Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 70. máls.

Þskj. 82  —  70. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 10/2004, um starfsmenn í hlutastörfum.

(Lagt fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009.)




1. gr.

    3. og 4. mgr. 2. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun ráðsins 97/81/EB, um rammasamninginn um hlutastörf sem Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC), Samtök evrópskra iðn- og atvinnurekenda (UNICE) og Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild (CEEP) hafa gert, sem vísað er til í 31. lið XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 104/1998.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram til að innleiða með fullnægjandi hætti tilskipun ráðsins 97/81/EB, um rammasamninginn um hlutastörf sem Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC), Samtök evrópskra iðn- og atvinnurekenda (UNICE) og Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild (CEEP) hafa gert. Eftirlitsstofnun EFTA hefur talið þær undanþágur sem eru í 3. og 4. mgr. 2. gr. laganna of víðtækar svo þær geti samrýmst tilgangi framangreindrar tilskipunar.
    Við smíði frumvarps þessa var haft samráð við Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna, starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök atvinnulífsins. Samkomulag varð um að leggja til við félags- og tryggingamálaráðherra að fella undanþágur sem eru að finna í 3. og 4. mgr. 2. gr. laganna brott. Efni frumvarps þessa er í samræmi við þá tillögu. Sú breyting hefur þó engin áhrif á að ríki og sveitarfélögum verður áfram heimilt að ráða til starfa fólk sem á grundvelli hlutlægra ástæðna fá greitt tímavinnukaup, enda samræmist slík ráðning ákvæðum kjarasamninga og eftir atvikum öðrum lögum. Starfskjör og starfsskilyrði starfsmanns sem er ráðinn á slíkum kjörum en er ekki í fullu starfi skulu þá borin saman við starfskjör og starfsskilyrði sambærilegs starfsmanns, sbr. b-lið 3. gr. laganna, sem er þá starfsmaður í fullu starfi sem fær greitt tímavinnukaup. Tímavinnustarfið sem er fullt starf og þar með viðmiðunarstarfið getur eftir atvikum verið reiknuð stærð en skv. b-lið 3. gr. laganna skal samanburður gerður með vísan til viðeigandi kjarasamnings þegar ekki er sambærilegur starfsmaður í fullu starfi hjá vinnuveitanda og þar sem slíkir samningar eru ekki fyrir hendi með vísan til gildandi laga, annarra kjarasamninga eða venju.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 10/2004,
um starfsmenn í hlutastörfum.

    Með frumvarpinu er lagt til að felldar verði á brott undanþágur um starfsmenn hjá ríki og sveitarfélögum og einnig undanþágur vegna þeirra sem stunda störf á grundvelli grunnnáms, námssamninga eða ráðningarsambands sem er liður í t.d. þjálfun. Frumvarpið er lagt fram til að innleiða með fullnægjandi hætti tilskipun númer 97/81/EB, um rammasamning um hlutastörf.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.