Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 118. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 174  —  118. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Indriða H. Þorláksson og Maríönnu Jónasdóttur frá fjármálaráðuneyti, Skúla Eggert Þórðarson, Elínu Ölmu Arthúrsdóttur, Aðalstein Hákonarson frá ríkisskattstjóra, Guðlaug Stefánsson og Guðrúnu Björk Bjarnadóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Friðgeir Sigurðsson og Önnu Ívarsdóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Jón Steindór Valdimarsson frá Samtökum iðnaðarins, Almar Guðmundsson frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Gústaf Adolf Skúlason frá Samorku, Frosta Ólafsson og Gunnar Egil Egilsson frá Viðskiptaráði, Stefán Aðalsteinsson frá Bandalagi háskólamanna, Helgu Jónsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Hennýju Hinz frá Alþýðusambandi Íslands, Friðrik Friðriksson frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Gylfa Zoëga, prófessor við Háskóla Íslands, Friðrik Má Baldursson, prófessor við Háskólann í Reykjavík, og Katrínu Ólafsdóttur, lektor við Háskólann í Reykjavík.
    Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra ríkisins, Tryggingastofnun ríkisins, Lýðheilsustöð, Fjármálaeftirlitinu, Seðlabanka Íslands, Ríkisendurskoðun, Byggðastofnun, Persónuvernd, Skattstofu Vestfjarðaumdæmis, Skattstofu Norðurlandsumdæmis vestra, Jafnréttisstofu, óbyggðanefnd, Biskupsstofu, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Samorku, Félagi íslenskra stórkaupmanna, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Orkuveitu Reykjavíkur, Samtökum fjárfesta, Viðskiptaráði Íslands, PriceWaterhouseCoopers ehf., Öryrkjabandalagi Íslands, Aðgerðahópi háttvirtra öryrkja, Siðmennt, Vantrú, Landssambandi eldri borgara, Félagi eldri borgara, Halldóru Ingu Ingileifsdóttur, Andrési Inga Jónssyni, Guðmundi Óskarssyni og Katrínu Ólafsdóttur. Einnig hefur nefndinni borist sameiginleg umsögn frá Deloitte hf., KPMG hf. og PriceWaterhouseCoopers ehf.
    Markmið frumvarpsins er að tryggja að áætluð afkoma ríkissjóðs verði ekki verri en ráðgert var í fjárlögum ársins sem gerð voru á grunni efnahagsáætlunar stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þar sem afkoma ríkissjóðs stefnir í að verða verri en áætlað var í fjárlögum er talin þörf á sérstökum aðhaldsaðgerðum á þessu ári sem upphafleg áætlun gerði ekki ráð fyrir. Aðgerðirnar varða annars vegar aukna tekjuöflun og hins vegar lækkun á ríkisútgjöldum en jafnframt eru í frumvarpinu ákvæði um hert skatteftirlit og skattlagningu vaxtagreiðslna úr landi.
    Að lokinni 1. umræðu var frumvarpinu vísað til efnahags- og skattanefndar sem aðallega hefur fjallað um tekjugreinar frumvarpsins og aðrar skattabreytingar. Nefndin fól þremur fastanefndum að fjalla um einstaka þætti frumvarpsins sem einkum tengjast útgjaldahlið frumvarpsins. Nefndirnar eru fjárlaganefnd, félags- og tryggingamálanefnd og allsherjarnefnd og fylgja álit þeirra með áliti þessu.
    Í frumvarpinu er lögð til hækkun á tryggingagjaldi (1,56%) og gjaldi í Ábyrgðasjóð launa (0,1%). Lagt er til að tilteknar neysluvörur beri 24,5% virðisaukaskatt í stað 7%. Lagður er til tímabundinn viðbótarskattur (8%) á tekjur einstaklinga yfir 700.000 kr. og tímbundinn viðbótarskattur (5%) á fjármagnstekjur umfram 250.000 kr. Lagt er til að fyrirkomulagi skattskila vegna fjármagnstekna verði breytt. Um tekjuauka ríkissjóðs vegna framangreindra breytinga er fjallað í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis sem er fylgiskjal með frumvarpinu og er hann samanlagt talinn nema u.þ.b. 10 milljörðum kr. á þessu ári.
    Nefndin ræddi almennt um val á milli skattahækkana eða útgjaldalækkana ríkisins og áhrif skattahækkana frumvarpsins á stöðu ríkissjóðs, heimila og atvinnulífs.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að óvenjulegt væri að gera svo veigamiklar breytingar á skattkerfinu á miðju ári, fyrirvarinn til að laga tölvukerfi að breytingunum væri skammur auk þess sem þær gætu verið kostnaðarsamar. Fulltrúar ríkisskattstjóra voru bjartsýnir á að framkvæmdin gengi í öllum aðalatriðum vel en á fundi félags- og tryggingamálanefndar var bent á að gera þyrfti umfangsmiklar og tímafrekar breytingar í tölvukerfi Tryggingastofnunar. Þá telja Samtök atvinnulífsins að ýmsar breytingar frumvarpsins beri að með of skömmum fyrirvara.
    Um hækkun tryggingagjalds og gjalds vegna Ábyrgðasjóðs launa er fjallað í 1. og 3. gr. frumvarpsins. Þetta er stærsti tekjuöflunarliður frumvarpsins og á að skila ríkinu 7 milljarða kr. tekjum á þessu ári. Umsagnaraðilar höfðu almennt skilning á þessum hækkunum og þörfinni fyrir aukin framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðs og Ábyrgðasjóðs launa. Undirstrikað var á fundum nefndarinnar að staða fyrirtækja væri slæm um þessar mundir og að tillögurnar ykju þrýsting til lækkunar launakostnaðar. Einnig var lögð áhersla á að stjórnvöld þyrftu að draga úr misnotkun bótakerfisins með hertu eftirliti. Samband íslenskra sveitarfélaga vakti athygli á áhrifum frumvarpsins á fjárhag sveitarfélaganna eins og fram kemur í áliti félags- og tryggingamálanefndar.
    Um breytingu á fyrirkomulagi virðisaukaskatts er fjallað í 4. gr. frumvarpsins. Er þar gert ráð fyrir að tilgreind matvæli, þ.m.t. matvæli sem innihalda sykur, færist upp í efra þrep virðisaukaskattsins. Með þessari breytingu er markmiðið að auka tekjur ríkissjóðs og öðrum þræði að stuðla að aukinni lýðheilsu og draga úr óhollustu í mataræði. Á fundum nefndarinnar kom fram sú gagnrýni að tillagan leiddi til aukins flækjustigs í skattframkvæmd og til óþarfa neyslustýringar. Töldu sumir umsagnaraðilar að illskárri kostur væri að skattleggja allan sykur í tolli við innflutning og jafnvel að hækka annað eða bæði þrep virðisaukaskattsins hóflega. Nefndin ræddi sérstaklega tillögur sem Samtök iðnaðarins lögðu til við nefndina en fulltrúar fjármálaráðuneytis töldu þær ekki í samræmi við EES-rétt. Ef fara ætti aðra leið en í frumvarpinu taldi ráðuneytið eðlilegra að taka upp eldra vörugjaldakerfi sem afnumið var 1. mars 2007 með gildistöku laga nr. 175/2006.
    Nefndin ræddi áhrif fyrirhugaðrar virðisaukaskattsbreytingar á vísitölu neysluverðs en misvísandi tölur koma fram í athugasemdum frumvarpsins um hver þau eru. Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneyti eiga áhrifin til hækkunar að nema um 0,25%.
    Um tíðari skil fjármagnstekjuskatts er fjallað í 5. gr. frumvarpsins. Þessari breytingu er ætlað að hafa jákvæð greiðsluáhrif á tekjuhlið ríkissjóðs en því var haldið fram að skilaskyld fyrirtæki mundu eiga erfitt með að laga sig að fyrirkomulaginu innan réttra tímamarka. Ríkisskattstjóri telur í ljósi fyrri reynslu að ákvæðið muni ekki gefa tilefni til sérstakra vandkvæða í framkvæmd.
    Um skattlagningu vaxtagreiðslna úr landi er fjallað í 6. gr. frumvarpsins, sbr. og tengd ákvæði sem fram koma í 7. og 11.–13. gr. Fram kom að þessi frumvarpstillaga væri efnislega samhljóða þeirri sem fjármálaráðherra lagði til á síðasta þingi (þskj. 804, 366. mál) en var felld brott samkvæmt tillögu efnahags- og skattanefndar milli 2. og 3. umræðu (sjá nú lög nr. 46/2009). Í framhaldsnefndaráliti gerði nefndin grein fyrir því að skiptar skoðanir væru um þetta form skattlagningar hjá fjármálaráðuneyti og hagsmunaaðilum. Sömu sjónarmiðum hefur nú verið hreyft fyrir efnahags- og skattanefnd og telur meiri hlutinn mikilvægt að tillaga fjármálaráðherra nái fram að ganga. Með áliti meiri hlutans fylgir listi yfir þau ríki sem Ísland hefur gert tvísköttunarsamning við og eru þar tilgreind ríki sem ekki halda eftir afdráttarsköttum af vöxtum (svokallaður 0% afdráttur). Í samræmi við ábendingar ríkisskattstjóra leggur meiri hlutinn til breytingu á 3. efnismálsl. a-liðar 6. gr. frumvarpsins sem miðar að því að gera orðalag skýrara. Meiri hlutinn beinir því jafnframt til fjármálaráðherra að drög að reglugerð um framkvæmd ákvæðisins verði kynnt efnahags- og skattanefnd áður en hún verður sett.
    Í 8.–10. gr. frumvarpsins eru ákvæði sem lúta að hertu skatteftirliti. Í samræmi við ábendingar skattrannsóknarstjóra leggur meiri hlutinn til að þessar greinar verði felldar brott úr frumvarpinu en í umsögn embættisins er talið að ákvæðin þurfi nánari skoðunar við.
    Um tímabundinn skatt á launatekjur einstaklinga umfram tilgreind mörk er fjallað í I. og II. bráðabirgðaákvæði frumvarpsins. Við umfjöllun nefndarinnar var gagnrýnt að til stæði að innheimta skattinn í staðgreiðslu óháð hjúskaparstöðu, þ.e. óháð tekjum maka eða sambýlings. Einnig var á það bent að innleiðing ákvæðisins gæti reynst launagreiðendum torveld, einkum þeim sem greiða laun fyrir fram. Meiri hlutinn undirstrikar samt sem áður að við núverandi aðstæður sé réttlætanlegt að láta þá sem hafa hærri tekjur bera meiri byrðar til að mæta brýnni tekjuþörf ríkissjóðs. Meiri hlutinn leggur til í samræmi við ábendingar ríkisskattstjóra að skýrt komi fram í ákvæði til bráðabirgða II að með launum sé átt við staðgreiðsluskyld laun.
    Um tímabundinn skatt á fjármagnstekjur umfram tilgreind mörk er fjallað í ákvæði til bráðabirgða I og III í frumvarpinu. Nefndin ræddi aðrar leiðir til að ná fram markmiðum tillögunnar, annars vegar leið í ljósi athugasemda Samtaka atvinnulífsins sem lögðu til að skattinum yrði haldið utan staðgreiðslu og hann síðan innheimtur með álagningu að skattári liðnu og hins vegar þá leið sem ríkisskattstjóri lagði til að best væri að innheimta skattinn í staðgreiðslu en ákvarða síðan frítekjumarkið við álagningu opinberra gjalda að ári liðnu. Meiri hlutinn leggur til að leið ríkisskattstjóra verði farin og álítur að hún hafi jákvæðari áhrif á greiðslustreymi ríkissjóðs á þessu ári.
    Að fengnum ábendingum ríkisskattstjóra leggur meiri hlutinn til að orðalag lokamálsliðar 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I verði gert skýrara en í umsögn embættisins er lögð áhersla á að við framkvæmd þess sé einfaldast fyrir skattframkvæmdina að telja fjármagnstekjur hjá því hjóna sem hærri hefur tekjurnar óháð því hvoru hjóna tekjurnar tilheyra.
    Á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um að hækkun fjármagnstekjuskatts hefði neikvæð áhrif á sparnað í landinu og yrði sérstaklega íþyngjandi ef verðbólga héldist há öndvert við spár. Meiri hlutinn hefur skilning á þessum áhyggjum en telur í ljósi efnahagsástandsins ólíklegt að hækkunin muni hafa veruleg áhrif á sparnað.
    Í tilefni af athugasemdum sem fram koma í sameiginlegri umsögn endurskoðendafyrirtækjanna Deloitte hf., KPMG hf. og PricewaterhouseCoopers ehf. tekur nefndin fram að í 2. málsl. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I er lagt til að 15% fjármagnstekjuskattur skuli reiknast af 70% leigutekna. Hinn hlutinn, 30%, skattleggst ekki. Meiri hlutinn leggur til smávægilega orðalagsbreytingu á umræddu ákvæði sem ekki felur í sér neina efnisbreytingu.
     Gildistökuákvæði frumvarpsins er í 30. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn leggur til að gildistöku a-liðar 7. gr. annars vegar og 11., 12. og 13. gr. hins vegar verði breytt til samræmis við ábendingar ríkisskattstjóra. Meiri hlutinn leggur einnig til breytingar í samræmi við umsögn félags- og tryggingamálanefndar. Þá telur meiri hlutinn að vegna 28. gr. frumvarpsins verði að tryggja heimild til að beita ákvæðum laga nr. 84/2008, um uppbót á eftirlaun, vegna viðmiðunarársins 2007.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    

Alþingi, 26. júní 2009.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Álfheiður Ingadóttir.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Ásmundur Einar Daðason.





Fylgiskjal I.

Álit meiri hluta fjárlaganefndar.


    Með bréfi dagsettu 22. júní 2009 vísaði efnahags- og skattanefnd frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum til umsagnar hjá fjárlaganefnd Alþingis. Um er að ræða þskj. 115, 118. mál. Nefndin fékk til fundar við sig forsvarsmenn Alþingis, forsætisráðuneytis, menntamálaráðuneytis, utanríkisráðuneytis, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis, dóms- og kirkjumálaráðuneytis, félags- og tryggingamálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, samgönguráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis.
    Í febrúar sl. samþykkti ríkisstjórnin útlínur stefnumörkunar í ríkisfjármálum fyrir árin 2009–2013 sem var byggð á mati á horfum í ríkisfjármálum og efnahagsáætlun sem lögð var til grundvallar stuðningi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Samkvæmt henni var gerð áætlun fyrir tekjur ríkissjóðs, gjöld og afkomu. Í upphaflegri áætlun íslenskra stjórnvalda með AGS- samkomulaginu var ekki gert ráð fyrir aðgerðum í ríkisfjármálum á árinu 2009 umfram það sem stefnt var að í fjárlögum. Nú er hins vegar talið að sú áætlun og þar með fjárlög fyrir árið 2009 muni ekki standast vegna lækkunar á tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 2009 og breyttra þjóðhagsforsendna, m.a. verðlags. Því er brýnt að grípa nú þegar til frekari aðgerða í ríkisfjármálum. Í mars til maí 2009 uppfærðu sérfræðingar AGS og fjármálaráðuneytisins útreikninga á þeim aðhaldsaðgerðum sem nauðsynlegar eru til að afkoman verði innan þess ramma í ríkisfjármálum sem samþykktur var í ríkisstjórninni 24. febrúar 2009. Nú er talið að til þess að ná framangreindum markmiðum um afkomu ríkissjóðs sé aðlögunarþörf fjárlaga, þ.e. þörf fyrir hækkun tekna og lækkun gjalda að lágmarki eftirfarandi:

Mia.kr. % af VLF
2009 –20 –1,4
2010 –56 –3,9
2011 –43 –2,8

    Markmið ríkisstjórnarinnar með frumvarpinu er að halda afkomumarkmiðum fjárlaga ársins 2009. Frumvarpið gerir annars vegar ráð fyrir lagabreytingum til að auka tekjur en hins vegar lagabreytingum sem leiða til sparnaðar í ríkisrekstrinum til að ná þessu markmiði.
    Miðað við þær upplýsingar sem fjárlaganefnd Alþingis hefur aflað sér munu þær ráðstafanir sem tilgreindar eru í frumvarpinu ekki duga til að unnt sé að halda markmiðum fjárlaga nema fylgt verði ströngu aðhaldi og ráðuneyti og stofnanir ríkisins fylgi þeim fyrirmælum sem sett hafa verið um frekari sparnað sem einstök ráðuneyti kynntu á fundi nefndarinnar.
    Í máli gesta kom m.a. fram að víða er gert ráð fyrir því að hægt sé að flytja ónýttar fjárheimildir frá fyrra ári til þessa árs auk þess sem nokkur ráðuneyti gera ráð fyrir að þurfa að mæta aukinni fjárþörf í fjáraukalögum síðar á árinu. Ljóst er að ef þau áform ganga eftir verður að mæta þeim með frekari sparnaði annars staðar til að markmið fjárlaga 2009 standist.
    Ljóst er að agaleysi hefur verið og er í fjármálum ríkisins og eftirfylgni með fjárlögum óviðunandi. Hvetur meiri hlutinn því eindregið til breyttra vinnubragða við fjárlaga- og áætlunargerð ríkisins þar sem horft er til lengri tíma í senn og að markmið og stefnumótun liggi fyrir.
    Með framangreint í huga beinir meiri hlutinn þeim tilmælum til efnahags- og skattanefndar að rýna tekjuáætlunina sérstaklega vel til að kanna hvort forsendur hennar muni standast.
    Meiri hlutinn gerir ekki athugasemdir við þau markmið um afkomu sem fram koma í frumvarpinu.

Alþingi, 24. júní 2009.

Guðbjartur Hannesson, form.,
Ásbjörn Óttarsson,
Ásmundur Einar Daðason,
Björn Valur Gíslason,
Höskuldur Þórhallsson,
Kristján Þór Júlíusson,
Oddný G. Harðardóttir,
Ólöf Nordal,
Sigmundur Ernir Rúnarsson.



Fylgiskjal II.


Álit      minni hluta fjárlaganefndar.


    
    Í stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar stendur orðrétt: „Halla á ríkissjóði verði mætt með endurskoðun skattkerfisins, m.a. með fjölgun skattþrepa, hátekjuskatti og breytingum á virðisaukaskatti, frekar en niðurskurði í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fái ekki að taka yfir stjórn á landinu.“
    Því er alveg ljóst að það mundi brjóta gegn stefnu okkar að samþykkja þessa aðferð til að standast fjárlög. Minni hlutinn er alfarið á móti þeim niðurskurði sem boðaður er í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Minni hlutinn telur að með því að fylgja ráðgjöf og rammaáætlun AGS séum við að hefja vegferð sem mun enda á því að veikja svo mjög undirstöður velferðarkerfis okkar að það mun á endanum verða þjóðinni dýrkeyptara en svo að hægt sé að réttlæta það. Minni hlutinn skorar á hæstvirta ríkisstjórn að leita annarra leiða til að laga halla ríkissjóðs og styður almennt aðhald í ríkisfjármálum án þess þó að núverandi ríkisstjórn svíki kosningaloforð sitt um að standa vörð um velferðina. Ljóst er að bandormur þessi mun ekki standast ef marka má skýrslur úr ráðuneytinu. Því væri heillaráð að vinna betur að gerð hans og jafnvel horfast í augu við að halla ríkissjóðs verði ekki mætt með þeim aðferðum sem boðaðar eru í honum.

Alþingi, 24. júní 2009.



Birgitta Jónsdóttir.




Fylgiskjal III.


Álit meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar.


    Nefndin hefur að beiðni efnahags- og skattanefndar fjallað um þá þætti málsins sem snúa að málefnasviði hennar. Um er að ræða fimm kafla, þ.e. I., II., VII., VIII. og IX. kafla frumvarpsins auk ákvæðis til bráðabirgða V. Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund Bolla Þór Bollason, Hönnu S. Gunnsteinsdóttur, Sturlaug Tómasson og Ágúst Þór Sigurðsson, öll úr félags- og tryggingamálaráðuneyti, Halldór Grönvold frá Alþýðusambandinu, Guðrúnu Björk Bjarnadóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Karl Björnsson og Gunnlaug Júlíusson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Stefán Aðalsteinsson frá Bandalagi háskólamanna, Elnu Katrínu Jónsdóttur frá Kennarafélagi Íslands, Helgu Jónsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Gissur Pétursson og Sigurð P. Sigmundsson frá Vinnumálastofnun, Lilju Þorgeirsdóttur, Guðmund Magnússon og Halldór S. Guðbergsson frá Öryrkjabandalaginu, Sigríði Lillý Baldursdóttur og Sigurð Grétarsson frá Tryggingastofnun ríkisins, Helga Hjálmarsson frá Landssambandi eldri borgara, Ólaf Hannibalsson og Unnar Stefánsson frá Félagi eldri borgara Reykjavík, Guðrúnu E. Ólafsdóttur frá Félagi eldri borgara Suðurnesjum og Ragnar Gunnar Þórhallsson frá Sjálfsbjörg.

Tekjuliðir í I. og II. kafla frumvarpsins.
    Í I. og II. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, og lögum um Ábyrgðasjóð launa, nr. 88/2003. Lagt er til að atvinnutryggingagjald hækki úr 0,65% af gjaldstofni í 2,21% og gjald í Ábyrgðasjóð launa hækki úr 0,1% í 0,2%. Með þessu verður heildargreiðsla vegna tryggingagjalds og annarra gjalda sem leggjast á þennan skattstofn samtals 7% í stað 5,34% samkvæmt núgildandi lögum. Gert er ráð fyrir að þessi breyting skili tekjuauka upp á 7 milljarða kr. á þessu ári. Þá er lögð til sú breyting að kröfur sem njóta ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa bera ekki vexti eins og verið hefur.
    Á fundi nefndarinnar lýstu gestir sjónarmiðum sínum og hjá aðilum vinnumarkaðarins kom fram að þeir hefðu vitað um tvær fyrrgreindu breytingarnar og um þær hafi verið haft samráð. Samband íslenskra sveitarfélaga benti þó á að full nauðsyn hefði verið á því að kostnaðarmeta frumvarpið í heild með tilliti til sveitarfélaga enda væru laun og launatengd gjöld stór kostnaðarliður hjá þeim. Áætlar sambandið að frumvarpið auki nettókostnað sveitarfélaga um 1.165 millj. kr. á þessu ári einu. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að unnið sé eftir samkomulagi ríkis og sveitarfélaga frá 28. desember 2001 og lagafrumvörp sem hafa veruleg bein áhrif á sveitarfélög verði kostnaðarmetin með tilliti til heildaráhrifa á fjárhag sveitarfélaga.
    Hjá gestum kom fram að ekkert samráð hefði verið haft um það ákvæði frumvarpsins sem ætlað er að fella niður vexti á kröfur sem njóta ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa. Lýstu gestir yfir áhyggjum sínum af þessari breytingu og var þeim sjónarmiðum hreyft að með þessu yrði raunveruleg skerðing á launum manna enda þyrfti fólk að standa skil á lánum og skuldum sem söfnuðu dráttarvöxtum sem væru talsvert hærri en þeir vextir sem kröfur í sjóðinn bera. Þá var vakin athygli á því að með því að kröfur til greiðslna í lífeyrissjóð beri ekki vexti verða greiðslur í sjóðinn lægri en ella sem leiðir til beinnar skerðingar á lífeyrisréttindum launafólks. Tekur meiri hlutinn undir þessi sjónarmið enda er mikilvægt að skerða ekki réttindi sem fólk hefur þegar áunnið sér með störfum sínum. Meiri hlutinn telur þó nauðsynlegt að grípa til ráðstafana í ríkisfjármálum og bendir í þessu sambandi á að vaxtagreiðslur voru um 140 millj. kr. af þeim 900 millj. kr. sem greiddar voru úr sjóðnum á síðasta ári. Helmingur vaxtagreiðslna var vegna vangoldinna greiðslna í lífeyrissjóði. Meiri hlutinn telur þó rétt að beina því til félags- og tryggingamálaráðuneytis að leitað verði allra leiða til að reyna að koma í veg fyrir að vanskil hlaðist upp með þeim hætti sem verið hefur og leiði þar með til beinnar lækkunar á launum og réttindum fólks.

Útgjaldaliðir í VII. og VIII. kafla frumvarpsins, auk ákvæðis til bráðabirgða V.
    Breytingum í fyrstu tveimur köflum frumvarpsins er ætlað að auka tekjur ríkissjóðs en aðrar breytingar sem nefndin fjallaði um og lagðar eru til í VII., VIII. og IX. kafla snúa að útgjaldahlið ríkissjóðs og er með þeim ætlað að ná fram sparnaði.
    Í VII. kafla, um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, eru lagðar til breytingar sem fela í sér lækkun á frítekjumarki vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar auk þess sem afnumin verði heimild ellilífeyrisþega til að velja á milli frítekjumarks og þess að telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar. Þá er lögð til skerðing grunnlífeyris vegna lífeyrissjóðstekna, skerðing aldurstengdra örorkubóta vegna tekna og hækkun skerðingarhlutfalls tekjutrygginga. Að lokum er lagt til að sett verði sérstakt frítekjumark vegna lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar.
    Auk þeirra breytinga sem gerð er grein fyrir hér að framan er með ákvæði til bráðabirgða V lagt til að skerðingarhlutfall tekjutryggingar hækki úr 38,38% í 45% frá næstu mánaðamótum til loka ársins 2013. Þannig verði horfið til þess skerðingarhlutfalls sem var í gildi á árinu 2006 en það hefur farið lækkandi undanfarin ár. Með breytingunum sem lagðar eru til er hagur tekjulægstu lífeyrisþeganna þó varinn þar sem ekki er hreyft við uppbót þeirri sem lífeyrisþegum var veitt á síðasta ári og gerir það að verkum að lífeyrir þeirra nemur nú 153.500 kr. og 180.000 kr. hjá þeim sem rétt hafa á heimilisuppbót.
    Breytingar á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, eru lagðar til í VIII. kafla frumvarpsins og breyta frítekjumarki vistmanna á stofnunum fyrir aldraða þannig að það verði það sama og frítekjumark ellilífeyrisþega samkvæmt frumvarpinu.
    Með breytingunum eru að nokkru dregnar til baka þær réttarbætur sem aldraðir og öryrkjar fengu á árinu 2008. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að einungis sé um tímabundnar ráðstafanir að ræða sem taki mið af því efnahagsástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu. Ekki var hreyft við tekjutengingu við maka sem meiri hlutinn fagnar enda var þar um mikilvæga réttarbót að ræða. Þá var leitast við að skerða ekki frítekjumark öryrkja enda mikilvægt að draga ekki úr möguleikum öryrkja til að stunda vinnu geti þeir það. Meiri hlutinn telur auk þess rétt að árétta mikilvægi þess að breytingarnar verði endurskoðaðar um leið og hagur ríkissjóðs vænkast.
    Tryggingastofnun ríkisins benti á að um flóknar tæknilegar breytingar væri að ræða og gera þyrfti umfangsmiklar og tímafrekar breytingar í tölvukerfi stofnunarinnar. Telur meiri hlutinn rétt að vekja athygli efnahags- og skattanefndar á þessu.
    Gestir úr hagsmunahópum lífeyrisþega lýstu yfir mikilli óánægju með þær breytingar sem lagðar eru til á almannatryggingum og bentu á að mikilvægt væri þegar breytingar sem þessar stæðu til að veittur yrði umþóttunartími fyrir þá sem verða fyrir skerðingu til að aðlaga sig að breyttum kjörum. Slíkur aðlögunartími hefði ekki verið veittur nú og ættu breytingarnar að taka gildi strax um mánaðamótin. Meiri hlutinn telur sterk rök með því að reynt sé að hafa skerðingar með þeim hætti að þeim sem fyrir þeim verða sé veitt eitthvert svigrúm til að aðlagast en áréttar þó jafnframt að engum ætti að koma á óvart að gerðar væru breytingar til útgjaldalækkunar úr ríkissjóði sem áhrif hefðu á kjör og hag fólks. Vitað hefði verið að aðgerðir lægju fyrir í lengri tíma áður en til þeirra kæmi. Meiri hlutinn ítrekar mikilvægi þess að aðhaldsaðgerðir gangi ekki of nærri fjölskyldum og einstaklingum í landinu en áréttar jafnframt að við þær breytingar sem nú eru lagðar til hafi þess verið gætt eftir fremsta megni að verja hag þeirra sem minnst hafi milli handanna og kjör tekjulægstu lífeyrisþeganna því varin.
    Þá var nefndinni bent á að ýmis réttindi elli- og örorkulífeyrisþega til afsláttar eða endurgreiðslna í sjúkratryggingakerfinu fylgja örorkumati og í sumum tilfellum greiðslu tekjutryggingar. Missi einstaklingur tekjutryggingu sína gæti hann misst rétt til afsláttar eða endurgreiðslu, t.d. vegna tannlæknaþjónustu. Þessir þættir geta skipt miklu og telur meiri hlutinn því mikilvægt að þessi atriði verði tekin til skoðunar hjá heilbrigðisráðuneyti og leitað verði leiða til að breyta skilyrðum varðandi afsláttarkjör og endurgreiðslu kostnaðar af þessu tagi sem lífeyrisþegar þurfa að greiða.
    Fulltrúar hagsmunahópa lífeyrisþega sem á fund nefndarinnar komu tóku einnig fram að þeir væru ekki að skorast undan því að taka á sig byrðar í því ástandi sem nú ríkti en teldu þó að gæta þyrfti sérstaklega að því að þeirra byrðar yrðu ekki hlutfallslega þyngri en annarra og bentu á að almennar aðgerðir í skattamálum hefðu jafnt áhrif á einstaklinga í þessum hópi sem aðra. Því þyrfti að gæta sérstaklega að samlegðaráhrifum ráðstafana á þá hópa sem tekjulægstir eru. Tekur meiri hlutinn undir þessi sjónarmið.

Útgjaldaliður í IX. kafla frumvarpsins.
    Í IX. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Kveðið er á um að hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði lækki úr 400.000 kr. í 350.000 kr. Með þessu verður miðað við meðaltalsmánaðartekjur foreldra að fjárhæð 437.500 kr. þar sem greidd eru 80% af meðaltalsmánaðartekjum viðmiðunartímabils. Síðast varð breyting á hámarksgreiðslu úr sjóðnum undir lok síðasta árs þegar greiðslan lækkaði úr 480.000 kr. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að litið er svo á að einungis sé um tímabundna aðgerð að ræða. Þá er lögð til sú breyting að tímabil sem hægt er að taka út fæðingar- og foreldraorlof sé lengt frá 18 mánuðum í 36 mánuði. Breytingunni er ætlað að stuðla að meiri dreifingu á greiðslum úr sjóðnum.
    Þeim sjónarmiðum var komið á framfæri við nefndina að lækkun hámarksgreiðslna úr sjóðnum gæti haft það í för með sér að karlar yrðu tregari til töku fæðingarorlofs en konur og þannig yrði ójafnrétti með konum og körlum við töku fæðingarorlofs. Mikið hefur áunnist á síðustu árum í að jafna rétt feðra og mæðra til töku fæðingarorlofs og telur meiri hlutinn að þessi leið sé illskásti kosturinn í stöðunni þar sem ekki er hróflað við réttindum þeirra tekjulægstu eða farið í það að stytta orlofsrétt karla.
    Þeim sjónarmiðum var hreyft fyrir nefndinni að með því að lengja tímabilið sem ætlað er til töku fæðingar- og foreldraorlofs sé óbeint verið að auka vinnuvernd karla. Taki foreldri orlof sitt í heilu lagi þarf ekki að koma til samþykki vinnuveitanda, slíkt samþykki þarf aðeins að vera til staðar óski foreldri eftir að skipta upp orlofinu. Þar sem konur verða a.m.k. að taka hluta orlofs síns þegar barn fæðist eru þær því háðar samþykki vinnuveitanda fyrir töku orlofs síðar. Karlmenn geta aftur á móti einhliða ákveðið að taka fæðingar- eða foreldraorlof sitt samfleytt á 33.–35. mánuði frá fæðingu barns. Fyrir nefndinni var bent á að þar sem óleyfilegt væri að segja upp foreldri sem ætti inni fæðingarorlof gæti með þessu móti orðið til vernd gegn uppsögnum karlmanna sem gæti skapað ójafnræði á vinnumarkaði og komið vinnuveitendum illa enda mikilvægt að þeim væri ekki gert erfiðara um vik að hagræða í rekstri í því ástandi sem nú ríkir. Meiri hlutinn telur nægilegt að bregðast við þessu með því að árétta þetta við félags- og tryggingamálaráðuneytið og beina því til ráðuneytisins að það fylgist með þróun þessara þátta og bregðist við ef líkur eru á að ójafnræði myndist með kynjunum á vinnumarkaði.

Heildaráhrif.
    Meiri hlutinn hefur fullan skilning á aðhaldsþörf í ríkisfjármálum í því ástandi sem nú ríkir en áréttar þó að aldraðir og öryrkjar eru þeir þjóðfélagsþegnar sem búið hafa við hvað bágust kjör og því má ekki gleyma þeim nú þegar harðnar í ári. Nefndin ræddi breytingar sem ætlað er að auka tekjur ríkissjóðs sem og draga úr útgjöldum. Áætluð tekjuaukning af breytingum I. og II. kafla er 12,5 milljarðar kr. á ársgrundvelli eða 7 milljarðar kr. á árinu 2009. Sparnaður af breytingum á lögum um fæðingar- og foreldraorlof er áætlaður um 350 millj. kr. á ársgrundvelli og með breytingunum á lögum um almannatryggingar er gert ráð fyrir heildarsparnaði um 3.650 millj. kr. á ársgrundvelli. Þær breytingar sem lagðar eru til á almannatryggingum hafa áhrif á um 28 þúsund elli- og örorkulífeyrisþega. Ljóst er því að um víðtækar og miklar breytingar er að ræða. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að heildaraðgerðir til sparnaðar og tekjuauka lendi ekki með mestum þunga á þeim einstaklingum sem tekjulægstir eru. Þá telur meiri hlutinn að þess hafi verið gætt að standa vörð um þá sem verst eru settir. Meiri hlutinn áréttar þörf þess að þrátt fyrir þröngan ríkisbúskap verði gætt þeirra sanngirnis- og jafnræðissjónarmiða sem velferðarkerfi Íslendinga byggist á.

Breytingartillögur.
    Meiri hlutinn vill að lokum vekja athygli efnahags- og skattanefndar á tveimur breytingum sem gera þyrfti á frumvarpinu. Í 7. mgr. 30. gr. er kveðið á um gildistöku þeirra greina sem breyta lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Í ákvæðinu er tiltekið að ákvæðin eigi við um foreldra barna sem fæðast 1. júlí 2009 eða síðar en ákvæðið þyrfti einnig að taka til foreldra sem ættleiða eða taka börn í varanlegt fóstur.
    Í ljós hefur jafnframt komið að láðst hefur að breyta ákvæði til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar þess efnis að örorkulífeyrisþegar geti valið um að hafa 100.000 kr. frítekjumark á mánuði vegna atvinnutekna eða telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar. Þetta val er afnumið með c-lið 14. gr. frumvarpsins en stendur enn í bráðabirgðaákvæðinu og því myndast misræmi sé þessu ekki breytt.

Breytingartillögur:
     1.      Við VII. kafla frumvarpsins bætist ný grein, svohljóðandi:
             11. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum orðast svo: Þrátt fyrir ákvæði 3. málsl. b-liðar 2. mgr. 16. gr. laganna skal örorkulífeyrisþegi á tímabilinu 1. júlí 2009 til 1. janúar 2010 hafa 109.600 kr. frítekjumark á mánuði vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar.
     2.      Við 7. mgr. 30. gr. Í stað orðsins „fæðast“ komi: fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur.

    Guðmundur Steingrímsson skrifar undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 25. júní 2009.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, varaform.,
Guðbjartur Hannesson,
Guðmundur Steingrímsson, með fyrirvara,
Lilja Rafney Magnúsdóttir,
Ólína Þorvarðardóttir.



Fylgiskjal IV.

Álit allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur að beiðni efnahags- og skattanefndar fjallað um X.–XIII. og XV. kafla frumvarpsins og ákvæði til bráðabirgða VI og VII. Á fund nefndarinnar kom Páll Þórhallsson frá forsætisráðuneyti, Bryndís Helgadóttir og Hjalti Zóphóníasson frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Sif Guðjónsdóttir og Karl Axelsson frá óbyggðanefnd og Guðmundur Þór Guðmundsson, Bjarni Grímsson og Gísli Jónasson frá Biskupsstofu. Umsagnir um framangreinda kafla frumvarpsins bárust frá Biskupsstofu, óbyggðanefnd, Háskóla Íslands, Siðmennt, Vantrú og Andrési Inga Jónssyni.
    Markmið frumvarpsins er að bregðast við miklu tekjufalli og útgjaldaauka sem ríkissjóður hefur orðið fyrir vegna áfalla í efnahagskerfinu og þeirra miklu skulda sem fallið hafa á ríkissjóð í kjölfarið. Frumvarpið felur í sér breytingar á ýmsum lögum um tekjuöflun ríkissjóðs og tilteknum lögbundnum útgjaldaliðum. Í X. kafla eru lagðar til breytingar á lögum um meðferð einkamála. Þar er lagt til að í stað dómstólaráðs verði ráðherra heimilað að kveða á um hámark gjafsóknarfjárhæðar í einstökum málaflokkum, sem og hámark þeirra tekna sem umsækjandi má hafa til að fá gjafsókn vegna efnahags. Í XI. kafla eru lagðar til breytingar á lögum um meðferð sakamála sem fela í sér að ráðherra verði í stað dómstólaráðs heimilað að mæla fyrir um tímagjald sem héraðsdómari skal taka mið af við ákvörðun þóknunar til skipaðs verjanda og skipaðs réttargæslumanns. Í skýringum í greinargerð kemur fram að fyrirhugað er að lækka tímagjaldið sem nú er 11.200 kr. um 12%. Var nokkuð rætt um hugsanlegar afleiðingar þess, þ.e. að færri yrðu tilbúnir til að taka að sér störf skipaðra verjenda og réttargæslumanna þar sem að þau eru oft mjög erfið og vandasöm og að það gæti hugsanlega komið niður á gæðum starfsins. Nefndin bendir á mikilvægi þess að skoðað verði hvernig unnt verði að bregðast við þeirri þróun sem viðbúið er að verði í aðkeyptri lögmannaþjónustu ríkisins eftir því um hvaða málaflokka er að ræða.
    Í XII. kafla eru lagðar til breytingar á lögum um sóknargjöld, þ.e. lögboðnum framlögum
úr ríkissjóði til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskóla Íslands vegna þeirra sem ekki eru í þjóðkirkjunni eða skráðum trúfélögum. Lagt er til að framlagið til Háskóla Íslands verði afnumið og í þess stað komi bein fjárheimild samkvæmt fjárlögum. Fellst nefndin á að sú tilhögun sé eðlileg. Við umfjöllun nefndarinnar var vakin athygli á því að um síðustu áramót voru sóknargjöld vegna ársins 2009 lækkuð úr 872 kr. í 855 kr. á mánuði fyrir hvern einstakling, 16 ára og eldri. Í ákvæði til bráðabirgða VI, sem á að taka gildi 1. júlí, er lagt til að gjaldið verði 811 kr. frá gildistöku og 767 kr. fyrir árið 2010. Vakin er athygli á því að misræmi er á milli frumvarpstexta og skýringa í greinargerð. Var þeim sjónarmiðum hreyft fyrir nefndinni að eðlilegra væri að deila þessari lækkun niður á tvö ár og að gjaldið yrði því ekki lægra en 800 kr. á mánuði árið 2010 og 2011. Nefndin telur nokkur rök fyrir þeirri tillögu og telur eðlilegt að þjóðkirkjan og skráð trúfélög fái þann tíma til að bregðast við þessari lækkun með hagræðingu í rekstri.
    Í XIII. kafla er lagt til að bætur ríkissjóðs til þolenda afbrota vegna einstaks verknaðar skuli ekki greiddar nema höfuðstóll sé 400.000 kr. eða hærri. Samkvæmt gildandi lögum er miðað við 100.000 kr. eða hærri bætur. Þannig fellur bótaskylda ríkissjóðs vegna smávægilegra brota niður. Í ljósi aðstæðna fellst nefndin á þessa tilhögun.
    Í XV. kafla frumvarpsins er lögð til sú breyting á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta að tími óbyggðanefndar til að ljúka verkefni sínu verði framlengdur til ársins 2014. Nefndin tekur undir mikilvægi þess að ákvæði frumvarpsins leiði eingöngu til frestunar á því að þjóðlendumál verði til lykta leidd. Nefndin ræddi möguleika þess að skoðað verði hvort unnt sé að fresta svæði 7B sem óbyggðanefnd hefur hafið vinnu við.

Alþingi, 25. júní 2009.

Valgerður Bjarnadóttir,
Arndís Soffía Sigurðardóttir,
Vigdís Hauksdóttir, með fyrirvara,
Ásmundur Einar Daðason, með fyrirvara,
Þráinn Bertelsson.






Fylgiskjal V.

Afdráttarskattar af vöxtum samkvæmt tvísköttunarsamningum
sem Ísland hefur gert.


     Samningsland     Vextir frá Íslandi     Vextir til Íslands
    Austurríki*     0%     0%
    Bandaríkin     0%     0%
    Bretland     0%     0%
    Frakkland     0%     0%
    Grikkland     0%     0%
    Grænland     0%     0%
    Holland     0%     0%
    Írland     0%     0%
    Ítalía          0%     0%
    Katar*     0%     0%
    Lúxemborg     0%     0%
    Malta     0%     0%
    Norðurlönd     0%     0%
    Rússland     0%     0%
    Slóvakía     0%     0%
    Sviss     0%     0%
    Ungverjaland     0%     0%
    Tékkland     0%     0%
    Þýskaland     0%     0%
    Albanía*     0%     10%
    Belgía     0%     10%
    Búlgaría*     0%     3%
    Eistland     0%     10%
    Indland     0%     10%
    Kanada     0%     10%
    Kína          0%     10%
    Króatía*     0%     10%
    Lettland     0%     10%
    Litháen     0%     10%
    Mexíkó     0%     10%
    Portúgal     0%     10%
    Pólland     0%     10%
    Rúmenía     0%     3%
    Slóvenía*     0%     5%
    Spánn     0%     5%
    Suður-Kórea     0%     10%
    Úkraína     0%     10%
    Víetnam     0%     10%

    * samningar ekki fullgiltir