Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 33. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 78  —  33. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum.

Frá minni hluta viðskiptanefndar.



    Minni hlutinn átelur hversu skammur tími gafst til að fjalla um málið í þinginu. Nefndin hafði málið einungis til meðferðar í tvo daga og ljóst er eftir umfjöllunina í nefndinni að um flókið og vandmeðfarið mál er að ræða. Nefndin fékk gesti á sinn fund og leitaði einnig eftir umsögnum en fáir umsagnaraðilar náðu að senda umsögn þar sem tímafrestur var afar knappur.
    Að mati minni hlutans hafa ekki komið fram sannfærandi rök fyrir því að vinna málið í jafnmiklum flýti og gert var. Helstu rökin sem nefnd hafa verið fyrir flýtimeðferðinni eru launagreiðslur til fyrrum starfsmanna tiltekinna fjármálastofnana á uppsagnarfresti. Minni hlutinn hefur skilning á því sjónarmiði. Efasemdir hafa komið um að umrædd lagabreyting muni nægja til þess að hægt verði að greiða út launakröfur og því alls óvíst að því markmiði laganna verði náð. Ef málið hefði komið fyrr inn í þingið og skipulegar hefði verið unnið að því hefði mögulega verið unnt að finna á þessu lausn. Minni hlutinn lýsti sig tilbúinn að koma að slíkri vinnu og ýmsar hugmyndir voru reifaðar sem ekki náðist að skoða.
    Það sem snýr að launagreiðslunum er hins vegar mjög lítill hluti þeirra fjármuna sem um ræðir. Stærsti hluti umsagnaraðila vöruðu við að samþykkja frumvarpið óbreytt og töldu að það gæti ógnað íslenskum hagsmunum á þessum óvissutímum vegna inngripa í þá slitameðferð sem nú er hafin. Alþekkt er að uppgjörsmál föllnu bankanna eru mjög viðkvæm, bæði innan lands og utan. Þess vegna er mikilvægt að öll inngrip verði mjög vel ígrunduð og vönduð. Minni hlutinn leggur ekki mat á það hvort fullyrðingar umsagnaraðila hvað þetta varðar standist. Til þess var tíminn of skammur.

Alþingi, 29. maí 2009.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


frsm.


Ragnheiður E. Árnadóttir.