Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 463. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 876  —  463. mál.
Tillaga til þingsályktunarum Dýrafjarðargöng og nýjan veg um Dynjandisheiði.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson, Guðjón A. Kristjánsson.    Alþingi ályktar að Dýrafjarðargöng verði boðin út þegar á þessu ári og að lagður verði nýr vegur um Dynjandisheiði. Framkvæmdum verði að fullu lokið árið 2012.
    Heimilt er að afla lánsfjár að hluta til eða að öllu leyti til þess að standa undir kostnaði og greiða hann með jöfnum árlegum greiðslum í allt að 25 ár eftir að framkvæmdum lýkur.

Greinargerð.


    Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir að göng verði gerð á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar á árunum 2011–2014. Ríkisstjórnin lýsti því yfir árið 2007, er hún kynnti svonefndar mótvægisaðgerðir vegna minni þorskkvóta, að flýta ætti jarðgangagerðinni þannig að hægt yrði að taka göngin í notkun 2012. Undirbúningur miðast við að hægt verði að bjóða verkið út 2009 og gengur hann að vonum. Til jarðgangagerðarinnar er varið 1 milljarði kr. í viðauka við fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2007–2010 sem samþykkt var á Alþingi 29. maí 2008, 100 millj. kr. árið 2009 og 900 millj. kr. árið 2010.Verði tillagan samþykkt mun Alþingi staðfesta áform ríkisstjórnarinnar og festa þau í sessi.
    Tilgangur framkvæmdarinnar er að tryggja góðar og öruggar samgöngur á Vestfjarðavegi, nr. 60, á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Það er skilyrði þess að aðalmarkmiðið náist, þ.e. heilsársvegasamband á milli Barðastrandarsýslna og Ísafjarðarsýslna.
    Mikil snjóflóðahætta er efst á Hrafnseyrarheiði, auk mikilla snjóþyngsla. Vegurinn liggur þar í bröttum sneiðingum fyrir ofan 400 m hæðarlínuna. Önnur leið er ekki fyrir hendi og ekki talið forsvaranlegt að hafa þar vetrarveg. Augljóst er að núverandi vegur um Hrafnseyrarheiði er engan veginn viðunandi.
    Aðeins ein jarðgangaleið kemur til greina og nær vegstæðið frá Mjólká í Arnarfirði að Dýrafjarðarbrú. Í Borgarfirði, innfirði Arnarfjarðar, verður gangamunni rétt utan við Rauðstaði í 36 m hæð. Gangamunnin í Dýrafirði verður í 67 m hæð rétt utan við Bæjará. Með framkvæmdinni styttist leiðin frá Mjólká að Dýrafjarðarbrú um 27,4 km. Nýlögn vegar og uppbygging eldri vegar verður 8,1 km auk þess verða göng 5,6 km. Framkvæmdin í heild verður 13,7 km. Kostnaður er nokkuð þekktur þar sem framkvæmdin er nánast eins og Bolungavíkurgöng og má ætla að hann verði liðlega 6 milljarðar kr. á núverandi verðlagi.
    Með nýjum vegi og jarðgöngum opnast samgönguleið á milli Barðastrandasýslna og Ísafjarðarsýslna. Hér er gert ráð fyrir að vegur um Dynjandisheiði verði líka lagfærður en sú framkvæmd er á þriðja tímabili langtímaáætlunar. Vegagerðin áætlaði kostnað í ágúst 2008 ríflega 4 milljarða kr. Heildarkostnaður við bæði verkin gæti því verið nærri 11 milljarðar kr. á verðlagi nú í þessum mánuði.
    Verulegur áhugi hefur verið á því að gera göng í gegnum Dynjandisheiði í stað vegagerðar. Samkvæmt mati Vegagerðarinnar frá ágúst 2008, sem áður var getið, er kostnaður við jarðgöng frá 10–17 milljörðum kr. meiri en nýr vegur. Þessi munur er svo mikill að ekki er raunhæft að pólitísk samstaða náist um svo dýra framkvæmd á næstu árum og er því lagt til í þingsályktunartillögunni að velja nýjan veg um Dynjandisheiðina. Það er mat Vegagerðarinnar að unnt sé að byggja heilsárveg yfir Dynjandisheiðina. Hann yrði í aðalatriðum á sama stað og núverandi vegur en nýr vegur og vel upp byggður. Á einstaka stað þarf að gera sérstakar ráðstafanir til þess að leysa snjóavandamál, svo sem sérstakar fyllingar eða jafnvel yfirbyggingar. Víst er að vegurinn yrði einn af erfiðari fjallvegum landsins en engu að síður er talið að hann verði ekki erfiður ef veðurfar og snjóalög verða svipuð og síðasta áratug.
    Með auknum samgöngum má vænta að samskipti á milli svæðanna verði mun meiri, bæði atvinnulega séð og félagslega. Vegalengd á milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar er nú 173 km að sumri en að vetri þegar Hrafnsfjarðarheiðin er lokuð er hún 687 km. Þess má geta að ýmsar stofnanir sem eiga að þjóna Barðastrandarsýslu eru á Ísafirði en þjónusta þeirra er léleg vegna samgönguleysis.
    Með framkvæmdunum mundi verða greið leið allt árið frá Ísafirði til Reykjavíkur um Vestfjarðaveg og vegalengin getur farið niður í 400 km ef öll áform um styttingar á leiðinni ganga eftir. Það er því fyrirsjáanlegt að meginþungi umferðarinnar til og frá norðanverðum Vestfjörðum verði um Vestfjarðaleið þegar sú leið opnast.
    Til þess að hraða framkvæmdum og gera það kleift að ljúka þeim á þremur árum er lagt til að heimilt verði að fjármagna þær með lánsfé t.d. frá lífeyrissjóðunum og að ríkið endurgreiði lánið á nokkrum tíma, allt að 25 árum. Með þessu móti vinnst að samgöngubæturnar dragast ekki íbúunum til hagsbóta og að lífeyrissjóðirnir fá trygga og örugga ávöxtun á sparnað sjóðsfélaga.


Fylgiskjal I.


Vegagerðin:


Dýrafjörður – ArnarfjörðurHér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Jarðgöng.

Fylgiskjal II.


Hugmyndir að jarðgangaleiðum um Dynjandisheiði.
(Vegagerðin Ísafirði ágúst 2008.)
(Birt á vef Fjórðungssambands Vestfirðinga. 1 )

Inngangur.
    Á fundi Magnúsar Jóhannssonar og Gísla Eiríkssonar með samgönguhópi Fjórðungssambands Vestfjarða í Flókalundi í maí 2008 var rætt um mögulegar leiðir um og undir Dynjandisheiði. Vegagerðarmenn gerðu grein fyrir að í samgönguáætlun til 12 ára væri gert ráð fyrir vegi yfir Dynjandisheiði en ekki göngum.
    Á fundinum var farið var yfir af hverju talið er boðlegt að leggja veg yfir Dynjandisheiði
en ekki Hrafnseyrarheiði og vitnað til skoðana ýmissa reyndra vegagerðarmanna á Vestfjörðum því til stuðnings.
    Einnig var kastað fram nokkrum hugsanlegum gangaleiðum sem allar leiða til mjög langra ganga með tilheyrandi kostnaði. Hópurinn fór þó fram á að frekari grein yrði gerð fyrir þeim möguleikum.
    Farið hefur verið yfir þessar hugmyndir sem mönnum hafa hugkvæmst, teiknuð kort, lengdir áætlaðar og kostnaður metinn miðað við meðalverð.

Gangagerð, forsendur og fyrirvarar.
    Hér er einungis um að ræða hugmyndir sem teiknaðar eru á kort, mikla fyrirvara verður að hafa við svona vinnu og eru helstu atriðin rakin hér. Hugmyndir að mismunandi leiðum eru nefndar með bókstöfum A – G.
     *      Lega er ákvörðuð á korti í stórum mælikvarða með hæðarlínum á aðeins 20 m bili, þannig að nokkur óvissa er um lengdir.
     *      Engar athuganir á jarðfræði liggja fyrir.
     *      Ekki hefur verið farið að teiknuðum munnastöðum í Geirþjófsfirði og Norðdal, þannig að þar er um mikla óvissu að ræða, og enn frekar er um viðkvæmt landslag og gróður að ræða. Miðað var við um 100 m hæð á munnum í Geirþjófsfjarðarbotni.
     *      Umhverfismál kunna að hafa áhrif á ýmsa möguleika. Í Vatnsdal er friðland og Geirþjófsfirði og Norðdal einn vöxtulegasti birkiskógur á Vestfjörðum.
     *      Samkvæmt norskum jarðgangastaðli, sem notaður er á Íslandi, er nú nánast bannað að hafa vegamót í göngum. Til þess liggja öryggisástæður.
     *      Mjög löng göng eru erfið frá öryggissjónarmiði.
     *      Í sumum möguleikanna er gert ráð fyrir vegi á milli Trostansfjarðar og Vatnsfjarðar um Helluskarð, hæð 468 m y.s. Þeim fjallvegi má líkja við fjallvegina við Patreksfjörð, Kleifaheiði 410 m.y.s., Miklidalur 390 m.y.s., Hálfdán 500 m.y.s. Vetrarumferð um þá hefur gengið allvel undanfarinn áratug.

Dynjandisheiði.
    Vegurinn sem kenndur er við Dynjandisheiði er langur fjallvegur, og fer hann tvisvar upp í 500 m hæð og einu sinni að auki í 468 m hæð. Í heild er heiðin talin fremur snjólétt miðað við Vestfirskar heiðar og landslag er víða flatt þannig að hægt er að byggja veg upp úr snjó. Á einstökum stöðum koma þó stórar fannir, auðvelt er að fara fram hjá flestum en nokkrar geta verið erfiðar. Hvergi er snjóflóðahætta uppi á heiðinni en einn staður er þekktur í Dynjandisdal. Víðar geta líklega komið smáspíur.
    Aðstæður eru allt öðru vísi en á Hrafnseyrarheiði, svo ekki sé minnst á Breiðadalsheiði.
Þar hagar þannig til að efst í heiðunum eru brattir sneiðingar, mjög snjóþungir með mikilli snjóflóðahættu. Dynjandisheiði hefur verið lokuð á vetrum hingað til fyrst og fremst vegna Hrafnseyrarheiðar og svo er einnig um 50 ára gamlan veg að ræða sem ekki var hugsaður sem vetrarvegur og þolir illa snjómokstur.
    Vegagerðarmenn sem fylgst hafa með Dynjandisheiði og hafa samanburð af öðrum heiðum telja að nýr vegur yfir hana verði vel nothæfur. Ljóst er samt að um er að ræða einn af erfiðari fjallvegum landsins, í flokki með Steingrímsfjarðarheiði og Öxnadalsheiði svo einhverjar séu nefndar. Veðurfar og snjóalög hefur verið mjög misjafnt síðustu áratugi, en ef framhaldið verður svipað og síðasti áratugur, en því er í raun spáð, þá mun vegur yfir heiðina ekki verða erfiður.
    Nýr vegur um Dynjandisheiði er í aðalatriðum áætlaður á sama stað og núverandi vegur.
Þó yrði um að ræða alveg nýjan veg vel upp byggðan. Rétt er að gera ráð fyrir að á einstökum stöðum muni hefðbundin vegagerð ekki leysa snjóavandamál og þar sé hægt að gera sérstakar ráðstafanir, hugsanlegt er að gera mjög stórar fyllingar eða jafnvel yfirbyggingar á slíkum stöðum. Í kostnaðarmati er því settur fram kostnaður við sérstakar aðgerðir án þess að þær hafi verið skilgreindar.

Neðansjávargöng.
    Borist hafði hugmynd um neðansjávargöng frá Langanesi til Bíldudals. Sú hugmynd er teiknuð hér upp með hinum hugmyndunum. Neðansjávargöng eru mun erfiðari og dýrari í framkvæmd og rekstri, en þau sem eru ofansjávar. Engar upplýsingar liggja fyrir um berggrunn í firðinum eða aðstæður á annan hátt þannig að það er mikið álitamál hvort setja eigi fram slíkan uppdrátt. Kostnaðarmat liggur ekki fyrir.

Umferð.
    Umferð um Dynjandisheiði var 2006 um 60 bílar á dag ADU en 95 bílar á dag SDU. Umferðarmynstur á Vestfjörðum mun breytast mikið með gerð ganga á milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, nýjum vegi yfir Dynjandisheiði og öðrum þeim framkvæmdum á Vestfjarðavegi sem áætlaðar eru á næstu árum. Við slíkar aðstæður er mikil óvissa um hver umferðin verður, en gert er ráð fyrir um 200 bílum á dag ÁDU um Dynjandisheiði.

Vegalengdir og kostnaður.
    Vegalendir á milli staða hafa verið metnar sjá töflu 1. Á uppdráttum eru mismunandi leiðir A – G skilgreindar.

Tafla 1. Vegalengdir miðað við leiðir A – F.
    Tekið er tillit til styttingar vegna Dýrafjarðarganga og leiðar B í Gufudalssveit. Um göngin eru fjarlægðir reiknaðar á milli vegamóta í Dynjandisvogi VM1, Trostansfirði VM2 og Vatnsfirði VM3. Einnig eru notuð vegamótin við Bíldudal og Patreksfjörð en ekki miðbærinn. Þetta er gert til hægðarauka en breytir ekki niðurstöðunni til skaða.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Kostnaðarmat er gert einungis út frá lengdum á göngum og vegum sem þarf að leggja á milli vegamótanna sem miðað er við. Þetta eru einungis samanburðartölur og miðað við verðlag í ágúst 2008. Það eina sem skiptir verulegu máli um samanburð möguleika er lengd ganga. Varðandi veg yfir Dynjandisheiði á núverandi leið er settur kostnaður vegna sérstakra aðgerða, til dæmis yfirbygginga á stuttum köflum.

Tafla 2. Kostnaðarmat við leiðir A – F, ágúst 2008.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Miðað við leið G, það er að segja göng frá Langanesi að Bíldudal yrðu nokkrar vegalengdir sem hér segir:
    Bíldudalur – Þingeyri 49 km
    Bíldudalur – Ísafjörður 81 km
    Patreksfjörður Ísafjörður 110
    Ísafjörður Reykjavík 497 km ( miðað við að farið sé um Barðaströnd veg 62).

Niðurlag.
    Það er mat Vegagerðarinnar að unnt sé að byggja heilsársveg yfir Dynjandisheiði, og við það hefur verið miðað í langtímaáætlunum. Áætlaður kostnaður er um 4 milljarðar. Vegurinn yrði þó með erfiðari fjallvegum landsins, í flokki með t.d. Steingrímsfjarðarheiði og Öxnadalsheiði. Stystu, raunhæfu jarðgöng undir Dynjandisheiði yrðu líklega um 12 km löng og heildarkostnaður yfir 14 milljarðar kr.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Neðanmálsgrein: 1
1     www.fjordungssamband.is/fv/upload/files/fjordungsthing53/dynjandisheidendursk.pdf