Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 93. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 907  —  93. mál.




Nefndarálit



um frv. til. l. um breyt. á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og bárust umsagnir frá Sveitarfélaginu Álftanesi, Mosfellsbæ, skipulags- og byggingarsviði Hafnarfjarðarbæjar, Strætó bs., Umferðarstofu, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Landssamtökum hjólreiðamanna, Reykjavíkurborg, ríkissaksóknara, samgönguráðuneyti, Snæland Grímsson Travel, Samtökum ferðaþjónustunnar og Leið ehf.
    Tilgangur frumvarpsins er að skilgreina svokallaðar forgangsakreinar í umferðarlögum og kveða þannig skýrt á um að umferð annarra ökutækja en strætisvagna og leigubifreiða um ákveðnar, sérmerktar akreinar sé með öllu óheimill. Töluvert hefur á því borið að ekki hefur verið tekið tillit til merktra akreina sem sérstaklega eru ætlaðar strætisvögnum og leigubifreiðum. Ekki er kveðið afdráttarlaust á um sérreinar af þessu tagi í umferðarlögum og er með frumvarpi þessu því ætlunin að taka af öll tvímæli um hverjum heimilað er að aka á áðurnefndum sérreinum. Brot gegn þeim reglum muni eftirleiðis varða sektum, sbr. 4. mgr. 100. gr. Ráðstöfun þessi er til þess fallin að efla almenningssamgöngur og gera þær að raunhæfum valkosti í framtíðinni.
    Nefndin vekur athygli á þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið í umsögnum og varða hugtakanotkunina „forgangsakrein“ en þykir hún óheppileg þar sem hætta getur verið á ruglingi vegna annars vegar forgangsakstursheimilda lögreglu, sjúkraliðs, slökkviliðs og slíkra viðbúnaðaraðila og hins vegar samræmist þessi notkun hugtaksins „forgangur“ illa skilningi 25. gr. umferðarlaga um skyldu til að veita forgang en þar er hugtakið notað um það hvenær einn skal víkja fyrir öðrum í umferðinni þegar aksturslínur skerast.
    Í ljósi þessa leggur nefndin til að á frumvarpinu verði gerðar breytingar til að koma til móts við þessi sjónarmið. Í breytingunni felst að í stað þess að nota hugtakið „forgangsakrein“ til skilgreiningar á akreinum sem einungis eru ætlaðar fyrir umferð strætisvagna og leigubifreiða verður notast við skilgreininguna „sérrein fyrir strætisvagna og leigubifreiðar“.
    Nefndin leggur áherslu á mikilvægi þess að lögbinda reglur um sérreinar fyrir strætisvagna og leigubifreiðar sem fyrst til að kveðið verði skýrt á um að umferð annarra ökutækja um þessar akreinar sé óheimil. Fyrir liggur að umferðarlögin hafa verið í heildarendurskoðun hjá samgönguráðuneyti síðan í byrjun árs 2008. Leggur nefndin til að í þeirri endurskoðun verði þau atriði sem þetta frumvarp tekur á vandlega yfirfarin með hliðsjón af reynslunni.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Við 1. gr. Í stað orðskýringarinnar „Forgangsakrein“ komi: Sérrein fyrir strætisvagna og leigubifreiðar.
     2.      Við 2. gr. Í stað orðanna „forgangsakreinar strætisvagna og leigubifreiða“ komi: sérreinar fyrir strætisvagna og leigubifreiðar.

    Karl V. Matthíasson og Árni Þór Sigurðsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. apríl 2009.



Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


form., frsm.


Björgvin G. Sigurðsson.


Sturla Böðvarsson.



Árni Johnsen.


Helga Sigrún Harðardóttir.


Guðjón A. Kristjánsson.



Ragnheiður Ríkharðsdóttir.