Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 35. máls.

Þskj. 35  —  35. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu
og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009.)




1. gr.

    Í stað ártalsins „2013“ í 1. mgr. 37. gr. laganna kemur: 2015.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 41. gr. laganna:
     a.      Í stað ártalsins „2013“ í 1. mgr. kemur: 2015.
     b.      Við bætist ný málsgrein er orðast svo:
                  Framleiðendur sem hafa skorið niður gemlinga og fullorðið sauðfé á býli sínu að kröfu stjórnvalda til að varna útbreiðslu sauðfjársjúkdóma eiga rétt til greiðslna vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu við kaup á allt að jafnmörgum líflömbum til endurnýjunar fjárstofnsins. Þessi réttur fellur niður um fyrstu áramót eftir að liðin eru tvö ár síðan heimilt var að taka fé að nýju á býlið. Við ákvörðun greiðslna skal miða við 16 kg fallþunga. Óheimilt er að framselja þennan rétt. Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um skilyrði þessa réttar í reglugerð.

3. gr.

    Í stað ártalsins „2013“ í kaflafyrirsögn IX. kafla laganna kemur: 2015.

4. gr.

    Í stað dagsetningarinnar „1. september 2012“ í 3. mgr. 53. gr. laganna kemur: 31. desember 2014.

5. gr.

    Í stað ártalsins „2012“ í kaflafyrirsögn X. kafla laganna kemur: 2014.

6. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða T í lögunum bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Ráðherra er heimilt að framlengja samninga þessa um tvö ár, verði eftir því leitað, svo að þeir gildi til 31. desember 2015. Þá er jafnhliða heimilt að kveða svo á, í hinum framlengdu samningum, að þeir bændur sem hyggjast hefja sauðfjárrækt að nýju megi koma sér upp bústofni frá 1. september 2014. Ráðherra er einnig heimilt að gera samninga sem þessa við bændur sem hafa náð eða ná 64 ára aldri á tímabilinu 2014–2015, enda öðlist samningarnir fyrst gildi á þeim tíma.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan landbúnaðarráðherra og í samráði við Bændasamtök Íslands. Tilgangur frumvarpsins er að lögfesta nauðsynlegar og eðlilegar breytingar á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (búvörulögum), vegna breytinga á samningum um starfsskilyrði sauðfjárræktar og mjólkurframleiðslu. Í frumvarpinu eru einnig lagðar til minni háttar breytingar á heimild til greiðslu álags vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt til hagsbóta fyrir kaupendur fjárskiptafjár. Um þá breytingu vísast til athugasemda við 2. gr. frumvarpsins.
    Með 2. gr. laga nr. 173 29. desember 2008, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, var kveðið á um að þrátt fyrir ákvæði búvörusamninga um að framlög taki mánaðarlegum breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs, skuli þau nema nánar tilgreindum fjárhæðum. Þær fjárhæðir eru þær sömu og er að finna í fjárlögum ársins 2009. Í lagagreininni felst að ekki verður veitt aukið fé til bænda með fjáraukalögum reynist verðbólga ársins 2009 hærri en áætlað var við fjárlagagerðina.
    Lögin vöktu gagnrýni enda fólu þau í sér raunskerðingu á samningsbundnum greiðslum til bænda. Á síðustu mánuðum hafa aðilar kannað nánar réttarstöðu sína en réttaróvissa er um lögmæti skerðingarinnar. Samhliða þessu hafa farið fram samningaviðræður milli ríkisvaldsins og bænda vegna ástandsins í efnahagsmálum.
    Hinn 18. apríl 2009 voru undirritaðar breytingar á búvörusamningum um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu og sauðfjárræktar. Breytingarnar eru teknar upp í fylgiskjal I og II með frumvarpi þessu og vísast þangað um efni þeirra, en helstu breytingar á samningunum eru þessar:
          Framlög á árinu 2009 verði samkvæmt fjárlögum.
          Framlög ársins 2010 verði 2% hærri en 2009, óháð verðlagsþróun.
          Árið 2011 hækki framlög aftur um 2%, en auk þess bætist við helmingur af því sem upp á vantar til að framlag ársins uppfylli ákvæði gildandi samnings. Þó verði hækkun milli ára ekki umfram 5%.
          Árið 2012 verði greitt samkvæmt gildandi samningi, en þó með fyrirvara um 5% hámarkshækkun eins og árið 2011.
          Allir samningarnir verði framlengdir um tvö ár, að mestu á óbreyttum forsendum.
    Í megindráttum fela þessar breytingar í sér samningsbundna eftirgjöf af hálfu kúa- og sauðfjárbænda af fullum fjárframlögum í tvö til þrjú ár vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem uppi er í ríkisbúskapnum. Á móti fá þeir tryggingu fyrir framlengingu samningstímabilsins um tvö ár, sem væntanlega leiðir til aukins rekstraröryggis.

Um 1. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 2. gr.


    Um langt árabil hefur ríkið gert samninga við bændur um niðurskurð fjárstofns og hreinsun húsa og aðstöðu til varnar riðuveiki. Samningar síðustu ára eru miðaðir við reglugerð frá árinu 2001 og þar er ekki tekið tillit til þeirrar hækkunar sem má telja að hafi orðið síðan þá á verði líflamba vegna álagsgreiðslna á dilkakjöt vegna gæðastýringar í sauðfjárrækt. Af þeim sökum má telja ríkinu rétt að endurskoða samningana. Í frumvarpsgreininni er lagt til að þess í stað verði fjárskiptabændum heimilað að öðlast álagsgreiðslu samkvæmt sauðfjársamningi fyrir hin keyptu lömb. Má telja að nokkur sparnaður fyrir ríkissjóð hljótist af þessu ákvæði verði það að lögum. Augljóst er að ef ekki kæmi til sala líflamba vegna niðurskurðar mundu viðkomandi framleiðendur í staðinn færa lömb þessi í sláturhús og greiddar yrðu álagsgreiðslur vegna gæðastýringar hvort sem er.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 4. gr.


    Í 3. mgr. 53. gr. búvörulaga er kveðið á um heimild til að leggja greiðslumark inn til geymslu lengst til 1. september 2012. Það er byggt á gr. 5.2 í samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu frá 10. maí 2004 þar sem segir að heimilt sé að leggja greiðslumark inn til geymslu út gildistíma samningsins. Með því að samningurinn hefur verið framlengdur til 31. desember 2014 þykir rétt að gera tillögu um að lögunum verði breytt til samræmis við það.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 6. gr.


    Með ákvæði T til bráðabirgða við búvörulög er ráðherra heimilað að gera samninga við sauðfjárbændur, sem hafa náð eða ná 64 ára aldri á gildistíma núgildandi sauðfjársamnings, um að eiga hvorki né halda sauðfé til loka samningstímans, en halda þrátt fyrir það óskertum beingreiðslum á sama tíma. Það er byggt á gr. 4.6 í samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 25. janúar 2007. Með því að samningurinn hefur verið framlengdur til 31. desember 2014 þykir rétt að gera tillögu um að heimildin verði framlengd til þess tíma.

Um 7. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.




Fylgiskjal I.


Breytingar á samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar.



    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra f.h. ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtök Íslands hafa með vísan til 30. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, og grein 6.2 í samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 25. janúar 2007, orðið sammála um eftirfarandi:

BREYTINGU

á samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktar frá 25. janúar 2007.

    Árleg framlög samkvæmt 4. gr. samningsins fyrir árin 2009 til 2012 verða sem hér segir, sbr. V-lið ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 99/1993, sbr. 2. gr. laga nr. 173/2008.
    2009:    4.021,0 m.kr.
    2010:    Framlag hækkar um 2% frá árinu 2009 og verður 4.101,0 m.kr.
    2011:    Framlag hækkar um 2% frá árinu 2010 en auk þess bætist við helmingur af því sem upp á vantar að upphæðin sé samkvæmt 6. grein samnings. Þó skal hækkun milli áranna í heild ekki vera meiri en 5%.
    2012:    Fjárhæð skv. 4. grein samnings, en þó skal hækkun frá fyrra ári ekki vera meiri en 5%.
    2013:    Fjárhæð skv. 4. grein samnings.

    Samningsaðilar eru sammála um að framlengja samning þennan um 2 ár eða til ársloka 2015. Í töflu 4. gr. bætast þá við 2 ár, 2014 og 2015. Fjárhæðir lækka um 1% á ári hvort ár, að teknu tilliti til uppfærslu samkvæmt vísitölu neysluverðs eins og mælt er fyrir um í 4. gr. samningsins.
    Við 4. gr. bætist nýr liður, 4.8., svohljóðandi: „Verði samkomulag með samningsaðilum er þeim heimilt að ákvarða tilfærslu fjárhæða milli einstakra liða í töflu 4. gr.“
    Í stað orðanna „31. desember 2013“ í grein 6.6 kemur „31. desember 2015“.
    Samningsaðilar eru sammála um að beita sér fyrir könnun á skuldastöðu sauðfjárbænda í samvinnu við viðskiptabanka í þeim tilgangi að leita lausna til að bæta stöðu greinarinnar í þeim fjármálaþrengingum sem þjóðin býr nú við. Þá eru samningsaðilar sammála um að hefja vinnu við endurskoðun á landbúnaðarstefnunni í þeim tilgangi að treysta stöðu landbúnaðarins og búa hann undir breytingar á komandi árum.

Reykjavík, 18. apríl 2009.



F.h. ríkisstjórnar Íslands
Steingrímur J. Sigfússon
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
og fjármálaráðherra.

Af hálfu ríkisstjórnarinnar er samningur þessi undirritaður með fyrirvara um nauðsynlegar lagabreytingar.

F.h. Bændasamtaka Íslands

Haraldur Benediktsson
Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson


    Með fyrirvara um samþykki í atkvæðagreiðslu meðal bænda. Fylgiskjal II.


Breytingar á samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu.



    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra f.h. ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtök Íslands hafa með vísan til 30. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, og gr. 8.1 í samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu frá 10. maí 2004, orðið sammála um eftirfarandi:

BREYTINGU

á samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu frá 10. maí 2004.

    Síðari málsliður greinar 2.4. verður svohljóðandi: „Þó mun verðlagsár samningsins miðast við almanaksár frá og með árinu 2010. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið skal í samráði við Bændasamtök Íslands ákveða nánar með hvaða hætti yfirfærslan á sér stað.“
    Árleg framlög samkvæmt 6. gr. samningsins fyrir árin 2009 til 2012 verða sem hér segir, sbr. V-lið ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 99/1993, sbr. 2. gr. laga nr. 173/2008.
    2009:    5.425,0 m.kr.
    2010:    Framlag hækkar um 2% frá árinu 2009 og verður 5.534,0 m.kr.
    2011:    Framlag hækkar um 2% frá árinu 2010 en auk þess bætist við helmingur af því sem upp á vantar að upphæðin sé samkvæmt 6. grein samnings. Þó skal hækkun milli áranna í heild ekki vera meiri en 5%.
    2012:    Fjárhæð skv. 6. grein samnings, en þó skal hækkun frá fyrra ári ekki vera meiri en 5%.
    Samningsaðilar eru sammála um að framlengja samning þennan um 28 mánuði eða til ársloka 2014. Í töflu 1 bætast þá við 2 ár, 2013 og 2014. Fjárhæðir lækka um 1% á ári hvort ár, að teknu tilliti til uppfærslu samkvæmt vísitölu neysluverðs, sbr. ákvæði 6. gr. samningsins.
    Við 6. gr. bætist nýr liður, 6.5., svohljóðandi: „Verði samkomulag með samningsaðilum er þeim heimilt að ákvarða tilfærslu fjárhæða milli einstakra liða í töflu 1.“
    Í stað orðanna „31. ágúst 2012“ í lið 9.1 kemur „31. desember 2014“.
    Samningsaðilar eru sammála um að beita sér fyrir könnun á skuldastöðu mjólkurframleiðenda í samvinnu við viðskiptabanka í þeim tilgangi að leita lausna til að bæta stöðu greinarinnar í þeim fjármálaþrengingum sem þjóðin býr nú við. Þá eru samningsaðilar sammála um að hefja vinnu við endurskoðun á landbúnaðarstefnunni í þeim tilgangi að treysta stöðu landbúnaðarins og búa hann undir breytingar á komandi árum.

Reykjavík, 18. apríl 2009.



F.h. ríkisstjórnar Íslands
Steingrímur J. Sigfússon
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
og fjármálaráðherra.

Af hálfu ríkisstjórnarinnar er samningur þessi undirritaður með fyrirvara um nauðsynlegar lagabreytingar.

F.h. Bændasamtaka Íslands

Haraldur Benediktsson
Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson


    Með fyrirvara um samþykki í atkvæðagreiðslu meðal bænda. Fylgiskjal III.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er í meginatriðum sá að lögfesta nauðsynlegar breytingar á lögunum vegna breytinga á samningum um starfsskilyrði sauðfjárræktar og mjólkurframleiðslu sem gerðar voru hinn 18. apríl 2009 milli forsvarsmanna ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands. Segja má að ástæðan fyrir þeim breytingum sé fyrst og fremst sú að bregðast við, með aðhaldssömum hætti, þeim erfiðleikum sem steðjað hafa að íslensku efnahagslífi frá sl. hausti og leitt hafa til þess að staða ríkissjóðs hefur versnað til muna.
    Í lok desember 2008 voru samþykkt lög um ýmsar ráðstafanir í ríkisfjármálum í kjölfar hruns íslensku bankanna og mikils samdráttar í tekjum ríkisins. Í þeim lögum var m.a. gert ráð fyrir að í fjárlögum ársins 2009 yrði vísitölutenging búvörusamninga við bændur skert með þeim hætti að framlög samkvæmt samningunum á árinu hækkuðu ekki meira en áætlað var að þau mundu hækka í frumvarpi til fjárlaga 2009. Þar var gert ráð fyrir 5,7% verðlagsuppfærslu. Að óbreyttu hefði hins vegar hækkunin vegna þessara tveggja saminga orðið um 765 m.kr. umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir við 1. umr. fjárlagafrumvarps 2009 og um 800 m.kr. ef samningur við garðykjuframleiðendur er meðtalinn.
    Frumvarp þetta felur í sjálfu sér ekki miklar breytingar á gildandi lagaákvæðum vegna þessara breytinga á samningunum en í frumvarpinu er þó gert ráð fyrir að þeir verði m.a. framlengdir um tvö ár. Hins vegar er í sjálfum samningunum gert ráð fyrir talsverðum breytingum frá fyrri samingum um starfsskilyrði sauðfjárræktar árin 2008–2013 og mjólkurframleiðslu árin 2005–2012 er snúa að framlögum ríkissjóðs til greinanna. Helstu breytingarnar eru í fyrsta lagi að gert er ráð fyrir að framlög á árinu 2009 verði samkvæmt fjárlögum en innifalið þar er eins og áður segir reiknað með 5,7% verðlagsuppfærslu. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að framlög ársins 2010 og 2011 hækki um 2% frá árinu á undan en vegna ársins 2011 er gert ráð fyrir að auk þess bætist við helmingur af því sem upp á vantar til að framlag ársins uppfylli ákvæði fyrri samninga um framlög ríkissjóðs. Þó verði hækkun milli áranna 2010 og 2011 ekki umfram 5%. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að framlög ársins 2012 verði samkvæmt ákvæðum fyrri samninga um framlög ríkissjóðs en þó skal hækkun frá fyrra ári ekki vera meiri en 5%. Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að samningarnir verði framlengdir um tvö ár sem þýðir að gildistími samnings um sauðfjárrækt verður til ársloka 2015 og samningur um mjólkurframleiðslu til ársloka 2014.
    Í frumvarpinu eru jafnframt lagðar til breytingar á fyrirkomulagi greiðslna úr ríkissjóði þegar bændur hafa að kröfu stjórnvalda þurft að skera niður sauðfé til að koma í veg fyrir útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og ríkið hefur gert samninga við þá um niðurskurð fjárstofns, hreinsun húsa og aðstöðu til varnar riðuveiki. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að í slíkum tilvikum fái bændur álagsgreiðslur samkvæmt sauðfjársamningi fyrir þau lömb sem þeir kaupa að loknu fjárleysistímabili. Gert er ráð fyrir að greiðslurnar muni koma af fjárlagalið 04-805- 1.11, Gæðastýring. Verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir að framlög af fjárlagalið 04-851, Greiðslur vegna riðuveiki, verði um 3–10 m.kr. lægri á næstu árum verði samningar um bætur vegna riðuveiki endurskoðaðir.
    Í töflunni hér á eftir má sjá hvernig áætlað er að framlög ríkissjóðs vegna samninga um sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu muni þróast árin 2010–2015 annars vegar samkvæmt eldri samningunum og hins vegar samkvæmt þeim nýju. Fjárhæðir eldri samningana eru hækkaðar upp í samræmi við verðlagsforsendur þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins frá 12. maí 2009. Í þeirri spá er gert ráð fyrir að verðbólga ársins 2009 verði 10,1%, 1,6% árið 2010 og 1,9% árið 2011. Fyrir árin 2012–2015 er verðbólga látin þróast óbreytt eða, 1,9% á ári. Samkvæmt því má gera ráð fyrir að framlög ríkissjóðs árin 2010–2015 verði um 566 m.kr. lægri á verðlagi hvers árs en ef framlögin þróast á óbreyttan veg í samræmi við eldri samningana. Á árinu 2012 verði hins vegar skerðing á verðlagsákvæðum fyrri samninga að fullu gengin til baka þannig að framlag samkvæmt samningunum verði orðið jafnhátt og samkvæmt þeim eldri.

Eldri samningar um mjólk og sauðfé, m.kr. Nýir samningar um mjólk og sauðfé, m.kr. Mismunur, m.kr.
2010 9.991 9.635 356
2011 10.083 9.873 209
2012 10.175 10.175 0
2013 10.266 10.266 0
2014 10.359 10.359 0
2015 10.448 10.448 0
566

    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs vegna samninga um starfsskilyrði sauðfjárræktar og mjólkurframleiðslu á fjárlagaliðum 04-801, Greiðslur vegna mjólkurframleiðslu og 04-805, Greiðslur vegna sauðfjárframleiðslu, aukist um samtals 189 m.kr. á árinu 2010. Vegna áranna 2011 og 2012 er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs muni aukast um 2–5% frá næsta ári á undan. Þá má gera ráð fyrir að greiðslur ríkissjóðs vegna riðuveiki kunni að lækka um 3–10 m.kr. á næstu árum.