrismál er kveðið á um að gjaldeyrisviðskipti vegna inn- og útflutnings vöru og þjónustu skuli vera óheft. Í greininni er lagt til nýtt ákvæði til bráðabirgða um að útflutningsviðskipti með vöru og þjónustu skuli, þrátt fyrir ákvæði 2. gr., fara fram í erlendum gjaldmiðli. Til að markmiðum um styrkingu íslensku krónunnar og aukningu gjaldeyrisforða verði náð er nauðsynlegt að gera kröfu um að útflutningsviðskipti fari fram í erlendum gjaldmiðli. Að öðrum kosti geta útflytjendur komist í kringum lögin og reglurnar og þannig unnið gegn markmiðum um styrkingu gengis krónunnar og uppbyggingu gjaldeyrisforða.
    Í 2. efnismgr. er að finna ákvæði er lýtur að viðskiptum tengdra aðila. Lagt er til að ef útflutningsviðskipti fara fram milli tengdra aðila skuli þau gerð á grundvelli almennra kjara og venju í viðskiptum óskyldra aðila. Regla þessi, armslengdar regla, er þekkt í viðskiptum. Þá er í 3. efnismgr. lagt til að ráðherra verði fengin heimild til að setja nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins, m.a. um viðskipti milli tengdra aðila.
    Í 4. efnismgr. er lagt til að brot gegn ákvæðinu varði við refsiákvæði laganna.

Um 4. gr.


    Í lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað er kveðið á um að lög bindi alla frá og með deginum eftir útgáfudag þeirra Stjórnartíðinda þar sem fyrirmælin voru birt. Vegna eðlis ákvæða frumvarpsins er talið nauðsynlegt að lögin bindi alla þegar við birtingu þeirra.
    


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á tollalögum, nr. 88/2005,
og lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á tollalögum og lögum um gjaldeyrismál sem ætlað er að tryggja að markmiði um styrkingu gengis íslensku krónunnar verði betur náð. Er lagt til að við lög um gjaldeyrismál bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kveði á um að útflutningsviðskipti með vöru og þjónustu skuli fara fram í erlendum gjaldmiðli. Þá er lagt til ákvæði til bráðabirgða til breytingar á tollalögum sem felur í sér að viðskiptaverð vöru skuli skráð í erlendum gjaldmiðli á útflutningsskýrslu og enn fremur að við skráningu skuli miðað við þann gjaldmiðil sem fram kemur á sölureikningi útflytjenda, þó ekki íslenskar krónur. Lagt er til að breytingarnar verði tímabundnar, til 30. nóvember 2010, en þar er miðað við sama tímabil og áætlun Íslands um efnahagsstöðugleika vegna lánsumsóknar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum tekur til.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.