Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 1. máls.

Þskj. 1  —  1. mál.



Frumvarp til laga

um stofnun hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu
þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

(Lagt fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009.)




1. gr.

    Fjármálaráðherra er heimilt að stofna opinbert hlutafélag sem hefur það að markmiði að aðstoða fjármálafyrirtæki við fjárhagslega endurskipulagningu atvinnufyrirtækja og ef nauðsynlegt þykir að kaupa, eiga, endurskipuleggja og selja þjóðhagslega mikilvæg atvinnufyrirtæki í samræmi við tilgang þessara laga.
    Þjóðhagslega mikilvægt atvinnufyrirtæki í lögum þessum er fyrirtæki sem sinnir svo mikilvægum almanna- eða öryggishagsmunum að stöðvun þess um lengri eða skemmri tíma mundi valda verulegri röskun í þjóðfélaginu öllu.

2. gr.

    Tilgangur félagsins er eftirfarandi:
     a.      að aðstoða fjármálafyrirtæki við fjárhagslega endurskipulagningu skuldsettra atvinnufyrirtækja,
     b.      að semja um kaup á eignarhlutum eða veðkröfum í þjóðhagslega mikilvægum atvinnufyrirtækjum sem þarfnast endurskipulagningar og eru í eigu bankanna eða annarra fjármálafyrirtækja,
     c.      að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu umræddra atvinnufyrirtækja í samráði við aðra eigendur og kröfuhafa með það að markmiði að ekki þurfi að koma til rekstrarstöðvunar,
     d.      að vinna að frekari skipulagningu á rekstri slíkra atvinnufyrirtækja í samráði við aðra eigendur og kröfuhafa, t.d. með niðurlagningu eða sölu óhagkvæmra rekstrareininga, sameiningu fyrirtækja eða öðrum ráðstöfunum sem teljast nauðsynlegar til að koma slíkum fyrirtækjum sem fyrst í rekstrarhæft ástand,
     e.      að selja eignarhluti samkvæmt þessari grein með gagnsæjum hætti og í samræmi við gildandi lög og dreifða eignaraðild verði henni við komið,
     f.      að byggja upp heildstæða þekkingu innan félagsins til endurskipulagningar á fjárhags- og rekstrargrundvelli skuldsettra atvinnufyrirtækja.

3. gr.

    Félagið skal vinna að markmiðum laga þessara með eins skilvirkum og skjótum hætti og aðstæður leyfa þannig að atvinnufyrirtækin verði sem fyrst sjálfbær og rekstrarhæf og geti starfað í samræmi við tilgang sinn. Við verkefni sín skal félagið leitast við að vernda og efla virka samkeppni í íslensku atvinnulífi.
    Eignarhluti í atvinnufyrirtækjum sem félagið hefur eignast og orðin eru rekstrarhæf skal selja svo skjótt sem markaðsaðstæður leyfa. Við sölu skal sérstaklega horft til þess að koma fyrirtækjunum í almenningseign.

4. gr.

    Fjármálaráðherra eða félag í eigu ríkissjóðs fer með eignarhlut ríkisins í eignaumsýslufélaginu. Fjármálaráðherra annast í samráði við viðskiptaráðherra undirbúning að stofnun eignaumsýslufélagsins.

5. gr.

    Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og tveimur til vara.
    Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu hafa haldgóða menntun og sérþekkingu á fjármálum og rekstri fyrirtækja.
    Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu vera lögráða. Þeir mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða hlotið dóm í tengslum við atvinnurekstur samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum og lögum um fjármálafyrirtæki, hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga eða gjaldþrot.
    Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri skulu hvorki taka þátt í meðferð mála þar sem þeir eiga verulegra hagsmuna að gæta né mála er varða aðila sem eru þeim tengdir persónulega eða fjárhagslega.

6. gr.

    Að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands og aðila vinnumarkaðarins gerir stjórn félagsins tillögu til fjármálaráðherra til samþykktar um þau almennu viðmið sem leggja skal til grundvallar því að fyrirtæki geti talist þjóðhagslega mikilvægt í skilningi 2. mgr. 1. gr. Fjármálaráðherra skal áður en reglugerð skv. 1. mgr. 8. gr. er sett leita umsagnar viðeigandi þingnefnda um efni hennar.
    Á grundvelli 2. mgr. 1. gr. og samþykktra viðmiða í reglugerð skv. 1. mgr. 8. gr. tekur stjórn félagsins ákvörðun um kaup á einstökum atvinnufyrirtækjum, enda rúmist kaupin innan fjárhags félagsins eins og hann verður ákvarðaður skv. 2. mgr. 7. gr.

7. gr.

    Hlutafé félagsins við stofnun þess skal vera 20 millj. kr. og greiðast úr ríkissjóði.
    Þriggja manna nefnd skipuð af fjármálaráðherra skal eigi síðar en tveimur mánuðum eftir stofnun félagsins leggja mat á heildarupphæð stofnfjár eða þörf fyrir aukningu þess miðað við áætlað umfang starfseminnar og árlega þörf félagsins fyrir rekstrarfé. Fjármálaráðherra, viðskiptaráðherra og Seðlabanki Íslands tilnefna einn fulltrúa hver.

8. gr.

    Fjármálaráðherra setur nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara í reglugerð, m.a. um:
     a.      almenn viðmið um þjóðhagslega mikilvæg atvinnufyrirtæki skv. 1. mgr. 6. gr.,
     b.      framkvæmd sölu á eignarhlutum í atvinnufyrirtækjum,
     c.      hvernig hátta eigi ráðgjafarhlutverki félagsins gagnvart fjármálafyrirtækjum.

9. gr.

    Félagið skal hafa lokið störfum og því verið slitið eigi síðar en fimm árum frá stofnun þess.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Vegna mikilvægis tiltekinna atvinnufyrirtækja fyrir íslenskt samfélag er nauðsynlegt að starfsemi þeirra raskist ekki þrátt fyrir aðsteðjandi erfiðleika. Með frumvarpi þessu er lagt til að fjármálaráðherra fái heimild til þess að stofna sérstakt opinbert hlutafélag sem hafi þann tilgang að aðstoða fjármálafyrirtæki við endurskipulagningu skuldsettra atvinnufyrirtækja. Nægi slík aðstoð og ráðgjöf ekki þá er með frumvarpi þessu lagt til að félagið fái heimild til að kaupa hluti í atvinnufyrirtækjum sem lent hafa í það miklum rekstrarerfiðleikum að hluti atvinnufyrirtækis eða það allt er komið í eigu fjármálastofnana. Tilgangurinn með stofnun félagsins er að þar verði unnið að fjárhagslegri og rekstrarlegri endurskipulagningu atvinnufyrirtækjanna með það að markmiði að gera þau sem fyrst rekstrarhæf. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að hér sé einungis um tímabundið úrræði að ræða enda gert ráð fyrir því að félögin verði seld um leið og markaðsaðstæður leyfa og félagið lagt niður þegar markmiðum þess hefur verið náð.
    Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta þingi en varð ekki að lögum fyrir þinglok. Frumvarp þetta er í öllum meginatriðum óbreytt nema að tekið hefur verið tillit til þeirra athugasemda sem fram komu í nefndarálitum efnahags- og skattanefndar auk þess sem gert er ráð fyrir að félagið geti veitt fjármálafyrirtækjum sérhæfða ráðgjöf við þá fjárhagslega endurskipulagningu sem unnið er að á þeim vettvangi.
    Frumvarpið er samið af starfshópi fjármála- og viðskiptaráðherra og byggist á fyrstu starfsáætlun nefndar um endurreisn fjármálakerfisins frá 5. febrúar sl. Þá hefur við vinnslu frumvarpsins verið horft til erlendra fyrirmynda, m.a. sænskra, en þekkt er að stofnað hafi verið til félaga af þessu tagi með góðum árangri. Aðferðafræðin er þannig kunn og alþjóðlega viðurkennd. Við samningu frumvarpsins var þó horft til þess að aðstæður hér á landi eru um margt ólíkar því sem var t.d. í sænska eignaumsýslufélaginu. Stærsti munurinn felst án efa í þeirri aðferðafræði sem beitt var hérlendis með setningu laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Vegna þeirrar ráðstöfunar á eignum og skuldum bankanna í nýja og gamla banka sem gert er ráð fyrir í þeim lögum eiga nýju bankarnir betri möguleika á að koma mun stærri hluta þeirra fyrirtækja sem eiga í vanda til aðstoðar en ella hefði verið. Af sömu ástæðum má gera ráð fyrir að megináherslan hjá félaginu verði, auk ráðgjafar við fjármálastofnanir um endurskipulagningu, að færa eignarhluti í atvinnufyrirtækjum inn í félagið en síður að færa lán eða kröfur yfir í slíkt félag. Með því næst fram aðskilnaður á eignarhaldi og bankastarfsemi þannig að félagið mun þurfa að semja við kröfuhafa á viðskiptalegum forsendum í samráði við aðra eigendur ef einhverjir eru og sú hlið málsins sem snýr að almennri bankastarfsemi verður áfram hjá hlutaðeigandi fjármálastofnunum. Í frumvarpinu er þó gert ráð fyrir þeim möguleika að félagið geti keypt tilteknar kröfur eða veðskuldir ef þannig aðstæður skapast að slíkt sé metið nauðsynlegt.
    Ekki er ætlunin að eignaumsýslufélag sem þetta kaupi öll atvinnufyrirtæki sem fjármálastofnanir eignast eða allar kröfur þeirra. Samkvæmt lauslegri könnun starfshópsins sem vann að samningu þessa frumvarps virðast allir ríkisbankarnir hafa komið sér upp vel skilgreindum verkferlum til að koma atvinnufyrirtækjum í erfiðleikum til aðstoðar með endurskipulagningu. Gera má ráð fyrir að sú þekking muni eflast til mikilla muna á næstu missirum vegna núverandi aðstæðna. Ríkisbankarnir hafa jafnframt komið sér upp sínum eigin eignaumsýslufélögum til að sinna slíkum verkefnum og má gera ráð fyrir að sama gildi um aðrar fjármálastofnanir. Því er lagt til að eignaumsýslufélag þetta sinni einungis þeim félögum sem teljast þjóðhagslega mikilvæg samkvæmt skilgreiningu frumvarpsins og ljóst er að endurskipulagningin verði það umfangsmikil og erfið að það íþyngi verulega almennri bankastarfsemi eða takmarki jafnvel getu fjármálafyrirtækjanna til að sinna endurskipulagningu annarra atvinnufyrirtækja.
    Erfitt er að skilgreina í lagatexta með fullnægjandi hætti hvað telst þjóðhagslega mikilvægt atvinnufyrirtæki. Í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er þó gert ráð fyrir að slíkt fyrirtæki sinni svo mikilvægum almanna- eða öryggishagsmunum að stöðvun þess um lengri eða skemmri tíma valdi verulegri röskun í þjóðfélaginu öllu. Með almannahagsmunum er átt við þá starfsemi atvinnufyrirtækja sem snúa að nauðsynlegum grunnþörfum samfélagsins eða eru mikilvægir hlekkir í innviðum þess. Með öryggishagsmunum er hér t.d. átt við starfsemi sem snýr að fæðuöryggi, fjarskiptum, flutningi fólks eða farms milli landa eða innan lands. Æskilegt er að félagið hafi frekari viðmið til að starfa eftir. Sú leið er því farin í frumvarpinu að lagt er til að stjórn félagsins að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands og aðila vinnumarkaðarins geri tillögu til fjármálaráðherra um nánari viðmið sem leggja skal til grundvallar því að fyrirtæki falli í þennan flokk atvinnufyrirtækja. Þegar slík hlutlæg viðmið hafa verið samþykkt gæfi fjármálaráðherra þau út í formi reglugerðar. Stjórn félagsins tæki síðan á grundvelli almennra viðmiða reglugerðarinnar ákvörðun um hvaða einstök atvinnufyrirtæki falli undir skilgreininguna enda rúmist kaup slíks félags innan fjárhags félagsins. Miklu skiptir að félag sem þetta verði eins sjálfstætt í störfum sínum og unnt er.
    Í frumvarpinu er gengið út frá því að félagið þurfi að vinna að þeim málum sem því er gert að sinna í samvinnu við aðra eigendur fyrirtækjanna, ef einhverjir eru, og kröfuhafa. Sama gildir um hugsanleg kaup á eignarhlutum fjármálastofnana í atvinnufyrirtækjum. Slík kaup ættu sér ávallt stað með samningaviðræðum og á grundvelli viðskiptahagsmuna en ekki með neins konar lögþvinguðum úrræðum. Byggt er á því sjónarmiði að það séu hagsmunir allra aðila að slík fyrirtæki geti haldið áfram starfsemi þrátt fyrir þá erfiðleikatíma sem nú eru og virði þeirra verði um leið hámarkað.
    Þrátt fyrir að þörf kunni að vera á því að reka slík atvinnufyrirtæki til einhvers tíma eftir að endurskipulagningarvinnu er lokið er gert ráð fyrir að félaginu verði slitið innan fimm ára. Eðlilegt er að setja félagi sem þessu skýr tímamörk enda ekki ætlunin að slíkt félag reki rekstrarhæft atvinnufyrirtæki lengur en brýna nauðsyn ber til.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. er gert ráð fyrir heimild fyrir fjármálaráðherra til að stofna opinbert hlutafélag sem hefur það að markmiði að aðstoða fjármálafyrirtæki við fjárhagslega endurskipulagningu atvinnufyrirtækja og ef nauðsynlegt þykir að kaupa, eiga, endurskipuleggja og selja þjóðhagslega mikilvæg atvinnufyrirtæki í samræmi við tilgang þessa frumvarps.
    Í 2. mgr. er að finna skilgreiningu á því hvað telst þjóðhagslega mikilvægt atvinnufyrirtæki.

Um 2. gr.


    Í greininni er megintilgangur félagsins reifaður.
    Í a-lið kemur fram að félagið geti aðstoðað fjármálafyrirtæki við fjárhagslega endurskipulagningu skuldsettra atvinnufyrirtækja. Þegar um slíka sérhæfða ráðgjöf yrði að ræða færi hún almennt fram án þess að eignarhlutir eða lán færðust yfir í hlutafélagið.
    Í b-lið kemur fram að félaginu sé heimilt að kaupa eignarhluti eða veðkröfur í þjóðhagslega mikilvægum atvinnufyrirtækjum af ríkisbönkunum eða öðrum íslenskum fjármálafyrirtækjum. Eins og frumvarpið er fram sett yrðu slík kaup ekki lögþvinguð heldur byggðust á frjálsum samningum félagsins við umræddar fjármálastofnanir. Gert er ráð fyrir að úrræðið kæmi helst til greina þegar ljóst væri að fjárhagsleg og rekstrarleg endurskipulagning atvinnufyrirtækisins væri það umfangsmikið verkefni að rétt þætti að hún færi fram í sérstöku félagi en ekki innan hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis. Sama gæti gilt þegar eigendur eða kröfuhafar eru margir, t.d. allir ríkisbankarnir og jafnvel önnur fjármálafyrirtæki og verulegt hagræði er af því að slík endurskipulagning sé á einni hendi.
    Í c-lið kemur fram að félaginu er ætlað að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu þeirra félaga sem undir það heyra með það að markmiði að ekki þurfi að koma til rekstrarstöðvunar. Í slíkri fjárhagslegri endurskipulagningu hlýtur eitt af meginmarkmiðunum að vera að semja við kröfuhafa um lán og skuldir félaganna. Ljóst er að aðstæður kunna í einhverjum tilvikum að vera með þeim hætti að eignaumsýslufélagið hafi einungis eignast tiltekinn hlut í fyrirtækjum. Þannig kann að vera að sá hlutur sem keyptur hefur verið á grundvelli a-liðar hafi orðið til með þeim hætti að bankarnir eða aðrar fjármálastofnanir hafi breytt hluta af kröfum sínum á hendur fyrirtæki í hlutafé en tiltekinn hluti fyrirtækisins sé enn í eigu fyrri eigenda eða annarra aðila. Þegar svo háttar til er gert ráð fyrir að endurskipulagning samkvæmt þessari grein verði í fullu samráði við aðra eigendur félagsins.
    Í d-lið kemur fram að félagið hafi einnig á sinni hendi rekstrarlega endurskipulagningu þeirra félaga sem undir það heyra. Í frumvarpinu kemur fram að í rekstrarlegri endurskipulagningu geti m.a. falist niðurlagning eða sala óhagkvæmra rekstrareininga, sameining fyrirtækja eða aðrar ráðstafanir sem teljast nauðsynlegar. Ljóst er að á tímum niðursveiflu í þjóðfélaginu og lágs eignaverðs er mikilvægt að eignaumsýslufélagið geti endurskipulagt þau félög sem undir það heyra með það að markmiði að aðlaga rekstur þeirra sem fyrst að núverandi markaðsaðstæðum. Í þessum lið er jafnframt gert ráð fyrir því að slík rekstrarleg endurskipulagning fari fram í samráði við aðra eigendur ef einhverjir eru og kröfuhafa. Markmið slíkrar rekstrarlegrar endurskipulagningar er að koma fyrirtækjunum sem fyrst í rekstrarhæft ástand.
    Í e-lið er mælt fyrir um ráðstöfun þeirra eignarhluta sem félagið hefur eignast. Gert er ráð fyrir að slíkt ferli verði gegnsætt og í samræmi við þau lög sem gilda um opinber hlutafélög hverju sinni. Eðlilegt er að strax í upphafi liggi fyrir skýrar reglur sem verði öllum aðgengilegar um frekari tilhögun á ráðstöfun slíkra eignarhluta. Áhersla er lögð á það að hugað verði að dreifðri eignaraðild við slíka ráðstöfun ef henni verður komið við.
    Að lokum er í f-lið mælt fyrir um að byggja skuli upp innan félagsins heildstæða þekkingu á endurskipulagningu á fjárhags- og rekstrargrundvelli skuldsettra atvinnufyrirtækja.

Um 3. gr.


    Í greininni koma fram mikilvægar áherslur í rekstri opinbers eignaumsýslufélags sem þessa. Sérstaklega er áréttað að félagið þurfi að starfa með skilvirkum og skjótum hætti. Tilgangur félagsins verður að sinna fjárhagslegri og rekstrarlegri endurskipulagningu slíkra atvinnufyrirtækja en ekki að hafa atvinnureksturinn með höndum lengur en brýna nauðsyn ber til. Áhersla er lögð á að við starfsemi félagsins skuli leitast við að efla samkeppni í íslensku atvinnulífi.
    Í 2. mgr. er mælt fyrir um að sala eignarhluta í atvinnufyrirtækjum sem orðin eru rekstrarhæf eigi sér stað um leið og markaðsaðstæður leyfa. Þegar atvinnufyrirtæki hefur verið endurskipulagt ráðstafar eignaumsýslufélagið eignarhlutnum með gegnsæjum hætti og í samræmi við lög. Það verður mat stjórnar félagsins hvenær markaðsaðstæður eru orðnar með þeim hætti að skilyrði eru fyrir sölu atvinnufyrirtækisins þannig að hámarka megi virði þess. Mælt er fyrir um að félagið skuli sérstaklega huga að því að koma slíkum atvinnufyrirtækjum í almenningseign við sölu þeirra.

Um 4. gr.


    Í greininni er lagt til að fjármálaráðherra fari með hlut ríkissjóðs í eignaumsýslufélaginu. Er það í samræmi við fyrirkomulag varðandi eignarhald á fyrirtækjum í eigu ríkisins. Lagt er til að opnað verði á það að öðru félagi í eigu ríkisins verði falið eignarhald eignaumsýslufélagsins. Hér er t.d. átt við félag sem stofnað yrði til að halda utan um eignarhald ríkisbankanna eins og lagt hefur verið til í fyrstu starfsáætlun nefndar um endurreisn fjármálakerfisins. Þá er lagt til að fjármálaráðherra skuli undirbúa stofnun eignaumsýslufélagsins í samvinnu við viðskiptaráðherra.

Um 5. gr.


    Lagt er til í greininni að í stjórn eignaumsýslufélagsins verði fimm aðalmenn auk tveggja varamanna.
    Í 2. mgr. er kveðið á um hæfisskilyrði stjórnar og framkvæmdastjóra. Er talið nauðsynlegt með tilliti til hlutverks félagsins að framkvæmdastjóri og stjórn hafi góða menntun og sérþekkingu á sviði fjármála og reksturs fyrirtækja. Þá er lagt til það skilyrði að stjórnarmaður og framkvæmdastjóri skuli ekki hafa sætt skiptameðferð síðustu fimm ár áður en viðkomandi tók við starfi sínu. Einnig er tilskilið að menn hafi ekki á síðustu fimm árum gerst sekir um meiri háttar brot er tengjast atvinnurekstri. Fimm ára tímamarkið er í samræmi við ákvæði laga um fjármálafyrirtæki en gengur lengra en ákvæði hlutafélagalaga sem talið er eðlilegt með tilliti til þeirrar ríku ábyrgðar sem í störfum stjórnar og framkvæmdastjóra felst. Í 4. mgr. er að finna reglur um þátttöku stjórnarmanna og framkvæmdastjóra í málum sem tengjast þeim persónulega eða fjárhagslega og er ákvæðið sambærilegt því sem gildir um stjórnarmenn og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja.

Um 6. gr.


    Í greininni er að finna ákvæði er lúta að þeim viðmiðum sem lögð skulu til grundvallar því hvort fyrirtæki teljist þjóðhagslega mikilvæg og geti þannig fallið undir ákvæði laganna. Lagt er til að stjórn félagsins móti þau viðmið sem leggja skuli til grundvallar og fá umsögn Seðlabanka Íslands og aðila vinnumarkaðarins um þær tillögur. Að fenginni umsögn þeirra aðila gerir stjórn félagsins tillögu til fjármálaráðherra. Lagt er til að viðmiðin skuli birt opinberlega í reglugerð, enda mikilvægt að fyrir liggi með skýrum og opinberum hætti hvaða viðmið verði lögð til grundvallar. Í greininni er mælt fyrir um að áður en reglugerðin verður formlega sett verði hún borin undir viðeigandi þingnefndir þar sem óskað verður eftir umsögn um efni hennar. Með þessu er tryggt að starfsemi félagsins sé gegnsæ og öllum ljóst á hvaða grundvelli starfað er.
    Í 2. mgr. er að finna umfjöllun um það með hvaða hætti félagið kaupi eignir inn í félagið. Lagt er til að stjórn félagsins taki slíkar ákvarðanir á grundvelli hinna samþykktu almennu viðmiða sem liggja þá fyrir í reglugerð. Slík kaup þurfa þó alltaf að vera í samræmi við fjárhag félagsins á hverjum tíma, sbr. 2. mgr. 7. gr.

Um 7. gr.


    Í ákvæðinu er lagt til að hlutafé félagsins skuli við stofnun vera tuttugu milljónir króna.
    Þá er í 2. mgr. lagt til að fjármálaráðherra skipi þriggja manna nefnd með fulltrúum fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis og Seðlabanka Íslands. Hlutverk nefndarinnar verður að leggja mat á fjárhagslega þörf félagsins og hver heildarfjárhæð stofnfjár skuli vera miðað við áætlaða starfsemi og árlega þörf fyrirtækisins fyrir rekstrarfé. Lagt er til að nefndin skili niðurstöðu eigi síðar en þremur mánuðum eftir stofnun félagsins.

Um 8. gr.


    Í greininni er lagt til að fjármálaráðherra verði veitt heimild til að útfæra með frekari hætti í reglugerð hvaða fyrirtæki teljist þjóðhagslega mikilvæg í skilningi laganna, almenn ákvæði um sölu á eignarhlutum félagsins í atvinnufyrirtækjum og hvernig hátta eigi ráðgjafarhlutverki félagsins gagnvart fjármálafyrirtækjum.

Um 9. gr.


    Aðstæður þær sem nú eru uppi kalla á stofnun eignaumsýslufélags er getur tekið við tilteknum atvinnufyrirtækjum sem komin eru að hluta eða öllu í eigu fjármálastofnana. Þrátt fyrir að félagið geti haft eignarráð slíkra félaga um einhvern tíma er eins og áður sagði gert ráð fyrir því að hér sé einungis um tímabundið úrræði að ræða og miðað sé við að félögin verði seld um leið og því verður við komið. Til að leggja áherslu á þetta sjónarmið er í greininni lagt til að félaginu skuli slitið eigi síðar en fimm árum frá stofnun þess.

Um 10. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um stofnun hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra atvinnufyrirtækja.

    Með frumvarpi þessu er óskað heimildar til handa fjármálaráðherra til þess að stofna opinbert hlutafélag til að aðstoða fjármálafyrirtæki við fjárhagslega endurskipulagningu atvinnufyrirtækja. Gert er ráð fyrir að félagið sjái um endurskipulagningu þjóðhagslega mikilvægra fyrirtækja sem komin eru í rekstrarerfiðleika en eru talin skipta miklu máli fyrir íslenskt samfélag. Með þessu verði áframhaldandi starfsemi þeirra tryggð til framtíðar. Frumvarpið byggist á fyrstu starfsáætlun samráðsnefndar um endurreisn fjármálakerfisins. Samkvæmt frumvarpinu er félaginu heimilt að kaupa eignarhluti í þjóðhagslega mikilvægum atvinnufyrirtækjum sem þarfnast endurskipulagningar og eru komin í eigu ríkisbanka eða annarra fjármálafyrirtækja.
    Tilgangur félagsins er samkvæmt frumvarpinu að sinna endurskipulagningu slíkra fyrirtækja, bæði fjárhags- og rekstrarlega, og að því loknu sjá um sölu fyrirtækjanna. Ekki liggur fyrir umfang starfsemi fyrirtækisins, meðal annars vegna þess að efnahagur ríkisbankanna liggur ekki endanlega fyrir og ekki er ljóst hver er fjöldi þeirra fyrirtækja sem gætu fallið undir starfsemi félagsins. Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að sérstakri nefnd verði falið að leggja mat á fjárhagslegt umfang starfseminnar og þörf félagsins fyrir rekstrarfé. Það er fyrst þegar sú nefnd hefur lokið störfum að fyrir liggur mat á hugsanlegum kostnaði ríkisins við yfirtöku fyrirtækjanna.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum og ákvörðun tekin á grundvelli þeirra um að stofna félagið mun ríkissjóður leggja því til 20 m.kr. vegna stofnhlutafjár sem færist þá í efnahagsreikning ríkisins en ekki sem útgjöld í rekstrarreikning. Komi til þess að félagið hefji rekstur er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður verði borinn uppi af þeim félögum sem tekin verða til eignasýslu og að sá kostnaður falli því ekki á ríkissjóð.