Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 366. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 922  —  366. mál.
Framhaldsnefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.    Málinu var vísað til nefndarinnar að lokinni 2. umræðu og hefur nefndin fjallað um málið á ný og fengið á sinn fund Indriða H. Þorláksson og Ingibjörgu Helgu Helgadóttur frá fjármálaráðuneyti, Kristján Skarphéðinsson frá iðnaðarráðuneyti, Ingvar J. Rögnvaldsson og Guðrúnu Jennýju Jónsdóttur frá ríkisskattstjóra, Bryndísi Kristjánsdóttur frá skattrannsóknarstjóra ríkisins, Finn Oddson og Harald I. Birgisson frá Viðskiptaráði, Ásgeir Margeirsson frá Geysi Green Energy, Stefán Pétursson frá Landsvirkjun, Elínu Smáradóttr frá Orkuveitu Reykjavíkur, Ásgeir Á. Ragnarsson og Áslaugu Gunnlaugsdóttur frá BBA-Legal, Gunnar Egil Egilsson og Völu Valtýsdóttur frá Deloitte hf. og Símon Þór Jónsson og Ágúst K. Guðmundsson frá KPMG hf.
    Nefndin ræddi nánar um 1. gr. frumvarpsins um skattlagningu vaxtagreiðslna úr landi og áhrif hennar á íslenskt viðskiptalíf í ljósi ríkjandi efnahagsaðstæðna. Skiptar skoðanir komu fram um þetta atriði.
    Fulltrúar fjármálaráðuneytis áréttuðu að tilgangur ákvæðisins lyti ekki einvörðungu að því að koma í veg fyrir skattasniðgöngu heldur jafnframt að tryggja íslenska ríkinu eðlilega hlutdeild í verðmætasköpun hér á landi. Gætt hefði vaxandi tilhneigingar til að færa hagnað úr fyrirtækjum á formi vaxtatekna í stað arðgreiðslna sem almennt sæta skattlagningu. Einnig væri fyrirsjáanlegt við núverandi aðstæður í efnahagsmálum að vaxtagreiðslur úr landi færðust í aukana.
    Öndvert við það sem nefndin tók fram í áliti sínu fyrir 2. umræðu málsins töldu Viðskiptaráð og fulltrúar þeirra orkufyrirtækja og endurskoðunarskrifstofa sem nefndin ræddi við að ákvæði tvísköttunarsamninga mundu í mörgum tilvikum ekki girða fyrir að skatturinn legðist á hinn erlenda lánveitanda, skattbyrði sem á endanum yrði borin af innlendum lántaka. Lánsfjármagns væri þar að auki víðar að leita en í ríkjum sem gerðir hafa verið tvísköttunarsamningar við.
    Nefndin telur að framangreindar athugasemdir gefi tilefni til að skoða betur hver áhrif 1. gr. frumvarpsins geti haft á aðgang íslenskra fyrirtækja að erlendu lánsfé.
    Nefndin leggur áherslu á að þegar að loknum næstu kosningum verði, með hliðsjón af tilgangi greinarinnar, haldið áfram að leita leiða sem tryggt geta íslenska ríkinu eðlilega hlutdeild í vaxtagreiðslum úr landi.
    Nefndin ræddi hvort fresta ætti gildistöku greinarinnar eða fella hana brott. Nefndin telur í ljósi núverandi efnahagaðstæðna að fyrrnefndi kosturinn geti raskað möguleikum íslenskra fyrirtækja til fjármögnunar og leggur því til að 1. gr. falli brott ásamt tengdum greinum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      1., 4., 5. og 9.–11. gr. falli brott.
     2.      12. gr. orðist svo:
             Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 2. gr. koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda árið 2011 vegna tekna ársins 2010 og eigna í lok þess árs.
     3.      Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt.

    Grétar Mar Jónsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur álitinu.

Alþingi, 6. apríl 2009.Björgvin G. Sigurðsson,


form., frsm.


Pétur H. Blöndal.


Ellert B. Schram.Gunnar Svavarsson.


Árni Þór Sigurðsson.


Ragnheiður E. Árnadóttir.Jón Bjarnason.


Birkir J. Jónsson.


Illugi Gunnarsson.