Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 114. máls.

Þskj. 143  —  114. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um kjararáð og fleiri lögum.

(Lagt fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um kjararáð, nr. 47/2006, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Kjararáð skal einnig ákveða laun og starfskjör forstöðumanna hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins og félaga sem eru að meiri hluta í eigu félaga sem undir þessa málsgrein falla.

2. gr.

    Við 1. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður er verður 2. málsl., svohljóðandi: Við ákvörðun sína skal kjararáð gæta þess að föst laun fyrir dagvinnu, annarra en forseta Íslands, verði ekki hærri en föst laun forsætisráðherra skv. 3. gr.

II. KAFLI
Breyting á lögum um Ríkisútvarpið ohf., nr. 6/2007, með síðari breytingum.
3. gr.

    Orðin „ákveða laun hans og önnur starfskjör“ í 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna falla brott.

4. gr.

    1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Útvarpsstjóri er framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins ohf. og skal uppfylla skilyrði 2. mgr. 8. gr. Kjararáð ákveður starfskjör útvarpsstjóra. Útvarpsstjóri er jafnframt æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar.

III. KAFLI
Breyting á samkeppnislögum, nr. 44/2005, með síðari breytingum.
5. gr.

    1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Forstjóri Samkeppniseftirlitsins skal ráðinn af stjórn stofnunarinnar og setur hún honum starfslýsingu. Kjararáð ákveður starfskjör forstjóra. Forstjóri annast daglega stjórnun á starfsemi og rekstri stofnunarinnar.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, með síðari breytingum.
6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna:
     a.      Við bætist nýr málsliður er verður 3. málsl., svohljóðandi: Kjararáð skal ákveða laun og önnur starfskjör bankastjóra, þ.m.t. rétt til biðlauna og eftirlauna og önnur atriði sem varða fjárhagslega hagsmuni hans.
     b.      B-liður fellur brott.

V. KAFLI
Breyting á lögum um Byggðastofnun, nr. 106/1999.
7. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Kjararáð ákveður starfskjör forstjóra.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi,
nr. 87/1998, með síðari breytingum.

8. gr.

    3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna orðast svo: Kjararáð ákveður starfskjör forstjóra.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum.
9. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist nýr málsliður er verður 2. málsl., svohljóðandi: Kjararáð ákveður starfskjör framkvæmdastjóra.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins,
nr. 61/1997, með síðari breytingum.

10. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 2. mgr., svohljóðandi:
    Kjararáð ákveður starfskjör framkvæmdastjóra.

IX. KAFLI
Breyting á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum.
11. gr.

    Við 2. mgr. 79. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Kjararáð ákveður laun og starfskjör framkvæmdastjóra hlutafélags sem er að meiri hluta í eigu ríkissjóðs og framkvæmdastjóra hlutafélags í eigu þess.

12. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 79. gr. a laganna orðast svo: Félagsstjórn í félagi sem ber skylda til að kjósa sér endurskoðanda skv. 1.–3. mgr. 98. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, eða hlutafélagi sem ríkissjóður á helmingshlut eða meira í og lýtur endurskoðun skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 86/1997, um Ríkisendurskoðun, skal samþykkja starfskjarastefnu félagsins varðandi laun og aðrar greiðslur til forstjóra og annarra æðstu stjórnenda félagsins, svo og stjórnarmanna þess, þó ekki laun og aðrar greiðslur til forstjóra hlutafélags sem er að meiri hluta í eigu ríkissjóðs og forstjóra hlutafélags í eigu þess.

X. KAFLI
Breyting á lögum um Landsvirkjun, nr. 42/1983, með síðari breytingum.
13. gr.

    1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Stjórn Landsvirkjunar ræður forstjóra er veitir fyrirtækinu forstöðu. Kjararáð ákveður starfskjör forstjóra. Forstjóri skal eiga sæti á stjórnarfundum.

XI. KAFLI
Gildistaka.
14. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Meginverkefni efnahagsmála næstu missiri er að ná aftur jafnvægi í rekstri ríkissjóðs, endurreisa fjármálakerfið, ná þjóðarsátt um lykilmarkmið og viðamiklar efnahagsráðstafanir eftir hrun fjármálakerfisins. Eitt af mikilvægustu verkefnum í efnahagsmálum næstu missiri er því á sviði ríkisfjármála. Lykill að endurreisn íslensks efnahagslífs felst í víðtækum aðgerðum á sviði ríkisfjármála með það að markmiði að mæta hinu mikla tekjufalli sem ríkissjóður hefur orðið fyrir vegna efnahagshrunsins og þeim miklu skuldum sem það skilur eftir sig. Meginmarkmið frumvarpsins er að laga rekstur ríkisins að gjörbreyttum efnahagslegum raunveruleika til þess að mæta stórfelldum tekjusamdrætti vegna efnahagskreppunnar.
Frumvarpið mælir fyrir um að við verkefni kjararáðs bætist það verkefni að taka ákvörðun um launakjör forstöðumanna hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins og forstöðumanna félaga í eigu þeirra. Hér undir falla m.a. hlutafélögin Nýi Kaupþing banki hf., Nýi Landsbankinn hf. og Íslandsbanki hf., opinberu hlutafélögin Flugstoðir ohf., Íslandspóstur ohf., Keflavíkurflugvöllur ohf., Matís ohf., Neyðarlínan ohf., Orkubú Vestfjarða ohf., Rafmagnsveitur ríkisins ohf. og Ríkisútvarpið ohf., stofnanirnar Byggðastofnun, Fjármálaeftirlitið, Samkeppniseftirlitið og Seðlabanki Íslands, sjóðirnir Íbúðalánasjóður og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og sameignarfyrirtækið Landsvirkjun.
    Loks eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem lúta að því að færa ákvörðun um starfskjör forstöðumanna hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins frá stjórnum til kjararáðs.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um breytingu á meginverkefni kjararáðs. Ráðið ákveður nú með bindandi hætti laun og starfskjör æðstu handhafa ríkisvalds og þeirra ríkisstarfsmanna sem svo háttar til um vegna eðlis starfa þeirra eða samningsstöðu að launakjör geta ekki ráðist með samningum á venjulegan hátt. Lagt er til að bætt sé inn í upptalningu þeirra starfa sem falla undir úrskurðarvald kjararáðs að ráðið ákveði einnig laun og starfskjör forstöðumanna hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins. Einnig taki ákvæðið til ákvörðunar launa og starfskjara forstöðumanna félaga sem eru í eigu hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins.

Um 2. gr.


    Í greininni er mælt fyrir um að í ákvörðunum sínum skuli kjararáð gæta þess að föst laun fyrir dagvinnu, annarra en forseta Íslands, verði ekki hærri en föst laun forsætisráðherra. Það að ákvæðið tekur ekki til forseta Íslands helgast af ákvæði 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar þar sem kemur fram að óheimilt skuli að lækka greiðslur af ríkisfé til forseta á kjörtímabili hans. Aðilum þeim, sem kjararáð ákveður laun, verður ekki ákveðin sérstök greiðsla á sama hátt og þeim sem starfa samkvæmt kjarasamningum fyrir þá vinnu sem þeir kunna að láta í té umfram 40 klst. dagvinnutíma. Því er gert ráð fyrir að kjararáð meti laun fyrir þá vinnu sem látin er í té utan hins daglega vinnutíma og talinn er þáttur í venjubundnu starfi viðkomandi aðila. Í því sambandi ber ráðinu einnig að meta hvaða störf teljist aukastörf sem launa beri aukalega og hvaða störf tilheyri aðalstarfi. Þá ber kjararáði við samanburð við launakjör annarra að taka tillit til sérstakra kjara og hlunninda er starfinu fylgja, þ.m.t. lífeyrisréttindi, veikindaréttur o.s.frv. Á móti ber að taka tillit til kvaða sem á embættinu kunna að hvíla.

Um 3.–13. gr.


    Í greinunum eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á ýmsum lögum til að færa ákvörðun um starfskjör forstöðumanna stofnana þar sem stjórnir ákveða starfskjör þeirra og forstöðumanna hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins og forstöðumanna félaga í eigu þeirra til kjararáðs.

Um 14. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um kjararáð og fleiri lögum.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum í þeim tilgangi að færa til kjararáðs ákvörðunarvald um launakjör forstöðumanna hlutafélaga og annars konar félaga sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins. Undir þetta falla m.a. hlutafélögin Nýi Kaupþing banki, Nýi Landsbankinn og Íslandsbanki, opinberu hlutafélögin Flugstoðir, Íslandspóstur, Keflavíkurflugvöllur, Matís, Neyðarlínan, Orkubú Vestfjarða, Rafmagnsveitur ríkisins og Ríkisútvarpið, auk Byggðastofnunar og Seðlabanka Íslands. Íbúðalánasjóður, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og sameignarfyrirtæki Landsvirkjunar munu sömuleiðis falla hér undir. Þetta á einnig við um félög sem eru í meirihlutaeigu nefndra félaga. Ákvarðanir um launa- og starfskjör forstöðumanna Fjármálaeftirlitsins og Samkeppnisstofnunar, sem eru A-hluta stofnanir, verða sömuleiðis færðar undir kjararáð. Jafnframt er tekið fram að í ákvörðunum sínum skuli kjararáð gæta þess að föst laun fyrir dagvinnu þeirra aðila sem undir kjararáð heyra, annarra en forseta Íslands, verði ekki hærri en föst laun forsætisráðherra. Þetta á jafnt við um þá aðila sem færast undir ráðið nú og þá aðila sem kjararáð hefur úrskurðað um launa- og starfskjör til þessa.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að launakostnaður stofnana í A-hluta ríkissjóðs fyrir dagvinnu lækki um allt að 12 m.kr. á ári en breytingin hefur áhrif á launakjör þriggja aðila. Áhrif á launakostnað annarra aðila utan A-hluta ríkissjóðs, eins og hlutafélaga, opinberra hlutafélaga og félaga sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins er nokkuð erfitt að meta og fara þau eftir útfærslu á launakjörum. Gera má þó ráð fyrir að árleg lækkun launakostnaðar þessara aðila gæti orðið allt að 38 m.kr., en breytingin gæti haft áhrif á níu aðila. Í þessum tölum er ekki lagt mat á afleidd áhrif á hugsanlega lækkun launa næstæðstu stjórnenda í viðkomandi stofnunum eða félögum sem gætu orsakast af lækkun launa forstöðumanna.