Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 451. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 929  —  451. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Helgu Sigrúnar Harðardóttur um skipun skiptastjóra.

     1.      Eru fordæmi fyrir því að skipaðir séu fleiri en einn skiptastjóri fyrir þrotabú hérlendis, sbr. 75. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, þar sem segir að ef sýnt þyki að störf skiptastjóra verði umfangsmikil geti héraðsdómari skipað tvo menn eða fleiri til að gegna þeim, og ef svo er, í hvaða tilvikum var það gert?
    Fordæmi eru fyrir því að fleiri en einn skiptastjóri hafi verið skipaðir í þrotabúi hérlendis. Samkvæmt upplýsingum frá dómstólaráði var það t.d. gert í þrotabúum Nýsis fasteigna og Engidals ehf. sem tekin voru til gjaldþrotaskipta 3. mars sl. og nú einnig í þrotabúi Baugs Group hf. sem tekið var til gjaldþrotaskipta 13. mars sl. Þá eru til eldri dæmi um slíkt, t.d. þrotabú Miklagarðs hf. sem tekið var til gjaldþrotaskipta árið 1993. Þá voru skipaðir þrír skiptastjórar í þrotabúi Hafskips hf. en það var í tíð eldri laga um gjaldþrotaskipti, nr. 6/1978.

     2.      Hvernig er hæfi skiptastjóra metið innan dómstólanna? Telur ráðherra í anda reglu 6. tölul. 1. mgr. 75. gr. laga nr. 21/1991 að skipa skiptastjóra í þrotabúi mann sem hefur unnið að verkefnum tengdum félaginu sem tekið er til gjaldþrotaskipta eða öðrum verkefnum tengdum því í gegnum sama eignarhald? Telur ráðherra hætt við að slíkur skiptastjóri sé farinn að dæma í eigin málum?

    Fyrsta spurning í þessum lið lýtur að því hvernig hæfi skiptastjóra er metið af dómstólum. Samkvæmt upplýsingum frá dómstólaráði er, eftir því sem ástæða er til, gætt að ákvæðum 6. tölul. 2. mgr. 75. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. með því að viðkomandi er inntur eftir hvort einhverjar þær aðstæður séu fyrir hendi sem leiði til vanhæfis hans. Þeim sem til stendur að skipa skiptastjóra ber þannig að gæta að hæfi sínu af sjálfsdáðum og beiðast undan skipun telji hann sig vanhæfan eða benda dómara á hugsanlega vanhæfisástæðu telji hann vafa leika á hæfi sínu. Dómari tekur síðan ákvörðun um hvort viðkomandi sé skipaður eða ekki. Þá er rétt að benda á að skv. 2. málsl. 3. mgr. 76. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. getur sá sem á kröfu á hendur búinu og telur skiptastjóra ekki fullnægja skilyrðum 2. mgr. 75. gr. krafist þess að héraðsdómari kveði á um það með úrskurði hvort skiptastjóra verði vikið frá af þeim sökum. Þannig getur kröfuhafi fengið úrlausn dómstóls um hæfi skiptastjóra telji hann einhverjar þær ástæður fyrir hendi sem valdið gætu vanhæfi hans. Þá er þess að geta að komi í ljós eftir skipun skiptastjóra að hann sé vanhæfur til að leysa af hendi tiltekið verk í starfi sínu, án þess að það verði talið varða neinu fyrir rækslu starfans að öðru leyti, getur héraðsdómari að ósk hans skipað annan löghæfan mann til að leysa verkið af hendi, sbr. 5. mgr. 75. gr. laganna.
    Önnur og þriðja spurning í þessum lið lúta að túlkun á ákvæði 6. tölul. 1. mgr. 75. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, hvort það sé í anda ákvæðisins að skiptastjóri hafi unnið að verkefnum sem tengjast félaginu sem tekið er til skipta eða verkefnum tengdum félaginu í gegnum sama eignarhald.
    Mikilvægt er að hafið sé yfir allan vafa að þeir sem skipaðir eru skiptastjórar í þrotabúum vinni að þeim verkefnum af heilindum. Því eru í 6. tölul. 2. mgr. 75. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. gerðar sömu kröfur til hæfis skiptastjóra og dómara í einkamáli, og eru það afar ríkar kröfur. Það er dómara og þess sem lýsir sig fúsan til að taka að sér starf skiptastjóra að ganga úr skugga um að lagaskilyrðanna sé gætt, meðal annars að ekki sé unnt að draga óhlutdrægni skiptastjórans með réttu í efa vegna fyrri starfa eða tengsla hans við félag sem tekið er til gjaldþrotaskipta.
    Þess skal getið að í ráðuneytinu hafa ákvæði fyrrgreindra laga um skipan skiptastjóra verið athuguð með tilliti til þess hvort nægilega sé gætt að því að unnt sé að taka til endurskoðunar ákvörðun héraðsdómara um skipun skiptastjóra, orki hún tvímælis.
    Skoðun ráðuneytisins leiddi í ljós að það er fyrir hendi skýr réttur kröfuhafa að fá úrskurð héraðsdómara um hæfi skiptastjóra telji þeir vafa leika á um hæfi hans, eins og gerð var grein fyrir hér að framan, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 76. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

     3.      Hvaða reglur gilda um úthlutun þrotabúa til skiptastjóra hjá héraðsdómstólum og eru þær nægjanlega gagnsæjar?
    Samkvæmt upplýsingum frá dómstólaráði gilda engar skráðar reglur um úthlutun þrotabúa til skiptastjóra hjá héraðsdómstólum. Þess er þó gætt að láta alla þá lögmenn sem sóst hafa eftir skiptastjórn og uppfylla skilyrði til skipunar fá þrotabú til meðferðar.