Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 62. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 70  —  62. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Flm.: Eygló Harðardóttir, Birkir Jón Jónsson, Guðmundur Steingrímsson,


Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson,
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Siv Friðleifsdóttir, Vigdís Hauksdóttir.


1. gr.

    13. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu, þó skal hámarkshækkun verðtryggingar á ársgrundvelli vera 4%. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað.

2. gr.

    Við 1. mgr. 14. gr., bætist nýr málsliður svohljóðandi: Ríkissjóður og stofnanir á vegum ríkisins, svo sem Íbúðalánasjóður og Seðlabanki Íslands, skulu ekki gefa út verðtryggð ríkisskuldabréf nema í undantekningartilfellum og skal þá rökstyðja sérstaklega forsendur fyrir útgáfu þeirra opinberlega og tilgreina forsendur.

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
    Alþingi skal skipa nefnd sem leggi mat á og mótar tillögur um aðgerðaáætlun og nauðsynlegar lagabreytingar um frekara afnám verðtryggingar fjárskuldbindinga. Nefndin meti áhrifin til lengri og skemmri tíma á fjármálamarkaðinn og fjárskuldbindingar heimila og atvinnulífs og setji fram áætlun um afnám verðtryggingar.
    Nefndin skal skipuð einum fulltrúa frá hverjum eftirtalinna: Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Landssambandi lífeyrissjóða, Neytendasamtökunum, Hagsmunasamtökum heimilanna, Fjármálaeftirlitinu, Seðlabankanum og Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja.
    Nefndin skal skila skýrslu ásamt tillögum um aðgerðaáætlun og nauðsynlegar lagabreytingar til viðskiptanefndar.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Verðtrygging hefur verið á inn- og útlánum á Íslandi frá því hin svokölluðu Ólafslög voru sett árið 1979 og var með henni ætlað að koma í veg fyrir að sparifé almennings brynni upp í verðbólgu sem tröllreið hinum vestræna heimi á áttunda og níunda áratugnum. Verðtrygging fjárskuldbindinga hefur verið gagnrýnd harkalega og bent á ósanngirnina við að fjármálastofnanir krefjist verðtryggingar, breytilegra vaxta og veðs á einu og sama láninu og velti þannig allri áhættu við lánveitingu á skuldarann. Gallar verðtryggingarinnar komu harkalega í ljós við það mikla verðbólguskot sem varð á síðasta ári við hrun íslensks efnahagslífs. Höfuðstóll verðtryggðra lána hækkaði á rúmu ári um 20–25%. Hækkun höfuðstóls bættist við hraðvaxandi atvinnuleysi, minnkandi kaupmátt, hækkandi vöruverð og lækkandi fasteignaverð og jók þannig harkalega byrðar íslensks almennings.
    Í hinum vestræna heimi þekkist ekki viðlíka tenging lána við vísitölu, og má einna helst finna svipaða stöðu í vanþróuðum ríkjum eins og Brasílíu, Chile og Ísrael. Í skýrslu sem Tryggvi Þór Herbertsson vann fyrir Landssamtök lífeyrissjóða árið 2004 kom fram að verðtrygging er almennt ekki notuð við lánveitingar lánastofnana til heimila í ríkjum OECD. Í OECD-ríkjum hefur verðtryggingin einskorðast við ríkisskuldabréf og þekkist hún í átta ríkjum OECD: Ástralíu, Bretlandi, Danmörku, Írlandi, Íslandi, Kanada, Nýja Sjálandi og Svíþjóð. Hlutfall útgáfu verðtryggðra ríkisskuldabréfa er langhæst hér á landi eða um 86%, en um 18% í Bretlandi, í Svíþjóð rúm 7%, í Ástralíu um 4% en lægra annars staðar. Skref hafa verið tekin við að draga úr verðtryggingu hér á landi og þá sérstaklega á skuldbindingum til skemmri tíma. Var meðal annars gert óheimilt að verðtryggja styttri innlán en til þriggja ára og styttri útlán en til fimm ára. Áhrifin af þessum breytingum hafa verið lítil sem engin.
    Í skýrslunni fyrir Landssamtök lífeyrissjóða segir: „Tæplega þrír fjórðu hlutar verðtryggðra útlána til einstaklinga bera fasta vexti sem skýrist einkum af því að húsnæðislán Íbúðalánasjóðs, sem bera fasta vexti, eru um 60% af verðtryggðum útlánum einstaklinga. Verðtryggð lán til fyrirtækja skiptast hins vegar nokkurn veginn jafnt á milli fastvaxtalána og lána sem bera breytilega vexti. Almennt er viðskiptavinum ekki frjálst að velja á milli fastra og breytilegra vaxta.“
    Samningsstaða skuldara og lánardrottna er ekki jöfn, og oft er lítið frelsi til samninga, eins og rakið er hér að framan. Rök á móti verðtryggingu eru einna helst þau að áhættu vegna veðskulda og lánasamninga er komið á skuldara. Skuldurum hefur reynst erfitt að gera fjárhagsáætlanir vegna þessarar sjálfvirku hækkunar á höfuðstól lána, jafnvel vegna þátta sem Íslendingar sjálfir hafa haft lítil sem engin áhrif á svo sem verðhækkanir erlendis á eldsneyti. Verðtryggingin dró einnig mjög úr áhrifum stýrivaxtanna, helsta stýritæki Seðlabankans, í baráttunni við verðbólguna. Má jafnvel halda því fram að það hafi verið andstætt hagsmunum lánastofnana að draga úr verðbólgu, einmitt vegna verðtryggingarinnar.
    Í frumvarpinu er lagt til að hámarkshækkun á vísitölu neysluverðs á ári verði 4%. Þar með er ábyrgðinni af því að halda verðbólgu í skefjum og áhættunni við lántökuna skipt á milli lánveitanda og lántaka. Einnig er mikilvægt að ríkisvaldið sjálft taki frumkvæði í að draga úr notkun verðtryggingar í íslensku samfélagi og því er lagt til að ríkissjóður og stofnanir í eigu ríkisins, þar á meðal Íbúðalánasjóður og Seðlabanki Íslands, gefi ekki út verðtryggð ríkisskuldabréf. Í algjörum undantekningartilfellum væri þeim það heimilt en þá yrði að gera grein fyrir forsendum fyrir útgáfu þeirra opinberlega.
    Að auki er lagt til að við lögin bætist bráðabirgðaákvæði sem felur í sér að skipuð verði nefnd til að leita frekari leiða til að afnema sem fyrst verðtryggingu varanlega. Þingmenn Samfylkingarinnar undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur hafa áður lagt fram þingsályktunartillögu um að viðskiptaráðherra skipi nefnd til að leita leiða til að afnema verðtryggingu fjárskuldbindinga í áföngum. Nýmæli er að í stað þess að Alþingi feli viðskiptaráðherra að skipa nefnd, er nefndin skipuð af Alþingi.
    Viðskiptanefnd er falið að vinna frekar úr tillögum nefndarinnar og leggja fram nauðsynlegar lagabreytingar til að afnema verðtryggingu fjárskuldbindinga enn frekar en lagt er til í þessu frumvarpi.
    Í grein sem birtist í Fréttablaðinu eftir hagfræðinginn Michael Hudson segir: „Í gegnum söguna hafa skuldugar þjóðir oftast farið þá leið að losa sig við skuldirnar með hjálp verðbólgu, þ.e. borgað skuldirnar með ,,ódýrum peningum“. Ríkisstjórnir prenta peninga og viðhalda fjárlagahalla til þess að hækka verðlag og þannig er meira fjármagn í boði, en vöruframboð óbreytt. Þessi verðbólga og gengisfall minnka skuldabyrðina svo framarlega sem laun og aðrar tekjur hækka samhliða. Ísland hefur snúið þessari lausn á hvolf. Í stað þess að auðvelda hina hefðbundnu skuldaleiðréttingu hefur verið sköpuð paradís lánardrottna og hinni sígildu flóttaleið skuldsettra þjóða lokað. Þjóðin hefur fundið leið til að steypa sér í skuldir með hjálp verðbólgunnar, í stað þess að vinna sig úr þeim með henni. Með verðtryggingu skulda hefur Ísland komið upp einstöku kerfi fyrir banka og aðra lánardrottna sem stóreykur tekjur þeirra af lánastarfsemi, á kostnað launa og tekna af raunverulegri atvinnustarfsemi.“
    Þessu frumvarpi er ætlað að leita leiða til að frelsa íslenskan almenning úr „paradís lánardrottna“ og létta byrðar skuldugra heimila og fyrirtækja á meðan leiðir út úr skuldafeninu er mörkuð.