Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 133. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 186  —  133. mál.




Frumvarp til laga



um heimild ríkissjóðs Íslands til viðbótarlántöku á árinu 2009.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar (HHj, MSch, ÁI, SII, ÁsmD).



1. gr.

    Fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, er heimilt á árinu 2009:
     a.      að veita Landsvirkjun heimild til að nýta lántökuheimild, sbr. 9. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun, allt að 50 milljörðum kr.
     b.      að taka lán allt að að 290 milljörðum kr. eða jafngildi þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt, að hluta með útgáfu markaðsverðbréfa ríkissjóðs, verði þess talin þörf til að efla gjaldeyrisvaraforða Seðlabanka Íslands, til að leggja þeim fjármálafyrirtækjum til eigið fé sem stofnuð hafa verið á grundvelli laga nr. 125/2008 eða til að styrkja viðskipti á innlendum fjármálamarkaði með útgáfu ríkisverðbréfa. Heimilt er að endurlána Seðlabanka Íslands þann hluta sem tekinn verður að láni í erlendri mynt.
    Lántökuheimild ríkissjóðs skv. 1. mgr. hefur ekki áhrif á lántökuheimildir ríkissjóðs skv. 5. gr. fjárlaga fyrir árið 2009.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í frumvarpinu er lagt til að Landsvirkjun verði veitt heimild til lántöku allt að 50 milljörðum kr. á þessu ári til viðbótar við þá 20 milljarða kr. heimild sem er til staðar í tölul. 3.1 í 5. gr. fjárlaga fyrir árið 2009. Þetta er í samræmi við yfirlýsingar fyrirtækisins um að 65–70 milljarða kr. þurfi á yfirstandandi ári til að mæta endurfjármögnunarþörf fyrirtækisins og til að geta ráðist í nýjar virkjunarframkvæmdir. Í annan stað er lagt til að ríkissjóði verði veitt 290 milljarða kr. viðbótarheimild til lántöku umfram þá heimild sem ríkissjóður hefur skv. 5. gr. fjárlaga fyrir árið 2009, nánar tiltekið 1. og 4. tölul. Er þetta í samræmi við endurmat á lántökuþörf ríkisins sem skýrist af eftirtöldum ráðstöfunum:
    Útgáfuheimild ríkisbréfa          250.000
    Fjármögnun eiginfjár nýju bankanna          385.000
    Lán Norðurlanda          230.000
    Lán Póllands og Rússlands          85.000
     Samtals lántökur          950.000
    
    Heimild skv. 1. og 4. tölul. 5. gr. fjárlaga 2009          660.000
     Vöntun lánsfjárheimilda          290.000
    
    Fordæmi eru fyrir því að viðbótarlánsfjárheimilda sé aflað með almennum lögum, sbr. lög nr. 60/2008.