Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 78. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 202  —  78. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu S. Gunnsteinsdóttur og Bjarnheiði Gautadóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneyti. Þá bárust umsagnir frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Starfsgreinasambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Félagi íslenskra stórkaupmanna og Viðskiptaráði Íslands.
    Frumvarpinu er ætlað að innleiða með fullnægjandi hætti tilskipun ráðsins 1999/70/EB, um rammasamninginn um tímabundna ráðningu sem Evrópusamband verkalýðsfélaga, Samtök evrópskra iðn- og atvinnurekenda og Evrópusamtök fyrirtækja með opinberri eignaraðild hafa gert. Í dómi Evrópudómstólsins í máli nr. C-212/04 staðfesti dómstólinn þá grundvallarreglu sem jafnframt er lögfest á Íslandi að tímabundnir ráðningarsamningar skuli vera undantekning frá meginreglunni um að ráðningarsamningar skuli vera ótímabundnir. Umboðsmaður Alþingis áréttaði þessa meginreglu jafnframt í áliti sínu í máli nr. 4929/2007.
    Tilgangur framangreindar tilskipunar er að koma í veg fyrir misnotkun á tímabundnum ráðningum. Evrópudómstólinn taldi reglu sem kveður á um að nýr ráðningarsamningur verði ekki talinn taka við af eldri samningi þegar lengri tími en 20 virkir dagar líður milli þess að samningar milli sömu aðila eru gerðir vera í andstöðu við þennan tilgang. Í kjölfar dóms Evrópudómstólsins gerði Eftirlitsstofnun EFTA athugasemd við 2. mgr. 5. gr. laga um tímabundna ráðningu starfsmanna þar sem kveðið er á um að nýr ráðningarsamningur teljist taka við af öðrum sé hann framlengdur eða ef nýr ráðningarsamningur kemst á milli sömu aðila innan þriggja vikna frá lokum gildistíma eldri samnings. Samkvæmt lögunum er óheimilt að framlengja eða endurnýja tímabundinn ráðningarsamning þannig að hann vari samfellt lengur en í tvö ár. Hefur ákvæðið því þau áhrif að líði lengri tími en þrjár vikur þar til nýr samningur er gerður telst ekki vera um framlengingu eða endurnýjun samnings að ræða heldur sé kominn á nýr samningur. Í frumvarpinu er því lagt til að þessi tími verði lengdur í sex vikur sem þyki þá hæfilegur tími og talinn ná tilgangi laganna til að koma í veg fyrir misnotkun á tímabundnum ráðningum.
    Nefndin áréttar þá meginreglu að ráðningarsamningar skuli verða ótímabundnir og telur frumvarpið til bóta fyrir rétt launafólks. Nefndin telur jafnframt rétt að benda á að í dómi Evrópudómstólsins kemur ekki fram hver hæfilegur tími sé, einungis að 20 virkir dagar eða fjórar vikur sé ekki nægilega langur tími enda gætu starfsmenn oftar en ekki þurft að sætta sig við svo langt tímabil milli starfssamninga við vinnuveitanda sinn. Þannig mætti leiða að því líkur að taki starfsmenn sér sumarfrí við lok tímabundins samnings og nýr samningur sé ekki gerður fyrr en að sumarleyfi loknu geti hafa liðið þrjár til fjórar vikur sem leiði þá til þess að nýtt ráðningarsamband myndast og tveggja ára hámarkstímabil tímabundinnar ráðningar byrjar að telja að nýju. Af þessum sökum áréttar nefndin mikilvægi þess að launafólki með tímabundna ráðningu sé veitt nægileg vernd og sá tími sem frumvarpið kveður á um verði lengdur leiði reynslan í ljós að þörf sé á því.
    Nefndin hefur fjallað um málið og leggur til að það verði samþykkt óbreytt.
    Pétur H. Blöndal, Jón Gunnarsson og Ólína Þorvarðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 30. júní 2009.Lilja Mósesdóttir,


form., frsm.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.Þuríður Backman.


Guðbjartur Hannesson.


Guðmundur Steingrímsson.