Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 460. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 958  —  460. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðfinnu S. Bjarnadóttur um stöðu Icesave-samningaviðræðna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hver er staðan í Icesave-viðræðunum og hver er sú hagfellda niðurstaða sem ráðherra telur vera í sjónmáli, sbr. nýlegt viðtal í Zetunni á mbl.is?

    Eins og kunnugt er var fyrir nokkru skipuð nefnd til að sjá um samninga o.fl. sem tengist Icesave-málinu. Hefur nefndin á undanförnum vikum unnið að verkefni sínu m.a. með því að kanna mögulegar leiðir til að ganga frá fjárhagslegri hlið mála þessara með þeim hætti að það samrýmist sem best hagsmunum landsins um leið og það uppfyllir þær skuldbindingar sem íslenska ríkið tók á sig í þessum efnum sl. haust. Haft hefur verið samband við pólitísk og embættisleg stjórnvöld í viðkomandi löndum, þeim kynntar og við þau rætt um ýmsar leiðir til að ganga frá þessum málum. Frekari viðræður við þau fara fram á næstu vikum. Með hliðsjón af stöðunni í viðræðunum þykir ekki rétt að upplýsa frekar um einstök atriði þess sem í umræðu er á milli aðila. Það skal og tekið fram að fjármálaráðherra hefur átt fund með utanríkismálanefnd Alþingis um málið og veitt henni ýmsar upplýsingar um stöðu þess, sem eðli máls samkvæmt eru bundnar trúnaði.