Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 33. máls.

Þskj. 33  —  33. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009.)
    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þar til skilyrði eru fyrir efndum krafna á grundvelli 6. mgr. 102. gr. er skilanefnd fjármálafyrirtækis, sem naut heimildar til greiðslustöðvunar við gildistöku laga nr. 44/2009, um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. ákvæði til bráðabirgða II, heimilt að greiða skuldir eða efna aðrar skuldbindingar fjármálafyrirtækis ef skilanefnd telur víst að nægilegt fé sé til að greiða að fullu kröfur sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpinu er lagt til að skilanefndum þeirra fjármálafyrirtækja sem hlotið höfðu heimild til greiðslustöðvunar við gildistöku laga nr. 44/2009, um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem tóku gildi 21. apríl sl., sbr. ákvæði til bráðabirgða II í þeim lögum, verði heimilt, frá gildistöku laganna og þar til skilyrði eru fyrir efndum krafna á grundvelli 6. mgr. 102. gr. laganna, að greiða skuldir viðkomandi fjármálafyrirtækis og efna aðrar skuldbindingar þess ef talið er víst að nægilegt fé sé til að greiða að fullu kröfur sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð.
    Frumvarpið er lagt fram eftir að fram komu ábendingar frá starfandi skilanefndum um að við gildistöku laga nr. 44/2009 hefði skapast réttaróvissa þar sem IV. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. hefði verið vikið til hliðar varðandi þau fyrirtæki sem ákvæði til bráðabirgða II gilda um, en á grundvelli ákvæðis í þeim kafla hafa greiðslur fjármálafyrirtækja í greiðslustöðvun verið inntar af hendi. Gera nýsamþykkt lög ekki ráð fyrir að unnt sé að hefja greiðslu fyrr en í fyrsta lagi að loknum fyrsta kröfuhafafundi eftir lok kröfulýsingarfrests, en kröfulýsingarfrestur getur verið allt að sex mánuðir. Þykir því nauðsynlegt að veita skilanefndum möguleika til útgreiðslu á þessu tímabili.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 161/2002,
um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að skilanefndum þeirra fjármálafyrirtækja sem hlotið höfðu heimild til greiðslustöðvunar við gildistöku laga nr. 44/2009, um breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, verði heimilt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum að greiða skuldir viðkomandi fjármálafyrirtækis og efna aðrar skuldbindingar þess ef talið er víst að nægilegt fé sé til að greiða að fullu kröfur sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð. Forsaga þessa frumvarps er sú að eftir að lög nr. 44/2009 tóku gildi komust skilanefndir gömlu bankanna að þeirri niðurstöðu að þeim væri ekki heimilt að inna af hendi neinar greiðslur til kröfuhafa fyrr en kröfulýsingarfresti væri lokið og haldinn hefði verið hlutahafafund, sem væri þá í fyrsta lagi eftir sex mánuði. Sem dæmi um það þá hefur þetta leitt til þess að skilanefnd Kaupþings getur ekki greitt innstæður innstæðueigenda í útibúi Kaupþings í Þýskalandi, en það eru rúmlega 300 milljónir evra. Tilgangur frumvarpsins er því sá að gera nauðsynlegar breytingar á gildandi lögum svo að heimildir skilanefnda til útgreiðslu gildi þar til kröfulýsingarfresti lýkur.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð þar sem frumvarpið snýr að skilanefndum gömlu viðskiptabankanna og heimildum þeirra til að greiða úr þrotabúum gömlu bankanna.