Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 49. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 49  —  49. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um afskriftir af höfuðstól lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

Flm.: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Birkir Jón Jónsson, Eygló Harðardóttir,


Gunnar Bragi Sveinsson, Guðmundur Steingrímsson, Höskuldur Þórhallsson,


Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir, Vigdís Hauksdóttir.



    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að framkvæma nauðsynlegar afskriftir á lánum til íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja og nemi afskriftirnar að minnsta kosti 20% af höfuðstól láns. Skal þessum afskriftum vera lokið eigi síðar en 1. ágúst 2009.

Greinargerð.


    Nánast öll lán íslenskra heimila og fyrirtækja eru annaðhvort tengd verðlagsvísitölu eða gengi erlendra gjaldmiðla. Með hruni íslenska bankakerfisins, og í aðdraganda þess, varð forsendubrestur á lánamarkaði. Fall á gengi íslensku krónunnar og mikil verðbólga í kjölfarið varð til þess að höfuðstóll umræddra lána hækkaði úr takti við allt sem áður hefur þekkst. Atburðirnir voru ófyrirsjáanlegir og færa má fyrir því rök að þeir hafi leitt til forsendubrests. Á það skal og bent að lánastofnanirnar voru í aðstöðu til að hafa áhrif á verðlagsþróun í landinu með útlánastarfsemi sinni og aðgerðum sem höfðu áhrif á gengi krónunnar. Þessar athafnir fjármálastofnana höfðu áhrif á höfuðstól lána til hækkunar og sköpuðu ójafnvægi í getu lánveitenda og lántaka til að verja hagsmuni sína. Hinir ófyrirséðu atburðir, sem og aðgerðir lánveitenda, urðu þannig til þess að hækka höfuðstól lána óeðlilega mikið.
    Ljóst er að fjármagn sem kom erlendis frá í gegnum íslensku bankana er tapað. Um það vitna skuldabréf bankanna sem nú eru seld á aðeins brot af upprunalegu virði. Gert er ráð fyrir að útlán bankanna verði afskrifuð að verulegu leyti og nú þegar er ljóst að afskriftir verði hlutfallslega einhverjar hinar mestu frá því í heimskreppunni á fjórða áratug tuttugustu aldar. Umfang áætlaðra afskrifta er slíkt að það gefur til kynna að búist sé við algjöru kerfishruni í íslensku efnahagslífi. Verði ekkert að gert mun sú hrina gjaldþrota sem gert er ráð fyrir að verði hjá íslenskum fyrirtækjum og heimilum leiða til áframhaldandi hruns á eignaverði sem síðar leiðir til enn frekari afskrifta. Raunar er áætlað umfang af þeirri stærðargráðu að hætta er á að íslenskt efnahagslíf lendi í neikvæðri keðjuverkun sem geri þjóðinni ókleift að komast út úr efnahagsþrengingum um mjög langt skeið og valdi óbætanlegu tjóni til langframa.
    Við þessar aðstæður eru það hagsmunir lánveitandans að afskrifa kröfur sínar að hluta til að koma í veg fyrir að lántakendur fari í þrot og þeim gert fært að standa undir afborgununum og greiða sem mest til baka. Slíkt er sérstaklega mikilvægt við aðstæður þar sem eignir eru illseljanlegar og hætta á algjöru eignaverðshruni er veruleg.
    Nú er ljóst að íslenska hagkerfið stendur ekki undir þeim lánum sem til þess voru veitt. Auk þess er staðreynd að höfuðstóll lánanna hækkaði óeðlilega mikið. Því liggur fyrir að eðlilegast er að bregðast við með því að afskrifa að hluta lán til lántakenda og framkvæma afskriftina með hlutfallslega jafnri niðurfærslu á höfuðstól lánanna.
    Í þessari tillögu er lagt til að byrjað verði að leiðrétta lánin með því að færa þau nokkurn veginn aftur að þeirri upphæð sem vísitölubundnu lánin stæðu í ef ekki hefðu komið til hinir ófyrirséðu atburðir sem leiddu til forsendubrests.
    Rökin eru eftirfarandi:
     Sanngirni: Með því móti er sanngirni gætt gagnvart lántakendum og höfuðstóll lána þeirra færður aftur að þeirri upphæð sem lántakandi miðaði við þegar hann gerði áætlanir sínar. Slík aðferð er bæði sanngjarnari og framkvæmanlegri en sértækar aðgerðir enda umfang vandans slíkt að ekki eru aðstæður til að leggja mat á hvert tilfelli fyrir sig og úthluta afskriftum með þeim hætti. Að auki mundi slík leið koma í veg fyrir siðferðileg álitamál og mismunun.
     Vandinn verður viðráðanlegri: Jöfn leiðrétting lána mun þó ekki nægja öllum en áhrifin verða þó til þess að gera vandann viðráðanlegri og sértækar aðgerðir framkvæmanlegri. Þá ber að hafa í huga að skuldaleiðrétting er vel til þess fallin að endurvekja virkni hagkerfisins, m.a. með því að halda uppi neyslu. Þannig héldust fleiri fyrirtæki í rekstri og færri yrðu atvinnulausir.
     Hagkvæmni fyrir lánveitendur: Í ljósi þess að umfang vandans er risavaxið og hagkerfið í heild er verulega óstöðugt getur jöfn afskrift falið í sér hagkvæmni fyrir lánveitandann rétt eins og verið væri að færa niður lán til eins fyrirtækis. Jöfn leiðrétting er vænlegasta leiðin til að halda hagkerfinu gangandi og hámarka heimtur lánveitenda.
     Fleiri geta staðið í skilum: Hafa ber hugfast að ekki er hægt að meta áætlaða afskrift upp á til að mynda 50% af verðmæti lánasafns á sama hátt og hefðbundinn afskriftareikning sem nemur 2%. Í því felst ekki aðeins stigsmunur heldur eðlismunur. Það að veita fyrir fram niðurfellingu á hluta skulda í eðlilegu árferði (t.d. þegar gert er ráð fyrir 2% afskriftum) felur í sér því sem næst hreinan viðbótarkostnað fyrir lánveitandann. Hins vegar þegar gert er ráð fyrir að verulegur hluti útlána tapist, og umfang tapsins sé slíkt að það geti leitt til algjörs hruns í hagkerfinu sem umrætt lánasafn tilheyrir, geta afskriftir haft áhrif á getu fyrirtækja og heimila til að haldast í rekstri og standa í skilum. Erlendar rannsóknir á niðurfærslu skulda undirmálslána sýna að lækkun á höfuðstól að lágmarki 20% leiðir til þess að fleiri skuldarar standa í skilum.
     Eykur greiðsluviljann: Enn ein rökin sem mæla með skuldaleiðréttingu er sú staðreynd að nú er óvenjuhátt hlutfall íslenskra heimila komið í þá stöðu að vera með neikvætt eigið fé, þ.e. að skulda meira en nemur verðmæti eigna heimilisins. Þetta hlutfall hefur hækkað hratt og mun enn hækka eftir því sem höfuðstóll lána vex og verðmæti eignanna, einkum fasteigna, lækkar. Við þessar aðstæður situr fólk fast á heimilum sínum og getur hvorki keypt né selt. Mikil hætta er á að greiðsluvilji skuldarans fari sífellt minnkandi og að frátöldum öllum persónulegu vandamálunum sem slík staða skapar er hún einkar óhagstæð fyrir hagþróun og getur leitt til stöðnunar sem smitar út frá sér um allt hagkerfið.
     Verðlaunar ekki þá sem fóru óvarlega: Með hlutfallslega jafnri afskrift er ekki verið að verðlauna þá sem fóru óvarlega í góðærinu. Í raun er því öfugt farið þar sem umrædd lausn gerir ekki annað en að færa ástandið í það horf sem hefði verið ef hinir ófyrirséðu atburðir hefðu ekki orðið. Sértækar lausnir verðlauna hins vegar frekar þá óvarkáru og veita þeim meiri skuldaniðurfellingu ef lántakandanum tekst að sýna fram á lægri tekjur. Ef litið er til framtíðar geta sértækar aðgerðir einnig skapað mjög hættulegan öfugan hvata í hagkerfinu.
     Jafnar hlut skuldara gagnvart kerfinu: Að lokum skal á það bent að við hrun fjármálakerfisins veittu íslensk stjórnvöld tryggingu fyrir öllum innstæðum í íslenskum bönkum. Umræddar innstæður voru notaðar til að standa undir stórum hluta þeirra útlána sem nú eru töpuð. Með því að verja stöðu innstæðueigenda án þess að koma til móts við skuldarana er ríkið í raun að mismuna fjármagnseigendum.