Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 145. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 873  —  145. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (einföldun reglna við samruna og skiptingu).

Frá viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá viðskiptaráðuneyti, Guðrúnu J. Jónsdóttur og Skúla Jónsson frá ríkisskattstjóra og Pál Rúnar Mikaelsson frá Félagi íslenskra stórkaupmanna. Auk þess bárust umsagnir um málið frá Samtökum verslunar og þjónustu, Félagi íslenskra stórkaupmanna, ríkisskattstjóra, Kauphöll Íslands, Samtökum fjárfesta, Viðskiptaráði Íslands, Fjármálaeftirlitinu, Ríkisendurskoðun, Félagi löggiltra endurskoðenda og Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu EES-reglna um að einfalda ákvæði um samruna og skiptingu hlutafélaga og einkahlutafélaga með því að fella niður kröfu um framlagningu skýrslu óháðs sérfræðings ef allir hluthafar eru því samþykkir. Um er að ræða innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/63/EB um breytingu á tilskipunum ráðsins 78/855/EB og 82/891/EB. Tilskipunin tekur til hlutafélaga en gert er ráð fyrir samsvarandi breytingum til einföldunar í lögum um einkahlutafélög enda ákvæði um samruna og skiptingu svipuð í lögunum.
    Við umfjöllun nefndarinnar um málið var bent á að frumvarpið, yrði það óbreytt að lögum, mundi leiða til þess að skattyfirvöldum yrði gert erfiðara fyrir við skatteftirlit. Einnig kom fram að öryggi lánardrottna þeirra félaga sem að samruna standa kynni að vera ótryggt ef skylda til að leggja fram samrunaskýrslu yrði felld niður en í 4. mgr. 122. gr. laga um hlutafélög og 4. mgr. 97. gr. laga um einkahlutafélög er kveðið á um að upplýsingar um áhrif samruna á möguleika lánardrottna á fullnustu í félögum skuli liggja fyrir. Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin til að gerð verði sú breyting á frumvarpinu að þrátt fyrir samþykki allra hluthafa um að falla frá gerð samrunaskýrslu skuli engu að síður lögð fram yfirlýsing frá endurskoðanda um að hve miklu leyti samruninn kunni að rýra möguleika lánardrottna á fullnustu í einstökum félögum. Lögð er til sams konar breyting á 6. gr. frumvarpsins sem varðar einkahlutafélög. Nefndin leggur einnig til breytingar til að lagfæra tilvísanir í aðrar greinar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Höskuldur Þórhallsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 26. mars 2009.



Álfheiður Ingadóttir,


form., frsm.


Gunnar Svavarsson.


Birgir Ármannsson.



Lúðvík Bergvinsson.


Guðfinna S. Bjarnadóttir.


Árni M. Mathiesen.



Valgerður Sverrisdóttir.


Jón Magnússon.