Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 205. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 896  —  205. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar um EES-samninginn.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er áætlaður samanlagður ávinningur þjóðarbúsins af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið mældur í fjárhæðum og sem hlutfall af landsframleiðslu?
     2.      Hver hafa áætluð áhrif samningsins verið á atvinnustig, kaupmáttarþróun og tekjur hins opinbera?
     3.      Hver hefur sérstaklega verið áætlaður ávinningur af samningnum vegna ákvæða hans um frjálsa fjármagnsflutninga?


    Rétt er að taka fram að hvorki almenn né sértæk hagfræðileg úttekt hefur verið gerð á efnahagslegum áhrifum EES-samningsins. Slík úttekt krefðist verulegs tíma og fjármuna að framkvæma. Í þessu ljósi er það vandkvæðum bundið að greina á milli almennra áhrifa opnunar markaða og sértækra áhrifa EES-samningsins eða annarrar efnahagslegrar þróunar á þeim tíma sem EES-samningurinn hefur verið í gildi.
     1.      Í samræmi við framangreint er ekki unnt að svara spurningunni með beinum tölum. EES- samningurinn fól í sér umtalsverða opnun fyrir viðskipti við mikilvægasta markað Íslands samanborið við það sem áður var. Fram að gildistöku EES-samningsins hafði verið í gildi fríverslunarsamningur ESB og Íslands sem fól í sér tilslakanir í tollum af hálfu ESB að því er varðar vöruviðskipti, þ.m.t. sjávarafurðir. EES-samningurinn tryggði hins vegar enn frekari opnanir í því efni og afnam t.d. allt heilbrigðiseftirlit á landamærum ESB gagnvart sjávarafurðum sem skapaði forsendur fyrir útflutningi á verðmætari vörum. Auk þessa komst á fullt frelsi í þjónustuviðskiptum auk frjálsra fjármagnsflutninga og fjárfestinga (fyrir utan fjárfestingar í sjávarútvegi). Þessi opnun skapaði ný tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki til að auka vöruútflutning til ESB auk þess að efla útflutning til dæmis þjónustu og auka fjárfestingu. Þannig má segja að sú opnun sem EES-samningurinn var hafi skapað tækifæri og ávinning fyrir íslenskt atvinnulíf.
     2.      Hinu sama gegnir hér og fyrr að sértæk úttekt hefur ekki farið fram á þessu atriði. Hins vegar má benda á að atvinnustig hefur verið tiltölulega jafnt og jákvætt allan gildistíma EES-samningsins auk þess sem lengst af hefur þróun kaupmáttar verið hagfelld. Tekjur hins opinbera hafa á tímabilinu vaxið í takt við aukinn kaupmátt og sterkt atvinnu- og efnahagslíf; aukin viðskipti skiluðu sér í almennri velmegun og auknum útflutningi vöru og þjónustu.
     3.      Um áratuga skeið var það lífsnauðsynlegt fyrir lykilfyrirtæki í íslensku efnahagslífi að geta fjármagnað sig með erlendu lánsfé. Með EES-samningnum var slík fjármögnun gefin frjáls þar sem óheimilt varð að takmarka rétt einstaklinga og lögaðila til að afla fjármagns á evrópskum fjármagnsmörkuðum. Hinu sama gegndi um flutning fjármagns frá Íslandi til landa á EES-svæðinu. Þessi aðstaða skapaði aukin tækifæri í fjármögnun atvinnulífsins til fjárfestinga og uppbyggingar. Auk þess skapaði þessi aðstaða forsendur fyrir samkeppni á íslenskum fjármálamarkaði.