Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 462. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 877  —  462. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, og lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 31. mars.)



I. KAFLI

Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.

1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Fram til 30. nóvember 2010 skal viðskiptaverð vöru skráð í erlendum gjaldmiðli á útflutningsskýrslu, sbr. ákvæði til bráðabirgða II í lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með síðari breytingum. Við skráningu skal miða við þann gjaldmiðil sem fram kemur á sölureikningi útflytjanda, þó ekki íslenskar krónur. Sé ekki ljóst af sölureikningi hver sé gjaldmiðill viðskiptanna skulu þau skráð í evrum eða bandaríkjadölum á útflutningsskýrslu.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með síðari breytingum.
2. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Við mat á beiðni um undanþágu skal Seðlabankinn horfa til þess hvaða afleiðingar takmarkanir á fjármagnshreyfingum hafa fyrir umsækjanda, hvaða markmið eru að baki takmörkunum og hvaða áhrif undanþága hefur á stöðugleika í gengis- og peningamálum. Synjun um undanþágu má kæra til viðskiptaráðherra.

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. skulu greiðslur vegna útflutnings vöru og þjónustu fram til 30. nóvember 2010 fara fram í erlendum gjaldmiðli.
    Fari útflutningsviðskipti fram á milli tengdra aðila skulu þau gerð á grundvelli almennra kjara og venju í viðskiptum óskyldra aðila.
    Ráðherra getur í reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um viðskipti milli tengdra aðila. Þá er ráðherra heimilt að mæla fyrir um skyldu aðila til að skila, með reglubundnum hætti, skýrslu um útflutningsviðskipti, um ráðstöfun söluandvirðis og um önnur atriði er lúta að útflutningi.
    Brot gegn ákvæði þessu varðar stjórnvaldssektum og refsingu skv. 15. gr. a – 15. gr. d, 16. gr., 16. gr. a og 16. gr. b.

III.     KAFLI
Gildistaka.
4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað binda lög þessi alla þegar við birtingu.