Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 253. máls.

Þskj. 925  —  253. mál.



Skýrsla

viðskiptaráðherra um peningamarkaðs- og
skammtímasjóði, samkvæmt beiðni.

(Lögð fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




    Með beiðni (á þskj. 407) frá Kristni H. Gunnarssyni og fleiri alþingismönnum er þess óskað að viðaskiptaráðherra flytji Alþingi skýrslu um peningamarkaðs- og skammtímasjóði. Meðal þess sem óskað er eftir að fram komi í skýrslunni er eftirfarandi:
     1.      Reglur sem giltu um peningamarkaðs- og skammtímasjóði fyrir hrun bankanna og þar til þeir voru gerðir upp.
     2.      Fjárfestingarstefna sjóðanna, hvort henni hafi verið fylgt og hversu oft og hvernig henni hafi verið breytt síðustu 18 mánuði fyrir lokun sjóðanna í október sl., t.d. er óskað eftir:
                  a.      yfirliti yfir breytingar á eignasamsetningu í sjóðunum á fyrrgreindu tímabili,
                  b.      skýringum á hvernig verðmyndun hafi verið framkvæmd á verðbréfum í sjóðunum, þ.m.t. bréfum sem ekki voru skráð á opinberan markað eða með félög sem menn vissu eða máttu vita að voru í vanda stödd,
                  c.      upplýsingum um hvernig breytingar á fjárfestingarstefnu sjóðanna voru kynntar, t.d. til Fjármálaeftirlitsins, hlutdeildarskírteinishafa, eða í Lögbirtingablaði og hvort Fjármálaeftirlitið hafi samþykkt þær breytingar.
     3.      Hvort rekstraraðilar eða eigendur þeirra hafi átt hagsmuna að gæta við stjórn hinna tilgreindu sjóða í aðdraganda bankahrunsins og þar til þeir voru gerðir upp. Í því sambandi verði m.a. gerð grein fyrir:
                  a.      hverjir voru og eru eigendur þeirra sjóða sem spurt er um og hver var eignarhlutur þeirra,
                  b.      hvort sjóðirnir hafi verið notaðir með einhverjum hætti til þess að halda uppi gengi hlutabréfa, t.d. með kaupum á skuldabréfum útgefnum af bönkunum sjálfum og aðilum og félögum tengdum eigendum bankanna,
                  c.      hvort verulegar breytingar hafi orðið á eignasamsetningu sjóðanna frá 1. janúar 2008 og til slita þeirra,
                  d.      hvort fullyrðingar um áhættustig (áhættuleysi) við kynningu og sölu sjóðanna á bréfum sínum hafi staðist,
                  e.      hugsanlegum fyrirmælum sjóðsstýringar, bankastjórnar, bankastjóra eða annarra hagsmunaaðila innan bankanna um að selja eignir sjóðanna: svo sem skuldabréf, hlutabréf, bankabréf og önnur verðbréf, innstæður hvers konar og önnur verðmæti í eigu peningamarkaðs- og skammtímasjóða,
                  f.      sjóðsstjórum og stjórnum sjóðanna, aðalmönnum og varamönnum, við lokun sjóðanna og tilgreint hvaða stöðum þessir aðilar gegndu jafnhliða því að sitja í stjórnum sjóðanna og hvaða stöðum viðkomandi gegna nú.
     4.      Hvort einhver óeðlileg viðskipti hafi átt sér stað með bréf í tilgreindum sjóðum eða með eignir sem þeir fóru með síðustu 18 mánuði fyrir lokun sjóðanna, þ.m.t.:
                  a.      hvort tryggari kröfur í sjóðunum hafi verið seldar fyrir ótryggari kröfur,
                  b.      hvort viðskipti hafi átt sér stað við aðila sem tengjast bönkunum, þ.e. nákomna í skilningi 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., og ef svo er hverjir þessir tengdu aðilar eru.
     5.      Samsetning hlutdeildarskírteinishafa tilgreindra peningamarkaðssjóða í aðdraganda bankahrunsins þar til þeir voru gerðir upp og hvernig hlutur þeirra skiptist, t.d.:
                  a.      hversu margir einstaklingar og lögaðilar, þ.e. lífeyrissjóðir, sveitarfélög, stofnanir og félög í eigu ríkisins, tryggingafélög, einkahlutafélög, önnur félög o.s.frv., áttu eignir í peningamarkaðs- og skammtímasjóðum Glitnis, Landsbanka Íslands og Kaupþings þegar Fjármálaeftirlitið f.h. ríkissjóðs tók yfir rekstur þeirra í byrjun október sl.,
                  b.      um hversu miklar eignir var að ræða, sundurliðað eftir fjölda hlutdeildarskírteinishafa í peningamarkaðssjóðum í hverjum banka fyrir sig og fjölda þeirra sem áttu innstæður á bilinu 0–5 millj. kr., 5–10 millj. kr., 10–50 millj. kr., 50–100 millj. kr., 100–500 millj. kr., 500–1.000 millj. kr. og meira en 1.000 millj. kr.,
                  c.      hver samanlögð eign var í hverjum banka og sjóði 19. júlí 2007, 16. október 2007, 1. janúar 2008, 1. júlí 2008 og 6. október 2008, hver var hæsta innstæða í hverjum banka og sjóði, og hve mikið var tekið út úr þeim síðustu vikuna fyrir yfirtöku ríkisins á bönkunum,
                  d.      að auki er óskað eftir upplýsingum um hvort til eru upptökur af símtölum sjóðsstjóra og/eða þjónustufulltrúa viðkomandi sjóða, rekstrarfélaga þeirra, eða banka við hlutdeildarskírteinishafa síðustu vikuna fyrir bankahrunið, og ef svo er ekki hver skýringin er.
     6.      Ákvarðanir stjórnvalda og stjórnenda bankanna, gömlu og nýju, til að endurfjármagna peningamarkaðs- og skammtímasjóðina og aðdraganda þessara ákvarðana. M.a. er óskað upplýsinga um:
                  a.      hver aðkoma ríkisstjórnarinnar, ráðherra og embættismanna ráðuneytanna og stjórnkerfisins, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka var í þessari atburðarás,
                  b.      á hverju sú ákvörðun Fjármálaeftirlitsins byggðist að láta loka öllum verðbréfasjóðum bankanna 6. október sl. og á hverju tilmæli Fjármálaeftirlitsins byggðust um að þeim skyldi slitið 17. október sl. og greitt úr þeim,
                  c.      hvort gömlu og nýju bankarnir, bankastjórar, bankastjórnir, bankaráð, bráðabirgðastjórnir/skilanefndir bankanna, sjóðsstjórnir og sjóðsstjórar hafi haft umboð og heimild stjórnvalda til að taka svo stórar ákvarðanir. Óskað er eftir að viðkomandi fundargerðir á tímabilinu þar sem fjallað er um kaup á skuldabréfum, hlutabréfum, bankabréfum og öðrum verðbréfum, innstæðum hvers konar og öðrum verðmætum í eigu peningamarkaðs- og skammtímasjóða verði birtar sem viðaukar við skýrsluna,
                  d.      hvort keypt voru bankabréf, útgefin af Landsbankanum, Kaupþingi eða Glitni, og hvert var verðmat þeirra við kaupin,
                  e.      hvort stjórnendur peningamarkaðssjóðanna hafi leitað bestu verða við sölu á eignum sjóðanna, skuldabréfum, hlutabréfum, bankabréfum og öðrum verðbréfum, innstæðum hvers konar og öðrum verðmætum, hvort kaupendur hafi leitað að bestu verðum á markaðnum við kaup á þessum eignum, hver keypti og hver er nú eigandi eignanna,
                  f.      hvernig þess var gætt að ákvæðum stjórnarskrár um fjárveitingarvald Alþingis væri fylgt.
     7.      Hversu miklu af skattfé ríkisins var ráðstafað, með beinum eða óbeinum hætti, til að endurfjármagna peningamarkaðssjóðina í aðdraganda og í kjölfar bankahrunsins og hvort annars konar fjárhagslegri fyrirgreiðslu var beitt, þ.m.t.:
                  a.      hversu mikið fé ríkissjóður hefur lagt til í þeim tilgangi að styrkja stofnfjár- og eiginfjárstöðu bankanna,
                  b.      hversu miklum fjármunum nýju ríkisbankarnir hafa, hver um sig, varið til kaupa á eignum peningamarkaðssjóðanna,
                  c.      hvernig kaup á eignum sjóðanna voru fjármögnuð.
     8.      Hvort gætt hafi verið jafnræðis við uppgjör tilgreindra peningamarkaðs- og skammtímasjóða annars vegar gagnvart eigendum verðbréfa í öðrum sjóðum í þessum þremur bönkum eða öðrum bönkum og sparisjóðum og hins vegar gagnvart fjármálastofnunum sem ekki áttu hlut að máli, þ.m.t.:
                  a.      hvort reglur um sjálfstæði og óhæði hafi verið virtar að vettugi þar sem bankarnir keyptu nær eingöngu eignir í „sínum“ sjóðum,
                  b.      mati á hvort ekki hefði verið eðlilegra að ríkisbankarnir þrír hefðu gætt jafnræðis og keypt eignir út úr öllum peningamarkaðssjóðum innlendra fjármálastofnana.
                  c.      hvað sambærileg fyrirgreiðsla mundi kosta ríkissjóð / nýstofnaða ríkisbanka, þ.e. að kaupa út bréf í peningamarkaðssjóðum smærri fjármálafyrirtækja.
     9.      Hvernig staðið var að slitum og uppgjöri tilgreindra peningamarkaðssjóða af hálfu fulltrúa ríkisvaldsins, á hvaða aðferðafræði var byggt og hvort samræmis hafi verið gætt. M.a. verði greint frá:
                  a.      eignaverðmæti þeirra eigna sem standa/stóðu á bak við sjóðina, svo sem skuldabréfa, hlutabréfa, bankabréfa og annarra verðbréfa, innstæða hvers konar og annarra verðmæta í eigu peningamarkaðs- og skammtímasjóða,
                  b.      hvort um var að ræða bréf eða aðra fjármálagerninga frá tæknilega gjaldþrota fyrirtækjum, t.d. Stoðum,
                  c.      hvort kaup á eignum peningamarkaðs- og skammtímasjóðanna hafi verið tilkynnt til Fjármálaeftirlitsins og Kauphallarinnar,
                  d.      hvort rétt hafi verið staðið að slitum og uppgjöri sjóðanna og í samræmi við góða reikningsskilavenju,
                  e.      hversu hátt hlutfall var greitt úr hverjum sjóði og hverjar voru tíu hæstu greiðslur sem greiddar voru til einstaklings eða lögaðila,
                  f.      hverjar svonefndar viðskiptalegar forsendur nýju ríkisbankanna, hvers um sig, voru fyrir kaupum á eignum af peningamarkaðs- og skammtímasjóðum gömlu bankanna þriggja, svo sem skuldabréfum, hlutabréfum, bankabréfum og öðrum verðbréfum, innstæðum hvers konar og öðrum verðmætum? Óskað er eftir að sjálfstætt mat matsfyrirtækja um verðgildi eignanna og greinargerð þeirra til bankanna verði birt sem viðauki skýrslunnar,
                  g.      hvernig stendur á þeim mun sem var á útgreiðslu úr peningamarkaðs- og skammtímasjóðum viðskiptabankanna annars vegar og hins vegar úr peningamarkaðssjóði BYR sem var nær 96% hlutfalli innstæðna,
                  h.      hvort við kaup á skuldabréfum út úr þessum sjóðum og greiðslu á þeim hafi verið borgað raunvirði og hvort jafnvel sé eftir að borga hluta af þeim peningum síðar,
                  i.      að auki er óskað eftir að ársreikningar peningamarkaðs- og skammtímasjóða í rekstri bankanna og félaga þeirra, svo sem Glitnis sjóða hf. í rekstri Glitnis banka, Landsvaka hf. í rekstri Landsbankans, og Rekstrarfélag Kaupþings Banka hf. í rekstri Kaupþings banka, fyrir síðustu fimm ár verði lagðir fram sem viðaukar við skýrsluna.
     10.      Tillögur til úrbóta.

    Samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, er Fjármálaeftirlitinu falin framkvæmd með þeim lögum. Stofnunin heyrir formlega undir viðskiptaráðuneytið en viðskiptaráðherra skipar stofnuninni stjórn.
    Af sjálfu sér leiðir að engin söfnun upplýsinga um starfsemi eftirlitsskyldra aðila fer fram í viðskiptaráðuneytinu. Þá er ekki um að ræða neina skýrslugjöf til ráðuneytisins frá eftirlitsskyldum aðilum.
    Fjármálaeftirlitið gefur viðskiptaráðherra skýrslu árlega. Sú venja hefur skapast að skýrslan hefur fylgt sem fylgiskjal með frumvarpi til laga um breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi sem lagt hefur verið fram á hverju hausti.
    Ráðuneytið ritaði fjórum aðilum í stjórnkerfinu bréf og óskaði eftir að þeir legðu til efni í svör þess. Þessir aðilar eru Nasdaq OMX Ísland, um c-lið 9. tölul., Seðlabanki Íslands, um 6. tölul., fjármálaráðuneytið, um a-, c- og f-lið 6. tölul., 7. tölul., b- og c-lið 8. tölul. og 9. tölul., og Fjármálaeftirlitið. Eru svör þeirra hluti af skýrslu þessari. Ekki bárust svör frá fjármálaráðuneytinu.
     1.      Reglur sem giltu um peningamarkaðs- og skammtímasjóði fyrir hrun bankanna og þar til þeir voru gerðir upp.
    Peningamarkaðs- og skammtímasjóðir eru verðbréfasjóðir, en svo eru kallaðir sjóðir sem hafa það eingöngu að markmiði að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í fjármálagerningum og öðrum eignum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu. Eftirfarandi lög og reglur giltu um peningamarkaðs- og skammtímasjóði á þessum tíma: Lög nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, reglugerð um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, nr. 792/2003, reglur um reikningsskil rekstrarfélaga verðbréfasjóða, nr. 97/2004, leiðbeinandi tilmæli um afleiðunotkun verðbréfasjóða, nr. 2/2006, leiðbeinandi tilmæli um útdrætti úr útboðslýsingum verðbréfasjóða, nr. 3/2004, og reglur sjóðanna sjálfra.
     2.      Fjárfestingarstefna sjóðanna, hvort henni hafi verið fylgt og hversu oft og hvernig henni hafi verið breytt síðustu 18 mánuði fyrir lokun sjóðanna í október sl., t.d. er óskað eftir:
       a.      yfirliti yfir breytingar á eignasamsetningu í sjóðunum á fyrrgreindu tímabili,
       b.      skýringum á hvernig verðmyndun hafi verið framkvæmd á verðbréfum í sjóðunum, þ.m.t. bréfum sem ekki voru skráð á opinberan markað eða með félög sem menn vissu eða máttu vita að voru í vanda stödd,
       c.      upplýsingum um hvernig breytingar á fjárfestingarstefnu sjóðanna voru kynntar, t.d. til Fjármálaeftirlitsins, hlutdeildarskírteinishafa, eða í Lögbirtingablaði og hvort Fjármálaeftirlitið hafi samþykkt þær breytingar.

    Eftirfarandi kemur fram í svari Fjármálaeftirlitsins:
    Yfirlit yfir breytingar á eignasamsetningu í sjóðunum á fyrrgreindu tímabili: Með vísan til 13. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, gefur Fjármálaeftirlitið þessar upplýsingar ekki upp.
    Skýringar á hvernig verðmyndun hafi verið framkvæmd á verðbréfum í sjóðunum: Fjármálaeftirlitið býr ekki yfir framangreindum upplýsingum.
    Samkvæmt ákvæðum 13. gr. laga nr. 30/2003 er rekstrarfélögum sem hyggjast breyta fjárfestingarstefnu sjóðanna skylt að senda tilkynningu um breytingarnar til Fjármálaeftirlitsins til samþykktar. Þegar Fjármálaeftirlitið hefur farið yfir reglur sjóðsins og samþykkt þær, sendir eftirlitið tilkynningu í Lögbirtingablaðið og rekstrarfélagið verður að senda bréf til hlutdeildarskírteinishafa þar sem þeim er gert grein fyrir því að reglum sjóðsins hafi verið breytt.
     3.      Hvort rekstraraðilar eða eigendur þeirra hafi átt hagsmuna að gæta við stjórn hinna tilgreindu sjóða í aðdraganda bankahrunsins og þar til þeir voru gerðir upp. Í því sambandi verði m.a. gerð grein fyrir:
       a.      hverjir voru og eru eigendur þeirra sjóða sem spurt er um og hver var eignarhlutur þeirra,
       b.      hvort sjóðirnir hafi verið notaðir með einhverjum hætti til þess að halda uppi gengi hlutabréfa, t.d. með kaupum á skuldabréfum útgefnum af bönkunum sjálfum og aðilum og félögum tengdum eigendum bankanna,
       c.      hvort verulegar breytingar hafi orðið á eignasamsetningu sjóðanna frá 1. janúar 2008 og til slita þeirra,
       d.      hvort fullyrðingar um áhættustig (áhættuleysi) við kynningu og sölu sjóðanna á bréfum sínum hafi staðist,
       e.      hugsanlegum fyrirmælum sjóðsstýringar, bankastjórnar, bankastjóra eða annarra hagsmunaaðila innan bankanna um að selja eignir sjóðanna: svo sem skuldabréf, hlutabréf, bankabréf og önnur verðbréf, innstæður hvers konar og önnur verðmæti í eigu peningamarkaðs- og skammtímasjóða,
       f.          sjóðsstjórum og stjórnum sjóðanna, aðalmönnum og varamönnum, við lokun sjóðanna og tilgreint hvaða stöðum þessir aðilar gegndu jafnhliða því að sitja í stjórnum sjóðanna og hvaða stöðum viðkomandi gegna nú.
    Ráðuneytið fékk eftirfarandi svar frá Fjármálaeftirlitinu við spurningu 3:
    „Hverjir voru og eru eigendur þeirra sjóða sem spurt er um og hver var eignarhlutur þeirra: Rekstrarfélög verðbréfasjóða sem reka sjóðina eru sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki. Glitnir sjóðir hf. var í eigu Glitnis banka, Landsvaki hf. var í eigu Landsbankans og Rekstrarfélag Kaupþings hf. var í eigu Kaupþings banka hf. Sjóðirnir sjálfir eru hins vegar í eigu hlutdeildarskírteinishafa. Fjármálaeftirlitið hefur ekki upplýsingar um hve eignarhlutur hvers hlutdeildarskírteinishafa er mikill.
    Hvort sjóðirnir hafi verið notaðir með einhverjum hætti til þess að halda uppi gengi hlutabréfa, t.d. með kaupum á skuldabréfum útgefnum af bönkunum sjálfum og aðilum og félögum tengdum eigendum bankanna: Ekki liggja þær upplýsingar fyrir, enda þyrfti að rannsaka það mál áður en niðurstaða fæst.
    Hvort verulegar breytingar hafi orðið á eignasamsetningu sjóðanna frá 1. janúar 2008 og til slita: Ekki gefið upp.
    Hvort fullyrðingar um áhættustig (áhættuleysi) við kynningu og sölu sjóðanna á bréfum sínum hafi staðist: Fjármálaeftirlitið er að kanna það mál.
    Hugsanlegum fyrirmælum sjóðstýringar, bankastjórnar, bankastjóra eða annara hagsmunaaðila innan bankanna um að selja eignir sjóðanna, svo sem skuldabréf , hlutabréf, bankabréf og önnur verðbréf, innstæður hvers konar og önnur verðmæti í eigu peningamarkaðs- og skammtímasjóða: Fjármálaeftirlitið hefur ekki þessar upplýsingar.
    Sjóðstjórum og stjórnum sjóðanna, aðalmönnum og varamönnum, við lokun sjóðanna og tilgreint hvaða stöðum þessir aðilar gegndu jafnhliða því að sitja í stjórnum sjóðanna og hvaða stöðum viðkomandi gegna nú: Sjóðirnir sjálfir hafa ekki sjálfstæða stjórn heldur hefur hvert rekstrarfélag sjálfstæða stjórn. Sjóðstjórar sinna ekki öðrum störfum en sjóðstjórn.“
     4.      Hvort einhver óeðlileg viðskipti hafi átt sér stað með bréf í tilgreindum sjóðum eða með eignir sem þeir fóru með síðustu 18 mánuði fyrir lokun sjóðanna, þ.m.t.:
       a.      hvort tryggari kröfur í sjóðunum hafi verið seldar fyrir ótryggari kröfur,
       b.      hvort viðskipti hafi átt sér stað við aðila sem tengjast bönkunum, þ.e. nákomna í skilningi 3. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., og ef svo er hverjir þessir tengdu aðilar eru.
    Ráðuneytið fékk eftirfarandi svar frá Fjármálaeftirlitinu við spurningu 4:
    „Með vísan til 13. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, gefur Fjármálaeftirlitið þessar upplýsingar ekki upp.“
     5.      Samsetning hlutdeildarskírteinishafa tilgreindra peningamarkaðssjóða í aðdraganda bankahrunsins þar til þeir voru gerðir upp og hvernig hlutur þeirra skiptist, t.d.:
       a.      hversu margir einstaklingar og lögaðilar, þ.e. lífeyrissjóðir, sveitarfélög, stofnanir og félög í eigu ríkisins, tryggingafélög, einkahlutafélög, önnur félög o.s.frv., áttu eignir í peningamarkaðs- og skammtímasjóðum Glitnis, Landsbanka Íslands og Kaupþings þegar Fjármálaeftirlitið f.h. ríkissjóðs tók yfir rekstur þeirra í byrjun október sl.,
       b.      um hversu miklar eignir var að ræða, sundurliðað eftir fjölda hlutdeildarskírteinishafa í peningamarkaðssjóðum í hverjum banka fyrir sig og fjölda þeirra sem áttu innstæður á bilinu 0–5 millj. kr., 5–10 millj. kr., 10–50 millj. kr., 50–100 millj. kr., 100–500 millj. kr., 500–1.000 millj. kr. og meira en 1.000 millj. kr.,
       c.      hver samanlögð eign var í hverjum banka og sjóði 19. júlí 2007, 16. október 2007, 1. janúar 2008, 1. júlí 2008 og 6. október 2008, hver var hæsta innstæða í hverjum banka og sjóði, og hve mikið var tekið út úr þeim síðustu vikuna fyrir yfirtöku ríkisins á bönkunum,
       d.      að auki er óskað eftir upplýsingum um hvort til eru upptökur af símtölum sjóðsstjóra og/eða þjónustufulltrúa viðkomandi sjóða, rekstrarfélaga þeirra, eða banka við hlutdeildarskírteinishafa síðustu vikuna fyrir bankahrunið, og ef svo er ekki hver skýringin er.
    Ráðuneytið fékk eftirfarandi svar frá Fjármálaeftirlitinu við spurningu 5:
    „Fjármálaeftirlitið hefur ekki upplýsingar um hverjir voru hlutdeildarskírteinishafar eða hver hlutfallsleg eign þeirra var.“
     6.      Ákvarðanir stjórnvalda og stjórnenda bankanna, gömlu og nýju, til að endurfjármagna peningamarkaðs- og skammtímasjóðina og aðdraganda þessara ákvarðana. M.a. er óskað upplýsinga um:
       a.      hver aðkoma ríkisstjórnarinnar, ráðherra og embættismanna ráðuneytanna og stjórnkerfisins, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka var í þessari atburðarás,
       b.      á hverju sú ákvörðun Fjármálaeftirlitsins byggðist að láta loka öllum verðbréfasjóðum bankanna 6. október sl. og á hverju tilmæli Fjármálaeftirlitsins byggðust um að þeim skyldi slitið 17. október sl. og greitt úr þeim,
       c.      hvort gömlu og nýju bankarnir, bankastjórar, bankastjórnir, bankaráð, bráðabirgðastjórnir/skilanefndir bankanna, sjóðsstjórnir og sjóðsstjórar hafi haft umboð og heimild stjórnvalda til að taka svo stórar ákvarðanir. Óskað er eftir að viðkomandi fundargerðir á tímabilinu þar sem fjallað er um kaup á skuldabréfum, hlutabréfum, bankabréfum og öðrum verðbréfum, innstæðum hvers konar og öðrum verðmætum í eigu peningamarkaðs- og skammtímasjóða verði birtar sem viðaukar við skýrsluna,
       d.      hvort keypt voru bankabréf, útgefin af Landsbankanum, Kaupþingi eða Glitni, og hvert var verðmat þeirra við kaupin,
       e.      hvort stjórnendur peningamarkaðssjóðanna hafi leitað bestu verða við sölu á eignum sjóðanna, skuldabréfum, hlutabréfum, bankabréfum og öðrum verðbréfum, innstæðum hvers konar og öðrum verðmætum, hvort kaupendur hafi leitað að bestu verðum á markaðnum við kaup á þessum eignum, hver keypti og hver er nú eigandi eignanna,
       f.          hvernig þess var gætt að ákvæðum stjórnarskrár um fjárveitingarvald Alþingis væri fylgt.
    Vísað er til svars viðskiptaráðherra við fyrirspurn á þskj. 178, 153. mál, um kaup á verðbréfum úr peningamarkaðssjóðum Glitnis, Landsbanka Íslands og Kaupþings og svars fjármálaráðherra við fyrirspurn á þskj. 277, 154. mál, um fjármögnun á kaupum á verðbréfum úr peningamarkaðssjóðum Glitnis, Landsbanka Íslands og Kaupþings.
    Ráðuneytið fékk eftirfarandi svar frá Seðlabanka Íslands við spurningu 6:
    „Seðlabanki Íslands hafði enga aðkomu að ákvörðunum stjórnvalda og stjórnenda bankanna, gömlu og nýju, til að endurfjármagna peningamarkaðs- og skammtímasjóðina og aðdraganda þessara ákvarðana, sbr. a-lið hér að ofan. Um aðra bókliði er það að segja að Seðlabankinn hefur ekki yfir að ráða nauðsynlegum upplýsingum til að geta svarað þeim.“
    Ráðuneytið fékk þau svör frá Fjármálaeftirlitinu að það hefði ekki svör við spurningu 6, að öðru leyti en b-lið.
    Fjármálaeftirlitið sendi eftirfarandi svar við b-lið:
    „Sú ákvörðun að fresta innlausnum þann 6. október var tekin af rekstrarfélögunum, ekki Fjármálaeftirlitinu. Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 17. október, um að gefa út tilmæli um að peningamarkaðssjóðum verði slitið var byggð á því að tryggja jafnræði hlutdeildarskírteinishafa. Hefðu sjóðirnir opnað fyrir innlausnir hefðu aðeins þeir hlutdeildarskírteinishafar sem hefðu óskað innlausnar fyrst fengið alla sína eign á meðan aðrir hlutdeildarskírteinishafar hefðu fengið lítið sem ekkert.“
     7.      Hversu miklu af skattfé ríkisins var ráðstafað, með beinum eða óbeinum hætti, til að endurfjármagna peningamarkaðssjóðina í aðdraganda og í kjölfar bankahrunsins og hvort annars konar fjárhagslegri fyrirgreiðslu var beitt, þ.m.t.:
       a.      hversu mikið fé ríkissjóður hefur lagt til í þeim tilgangi að styrkja stofnfjár- og eiginfjárstöðu bankanna,
       b.      hversu miklum fjármunum nýju ríkisbankarnir hafa, hver um sig, varið til kaupa á eignum peningamarkaðssjóðanna,
       c.      hvernig kaup á eignum sjóðanna voru fjármögnuð.
    Vísað er til svars viðskiptaráðherra við fyrirspurn á þskj. 178, 153. mál, um kaup á verðbréfum úr peningamarkaðssjóðum Glitnis, Landsbanka Íslands og Kaupþings.
     8.      Hvort gætt hafi verið jafnræðis við uppgjör tilgreindra peningamarkaðs- og skammtímasjóða annars vegar gagnvart eigendum verðbréfa í öðrum sjóðum í þessum þremur bönkum eða öðrum bönkum og sparisjóðum og hins vegar gagnvart fjármálastofnunum sem ekki áttu hlut að máli, þ.m.t.:
       a.      hvort reglur um sjálfstæði og óhæði hafi verið virtar að vettugi þar sem bankarnir keyptu nær eingöngu eignir í „sínum“ sjóðum,
       b.      mati á hvort ekki hefði verið eðlilegra að ríkisbankarnir þrír hefðu gætt jafnræðis og keypt eignir út úr öllum peningamarkaðssjóðum innlendra fjármálastofnana,
       c.      hvað sambærileg fyrirgreiðsla mundi kosta ríkissjóð / nýstofnaða ríkisbanka, þ.e. að kaupa út bréf í peningamarkaðssjóðum smærri fjármálafyrirtækja.
    Ráðuneytið fékk það svar frá Fjármálaeftirlitinu að það hefði ekki þessar upplýsingar.
     9.      Hvernig staðið var að slitum og uppgjöri tilgreindra peningamarkaðssjóða af hálfu fulltrúa ríkisvaldsins, á hvaða aðferðafræði var byggt og hvort samræmis hafi verið gætt. M.a. verði greint frá:
       a.      eignaverðmæti þeirra eigna sem standa/stóðu á bak við sjóðina, svo sem skuldabréfa, hlutabréfa, bankabréfa og annarra verðbréfa, innstæða hvers konar og annarra verðmæta í eigu peningamarkaðs- og skammtímasjóða,
       b.      hvort um var að ræða bréf eða aðra fjármálagerninga frá tæknilega gjaldþrota fyrirtækjum, t.d. Stoðum,
       c.      hvort kaup á eignum peningamarkaðs- og skammtímasjóðanna hafi verið tilkynnt til Fjármálaeftirlitsins og Kauphallarinnar,
       d.      hvort rétt hafi verið staðið að slitum og uppgjöri sjóðanna og í samræmi við góða reikningsskilavenju,
       e.      hversu hátt hlutfall var greitt úr hverjum sjóði og hverjar voru tíu hæstu greiðslur sem greiddar voru til einstaklings eða lögaðila,
       f.          hverjar svonefndar viðskiptalegar forsendur nýju ríkisbankanna, hvers um sig, voru fyrir kaupum á eignum af peningamarkaðs- og skammtímasjóðum gömlu bankanna þriggja, svo sem skuldabréfum, hlutabréfum, bankabréfum og öðrum verðbréfum, innstæðum hvers konar og öðrum verðmætum? Óskað er eftir að sjálfstætt mat matsfyrirtækja um verðgildi eignanna og greinargerð þeirra til bankanna verði birt sem viðauki skýrslunnar,
       g.      hvernig stendur á þeim mun sem var á útgreiðslu úr peningamarkaðs- og skammtímasjóðum viðskiptabankanna annars vegar og hins vegar úr peningamarkaðssjóði BYR sem var nær 96% hlutfalli innstæðna,
       h.      hvort við kaup á skuldabréfum út úr þessum sjóðum og greiðslu á þeim hafi verið borgað raunvirði og hvort jafnvel sé eftir að borga hluta af þeim peningum síðar,
       i.          að auki er óskað eftir að ársreikningar peningamarkaðs- og skammtímasjóða í rekstri bankanna og félaga þeirra, svo sem Glitnis sjóða hf. í rekstri Glitnis banka, Landsvaka hf. í rekstri Landsbankans, og Rekstrarfélag Kaupþings Banka hf. í rekstri Kaupþings banka, fyrir síðustu fimm ár verði lagðir fram sem viðaukar við skýrsluna.
    Hvorki viðskiptaráðherra né embættismenn viðskiptaráðuneytisins komu að slitum eða uppgjöri þeirra sjóða sem um er spurt.
    Viðskiptaráðuneytið fékk eftirfarandi svar við spurningu 9 frá Fjármálaeftirlitinu:
    „Eignaverðmæti þeirra eigna sem standa/stóðu á bak við sjóðina, svo sem skuldabréfa, hlutabréfa, bankabréfa og annarra verðbréfa, innstæðna hvers konar og annarra verðmæta í eigu peningamarkaðs- og skammtímasjóða: Með vísan í 13. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, gefur Fjármálaeftirlitið þessar upplýsingar ekki upp.
    Hvort um var að ræða bréf eða aðra fjármálagerninga frá tæknilega gjaldþrota fyrirtækjum, t.d. Stoðum: Með vísan í 13. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, gefur Fjármálaeftirlitið þessar upplýsingar ekki upp.
    Hvort kaup á eignum peningamarkaðs- og skammtímasjóðanna hafi verið tilkynnt til Fjármálaeftirlitsins og Kauphallarinnar: Kaup ríkisbankanna á eignum sjóðanna var ekki tilkynnt til Fjármálaeftirlitsins.
    Hvort rétt hafi verið staðið að slitum og uppgjöri sjóðanna og í samræmi við góða reikningsskilavenju: Í reglum sjóðanna kemur fram hvernig staðið skuli að slitum og hver sjóður var slitinn í samræmi við þær reglur.
    Hversu hátt hlutfall var greitt úr hverjum sjóði og hverjar voru tíu hæstu greiðslur sem greiddar voru til einstaklings eða lögaðila: Útgreiðsluhlutföll; Peningabréf Landsbankans 68,8%, Peningamarkaðssjóður Kaupþings 85,3%, Peningamarkaðssjóður Glitnis (Sjóður 9) 85,12%, Skammtímasjóður Kaupþings 75,1%, Peningamarkaðsjóður Byrs 94,9% og Peningamarkaðssjóður SPRON 85,52%. Peningamarkaðssjóðir ÍV og MP eru í slitaferli og hlutdeildarskírteinishafar fá greitt reglulega inn á reikninga þar til engar eignir eru eftir í sjóðunum.
    Tíu hæstu greiðslur sem greiddar voru til einstaklings eða lögaðila: Fjármálaeftirlitið hefur ekki þessar upplýsingar.
    Hverjar viðskiptalegar forsendur nýju ríkisbankana, hvers um sig, voru fyrir kaupum á eignum af peningamarkaðs- og skammtímasjóðum gömlu bankanna þriggja, svo sem skuldabréfum, hlutabréfum, bankabréfum og öðrum verðbréfum, innstæðum hvers konar og öðrum verðmætum? Óskað er eftir að sjálfstætt mat matsfyrirtækja um verðgildi eignanna og greinargerð þeirra til bankanna verði birt sem viðauki skýrslunnar: Fjármálaeftirlitið hefur ekki þessar upplýsingar. Fjármálaeftirlitið gefur ekki fyrirmæli um það með hvaða hætti viðskipti verðbréfa- eða fjárfestingarsjóða eigi að vera, hvorki að því er varðar kaup né sölu eigna sjóðanna.
    Hvernig stendur á þeim mun sem var á útgreiðslu úr peningamarkaðs- og skammtímasjóðum viðskiptabankanna annars vegar og úr peningamarkaðssjóði BYR sem var nær 96% hlutfalli innstæðna: Fjármálaeftirlitið hefur ekki þessar upplýsingar. Fjármálaeftirlitið gefur ekki fyrirmæli um það með hvaða hætti viðskipti verðbréfa- eða fjárfestingarsjóða eigi að vera, hvorki að því er varðar kaup né sölu eigna sjóðanna.
    Hvort við kaup á skuldabréfum út úr þessum sjóðum og greiðlsu á þeim hafi verið borgað raunverði og hvort jafnvel sé eftir að borga hluta af þeim peningum síðar: Fjármálaeftirlitið hefur ekki þessar upplýsingar. Fjármálaeftirlitið gefur ekki fyrirmæli um það með hvaða hætti viðskipti verðbréfa- eða fjárfestingarsjóða eigi að vera, hvorki að því er varðar kaup né sölu eigna sjóðanna.
    Ársreikningar fyrir síðustu fimm ár: Í viðhengi eru ársreikningar Landsvaka, Rekstrarfélags Kaupþings og Glitnis sjóða fyrir árin 2006 og 2007. Eldri ársreikninga þessara félaga hefur Fjármálaeftirlitið ekki á rafrænu formi. Á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins á slóðinni www.fme.is/?PageID=471 má nálgast ýmis gögn úr ársreikningum rekstrarfélaganna.“
    Viðskiptaráðuneytið fékk eftirfarandi svar við c-lið spurningar 9 frá NASDAQ OMX hf.:
    „Hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóðum Landsvaka hf. og Glitnis Sjóða hf. voru í viðskiptum í Kauphöllinni. Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 122. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, (vvl.) hvílir sú skylda á útgefendum fjármálagerninga sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði að birta opinberlega allar þær innherjaupplýsingar sem varða hann. Samkvæmt 12. gr. vvl. er með innherjaupplýsingum átt við nægjanlega tilgreindar upplýsingar sem ekki hafa verið gerðar opinberar og varða beint eða óbeint útgefendur fjármálagerninga, fjármálagerningana sjálfa eða önnur atriði og eru líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninganna ef opinberar væru. Sambærileg ákvæði um skyldu útgefenda hlutdeildarskírteina til að birta opinberlega verðmótandi upplýsingar er að finna í 6. kafla reglna fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni. Samkvæmt ákvæði 6.1.6 í reglunum skal útgefandi senda upplýsingarnar í eftirlitsskyni til Kauphallarinnar samhliða opinberri birtingu lögum samkvæmt.
    Þar sem hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóðum Landsvaka hf. og Glitnis Sjóða hf. voru í viðskiptum í Kauphöllinni bar félögunum að fylgja þeim ákvæðum sem vísað er til hér að framan. Án þess að fullyrða um hvort til upplýsingaskyldu hafi stofnast vegna sölu á eignum úr fyrrgreindum sjóðum þá staðfestir Kauphöllin að henni er ekki kunnugt um að upplýsingar um einstök viðskipti hafi verið birtar opinberlega. Þó skal tekið fram að í tilkynningu frá Landsvaka hf. sem birt var opinberlega þann 28. október 2008 kom fram að stjórn félagsins hefði tekið ákvörðun um að selja allar eignir Peningabréfa og að honum yrði slitið í framhaldið. Sjá nánar eftirfarandi tilkynningu: newsclient.omxgropu.com/ cdsPublic/viewDisclosure.action?disclosureId=296008&messageId=349598.
    Með sama hætti birti Glitnir Sjóðir hf. tilkynningu þann 30. október sl. þar sem fram kom áætlun um að greiða út allar eignir úr Sjóði 9 – peningamarkaðsbréfum. Í tilkynningunni sagði enn fremur að stjórn sjóðsins hefði vikurnar á undan lagt höfuðáherslu á að koma verðbréfasafni sjóðsins í verð til þess að geta greitt út inneign sjóðfélaga og lágmarka þannig tap þeirra. Sjá nánar eftirfarandi tilkynningu: newsclient.omxgroup.com/cdsPublic/ viewDisclosure.action?disclosurId=296443&messageId=350200.
    Hlutdeildarskírteini í peningamarkaðssjóði Rekstrarfélags Kaupþings banka hf. voru ekki í viðskiptum í Kauphöllinni og hvíldi því ekki sama upplýsingaskylda á útgefandanum.
     Skylda fjármálafyrirtækja til að birta upplýsingar um viðskipti.
    Samkvæmt 30. gr. vvl. skal fjármálafyrirtæki senda Fjármálaeftirlitinu tilkynningu um öll viðskipti sem það framkvæmir með fjármálagerninga sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Tilkynna skal um öll slík viðskipti, hvort sem þau eiga sér stað á skipulegum verðbréfamarkaði eða utan slíkra markaða.
    Undirliggjandi eignir peningamarkaðssjóða Landsvaka hf., Glitnis Sjóða hf. og Rekstrarfélags Kaupþings hf. voru að einhverju leyti skuldabréf og víxlar sem tekin hafa verið til viðskipta í Kauphöll. Ákvæði 30. gr. vvl. gildir um viðskipti með undirliggjandi fjármálagerninga peningamarkaðssjóðanna sem voru í viðskiptum í Kauphöllinni. Einungis er gerð krafa um tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins þegar um er að ræða viðskipti með aðra fjármálagerninga en hlutabréf og því var ekki skylt að birta upplýsingarnar í viðskiptakerfi Kauphallarinnar.
    Kauphöllinni er ekki kunnugt um að viðskipti með eignir peningamarkaðssjóðanna hafi verið tilkynnt í viðskiptakerfi Kauphallarinnar en þó er ekki útilokað að svo hafi verið í einhverjum tilfellum. Ljóst er að um mjög háar upphæðir hefur verið að ræða í heildina og því telur Kauphöllin líklegt að meiri hluti viðskiptanna með eignir peningamarkaðssjóðanna hafi ekki verið tilkynntur í viðskiptakerfið.
    Hvorki viðskiptaráðherra né embættismenn viðskiptaráðuneytisins komu að slitum eða uppgjöri þeirra sjóða sem um er spurt.“
     10.      Tillögur til úrbóta.
    Verið er að rannsaka ástæður þess hvers vegna hin alþjóðlega fjármálakreppa hefur lagst með þeim þunga á íslensk fjármálafyrirtæki og efnahagslíf sem raun ber vitni. Að mati viðskiptaráðuneytisins er rétt að bíða með tillögugerð þangað til þau mál fara að skýrast. Þó skal þess getið að þegar er hafin vinna við endurskoðun laga um fjármálafyrirtæki, einkum þeirra ákvæða sem lúta að hegðunar- og hæfisreglum, í framhaldi af skýrslu þeirri sem Kaarlo Jännäri tók saman um lagaumhverfi fjármálamarkaðarins. Einnig hefur viðskiptaráðherra skipað nefnd til að vinna frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði.
    Viðskiptaráðuneytið fékk eftirfarandi tillögur til úrbóta frá Fjármálaeftirlitinu:
    „Fjármálaeftirlitið hefur lagt til ýmislegt í framhaldi af bankahruninu til að koma á úrbótum hjá peningamarkaðssjóðum og skammtímasjóðum. Þessar úrbætur eru m.a. eftirfarandi:
    Fjármálaeftirlitið gaf út tilmæli til allra starfandi rekstrarfélaga þann 17. október 2008 þess efnis að slíta öllum peningamarkaðssjóðum í rekstri félaganna við fyrsta tækifæri.
    Fjármálaeftirlitið er ekki tilbúið til að staðfesta nýja peningamarkaðssjóði í framtíðinni fyrr en búið er að breyta lögum nr. 30/2003, um verðbréfa- og fjárfestingarsjóði.
    Fjármálaeftirlitið hefur sent tillögur um lagabreytingar varðandi peningamarkaðssjóðina til viðskiptaráðuneytisins og á sæti í nefnd sem hefur verið skipuð til að fara sérstaklega yfir lög nr. 30/2003. Tillögur Fjármálaeftirlitsins ganga aðallega út á það að allir peningamarkaðssjóðir verði verðbréfasjóðir en ekki fjárfestingarsjóðir eins og var áður, auk þess sem tillaga Fjármálaeftirlitsins gengur út á að skýra nákvæmlega út hvað peningamarkaðsskjöl séu svo fátt eitt sé nefnt.“
    Viðskiptaráðuneytið fékk eftirfarandi tillögur til úrbóta frá Seðlabankanum:
„1.     Lög sem fjalla um peningamarkaðs- og verðbréfasjóði verði endurskoðuð.
2.     Starfsemi rekstrarfélaga sjóðanna verði endurskoðuð.
        a.     Reglur um óhæði verði þrengdar.
                   i.    Aðskilnaður frá móðurfélögum verði skýrari.
        b.     Reglur um fjárfestingarstefnu verði þrengdar.
        c.     Reglur um fjárfestingu í eignum tengdra aðila verði þrengdar og einnig túlkun FME á hugtakinu tengdir aðilar.
3.     Eftirlit verði aukið.
4.     Rekstrargrundvöllur sjóða verði endurmetinn með tilliti til núverandi stöðu fjármálakerfisins.
5.     Reglur um áhættumat sjóða verði gerðar skýrari.
        d.     Núverandi reglur FME eru mjög ófullnægjandi og þarf að endurskoða.
        e.     Koma ætti upp áhættumatskvarða sem væri sameiginlegur fyrir öll fjármálafyrirtæki.
Einnig mætti benda á að núverandi fyrirkomulag hvað varðar vörslu eigna lífeyrissjóða hjá fjármálafyrirtækjum hefur ekki verið skoðað nægilega ítarlega.“