Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 82. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 184  —  82. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, með síðari breytingum.

Frá menntamálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórhall Vilhjálmsson og Jón Vilberg Guðjónsson frá menntamálaráðuneyti, Rakel Lind Hauksdóttur frá Bandalagi íslenskra námsmanna, Guðrúnu Ragnarsdóttur, framkvæmdastjóra Lánasjóðs íslenskra námsmanna, Hjördísi Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra námsmanna erlendis, Harald G. Eiðsson, stjórnarformann Lánasjóðs íslenskra námsmanna, og Sindra Snæ Einarsson, varaformann Sambands íslenskra framhaldsskólanema.
    Umsagnir bárust frá Seðlabanka Íslands, sýslumanninum í Reykjavík, Neytendasamtökunum, Alþýðusambandi Íslands, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lögð til sú breyting að námsmaður sem uppfyllir skilyrði stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna um lánshæfismat þurfi ekki að leggja fram yfirlýsingu annars manns um sjálfskuldarábyrgð við lántöku. Í öllum tilvikum sé því gengið út frá því að námsmaður fái almennt námslán nema fyrir liggi upplýsingar sem benda til þess að hann teljist ótraustur lántaki. Er stjórn sjóðsins þá heimilt að synja námsmanni um námslán. Námsmaður sem fær synjun kann þó að eiga möguleika á námsláni gegn tryggingu í formi sjálfskuldarábyrgðar ábyrgðarmanns, veðrétti í fasteign eða bankaábyrgð.
    Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir við það að stjórn Lánasjóðsins setji reglur um lánshæfismat og sé í sjálfsvald sett hvaða skilyrði námsmenn þurfi að uppfylla svo ábyrgðar verði ekki krafist. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og leggur áherslu á að mikilvægt sé að við mótun nýrra reglna verði þess gætt að skilyrði þau sem lántakendur þurfi að uppfylla svo ekki verði krafist yfirlýsingar annars manns um ábyrgð verði ekki þrengd svo mjög að markmið laganna nái ekki fram að ganga.
    Á fundi nefndarinnar kom fram hjá fulltrúum Lánasjóðs íslenskra námsmanna að þeir lánþegar sem eru á vanskilaskrá þegar sótt eru um lán þurfi að leggja fram tryggingu áður en lánið er veitt. Nefndin telur að þótt viðmiðið sé vanskilaskrá sé mikilvægt að stjórnin meti út frá gögnum og skýringum frá lánþega hvort skilyrði séu til þess að veita jákvæða ívilnun með þeim hætti að ekki verði gerð krafa um ábyrgð eða annars konar tryggingu.
    Nefndin áréttar að við innheimtu kröfu á hendur ábyrgðarmönnum námslána er hvorki unnt að gera aðför í fasteign þar sem ábyrgðarmaður býr eða fjölskylda hans né verður krafist gjaldþrotaskipta á búi ábyrgðarmanns. Gildir þetta einnig um kröfur sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku laga um ábyrgðarmenn, nr. 32/2009.
    Við meðferð málsins í nefndinni velti nefndin fyrir sér hugtakinu ,,sjálfskuldarábyrgð“ í 1. gr. en hin lögfræðilega skilgreining hugtaksins vísar til þess þegar einstaklingur eða fyrirtæki ábyrgist greiðslu skuldar annars aðila (aðalskuldara). Nefndin telur að með hliðsjón af því annars vegar að markmið laganna sé að fella brott skilyrðið um að nauðsynlegt sé að hafa ábyrgðarmann á námslánum og hins vegar að skýrt komi fram í greinargerð að með frumvarpinu sé lögð til sú breyting að samkvæmt meginreglu þurfi námsmaður sem uppfyllir skilyrði stjórnar Lánasjóðsins um lánshæfismat ekki að leggja fram yfirlýsingu annars manns um sjálfskuldarábyrgð þá sé villandi að hugtakið sjálfskuldarábyrgð komi fyrir í 1. gr. frumvarpsins og leggur til að það verði fellt brott.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Efnismálsgrein a-liðar 1. gr. orðist svo:
    Námsmenn, sem fá lán úr sjóðnum, skulu undirrita skuldabréf við lántöku, teljist þeir lánshæfir samkvæmt reglum stjórnar sjóðsins. Teljist námsmaður ekki lánshæfur getur hann lagt fram ábyrgðir sem sjóðurinn telur viðunandi.

    Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Skúli Helgason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 25. júní 2009.



Oddný G. Harðardóttir,


form., frsm.


Ásmundur Einar Daðason.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.



Eygló Harðardóttir.


Árni Þór Sigurðsson.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir,


með fyrirvara.



Unnur Brá Konráðsdóttir,


með fyrirvara.


Margrét Tryggvadóttir.