Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 78. máls.

Þskj. 90  —  78. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 139/2003,
um tímabundna ráðningu starfsmanna.

(Lagt fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009.)




1. gr.

    Í stað orðanna „innan þriggja vikna“ í 2. mgr. 5. gr. laganna kemur: innan sex vikna.

2. gr.

    Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun ráðsins 1999/70/EB, um rammasamninginn um tímabundna ráðningu sem Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC), Samtök evrópskra iðn- og atvinnurekenda (UNICE) og Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild (CEEP) hafa gert, sem vísað er til í 32. lið a XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 43/2000.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram til að innleiða með fullnægjandi hætti tilskipun ráðsins 1999/70/EB, um rammasamninginn um tímabundna ráðningu sem Evrópusamband verkalýðsfélaga (ETUC), Samtök evrópskra iðn- og atvinnurekenda (UNICE) og Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild (CEEP) hafa gert. Eftirlitsstofnun EFTA gerði athugasemdir við 2. mgr. 5. gr. laganna í kjölfar þess að Evrópudómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að reglur sem kveða á um að nýr ráðningarsamningur verði ekki talinn taka við af eldri samningi þegar lengri tími en 20 virkir dagar líða milli þess að samningar milli sömu aðila eru gerðir væru í andstöðu við tilgang tilskipunarinnar sem er að koma í veg fyrir misnotkun á tímabundnum ráðningum, sbr. dóm í máli nr. C-212/04 Adeneler.
    Við smíði frumvarps þessa var haft samráð við Alþýðusamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna, starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytis, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök atvinnulífsins. Áhersla er lögð á að meginreglan á íslenskum vinnumarkaði er sú að starfsmenn eru ráðnir ótímabundið enda ríkir hér ákveðinn sveigjanleiki í ráðningum sem ætlað er að auðvelda fyrirtækjum að bregðast við sveiflum í starfsemi þeirra. Samkomulag varð um að leggja til við félags- og tryggingamálaráðherra að nýr ráðningarsamningur teljist taka við af öðrum samningi sé hann framlengdur eða ef nýr tímabundinn samningur kemst á milli sömu aðila innan sex vikna frá lokum gildistíma eldra samnings í stað þriggja vikna. Þykja sex vikur hæfilegur tími í þessu tilliti og talinn ná tilgangi laganna við að koma í veg fyrir misnotkun á tímabundnum ráðningum. Er efni frumvarps þessa í samræmi við þá tillögu. Svo virðist sem ágreiningur um ætlaða misnotkun á tímabundnum ráðningarsamningum hafi ekki komið oft til kasta íslenskra dómstóla og má því ætlað að þessi breyting komi til með að hafa lítil áhrif á tímabundnar ráðningar á innlendum vinnumarkaði.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 139/2003,
um tímabundna ráðningu starfsmanna.

    Með frumvarpinu er lagt til að nýr ráðningarsamningur teljist taka við af öðrum samningi sé hann framlengdur eða ef nýr tímabundinn samningur kemst á milli sömu aðila innan sex vikna frá lokum gildistíma eldri samnings í stað þriggja vikna. Frumvarpið er lagt fram til að innleiða með fullnægjandi hætti tilskipun nr. 1999/70/EB, um rammasamning um tímabundna ráðningu.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.