Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 70. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 201  —  70. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 10/2004, um starfsmenn í hlutastörfum.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu S. Gunnsteinsdóttur og Bjarnheiði Gautadóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneyti. Þá bárust umsagnir frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Starfsgreinasambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Félagi íslenskra stórkaupmanna og Viðskiptaráði Íslands.
    Frumvarpinu er ætlað að innleiða með fullnægjandi hætti tilskipun ráðsins 97/81/EB um rammasamninginn um hlutastörf sem Evrópusamband verkalýðsfélaga, Samtök evrópskra iðn- og atvinnurekenda og Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild hafa gert. Frumvarpið er tilkomið vegna þess að Eftirlitsstofnun EFTA hefur talið þær undanþágur of víðtækar sem lögfestar voru með 3. og 4. mgr. 2. gr. laga um starfsmenn í hlutastörfum. Ákvæðin sem lagt er til að felld verði brott kveða á um undanþágu frá lögunum vegna starfsmanna ríkis og sveitarfélaga sem greitt fá tímavinnukaup og þeirra sem stunda störf á grundvelli grunnnáms, námssamninga eða ráðningarsambands sem er liður í þjálfunar-, aðlögunar- eða endurmenntunaráætlun. Þrátt fyrir breytinguna verður ríki og sveitarfélögum áfram heimilt að ráða til starfa fólk sem á grundvelli hlutlægra ástæðna fær greitt tímavinnukaup enda samræmist slík ráðning ákvæðum kjarasamninga og eftir atvikum öðrum lögum. Fái starfsmaður í hlutastarfi greitt tímavinnukaup skulu kjör hans borin saman við starfskjör og starfsskilyrði sambærilegs starfsmanns, þ.e. starfsmanns í fullu starfi sem fær greitt tímavinnukaup. Sé enginn sambærilegur starfsmaður í fullu starfi skal samanburðurinn gerður með vísan til viðeigandi kjarasamnings.
    Nefndin hefur fjallað um málið en markmið breytinganna er að tryggja fólki í hlutastörfum á tímavinnukaupi þá vernd sem lögunum er ætlað að veita. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Pétur H. Blöndal, Jón Gunnarsson og Ólína Þorvarðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 30. júní 2009.



Lilja Mósesdóttir,


form., frsm.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.



Þuríður Backman.


Guðbjartur Hannesson.


Guðmundur Steingrímsson.