Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 370. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 921  —  370. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um hagsmuni Íslands í loftslagsmálum.

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Árna Finnsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Bryndísi Skúladóttur frá Samtökum iðnaðarins og Árna Þ. Guðnason og Þorstein Valdimarsson frá Breytendum – ungliðahreyfingu Hjálparstarfs kirkjunnar. Þá bárust umsagnir frá Samtökum atvinnulífsins, Landbúnaðarháskóla Íslands, Landsvirkjun, Orkustofnun, HS Orku hf., Norðurorku, Náttúrufræðistofnun Íslands, Skógrækt ríkisins, Landssambandi smábátaeigenda, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Alcoa Fjarðaáli sf., Alcoa á Íslandi ehf., Alcan á Íslandi hf., Raunvísindadeild Háskóla Íslands, Félagi umhverfisfræðinga á Íslandi, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Skógræktarfélagi Íslands og Breytendum – ungliðahreyfingu Hjálparstarfs kirkjunnar.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi feli ríkisstjórninni að gæta ýtrustu hagsmuna Íslands í samningaviðræðum sem nú fara fram á vegum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Sérstaklega skuli ríkisstjórnin tryggja að efni og tilgangur ákvörðunar 7. aðildarríkjaþings rammasamningsins nr. 14/CP.7 um áhrif einstakra verkefna á útstreymi á skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar haldi gildi sínu við samningsgerðina. Ákvörðunin hefur verið kölluð íslenska ákvæðið og heimilar útstreymi allt að 1,6 milljónum tonna af gróðurhúsalofttegundinni CO 2 að meðaltali á ári út skuldbindingartímabilið sem er til 2012.
    Íslenska ákvæðið fellur niður árið 2012 verði ekki samið um áframhald þess. Verði það raunin mun Ísland aðeins hafa útstreymisheimildir sem svara 3,7 milljónum tonna en leiða má líkum að því að útstreymi Íslands verði þó meira á þeim tíma. Meiri hlutinn telur því nauðsynlegt að leitað verði nýs samkomulags sem endurspegli áætlað útstreymi svo að þau fyrirtæki sem hyggist nýta orku sem þegar verði hafin nýting á þurfi ekki að afla útstreymisheimilda erlendis frá. Það getur jafnframt haft í för með sér að stoðum verði kippt undan rekstrargrundvelli íslenskra orkufyrirtækja gangi erfiðlega að afla slíkra heimilda eða reynist þær dýrar. Meiri hlutinn telur óeðlilegt að atvinnulífi séu settar svo strangar skorður þegar hægt er að beita vægari úrræðum og vinna að því að gildistími ákvæðisins verði framlengdur út næsta tímabil hið minnsta. Þá sé jafnframt nauðsynlegt að hafa í huga vinnumarkaðssjónarmið enda mörg störf sem gætu tapast í kjölfar þess að fyrirtæki hér dragi eða hætti starfsemi. Þannig verði svigrúm Íslands til frekari nýtingar sjálfbærra orkuauðlinda á grundvelli „íslenska ákvæðisins“ viðurkennt.
    Á Íslandi byggist atvinnurekstur á bestu fáanlegu tækni í umhverfismálum þar sem orkuöflun er frá endurnýjanlegum orkulindum. Hér er til þekking, kunnátta og aðstaða til bestu mögulegrar nýtingar auk þess sem hér hafa verið stundaðar rannsóknir á þessu sviði. Markmið loftslagssamningsins er að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og því áréttar meiri hlutinn að framlenging íslenska ákvæðisins sé í fullu samræmi við þau markmið enda sé það til góðs fyrir loftslagskerfi heimsins að nýta endurnýjanlega orkugjafa á sem hagkvæmastan hátt. Þá er útstreymisheimildum m.a. ætlað að hvetja önnur ríki til að nýta þessar orkulindir fremur umfram aðra meira mengandi orkugjafa. Meiri hlutinn áréttar jafnframt að íslenska ákvæðið hefur notið stuðnings alþjóðasamfélagsins enda mikill skilningur á því að nýta beri endurnýjanlegar orkulindir.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:



    Við tillögugreinina bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Svigrúm Íslands til frekari nýtingar sjálfbærra orkuauðlinda á grundvelli „íslenska ákvæðisins“ verði viðurkennt.

    Karl V. Matthíasson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 6. apríl 2009.



Árni M. Mathiesen,


frsm.


Kjartan Ólafsson.


Kristinn H. Gunnarsson.



Helga Sigrún Harðardóttir.


Ólöf Nordal.