Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 118. máls.

Þskj. 155  —  118. mál.Frumvarp til laga

um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

(Lagt fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009.)
I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.
1. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „0,65%“ í 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: 2,21%.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum.
2. gr.

    1. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „0,1%“ í 2. mgr. 23. gr. laganna kemur: 0,2%.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á viðauka I við lögin:
     a.      E-liður viðaukans verður svohljóðandi: Vörur í 16. til og með 21. kafla, þó ekki vörur í eftirfarandi tollskrárnúmerum:
17011100 18063109 20092910 20096124
17011200 18063201 20092921 20096125
17019101 18063202 20092922 20096126
17019102 18063203 20092923 20096129
17019103 18063209 20092924 20096190
17019104 18069023 20092925 20096910
17019105 18069024 20092926 20096921
17019106 18069025 20092929 20096922
17019107 18069026 20092990 20096923
17019109 18069028 20093110 20096924
17019901 18069029 20093121 20096925
17019902 18069039 20093122 20096926
17019903 19052000 20093123 20096929
17019904 19053110 20093124 20096990
17019905 19053120 20093125 20097110
17019906 19053131 20093126 20097121
17019907 19053139 20093129 20097122
17019909 19053201 20093190 20097123
17021100 19053209 20093910 20097124
17021900 20091110 20093921 20097125
17022000 20091121 20093922 20097126
17023001 20091122 20093923 20097129
17023002 20091123 20093924 20097190
17023009 20091124 20093925 20097910
17024001 20091125 20093926 20097921
17024002 20091126 20093929 20097922
17024009 20091129 20093990 20097923
17025000 20091190 20094110 20097924
17026000 20091210 20094121 20097925
17029001 20091221 20094122 20097926
17029002 20091222 20094123 20097929
17029003 20091223 20094124 20097990
17029004 20091224 20094125 20098010
17029009 20091225 20094126 20098021
17041000 20091226 20094129 20098022
17049001 20091229 20094190 20098023
17049002 20091290 20094910 20098024
17049003 20091910 20094921 20098025
17049004 20091921 20094922 20098026
17049005 20091922 20094923 20098029
17049006 20091923 20094924 20098090
17049007 20091924 20094925 20099010
17049008 20091925 20094926 20099021
17049009 20091926 20094929 20099022
18050001 20091929 20094990 20099023
18050009 20091990 20095010 20099024
18061001 20092110 20095021 20099025
18061009 20092121 20095022 20099026
18062001 20092122 20095023 20099029
18062003 20092123 20095024 20099090
18062004 20092124 20095025 21069011
18062005 20092125 20095026 21069019
18062006 20092126 20095029 21069021
18062009 20092129 20095090 21069022
18063101 20092190 20096110 21069031
20096121 21069039
20096122 21069061
20096123 21069063
     b.      F-liður viðaukans fellur brott.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur,
með síðari breytingum.
5. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Greiðslutímabil skatts samkvæmt lögum þessum skal vera þrír mánuðir, þ.e. janúar–mars, apríl–júní, júlí–september og október–desember. Gjalddagar eru 20. apríl, 20. júlí, 20. október og 20. janúar og er eindagi 15 dögum síðar.
    

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.
6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Á eftir 7. tölul. kemur nýr töluliður, svohljóðandi: Allir aðilar sem hafa vaxtatekjur hér á landi af bankainnstæðum, verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum, skuldabréfum eða öðrum kröfum og fjármálagerningum, sbr. 3. tölul. C-liðar 7. gr., skulu greiða tekjuskatt af þeim tekjum. Ákvæði þetta gildir þó hvorki um vexti sem greiddir eru af Seðlabanka Íslands né þá vexti sem greiðast erlendum ríkjum, alþjóðastofnunum eða öðrum opinberum aðilum sem undanþegnir eru skattskyldu í heimilisfestarríki sínu. Þá á ákvæðið ekki við í þeim tilvikum þar sem um er að ræða tvísköttunarsamning milli Íslands og heimilisfestisríkis móttakanda vaxtanna þar sem kveðið er á um að ekki skuli draga afdráttarskatt af vaxtatekjum. Fjármálaráðherra er heimilt að setja reglugerð er kveður nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis.
     b.      Í stað orðanna „4.–7. tölul.“ í 8. tölul. kemur: 4.–8. tölul.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 70. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „8. tölul.“ í 1. málsl. 1. mgr. 3. tölul. kemur: 9. tölul.
     b.      Á eftir orðunum „skv. 3. gr. af“ í 4. tölul. kemur: vöxtum.

8. gr.

    Á eftir 2. mgr. 94. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Ríkisskattstjóra er heimilt, að virtum ákvæðum 8. mgr., að ákveða dagsektir á lögaðila og einstaklinga sem ekki standa skil á gögnum í þágu skatteftirlits skv. 2. mgr. 101. eða 102. gr. þannig að unnt sé að sannreyna hvort skattskil þeirra eða annarra aðila séu í samræmi við lög. Heimild ríkisskattstjóra til að leggja á sektir samkvæmt þessari málsgrein er óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar einstaklinga eða fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðila. Dagsektirnar geta numið frá 10.000 kr. til 1 millj. kr. á dag og er heimilt að ákveða þær sem hlutfall af tilteknum stærðum í skattskilum aðila. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða þeirra hagsmuna sem tengdir eru afhendingu gagna. Sektarákvörðun ríkisskattstjóra er kæranleg til yfirskattanefndar, sbr. lög nr. 30/1992. Ákvarðanir um dagsektir samkvæmt þessari grein eru aðfararhæfar. Innheimtar dagsektir renna til ríkissjóðs.
    Heimilt er að kveða nánar á um ákvörðun og innheimtu dagsekta í reglugerð sem fjármálaráðherra setur.

9. gr.

    Á eftir 2. mgr. 96. gr. laganna koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Skattaðili, sem tregðast við að veita umbeðnar upplýsingar, veitir villandi eða ófullnægjandi upplýsingar eða tálmar því á annan hátt að skatteftirlit skv. 2. mgr. 101. gr. eða 102. gr. geti farið fram með skilvirkum hætti, skal þegar af þeirri ástæðu, þrátt fyrir ákvæði 3. málsl. 1. mgr. þessarar greinar, ef hagsmunir eru ríkir, sæta því að vikið sé til hliðar þeim þáttum sem eru til skoðunar í skattskilum hans að hluta til eða í heild og að skattstofnar hans verði áætlaðir.
    Skattstjóra eða ríkisskattstjóra er heimilt, áður en tilkynning til skattrannsóknarstjóra er send skv. 8. mgr. þessarar greinar, að ákvarða skattstofna að virtum ákvæðum 108. gr. og reikna skatt að nýju þegar með hlutlægum hætti liggur skjalfest fyrir að vantaldir skattstofnar hafa verið leiddir fram á grundvelli gagna og/eða upplýsinga sem aflað hefur verið við framkvæmd skatteftirlits.

10. gr.

    Á eftir 3. málsl. 1. mgr. 102. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Í skatteftirliti felast þær aðgerðir skattstjóra eða ríkisskattstjóra sem framkvæmdar eru með hlutlægum hætti við öflun þeirra gagna og skýringa sem nauðsynlegar teljast í því skyni að sannreyna grundvöll skattframtala og annarra skýrslna sem lagðar hafa verið fram til ákvörðun skattstofna án þess að fram fari könnun á því hvort rangfærslur séu mögulega gerðar af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi skattaðila.

VI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda,
með síðari breytingum.
11. gr.

    Í stað orðanna „2., 3., 6. og 7. tölul. 3. gr.“ í 2. málsl. A-liðar 2. gr. laganna kemur: 2., 3., 6., 7. og 8. tölul. 3. gr.

12. gr.

    Í stað orðanna „2., 3., 6. og 7. tölul. 3. gr.“ í 6. tölul. 5. gr. laganna kemur: 2., 3., 6., 7. og 8. tölul. 3. gr.

13. gr.

    Í stað orðanna „2., 3. og 7. tölul. 3. gr.“ í 4. mgr. 9. gr. laganna kemur: 2., 3., 7. og 8. tölul. 3. gr.

VII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum.
14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „örorkustyrk“ í 1. málsl. a-liðar 2. mgr. kemur: aldurstengdri örorkuuppbót.
     b.      Í stað „22. gr.“ í 1. málsl. a-liðar 2. mgr. kemur: 21. og 22. gr.
     c.      2. og 3. málsl. b-liðar 2. mgr. orðast svo: Ellilífeyrisþegi skal hafa 480.000 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar. Örorkulífeyrisþegi skal hafa 300.000 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar.
     d.      Orðin „skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum“ í 3. mgr. falla brott.

15. gr.

    3. málsl. 1. mgr. 21. gr. laganna orðast svo: Um uppbótina gilda ákvæði 1. mgr., sbr. 2. mgr., 2. málsl. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. um búsetutíma, örorkumat og skerðingu vegna tekna.

16. gr.

    Við 2. mgr. 22. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum undir 120.000 kr. á ári skulu þó ekki skerða tekjutryggingu samkvæmt þessari málsgrein.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.
17. gr.

    2. málsl. b-liðar 1. mgr. 26. gr. laganna orðast svo: Vistmaður skal hafa 480.000 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning vistunarframlags.

IX. KAFLI
Breyting á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof,
með síðari breytingum.
18. gr.

    Í stað tölunnar „18“ í 2. og 5. mgr. 8. gr. laganna kemur: 36.

19. gr.

    Í stað „400.000 kr.“ í 3. mgr. 13. gr. laganna kemur: 350.000 kr.

X. KAFLI
Breyting á lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, með síðari breytingum.
20. gr.

    Við 1. mgr. 126. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Ráðherra getur jafnframt með reglugerð kveðið á um hámark gjafsóknarfjárhæðar í einstökum málaflokkum sem og hámark þeirra tekna sem umsækjandi má hafa til að fá gjafsókn vegna efnahags.

XI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 88/2008, um meðferð sakamála, með síðari breytingum.
21. gr.

    Við 3. mgr. 38. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Ráðherra er heimilt í reglugerð að mæla fyrir um tímagjald sem tekið skal mið af við ákvörðun þóknunar.

22. gr.

    Við 3. mgr. 48. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Ráðherra er heimilt í reglugerð að mæla fyrir um tímagjald sem tekið skal mið af við ákvörðun þóknunar.

XII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 91/1987, um sóknargjöld o.fl., með síðari breytingum.

23. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Þjóðkirkjusöfnuðir og skráð trúfélög samkvæmt lögum um trúfélög skulu eiga ákveðna hlutdeild í tekjuskatti álögðum samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt eftir því sem lög þessi ákveða.

24. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo: Ríkissjóður skal skila 15. hvers mánaðar, af óskiptum tekjuskatti, fjárhæð er rennur til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga.

25. gr.

    Orðin „Vegna einstaklings, sem hvorki er í þjóðkirkjunni né skráðu trúfélagi samkvæmt lögum nr. 18/1975, greiðist gjaldið til Háskóla Íslands“ í 1. mgr. 3. gr. laganna falla brott.

26. gr.

    Fyrirsögn I. kafla laganna orðast svo: Um hlutdeild þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga í tekjuskatti.

XIII. KAFLI
Breyting á lögum nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, með síðari breytingum.
27. gr.

    Í stað tölunnar „100.000“ í 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: 400.000.

XIV. KAFLI
28. gr.
Brottfall laga nr. 84/2008, um uppbót á eftirlaun.

    Lög nr. 84/2008, um uppbót á eftirlaun, falla brott.

XV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, með síðari breytingum.
29. gr.

    Í stað ártalsins „2011“ í 8. gr. laganna kemur: 2014.

XVI. KAFLI
Gildistaka.
30. gr.

    Ákvæði 1.–3., 14.–17. og 20.–27. gr. öðlast gildi 1. júlí 2009 og á 2. gr. við um kröfur sem falla í gjalddaga 1. júlí 2009 eða síðar.
    Ákvæði 4. gr. öðlast gildi 1. september 2009.
    Ákvæði 5., 8.–10., 28. og 29. gr. öðlast þegar gildi.
    Ákvæði 6. gr. öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda vegna vaxta sem gjaldfalla og verða greiðslukræfir frá og með 1. september 2009 eða síðar. Hafi hluti vaxta áunnist fyrir gildistöku laganna eru þeir hvorki skattskyldir né staðgreiðsluskyldir.
     Ákvæði 7. gr. öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda árið 2010 vegna tekna frá og með 1. september 2009.
    Ákvæði 11., 12. og 13. gr. öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda frá og með 1. janúar 2010.
    Ákvæði 18. og 19. gr. öðlast gildi 1. júlí 2009 og eiga við um foreldra barna sem fæðast 1. júlí 2009 eða síðar.
    Ákvæði til bráðabirgða I–III um skattskyldu tekna taka þegar gildi og koma til framkvæmda í staðgreiðslu frá og með 1. júlí 2009 og við álagningu opinberra gjalda 2010.
    Ákvæði til bráðabirgða IV tekur gildi frá og með 16. júní 2009.
    Ákvæði til bráðabirgða V og VI tekur gildi 1. júlí 2009.
    Ákvæði til bráðabirgða VII tekur þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Við lög nr. 90/2003, um tekjuskatt, bætist eftirfarandi ákvæði til bráðabirgða:
    Við álagningu gjalda árið 2010 skal leggja sérstakan 8% tekjuskatt á tekjuskattsstofn einstaklings umfram 4.200.000 kr. á tímabilinu frá og með 1. júlí til 31. desember 2009.     
    Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 3. mgr. 66. gr. skal tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga utan rekstrar sem falla til á tímabilinu 1. júlí til 31. desember 2009 vera 15% af því sem þær tekjur eru umfram 250.000 kr. Þó skal tekjuskattur ávallt reiknast af 70% hundraðshluta framtalinna leigutekna. Þegar um hjón eða samskattað fólk er að ræða skal þrátt fyrir 2. tölul. 1. mgr. 62. gr. skipta fjármagnstekjum jafnt á milli þeirra þegar tekjuviðmiðun þessi er fundin.
    Tekjuskattur lögaðila, skv. 3. og 4. mgr. 71. gr., skal frá sama tímamarki vera 15% af arðstekjum og öðrum fjármagnstekjum eftir því sem við á.

II.

    Við lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, bætist eftirfarandi ákvæði til bráðabirgða:
    Frá og með 1. júlí til 31. desember 2009 skal launagreiðandi reikna til viðbótar staðgreiðslu skv. 15. gr. laga þessara sérstakan 8% tekjuskatt af launum umfram 700.000 kr. á mánuði hjá hverjum einstaklingi.

III.

    Við lög nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, bætist eftirfarandi ákvæði til bráðabirgða:
    Frá og með 1. júlí 2009 skal skilaskyldum aðilum skv. 3. gr. skylt að halda eftir auk 10% tekjuskatts 5% skatti af staðgreiðsluskyldum fjármagnstekjum skattskyldra aðila, sbr. 2. gr., umfram 125.000 kr. á hverju greiðslutímabili, sbr. 7. gr., sem til falla eftir 1. júlí 2009 af eldri kröfum, sem og kröfum sem stofnað er til eftir það, sbr. 4. og 5. gr. laganna. Af fjármagnstekjum sem falla til fyrir 1. júlí 2009 reiknast 10% fjármagnstekjuskattur. Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.
    Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. laga þessara skal gjalddagi greiðslutímabils frá og með 1. janúar til 30. júní 2009 vera 20. júlí 2009 og eindagi 15 dögum síðar.

IV.

    Við lög nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, bætist eftirfarandi ákvæði til bráðabirgða:
    Sé ekki komið með ökutæki til álestrar á fyrsta álestrartímabili 2009, sem er frá 1. til 15. júní 2009, sbr. 1. mgr. 14. gr. laganna, skal reikna út meðaltal ekinna kílómetra á dag á tímabilinu milli álestra. Þá skal hið nýja gjald innheimt eftir meðaltalsakstri eftir lok fyrrgreinds álestrartímabils.

V.

    Við lög nr. 100/2007, um almannatryggingar, bætist eftirfarandi ákvæði til bráðabirgða:
    Þrátt fyrir ákvæði 2., 3. og 4. mgr. 22. gr. laganna skal skerðingarhlutfallið vera 45% á tímabilinu 1. júlí 2009 til og með 31. desember 2013.

VI.

    Við lög nr. 91/1987, um sóknargjöld, bætist eftirfarandi ákvæði til bráðabirgða:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. laganna, með síðari breytingum, skal gjald sem rennur til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga vera 811 kr. á mánuði frá gildistöku laga þessara út árið 2009 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldaári. Fyrir árið 2010 skal gjaldið vera 767 kr. á mánuði fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldaári.

VII.

    Við lög nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, bætast eftirfarandi ákvæði til bráðabirgða:
    Þrátt fyrir ákvæði 8. og 10. gr. laganna skal óbyggðanefnd ekki taka til meðferðar ný svæði né fjármálaráðherra lýsa kröfum ríkis um þjóðlendur fyrr en í fyrsta lagi 1. janúar 2012. Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er heimilt er að ráða starfsmenn óbyggðanefndar tímabundið fram til ársloka 2011 til annarra sambærilegra starfa innan Stjórnarráðs Íslands.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Eitt af mikilvægustu verkefnum í efnahagsmálum næstu missiri eru á sviði ríkisfjármála. Víðtækar aðgerðir á sviði ríkisfjármála eru nauðsynlegar til að mæta því mikla tekjufalli og þeim útgjaldaauka sem ríkissjóður hefur orðið fyrir vegna efnahagshrunsins og þeirra miklu skulda sem það skilur eftir sig. Þær ráðstafanir sem frumvarp þetta fjallar um eru hluti víðtækrar áætlunar um jöfnuð í ríkisfjármálum sem ríkisstjórnin vinnur að og verður gerð opinber á næstu dögum. Sjá má útlínur þeirrar áætlunar í eftirfarandi töflum.
    Með hruni íslensku bankanna í október 2008 var fótum á ýmsan hátt kippt undan íslensku efnahagslífi og fjármál ríkisins sett í uppnám. Í fallinu drógu bankarnir með sér fjölda annarra fyrirtækja, sem ánetjast höfðu áhættusækinni fjármálastarfsemi og sett ábatasama og heilbrigða starfsemi að veði fyrir skammtíma gróðavon. Fjöldi heimila hafði einnig fyrir tilstilli bankanna reist sér hurðarás um öxl og bundið sér illbærilega skuldabagga.
    Óhjákvæmilegt var að bregðast við því ástandi sem myndast hafði með róttækum aðgerðum. Með neyðarlögum var sparnaði landsmanna komið í skjól eins og kostur var á. Hjá því varð hins vegar ekki komist að gífurlegt tjón varð af hruninu hjá einstaklingum, fyrirtækjum og ríkinu.
    Áhrif bankahrunsins og kreppunnar í kjölfar þess á fjármál ríkisins urðu geysileg. Ríkissjóður hafði um langt árabil verið rekinn í nokkru jafnvægi en það breyttist í einu vetfangi í það að vera með halla á yfirstandandi ári, sem er áætlaður um 170 ma.kr. eða um 12,5% af VLF. Breytinguna má rekja bæði til aukinna útgjalda og tekjufalls. Til viðbótar við hækkun á ýmsum útgjöldum sem tengjast hruninu, svo sem atvinnuleysisbótum, komu stórauknar vaxtagreiðslur vegna skulda sem féllu á ríkissjóð. Eftirfarandi tafla sýnir þróun útgjalda ríkissjóðs frá 2004 til áætlaðrar útkomu 2009.

% af VLF Frumgjöld Vaxtagjöld Heildargjöld
2004 30,0 2,0 32,0
2005 29,1 1,8 30,9
2006 28,3 1,7 30,0
2007 28,8 2,1 30,9
2008 30,2 2,7 32,9
2009 35,0 5,9 40,9

    Eins og taflan sýnir hafa frumgjöld, þ.e. útgjöld án vaxtagjalda, vaxið úr því að vera um 29% af VLF á árunum 2004–2007 í yfir 35% samkvæmt áætlun á árinu 2009. Þessu til viðbótar aukast vaxtagjöld úr því að vera í kringum 2% af VLF í nærri 6% þannig að heildargjöld ríkissjóðs hafa hækkað úr um 31% af VLF í 41% að því að áætlað er á þessu ári. Verg landsframleiðsla hefur fallið mjög á árinu 2009 og skýrir það hluta af hækkun útgjaldahlutfallsins úr 31% í 41%. Raunveruleg lækkun útgjalda er minni sem því nemur.
    Tekjuhlið fjárlaga sýnir sambærilega mynd. Snarpur samdráttur í efnahagslífinu hefur rýrt helstu skattstofna ríkissjóðs auk þess sem innbyggð sveiflujöfnunaráhrif tekjuskatts einstaklinga veldur tekjutapi umfram það.

% af VLF Beinir Óbeinir Aðrar Vaxta- Samtals
skattar skattar tekjur tekjur
2004 12,4 16,5 3,3 0,8 33,0
2005 13,8 17,5 3,3 0,7 35,3
2006 14,3 17,1 2,5 1,4 35,3
2007 14,1 16,4 2,6 1,8 34,9
2008 13,6 13,5 2,3 2,4 31,7
2009 11,5 12,7 2,5 1,6 28,3

    Tekjur ríkissjóðs sem voru um 35% af VLF á árunum fyrir 2008 eru nú áætlaðar verða um 28,3% af VLF á árinu 2009. Tekjufallið er mest í óbeinum sköttum sem hafa sem hlutfall af VLF fallið um 4–5% en það er einnig mikið í beinum sköttum sem lækka sem nemur um tæplega 3% af VLF. Eins og á útgjaldahliðinni hefur fall landsframleiðslu áhrif á þessar hlutfallstölur en nú á þann hátt að raunveruleg tekjulækkun sem orðið hefur er meiri en sem svarar lækkun tekjuhlutfallsins.
    Í febrúar sl. samþykkti ríkisstjórnin útlínur stefnumörkunar í ríkisfjármálum fyrir árin 2009–2013. Var hún byggð á mati á horfum í ríkisfjármálum og efnahagsáætlun þeirri sem lá til grundvallar stuðningi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við Íslands. Samkvæmt þeirri áætlun voru tekjur ríkissjóðs, gjöld og afkoma hans þá áætluð sem fram kemur í eftirfarandi töflu.

2008 2009 2010 2011 2012 2013
Heildartekjur 472,8 397,7 433,6 481,7 532,0 571,8
Heildargjöld 483,2 575,3 545,1 534,1 537,1 521,6
Tekjujöfnuður -10,4 -177,6 -111,5 -52,5 -5,1 50,1
Fjármagnstekjur 40,2 22,6 20,4 17,3 16,0 17,0
Fjármagnsgjöld 39,4 83,5 90,0 97,3 104,8 90,1
Fjármagnsjöfnuður 0,8 -60,9 -69,6 -80,0 -88,8 -73,1
Frumtekjur 432,5 375,2 413,2 464,3 515,9 554,8
Frumgjöld 443,8 491,8 455,1 436,8 432,3 431,5
Frumjöfnuður -11,3 -116,7 -41,9 27,5 83,7 123,3

    Eins og fram kemur í töflunni er halli á ríkissjóði áætlaður um 177 mrd. kr. á þessu ári en að hann fari minnkandi ár frá ári og tekjuafgangur verði jákvæður á árinu 2013. Frumjöfnuður í ríkisfjármálum, þ.e. jöfnuður án fjármagnstekna og gjalda, var áætlaður neikvæður um nærri 116 mrd. kr. á árinu en að hann snúist upp í afgang frá og með árinu 2011. Til þess að ná þessum árangri var við frágang á stuðningsáætlun AGS og við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2009 gert ráð fyrir að gripið yrði til aðhaldsaðgerða frá og með árinu 2010 sem fælu í sér lækkun útgjalda og hækkun tekna ríkissjóðs.
    Í upphaflegri áætlun íslenskra stjórnvalda með AGS-samkomulaginu var ekki gert ráð fyrir að aðhafast í ríkisfjármálum á árinu 2009 umfram það sem stefnt var að í fjárlögum. Nú er hins vegar talið að sú áætlun og þar með fjárlög fyrir árið 2009 muni ekki standast. Sú leið að aðhafast ekki að ráði að í ríkisfjármálum 2009 leiðir því ekki til þess árangurs í hvað varðar jöfnuð í ríkisfjármálum sem að var stefnt.
    Við vinnu að endurskoðun á aðstoðarsamkomulaginu í mars til maí 2009 uppfærðu sérfræðingar AGS og fjármálaráðuneytisins útreikninga á þeim aðhaldsaðgerðum vegna afkomu ríkissjóðs árin 2009–2013 sem nauðsynlegar væru til að afkoman yrði innan þess ramma í ríkisfjármálum sem samþykktur var í ríkisstjórninni 24. febrúar 2009. Að teknu tilliti til þess endurmats er nú talið að til þess að ná framangreindum markmiðum um afkomu ríkissjóðs sé aðlögunarþörf fjárlaga, þ.e. þörf fyrir hækkun tekna og lækkun gjalda að lágmarki eftirfarandi:

Mia.kr. % af VLF
2009 -20 -1,4
2010 -56 -3,9
2011 -43 -2,8

    Samkvæmt þessu mati er nú gert ráð fyrir þörf á ráðstöfunum til að lækka halla á ríkissjóði um 20 ma.kr. árið 2009 en að aðhaldsþörfin fyrir tímabilið 2009–2011 verði alls um 119 ma.kr. Breytta niðurstöðu má að mestu rekja til a) lækkunar á tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 2009 og b) breyttra þjóðhagsforsendna, m.a. verðlags.
    Áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum fyrir árin 2009–2013, sbr. framangreint, felur í sér að þörf er á miklu aðhaldi sem kallar á markvissar aðgerðir af hálfu stjórnvalda. Eins og fram kemur í efnahagsáætlun með stuðningsaðgerðum AGS er gert ráð fyrir að þessar aðgerðir feli hvort tveggja í sér útgjaldalækkun og hækkun á tekjum ríkissjóðs.
    Af umfangi nauðsynlegra aðgerða er ljóst að ásættanlegri niðurstöðu verður ekki náð með því að fara aðra hvora leiðina eingöngu. Samdráttur í efnahagslífinu og auknar skuldir ríkissjóðs í kjölfar bankahrunsins skerða lífskjör almennings og val á milli útgjaldalækkana eða tekjuhækkana hefur áhrif á það hvernig skerðing lífskjara kemur niður en hún hefur áhrif á þróun efnahags- og atvinnulífs, tekjudreifingu í þjóðfélaginu o.fl. Sama er að segja um val á milli ráðstafana á hvoru sviði, þ.e. tekjuhækkana og útgjaldalækkana. Um þessi atriði verður nánar fjallað í boðaðri áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum til undirbúnings þeim ákvörðunum sem taka þarf á grundvelli hennar fyrir komandi ár.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að lögfestar verði þær breytingar á lögum um tekjuöflun ríkissjóðs og greiðslum úr ríkissjóði sem nauðsynlegar eru til að ná framangreindum markmiðum fyrir yfirstandandi ár. Frumvarpið er hluti þeirrar aðgerða sem byggðar eru á framangreindri áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum. Það ásamt þeim gjaldabreytingum sem nýlega voru samþykktar, svo og ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um lækkun ríkisútgjalda á árinu 2009 eru sá hluti aðgerðanna sem kemur til framkvæmda á þessu ári. Aðrir og umfangsmeiri hlutar hennar koma til framkvæmda á næstu árum eins og gerð verður grein fyrir í skýrslu um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum. Aðhaldsaðgerðir ársins 2009 og þær viðmiðanir sem settar hafa verið fyrir árið 2010 má sjá í eftirfarandi töflu:

Aðgerðaáætlun í ríkisfjármálum 2009–2013, markmið og aðgerðir


2009 2010
Þörf fyrir styrkingu á afkomu 20.000 56.000
Aukin tekjuöflun, allt að 13.000 28.000
Rekstur 1.800 14.250
Almennt aðhald (10% stjórnsýsla, 7% menntam., 5% velferðarþjón.) 1.800 14.250
Þ.m.t. sameiningar stofnana og skipulagsbreytingar
Tilfærslur 3.135 11.113
Sjúkratryggingar 440 2.600
Barnabætur 0 1.000
Fæðingarorlof 70 350
Elli- og örorkulífeyrir 1.830 3.650
Önnur sértæk tilfærsluframlög 435 1.825
Almennt aðhald í tilfærslustyrkjum ráðuneyta 360 1.688
Viðhald og stofnkostnaður 4.425 10.000
Vegaframkvæmdir 3.500 8.250
Aðrar framkvæmdir 925 1.750
Samtals 9.360 35.363
Bætt afkoma 22.360 63.363

    Tafla þessi sýnir þær ákvarðanir sem teknar hafa verið fyrir árið 2009 og þær viðmiðanir sem settar hafa verið vegna útgjalda í fjárlögum 2010 áætlaðra tekjubreytinga á því ári. Eru þær miðaðar við að hlutur tekjuöflunar og lækkunar útgjalda verði hvor um sig á milli 40% og 60% af heildaraðhaldsþörfinni. Útgjaldarammar vegna fjárlaga fyrir árið 2009 verða settir í samræmi við framangreint, sundurliðaðir á ráðuneyti og málefnaflokka. Umfang aðhaldsaðgerðanna er haft nokkuð hærra í þessum áformum en sem nemur áætlaðri lágmarksaðhaldsþörf, sbr. framangreint vegna óvissu í áætlunum um þróun efnahagsmála og ríkisfjármála.

Almennar athugasemdir – tekjuhlið
    Meginefnisatriði frumvarpsins eru nokkur. Í fyrsta lagi er lagt til að atvinnutryggingagjald hækki úr 0,65% í 2,21% og gjald í ábyrgðarsjóð launa hækki úr 0,1% í 0,2%. Samkvæmt lögum um tryggingagjald renna tekjur af atvinnutryggingagjaldi til Atvinnuleysistryggingasjóðs og er talin nauðsyn á að auka tekjur sjóðsins með vísan til stóraukinna greiðslna úr sjóðnum, samhliða auknu atvinnuleysi í landinu undanfarna mánuði. Tryggingagjald er samkvæmt núgildandi lögum samtals 5,19% og samanstendur af atvinnutryggingagjaldi, 0,65%, og almennu tryggingagjaldi, 4,54%. Auk þess leggst markaðsgjald, 0,05%, og gjald í ábyrgðarsjóð launa, 0,1%, á sama skattstofn og er samtala þeirra allra 5,34%. Samkvæmt frumvarpinu verður tryggingagjald og önnur gjöld sem á þennan skattstofn leggjast því samtals 7%, í stað 5,34%. Áætlað er að hækkun þessara gjalda hafi í för með sér árlegan tekjuauka fyrir ríkissjóð að fjárhæð 12,5 milljarðar kr. en á árinu 2009 er tekjuaukinn áætlaður um 7 milljarðar kr.
    Í öðru lagi er lagt til að tekið verði upp það fyrirkomulag virðisaukaskatts á matvæli sem var fyrir 1. mars 2007, þegar tilteknar neysluvörur báru 24,5% virðisaukaskatt þó svo að matvara að meginstefnu til væri í lægra þrepi virðisaukaskatts. Um er að ræða sömu vöruflokka og voru í hinu efra þrepi fyrir 1. mars 2007 að viðbættum sykurvörum af ýmsum toga. Eru þessar vörur tilgreindar í sérstökum viðauka við virðisaukaskattslögin. Áætlað er að þessi breyting á fyrirkomulagi virðisaukaskatts af vörum til manneldis sem kemur til framkvæmda 1. september 2009 hafi í för með sér að tekjur ríkissjóðs aukist um 2,5 milljarða kr. á ári en á árinu 2009 verði tekjuaukinn um 0,7 milljarðar kr. Áhrif á vísitölu vegna þessa eru áætluð um 0,25%.
    Í þriðja lagi er lagt til að tekið verði upp tímabundið álag á tekjuskatt hjá einstaklingum með háar tekjur, sem innheimt verði í staðgreiðslu en ákveðið endanlega við álagningu. Í tillögunni felst að frá og með 1. júlí til 31. desember 2009 skuli launagreiðandi reikna og skila í ríkissjóð til viðbótar hefðbundinni staðgreiðslu, sem nú er 37,2% að meðtöldu útsvari, sérstökum 8% tekjuskatti af launum hvers einstaklings umfram 700.000 kr. á mánuði. Einstaklingur með 1 millj. kr. í laun að meðtöldum skattskyldum hlunnindum mun þannig greiða 24 þús. kr. meira í staðgreiðsluskatt á mánuði verði frumvarpið að lögum. Reiknað er með að þessi breyting geti skilað ríkissjóði nálægt 4 milljörðum kr. á ársgrundvelli, en greiðsluáhrif hennar á árinu 2009 eru talin verða 2 milljarðar kr. Endanlegt uppgjör þessa sérstaka 8% tekjuskatts fer síðan fram við álagningu opinberra gjalda 1. ágúst 2010. Rétt er að nefna að álagning sérstaks 8% tekjuskatts frá og með 1. júlí 2009 gerir kröfur til þess að tekjum sem tilheyra skattstofni í hinu almenna tekjuskattsþrepi verði haldið aðgreindum frá þeim tekjum sem sæta skulu sérstakri skattlagningu frá miðju ári 2009. Almennt mun þetta ekki valda vandkvæðum hvað launatekjur og aðrar reglulegar tekjur áhrærir þar sem tekjur þessar koma fram samkvæmt greiðslutímabilum í staðgreiðsluskrá. Gert er ráð fyrir að þessi breyting verði tímabundin og að í stað hennar komi almennari breyting á tekjusköttum einstaklinga, sem taki gildi um næstu áramót.
    Í fjórða lagi er lögð til tímabundin hækkun skatts á fjármagnstekjur úr 10% í 15% á tímabilinu 1. júlí 2009 til 31. desember 2009 á fjármagnstekjur sem eru umfram 250.000 kr. á tímabilinu. Frá og með 1. júlí verði skilaskyldum aðilum gert skylt að innheimta 15% fjármagnstekjuskatt af skattskyldum fjármagnstekjum sem falla til eftir það tímamark, jafnt hjá einstaklingum sem þeim lögaðilum, sem þennan skatt greiða en það eru lögaðilar sem ekki eru skattskyldir og skattskyldir lögaðilar sem starfa í formi sameignarfélaga, samlaga o.s.frv. og hafa ekki rétt til að draga móttekinn arð frá skattskyldum tekjum sínum. Við álagningu opinberra gjalda 2010 verður þessi tímabundna hækkun endanlega gerð upp, þannig að sérstakur 5% tekjuskattur verður einungis reiknaður á fjármagnstekjur sem fallið hafa til frá og með 1. júlí til 31. desember 2009, og eru umfram 250.000 kr. samanlagt hjá einstaklingi, eða liðlega 40 þús. kr. á mánuði. Þegar um hjón eða samskattað fólk er að ræða er sameiginlegum vaxtatekjum skipt jafnt þegar tekjuviðmiðun þessi er fundin og síðan skattlagðar sérstaklega hjá hvoru um sig. Hjá einstaklingi sem fær 100 þús. kr. í vaxtatekjur á mánuði á umræddu tímabili hækkar fjármagnstekjuskatturinn um tæplega 3 þús. kr. á mánuði. Viðbótartekjur ríkissjóðs af þessari breytingu eru taldar verða um 2 milljarðar kr. á heilu ári, eða 600 millj. kr. á hálfu ári. Greiðsluáhrif á árinu 2009 verða um 0,3 milljarðar þar sem hluti skattsins skilar sér ekki fyrr en árið 2010. Gert er ráð fyrir að þessi breyting verði tímabundin og að í stað hennar komi almennari breyting á tekjusköttum einstaklinga sem taki gildi um næstu áramót.
    Í fimmta lagi er lagt til að skil á afdreginni staðgreiðslu fjármagnstekna verði tíðari, þ.e. ársfjórðungslega í stað almanaksársins frá og með 1. júlí 2009. Greiðslutímabilin verði þrír mánuðir, þ.e. janúar–mars, apríl–júní, júlí–september og október–desember. Gjalddagar verði 20. apríl, 20. júlí, 20. október og 20. janúar árlega og eindagi 15 dögum síðar. Þetta þýðir að skil afdreginnar staðgreiðslu sem þegar hefur verið innheimt á fyrri hluta þessa árs fari fram hinn 20. júlí 2009 og eindagi verði 15 dögum síðar. Hér er einungis um tilflutning í innheimtu að ræða en ekki viðbótartekjur en greiðsluáhrif þessarar breytingar á tekjuhlið ríkissjóðs gæti numið allt að 10 milljörðum kr. á þessu ári.
    Í sjötta lagi er lagt til að aðilar sem ekki hafa heimilisfesti hér á landi og bera því takmarkaða skattskyldu, sæti hér skattlagningu vegna vaxta sem þeir fá greidda hér á landi. Að baki tillögunni eru margvísleg rök. Vaxtatekjur íslenskra skattaðila, einstaklinga sem fyrirtækja, eru skattskyldar og ójafnræði felst í því að undanskilja vaxtatekjur erlendra aðila skattlagningu. Vaxtatekjur eru hluti af þeim tekjum sem erlendir skattaðilar geta fengið frá landinu. Aðrar tegundir tekna erlendra aðila, sem aflað er hér á landi, svo sem laun, þóknanir, rekstrarhagnaður, arður, leigutekjur og söluhagnaður, eru skattskyldar hér og með skattlagningu vaxta er skapað samræmi í þessum efnum. Vextir ásamt framangreindum tekjum er farvegur út úr landinu fyrir hluta af þeim virðisauka sem verður til við starfsemi í landinu og eðlilegt er að tryggja einhverja hlutdeild ríkissjóðs í þeim tekjum eins og öllum öðrum tekjum sem verða til í landinu. Ein meginástæðu þess að tillöguna er að finna í þessu frumvarpi er að skattleysi vaxta úr landi opnar leiðir til að skjóta tekjum undan skatti hér á landi. Ein leið er sú að öðrum tekjum svo sem arði, leigutekjum o.s.frv. er umbreytt í vexti, t.d. með eignarhaldsfélag að millilið. Önnur er að íslenskur aðili færir fé til útlanda og lánar það eigin starfsemi hér á landi. Eins er alþekkt sú aðferð alþjóðlegra stórfyrirtækja að flytja hagnað á milli fyrirtækja og landa, m.a. með lánveitingum milli eigin fyrirtækja. Fyrirbæri af þessum toga hafa komið upp í skattframkvæmd og er einkum hætta á þeim í löndum eins og Íslandi sem ekki hafa reglur um lágmarkseiginfjármögnun fyrirtækja. Hér voru vextir erlendra eigenda skattlagðir þar til skattlagning vaxta almennt var afnumin. Við upptöku fjármagnstekjuskatts voru vaxtatekjur að nýju skattskyldar að undanskildum vaxtatekjum erlendra aðila. Benda má á að íslenskt atvinnulíf er nú mjög skuldsett og því ljóst að á næstu árum mun umtalsverður hluti landsframleiðslunnar renna úr landi í formi vaxta til erlendra aðila. Skattlagning vaxta mun tryggja það að nokkur hluti þeirra mun renna í sameiginlegan sjóð landsmanna.
    Áhrif af skattlagningu vaxta til erlendra aðila eru fyrst og fremst að hluti af skatti á þessar tekjur rennur í ríkissjóð Íslands í stað þess að renna í ríkissjóð annarra landa. Vaxtatekjur eru nánast undantekningarlaust skattskyldar tekjur í öðrum löndum. Vegna tvísköttunarsamninga eða fyrir tilverknað innlendrar skattalöggjafar veldur skattur á vexti í upprunalandi þeirra því ekki að skattbyrðin á þessar tekjur aukist. Sá skattur sem lagður er á vaxtatekjurnar skiptist á milli upprunalands teknanna og heimalands tekjuhafans. Samkvæmt tvísköttunarsamningum sem Ísland hefur gert er um tvennt að ræða. Annars vegar eru skattar á vexti milli ríkjanna felldir niður. Er það svo í samningum landsins við ríki í Norður- og Vestur-Evrópu og Bandaríkin. Verða því engar breytingar á skattlagningu vaxta til aðila í þessum ríkjum. Í nýrri samningum sem íslenska ríkið hefur gert er hins vegar í mörgum tilvikum gert ráð fyrir rétti upprunaríkisins til að leggja afdráttarskatt á vexti. Hefur slíkt verið tekið upp að kröfu gagnaðilans en ýmis lönd, einkum fjármagnsinnflutningsríki, fylgja þeirri stefnu að gefa skattlagningu vaxta ekki eftir. Í þeim tilvikum sem tvísköttunarsamningar kveða á um að skattlagningarréttur á vöxtum sé á Íslandi eiga móttakendur vaxtanna rétt á endurgreiðslu/frádrætti í sínu heimaríki. Sama á við um mörg önnur ríki sem hafa, eins og Ísland, í skattalöggjöf sinni heimildir til að endurgreiða skatta sem lagðir eru á tekjur sem innlendir aðilar fá frá öðrum löndum. Með þessu móti ætti skattbyrði móttakanda vaxtanna ekki að þyngjast og ætti þannig ekki að hafa áhrif á það vaxtastig sem innlendir aðilar bera. Rétt er að árétta að ekki er verið að leggja skatt á þá sem inna vaxtagreiðslurnar af hendi heldur þá sem eru móttakendur vaxtanna.
    Gert er ráð fyrir að innheimta tekjuskatts af vöxtunum verði í staðgreiðslu. Undanþága frá skattinum er veitt þeim sem fá vaxtagreiðslur frá Seðlabanka Íslands sem og erlendum ríkjum, alþjóðastofnunum og erlendum opinberum aðilum sem ekki eru skattskyldir í heimaríkinu. Þessum breytingum samfara eru jafnframt lagðar til breytingar á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Er þannig gert ráð fyrir að staðgreiðsla af vöxtum verði samkvæmt ákvæðum laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, líkt og flestar aðrar greiðslur til aðila sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi. Verðlags- eða gengisbreytingar á höfuðstól krafna í eigu erlendra aðila sæta ekki skattskyldu eða staðgreiðsluskyldu vegna þessa.
    Líklegt er að þessi breyting muni hafa í för með sér nokkrar skatttekjur af vaxtagreiðslum til erlendra aðila en vegna tvísköttunarsamninga við flest þau lönd sem hýsa lánveitendur til íslenskra aðila er ekki líklegt að þær verði verulegar. Hins vegar má reikna með að afleiðing ákvæða af þessu tagi dragi úr skattatapi vegna tekjuhliðrunar og undanskota.
    Í sjöunda lagi eru í frumvarpinu þrjár greinar sem ætlaðar eru til styrkingar á skattframkvæmd með því að herða skatteftirlit, einkum með fjármálalegum umsvifum fyrirtækja og einstaklinga, m.a. fjármálalegum samskiptum fyrirtækja við eigendur og stjórnendur. Fjölmörg dæmi hafa komið í ljós í kjölfari bankahrunsins sem eru tilefni fyrir skattyfirvöld til athugunar og er það áform stjórnvalda að styrkja stofnanir skattkerfisins á næstunni að mannafla í þeim tilgangi að efla skatteftirlit. Algeng viðbrögð skattaðila við athugun skattyfirvalda, einkum þegar um er að ræða flókin viðskiptamál og í þeim tilvikum að gögn um viðskiptin eru ekki aðgengileg hér á landi, eru að afhenda ekki eða draga úr hömlu að afhenda lögboðnar upplýsingar. Miða breytingarnar að því að bæta þar úr, annars vegar með heimild til að beita dagsektum og hins vegar með því að skattstóri geti vikið framtali að hluta eða öllu leyti til hliðar og ákvarðað skattstofna á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga. Þá er og lagt til að skattstjóri geti lokið skattalegri meðferð máls og komið á álagningu án þess að kanna hvort refsivert athæfi kunni að vera til staðar. Breytingarnar fela m.a. í sér markvissari stýringu skatteftirlitsmála og að skattstjórum verður gert kleift að ljúka skattalegri meðferð mála þótt þau kunni í framhaldinu að fara í brotarannsókn. Áforma stjórnvöld að mannafli við skatteftirlit og skattrannsóknir verði aukinn um a.m.k. 10 stöðugildi og er hér gert ráð fyrir að kostnaður við það skili sér þegar á fyrsta hálfa árinu en að bætt skattskil nemi margfaldri þeirrri upphæð á næstu árum.
    Viðbótartekjur ríkissjóðs af þeim breytingum á ákvæðum skattalaga sem lagðar eru til í frumvarpi þessu eru áætlaðar samtals rúmir 20 milljarðar kr. á ári, en áhrif þeirra á tekjur ríkissjóðs á þessu ári nema um 10 milljörðum kr., auk þeirra 10 milljarða kr. sem falla á það ár við tilfærslu á staðgreiðsluskilum fjármagnstekjuskatts. Bein áhrif á vísitölu neysluverðs eru metin 0,25%.

Tekjuáhrif í milljörðum króna Á heilu ári 2009 Vísitöluáhrif
Tryggingagjald og gjald í
ábyrgðasjóð launa 12,5 7,0
Tilfærsla í VSK 2,5 0,8 0,35
Skattur á háar tekjur 4,0 2,0
Skattur á háar fjármagnstekjur 2,4 0,6
Samtals 21,4 10,4
Skil á fjármagnstekjuskatti 10,0
Hert skatteftirlit 2,0 0,5

Almennar athugasemdir – útgjaldahlið.
Almanntryggingar.

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um almannatryggingar sem fela í sér:
     a.      lækkun á frítekjumarki vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar,
     b.      afnám heimildar til að velja á milli frítekjumarks og þess að telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar,
     c.      skerðingu grunnlífeyris vegna lífeyrissjóðstekna,
     d.      skerðingu aldurstengdrar örorkuuppbótar vegna tekna,
     e.      hækkun skerðingarhlutfalls tekjutryggingar,
     f.      setningu sérstaks frítekjumarks vegna lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar.
    Á árinu 2008 náðust fram miklar réttarbætur til handa öldruðum og öryrkjum í formi afnáms makatenginga, hækkunar bóta, hækkaðs frítekjumarks vegna atvinnutekna, sérstaks frítekjumarks á lífeyrissjóðstekjur öryrkja, sérstaks frítekjumarks á fjármagnstekjur og lækkunar skerðingarhlutfalls ellilífeyrisþega. Óhjákvæmilegt er að stíga skref til baka við núverandi aðstæður. Lögð er áhersla á að litið sé svo á að um tímabundnar ráðstafanir sé að ræða sem taki mið af því efnahagsástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu. Jafnframt er mikilvægt að áfram verði unnið að endurskoðun almannatryggingakerfisins í því skyni að gera það einfaldara og gagnsærra en þó fyrst og fremst með bættan hag aldraðra og öryrkja í huga.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að hagur tekjulægstu lífeyrisþeganna sé varinn og að ekki verði hreyft við sérstakri uppbót á lífeyri sem sett var með reglugerð á síðasta ári með stoð í lögum um félagslega aðstoð og nemur nú 180.000 kr. á mánuði fyrir þá lífeyrisþega sem búa einir en 153.500 kr. fyrir þá lífeyrisþega sem ekki njóta heimilisuppbótar. Er fremur tekið mið af því að bætur þeirra lífeyrisþega sem hafa hærri tekjur, annaðhvort úr lífeyrissjóðum eða vegna atvinnu, lækki þannig að við það sé miðað að tekjutengdar bætur falli niður þegar heildartekjur lífeyrisþega nema tæplega 4 millj. kr. á ári.

Málefni aldraðra.
    Vísað er til þess sem fram kemur í athugasemdum við 14. gr. um frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna. Frítekjumark vistmanna vegna atvinnutekna samkvæmt lögum um málefni aldraðra hefur ávallt verið það sama og frítekjumark ellilífeyrisþega og er lagt til að svo verði áfram.

Fæðingar- og foreldraorlof.
    Lagt er til að hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði miðist við meðaltalsmánaðartekjur foreldra, að fjárhæð 437.500 kr. þannig að mánaðarleg útgreiðsla sjóðsins til foreldris verði að hámarki 350.000 kr. Þetta gerir það að verkum að greiðslur til foreldra með lægri mánaðartekjur en 437.500 kr. að meðaltali verða 80% af meðaltali heildarlauna á tilteknu viðmiðunartímabili eins og verið hefur.
    Þessari breytingu er ætlað að leiða til sparnaðar í útgjöldum Fæðingarorlofssjóðs í ljósi þeirrar stöðu sem komin er upp í ríkisfjármálum. Undirstrikað er að þau sjónarmið sem sett voru fram þegar hámark var sett á greiðslurnar á árinu 2004 eiga enn við og þess vegna er lögð áhersla á að litið er svo á að um tímabundna aðgerð sé að ræða. Verður stefnt á endurskoðun á fjárhæð hámarksgreiðslna til hækkunar um leið og aðstæður í ríkisfjármálum leyfa.

Lög um meðferð einkamála.
    Lagt er til að hámark verði sett á gjafsóknarfjárhæðir í einkamálum. Í núgildandi lögum er ekki gert ráð fyrir slíku ákvæði og getur kostnaður í slíkum málum orðið talsvert hár þar sem tímagjald lögmanna er nokkuð mismunandi og umfang mála getur verið mikið. Útfærsla á þessu ákvæði í reglugerð hefur ekki verið gerð, en við frágang reglugerðarinnar er gert ráð fyrir að markmið um sparnað á þessu ári að fjárhæð 20 millj. kr. náist og að árleg kostnaðarlækkun verði 50 millj. kr.

Lög um meðferð sakamála.
    Lagt er til að ákvörðun um þóknun sem greidd er úr ríkissjóði vegna verjenda og réttargæslumanna í sakamálum verði færð frá dómstólaráði til ráðherra. Þannig getur ráðherra með reglugert mælt fyrir um tímagjald sem tekið skuli mið af við ákvörðun þóknunar. Nú er viðmiðunargjaldið 11.200 kr. og er við það miðað að með reglugerð verði það lækkað um 12%. Árlegur sparnaður vegna þess er áætlaður 40 millj. kr. og að á þessu ári muni kostnaðurinn lækka um 20 millj. kr.

Lög um sóknargjöld.
    Framlög úr ríkissjóði til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskóla Íslands hafa verið lögboðin, svonefnd sóknargjöld. Þrátt fyrir nafngiftina eru ekki innheimt nein sóknargjöld af ríkinu heldur er framlagið reiknað samkvæmt lögum á grundvelli ákveðinna viðmiða sem rakin eru í athugasemd með þeirri grein frumvarpsins sem fjallar um sóknargjöld. Fundið er út ákveðið gjald sem greitt er mánaðarlega fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri til fyrrgreindra aðila. Í frumvarpi þessu er lagt til í fyrsta lagi að framlög samkvæmt þessu lögum sem hafa runnið til Háskólasjóðs hjá Háskóla Íslands, þ.e. framlag vegna þeirra sem ekki eru í þjóðkirkjunni eða skráðu trúfélagi, verði afnumið og að fjárveiting komi framvegis beint úr ríkissjóði. Í fjárlögum fyrir árið 2009 var þessi tenging rofin og með frumvarpi þessu er lagt til að ákvörðunin verði lögfest. Í öðru lagi er lagt til að gjaldið sem rennur til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga verði lækkað úr 855 kr. á mánuði samkvæmt núgildandi lögum í 798 kr. frá gildistöku og fyrir árið 2010 verði þetta gjald 741 kr. á mánuði. Með breytingunni er gert ráð fyrir að útgjöld ríkisins á þessu ári lækki um 150 millj. kr. og um 300 millj. kr. á næsta ári.

Lög um greiðslur til þolenda afbrota.
    Í lögum um greiðslur til þolenda afbrota er kveðið á um að ekki skuli greiddar bætur nema krafan sé hærri en 100.000 kr. Lagt er til í þessu frumvarpi að viðmiðunarfjárhæðin verði hækkuð í 400.000 kr. Tilgangurinn með þessari breytingu á lögunum er annars vegar að lækka kostnað fyrir ríkissjóð og hins vegar að taka tillit til verðlagsþróunar frá árinu 1995 þegar lögin voru sett, en viðmiðunarfjárhæðin hefur ekki tekið breytingum frá þeim tíma. Með breytingunni er gert ráð fyrir því að útgjöld á þessu ári geti lækkað um 30 millj. kr. og að árleg kostnaðarlækkun fyrir ríkissjóð geti verið allt að 60 millj. kr.

Lög um uppbót á eftirlaun.
    Lögum um uppbót á eftirlaun var ætlað að tryggja fólki 67 ára og eldra, sem átti takmörkuð eða engin réttindi í lífeyrissjóðum, tilteknar lágmarksgreiðslur sem reiknaðar voru út að lokinni álagningu opinberra gjalda. Með breytingum á lágmarksframfærslutryggingu lífeyrisþega Tryggingastofnunar ríkisins í september 2008 var þeim aðilum sem uppbótinni var ætlað að styðja tryggð lágmarksframfærsla sem gerir að verkum að ekki er lengur þörf á uppbót á eftirlaun. Í frumvarpinu er því lagt til að lög nr. 84/2008, um uppbót á eftirlaun, verði felld brott.

Lög um þjóðlendur.
    Í frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar lagabreytingar vegna áforma ríkisstjórnarinnar um að spara kostnað við þjóðlendumál á þessu ári og næstu tveimur árum. Á þessu tímabili taki óbyggðanefnd engin ný svæði til meðferðar og fjármálaráðherra lýsi ekki kröfum um þjóðlendur. Þar með sparast umtalsverður kostnaður fjármálaráðuneytis við undirbúning kröfugerða í formi aðkeyptrar þjónustu lögfræðinga, auk kostnaðar hjá óbyggðanefnd, einkum vegna upplýsingaöflunar Þjóðskjalasafns. Hins vegar er gert ráð fyrir að óbyggðanefnd ljúki þeim málum sem nefndin hefur nú þegar til meðferðar. Þar sem gengið er út frá því að ekki komi til neinna uppsagna vegna sparnaðaraðgerða ríkisstjórnarinnar er í frumvarpinu að finna heimild til að ráða starfsmenn óbyggðanefndar tímabundið til annarra sambærilegra starfa innan Stjórnarráðs Íslands. Áætlaður sparnaður vegna þessara ráðstafana eru nálægt 40 millj. kr.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að atvinnutryggingagjald hækki úr 0,65% í 2,21%. Tryggingagjald er samsett af almennu tryggingagjaldi (4,54%) og atvinnutryggingagjaldi (0,65%) og renna tekjur af atvinnutryggingagjaldi til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Með vísan til aukins útstreymis úr Atvinnuleysistryggingasjóði, samhliða auknu atvinnuleysi í landinu, er talið nauðsynlegt að auka markaðar tekjur til sjóðsins og er það lagt til með grein þessari.

Um 2. og 3. gr.

    Lagt er til að ábyrgðargjaldið sem ætlað er til að fjármagna Ábyrgðasjóð launa skv. 23. gr. laganna verði hækkað úr 0,1% í 0,2% frá og með 1. júlí 2009. Eigið fé sjóðsins var uppurið í lok árs 2003 og hefur halli á rekstri sjóðsins verið nokkur undanfarin ár. Gjaldið var síðast hækkað 1. janúar 2006 en óhjákvæmlegt þykir að hækka gjaldið aftur vegna neikvæðrar stöðu sjóðsins. Jafnframt er gert ráð fyrir að dregið verði úr útgjöldum sjóðsins með því að fella niður vaxtagreiðslur hans vegna þeirra krafna sem hann ber ábyrgð á skv. a–d-lið 5. gr. laganna.

Um 4. gr.

    Með greininni er lagt til að þær vörur sem tilgreindar eru í viðaukanum verði færðar upp í efra þrep virðisaukaskatts, 24,5%, á sama hátt og var áður en virðisaukaskattur af matvælum var lækkaður með lögum nr. 175/2006. Hið sama gildi einnig um sykur og sykurvörur. Í viðauka við lög um virðisaukaskatt er tilgreint hvaða matvara skuli vera í neðra þrepi og hvaða matvara í hinu efra. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum er tilgangur þessarar breytingar almenn tekjuöflun fyrir ríkissjóð í tengslum við nauðsynlegar ráðstafanir í ríkisfjármálum auk þess sem ekki þykir ástæða til að þær vörur sem hér um ræðir, þ.e. sykurvörur, sælgæti og ýmsar drykkjarvörur sæti ívilnandi skattlagningu.

Um 5. gr.

    Með greininni er lagt til að skil á afdreginni staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts verði ársfjórðungsleg í stað almanaksársins, en ekki þykir að svo stöddu ástæða til að ganga til fulls þá leið að þau verði mánaðarleg.

Um 6. gr.

    Hér er lagt til að aðilar með heimilisfesti og skattskyldu utan Íslands beri hér á landi takmarkaða skattskyldu vegna vaxta sem þeir fá greidda af bankareikningum, verðbréfa- og fjárfestingasjóðum, skuldabréfum og öðrum kröfum og fjármálagerningum hér á landi. Ákvæðið á við um þá vexti sem íslenskir skattaðilar greiða erlendum aðilum. Skilgreiningu á því hvað teljast vextir er að finna í 3. tölul. C-liðar 1. mgr. 7. gr. sbr. 8. gr. laganna. Þó eru undanþegnir vextir sem Seðlabanki Íslands greiðir sem og vextir sem mótteknir eru af erlendum ríkjum, alþjóðastofnunum og öðrum slíkum aðilum sem ekki eru skattskyldir í heimaríki sínu. Skilyrðið er að viðkomandi móttakandi sé undanþeginn skattskyldu í sínu heimilisfestarríki. Í þeim tvísköttunarsamningum sem Ísland hefur gert við önnur ríki er ýmist kveðið á um að upprunaland vaxta eigi rétt á að skattleggja þá með 0–10% skatthlutfalli. Telji móttakandi vaxtanna sig eiga rétt á að njóta ákvæða tvísköttunarsamninga þarf hann að óska eftir staðfestingu á því hjá skattyfirvöldum. Gera verður þá kröfu að skattskylda í viðkomandi samningsríki verði sönnuð með staðfestingu frá bæru stjórnvaldi.

Um 7. gr.

    Greinin hefur að geyma breytingar á 70. gr. tekjuskattslaga sem leiðir af þeim breytingum sem verða á 3. gr. laganna sbr. 6. gr. þessa frumvarps. Samkvæmt þessu greiða einstaklingar með takmarkaða skattskyldu fjármagnstekjuskatt af vöxtum. Skattlagning lögaðila með takmarkaða skattskyldu fer eftir 71. gr. laganna eins og verið hefur.

Um 8. gr.

    Úrræði skattyfirvalda gagnvart aðilum sem tregðast við að láta í té upplýsingar, hvort heldur beiðnin varðar aðila þann er fyrirspurn er beint til eða skipti annarra aðila við hann, hafa verið vaxandi vandamál þar sem hætta hefur verið á að mál hafi spillst eða dregist úr hömlu vegna skeytingarleysis aðila um að sinna lögboðinni skyldu sinni um að veita umbeðnar upplýsingar eða leggja fram gögn. Í þessum tilvikum hefur ekki verið ágreiningur um skyldu viðkomandi til framlagningar gagna, en fremur tómlæti eða ásetningur um að hafa óskir skattyfirvalda að engu. Ef einhver sinnir ekki upplýsingaskyldu án frambærilegra ástæðna er heimilt að vísa máli til opinberrar rannsóknar. Opinber rannsókn er þung í meðförum og því er þörf fyrir skilvirkari verkfæri til að koma fram hefðbundnu skatteftirliti. Því er lagt til með ákvæði þessu að ríkisskattstjóra verði heimilað að beita dagsektum í þágu skatteftirlits gagnvart aðilum sem telja sér stætt á því og/eða hafa hagsmuni af því að liggja á þeim gögnum sem þeim er skylt lögum samkvæmt að leggja fram.
    Jafnframt er lagt til að fjármálaráðherra verði heimilað með reglugerð að setja nánari reglur um ákvörðun dagsekta.

Um 9. gr.

    Núgildandi ákvæði 96. gr. tekjuskattslaga eru barn síns tíma og hefur sýnt sig í úrskurðaframkvæmd að réttarstaða þeirra sem tregðast við að veita upplýsingar um skattskil sín er að mörgu leyti betri en þeirra sem eru samstarfsfúsir og tilbúnir að leggja fram gögn í þágu skatteftirlits. Gildandi málsmeðferðarreglur hafa jafnframt leitt til þess að mál teljast ekki nægjanlega upplýst ef skattaðili þráast við að leggja fram gögn og upplýsingar samkvæmt óskum skattyfirvalda sem varða tekjur eða frádráttarliði í skattskilum. Í þessum tilfellum er ýmist verið að tefja framgang skatteftirlits með því annaðhvort að leggja ekki fram umbeðin gögn og skýringar eða bíða með framlagningu fram að lokastigi máls eða í kæru til yfirskattanefndar. Hinar almennu málsmeðferðareglur og úrræði hafa þannig leitt til þess eða valdið hættu á því að mál tefjist úr hömlu eða ónýtist við núverandi ástand. Því er lagt til að skattyfirvöldum verði, þegar verulegir hagsmunir eru í húfi, heimilað að beita skilvirkara úrræði og víkja þegar til hliðar skattskilum að hluta eða öllu leyti ef ekki eru lögð fram umbeðin gögn eða skýringar. Skattyfirvöld verði því við aðstæður sem þessar leyst undan þeirri kröfu gildandi málsmeðferðareglna, sbr. lokamálslið 1. mgr. 96. gr. laganna, að sanna út í hörgul undandrátt tekna eða offærða frádráttarliði, þar sem umbeðin gögn hafa ekki verið lögð fram til sönnunar. Skattaðili beri þannig allan halla af því að upplýsa ekki með skilmerkilegum hætti um atriði sem varða framtaldar eignir, tekjur og frádráttarliði í skattskilum sínum.
    Við almenna endurskoðun eða skatteftirlit liggja oftar en ekki fyrir upplýsingar eða skjöl sem sýna með hlutlægum hætti fram á mismun framtalinna tekna eða offærðra frádráttarliða samkvæmt skattframtölum eða skýrslum. Endurákvörðun skatta og gjalda á grundvelli þessara gagna, sem sýna sem slík með ótvíræðum hætti vantalda skattstofna, er því eðlilegur þáttur í almennri stjórnsýsluframkvæmd sem framkvæmd er með hlutlægum hætti án þess að afstaða sé tekin til mögulegs refsiþáttar málsins. Skattstjóra eða ríkisskattstjóra ber að tilkynna skattrannsóknarstjóra ef grunur vaknar um skattsvik eða refsiverð brot og ber það undir skattrannsóknarstjóra að skapa grundvöll fyrir endurákvörðun opinberra gjalda og hins vegar að hlutast til um refsimeðferð, ef skilyrði eru uppfyllt til slíks. Skattrannsóknarstjóri annast aftur á móti ekki endurákvörðun skattstofna og endurreikning opinberra gjalda og ber að vísa þeim þætti niðurstöðu sinnar til meðferðar hjá ríkisskattstjóra. Ljóst má því vera að einfaldur útreikningur skattstjóra á opinberum gjöldum á grundvelli þegar fyrirliggjandi gagna ætti ekki að valda sakarspjöllum, þótt forsendur kunni að vera fyrir skattrannsókn og síðari endurákvörðun á grundvelli viðbótarupplýsinga sem sú rannsókn leiddi mögulega fram. Almennt verður að telja það skilvirkra að unnt sé að ljúka stjórnsýsluþætti mála án tafar þegar tölulegur þáttur liggur ótvírætt fyrir og skattreikningur er eðlilegt framhald afgreiðslu máls, þótt það sæti síðar skattrannsókn í samræmi við meðferð opinberra mála.

Um 10. gr.

    Álagning skatta felur í sér að reikna skatt á tilgreinda skattstofna í skattframtölum. Þessi reikningur fer fram eftir að skattframtöl og aðrar lögboðnar skýrslur hafa verið lagðar fram og tíðast án þess að frekari atbeina sé krafist af framteljandum. Skattyfirvöldum er eftir atvikum rétt að leiðrétta þessar skýrslur eða skylt að kalla eftir frekari gögnum. Fáist fullnægjandi skýringar um vantaldar tekjur eða offærða frádráttarliði, þá er skattur endurreiknaður á grundvelli þess skattstofns sem skattur hefði átt að reiknast af í upphafi. Ákvörðun skattstofns að nýju og reiknaður skattur á þeim grundvelli byggist þannig á hlutlægum grunni. Eftir atvikum er beitt álagi þar sem um ítrekun er að ræða eða vangá þessi þykir um skör fram. Almennt upplýsist í hefðbundnu skatteftirliti með hlutlægum hætti fjárhæð vantalinna tekna og umstangslítið er að reikna skatt á þá fjárhæð eftir að málsmeðferð er lokið. Skatteftirliti og skattrannsóknum er gjarnan ruglað saman en markmið þessara aðgerða eru ólík. Hlutverk rannsóknar skattrannsóknarstjóra er tvíþætt, annars vegar að skapa grundvöll fyrir endurákvörðun opinberra gjalda og hins vegar að hlutast til um refsimeðferð ef skilyrði eru uppfyllt til slíks. Skattrannsóknarstjóra er skipað innan hins almenna skattkerfis hér á landi en annars staðar á Norðurlöndunum er gerður greinarmunur á almennri endurskoðun ásamt skatteftirliti og skattalagabrotum sem eru á hendi lögreglunnar. Fyrirkomulagið hér á landi hefur skapað fljótandi markalínu milli almenns endurreiknings á skatti og skattrannsókna, þar sem rannsókn beinist m.a. að því að kanna huglæga afstöðu brotamanns. Hlutlægt mat á gögnum sem kallað hefur verið eftir í skatteftirliti og endurreikningur skatta á grundvelli þeirra hefur almennt ekki áhrif á réttarstöðu aðila, sem síðar sætir athugun skattrannsóknarstjóra, sem að gættri réttarstöðu sakbornings kannar m.a. huglæga afstöðu viðkomandi sem grundvöll ákvörðunar sektar eða annarra refsiúrræða. Jafnframt hefur verið þrengt að almennu skatteftirliti og talið að gagnaöflun umfram ákveðið umfang væri komin út fyrir almenna stjórnsýsluframkvæmd. Mistúlkun þessi hefur verið til baga og tálmað almennum eftirlitsaðgerðum. Vart verður talið að fjöldi hlutlægra gagna eða öflun þeirra ásamt skýringum frá fleiri en einum aðila raski eignarstöðu eiganda gagnanna þegar ekki hefur verið leitað eftir huglægri afstöðu hans varðandi ásetning eða stórkostlegt gáleysi. Gögn þau og upplýsingar sem aflað hefur verið við almennt skatteftirlit eru því eins og hver önnur gögn sem aflað hefur verið til grundvallar skattákvörðun.

Um 11., 12. og 13. gr.

    Í samræmi við þær breytingar sem verða á 3. gr. tekjuskattslaga, sbr. 6. gr. frumvarpsins, er hér gerð breyting á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda til að kveða á um að innheimta skuli í staðgreiðslu skatt af vöxtum sem greiddir eru til aðila með takmarkaða skattskyldu. Réttilega ákvörðuð og innborguð staðgreiðsla tekjuskatts er fullnaðargreiðsla nefndra gjalda hér á landi án þess að fram þurfi að fara frekari ákvörðun eða álagning.

Um 14. gr.

    Lagðar eru til nokkrar breytingar á tekjuhugtaki laga um almannatryggingar. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að aldurstengd örorkuuppbót skerðist vegna tekna lífeyrisþega. Uppbótinni er því bætt inn í upptalningu á þeim bótaflokkum sem skerðast vegna fjármagnstekna, sbr. a- og b-lið ákvæðisins, en í 15. gr. frumvarpsins er vísað til 5. mgr. 18. gr. um skerðingu örorkulífeyris vegna tekna þar sem gert er ráð fyrir að aldurstengd örorkuuppbót skerðist með sama hætti og örorkulífeyrir.
    Í öðru lagi gerir frumvarpið ráð fyrir því að frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar verði lækkað úr 1.315.200 kr. á ári í 480.000 kr. á ári eða 40.000 kr. á mánuði. Er það gert vegna þess mikla atvinnuleysis sem þjóðin stendur frammi fyrir en gríðarlegur fjöldi atvinnufærra manna og kvenna þarf að lifa af atvinnuleysisbótum einum saman. Aftur á móti er lagt til að frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna samkvæmt ákvæði til bráðabirgða haldist óbreytt, en það er nú 1.315.200 kr. á ári. Talið er sérstaklega mikilvægt að stuðla áfram að aukinni atvinnuþátttöku öryrkja í því efnahagsástandi sem nú ríkir.
    Í þriðja lagi er lagt til að afnumin verði heimild til að velja á milli frítekjumarks og þess að telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar. Þetta úrræði hefur aðeins nýst þeim lífeyrisþegum sem hafa hæstar atvinnutekjur og aðeins lítill fjöldi þeirra fær hærri tekjutryggingu vegna þessarar heimildar sem var sett í lög áður en frítekjumörk vegna atvinnutekna voru lögleidd. Afnám reglunnar leiðir auk þess til mikillar einföldunar á almannatryggingakerfinu.
    Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðstekjur hafi áhrif á útreikning elli- og örorkulífeyris, en samkvæmt núgildandi lögum teljast þær tekjur ekki til tekna við útreikning grunnlífeyris. Í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin í ríkisfjármálum verður að teljast nauðsynlegt að láta þessar tekjur teljast til tekna við útreikning bótanna, en frítekjumark vegna grunnlífeyris er nú tæplega 215.000 kr. á mánuði þannig að grunnlífeyrir mun eftir sem áður ekki byrja að skerðast fyrr en því tekjumarki er náð og falla niður við um 332.000 kr. á mánuði.

Um 15. gr.

    Vísað er til þess sem fram kemur í athugasemdum við 14. gr. frumvarpsins um skerðingu aldurstengdrar örorkuuppbótar vegna tekna lífeyrisþega. Greiðslur aldurstengdrar örorkuuppbótar eru ekki tekjutengdar samkvæmt núgildandi lögum að öðru leyti en því að skilyrði er að viðkomandi öryrki fái greiddan grunnlífeyri. Með því að vísa til 5. mgr. 18. gr. um skerðingu örorkulífeyris vegna tekna mun aldurstengd örorkuuppbót skerðast með sama hætti og örorkulífeyrir, þ.e. með sama frítekjumarki, sama skerðingarhlutfalli og vegna sömu tekna. Samkvæmt frumvarpinu er því gert ráð fyrir að skerðing uppbótarinnar hefjist þegar mánaðarlegar tekjur viðkomandi nema tæplega 215.000 kr. á mánuði en falli niður þegar mánaðarlegar heildartekjur hans nema um 332.000 kr. á mánuði eða um 4 millj. kr. á ári.

Um 16. gr.

    Gert er ráð fyrir því að sett verði frítekjumark á lífeyrissjóðstekjur ellilífeyrisþega vegna tekjutryggingar sem nemi 10.000 kr. á mánuði. Á síðasta ári var örorkulífeyrisþegum tryggt slíkt frítekjumark og nemur það nú 27.400 kr. á mánuði. Með þessari breytingu er mörkuð stefna til framtíðar, þ.e. að allir lífeyrisþegar njóti frítekjumarks vegna lífeyrissjóðstekna sem ráðherra er heimilt að hækka með reglugerð, sbr. 7. mgr. 22. gr. laganna.

Um 17. gr.

    Vísað er til þess sem fram kemur í athugasemdum við 14. gr. frumvarpsins um frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna. Frítekjumark vistmanna vegna atvinnutekna samkvæmt lögum um málefni aldraðra hefur ávallt verið það sama og frítekjumark ellilífeyrisþega og er lagt til að svo verði áfram.

Um 18. og 19. gr.

    Lagt er til að hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði miðist við meðaltalsmánaðartekjur foreldra að fjárhæð 437.500 kr. þannig að mánaðarleg útgreiðsla sjóðsins til foreldris verði að hámarki 350.000 kr. Greiðslur til foreldra með lægri mánaðartekjur en 437.500 kr. að meðaltali verða 80% af meðaltali heildarlauna á tilteknu viðmiðunartímabili eins og verið hefur.
    Þessari breytingu er ætlað að leiða til sparnaðar í útgjöldum Fæðingarorlofssjóðs í ljósi þeirrar stöðu sem komin er upp í ríkisfjármálum. Undirstrikað er að þau sjónarmið sem sett voru fram þegar hámark var sett á greiðslurnar á árinu 2004 eiga enn við og þess vegna er lögð áhersla á að litið sé svo á að um tímabundna aðgerð sé að ræða. Þess vegna verður stefnt á endurskoðun á fjárhæð hámarksgreiðslna til hækkunar um leið og aðstæður í ríkisfjármálum leyfa.

Um 20. gr.

    Í XX. kafla laga um meðferð einkamála er kveðið á um gjafsókn. Samkvæmt 1. mgr. 126. gr. laganna er dómsmálaráðherra heimilt að kveða nánar á um skilyrði gjafsóknar með reglugerð, þ.m.t. hvenær nægilegt tilefni sé til að veita gjafsókn, þau atriði sem líta ber til við mat á fjárhagsstöðu umsækjanda og heimild til takmörkunar á gjafsókn skv. 1. mgr. 127. gr. en samkvæmt því ákvæði má takmarka gjafsókn þannig að hún nái aðeins til tiltekinna þátta málskostnaðar eða geti hæst numið tiltekinni fjárhæð. Vegna þeirra aðstæðna sem nú eru í ríkisfjármálum þykir nauðsynlegt að geta takmarkað gjafsóknarfjárhæð í einstökum málaflokkum. Þannig verði í reglugerð unnt að setja hámark á gjafsóknarfjárhæð sem getur verið mismunandi milli málategunda. Jafnframt er lagt til að ráherra verði veitt skýr heimild til að setja í reglugerð ákvæði um hámark þeirra tekna sem umsækjandi um gjafsókn vegna efnahags má hafa til að fá gjafsókn.

Um 21. og 22. gr.

    Samkvæmt 38. gr. laga um meðferð sakamála skal dómari ákveða þóknun skipaðs verjanda í sakamáli. Dómari ákveður þóknun í einu lagi ef sá sem tilnefndur hefur verið verjandi sakbornings á rannsóknarstigi er síðar skipaður til að gegna því starfi en að öðrum kosti skal lögreglustjóri ákveða þóknun tilnefnds verjanda. Í 48. gr. laganna er kveðið á um þóknun réttargæslumanns brotaþola og reglurnar samsvara þeim sem gilda um þóknun fyrir verjendur. Þóknun bæði verjenda og réttargæslumanna greiðist úr ríkissjóði. Dómstólaráð hefur sett viðmiðunarreglur fyrir dómara til að fara eftir við ákvörðun þóknunar bæði fyrir verjendur og réttargæslumenn. Hér er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að ákveða með reglugerð við hvaða tímagjald dómstólar skuli miða við ákvörðun þóknunar. Er þetta lagt til í ljósi þess að lækka þarf þann kostnað sem nú greiðist úr ríkissjóði vegna þóknunar verjenda og réttargæslumanna.

Um 23.–26. gr.

    Lögboðin framlög úr ríkissjóði til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskóla Íslands, svonefnd sóknargjöld, eru ákvörðuð með þeim hætti að ákveðin grunnfjárhæð hækkar milli ára skv. 3. tölul. 2. gr. laganna með því að ofan á hana bætist hækkun sem kann að verða á meðaltekjuskattstofni einstaklinga á öllu landinu milli næstliðinna tekjuára á undan tekjuárinu. Framlagið reiknast fyrir alla einstaklinga, 16 ára og eldri, og er deilt út til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga samkvæmt lögum um skráð trúfélög nr. 108/1999 og Háskólasjóðs. Rétt er að benda á í þessu sambandi að þrátt fyrir nafngiftina innheimtir ríkið í reynd engin sóknargjöld heldur er um það að ræða að framlagið er reiknað samkvæmt lögum á grundvelli framangreindra viðmiða. Til þess að ná fram þeim samdrætti í útgjöldum ríkisins sem nú er stefnt að er nauðsynlegt að lækka þá fjárhæð sem greiðist til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga. Framlag sem er greitt fyrir einstaklinga sem hvorki eru í þjóðkirkjunni né skráðu trúfélagi samkvæmt lögum nr. 108/1999 rennur til Háskólasjóðs hjá Háskóla Íslands. Þetta framlag vegna einstaklinga utan trúfélaga tengist ekki beint neinum útgjöldum sem stofnast vegna trúarskoðana fólks til trúariðkunar líkt og gildir hjá skráðum trúfélögum, þ.m.t. þjóðkirkjunni. Þá er framlagið arfleifð frá fyrri tíð þegar aðeins einn háskóli var í landinu og á sér ekki hliðstæðu gagnvart öðrum háskólum, auk þess sem það þykir ekki falla vel að árlegri fjárlagagerð um háskólastigið. Þykir eðlilegra að þetta fyrirkomulag framlagsins til Háskólasjóðs verði afnumið og að í stað þess komi bein fjárveiting úr ríkissjóði.

Um 27. gr.

    Í 1. mgr. 7. gr. laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota er kveðið á um að bætur vegna einstaks verknaðar skuli ekki greiddar nema höfuðstóll kröfunnar sé að lágmarki 100.000 kr. Hér er lagt til að þessi lágmarksfjárhæð verði hækkuð í 400.000 kr. Engin hækkun hefur orðið á þessari lágmarksfjárhæð frá upphafi en lögin tóku gildi 1. janúar 1996. Með þessari aðgerð er bæði tekið tillit til verðlagsþróunar frá því að lögin voru sett árið 1995 en einnig er verið að takmarka útgjöldin við meira tjón en áður. Gert er ráð fyrir að með þessari breytingu lækki útgjöldin um 30 millj. kr. á ári. Árið 2008 fengu um 200 einstaklingar bætt tjón úr þessum sjóði. Í 130 tilvikum var um óverulegar bótafjárhæðir að ræða sem að öllum líkindum hefðu ekki fengist greiddar miðað við þá breytingu sem hér er lögð til.

Um 28. gr.

    Í greininni er lagt til að lög nr. 84/2008, um uppbót á eftirlaun, verði felld niður. Lögunum var ætlað að tryggja fólki 67 ára og eldra sem átti takmörkuð eða engin réttindi í lífeyrissjóðum tilteknar lágmarksgreiðslur sem reiknaðar voru út að lokinni álagningu opinberra gjalda. Með breytingum á lágmarksframfærslutryggingu lífeyrisþega Tryggingastofnunar ríkisins í september 2008 var þeim sem uppbótinni var ætlað að styðja tryggð lágmarksframfærsla sem gerir að verkum að ekki er lengur þörf á uppbót á eftirlaun.

Um 29. gr.

    Í greininni og ákvæði til bráðabirgða VII er kveðið á um nauðsynlegar lagabreytingar vegna áforma ríkisstjórnarinnar um að spara kostnað við þjóðlendumál á þessu ári og næstu tveimur árum. Á þessu tímabili taki óbyggðanefnd engin ný svæði til meðferðar og fjármálaráðherra lýsi ekki kröfum um þjóðlendur. Þar með sparast umtalsverður kostnaður fjármálaráðuneytis við undirbúning kröfugerða í formi aðkeyptrar þjónustu lögfræðinga auk kostnaðar hjá óbyggðanefnd, einkum vegna upplýsingaöflunar þjóðskjalasafns. Hins vegar er gert ráð fyrir að óbyggðanefnd ljúki þeim málum sem nefndin hefur nú þegar til meðferðar. Þar sem gengið er út frá því að ekki komi til neinna uppsagna vegna sparnaðaraðgerða ríkisstjórnarinnar er í frumvarpinu að finna heimild til að ráða starfsmenn óbyggðanefndar tímabundið til annarra sambærilegra starfa innan Stjórnarráðs Íslands.

Um 30. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Hér er annars vegar kveðið á um 8% hækkun á tekjuskatti af tekjum yfir 700 þús kr. á mánuði frá og með 1. júlí 2009 til 31. desember 2009. Þessi álagning sérstaks 8% tekjuskatts gerir kröfur til þess að tekjur séu sérgreindar eftir árshelmingum. Almennt mun þetta ekki valda vandkvæðum hvað launatekjur og aðrar reglulegar tekjur áhrærir þar sem þær koma fram samkvæmt greiðslutímabilum í staðgreiðsluskrá. Tilfallandi tekjur utan staðgreiðslu þarf við framtal að færa á hvorn árshelming fyrir sig eftir því sem þær hafa fallið til.
    Hins vegar kveður greinin á um að við álagningu 2010 skuli í stað 10% leggja 15% tekjuskatt á fjármagnstekjur, sem fallið hafa til frá og með 1. júlí til 31. desember 2009 og eru umfram 250.000 kr. hjá einstaklingi. Þegar um hjón eða samskattað fólk er að ræða skal skipta sameiginlegum vaxtatekjum jafnt á milli þeirra þegar tekjuviðmiðun þessi er fundin og skattleggja sérstaklega hjá hvoru um sig. Aðilum sem undanþegnir eru almennri skattskyldu skv. 4. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, verður sömuleiðis gert að greiða 15% tekjuskatt af fjármagnstekjum sínum á greindu tímabili. Áfallnir vextir og verðbætur fyrir 1. júlí 2009 verða skattlagðar í hinu almenna 10% skattþrepi. Tímasetning tekna eins og hér er gert ráð fyrir gerir kröfur til fjármálastofnana og framteljenda, en samkvæmt frumvarpinu er lagt til að fjármálaráðherra verði heimilað að setja reglugerð þar sem skilaskyldum aðilum skv. 3. gr. laga nr. 94/1996 verði settar reglur um framkvæmd afdráttar staðgreiðslu, þannig að afstaða til tímasetningar tekna ætti að liggja fyrir frá og með ofangreindu tímamarki með hliðsjón af þeim reglum sem settar voru við upptöku staðgreiðslu á fjármagnstekjur 1. janúar 1997.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Af launum einstaklings umfram 700.000 kr. á mánuði eins og þau eru skilgreind skv. 15. gr. laga nr. 45/1987 skal launagreiðandi á hverju greiðslutímabili staðgreiðslu frá og með 1. júlí til 31. desember 2009 reikna sérstaklega 8% tekjuskatt og skila til innheimtumanns í samræmi við almenn ákvæði um skil á staðgreiðslu samkvæmt staðgreiðslulögum.

Um ákvæði til bráðabirgða III.

    Frá og með 1. júlí 2009 er skilaskyldum aðilum skv. 3. gr. laga nr. 94/1996 gert skylt að innheimta 15% fjármagnstekjuskatt af skattskyldum fjármagnstekjum í samræmi við 4. og 5. gr. laganna. Breyting sem þessi gerir þær kröfur að vaxtatekjur sem falla til á fyrri og seinni árshelmingi ársins 2009 séu aðgreindar, þannig að ekki sé innheimtur 15% tekjuskattur af vaxtatekjum sem féllu til fyrir 1. júlí þótt greiddar séu eða gjaldkræfar eftir það tímamark. Við setningu laga nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, voru sett ítarleg ákvæði um tímasetningu tekna, þar sem áfallnir vextir og verðbætur fyrir setningu laga um skattskyldu fjármagnstekna voru skattfrjáls. Ljóst er að byggja má á þeim ákvæðum sem sett voru af því tilefni við setningu reglugerðar um ákvörðun og tímasetningu vaxtatekna eftir því hvort þær skulu með tilliti til þeirra tímamarka sem þær falla til fyrir 1. júlí 2009 sæta 10% skattlagningu eða 15% eftir það tímamark. Því er lagt til að ráðherra verði heimilað að kveða á um nánari útfærslu í reglugerð.
    Með 5. gr. frumvarpsins verða skil á afdreginni staðgreiðslu fjármagnstekna ársfjórðungsleg í stað almanaksársins frá og með 1. júlí 2009. Í ljósi þess er lagt til að skil afdreginnar staðgreiðslu sem þegar hefur verið innheimt á fyrri hluta ársins fari fram 20. júlí 2009 og eindagi verði 15 dögum síðar.

Um ákvæði til bráðabirgða IV.

    Með lögum nr. 60/2009 var fjárhæð kílómetragjalds lækkuð um 20%. Komið hefur í ljós að láðst hefur að kveða skýrt á um hvernig staðið skuli að álagningu í stað áætlunar við þessar aðstæður vegna fyrra tímabils ársins 2009 og er ákvæði þessu æltað að bæta úr því.

Um ákvæði til bráðabirgða V.

    Gert er ráð fyrir því að skerðingarhlutfall tekjutryggingar verði hækkað úr 38,35% í 45% á tímabilinu frá 1. júlí 2009 til og með 31. desember 2013. Hlutfall þetta hefur farið lækkandi á undanförnum árum, þannig fór það úr 45% í 39,95% árið 2007 og aftur úr 39,95% í 38,35% árið 2008. Því er í raun verið að hverfa til sama skerðingarhlutfalls og var í gildi á árinu 2006. Þrátt fyrir þessa breytingu munu tekjulægstu lífeyrisþegarnir ekki finna mikið fyrir þessari breytingu þar sem lækkun tekjutryggingar til þeirra mun leiða til hækkunar á sérstakri uppbót á lífeyri ef heildartekjur einhleyps lífeyrisþega eru lægri en 180.000 kr. á mánuði eða 153.500 kr. hjá lífeyrisþega sem er giftur eða fær ekki greidda heimilisuppbót af öðrum ástæðum.

Um ákvæði til bráðabirgða VI.


    Sjá athugasemdir við 23.–26. gr.

Um ákvæði til bráðabirgða VII.

    Sjá athugasemdir við 29. gr.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði breytingar á nokkrum lögum til að mæta miklu tekjufalli og útgjaldaauka sem ríkissjóður hefur orðið fyrir vegna áfalla á efnahagskerfið og þeirra miklu skulda sem fallið hafa á ríkissjóð í kjölfarið. Frumvarpið er hluti af víðtækum ráðstöfunum sem áformað er að grípa til á grundvelli aðgerðaáætlunar um að ná jöfnuði í ríkisfjármálunum á árunum 2009 til 2013. Lögfesting breytinga á ýmsum lögum um tekjuöflun ríkissjóðs og tilteknum lögbundnum útgjaldaliðum eru nauðsynlegar á yfirstandandi sumarþingi til að mæta fyrirsjáanlegum frávikum frá markmiðum um rekstrarhalla ríkissjóðs sem sett voru í fjárlögum þessa árs.
    Vegna tekjuöflunar fyrir ríkissjóð er lagt til að tryggingagjald hækki úr 5,34% í 7% og skili 12,5 milljarða kr. auknum tekjum á ári, en að tekjuaukinn verði um 7 milljarðar kr. á þessu ári. Þetta eru áætlaðar heildartekjur af gjaldinu en gert er ráð fyrir að ríkið sjálft greiði um 2 milljarða kr. á ári vegna þessarar hækkunar og rúman 1 milljarð kr. á þessu ári. Breyting á fyrirkomulagi virðisaukaskatts er áætlað að skili ríkissjóði 2,5 milljarða kr. auknum tekjum á ári, en að tekjuaukinn verði um 700 m.kr. á þessu ári. Áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs er metin á 0,25%. Gert er ráð fyrir að sérstakt 8% tekjuskattsálag á tekjur umfram 700.000 kr. auki skatttekjur um 4 milljarða kr. árlega en að greiðsluáhrifin á þessu ári verði um 2 milljarðar kr. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs geti aukist um 2 milljarða kr. á ári vegna hækkunar á fjármagnstekjuskatti úr 10% í 15%. Greiðsluáhrifin á árinu 2009 eru áætluð um 300 m.kr. þar sem hluti skattsins skilar sér ekki fyrr en 2010. Gert er ráð fyrir að skil á afdreginni staðgreiðslu fjármagnstekna verði ársfjórðungslega í stað almanaksársins og er gert ráð fyrir að greiðsluáhrif á tekjuhlið ríkissjóðs verði um 10 milljarðar kr. á þessu ári. Hér er um tilflutning í innheimtu að ræða en ekki viðbótartekjur. Í frumvarpinu er gerð sú breyting að aðilar sem ekki hafa heimilisfesti hér á landi greiði skatta vegna vaxta sem þeir fá greidda hér á landi. Ekki er gert ráð fyrir að skatttekjur vegna þessa verði verulegar vegna tvísköttunarsamninga, en hugsunin er að draga úr tekjutapi og undanskoti. Auk þess er lagt til að skattframkvæmd verði styrkt með því að herða skatteftirlit, einkum með fjármálalegum umsvifum einstaklinga og fyrirtækja.
    Með frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar sem ætlað er að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Í almannatryggingum er í fyrsta lagi lagt til að frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega verði lækkað úr 1.315 þús. kr. í 480 þús. kr. á ári. Í öðru lagi er lagt til að heimild til að velja á milli frítekjumarks og þess að telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar verði afnumin. Þessi breyting felur í sér óverulegan sparnað en leiðir þó til einföldunar á kerfinu. Í þriðja lagi er lagt til að lífeyrissjóðstekjur hafi áhrif á útreikning grunnlífeyris. Í núgildandi lögum hafa lífeyrissjóðstekjur ekki áhrif á grunnlífeyri óháð því hversu háar tekjur um er að ræða. Í fjórða lagi er lagt til að viðmiðunartekjur hafi áhrif á aldurstengda örorkuuppbót en samkvæmt núgildandi lögum eru þessar bætur ekki tekjutengdar. Í fimmta lagi er lagt til að skerðingarhlutfall vegna tekjutryggingar hækki úr 38,35% í 45% á tímabilinu 1. júlí 2009 til 31. desember 2013. Í sjötta og síðasta lagi er lagt til að sett verði á sérstakt frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar. Frítekjumarkið nemur 120 þús. kr. á ári. Þess ber að geta að þessi breyting, ólíkt hinum breytingunum, felur ekki í sér sparnað heldur aukast útgjöld ríkissjóðs um 700 m.kr. á ári. Samtals er áætlað að með þessum breytingum muni útgjöld almannatrygginga lækka um 3.650 m.kr. á ársgrundvelli. Miðað við það að breytingarnar taki gildi þann 1. júlí 2009 má gera ráð fyrir að á þessu ári muni útgjöld ríkissjóðs lækka sem nemur um helmingi af þeirri upphæð.
    Þá er lagt til að frítekjumark vistmanna vegna atvinnutekna við útreikning vistunarframlags verði lækkað með sama hætti og með breytingum í almannatryggingum. Frítekjumark vistmanna vegna atvinnutekna samkvæmt lögum um málefni aldraðra hefur ávallt verið það sama og frítekjur ellilífeyrisþega og lagt er til að svo verði áfram.
    Með frumvarpinu er lagt til að hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði verði lækkaðar úr 400 þús. kr. í 350 þús. kr. á mánuði. Þá er lagt til að réttur til fæðingarorlofs falli niður eftir 36 mánuði frá fæðingu barns í stað 18 mánaða samkvæmt núgildandi lögum. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er áætlað að greiðslur vegna fæðingarorlofs lækki um 350 m.kr. á ársgrundvelli. Þar sem gert er ráð fyrir að lögin eigi bara við um foreldra barna sem fæðast eða eru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. júlí 2009 eða síðar verður sparnaðurinn á þessu ári um 70 m.kr.
    Í frumvarpinu er lagt til að ráðherra geti sett hámark á gjafsóknarfjárhæðir í einkamálum með reglugerð. Slíkt ákvæði hefur ekki verið til staðar heldur hafa útgjöld ríkisins ráðist af fjölda mála og umfangi þeirra. Útfærsla reglugerðarákvæðisins liggur ekki fyrir á þessu stigi en gert er ráð fyrir að það verði gert með þeim hætti að útgjöld þessa árs lækki um 20 m.kr. en um 50 m.kr. á næsta ári og framvegis.
    Auk þess er lagt til að ákvarðanir um viðmiðunargjald vegna þóknunar sem greidd er úr ríkissjóði til verjenda og réttargæslumanna í sakamálum verði færðar frá dómstólaráði til ráðherra. Gert er ráð fyrir að ráðherra ákveði tímagjaldið með reglugerð. Í dag er tímagjaldið 11.200 kr. og er við það miðað að með reglugerð verði það lækkað um 12%. Árlegur sparnaður vegna þess er áætlaður 40 m.kr. og að á þessu ári muni kostnaðurinn því lækka um 20 m.kr.
    Í frumvarpinu er lagt til að viðmiðunarfjárhæð sóknargjalda verði lækkuð til að ná fram útgjaldalækkun fyrir ríkissjóð bæði á þessu ári og hinu næsta. Lagt til að gjaldið verði lækkað úr 855 kr. á mánuði samkvæmt núgildandi lögum í 811 kr. frá gildistöku og fyrir árið 2010 verði þetta gjald 767 kr. á mánuði. Með breytingunni er gert ráð fyrir að útgjöld ríkisins á þessu ári lækki um 150 m.kr. og um 300 m.kr. á næsta ári. Framlög úr ríkissjóði vegna sóknargjalda til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskóla Íslands hafa verið lögboðin en þrátt fyrir nafngiftina eru í reynd ekki innheimt nein sóknargjöld af ríkinu heldur er um það að ræða að framlagið er reiknað samkvæmt lögum á grundvelli ákveðinna viðmiða. Gjaldið er greitt mánaðarlega fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri til ofangreindra aðila. Í frumvarpi þessu er lagt til að lögbinding sóknargjalda sem runnið hafa til Háskólasjóðs hjá Háskóla Íslands, þ.e. framlag vegna þeirra sem ekki eru í þjóðkirkjunni eða skráðu trúfélagi, verði afnumin og í þess stað komi vanaleg fjárheimild samkvæmt fjárlögum. Í fjárveitingum til Háskólasjóðs í fjárlögum fyrir árið 2009 hefur þegar verið gert ráð fyrir því að framlag til hans verði ekki lengur lögboðið.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að viðmiðunarfjárhæð greiðslna til þolenda afbrota verði hækkuð úr 100.000 kr. í 400.000 kr. en kröfur undir viðmiðunarfjárhæðum eru ekki greiddar úr ríkissjóði. Tilgangurinn með þessari breytingu á lögunum er annars vegar að lækka kostnað fyrir ríkissjóð og hins vegar að taka tillit til verðlagsþróunar frá árinu 1995 þegar lögin voru sett, en viðmiðunarfjárhæðin hefur ekki tekið breytingum frá þeim tíma. Með breytingunni er gert ráð fyrir því að útgjöld á þessu ári geti lækkað um 30 m.kr. og að árleg kostnaðarlækkun fyrir ríkissjóð geti verið allt að 60 m.kr.
    Í frumvarpinu er lagt til að hægt verði á verkefnum á vegum óbyggðanefndar í þjóðlendumálum frá því sem gert hefur verið ráð fyrir. Breytingin felur í sér að á þessu og næstu tveimur árum muni óbyggðanefnd ekki taka ný svæði til meðferðar og fjármálaráðherra ekki lýsa frekari kröfum um þjóðlendur. Þar með sparast kostnaður við undirbúning kröfugerða í formi aðkeyptrar þjónustu lögfræðinga auk kostnaðar hjá óbyggðanefnd, einkum vegna upplýsingaöflunar Þjóðskjalasafns. Gert er ráð fyrir að um 40 m.kr. geti sparast vegna þessa á þessu ári og 150 m.kr. á næstu tveimur árum.
    Í meðfylgjandi töflu eru dregin saman áhrif frumvarpsins til lækkunar á ríkisútgjöldum á þessu og næsta ári, auk útgjaldaauka ríkisins vegna tryggingagjalds:

Tölur í m.kr. 2009 2010
Almannatryggingar 1.825 3.650
Fæðingarorlofssjóður 70 350
Gjafsóknir 20 50
Meðferð sakamála 20 40
Sóknargjöld 150 300
Greiðslur til þolenda afbrota 30 60
Tryggingagjald -1.000 -2.000
Þjóðlendumál 40 75
Samtals: 1.155 2.525

    Samtals eru tekjuáhrif frumvarpsins metin á um 21 milljarð kr. á ársgrundvelli, en að tekjuaukningin á árinu 2009 verði um 10 milljarðar kr. auk 10 milljarða kr. greiðslutilfærslna vegna fjölgunar gjalddaga fjármagnstekjuskatts. Í áætlun um aðgerðir í ríkisfjármálum er gert ráð fyrir að lækka þurfi ríkisútgjöld og auka tekjur sem svara til 20 milljörðum kr. á þessu ári. Á útgjaldahlið tekur frumvarpið til þeirra þátta sem þarfnast lagabreytinga en gerð er grein fyrir öðrum ráðstöfunum í ríkisfjármálum í greinargerð með þessu frumvarpi.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs aukist nokkuð vegna breytinga sem gera þarf á tölvukerfum vegna innheimtu skatta, auk annars tilfallandi kostnaðar. Áætlað er að ráðist verði í bráðabirgðaráðstafanir vegna innheimtunnar og að útgjaldaauki vegna þess geti orðið á bilinu 10–20 m.kr.