Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 34. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 107  —  34. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt á l. nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurgeir Þorgeirsson, ráðuneytisstjóra í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Jóhann Guðmundsson, aðstoðarmann ráðherra, Arthur Bogason, formann Landssambands smábátaeigenda, Jóhann Sigurjónsson, forstjóra Hafrannsóknastofnunarinnar, Friðrik Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Árna Múla Jónasson aðstoðarforstjóra og Auðun Ágústsson forstöðumann frá Fiskistofu, Gunnlaug Júlíusson sviðsstjóra frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Guðmund Ragnarsson frá Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Guðberg Rúnarsson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Árna Bjarnason fyrir hönd Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Félags skipstjórnarmanna, Gunnar Val Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Magnús Daníelsson og Vigni Sigursveinsson frá Eldingu, Hermann Guðjónsson frá Siglingastofnun, Erlu Friðriksdóttur, bæjarstjóra í Stykkishólmi, Gretar D. Pálsson, forseta bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar, og Ómar Má Jónsson, bæjarstjóra í Súðavík.
    Umsagnir bárust frá Sjómannasambandi Íslands, Útvegsmannafélagi Snæfellsness, Helga Áss Grétarssyni, sérfræðingi við Lagastofnun Háskóla Íslands, Svavari Thorsteinssyni, Kjartani Ragnarssyni, Reiknistofu fiskmarkaða, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Félagi skipstjórnarmanna, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum fiskvinnslustöðva, Hafrannsóknastofnuninni, Byggðastofnun, Samtökum ferðaþjónustunnar og Landssambandi smábátaeigenda.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, m.a. er lagt til að ráðherra fái heimild til að leyfa takmarkaðar veiðar í fræðsluskyni og að leyfilegum heildarafla í karfa verði skipt upp í veiðar úr gullkarfa og djúpkarfa. Í frumvarpinu er lagt til að settar verði ítarlegar reglur um frístundaveiðar sem fara fram á vegum ferðaþjónustuaðila. Frístundaveiðar við Ísland eru nýr vaxandi þáttur í ferðaþjónustu hér á landi og aðeins örfá ár síðan slíkar veiðar hófust hér við land. Við gerð frumvarpsins var höfð hliðsjón af skýrslu starfshóps sem skipaður var af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að fjalla um frístundaveiðar. Loks er lagt til í frumvarpinu að heimilaðar verði frjálsar handfæraveiðar, strandveiðar, á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst 2009 sem takmarkast af þeim aflaheimildum sem sérstaklega er ráðstafað til veiðanna. Með frjálsum handfæraveiðum yfir sumartímann er opnað fyrir handfæraveiðar allra þeirra báta sem uppfylla skilyrði sem gerð eru til fiskiskipa sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni, þannig að opnað er fyrir takmarkaðar veiðar þeirra sem ekki eru handhafar aflamarks eða krókaaflamarks.
    Meiri hluti nefndarinnar styður hugmyndir um að leyfa takmarkaðar veiðar í fræðsluskyni, t.d. á skólabátum. Veiðarnar eru óverulegar og fara fyrst og fremst fram til að kynna fyrir nemendum í skólum landsins veiðar og veiðarfæri. Ráðherra hefur ekki haft slíka heimild en margar umsóknir berast um slíkt árlega frá fræðsluyfirvöldum.
    Meiri hlutinn telur mikilvægt að settar verði ítarlegar reglur um frístundaveiðar sem fara fram á vegum ferðaþjónustuaðila. Með frumvarpinu er ætlað að skýra og styrkja starfsumhverfi þessarar greinar ferðaþjónustunnar eins og hún snýr að markmiðum fiskveiðistjórnarinnar. Meiri hlutinn telur rétt að breyta orðalagi 1. tölul. 4. efnismgr. 2. gr. þar sem tilgreindur er ákveðinn fjöldi stanga/færarúlla sem heimilt er að nota og fiska sem heimilt er að veiða. Lagt er til að ráðherra verði heimilað að setja nánari leiðbeiningar í reglugerð í tengslum við leyfi það sem tilgreint er í 1. tölul. 4. efnismgr. 2. gr., m.a. um fjölda sjóstanga og/eða færarúlla sem heimilt er að nota hverju sinni og fjölda fiska. Einnig leggur meiri hlutinn til að viðurlagaákvæði verði bætt við greinina.
    Helstu sjónarmið sem komu fram á fundum nefndarinnar varðandi strandveiðihluta frumvarpsins snúa m.a. að úthlutun hluta af byggðakvóta á yfirstandandi fiskveiðiári til strandveiða og áhrif þess á byggðir landsins. Þær athugasemdir hafa komið fram að sú leið sem lögð er til í frumvarpinu um að nýta hluta byggðakvóta á þennan hátt geti koma niður á ákveðnum byggðarlögum. Í því samhengi var fjallað um svæðaskiptingu þá sem lögð er til í frumvarpinu. Meiri hlutinn telur svæðaskiptinguna til þess gerða að koma til móts við byggðasjónarmið og telur því í ljósi fram kominna athugasemda rétt að reynt verði að koma enn frekar til móts við þau byggðarlög sem verða fyrir skerðingu á byggðakvóta. Meiri hlutinn leggur því til að ráðherra verði heimilað að setja í reglugerð ákvæði um frekari svæðaskiptingu með það að markmiði að koma til móts við þau sveitarfélög sem fá nú minni byggðakvóta í sinn hlut.
    Fjallað var um að aukið eftirlit þarf til að halda utan um veiðarnar. Fram hefur komið á fundum nefndarinnar að slíkar ráðstafanir munu ekki reynast flóknar né kostnaðarsamar að mati framkvæmdaraðila.
    Einnig var rætt um þau skilyrði sem sett eru fram í 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I. Takmarkanir þessar eru mikilvægar til að frumvarpið nái þeim tilgangi sínum að styrkja og örva atvinnustarfsemi í sjávarbyggðum sem og að auka nýliðun í greininni. Það er mat meiri hluta nefndarinnar að rétt sé að gera nokkrar breytingar á þeim skilyrðum sem fram koma í greininni. Meiri hlutinn leggur til að banndögum verði breytt í föstudag og laugardag. Er það gert í því skyni að bæta hráefnismeðferðina þar sem betri skilyrði eru til vinnslu og að koma afla á markað ef miðað er við þá daga. Einnig er lögð til sú breyting að felld verði út skilyrði um tvær rúllur á mann að hámarki. Þess í stað er lagt til að miðað verði við fjögurra rúllu hámark en það er hagkvæmara í framkvæmd. Loks leggur nefndin til að hlutfall ufsaafla af þorskafla hverrar veiðiferðar verði hækkað úr 15% í 30%. Bent hefur verið á að hlutfall ufsa af handfæraafla var hátt á síðasta fiskveiðiári og telur nefndin því rétt að hækka viðmiðunarhlutfallið m.a. til að koma í veg fyrir að meðafla umfram viðmiðunarmörk verði kastað fyrir borð. Telur meiri hlutinn breytingar þessar til þess fallnar að koma til móts við sjónarmið sem fram komu á fundum nefndarinnar.
    Í meðferð málsins hjá nefndinni hafa komið fram athugasemdir í tengslum við ákvæði til bráðabirgða II og snúa þær að úthlutun aflahlutdeildar í gullkarfa og djúpkarfa. Leggur meiri hluti nefndarinnar til að ákvæðið verði tekið til endurskoðunar í ljósi þessa og lagt fram síðar.
    Meiri hlutinn telur rétt að árétta mikilvægi þess að ákvæði til bráðabirgða I verði tekið til endurskoðunar í haust með hliðsjón af reynslu sumarsins þar sem hér er um tilraun að ræða. Líta verður til þeirra þátta sem kunna að hafa áhrif, svo sem byggðasjónarmiða, samfélagslegs ávinnings af tilrauninni o.fl.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Ásmundur Einar Daðason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 11. júní 2009.Ólína Þorvarðardóttir,


varaform., frsm.


Arndís Soffía Sigurðardóttir.


Álfheiður Ingadóttir.Róbert Marshall.


Helgi Hjörvar.