Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 13. máls.

Þskj. 13  —  13. mál.



Frumvarp til laga

um breytingar á ýmsum lögum vegna innleiðingar á
tilskipun 2005/29/EB um óréttmæta viðskiptahætti.

(Lagt fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009.)




I. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 56/2007, um samvinnu stjórnvalda
á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „skulu hafa lagagildi hér á landi“ í 1. málsl. kemur: skulu, að undanskildum viðauka við reglugerðina, hafa lagagildi hér á landi.
     b.      Í stað orðsins „Reglugerðin“ í 2. málsl. kemur: Reglugerðin, að undanskildum viðaukanum.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Viðskiptaráðherra skal í reglugerð kveða á um að viðauki við reglugerð skv. 1. mgr. og breytingar á honum, sem innleiða á, skuli hafa reglugerðargildi hér á landi.

    II. KAFLI
    Breytingar á lögum nr. 141/2001, um lögbann og dómsmál
til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

    2. gr.

    1.     tölul. 1. gr. laganna orðast svo: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/29/EB frá 11. maí 2005 um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðnum.

III. KAFLI
Innleiðing á tilskipun og gildistaka.
3. gr.

    Lög þessi fela í sér innleiðingu á 16. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2005/29/ EB frá 11. maí 2005 um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðnum og um breytingu á tilskipun ráðsins 84/450/EBE, tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB, 98/27/EB og 2002/65/EB og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2006/ 2004 (Tilskipun um óréttmæta viðskiptahætti).

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta, sem samið er í viðskiptaráðuneytinu, felur í sér innleiðingu á EES-ákvæðum þeim sem tilgreind eru í 3. gr., þ.e. 16. gr. tilskipunar 2005/29/EB um óréttmæta viðskiptahætti. Ákveðið var að taka breytinguna upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2006 frá 7. júlí 2006 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn. Um er að ræða tæknilegar breytingar á tvennum lögum á sviði neytendaréttar vegna innleiðingar á tilskipun um óréttmæta viðskiptahætti.
    Í innleiðingunni á 2. mgr. 16. gr. tilskipunarinnar felst að breyta þarf lítillega 1. gr. laga nr. 56/2007, um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd, en með þeim lögum var veitt lagagildi hér á landi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2006/2004 frá 27. október 2004 um samvinnu milli innlendra yfirvalda sem bera ábyrgð á framkvæmd laga um neytendavernd (reglugerð um samvinnu um neytendavernd).
    Til þess að innleiða 1. mgr. 16. gr. tilskipunarinnar þarf að breyta tilvísun til tilskipunar Evrópuráðsins í 1. tölul. 1. gr. laga nr. 141/2001, um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda. Ákvæði laganna eiga við þegar ástæða þykir til að krefjast lögbanns í því skyni að vernda hagsmuni neytenda samkvæmt þeim lagaákvæðum sem sett hafa verið í innlendan rétt samkvæmt þeim tilskipunum sem taldar eru upp í 1. gr. laganna en þannig voru ákvæði tilskipunar 98/27/EB innleidd hér á landi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr


    Eftir samþykkt breytinga á lögunum mundi viðauki við framangreinda reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2006/2004 ekki lengur hafa lagagildi og yrði því ekki birtur sem fylgiskjal með framangreindum lögum nr. 56/2007. Viðskiptaráðherrra mundi í reglugerð kveða á um að viðaukinn hefði í þess stað reglugerðargildi hér á landi. Í reglugerð ráðherrans yrði bætt við viðaukann nýjum tölulið, 16. tölul., sbr. 3. gr. frumvarps þessa, sem orðast svo: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/29/EB frá 11. maí 2005 um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðinum (Stjtíð. ESB L 149, 11.6.2005, bls. 22).
    Innleiðing síðari breytinga á viðaukanum, sem geymir upptalningu á ákveðnum EES-gerðum á sviði neytendamála, yrði í formi reglugerða sem er mun einfaldara en að breyta lögum hverju sinni. Það er því til mikils hægðarauka að breyta lögunum með þessum hætti enda þarf þá ekki að taka upp breytingar í lögin í hvert skipti sem breytingar eru gerðar á viðauka tilskipunarinnar.

Um 2. gr.


    Með setningu tilskipunar 2005/29/EB urðu breytingar á viðauka tilskipunar 98/27/EB um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda, sem fram koma í 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 2005/29/EB um óréttmæta viðskiptahætti. Breyta þarf tilvísunum til þeirra tilskipana sem teknar hafa verið upp í íslenskan rétt og eru taldar upp í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 141/2001, um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda.

Um 3. gr.


    Ákvæðið er um innleiðingu EES-gerðarinnar og þarfnast ekki nánari skýringa.

Um 4. gr.


    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi. Ákvæðið þarfnast ekki nánari skýringa.

Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna innleiðingar á tilskipun 2005/29/EB um óréttmæta viðskiptahætti.

    Frumvarp þetta felur í sér innleiðingu á 16. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins, 2005/29/EB, um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðinum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.