Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 136. máls.

Þskj. 204  —  136. mál.Frumvarp til laga

um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að
ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá
breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum
til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

(Lagt fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009.)
1. gr.

    Fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, er heimilt að veita Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta ríkisábyrgð vegna lána sjóðsins frá breska og hollenska ríkinu samkvæmt samningum dags. 5. júní 2009 til að standa straum af lágmarksgreiðslum, sbr. 10. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Ábyrgðin tekur til höfuðstóls lánanna eins og hvor um sig mun standa að sjö árum liðnum frá undirritun samninganna, 5. júní 2016, auk vaxta af lánsfjárhæðinni, og afmarkast að öðru leyti af ákvæðum samninganna, þ.m.t. um endurskoðun þeirra. Fjármálaráðherra setur Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta frekari skilyrði vegna ábyrgðarinnar einkum varðandi eftirlit með fjárhag hans og endurheimtu eigna úr búi Landsbanka Íslands.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði laga nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, að undanskilinni 5. gr. þeirra laga, gilda ekki varðandi þá ábyrgð sem lög þessi taka til.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1. Inngangur.
    Með lagafrumvarpi þessu er leitað eftir samþykki Alþingis við því að ríkissjóður gangist í skilyrta ábyrgð fyrir láni Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta hjá breska og hollenska ríkinu. Lánin eru tekin vegna uppgjörs á lágmarksinnstæðutryggingum við innstæðueigendur á netreikningum Landsbankans í Hollandi og Bretlandi. Nauðsynlegt er að rekja forsögu málsins allt frá því að Tryggingarsjóður innstæðueigenda var settur á laggirnar og þar til samningar náðust við Breta og Hollendinga um lántökuna.

2. Stofnun Tryggingarsjóðs innstæðueigenda.
    Ísland er á grundvelli EES-samningsins skuldbundið til að innleiða í landsrétt tilskipanir 94/19/EB um innlánstryggingar og 97/7/EB um tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Í lok desember 1999 innleiddi Alþingi tilskipanirnar í íslenskan rétt með lögum nr. 98/1999. Á grundvelli laganna varð til nýr tryggingarsjóður, Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, sem er sjálfseignarstofnun. Aðildarfélög Tryggingarsjóðsins eru viðskiptabankar, sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti og hafa staðfestu hér á landi. Markmið laganna um innstæðutryggingarnar er að veita innstæðueigendum lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi innlánsstofnunar.
    Í lögunum er m.a. kveðið á um rekstur, fjármögnun, greiðsluskyldu og fjárhæð greiðslna úr sjóðnum. Þar kemur fram að dugi eignir sjóðsins ekki til fullrar tryggingar skuli krafa hvers tryggðs innstæðueiganda að 1,7 milljónum króna greidd að fullu en eftir það skuli greitt hlutfallslega inná allar kröfur. Þessi fjárhæð er tengd við gengi evru 5. janúar 1999 og er í evrum 20.887.
    Í athugasemdum við frumvarp til laga um innstæðutryggingar var skýrt með hvaða hætti sjóðurinn tryggði innstæður þegar banki eða sparisjóður stæði frammi fyrir greiðsluerfiðleikum (leturbreyting til áherslu):
             „Ef eignir sjóðsins hrökkva ekki til að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna, verðbréfa og reiðufjár skal greiðslu úr sjóðnum skipt þannig milli kröfuhafa að heildarkrafa hvers þeirra allt að 1,7 millj. kr. verði bætt að fullu en allt sem umfram er þessa fjárhæð skal bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir sjóðsins hrökkva til. Sjóðnum er heimilt að taka lán til að greiða kröfuhöfum hrökkvi eignir sjóðsins ekki til.
    Í framsöguræðu þáverandi viðskiptaráðherra, Finns Ingólfssonar, var svo enn frekar hnykkt á þeim skilningi að sjóðnum bæri að bæta upp tjón sparifjáreigenda að lágmarki 1,7 milljónir króna hvort sem eignir hans dygðu til þess eða ekki.

3. Einkavæðing bankanna og útrás.
    Árið 2002 voru tveir ríkisbankar einkavæddir, Landsbankinn og Búnaðarbankinn, með það að markmiði „að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins“ eins og kom fram í umræðu um einkavæðingu bankanna á þeim tíma. Landsbankinn var seldur svokölluðum Samson hópi, sem var undir forustu Björgólfs Thors Björgólfssonar og Björgólfs Guðmundssonar, á rúma 11 milljarða króna. Í hönd fór mikið útþensluskeið íslensks bankakerfis sem stundum var nefnt „útrásin“ og átti að tákna landvinninga íslenskra fjármálafyrirtækja í hinu alþjóðlega fjármálakerfi. Fylgifiskur útrásarinnar var gífurleg skuldsetning þjóðarbúsins. Í þessari skuldsetningu áttu bankarnir stóran þátt, en á aðeins 6 árum urðu skuldir Landsbanka Íslands um 3.000 milljarðar íslenskra króna, þrátt fyrir að hann hafi verið keyptur á einungis 11 milljarða króna sex árum fyrr.
    Fjármálaeftirlitið (FME) og Seðlabankinn fara með eftirlit með íslenskum fjármálafyrirtækjum. Fjármálaeftirlitið veitir fjármálastofnunum starfsleyfi og hefur almennt eftirlit með því að þær uppfylli skilyrði fyrir rekstri. Seðlabanki Íslands á að halda uppi virku og öruggu fjármálakerfi, ráða yfir nægilegum gjaldeyrisforða og halda uppi greiðslukerfum innan lands og milli Íslands og annarra ríkja. Bankinn hefur vald til að setja reglur um lausafjárstöðu lánastofnana, bindiskyldu og umfangsmikla lántöku í erlendri mynt. Enn fremur getur Seðlabankinn, ef hann telur það nauðsynlegt til að tryggja stöðugleika fjármálakerfisins, veitt lánastofnunum í lausafjárvanda ábyrgðir eða lán gegn tryggingu eða með öðrum skilyrðum sem bankinn setur.

3.1. Útibú.
    Landsbankinn stofnaði útibú í Bretlandi í mars 2005 og í Hollandi haustið 2007. Samkvæmt 36. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, skal innlent fjármálafyrirtæki sem hyggst starfrækja útibú í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu tilkynna það Fjármálaeftirlitinu (FME) fyrir fram en stofnun útibúsins er ekki háð sérstöku starfsleyfi frá FME. Í tilkynningu til FME skal koma fram hvaða starfsheimildir úr starfsleyfinu fjármálafyrirtækið hyggist nýta sér í útibúinu erlendis. Ef fjármálafyrirtækið hyggst síðar nota aðrar starfsheimildir í útibúinu tilkynnir það FME vanalega um slíkt. FME fer yfir tilkynninguna og svo fremi sem fyrirhuguð starfsemi er innan marka starfsleyfis viðkomandi fyrirtækis ber FME samkvæmt sömu grein að tilkynna lögbærum yfirvöldum í væntanlegu starfsríki að starfsleyfi fyrirtækisins heimili rekstur útibúsins. Viðkomandi fjármálafyrirtæki tilkynnir einnig um stofnun útibúsins til eftirlitsstjórnvalds gistiríkisins.
    Innan EES gildir síðan að útibú er rekið að meginstefnu til undir eftirliti stjórnvalda í heimaríki og, það sem mestu skiptir í því máli sem hér fjallað um, fellur undir tryggingakerfi innstæðna í heimaríki sínu.

3.2. Dótturfélög.
    Íslensku bankarnir keyptu á svipuðum tíma erlenda banka og gerðu að dótturfélögum sínum. Í Bretlandi keypti Landsbankinn Heritable banka og Kaupþing keypti Singer & Friedlander (KSF). Í báðum tilvikum er um breska banka að ræða sem lúta fullu eftirliti breskra yfirvalda öfugt við það sem gildir um útibúin. Innstæður í Heritable og KSF voru því tryggðar í innstæðutryggingakerfi Bretlands.

3.3. Söfnun innlána erlendis.
    Árin 2006 og 2007 fór að gæta erfiðleika hjá íslensku bönkunum við að endurfjármagna gríðarmiklar skuldir sínar. Sem mögulega lausn á þeim vanda hófu tveir þeirra, Kaupþing og Landsbanki, innlánastarfsemi í Bretlandi þar sem sparifjáreigendum var lofað hárri ávöxtun – mun hærri en gerðist hjá öðrum þarlendum innlánsstofnunum.
    Í október 2006 hóf Landsbankinn að taka við innlánum undir nafninu Icesave í Bretlandi. Útibúið í Hollandi hóf að taka við innlánum síðari hluta maí 2008. Hér er rétt að endurtaka að íslenski tryggingarsjóðurinn ber ábyrgð á innlánum útibúa íslenskra banka, hvort sem þau eru hér á landi eða erlendis. Ábyrgð vegna innstæðna dótturfélaga íslenskra banka erlendis fellur hins vegar á tryggingarsjóð þess lands þar sem dótturfélagið er staðsett og því bar breski tryggingarsjóðurinn ábyrgð á innstæðum á svokölluðum Edge-reikningum hjá Kaupþingi vegna þess að þeir reikningar voru hjá dótturfélagi Kaupþings, KSF.
    Í október 2007, ári eftir að London-útibú Landsbankans hóf að taka við innlánum, var fjöldi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi orðinn 105 þúsund. Þessir reikningar hlóðu á sig miklum fjárhæðum og allt var þetta með starfsleyfum og undir eftirliti frá FME og Seðlabankanum í ákveðnu samstarfi þó við stjórnvöld í gistiríkjunum. Innlánasöfnunin hélt áfram af fullum krafti allt til síðasta dags og vekur þar sérstaka athygli að nokkrum mánuðum fyrir bankahrunið, eða í maí 2008, opnaði Landsbankinn Icesave-reikninga í Hollandi og náði að safna þar á annað hundrað þúsund viðskiptavinum áður en bankinn féll 6. október sama ár. Við hrun voru heildarinnstæður í Hollandi 1.674.285.671 evrur og í Bretlandi 4.526.988.847 pund, eða alls um 1.244 milljarðar króna á núverandi verðlagi.

3.4. Viðbrögð yfirvalda.
    Fyrir hrun bankanna höfðu bresk stjórnvöld unnið að því um nokkurt skeið ásamt íslenskum stjórnvöldum að fá Landsbankann til að flytja innstæður svokallaðra Icesave-reikninga úr útibúinu í breskt dótturfélag. Bresk stjórnvöld gerðu mjög stífar kröfur um flutning eigna Landsbankans til Bretlands og um tímamörk fyrir eignaflutninginn. Íslensk stjórnvöld unnu að því að Landsbankanum yrði heimilað að flytja innstæður í breskt dótturfélag strax, en að Landsbankanum yrði jafnframt gefinn eðlilegur frestur til skipulegs flutnings á eignum á móti innstæðum þannig að fjármögnunarsamningar bankans röskuðust sem minnst. Fulltrúar stjórnvalda beggja landa áttu fund í London 2. september 2008 þar sem málið var rætt. Ekki náðist að ljúka flutningnum fyrir hrun bankanna. Hollendingar áttu fundi með forstjóra FME haustið 2008 vegna þess að þeir höfðu áhyggjur af stöðu Landsbankans. Einnig höfðu hollensk yfirvöld samband við yfirmenn Landsbankans og lýstu yfir áhyggjum af stöðu mála.
    Líkt og áður hefur komið fram var eftirlit með starfsemi Landsbankans á ábyrgð FME og Seðlabankans. Í skýrslu Kaarlo Jännäri, finnsks bankasérfræðings, sem unnin var fyrir íslensk stjórnvöld og birt í lok mars 2009, kemur fram að eftirtektarvert hafi verið að útibú íslenskra fjármálastofnana erlendis skuli hafa verið undanþegin bindiskyldu síðan í maí 2008. Seðlabankanum og öðrum stjórnvöldum var þó nokkur vandi á höndum í þessari vinnu því á sama tíma og leitað var leiða til að draga úr áhættu þurfti að forðast athafnir sem gætu stuðlað að áhlaupi á bankana. Rétt er að hafa þetta í huga þegar atburðir eru skoðaðir eftir á.

4. Bankahrunið.
    Óþarfi er að fjölyrða hér um sjálft bankahrunið í byrjun október. Íslensk stjórnvöld stóðu frammi fyrir efnahagslegu áfalli af áður óþekktri stærð í hagsögunni. Þrátt fyrir að 85% íslenska bankakerfisins hryndi á rúmum vikutíma tókst að halda innlendri greiðslumiðlun og almennri bankaþjónustu gangandi. Greiðslumiðlun milli landa varð hins vegar fyrir miklum truflunum en með mikilli elju tókst þó að koma í veg fyrir að hún stöðvaðist með öllu.
    Íslenska ríkið greip inn í rekstur íslenskra fjármálafyrirtækja eins og tíðkast hefur um allan heim við sambærilegar aðstæður síðustu áratugi. Með því tókst að koma í veg fyrir allsherjaráhlaup á íslensku bankana, en slíkt hefði að líkum leitt til víðtæks hruns í íslensku atvinnulífi og samfélagi. Það er deginum ljósara að Ísland hafði á þessum dögum í upphafi októbermánaðar ekki bolmagn til að hlaupa undir bagga með rekstri útibúa íslensku bankanna erlendis og að ef það hefði verið reynt hefði það verið dæmt til að mistakast með ófyrirséðum afleiðingum. Alþingi brást við með setningu neyðarlaganna svokölluðu 6. október 2008 (lög um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008) og lagði þar grunninn að þeirri leið að innlendri starfsemi yrði skipt út úr þeim bönkum sem féllu. Þannig yrði til nýr banki við hlið gamla bankans í hverju tilfelli og nýi bankinn tæki yfir innlenda starfsemi meðan sú erlenda væri skilin eftir í eldri bankanum. Sjálfsagt verður deilt um það um ókomin ár og áratugi hvort sú aðferð sem valin var með neyðarlögunum hafi verið rétt en hér verður umfjöllunin takmörkuð við það sem snýr að stöðu innstæðueigenda í útibúum Landsbankans erlendis.

4.1. Innstæður í erlendum útibúum.
    Heildarfjárhæð innstæðna á Icesave-reikningunum í Amsterdam-útibúi Landsbankans við hrun bankans í október var 1.674.285.671 evrur. Þar af voru innstæður undir 20.887 evrum samtals 1.329.242.850 evrur, sem falla á Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Eftir standa 345.042.821 evrur sem eru utan ábyrgðar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda. Hollensk yfirvöld (Seðlabanki Hollands, DNB) greiddu innstæðueigendum út innstæður upp að 100.000 evrum og bera þeir kostnað vegna þessa að því marki sem það er umfram lágmarkstrygginguna og fæst ekki úr þrotabúi Landsbankans. Alls áttu 469 innstæðueigendur innstæður umfram 100.000 evrur, samanlagt nemur sú upphæð 40 milljónum evra. Þessir innstæðueigendur eiga forgangskröfu í bú Landsbankans, en verða að bíða skiptaloka til að sjá hvert tap þeirra verður.
    Heildarfjárhæð innstæðna á Icesave-reikningum í London-útibúi Landsbankans við hrun bankans í október nam 4.526.988.847 pundum. Þar af eru a.m.k. 2.176.988.847 pund utan ábyrgðar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda. Um helmingur innstæðna London-útibúsins hefur því verið greiddur út af breska innstæðutryggingarsjóðnum og breska ríkinu. Breski tryggingarsjóðurinn (FSCS) greiddi innstæðueigendum upp að 50.000 pundum. Breska ríkið greiddi svo afgang innstæðnanna, þannig að almennir breskir innstæðueigendur hafa fengið innstæður sínar greiddar að fullu. Vegna þessara útgreiðslna á breska ríkið kröfu á þrotabú Landsbankans, en mun sjálft bera þann hluta sem ekki fæst úr búinu.
    Lánasamningarnir snúa aðeins að almennum innlánseigendum (e. retail deposits), þ.e. innlánum einstaklinga. Heildsöluinnlán (e. wholesale deposits), þ.e. innlán flestra fyrirtækja, félagasamtaka og stofnana, standa utan tryggingakerfa Bretlands og Hollands og falla því ekki undir lánasamningana. Í hópi þessara innlánseigenda eru mörg sveitarfélög og líknarsamtök. Fjárhæðir heildsöluinnlána í London-útibúi Landsbankans voru í október 2008 544.553.275 pund og fjöldi innlánseigenda var á annað hundrað. Í Amsterdam-útibúinu voru um 30 heildsöluinnstæðueigendur. Fjárhæð innlána þeirra var 250.133.293 evrur. Þessir innlánseigendur njóta íslenskrar lágmarkstryggingar (20.887 evrur) og munu fá greitt úr þrotabúi Landsbankans eins og aðrir forgangskröfuhafar eftir því sem skiptum vindur fram.

4.2. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda.
    Við bankahrunið í október lokaðist aðgangur að innstæðum í útibúum Landsbankans erlendis. Í aðdraganda þess höfðu stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi haft vaxandi áhyggjur af því að sú staða gæti komið upp að reyndi á íslenska innstæðutryggingakerfið sem hefði í raun takmarkað bolmagn til þess. Íslensk yfirvöld höfðu ítrekað nokkrum sinnum að sjóðurinn mundi standa við skuldbindingar gagnvart innstæðueigendunum og að yfirvöld mundu styðja sjóðinn til þess ef þörf kræfi og gerðu það áfram dagana eftir hrun bankanna.
    Í bréfi frá íslenska viðskiptaráðuneytinu til breska fjármálaráðuneytisins, dagsettu 20. ágúst 2008, segir í íslenskri þýðingu:
             „Ef svo ólíklega færi, að okkar mati, að stjórn Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta tækist ekki að afla nægilegs fjár á fjármálamörkuðum viljum við fullvissa yður um að íslenska ríkisstjórnin mun gera allt sem ábyrgar ríkisstjórnir myndu gera í slíkri stöðu, þar á meðal að aðstoða sjóðinn við að afla nauðsynlegs fjár til að hann geti uppfyllt kröfur um lágmarkstryggingu.“
    Þessi afstaða íslenskra stjórnvalda gagnvart Tryggingarsjóðnum var svo enn ítrekuð í bréfi viðskiptaráðuneytis til breska fjármálaráðuneytisins 5. október 2008. Þar segir m.a. í íslenskri þýðingu:
             „Ef þörf krefur mun íslenska ríkisstjórnin styðja Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta við öflun nauðsynlegs fjár til að sjóðurinn geti uppfyllt kröfur um lágmarkstryggingu, ef svo færi að Landsbankinn og útibú hans í Bretlandi gætu ekki staðið við skuldbindingar sínar.“
    Í símtali fjármálaráðherra Íslands og Bretlands 7. október er þessi sami skilningur enn á ný staðfestur af Íslands hálfu og vísað í stuðning stjórnvalda við Tryggingarsjóðinn, sbr. útskrift á samtalinu. Þar sagði fjármálaráðherra Íslands í íslenskri þýðingu:
             „Við höfum komið á fót [innstæðu]tryggingarsjóði í samræmi við tilskipunina og í þessu bréfi [frá íslenska viðskiptaráðuneytinu til breska fjármálaráðuneytisins] er fyrirkomulagið og fyrirheit ríkisstjórnarinnar [Íslands] um stuðning við sjóðinn skýrt.“
    Í yfirlýsingu forsætisráðherra frá 8. október 2008 segir m.a. orðrétt:
             „Ríkisstjórnin ítrekar að ríkissjóður mun styðja Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta við öflun nægjanlegs fjár.“
    Ekki verður hjá því komist að minnast hér á Kastljóssviðtal við þáverandi seðlabankastjóra að kvöldi 7. október 2008. Í viðtalinu tók hann sterkt til orða um að Ísland mundi ekki borga skuldir óreiðumanna. Þessi ummæli ýttu undir áhyggjur erlendis af því að Ísland hygðist ekki standa við skuldbindingar sínar á erlendri grundu.
    Hafa verður í huga þegar yfirlýsingar ráðamanna á þessum tíma eru metnar að þær voru gefnar áður en fyrir lá að allir stóru íslensku bankarnir lentu í greiðsluerfiðleikum. Þegar bankarnir féllu allir nokkurn veginn samtímis vöknuðu því spurningar um hvort og þá hvernig evrópskum tryggingakerfum innstæðna væri ætlað að taka á slíkri aðstöðu.

4.3. Kyrrsetning eigna Landsbankans.
    Það olli því íslenskum stjórnvöldum verulegum vonbrigðum þegar bresk stjórnvöld kyrrsettu allar eignir bankans í Bretlandi, ásamt tengdum eignum íslenska ríkisins, þar á meðal Seðlabanka Íslands 8. október 2008. Skýringar breskra yfirvalda á kyrrsetningunni hafa alla tíð verið á reiki en virtust í byrjun byggjast á því að Bretar hefðu talið að óeðlilegir fjármagnsflutningar hefðu átt sér frá Bretlandi til Íslands síðustu dagana fyrir bankahrunið og að hætta væri á frekari slíkum fjármagnsflutningum. Ekkert hefur komið fram sem styður fullyrðingar um óeðlilega fjármagnsflutninga frá Bretlandi til Íslands og þegar frá leið hurfu Bretar frá þessum rökstuðningi og fóru þess í stað að tala um hætta hefði verið á aðgerðum þolenda kyrrsetningarinnar sem gætu skaðað efnahag Bretlands alvarlega. Í þeim rökstuðningi var ávallt undirliggjandi að Ísland hygðist ekki virða skuldbindingar sínar samkvæmt innstæðutryggingatilskipuninni.
    Kyrrsetning eigna Landsbankans í Bretlandi var ekki einsdæmi. Hliðstæðar aðgerðir áttu sér stað í Hollandi og Noregi þótt þær væru ekki að öllu leyti efnislega sambærilegar. Grundvöllur aðgerða Breta var hins vegar allt annar og alvarlegri. Ákvörðun breska fjármálaráðuneytisins um kyrrsetningu var tekin samkvæmt heimild í lögum um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggismál, sem sett voru eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001. Íslensk stjórnvöld mótmæltu beitingu laganna harkalega, og þá sérstaklega lagagrundvellinum, og tóku málið upp við bresk stjórnvöld, í samskiptum við önnur ríki og innan alþjóðastofnana við ýmis tilefni. Svör breskra yfirvalda við því voru ávallt að þótt lagaheimild til kyrrsetningar væri í fyrrgreindum lögum hefði kyrrsetningin ekkert með baráttu þeirra gegn hryðjuverkum að gera. Íslensk stjórnvöld könnuðu til hlítar hvort raunhæfur möguleiki fyndist til málssóknar gegn breskum stjórnvöldum vegna kyrrsetningarinnar. Fyrir lágu álitsgerðir frá bresku lögmannsstofunni Lovells, ríkislögmanni og þjóðréttarfræðingi utanríkisráðuneytisins, þar sem mat allra þessara aðila var að svigrúm breskra stjórnvalda til að taka ákvörðun um beitingu laganna væri mjög rúmt. Engar líkur voru taldar á því að íslenska ríkið gæti sótt skaðabætur úr hendi breskra yfirvalda fyrir breskum dómstólum og hverfandi möguleikar á því að íslenska ríkið gæti knúið á um afléttingu kyrrsetningarinnar. Helst var talið að Kaupþing gæti átt raunhæfa möguleika á skaðabótum vegna tjóns sem leitt hefði af aðgerðum breskra stjórnvalda gagnvart íslensku bönkunum. Var ákveðið að styðja fjárhagslega við málssókn Kaupþings á grundvelli laga nr. 172/2008, um heimild til fjárhagslegrar fyrirgreiðslu úr ríkissjóði í tengslum við málshöfðun fyrir erlendum dómstólum vegna íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana erlendra stjórnvalda á tímabilinu 1. október til 1. desember 2008, og er það mál í gangi.
    Þrátt fyrir að ekki hafi verið höfðað mál á hendur breska ríkinu vegna kyrrsetningarinnar kom þó skýrt fram við þessa skoðun að kyrrsetning eigna Landsbankans var ámælisverð og til þess fallin að valda miklu tjóni fyrir Landsbankann, kröfuhafa hans, þ.m.t. innstæðueigendur, íslenska ríkið og íslenska einstaklinga og lögaðila. Ísland hefur fengið stuðning við sjónarmið sín um þetta og má m.a. nefna að fjárlaganefnd breska þingsins taldi í skýrslu sinni um hrun íslensku bankanna frá apríl 2009 að lagagrundvöllur kyrrsetningarinnar hefði verið óheppilegur og til þess fallinn að sverta orðspor Íslands. Nefndin tók þó ekki undir skoðanir um beint tjón af þessum völdum.
    Ísland mótmælti eins og áður sagði kyrrsetningunni harkalega allt frá upphafi og ítrekað allt til þess að henni var aflétt í tengslum við samningana vegna þessa máls. Jafnframt var því skilmerkilega haldið til haga hversu miklu tjóni kyrrsetningin hefði valdið, ekki bara Landsbankanum og Íslandi öllu heldur einnig kröfuhöfum og þ.m.t. innstæðueigendum Landsbankans.

5. Greiðslustöðvun og slitameðferð Landsbanka Íslands.
    Landsbanki Íslands hf. er í greiðslustöðvun á grundvelli laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Slík greiðslustöðvun gerir bankanum kleift að halda starfsemi sinni áfram. Úrskurður um greiðslustöðvun gildir í öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins á grundvelli tilskipunar um endurskipulagningu og slit lánastofnana. Megináhrif greiðslustöðvunarinnar eru að kröfuhafar geta ekki gengið að eignum Landsbankans. Í lögsagnarumdæmum utan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem Landsbankinn á verulegar eignir, hefur bankinn gripið til viðeigandi ráðstafana til að greiðslustöðvunin fáist viðurkennd.
    Á grundvelli bráðabirgðaákvæðis II í lögum nr. 44/2009, um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, getur Landsbankinn fengið greiðslustöðvun framlengda í allt að 24 mánuði og miðast fresturinn við 5. desember 2008. Meðan heimild til greiðslustöðvunar er til staðar gilda tiltekin ákvæði III. og V. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., um greiðslustöðvunina. Í því felst m.a. að aðstoðarmaður í greiðslustöðvun heldur opna fundi með kröfuhöfum bankans og aðstoðarmaður hefur áfram eftirlitsskyldum að gegna varðandi ráðstafanir skilanefndar og ber að upplýsa héraðsdómara um það ef hann telur að skilanefndin brjóti gegn skyldum sínum. Þegar greiðslustöðvun lýkur tekur við slitameðferð á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki án þess að til sérstaks dómsúrskurðar komi. Á grundvelli bráðabirgðaákvæðis II í lögum nr. 44/2009 gilda allar helstu efnisreglur um slitameðferð Landsbankans hvort sem bankinn er í greiðslustöðvun eða ekki.

5.1. Skilanefnd og slitastjórn.
    Hlutverk skilanefndar Landsbankans er að hámarka virði eigna bankans og annast daglega stjórnun hans í því skyni. Skilanefndin annast þannig leyfisbundna starfsemi Landsbankans og hlutverk stjórnar hans. Skilanefndin leggur mat á eignastöðu Landsbankans þegar kröfulýsingafresti er lokið í því skyni að ákvarða hvort eignir bankans nægi til að standa við skuldbindingar hans. Einnig skal skilanefnd boða til og halda kröfuhafafundi til að kynna ráðstafanir skilanefndar og leita eftir tillögum kröfuhafa þar sem það á við.
    Skilanefnd ber að sjá til þess að eignum og réttindum bankanna verði ráðstafað á sem hagkvæmastan hátt, að kröfur verði innheimtar, að engin réttindi fari forgörðum sem geta haft verðgildi og að gripið sé til allra nauðsynlegra aðgerða til að varna tjóni á hagsmunum bankans. Þá ber skilanefnd að sjá til þess að peningalegar eignir bankans beri sem hagkvæmasta vexti og séu varðveittar á sem öruggastan hátt. Loks skal skilanefnd ráðstafa eignum og réttindum bankans á sem hagkvæmastan hátt þegar það er talið tímabært og til þess fallið að hámarka afkomu af eignum bankans.
    Ef kröfuhafar eða aðrir sem hafa hagsmuna að gæta telja að ráðstafanir skilanefndar stríði gegn framangreindum meginskyldum, eða ef ágreiningur kemur upp að öðru leyti um ráðstafanir skilanefndar, er hægt að skjóta ágreiningi um það til héraðsdóms.
    Slitastjórn bankans er skipuð af héraðsdómi og sinnir hún öllum öðrum verkefnum en þeim sem skilanefnd eru sérstaklega falin, þar á meðal innköllun krafna.

5.2. Kröfulýsing í bú Landsbankans.
    Slitastjórn hefur þegar gefið út innköllun vegna kröfumeðferðar í greiðslustöðvun. Kröfulýsingarfrestur hefur verið ákveðinn 6 mánuðir frá fyrri birtingu innköllunar, eða til 30. október 2009. Eftir að kröfulýsingarfresti lýkur skal slitastjórn gera skrá um þær kröfur sem lýst er. Jafnframt skal slitastjórn taka afstöðu til einstakra krafna og upplýsa um þá afstöðu í kröfuskránni.
    Um rétthæð krafna á hendur bankanum gilda almennar reglur laga um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 109.–115. gr., með þeirri undantekningu að kröfur um innstæður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta, sbr. lög nr. 98/1999, teljast til forgangskrafna skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Þær kröfur sem eru framar í kröfuröðinni eru:
     *      Eignir eða réttindi þriðja manns í vörslum þrotabús.
     *      Búskröfur sem orðið hafa til með samningi sem gerður er eftir gildistöku laga nr. 44/2009 eða kröfur sem urðu til eftir frestdag með ráðstöfunum sem samþykktar voru af aðstoðarmanni.
     *      Kröfur sem njóta veðréttar eða annarra tryggingaréttinda.
    Jafnréttháar innstæðum eru launakröfur, lífeyrissjóðsiðgjöld og fleiri slíkar kröfur.
    Á eftir þessum kröfum koma almennar kröfur, þ.e. allar aðrar kröfur sem ekki falla undir framangreinda flokka og ekki teljast til eftirstæðra krafna.
    Gildistaka laga nr. 44/2009 22. apríl 2009 jafngildir úrskurðardegi í skilningi laga um gjaldþrotaskipti og skiptir sá dagur máli varðandi vexti og kostnað, en vextir og kostnaður af kröfum sem til falla eftir 22. apríl 2009 verða eftirstæðar kröfur, þ.e. aftast í skuldaröð.
    Eftir að kröfulýsingarfresti lýkur skal slitastjórn gera skrá um þær kröfur sem lýst er. Jafnframt skal slitastjórn taka afstöðu til einstakra krafna og upplýsa um þá afstöðu í kröfuskránni. Kröfuhafi sem ekki unir afstöðu slitastjórnar til kröfu sinnar þarf að lýsa yfir mótmælum. Slitastjórn skal reyna að jafna ágreining sem kann að koma upp á fundinum. Takist það ekki skal haldinn sérstakur fundur með þeim sem hlut eiga að máli og ef ekki tekst að jafna ágreining þar skal slitastjórn vísa málinu til héraðsdóms.
    Eftir kröfuhafafund slitastjórnar er slitastjórn heimilt að greiða viðurkenndar kröfur að hluta eða að fullu skv. 6. mgr. 102. gr. laganna. Það er háð ákveðnum skilyrðum. Í fyrsta lagi má eingöngu greiða viðurkenndar kröfur. Í öðru lagi þarf að tryggja að eignir bankans dugi til að greiða öllum hliðsettum kröfuhöfum jafnháa greiðslu í hlutfalli við kröfufjárhæðir. Í þriðja lagi þarf að gera ráð fyrir að fjármunir séu til staðar til að greiða kröfur sem ekki hefur endanlega verið leyst úr ágreiningi um. Með lagabreytingu nr. 61/2009 var bætt svofelldu bráðabirgðaákvæði við lögin: „Þrátt fyrir ákvæði 6. mgr. 102. gr. er skilanefnd fjármálafyrirtækis, sem naut heimildar til greiðslustöðvunar við gildistöku laga nr. 44/2009, um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sbr. ákvæði til bráðabirgða II, heimilt, á tímabilinu frá gildistöku laga þessara og þar til skilyrði eru fyrir efndum krafna á grundvelli 6. mgr. 102. gr., að greiða skuldir vegna launa, þ.m.t. laun í uppsagnarfresti, og vegna innlána sem veittur var forgangsréttur með 6. gr. laga nr. 125/2008, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, ef víst er að nægilegt fé sé til að greiða að fullu eða í jöfnu hlutfalli kröfur sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð.“
    Að lokum er rétt að taka fram að samkvæmt ákvæðum laga nr. 44/2009 skal umreikna kröfur í erlendum gjaldmiðli í kröfuskrá í íslenskar krónur eftir opinberlega skráðu sölugengi 22. apríl 2009. Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að útgreiðsla úr búi Landsbankans verði í erlendri mynt.

6. Greiðsluskylda.
    Samkvæmt 9. og 10. gr. laga nr. 98/1999 er Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta skylt að greiða viðskiptavinum aðildarfyrirtækis sjóðsins andvirði innstæðu allt að 20.887 evrum að fullu ef Fjármálaeftirlitið hefur gefið út álit um að viðkomandi aðildarfyrirtæki sé ekki fært um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðna sem viðskiptavinur hefur krafist greiðslu á. Dugi eignir sjóðsins til skal greiða hlutfallslega jafnt inn á kröfur eftir að allir kröfuhafar hafa fengið greidda lágmarksfjárhæðina 20.887 evrur. Á grundvelli þessa gaf Fjármálaeftirlitið út álit 27. október 2008 þess efnis að Landsbanki Íslands hf. hefði ekki verið fær um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðna af Icesave-reikningum viðskiptavina bankans í Hollandi og Bretlandi. Skapaðist þá greiðsluskylda Tryggingarsjóðs vegna þessara innstæðna. Greiðslu skal inna af hendi innan þriggja mánaða þaðan í frá, en heimilt er að framlengja þann frest allt að þrisvar sinnum um þrjá mánuði í senn og hefur sú heimild verið nýtt tvisvar sinnum, annars vegar í lok janúar og hins vegar í lok apríl 2009. Er ráðherra heimilt að framlengja þennan frest einu sinni enn samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 120/2000 og ákvæðum tilskipunar Evrópusambandsins. Því getur frestur Tryggingarsjóðs til að inna greiðslu af hendi aldrei orðið lengri en til loka október 2009.
    Þegar í nóvember og desember 2008 höfðu bresk og hollensk stjórnvöld tekið ákvörðun um að borga út innstæðueigendum í löndum sínum og leysa þar með til sín kröfur þeirra. Jafnframt fóru fram viðræður við íslensk yfirvöld um hvernig Tryggingarsjóðurinn mundi standa við skuldbindingar sínar samkvæmt tilskipuninni.

7. Ágreiningur um inntak skuldbindinga Íslands samkvæmt tilskipun 94/19/EB.
    Eins og áður greinir höfðu íslensk stjórnvöld ítrekað nokkrum sinnum í aðdraganda bankahrunsins að þau mundu standa við skuldbindingar samkvæmt tilskipun 94/19/EB og að yfirvöld mundu styðja við Tryggingarsjóðinn til þess ef þörf kræfi. Það er þó jafnljóst að yfirlýsingarnar voru gefnar áður en fyrir lá að allir stóru íslensku bankarnir lentu í greiðsluerfiðleikum. Þegar bankarnir féllu allir nokkurn veginn samtímis vöknuðu því spurningar um hvort, og þá hvernig, evrópskum tryggingakerfum innstæðna væri ætlað að taka á slíkri aðstöðu.
    Íslensk stjórnvöld töldu ljóst að forsendur tilskipunarinnar væru hrun einstakra banka en ekki almennt kerfishrun. Því væri vafi á því að tilskipunin ætti við með sama hætti í slíkum tilvikum og nauðsynlegt væri að fá úr því skorið með lögformlegum hætti fyrir dómstóli eða gerðardómi hvort íslenska ríkinu bæri að ábyrgjast greiðslur til innlánseigenda ef þær færu fram úr því sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta gæti staðið undir af inngreiðslum í sjóðinn.
    Þessari skoðun hefur verið haldið skýrt til haga í öllum viðræðum við stjórnvöld viðkomandi ríkja eftir að bankarnir féllu. Þessari lagatúlkun hefur hins vegar verið alfarið hafnað, ekki einungis af þeim ríkjum sem hlut eiga að máli heldur öllum ESB-ríkjunum og Noregi að auki.

8. Dómstólaleið.
    Íslensk stjórnvöld hafa allt frá upphafi málsins haldið því sjónarmiði fram af miklum þunga að tilskipun 94/19/EB um innstæðutryggingar hafi verið innleidd í íslenskan rétt á fullnægjandi hátt og án athugasemda og að íslenska ríkinu beri ekki að ábyrgjast innstæður umfram þá upphæð sem var í tryggingarsjóði innstæðueigenda. Íslensk stjórnvöld bentu einnig á samábyrgð Evrópuríkja vegna þess hve regluverkið varðandi innstæðutryggingar var gallað, enda hafi því ekki verið ætlað að taka til kerfisbundins hruns meginþorra fjármálastofnana á sama tíma. Í ljósi mikilvægis málsins var leitað eftir því að úr málinu yrði skorið fyrir dómi eða með öðrum viðunandi lögfræðilegum hætti. Staðreyndin er þó sú að allar leiðir til þess að leggja málið í dóm eða gerð mundu krefjast samþykkis allra málsaðila í samræmi við óumdeilda meginreglu þjóðaréttar. Bretland og Holland þvertóku fyrir slíkan málarekstur og voru studd af öllum Evrópusambandsríkjunum auk Noregs. Rök þeirra voru samhljóða á þá leið að takmörkun ábyrgðar við eignir tryggingarsjóða væri fráleit lögfræðileg túlkun og málarekstur um slíkt væri til þess eins fallinn að grafa undan, ef ekki kollvarpa, trausti á fjármálakerfi allra Evrópuríkja.
    Á fundi í ráðherraráði ESB skipuðu fjármálaráðherrum og ráðherrum efnahagsmála (ECOFIN) 4. nóvember 2008 var gerð tilraun til að ná samkomulagi um að leggja málið í gerðardóm. Á fundinum var ákveðið að skipa gerðardóm með fulltrúum tilnefndum af ráðherraráði ESB, framkvæmdastjórn ESB, Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA (sem væri tilnefndur af Íslandi), en Seðlabanki Evrópu skipaði oddamanninn. Þegar í ljós kom að umboð dómsins til að skilgreina skuldbindingar Íslands væri mjög víðtækt, dóminum væri ætlaður mjög skammur tími til að komast að niðurstöðu, og að niðurstaðan væri bindandi, var það mat ríkisstjórnarinnar að Ísland gæti ekki fallist á þessa málsmeðferð. Hinir fulltrúarnir komu engu að síður saman og gáfu samdóma álit eftir rúmlega sólarhringsskoðun um að íslenska ríkinu bæri að ábyrgjast greiðslu lágmarkstrygginga samkvæmt tilskipuninni dygðu eignir Tryggingarsjóðsins ekki til. Ísland hefur ekki viðurkennt þessa niðurstöðu sökum framangreindra annmarka á málsmeðferð en hún talar sínu máli.
    Í nóvember naut þáverandi ríkisstjórn m.a. ráðgjafar ríkislögmanns og þriggja lagaprófessora, Bjargar Thorarensen, Stefáns Más Stefánssonar og Viðars Más Matthíassonar, um lögræðileg álitaefni er lúta að framkvæmd laga nr. 125/2008. Prófessorarnir fjalla þar m.a. um hugsanlega úrskurðaraðila í deilu milli Íslands og Bretlands/Hollands vegna Icesave- reikninganna. Niðurstaðan um hugsanlega úrskurðaraðila er svohljóðandi:

        „1. Dómstóll Evrópubandalaganna.
        A. Bókun 34 með EES-samningnum fjallar um að dómstólar EFTA ríkjanna geti farið fram á það við dómstól EB að hann skeri úr um túlkun á EES-reglum sem samsvara EB reglum. Ákvæðið á aðeins við þegar vafi leikur á um slíka túlkun í máli sem er fyrir dómstóli í EFTA- ríki og minnir því um sumt á forúrskurðarkerfi bandalagsréttarins. Ákvæði þetta á alls ekki við um þann ágreining sem nú er uppi milli Íslands annars vegar og Bretlands/Hollands hins vegar enda er ekkert mál rekið milli þessara aðila fyrir íslenskum dómstólum. Þar fyrir utan verður að draga í efa að heimilt sé samkvæmt íslenskri stjórnarskrá að nota umrætt ákvæði.
        B. Dómstóll EB getur starfað sem gerðardómur í nokkrum tilvikum, sbr. nánar 238.– 239. gr. Rómarsamningsins. Hann getur m.a. komið til greina sem gerðardómur milli aðildarríkja bandalagsins varðandi þau málefni sem samningurinn tekur til. Hins vegar verður hann að öllum líkindum ekki notaður sem gerðardómur milli aðildarríkis annars vegar og þriðja ríkis hins vegar.

        2. EFTA dómstóllinn.
        Hugsanlegt er að Eftirlitsstofnun EFTA höfðaði mál gegn Íslandi vegna brota á EES samningnum fyrir dómstóli EFTA. Dómur í slíku máli myndi aðeins slá því föstu hvort viðkomandi ríki hafi brotið skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum (þ.e. kveða upp viðurkenningardóm) en hvorki kveða á um skaðabótaskyldu né fjárhæð hugsanlegra bóta. Auk þess væru hvorki Bretar né Hollendingar bundnir við niðurstöðu í slíku máli. Verður því að efast um að slík meðferð komi að nokkru gagni við lausn þess vandamáls sem hér er til meðferðar.

        3. Gerðardómar og aðrir úrskurðaraðilar.
        Hugsanlegt er að skipa sérstakan gerðardóm til lausnar þeirri deilu sem nú er uppi. Slíkt grundvallast á gagnkvæmu samkomulagi deiluaðila. Þar getur verið um að ræða gerðardóm sem aðilar koma sér saman um að skipa í tilefni af þeirri deilu sem risin er. Er honum þá jafnframt veitt vald til að skera úr deiluefnum þeirra.

        Einnig kemur til álita að nota fasta alþjóðlega dómstóla eins og Alþjóðadómstólinn í Haag. Grundvöllur þess er einnig samkomulag milli aðila.“

    Eins og lesa má úr þessu er það einfaldlega svo að úr þessum ágreiningi verður ekki skorið fyrir dómi án þess að báðir aðilar fallist á slíka málsmeðferð.

9. Samningaleið.
    Þrátt fyrir að reynt hafi verið til þrautar að fá deiluna um túlkun ábyrgðar íslenska ríkisins lagða fyrir dóm var allan tímann ljóst að tvísýnt væri um hvort það tækist og enn tvísýnna um niðurstöðu slíkrar dómsmeðferðar hefði hún náðst. Stjórnvöld gerðu því alltaf ráð fyrir að til þess gæti komið að þau þyrftu að styðja við Tryggingarsjóðinn til að hann gæti uppfyllt skuldbindingar sínar. Þegar fyrir lá að bresk og hollensk yfirvöld höfðu leyst til sín þorra krafna innstæðueigenda á sjóðinn varð jafnframt ljóst að semja þyrfti um hvernig uppgjöri yrði háttað.

9.1. Lánasamningur.
    Samkvæmt 5. tölul. 5. gr. reglugerðar nr. 177/2007 um Stjórnarráð Íslands fer fjármálaráðuneyti með lánsfjármál ríkissjóðs, lántökur ríkisstofnana og ríkisábyrgðir. Slíkir samningar eru einkaréttarlegs eðlis og teljast því ekki til milliríkjasamninga þótt gagnaðili sé erlent ríki í einstöku tilviki. Forsvarsmenn ríkisins þurfa þó að sjálfsögðu að hafa fullnægjandi heimildir til gerðar slíkra samninga hverju sinni, eða gera samningana með fyrirvara um slíkar heimildir.

9.2. Októbersamningar.
    Samningaviðræður hófust strax í Reykjavík í sömu viku og bankarnir féllu. Í þeim samningaviðræðum var að sjálfsögðu haldið til haga kröfum um lagalega úrlausn á umfangi skyldna, en þó er vert að minna aftur á ítrekaðar yfirlýsingar íslenskra yfirvalda um að Tryggingarsjóðurinn yrði studdur til að standa við skuldbindingar sínar, m.a. frá þáverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, 8. október eins og rakið er í kafla 4.2 hér að framan.
    Þremur dögum síðar, eða 11. október 2008, árituðu íslensk stjórnvöld samkomulag við Hollendinga um lánaskilmála vegna útgreiðslu lágmarksinnstæðutrygginga til hollenskra innstæðueigenda. Niðurstöðuna tilkynntu þeir Árni M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, og Wouter J. Bos, fjármálaráðherra Hollands, sameiginlega á fundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 11. október 2008. Í tilkynningu forsætisráðuneytisins um samkomulagið segir m.a.:
        „Samkomulagið kveður á um að íslenska ríkið muni bæta hverjum og einum hollenskum innstæðueiganda innstæður að hámarksfjárhæð 20.887 evrur.“
    Samkomulagið við Hollendinga kvað á um að hollenska ríkisstjórnin mundi veita 10 ára lán til að standa undir greiðslum til hollenskra innstæðueigenda í Icesave, með 6,7% vöxtum og 3 ára afborgunarleysistímabili.
    Sama dag var tilkynnt að viðræður við Breta hefðu gengið vel og von væri á samkomulagi við þá einnig fljótlega. Næstu fundir með Bretum voru síðan í Reykjavík 23. og 24. október. Enn var reynt að fá samningsaðilana til að fallast á dómstólaleið án nokkurs árangurs og lauk samningaviðræðum við svo búið.
    Áður er lýst ECOFIN-fundinum í byrjun nóvember, en á honum kom berlega í ljós að Ísland var algerlega einangrað með kröfur sínar um dómstólameðferð. Um tíma leit þó út fyrir að sammæli hefði orðið um gerðardómsmeðferð eins og áður er lýst en eftir að Ísland varð að draga sig út úr henni vegna annmarka á málsmeðferð voru samningaviðræður komnar í algeran hnút og málið í lögfræðilegu þrátefli sem ekki sá fyrir endann á.
    Hins vegar varð fljótt deginum ljósara að þetta lögfræðilega þrátefli ógnaði stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna og stóð í vegi fyrir öllu alþjóðlegu samstarfi til stuðnings björgunar- og endurreisnarstarfi fyrir íslenskt efnahagslíf.
    Þar bar hæst að þegar leið fram í nóvember var orðið ljóst að önnur ríki litu á það sem forsendu fyrir aðstoð sinni við Ísland að hún yrði undir merkjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og að forsenda afgreiðslu stjórnar sjóðsins á máli Íslands væri að deilur við Evrópuríki vegna Icesave-reikninganna yrðu leystar.

9.3. Umsömdu viðmiðin.
    Eftir ECOFIN-fundinn í Brussel 4. nóvember voru haldnir fjölmargir óformlegir fundir m.a. með fastafulltrúum aðildarríkja ESB og EES í Brussel til að freista þess að liðka fyrir pólitískri niðurstöðu í málinu. Þegar hér var komið sögu var ljóst að tafir voru á afgreiðslu umsóknar Íslands um efnahagsaðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vegna deilunnar um Icesave- reikningana. Þar með var komin upp pattstaða sem ógnaði nauðsynlegum efnahagsaðgerðum stjórnvalda til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimila og fyrirtækja. Fengust Frakkar, sem formennskuríki í ESB, til að beita sér fyrir nokkurs konar sáttafundi í Brussel 13. nóvember með fulltrúum íslenska utanríkisráðuneytisins og aðild lagaþjónustu ráðherraráðsins þar sem reynt var til þrautar að ná samkomulagi um texta sem deiluaðilar gætu sammælst um sem grundvöll frekari samningaviðræðna. Að morgni 14. nóvember náðist niðurstaða um umsamin viðmið (e. agreed guidelines) þar sem reynt var að tryggja ákveðið jafnvægi milli deiluaðila. Viðmiðin eru svohljóðandi:

     1.      „Ríkisstjórn Íslands hefur átt viðræðufundi með stofnunum Evrópusambandsins og hlutaðeigandi aðildarríkjum þess um skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að því er tekur til tilskipunar um innstæðutryggingar 94/19/ EB. Aðilar komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins.
     2.      Viðurkenning allra aðila á þessari lagalegu stöðu greiðir fyrir skjótri niðurstöðu samningaviðræðna þeirra sem nú standa yfir um fjárhagsaðstoð við Ísland, þ.m.t. við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þessar samningaviðræður skulu fara fram með samhæfðum og samræmdum hætti og skal þar tekið tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.
     3.      Stofnanir Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins munu taka áframhaldandi þátt í þessu ferli sem fer fram í samráði við þær.“

    Viðmiðin fólu í sér í fyrsta lagi að íslensk stjórnvöld viðurkenna að tilskipun 94/19/EB gildi á Íslandi með sama hætti og í aðildarríkjum ESB en jafnframt og í öðru lagi var lögð áhersla á að samningsaðilar mundu taka tillit til „hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt“. Þá var þess getið að samkomulagið greiddi fyrir skjótri niðurstöðu samningaviðræðna Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Af hálfu Íslands var litið svo á að með hinum sameiginlegu viðmiðum væri komin upp ný staða í samningaviðræðunum við Breta og Hollendinga og meira tillit yrði tekið til hinna fordæmalausu aðstæðna á Íslandi en gert hafði verið fram að því, svo sem í samkomulaginu frá 11. október. Til að tryggja að þetta gengi eftir var í þriðja lagi lögð sérstök áhersla á að stofnanir ESB og EES tækju áframhaldandi þátt í samningaferlinu sem færi fram í samráði við þær. Þær væru því í hlutverki nokkurs konar milligönguaðila ef á þyrfti að halda.

9.4. Afgreiðsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
    Hin umsömdu viðmið reyndust þó ekki nóg ein og sér til að ná afgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Einnig reyndist nauðsynlegt að herða á orðalagi í 9. lið viljayfirlýsingar íslenskra stjórnvalda til framkvæmdastjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Upprunaleg viljayfirlýsing var frá nóvemberbyrjun 2008. Fyrri hluti 9. liðarins fylgir hér með og er sá hluti skáletraður til áherslu sem bætt var við 15. nóvember til að tryggja afgreiðslu málsins hjá sjóðnum:
        „Við höfum einsett okkur að koma á traustu og gagnsæju ferli í samskiptum við innlánshafa og lánveitendur hinna yfirteknu banka. Unnið er skipulega að sambærilegu samkomulagi við alla þá erlendu aðila sem hagsmuna eiga að gæta gagnvart Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta hér á landi í samræmi við lagaramma EES. Ísland hefur heitið því að virða skuldbindingar á grundvelli innstæðutryggingakerfisins gagnvart öllum tryggðum innlánshöfum. Þetta byggist á þeim skilningi að unnt verði að forfjármagna þessar kröfur fyrir tilstyrk viðkomandi erlendra ríkja og að jafnt Ísland sem þessi ríki séu staðráðin í að efna til viðræðna á næstu dögum með það að markmiði að ná samkomulagi um nánari skilmála vegna þessarar forfjármögnunar.
    Í kjölfarið hittust samninganefndir í Haag í byrjun desember, en þá hafði Alþingi ekki samþykkt umboð til handa ríkisstjórninni. Var sá fundur því að mestu tæknilegs eðlis, en þó gáfu Hollendingar til kynna að þeir væru tilbúnir til þess að semja um hagstæðari lánskjör en kom fram í samkomulaginu frá því byrjun október og vísuðu til hinna umsömdu viðmiða í því sambandi. Fulltrúar breskra og þýskra stjórnvalda sátu einnig þennan fund, þeir síðarnefndu vegna Edge-reikninga Kaupþings í Þýskalandi.

9.5. Samningsumboð Alþingis.
    Hinn 5. desember 2008 samþykkti Alþingi svohljóðandi þingsályktun um samninga varðandi ábyrgð ríkissjóðs á innstæðutryggingum vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um.“
    Í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar um umboð til samningsgerðar til handa ríkisstjórninni kom m.a. fram að hagur af samningsbundinni lausn væri ótvíræður. Þar kom einnig fram að óleystur ágreiningur gæti sett EES-samninginn að hluta eða í heild í hættu, auk þess sem Norðurlöndin sæju sér ekki fært að taka þátt í efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins meðan óvissa ríkti um lyktir málsins. Í nefndarálitinu segir m.a.:
             „Eins og fram kemur í athugasemdum við tillöguna varðandi lagalega stöðu málsins hafa íslensk stjórnvöld byggt á því sjónarmiði að skýr lagaskylda væri ekki til staðar um ábyrgð íslenska ríkisins ef greiðslur til innlánseigenda færu fram úr því sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta gæti staðið undir. Nefndin hefur farið yfir þau lögfræðilegu álitaefni sem málið snýst um og ljóst er að önnur aðildarríki EES-samningsins eru ekki sammála skilningi íslenskra stjórnvalda um að óvissa ríki að þessu leyti. Hugmyndir um að úr þessu yrði skorið fyrir hlutlausum úrskurðaraðila eða dómstól hafa ekki náð fram að ganga í viðræðum aðila.
             Ljóst er að miklir hagsmunir eru í húfi um niðurstöðu slíks máls fyrir báða aðila. Óhagstæð niðurstaða úr slíku máli um skuldbindingu Íslands hefði alvarlegar afleiðingar fyrir ríkissjóð. Á hinn bóginn má leiða að því líkur að lagaleg óvissa um þetta atriði gæti vegið að fjárhagslegum stöðugleika og trúverðugleika þess lagaumhverfis sem fjármálafyrirtækjum sem starfa innan vébanda Evrópusambandsins hefur verið skapað. Hagur þess að lausn finnist við samningaviðræður er því ótvíræður. Þess má geta að á meðan ágreiningur aðila um þetta efni var óleystur var sú hætta fyrir hendi að Evrópusambandsríkin gripu til aðgerða gagnvart Íslandi sem settu EES-samninginn að hluta eða í heild í hættu. Þá var ljóst að Norðurlöndin voru sammála um að nauðsynlegt væri að Ísland semdi um lausn á þessu máli, til að þau gætu séð sér fært að taka þátt í fjárhagslegri fyrirgreiðslu í tengslum við efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sama gilti um afstöðu annarra ríkja sem Ísland leitaði fyrirgreiðslu hjá. Með vísan í allt sem að framan greinir er að áliti meiri hlutans ljóst að leita þurfti pólitískrar lausnar á vandamálinu.“
    Eftir að Alþingi samþykkti umboðið 5. desember 2008 áttu sér ekki stað formlegar viðræður við Hollendinga og Breta fyrr en eftir ríkisstjórnarskiptin í byrjun febrúar. Þáverandi utanríkisráðherra átti hins vegar fundi með flestum utanríkisráðherrum ESB í Osló og Helsinki dagana 3.–5. desember til að skapa skilning á þeim sérstöku aðstæðum sem uppi væru á Íslandi. Á fundi með David Miliband var m.a. rætt um hvernig aðgerðir Breta hefðu skaðað íslensk fyrirtæki og dýpkað þá kreppu sem Ísland ætti í. Mikilvægt væri að niðurstaða viðræðna ríkjanna tæki mið af þessu.

9.6. Endurnýjaðar samningaviðræður.
    Fjármálaráðherra skipaði nýja samninganefnd í febrúar 2009. Formaður nefndarinnar var Svavar Gestsson sendiherra, en aðrir í nefndinni voru Áslaug Árnadóttir, skrifstofustjóri í viðskiptaráðuneytinu, Indriði H Þorláksson, settur ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, Martin Eyjólfsson, sviðsstjóri í utanríkisráðuneytinu, Sturla Pálsson, yfirmaður alþjóðadeildar Seðlabankans, og Páll Þórhallsson, deildarstjóri í forsætisráðuneytinu. Þá störfuðu með nefndinni Huginn Freyr Þorsteinsson heimspekingur, Sesselja Sigurðardóttir, lögfræðingur í utanríkisráðuneytinu, Einar Gunnarsson, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu, Peter Dyrberg, lögmaður á lögmannsstofunni Schjödt í Brussel, og Eiríkur Elís Þorláksson, lögmaður á lögmannsstofunni LEX. Nefndin naut einnig aðstoðar lögmannsstofunnar Mischon de Reya í London. Þá eru enn ótaldir fjöldi sérfræðinga sem nefndin leitaði til.
    Nefndin hélt fjölda funda til að undirbúa viðræður. Þá ræddi formaður nefndarinnar við marga aðila og má segja að eiginlegar samningaviðræður hafi hafist með viðræðum formannsins við Ronald van Roeden, sendiherra Hollands í Ósló, og Johan Barnard, aðalsamningamann Hollendinga. Þá ber að nefna að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ákvað í samráði við nefndina fund með David Miliband, utanríkisráðherra Breta, og í tengslum við þann fund átti formaður samninganefndarinnar fundi með Gary Roberts, aðalsamningamanni Breta í byrjun apríl.
    Svavar Gestsson og Indriði Þorláksson áttu um þetta leyti fundi með skilanefnd Landsbankans og í framhaldi af því með starfsmönnum Landsbankans í London og ræddu hugmyndir um að virkja eignir Landsbankans til þess að gera upp skuldbindingar vegna Icesave- reikninganna. Kom strax fram að Bretar og Hollendingar voru tregir til þess að fara þá leið. Á fundi Svavars Gestssonar og Indriða Þorlákssonar með formönnum samninganefnda Breta og Hollendinga á Friðriksbergi í Danmörku 14. apríl var lauslega rætt um þá hugmynd að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta yrði aðalskuldarinn á þeim fjármunum sem Bretar og Hollendingar höfðu greitt inn á innstæðureikningana í viðkomandi löndum.
    Í þessari hugmynd var einnig gengið út frá því að eignir Landsbankans yrðu nýttar jafnóðum og þær féllu til með það að markmiði að lækka skuldina og loks að ef eitthvað yrði afgangs af skuldum þessum að tilteknum tíma liðnum þá kæmi til lánasamningur um eftirstöðvar. Eftir fundinn á Friðriksbergi setti íslenska samninganefndin fram formlega tillögu um útfærslu sem Bretar og Hollendingar höfðu til skoðunar í alllangan tíma. Var greinilegt að þeir höfðu vantrú á hugmyndinni til að byrja með, en það átti eftir að breytast.
    Á meðan athugun Breta og Hollendinga á tillögunum stóð var leyst úr og svarað fjölmörgum spurningum þeirra um efnisleg og lagaleg atriði sem í málinu fólust. Jafnframt var þessi tími notaður af hálfu Íslands til að kynna málstað þess og hugmyndir til lausnar á málinu fyrir ýmsum aðilum m.a. Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en lausn á málinu er meðal efnislegra forsendna fyrir stuðningi sjóðsins við efnahagsáætlun landsins. Vorfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í síðari hluta apríl var einnig notaður til að kynna sjóðnum og þeim ríkjum sem í stjórn hans sitja málstað Íslands, einkum það að unnið væri einarðlega af hálfu Íslendinga að því að koma á lausn sem samræmdist þeim skuldbindingum sem Ísland hafði tekið á sig en tæki jafnframt mið af þröngri stöðu þess í ríkisfjármálum og gjaldeyrismálum. Fram hafði komið við upphaflega afgreiðslu sjóðsins á lánveitingunni að framvinda við lausn á Icesave-deilunni var skilyrði ýmissa ríkja fyrir samþykkt á láninu og var ástæða til að ætla að svo yrði einnig við endurskoðunina og hafði verið látið að því liggja af hálfu annarra samningsaðila. Var fundað í Washington með fulltrúum Breta, Hollendinga, Norðurlandanna, Bandaríkjanna, Frakka, Pólverja og Rússa, starfsmönnum sjóðsins og aðstoðarframkvæmdastjóra hans. Reyndust þessir fundir mikilvægir að því leyti að á þeim var sýnt fram á góðan vilja Íslendinga til að leysa málið og að ekki væri við þá að sakast að dráttur væri á lúkningu þess.
    Eftir að viðsemjendunum höfðu verið kynntar með framangreindum hætti hugmyndir Íslendinga að ramma fyrir lausn á málinu var óskað eftir beinum viðræðum við þá. Ekki tókst að koma á fundi fyrr en í byrjun júní og sem var þá óformlegur að ósk Breta og Hollendinga. Þessar óformlegu viðræður leiddu í ljós að forsendur þess að samningar næðust væru að niðurstaða fengist varðandi fjögur lykilatriði:
    Vextir: Bretar og Hollendingar voru ekki tilbúnir til þess að falla formlega frá þeim 6,7% vöxtum sem koma fram í októbersamkomulagi Hollands við Ísland, þótt vísbendingar hefðu áður komið fram um að slíkt kæmi til álita.
    Lánstími: Gagnaðilarnir voru tilbúnir til að fallast á eitthvað lengri lánstíma en gert var ráð fyrir í októbersamningnum, ef til vill 12 ár. Það var þó ekki fullnægjandi að mati íslensku samninganefndarinnar.
    Eignir á móti kröfum: Það lá ekki fyrir að Bretar og Hollendingar féllust á að eignir Landsbankans, í hlutfalli við forgangskröfurétt, gengju beint upp í kröfurnar áður en til greiðslna úr ríkissjóði kæmi. Þetta var forgangsatriði að mati íslensku samninganefndarinnar.
    Bein yfirtaka á eignum: Það kom skýrt í ljós að Hollendingar og Bretar voru með öllu ófáanlegir til að vera á nokkurn hátt formlega eða lagalega viðriðnir við uppgjör á búi gamla Landsbankans. Þar með voru hugmyndir um að þeir tækju yfir eignir á móti kröfum úr sögunni.

10. Samningsniðurstaðan.
    Þegar viðræður hófust að nýju undir forustu nýrrar samninganefndar héldu Hollendingar því fram að þeir hefðu í raun í höndum samning um 6,7 % vexti, 10 ára lánstíma og að allt félli á ríkissjóð og gáfu það ekki frá sér fram á síðasta dag að það væri sú viðmiðun sem vinna ætti út frá. Því hafnaði Ísland alfarið.
    Þegar líða tók að fyrirhuguðum lokum þessara óformlegu viðræðna og lítið útlit var fyrir að árangur mundi nást óskuðu Bretar og Hollendingar eftir trúnaðarsamtali forustumanna viðræðuaðila. Á þeim fundi greindu þeir frá því að þeir væru reiðubúnir að reyna samninga á þeim grundvelli sem Ísland hafði lagt til og samþykktu að fyrstu 7 árin skyldi aðeins greiða það sem félli til af eignum Landsbankans. Í frekari umræðum um þá leið tókst einnig að fá þá til að samþykkja 8 ára afborgunartíma að þessum 7 árum loknum og að lokum að miðað yrði við 125 punkta álag á fjármögnunarkostnað þeirra miðað við 15 ára lán. Sammælst var um að nota sömu viðmiðun fyrir bæði löndin og urðu svokallaðir CIRR vextir OECD fyrir valinu en langtímavextir samkvæmt þeim eru 4,3%. Það er reyndar nálægt því sama og ávöxtunarkrafa á 15 ára skuldabréfum breska ríkisins. Á þeim grundvelli var ákveðið að fastsetja vextina í 5,55% en að endurgreiðsla eða uppígreiðsla yrði ætíð möguleg án tilkostnaðar þannig að unnt yrði að greiða af láninu ef hagstæðari vaxtakjör byðust annars staðar.
    Við þessar aðstæður taldi íslenska samninganefndin að rétt væri að kynna stöðuna fyrir stjórnvöldum á Íslandi. Það var gert með fundum með ríkisstjórn, forustumönnum stjórnarandstöðunnar, utanríkismálanefnd Alþingis og öllum þingflokkum að morgni 5. júní 2009. Á grundvelli þess samráðs ákvað ríkisstjórnin svo að veita fjármálaráðherra umboð til þess að heimila samninganefndinni að ganga frá samningi á áður nefndum forsendum. Þá fyrst, eða eftir hádegi 5. júní, hófst formlegur samningafundur. Lauk honum laust fyrir miðnætti sama dag með undirritun samninganna. Sú staðreynd að byggt var á samningsdrögum sem gengið höfðu milli aðila undanfarnar vikur og mánuði þar sem leyst hafði verið úr fjölmörgum tæknilegum atriðum gerði það kleift að ljúka samningum með svo skjótum hætti.

11. Samningsmarkmið og rök íslensku samninganefndarinnar.
    Íslenska samninganefndin lagði upp með það vegarnesti að ná samningum sem væru eins hagstæðir fyrir landið og unnt væri miðað við fyrirliggjandi forsendur og aðstæður allar. Einkum yrði lögð á það áhersla að ná fram skilmálum í samningunum sem tækju mið af þeim sérstöku rökum sem Íslendingar töldu sig hafa. Rétt er að minna aftur á að íslensk stjórnvöld höfðu með ítrekuðum yfirlýsingum þegar skuldbundið sig til þess að styðja við Tryggingarsjóð innstæðueigenda við að fullnægja skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 98/1999 sem innleiddu tilskipun 94/19/EB um lágmarkstryggingar. Heildarfjárhæð skuldbindinganna var því ekki samningsatriði heldur var verkefnið að semja um sem hagstæðasta skilmála.
    Fyrir upphaf viðræðna ákvað samninganefndin hvaða grundvallarsjónarmið skyldu höfð að leiðarljósi. Þegar þau lágu fyrir var jafnframt ljóst að októbersamningurinn við Holland væri með öllu óásættanlegur. Forsendur samninganefndarinnar voru eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi hin umsömdu viðmið sem gera ráð fyrir því að núverandi fordæmalausri stöðu Íslands sé sýndur skilningur í kjörum lánsins og að þau samrýmdust fjárhagslegri stöðu landsins. Þetta felur í sér annars vegar að lánakjörin hvað varðar vexti séu meðal þess besta sem þekkist og hins vegar að greiðsluferill afborgana og vaxta sé ákveðinn með hliðsjón af greiðsluferli og greiðsluþoli vegna annarra skulda ríkisins og þjóðarbúsins.
    Í öðru lagi að beiting hryðjuverkalaganna hefði skaðað Ísland efnahagslega og álitslega og þar sem beiting þeirra hefði ekki verið réttlætanleg væri sanngjarnt að ákvörðun um lánakjörin bæri þess merki.
    Í þriðja lagi að regluverk Evrópuríkja um innstæðutryggingar hefði verið gallað og vegna þess hefði sú þróun getað átt sér stað sem endaði með því að Ísland sat uppi með þær skuldbindingar sem raunin varð. Evrópuríkin bæru sameiginlega ábyrgð á þessu regluverki og að sanngjarnt væri að byrðin af því að það hefði brugðist yrði borin sameiginlega.
    Í fjórða lagi að Landsbankinn hefði verið einkafyrirtæki, hann hefði steypt Íslandi í þann vanda sem um væri að ræða og þess vegna ætti að nota eignir hans áður en nokkuð yrði greitt af landsmönnum sjálfum.
    Þessum sjónarmiðum hélt íslenska samninganefndin stíft fram og telur niðurstöður samninganna til marks um að á þau hafi vegið þungt. Þannig var af hálfu viðsemjendanna að lokum fallist á að fara að tillögu Íslands hvað varðar nýtingu eigna Landsbankans og að engar greiðslur komi umfram þær fyrstu sjö árin. Í því, og í löngum lánstíma, var tekið tillit til skuldastöðu landsins og greiðslubyrðinni seinkað og henni dreift á langan tíma. Með vaxtakjörum, sem eru langt undir því sem íslenska ríkið gæti fengið annars staðar og til muna lægri en áður hafði verið dregist á er í raun fallist á þessi rök um ákveðna ábyrgð viðsemjendanna. Jafnframt náðist endurskoðunarákvæði inn í samningstextann, sem er langt frá því að vera sjálfgefið þegar um er að ræða lánasamninga. Endurskoðunarákvæðin eru afar mikilvæg til að tryggja að áfram verði tekið tillit til hinnar fordæmalausu stöðu Íslands og knýjandi nauðsynjar á að gera Íslandi kleift að endurreisa efnahagslíf sitt. Síðast en ekki síst ber þess að gera að strax við undirritun samninganna var hafist handa við að aflétta kyrrsetningu á íslenskum eignum í Bretlandi og tók sú ákvörðun gildi 15. júní 2009.
    Þá er einnig rétt að minnast á að rætt var við Hollendinga og Breta um mögulega aðkomu stofnana þeirra á sviði efnahagsbrota að rannsókn efnahagsbrota er áttu sér stað í aðdraganda bankahrunsins. Af hálfu þeirra var lýst yfir áhuga á að veita slíka aðstoð, en það yrði til að efla verulega rannsókn sérstaks saksóknara, rannsóknarnefndar Alþingis, efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og skattrannsóknarstjóra. Aðgangur að reynslu Breta og Hollendinga á þessu sviði er mikilsverður fyrir framgang þessara mála hér á landi. Rækilegt uppgjör á þeim þáttum er leiddu til bankahrunsins er ein grundvallarforsenda endurreisnar íslensks efnahagskerfis og mun ríkisstjórnin einbeita sér við að vinna að þeim málum á næstunni.

12. Meginefni samninganna.
    Lán Hollendinga og Breta er til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Lánið endurgreiðist á 15 árum. Fyrstu 7 árin þarf ekki að greiða afborganir umfram það sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta fær greitt úr þrotabúi Landsbanka Íslands, en sjóðurinn fær með samningunum framselda kröfu hollensku og bresku tryggingarsjóðanna í þrotabú Landsbankans. Á síðari 8 árum lánasamninganna greiðist höfuðstóll þeirra, sem áföllnum vöxtum hefur verið bætt við, með 32 jöfnum afborgunum. Til tryggingar þeim afborgunum og vöxtum á þessum átta árum er sú ríkisábyrgð sem lagt er til að heimilað verði að veita með frumvarpi þessu.
    Í samkomulaginu er kveðið á um 5,55% fasta ársvexti, þ.e. 1,25% álag á viðmiðunarvexti OECD, svonefnda CIRR-vexti, en þeir voru 4,30% á þeim tíma sem samningarnir voru gerðir. Bæði álagið og viðmiðunarvextirnir eru með því lægsta sem gerist á föstum langtímavöxtum í Evrópu og má í því sambandi benda á að skuldatryggingarálag á 5 ára bréfum íslenska ríkisins er um þessar mundir 6,8%, samanborið við 1,25% í samkomulaginu. Heimilt er að greiða hraðar inn á lánið án þess að því fylgi nokkur kostnaður og lækka þá eftirfarandi afborganir hlutfallslega en lánstíminn styttist ekki. Með þessu ákvæði er unnt að greiða inn á lánið bjóðist hagstæðari lánakjör annars staðar á lánstímanum og þeir vextir sem um var samið eru því eins konar hámarksvextir.
    Vextir á lánunum eru fastir vextir. Íslenska samninganefndin ákvað að velja fremur fasta vexti en breytilega. Rökin fyrir því vali voru í fyrsta lagi að breytilegir vextir geta hreyfst mjög hratt og þar sem um er að ræða mjög háa fjárhæð er áhættan með breytilegum vöxtum mjög mikil. Eins og sést á eftirfarandi mynd, sem sýnir breytilega 3 mánaða vexti og 10 ára skuldabréfavexti í Bretlandi frá 1957, eru dæmi þess að skammtímavextir hafi hækkað um yfir 10% á fáeinum árum:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Endurtekning slíkra breytinga mundi leiða til ófyrirséðra breytinga á greiðslubyrði af lánunum. Í þessu efni þarf að hafa í huga að þar sem ekkert fé kemur í þessu tilviki í hendur lántaka á hann litla kosti þess að verja sig gegn slíkum sveiflum. Í öðru lagi eru vextir um þessar mundir í 50 ára sögulegu lágmarki. Líklegt er talið að á næstu árum muni vextir fara hækkandi, bæði vegna lágrar stöðu nú og ekki síður vegna þess að ríkisstjórnir um allan heim, m.a. í Bretlandi og Hollandi, hafa eytt miklu fé í að rétta við fjármálakerfi sín og blása lífi í atvinnulífið. Skuldir ríkjanna hafa aukist og þörf þeirra fyrir fjármagn á næstu árum verður mikil. Með því að festa vextina nú til langs tíma er líklegt að fengist hafi trygging gegn hærra vaxtastigi á komandi árum.
    Fyrir bankahrunið voru nær allar erlendar skuldir íslenska ríkisins á föstum vöxtum. Þetta hefur breyst umtalsvert á undanförnum mánuðum. Til dæmis taka kjör á fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (alls 1,4 milljarður SDR eða um 266 ma. kr.) mið af breytilegum grunnvöxtum. Eins er líklegt að samið verði um breytilega vexti á tvíhliða lánum við Norðurlöndin (alls 2,5 milljarðar USD eða um 306 ma. kr.). Því er líklegt að verulegur hluti erlendra skulda ríkisins beri breytilega vexti. Óráðlegt er að auka vaxtaáhættu ríkissjóðs enn frekar með frekari lántöku á breytilegum vöxtum.
    Lánasamningarnir fylgja frumvarpi þessu í íslenskri þýðingu (enski frumtextinn gildir). Þá voru samhliða gerðir samningar milli íslenska tryggingarsjóðsins og þess breska og hollenska Seðlabankans um uppgjör þeirra á milli og endurskoðun. Hvað tæknilega útfærslu samninganna varðar eru ákvæði þeirra að miklu leyti hefðbundin þegar um alþjóðlega lánasamninga er að ræða. Vert er að árétta sérstaklega nokkur atriði. Höfuðstóll lánanna sem veitt eru samanstendur af lágmarkstryggingu auk kostnaðar sem breski tryggingarsjóðurinn og hollenski Seðlabankinn urðu fyrir vegna forfjármögnunar, útgreiðslu og vaxtagreiðslna til innstæðueigenda. Hvað hollenska lánið varðar liggur nú endanlega fyrir hver fjárhæðin er en í tilfelli breska lánsins er kveðið á um hámarkslánsfjárhæð. Skýrist það af því að uppgjöri er ekki að fullu lokið við alla breska innlánshafa sem njóta tryggingar þar í landi.
    Lánið ber vexti frá 1. janúar 2009, en breski tryggingarsjóðurinn og hollenski Seðlabankinn höfðu greitt innstæður út að mestu fyrir þann tíma. Upphafsdagur vaxta er þó síðar í tilfelli breska lánsins ef útgreiðsla á sér stað síðar.
    Íslenski tryggingarsjóðurinn fær framselda kröfu breska tryggingarsjóðsins og hollenska Seðlabankans í bú Landsbankans. Erlendu aðilarnir munu síðan sjálfir gera kröfu í búið vegna þess sem umfram er og þeir hafa fjármagnað. Í samningunum er sérstakt ákvæði sem áréttar að sjóðirnir muni njóta jafnræðis þegar kemur að úthlutun úr búi Landsbankans, þ.e. fá upp í kröfur sínar í jöfnum hlutföllum, en það er í samræmi við þá túlkun á gjaldþrotalögunum sem almennt hefur verið uppi.
    Í samningunum eru enn fremur ákvæði þess efnis að komi til þess að tryggingarsjóðurinn eða íslenska ríkið greiði einhverjum innstæðuhöfum Landsbankans meira en sem nemur lágmarkstryggingu þá verði jafnt yfir alla látið ganga. Þetta á einungis við um greiðslu sem innt er af hendi af fúsum og frjálsum vilja þar sem ætlunin er að tryggja jafnræði milli Hollendinga og Breta.
    Í samningunum eru ítarleg ákvæði um fyrirkomulag endurgreiðslna sem gera tryggingarsjóðnum og íslenska ríkinu kleift að nýta eignir Landsbankans til að greiða höfuðstólinn niður án kostnaðar og endurfjármagna lánið ef hagstæðari kjör bjóðast.
    Vanefndaúrræði samkvæmt samningunum eru hefðbundin. Hins vegar er endurskoðunarákvæði samninganna óvenjulegt. Þar segir að lánveitendur samþykki að endurskoða samningana ef skuldaþol Íslands versnar til muna að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því sem var í nóvember 2008, en nánar verður fjallað um það atriði í 19. kafla athugasemdanna.
    Í báðum samningum er ákvæði um að rísi ágreiningur um efni þeirra skuli um slíkt fara eftir breskum lögum. Það er venja í alþjóðlegum lánasamningum að um ágreining gildi annaðhvort lög þess ríkis sem veitir lánið eða bresk lög sem skýrist af stöðu London sem alþjóðlegrar fjármálamiðstöðvar. Það varð að samkomulagi milli aðila að um bæði hollenska og breska lánasamninginn giltu bresk lög og bresk lögsaga. Í því felst að hægt er að bera ágreining um túlkun og framkvæmd samninganna fyrir breska dómstóla, eða aðra dómstóla sem hafa lögsögu, en þá ber jafnframt að leggja bresk lög til grundvallar.
    Íslenska ríkið nýtur að þjóðarétti friðhelgisréttinda í lögsögu annarra ríkja. Þessi friðhelgisréttindi stæðu í vegi fyrir lagalegri úrlausn deilumála vegna samningsins ef ekkert væri að gert. Það er föst venja í lánasamningum milli ríkja að víkja slíkum friðhelgisréttindum til hliðar. Dæmi um slíkt er að finna í MTN-lánaramma ríkissjóðs, en síðustu ár hafa flest erlend lán ríkissjóðs verið tekin á grundvelli þess samnings. Slík ákvæði hafa eðli málsins samkvæmt eingöngu gildi þar sem friðhelgi er til staðar, þ.e. í lögsögu erlendra ríkja. Án slíks fráfalls væri ekki hægt að stefna máli, né reka það, fyrir umsömdum dómstóli.
    Með þessum ákvæðum falla tryggingarsjóðurinn og Ísland frá hugsanlegum friðhelgisrétti í lögsögu annarra ríkja. Slíkt fráfall réttinda á einnig við um eignir tryggingarsjóðsins og íslenska ríkisins erlendis. Þess ber auðvitað að geta að nær óþekkt er að ríki beiti hvert annað fullnustuaðgerðum af því tagi að gengið sé að eigum skuldara. Ástæða er til að árétta að eignir utanríkisþjónustunnar eru varðar af ákvæðum Vínarsamningsins um stjórnmálatengsl og að samkvæmt breskum lögum eru seðlabankar erlendra ríkja sérstakir lögaðilar og verður því ekki gengið að eignum þeirra nema skuldbindingar hvíli beint á þeim. Seðlabankinn er ekki aðili að þessum samningum og getur því ekki orðið ábyrgur fyrir þeim skuldbindingum sem í samningunum felast. Ákvæði þessi hafa sem slík engin áhrif að innanlandsrétti og fela því ekki í sér sjálfstæðar heimildir til handa lánveitendum til að ganga að eigum íslenska ríkisins á Íslandi. Um það efni gilda almennar reglur, þar með talið undantekningar vegna eigna sem eru órjúfanlegur þáttur í rækslu hlutverks íslenska ríkisins sem fullvalda ríkis.

13. Skuldbinding vegna Icesave og aðrar skuldir ríkissjóðs.
    Heildarfjárhæð skuldbindinga samkvæmt samningunum eru um 705 milljarðar króna, sem er um 49% af vergri landsframleiðslu (VLF) árið 2009 eins og hún er áætluð af Seðlabanka Íslands. Gert er ráð fyrir að þar til að ábyrgð ríkissjóðs á greiðslum samkvæmt lánasamningunum hefst, þ.e. á árinu 2016, greiðist úr þrotabúi Landsbankans fjárhæð sem svarar til 75% af kröfum forgangsréttarhafa. Verði svo mun skuldbindingin að meðtöldum áföllnum vöxtum nema um 415 milljörðum króna, sem mun þá svara til um 21% af VLF eins og hún er áætluð á þeim tíma. Þótt áætluð endurheimta sé byggð á varfærnu mati er hún óvissu háð og gæti orðið nokkru hærri eða lægri. Eftirfarandi dæmi sýnir áhrif mismunandi endurheimtuhlutfalls þar sem gert er ráð fyrir að endurheimtufjárhæðin verði 15% lægri eða hærri en áætlunin miðast við.

Tafla 1: Áætlaður höfuðstóll Icesave-skuldar 2016


Endurheimta % af forgangskröfum Skuldbinding 2016, ma. kr. % af VLF 2016
60% 521 26%
75% 415 21%
90% 309 15%

    Eftirfarandi mynd sýnir feril skuldbindinga vegna lánasamninganna, þ.e. eftirstöðvar þeirra á hverjum tíma sem hlutfall af VLF samkvæmt áætlun Seðlabanka Íslands.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Eins og myndin ber með sér er gert ráð fyrir því að þegar fastar greiðslur samkvæmt lánasamningunum hefjast og ábyrgð ríkissjóðs verður virk hafi skuldbindingin sem hlutfall af landsframleiðslu fallið úr tæpum 50% í upphafi niður í 15–26% miðað við að endurgreiðslur úr þrotabúinu verði á bilinu 60–90% af fjárhæð forgangskrafnanna. Lækkun hlutfallsins stafar annars vegar af niðurgreiðslu skuldarinnar með heimtum úr þrotabúi Landsbankans hf. og hins vegar vegna þess að landsframleiðslan hefur vaxið.
    Við samanburð fjárhæðar skuldbindingar ríkissjóðs eins og hún verður 2016 við hagstærðir nú, svo sem landsframleiðslu og skuldastöðu ríkissjóðs, verður að taka tillit til tímamunarins. Verður það gert með því að núvirða greiðslur afborgana og vaxta af lánunum frá og með 2016. Sé það gert með því að nota við núvirðinguna áhættulausa vexti í viðkomandi gjaldmiðlum (ávöxtunarkröfu á breskum og þýskum ríkisskuldabréfum til 7 ára) verður núvirði skuldbindinganna um 373 milljarðar króna, eða um 26% af VLF eins og hún er áætluð 2009. Sé miðað við sömu vikmörk og áður, þ.e. 15% betri eða verri endurheimtur, verða hlutföll skuldarinnar af landsframleiðslu á milli 19,5% til 33%.
    Í lok árs 2007 námu heildarskuldir ríkissjóðs 311 milljörðum króna eða 23,4% af landsframleiðslu, en þar af námu erlendar skuldir 11,7%. Skuldastaða ríkissjóðs hefur undanfarin ár verið lág í alþjóðlegum samanburði auk þess að ríkissjóður átti þegar bankahrunið varð krónueignir í Seðlabankanum sem námu um 15% af landsframleiðslu. Þessi staða gerir það að verkum að geta ríkissjóðs til að taka á sig aukna skuldabyrði vegna endurreisnar efnahagslífsins var umtalsverð.
    Eftir bankahrunið, eða í árslok 2008, voru skuldir ríkissjóðs 931 milljarður króna. Þar munar mest um endurfjármögnun ríkissjóðs á Seðlabanka Íslands (270 milljarðar króna) vegna tapaðra veðlána bankans, aukna útgáfu ríkisbréfa og ríkisvíxla (181 milljarður króna) og lántöku vegna gjaldeyrisforða (130 milljarðar króna). Mat fjármálaráðuneytisins er að skuldirnar nái hámarki í árslok 2009 og hafi þá náð 1.810 milljörðum króna, sem svarar til um 125% af VLF. Þá hafa bæst við lán í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (338 milljarðar króna) og eiginfjárframlag til nýju bankanna (385 milljarðar króna), en hafa verður í huga að eignir eru á móti þessum skuldum.
    Þess ber að geta í þessu samhengi að til framtíðar er Ísland ekki sér á báti þegar kemur að hraðri skuldasöfnun ríkissjóðs af völdum bankahruns. Í nýlegri úttekt hagfræðinga hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er áætlað að skuldir ríkissjóðs hjá tíu ríkustu þjóðum G20 hópsins verði að meðaltali 114% af VLF árið 2014 og að mögulega kunni þessi tala að vera svo há sem 150% af VLF. Þó eru þessar þjóðir ekki að takast á við nær algert kerfishrun, þ.e. hrun 90% bankakerfisins líkt og í tilfelli Íslands, né hrun bankakerfis sem skuldaði tífalda þjóðarframleiðslu landsins (um 13.600 milljarða króna). Í þessum samanburði er skuldastaða ríkissjóðs vel viðunandi, enda ljóst að þrátt fyrir umfang skulda bankanna og stærð hrunsins sker ríkissjóður Íslands sig ekki sérstaklega úr þegar kemur að skuld hans sem hlutfalli af VLF. Með þessu er ekki verið að gera lítið úr miklum skuldum ríkissjóðs heldur aðeins verið að benda á alvarlegar afleiðingar bankakreppunnar á þróuð hagkerfi.
    Ef litið er fram hjá lántökum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlandaþjóðunum í tengslum við lán frá sjóðnum svo og lánum til endurfjármögnunar á bönkunum, eru skuldir ríkissjóðs í árslok 2009 áætlaðar um 1.100 milljarðar króna. Sé þeim hluta Icesave-skuldanna sem líkur eru á að lendi á ríkissjóði bætt við á núvirði við þessa tölur verður niðurstaðan þessi:

Tafla 2: Skuldir ríkissjóðs án gjaldeyrislána Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Norðurlanda

Innlend skuldabréf 471 ma. kr. 33 % af VLF
Skuldir vegna tapaðra veðlána o.fl. 296 ma. kr. 21 % af VLF
Erlend lán (sjá að framan) 315 ma. kr. 22 % af VLF
Skuldbinding vegna Icesave 373 ma. kr. 26 % af VLF
Samtals 1455 ma. kr. 102 % af VLF

    Núvirtar skuldbindingar vegna Icesave-lánanna eru því um fjórðungur af skuldum ríkissjóðs þegar frá eru talin lán sem tengjast fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
    Endurgreiðslur vegna lána ríkissjóðs ná hámarki árið 2011, en þá eru tvö erlend lán á gjalddaga að fjárhæð samtals 1300 milljónir evra auk vaxta. Lánin voru tekin til eflingar gjaldeyrisforða Seðlabankans árin 2006 og 2008. Umtalsverður hluti þeirrar endurgreiðslu er varinn með eignum í gjaldeyrisforða Seðlabankans. Engu að síður má reikna með að óhjákvæmilegt verði að endurfjármagna þessi lán að hluta. Auk endurgreiðslu og vaxta af erlendum lánum hvíla miklar innlendar skuldir á ríkissjóði sem greiða þarf vexti af, en ekki er reiknað með að þær verði greiddar niður á þessum tíma.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Á mynd 2 er sýnd áætlun um greiðslur ríkissjóðs 2009–2023 vegna afborgana og vaxta af lánum, þ.m.t. af skuld vegna Icesave. Eins og áður þarf að hafa í huga að hér er um brúttófjárhæðir að ræða. Engar greiðslur verða úr Tryggingarsjóði innstæðueigenda umfram heimtur úr þrotabúi Landsbankans fyrr en árið 2016. Miðað við það að eignir bankanna dugi fyrir 75% af innlánsskuldbindingum munu endurgreiðslur tryggingarsjóðsins nema 30–40% af heildarendurgreiðslum áranna 2016–2021. Eftirfarandi tafla sýnir hvernig heildarendurgreiðslur eru samansettar úr greiðslum af erlendum lánum, skuldbindingum vegna Icesave og innlendum skuldum ríkisins:

Tafla 3: Afborganir og vextir af skuldum ríkissjóðs


Ár Erlendar skuldir Icesave Innlendar skuldir Samtals
2009 9,2% 5,6% 14,8%
2010 3,2% 4,5% 7,8%
2011 18,7% 4,8% 23,5%
2012 8,9% 4,8% 13,7%
2013 7,5% 4,5% 12,0%
2014 6,1% 4,3% 10,3%
2015 5,4% 4,0% 9,4%
2016 4,1% 3,7% 3,8% 11,6%
2017 3,4% 3,6% 3,6% 10,6%
2018 3,0% 3,5% 3,4% 9,8%
2019 2,7% 3,3% 3,2% 9,2%
2020 2,4% 3,2% 3,0% 8,5%
2021 2,1% 3,0% 2,8% 8,0%
2022 0,0% 2,9% 2,7% 5,6%
2023 0,0% 2,7% 2,6% 5,3%

    Sé gert ráð fyrir að hinar háu greiðslur ársins 2011 dreifist á næstu ár þar á eftir verða greiðslur á árunum 2011–2016 líklega 11–16% af VLF. Eftir að greiðslur samkvæmt Icesave-lánasamningunum hefjast 2016 verður þetta hlutfall um 12% af VLF, en fer síðan lækkandi í um 8% 2021 og eftir það þegar önnur erlend lán eru að fullu greidd í 5–6% af VLF. Mynd 2 og tafla 3 miðast við greiðslu allra skulda ásamt vöxtum á núverandi gjalddögum, en gera verður ráð fyrir að stór hluti af skuldum ríkissjóðs verði endurfjármagnaður og dreift á fleiri ár en sýnt er. Ekki er því um það að ræða að viðkomandi fjárhæðir verði greiddar af tekjum ríkissjóðs einum á þessum árum. Endurfjármögnun á láni Tryggingarsjóðsins hjá breskum og hollenskum stjórnvöldum kemur einnig til álita þegar nær dregur því að afborganir hefjast eða fyrr ef sú staða skapast á alþjóðalánamarkaði að íslenska ríkið eigi kost á lánum á lægri vöxtum en um var samið. Samningarnir eru þannig úr garði gerðir að heimilt er að greiða inn á höfuðstólinn hvenær sem er án þess að því fylgi kostnaður og því unnt að nýta betri lántökukosti ef þeir finnast.
    Athuga þarf að framangreindar skuldatölur eru brúttóstærðir. Á móti hluta þeirra eru eignir, svo sem gjaldeyrisforðinn, eignarhlutir í bönkunum og félögum, sem og kröfur sem flestar eru tekjuberandi, ýmist í erlendri eða innlendri mynt. Nettóskuldastaða, endurgreiðsluþörf og nettóvaxtakostnaður er því lægri en sem því nemur.
    Eftirfarandi mynd 3 sýnir greiðslubyrði vegna Icesave-skuldbindinganna einna á árunum 2016–2023 miðað við að endurheimta eigna verði 75%:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Tölurnar hér að framan ná yfir greiðslur vegna allra skulda ríkissjóðs og Seðlabanka Íslands, erlendra sem innlendra, og eru vextir af innlendum skuldum verulegur hluti heildargreiðslnanna, 70–80 milljarðar króna á ári á þessu tímabili. Afborganir og vextir af erlendum skuldum ríkisins að óbreyttum gjalddögum verða að jafnaði um eða yfir 150 milljarðar króna á ári fram til 2015 ef hluta hinnar háu greiðslu 2011 er jafnað á árin þar á eftir. Fyrst eftir að Icesave-greiðslurnar hafa bæst við verða þessar greiðslur svipaðar, en fara síðan smám saman lækkandi.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Mynd 5 sýnir sömu stærðir sem hlutfall af landsframleiðslu á ári hverju:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Erlend lán eru greidd með erlendum tekjum sem þjóðarbúið aflar. Skuldaþolið er því meira eftir því sem viðskiptajöfnuður án erlendra vaxtagreiðslna er jákvæðari. Þróun efnahagsmála næstu árin mun því ráða miklu um það hve hratt skuldirnar verða greiddar niður.
    Gengisforsendur hafa töluverð áhrif á heildarskuldir, enda stór hluti þeirra í erlendri mynt. Hvað Tryggingarsjóð innstæðueigenda varðar eru eignir sem koma til lækkunar á skuldum sjóðsins einnig að mestu leyti í erlendri mynt. Styrking krónunnar frá því sem nú er mun lækka þá fjárhæð sem út af stendur frá 2016–2023. Styrking krónunnar mun einnig hafa áhrif á aðrar erlendar skuldir til lækkunar, en aðeins þann hluta sem erlendar eignir standa ekki á móti.

14. Áhrif samningsins og ríkisábyrgðarinnar á lánshæfismat íslenska ríkisins.
    Þrátt fyrir að reynt hafi verið til þrautar að fá deiluna um túlkun ábyrgðar íslenska ríkisins lagða fyrir dóm var allan tímann ljóst að tvísýnt væri um hvort það tækist og enn tvísýnna um niðurstöðu slíkrar dómsmeðferðar hefði hún náðst. Því er rétt að árétta að stjórnvöld hafa talið nauðsynlegt að gera ráð fyrir ábyrgð ríkisins á lágmarksinnstæðutryggingunum í öllum sínum áætlunum. Á það m.a. við efnahagsáætlun þá sem er lögð til grundvallar samstarfi Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
    Ástæða þess að lánshæfismat ríkisins hefur fallið er aukin skuldsetning ríkissjóðs vegna falls bankanna og óvissa um þróun efnahagsmála. Óvissa um skuldastöðu ríkissjóðs hefur einnig neikvæð áhrif á matið og þess vegna getur samningur um ríkisábyrgð fyrir láni innstæðutryggingarsjóðsins og sú óvissa sem niðurstaða í Icesave-málinu eyðir haft jákvæð áhrif á matið en t.d. Moody´s leit á skuldir bankanna sem byrði á ríkissjóði vegna kerfislægs mikilvægis þeirra fyrir hrunið. Um gríðarlegar upphæðir var þar um að ræða og margfaldar á við mögulegar ábyrgðir ríkissjóðs vegna Icesave.
    Það er líka lykilatriði í þessu máli að ríkissjóði er hlíft næstu 7 ár, en á helmingi þess tímabils verða ein erfiðustu ár sem um getur í íslensku efnahagslífi. Því er orðið ljóst að skuldbindingin fellur ekki á ríkissjóð á þessu tímabili en það var ekki ljóst á meðan óvissa var um lyktir þessa máls. Á meðan er gert ráð fyrir niðurgreiðslu á höfuðstóli með eignum Landsbankans og þannig er sú upphæð sem ríkið þarf að gangast í ábyrgðir fyrir minnkuð verulega.
    Vart þarf að hafa mörg orð um það hvað hefði orðið um lánshæfismat ríkisins ef íslensk stjórnvöld neituðu að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar og semja vegna Icesave- málsins. Fyrir utan þá óvissu sem sá gjörningur hefði valdið þá er ljóst að lánshæfismat ríkisins hefði skaðast verulega enda hefði verið litið svo á að íslensk stjórnvöld væru að hlaupast undan alþjóðlegum skuldbindingum sínum.
    Matsfyrirtækin bíða nú eftir því að fyrstu endurskoðun á efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins ljúki. Þá ætti óvissu um langtímaaðhaldsáætlun í ríkisfjármálum og kostnað við endurfjármögnun bankanna að hafa verið eytt að miklu leyti. Ef tekst að fá áætlunina rædda í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um miðjan júlí, þá eru talsverðar líkur á því að horfum verði breytt í stöðugar.

15. Valkostur við þessa samninga.
    Eins og áður hefur verið rakið verður Icesave-deilunni ekki komið fyrir dóm án samþykkis gagnaðila íslenskra stjórnvalda. Ef ekki væri samið um málið væri vissulega ekki hægt að útiloka að á endanum yrði rekið dómsmál þar sem reyndi á túlkunina og að slíku dómsmáli yrði annaðhvort vísað til forúrskurðar EB-dómstólsins eða leitað eftir ráðgefandi áliti EFTA- dómstólsins. Það er hins vegar ekki í valdi íslenska ríkisins að knýja fram slíka málshöfðun, alls óvíst er hvort til hennar kæmi fyrir atbeina einkaaðila og endanlegrar niðurstöðu væri ekki að vænta fyrr en eftir nokkur ár. Dómstólaleiðin svonefnda er því ekki fær.
    Það að gera ekkert er heldur ekki fær leið. Slíkt mundi leiða til algerrar einangrunar Íslands í alþjóðlegum fjármálasamskiptum og fyrir þjóð sem byggir velferð sína á greiðum útflutningsviðskiptum er slíkt einfaldlega ekki valkostur. Þess fyrir utan verður að hafa í huga að Ísland er eitt af nánustu samstarfsríkjum ESB-ríkjanna á grundvelli EES-samningsins. Í aðild Íslands að EES felast bæði rík réttindi og ríkar skyldur. ESB-ríkin hafa mjög skýra afstöðu til þess hverjar skyldur Íslands eru í Icesave-málinu. Virði Ísland að vettugi umræddar skyldur sínar á innri markaði sambandsins er ljóst að þátttaka þess í EES getur verið í uppnámi.
    Lokaspurningin er þá hvort hægt sé að ná samningum um betri skilmála fyrir þeim heildarlánum sem hér eru tekin. Ef samningar yrðu opnaðir aftur fæli það í sér að báðir aðilar kæmu óbundnir til samninga að nýju. Bretar og Hollendingar mundu ekki síður reyna að sækja betri niðurstöðu en Ísland. Samningaviðræður mundu í besta falli taka einhverja mánuði. Allur dráttur á lokaafgreiðslu þessa máls er dýru verði keyptur fyrir Ísland vegna tengsla þess við allt endurreisnarstarf íslensks efnahagslífs.
    Skoðanir geta að sjálfsögðu verið skiptar um ágæti þeirra samninga sem náðust. Þar verður að hafa í huga að hendur samningamanna voru bundnar af fyrri yfirlýsingum um grundvallaratriði málsins. Samninganefndin hafði þannig umboð til að semja um skilmála, en hafði ekki stöðu til að efast um sjálfan grundvöll krafna viðsemjendanna. Samninganefndin sem leiddi málið til lykta telur að ekki hafi verið lengra komist. Samningsstaðan var afskaplega þröng og samningarnir fela í sér ásættanlega niðurstöðu í ljósi þess.

16. Nánar um ríkisábyrgðina.
    Heildarfjárhæð tryggðra Icesave-innlána í Tryggingarsjóði innstæðueigenda sem Holland og Bretland höfðu leyst til sín auk vaxta af útgreiðslum og kostnaðar nemur tæpum 700 milljörðum króna miðað við gengi þegar samningarnir eru gerðir við Holland og Bretland. Tryggingarsjóðurinn tekur þessa fjárhæð að láni og skuldbindur sig til að endurgreiða Bretum og Hollendingum lánið eftir því sem sjóðnum berast greiðslur úr þrotabúi Landsbankans. Í forsendum samkomulagsins er lagt til grundvallar varfærið mat á eignum Landsbankans og við það miðað að á næstu sjö árum muni eignir þrotabús Landsbankans ná að standa undir a.m.k. 75% af forgangskröfum í búið. Það þýðir að 75% höfuðstóls láns Tryggingarsjóðsins mun greiðast niður á sama tíma. Muni eignir Landsbankans standa undir 95% af forgangskröfum greiðist að sama skapi 95% af höfuðstólnum niður á þessum sjö árum.
    Eignir gamla Landsbankans eru varðveittar í höfuðstöðvunum í Reykjavík og útibúum í Englandi, Hollandi og Kanada. Samkvæmt mati skilanefndar bankans á eignum hans 30. apríl 2009 voru eignir búsins um 1.100 milljarðar króna, en forgangskröfur í búið um 1.330 milljarðar króna. Eignir væru því fyrir um 83% forgangskrafna. Í lánasamningunum er byggt á því mati að 75% forgangskrafna greiðist, en það eru tæplega 1.000 milljarðar króna. Eignir búsins skiptast þannig á lönd samkvæmt fyrrgreindu mati skilanefndar:

Á Íslandi 633 ma. kr.
Í Englandi 330 ma. kr.
Í Hollandi 96 ma. kr.
Í Kanada 41 ma. kr.

    Meðal eigna á Íslandi er skuldaskjal það sem nýi Landsbankinn mun gefa út til gamla bankans vegna yfirtöku eigna að loknum þeim samningum sem nú standa yfir. Í tölunum er miðað við að verðmæti þess sé 284 milljarðar króna, en allan fyrirvara verður að hafa á þeirri fjárhæð enda ósamið um hana. Eignirnar eru fyrst og fremst í formi lána og skuldabréfa. Þær skiptast þannig:

Kröfur á aðrar fjármálastofnanir, þ.m.t. innlán 126 ma. kr.
Lán til viðskiptavina 533 ma. kr.
Markaðsverðbréf 76 ma. kr.
Afleiður 35 ma. kr.
Hlutafé í dótturfyrirtækjum og hlutdeildarfélögum 14 ma. kr.
Aðrar eignir 32 ma. kr.
Samtals framangreint 816 ma. kr.
Krafa á nýja Landsbankann 284 ma. kr.
Alls 1.100 ma. kr.

    Uppsafnaðir vextir á fyrstu sjö árunum bætast svo við það sem eftir stendur af höfuðstólnum að loknum þeim tíma. Þær eftirstöðvar greiðast svo ásamt áföllnum vöxtum á hverjum tíma með 32 jöfnum afborgunum yfir næstu 8 ár. Ríkisábyrgðin nær til þessara 32 afborgana, en rétt er að hafa í huga að andvirði lánsins getur þó haldið áfram að lækka á þessum tíma séu greiðslur enn að skila sér úr þrotabúi Landsbankans.
    Í öllum tilvikum verður að reikna með því að kostnaður falli á ríkissjóð vegna ríkisábyrgðarinnar, að minnsta kosti vegna vaxta af lánasamningunum. Vextir teljast til eftirstæðra krafna við skipti á þrotabúum og því geta greiðslur þrotabúsins aldrei gengið inná vaxtakröfurnar. Kostnaður ríkissjóðs vegna ábyrgðarinnar mun falla til á árunum 2016–2024 og er vísað til hjálagðs kostnaðarmats um áætlun hans.
    Stofnað er til ríkisábyrgðarinnar með lánasamningunum en með fyrirvara um samþykki Alþingis á ábyrgðarveitingunni.

17. Eðli ríkisábyrgðarinnar og tenging við lög um ríkisábyrgðir.
    Um veitingu almennra ríkisábyrgða gilda lög nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir. Í lögunum eru sett fram ítarleg skilyrði fyrir veitingu almennra ríkisábyrgða. Ekki er gert sérstaklega ráð fyrir heimildum til ríkisábyrgða af því tagi sem hér um ræðir í lögum nr. 121/1997, enda um almenn lög að ræða. Er því með frumvarpi því sem hér er lagt fram lagt til að ákvæði laga nr. 121/1997, að undanskilinni 5. gr. laganna um eftirlit Ríkisábyrgðasjóðs, gildi ekki varðandi þá ábyrgð sem lögin taka til. Verði frumvarp þetta að lögum munu þau þá sem sérlög ganga framar almennum lögum eins og venja er til samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum.
    Samkvæmt þeim samningum sem vísað er til í 1. gr. frumvarpsins er ríkisábyrgðin vegna lána Tryggingarsjóðs innstæðueigenda þess eðlis að hún verður virk um leið og greiðslufall verður af viðkomandi lánum. Ekki er því gert ráð fyrir samkvæmt samningunum að tæma þurfi öll innheimtuúrræði gagnvart lántaka (Tryggingarsjóði innstæðueigenda), eins og þegar um einfalda ábyrgð er að ræða, áður en ábyrgð ríkissjóðs verður virk. Er því í 1. gr. frumvarpsins lagt til að ríkissjóði sé heimilt að veita „ríkisábyrgð“ í stað þess að talað væri um að heimildin væri til að veita „einfalda ríkisábyrgð“, eins og fordæmi eru fyrir.

18. Forsendur samninganna.
    Líkt og á við um alla samninga þá er gengið út frá ýmsum forsendum við gerð þessara samninga. Hér er ástæða til að nefna sérstaklega tvennt: Í fyrsta lagi að íslenska ríkið geti staðið undir ábyrgðinni sem þar er veitt, þ.e. að það geti staðið undir greiðslum reyni á ábyrgðina. Mikilvægasti þátturinn í að svo megi verða er að út úr búi Landsbankans komi það upp í kröfurnar sem ráð er fyrir gert. Það sem gæti sett strik í reikninginn er annars vegar að íslenskir dómstólar mundu telja að forgangur sá sem innstæðum var veittur með neyðarlögunum stæðist ekki gagnvart stjórnarskrá. Fyrir liggur álit ríkislögmanns, sbr. ofangreinda umfjöllun um annan þátt í álitsgerð hans, um að neyðarlögin standist stjórnarskrá að þessu leyti. Hins vegar er það að úthlutun úr búinu tefjist umfram það sem áætlað er eða að minna verði til úthlutunar en ráð er fyrir gert. Stjórnvöld treysta því að mat skilanefndar Landsbankans sé varfærið að þessu leyti. Að öðru leyti ræðst það af almennu efnahagsástandi og afkomu ríkissjóðs hvert skuldaþol ríkisins verður að sjö árum liðnum. Tekið er tillit til þessara forsendna íslenska ríkisins í endurskoðunarákvæði samninganna. Það kveður á um að hraki skuldaþoli Íslands verulega frá því sem var í nóvember 2008 skuli aðilar setjast á ný að samningaborði. Íslensk stjórnvöld byggja á því að tekið yrði fullt tillit til aðstæðna Íslands og getu ríkisins til að standa undir skuldbindingum, sbr. umsömdu viðmiðin sem samþykkt voru í Brussel í nóvember 2008. Í öðru lagi er það forsenda af hálfu íslenskra stjórnvalda að bresk og hollensk stjórnvöld muni virða slitameðferð Landsbanka Íslands og stuðla að því að allar eigur búsins lúti samræmdri stjórn þannig að hámarka megi andvirði eigna. Jafnframt virði þau neyðarlögin og ráðstafanir sem gripið hefur verið til á grundvelli þeirra.

19. Endurskoðunarákvæði samninganna.
    Í 15. og 16. gr. lánasamninganna er kveðið á um rétt Íslands til að óska eftir endurskoðun á lánaskilmálum hafi skuldaþoli Íslands hrakað til muna frá mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 19. nóvember 2008. Upplýsingar um mat sjóðsins má finna í efnahagsáætlun þeirri sem liggur til grundvallar samstarfi íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og birt hefur verið opinberlega. Í matinu er gerð grein fyrir skuldastöðu og greiðslubyrði. Þessa þætti verður ávallt að meta heildstætt með hliðsjón af stöðu efnahagslífsins, þar á meðal gjaldeyristekjum þjóðarinnar.
    Íslensk stjórnvöld líta svo á að verði endurskoðunarákvæði samninganna virkt vegna verulegrar breytingar á skuldaþoli Íslands séu Bretar og Hollendingar, á grundvelli umsömdu viðmiðanna sem samþykkt voru í Brussel í nóvember 2008, skuldbundnir til þess að taka fullt tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, verði heimilað að veita Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta ríkisábyrgð vegna lána sjóðsins hjá breska og hollenska ríkinu samkvæmt samningum dags. 5. júní 2009 til að standa straum af lágmarksgreiðslum, sbr. 10. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Ábyrgðin tekur til höfuðstóls lánsins eins og hann mun standa að sjö árum liðnum frá undirritun samningsins, 5. júní 2016, auk vaxta af lánsfjárhæðinni.
    Um ríkisábyrgð er að ræða sem er þess eðlis, samkvæmt þeim samningum sem vísað er til í 1. gr. frumvarpsins, að hún verður virk um leið og greiðslufall verður af viðkomandi lánum af hálfu lántaka.
    Eins og fram kemur í ákvæðinu afmarkast ábyrgðin af ákvæðum samninganna, þ.m.t. um endurskoðun þeirra. Samkvæmt samningunum er miðað við mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á skuldaþoli Íslands frá 19. nóvember 2008. Mat þetta er hluti af efnahagsáætlun Íslands og aðgengilegt almenningi. Matið kemur til endurskoðunar óski Ísland eftir því (svokallað IV. greinar mat). Leiði það í ljós að skuldaþolinu hafi hrakað til muna frá nóvember 2008 eiga íslensk stjórnvöld kost á að óska formlega eftir viðræðum við lánveitendur um endurskoðun lánaskilmála. Við slíka endurskoðun ber að mati íslenskra stjórnvalda að taka fullt tillit til hinna umsömdu viðmiða sem samþykkt voru í Brussel í nóvember 2008 þar sem vísað var til hinna fordæmalausu aðstæðna Íslands og knýjandi nauðsynjar þess að gera því kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt. Þannig undirstrika íslensk stjórnvöld að reynist ábyrgðin íslenska ríkinu ofviða verði hún endurskoðuð. Eins og fyrr segir eru þó allar líkur á að íslenska ríkið muni geta staðið undir því sem á það fellur.
    Loks er í greininni kveðið á um að fjármálaráðherra setji Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta frekari skilyrði vegna ábyrgðarinnar einkum varðandi eftirlit með fjárhag hans og endurheimtu eigna úr búi Landsbanka Íslands. Tryggingarsjóðurinn verður einn stærsti kröfuhafinn í bú Landsbanka Íslands og er mjög þýðingarmikið að hann gæti hagsmuna sinna varðandi allar ákvarðanir um slit bankans og úthlutun úr búinu. Lagt er til að fjármálaráðherra setji sjóðnum skilyrði um þetta efni auk skilyrða er varða fjárhag sjóðsins almennt að svo miklu leyti sem það tengist ríkisábyrgðinni. Fjármálaráðherra gætir að því að eftirlitshlutverk hans samkvæmt þessu ákvæði skarist hvorki á við hlutverk ríkisábyrgðarsjóðs skv. 5. gr. laga nr. 121/1997 né hlutverk Fjármálaeftirlitsins, en stofnunin skal hafa eftirlit með að starfsemi sjóðsins sé í samræmi við lög um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, sbr. 15. gr. þeirra laga og ákvæði laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Um 2. gr.

    Lagt er til í greininni að varðandi þá ábyrgð sem frumvarpið kveður á um komi ákvæði þess að öllu leyti í stað laga nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, að því undanskildu að gert er ráð fyrir að 5. gr. þeirra laga gildi um ábyrgð þá sem frumvarp þetta tekur til. Ákvæði 5. gr. laga nr. 121/1997 fjallar um eftirlit Ríkisábyrgðasjóðs og afskriftarreikninga vegna veittra ríkisábyrgða. Um nánari umfjöllun er vísað til almennra athugasemda. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringar.

Fylgiskjal I.

Óopinber þýðing – Enski textinn gildir

Lánssamningur
milli
Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta á Íslandi
og
Íslands
og
umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins
dagsettur 5. júní 2009

Lánssamningur
SAMNINGUR ÞESSI, DAGSETTUR 5. JÚNÍ 2009, ER GERÐUR MILLI:
(1)     TRYGGINGARSJÓÐS INNSTÆÐUEIGENDA OG FJÁRFESTA Á ÍSLANDI, sem er sjálfseignarstofnun sem stofnuð er samkvæmt íslenskum lögum („ Tryggingarsjóður innstæðueigenda“), sem lántakanda,
(2)     ÍSLANDS („ íslenska ríkisins“) sem ábyrgðaraðila og
(3)    „ UMBOÐSMANNA BRESKA FJÁRMÁLARÁÐUNEYTISINS“ („breska fjármálaráðuneytisins“ eða „lánveitandans“, í hlutverki sínu samkvæmt samningi þessum sem lánveitandi) sem lánveitanda.
BAKGRUNNUR:
(A)    Tryggingarsjóður innstæðueigenda ábyrgist kröfur innstæðueigenda hjá Landsbankanum í London á hendur Landsbankanum, samkvæmt lögum nr. 98/1999 sem innleiddu tilskipun 94/19/EB. Trygging þessi tekur til allt að 20.887 evra fyrir hvern innstæðueiganda hjá Landsbankanum í London.
(B)    Breski tryggingarsjóðurinn hefur greitt út tryggingar til meirihluta innstæðueigenda hjá Landsbankanum í London vegna krafna þeirra á hendur Landsbankanum og Tryggingarsjóði innstæðueigenda samkvæmt lögum nr. 98/1999 og í staðinn hafa þessir innstæðueigendur Landsbankans í London framselt breska tryggingarsjóðnum þessar kröfur. Ferlið sem unnið verður eftir við:
     (i)    uppgjör breska tryggingarsjóðsins (fyrir hönd Tryggingarsjóðs innstæðueigenda) á þeim kröfum innstæðueigenda hjá Landsbankanum í London sem eftir standa á hendur Tryggingarsjóði innstæðueigenda samkvæmt lögum nr. 98/1999 og
     (ii)    uppgjör Tryggingarsjóðs innstæðueigenda á skuldbindingum sínum gagnvart breska tryggingarsjóðnum,
    verður tilgreint ítarlega í uppgjörssamningnum.
(C)    Sátt hefur náðst um að Tryggingarsjóður innstæðueigenda muni:
     (i)    endurgreiða breska tryggingarsjóðnum þær fjárhæðir sem sjóðurinn greiddi út sem tryggingu til innstæðueigenda hjá Landsbankanum í London vegna krafna þeirra á hendur Landsbankanum og Tryggingarsjóði innstæðueigenda samkvæmt lögum nr. 98/1999 og inna af hendi greiðslu til breska tryggingarsjóðsins vegna kostnaðar sem þegar er fallinn til og mun falla til (en endurgreiðslan mun einnig vera til uppgjörs krafna áðurnefndra innstæðueigenda hjá Landsbankanum í London sem hafa verið framseldar breska tryggingarsjóðnum) og
     (ii)    leggja breska tryggingarsjóðnum til fjármagn vegna uppgjörs (fyrir hönd Tryggingarsjóðs innstæðueigenda) á þeim kröfum innstæðueigenda hjá Landsbankanum í London sem eftir standa á hendur Tryggingarsjóði innstæðueigenda samkvæmt lögum nr. 98/1999.
(D)    Einnig hefur sátt náðst um að lánveitandi leggi fram fullnægjandi fjármagn til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til að gera hinum síðarnefnda fært að standa við framangreindar skuldbindingar. Það er vilji samningsaðila að skilmálar fyrir slíkri fjármögnun lánveitanda og endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda verði settir fram með nákvæmum hætti í samningi þessum.
(E)    Þess er vænst að breski tryggingarsjóðurinn framselji áfram (e. on-assign) kröfurnar á hendur Landsbankanum (sem innstæðueigendur hjá Landsbankanum í London framseldu sjóðnum) til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda að því marki sem kröfurnar nema fjárhæðum sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda ábyrgist samkvæmt lögum nr. 98/1999.
SÁTT HEFUR NÁÐST UM EFTIRFARANDI:
1    SKILGREININGAR OG TÚLKUN
1.1    Skilgreiningar
    Í samningi þessum hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér segir:
     „Lög nr. 98/1999“: íslensk lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, miðað við 11. október 2008.
     „Ársdagur samningsins“ (e. anniversary date): sérhver ársdagur undirritunardags samningsins.
     „Virkur dagur“: hver sá dagur (annar en laugardagur eða sunnudagur) þegar bankar eru opnir fyrir almenn viðskipti í Reykjavík og London.
     „Breyting á íslenskum lögum“: gildistaka laga, reglugerða eða stjórnvaldsfyrirmæla eða hvers konar breyting á lögum, reglugerðum eða stjórnvaldsfyrirmælum, í öllum tilvikum á Íslandi, að undanskildum hverjum þeim lögum, reglugerðum eða stjórnvaldsfyrirmælum, eða breytingu á þeim, sem er krafist að séu sett eða tekin upp samkvæmt reglugerð eða tilskipun Evrópubandalagsins (hvort heldur er beint eða á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið).
     „Tilskipun 94/19/EB“: tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EB frá 30. maí 1994 um innlánatryggingakerfi, miðað við 11. október 2008 (nema annað sé tekið fram).
     „Útgreiðsla“: útgreiðsla sem er innt af hendi eða skal inna af hendi samkvæmt samningi þessum.
     „Útgreiðsludagur“: dagurinn þegar útgreiðsla fer fram eða skal fara fram.
     „Útgreiðslubeiðni“: tilkynning, í megindráttum með því sniði sem fram kemur á eyðublaði 1.
     „Ágreiningur“: hefur þá merkingu sem fram kemur í mgr. 17.2.1.
     „Lánssamningur við Holland“: lánssamningur sem gerður hefur verið eða verður gerður milli Tryggingarsjóðs innstæðueigenda, íslenska ríkisins og hollenska ríkisins.
     „Erlendar lánaskuldbindingar“: hvers konar lán, skuldir eða aðrar skuldbindingar sem þegar hefur verið stofnað til eða kann að verða stofnað til í framtíðinni, sem:
     (a)    skal greiða aðilum búsettum utan Íslands eða, ef um er að ræða skuldabréf, skuldaskjal, skuldaviðurkenningar, verðbréfainneign eða önnur verðbréf, þar sem a.m.k. 25 hundraðshlutar af heildarhöfuðstól eru boðin eða voru upphaflega boðin aðilum búsettum utan Íslands, eða
     (b)    eru tilgreindar í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum eða, ef þær eru tilgreindar í íslenskum krónum, eru samkvæmt skilmálum þar sem greiðsla höfuðstóls, aukaframlags (e. premium) (ef um það er að ræða) eða vaxta getur verið eða skal vera í öðrum gjaldmiðli eða miðast við annan gjaldmiðil,
    þ.m.t., til að taka af allan vafa:
     (i)    hvers konar lántökur, skuldir eða aðrar skuldbindingar gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og
     (ii)    hvers konar lántökur, skuldir eða aðrar skuldbindingar samkvæmt lánssamningnum við Holland.
     „Lán“: lánið eins og því er lýst í mgr. 2.1.
     „Fjárhæð láns“: hefur þá merkingu sem tilgreind er í mgr. 2.1.1.
     „Fjármálaskjöl“: þessi samningur, uppgjörssamningurinn og sérhver annar samningur eða skjal sem samningsaðilar tilgreina sem fjármálaskjal.
     „Breski tryggingarsjóðurinn“: Financial Services Compensation Scheme Limited (FSCS).
     „Bankareikningur breska tryggingarsjóðsins“: einn eða fleiri bankareikningar breska tryggingarsjóðsins hjá Englandsbanka.
     „Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn“: International Monetary Fund (IMF).
     „Landsbanki“: Landsbanki Íslands hf., fjármálafyrirtæki sem stofnað er samkvæmt íslenskum lögum.
     „Innstæðueigandi hjá Landsbankanum“: aðili sem hefur lagt fjármuni inn á innlánsreikning eða á með öðrum hætti innstæðu hjá Landsbankanum og á samsvarandi kröfu á hendur Landsbankanum sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda hefur ábyrgst samkvæmt lögum nr. 98/1999 (þ.m.t., til að taka af allan vafa, sérhver innstæðueigandi hjá Landsbankanum í London).
     „Landsbankinn í London“: útibú Landsbankans í London.
     „Innstæðueigandi hjá Landsbankanum í London“: i) sérhver innstæðueigandi „Icesave-reiknings“ hjá Landsbankanum í London, ii) sérhver aðili, sem lagði inn umsókn um að opna „Icesave-reikning“ hjá Landsbankanum í London og millifærði peningana til Barclays-banka sem greiðslujöfnunarbanka (e. clearing bank) Landsbankans í London í Bretlandi, en ekki hefur verið opnaður „Icesave-reikningur“ fyrir, þannig að millifærðir peningar eru enn hjá Barclays-banka og iii) sérhver annar aðili sem hefur lagt inn fjármuni, eða á með öðrum hætti innstæðu hjá Landsbankanum í London, að því tilskildu, í þessu síðasta tilviki, að samsvarandi krafa á hendur Landsbankanum sé hæf samkvæmt reglum breska tryggingarsjóðsins um útgreiðslu tryggingar.
     „Uppgjörsreikningur lánveitanda“: einn eða fleiri bankareikningar sem eru í eigu lánveitanda á hverjum tíma og lánveitandi tilkynnir Tryggingarsjóði innstæðueigenda um.
     „Samningsaðilar“: Tryggingarsjóður innstæðueigenda, íslenska ríkið og lánveitandi.
     „Heildarhöfuðstóll (e. Reimbursement)“: heildarfjárhæð útgreiðslna á hverjum tíma (hvort sem er fyrir eða eftir að Tryggingarsjóði innstæðueigenda ber að greiða lánveitanda heildarhöfuðstólinn), ásamt vöxtum sem hafa lagst við höfuðstólinn eða fjárhæðin eins og hún stendur hverju sinni.
     „Afborgun“: með fyrirvara um mgr. 4.4.3, fjárhæð sem er jöfn höfuðstól lánsins á sjöunda ársdegi samningsins, deilt með 32.
     „Uppgjörssamningur“: uppgjörssamningur sem mun verða gerður milli Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og breska tryggingarsjóðsins þar sem kveðið verður á um með hvaða hætti uppgjör breska tryggingarsjóðsins (fyrir hönd Tryggingarsjóðs innstæðueigenda) á kröfum innstæðueigenda hjá Landsbankanum í London á hendur Tryggingarsjóði innstæðueigenda samkvæmt lögum nr. 98/1999 mun fara fram og með hvaða hætti uppgjör Tryggingarsjóðs innstæðueigenda á skuldbindingum sjóðsins gagnvart breska tryggingarsjóðnum mun fara fram.
     „Vanefndatilvik“: hver sá atburður eða aðstæður sem tilgreindar eru sem slíkar í 12. gr.
1.2    Hagur þriðju aðila
1.2.1    Með fyrirvara um mgr. 1.2.2 skulu aðrir aðilar en samningsaðilar ekki, nema annað sé tekið fram, hafa rétt samkvæmt lögum um samningsréttindi þriðju aðila frá 1999 (e. Contracts (Rights of Third Parties) Act 1999) til að framfylgja neinum skilmála eða skilyrði þessa samnings.
1.2.2    Breski tryggingarsjóðurinn nýtur hags af (e. has the benefit of) og getur framfylgt hverjum þeim réttindum, sem honum eru veitt eða hverjum þeim skilmála eða skilyrði sem lýst er yfir að hann njóti hags af í þessum samningi (þ.m.t., án takmarkana, 8. gr.).
1.2.3    Þrátt fyrir ákvæði mgr. 1.2.2 er ekkert í þessum samningi sem leggur skyldur á aðila sem á ekki aðild að þessum samningi.
1.3    Skýringar
1.3.1    Í þessum samningi skal litið svo á, nema annað leiði af samhenginu, að:
     (a)    vísanir til aðila taki einnig til síðari handhafa réttinda hans, lögmætra framsalshafa og lögmætra afsalsþega,
     (b)    vísanir til hvers konar skjals (eða ákvæðis í því) séu vísun til þess skjals (eða ákvæðis í því) eins og því hefur á hverjum tíma verið breytt (e. amend), bætt við það (e. supplement), frávik gert frá því (e. vary), gerð aðilaskipti kröfuhafa á því (e. novate), það framselt öðrum (e. assign) eða því skipt út (e. replace) (í heild eða að hluta),
     (c)    vísanir til hvers konar reglna (e. statute) eða annarra lagaákvæða taki einnig til breytinga á þeim, endurútgáfu (e. re-enactment) þeirra eða þess sem kann að koma í þeirra stað (e. substitution) og
     (d)    vísanir til uppgjörs breska tryggingarsjóðsins á kröfum eða útgreiðslu tryggingar „fyrir hönd Tryggingarsjóðs innstæðueigenda“ taka til allra greiðslna breska tryggingarsjóðsins til innstæðueigenda hjá Landsbankanum í London að því er varðar skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda samkvæmt lögum nr. 98/1999 (hvort sem breski tryggingarsjóðurinn innir þær greiðslur af hendi sem aðalgreiðsluaðili (e. principal) eða umboðsaðili (e. agent)).
1.3.2    Ef fjárhæð, sem greiða ber samkvæmt eða í tengslum við fjármálaskjal, fellur í gjalddaga á degi sem er ekki virkur dagur, eða ef tímabili, sem útreikningur á slíkri fjárhæð er miðaður við, lýkur á degi sem er ekki virkur dagur skal fjárhæðin, fyrir tilstilli þessarar málsgreinar (mgr. 1.3.2), þess í stað greiðast eða tímabilinu ljúka á næsta virka degi nema sá virki dagur falli innan næsta almanaksmánaðar en í því tilviki skal fjárhæðin í staðinn greiðast eða tímabilinu ljúka á næsta virka degi fyrir þann dag.
2    LÁNIÐ
2.1    Lánið
2.1.1    Samkvæmt skilmálum samnings þessa veitir lánveitandi Tryggingarsjóði innstæðueigenda lán í sterlingspundum (e. Sterling term loan facility) með höfuðstól að hámarki £2.350.000.000, eða að annarri þeirri fjárhæð sem lánveitandi og Tryggingarsjóður innstæðueigenda koma sér skriflega saman um á hverjum tíma („ fjárhæð láns“).
2.1.2    Útgreiðslur af láninu skulu nýttar (e. be applied) af Tryggingarsjóði innstæðueigenda eða öðrum fyrir hans hönd (eða, þar til það verður gert, settar á innlánsreikning, sem ber vexti, til að nýta síðar) í eftirfarandi tilgangi:
     (a)    til að endurgreiða (hvort sem er með skuldajöfnun eða öðrum hætti) fjárhæðir, sem breski tryggingarsjóðurinn hefur fengið að láni frá breska fjármálaráðuneytinu og notað (fyrir hönd Tryggingarsjóðs innstæðueigenda) til að greiða út tryggingu vegna krafna innstæðueigenda hjá Landsbankanum í London samkvæmt lögum nr. 98/1999, að fjárhæð allt að £16.872,99 á hverja kröfu, ásamt áföllnum vöxtum á þær fjárhæðir sem fengnar hafa verið að láni frá (og að meðtöldum) 1. janúar 2009, og/eða
     (b)    til uppgjörs breska tryggingarsjóðsins (fyrir hönd Tryggingarsjóðs innstæðueigenda) á kröfum innstæðueigenda hjá Landsbankanum í London samkvæmt lögum nr. 98/1999, að fjárhæð allt að £16.872,99 á hvern innstæðueiganda (eða, ef við á, handhafa að sameiginlegum reikningi) og/eða
     (c)    til að bæta breska tryggingarsjóðnum upp og fjármagna tiltekinn kostnað,
    í samræmi við og samkvæmt uppgjörssamningnum.
2.1.3    Þrátt fyrir mgr. 2.1.2 skal lánveitanda ekki vera skylt að hafa eftirlit með eða hafa afskipti af notkun eða nýtingu (e. use or application) útgreiðslna.
2.2    Framkvæmd lánsins
2.2.1    Með fyrirvara um skuldbindingu íslenska ríkisins skal Tryggingarsjóður innstæðueigenda vera eini lántakandinn að láninu, vera skuldari að öllum útgreiðslum af láninu og bera meginábyrgð á öllum fjárhæðum (þ.m.t., án takmarkana, heildarhöfuðstólnum og hvers konar vöxtum, kostnaði og útgjöldum sem á falla í tengslum við hann) sem eru komnar til greiðslu eða kunna að koma til greiðslu til lánveitanda samkvæmt þessum samningi.
2.2.2    Breski tryggingarsjóðurinn getur, og Tryggingarsjóður innstæðueigenda veitir hér með (með samþykki íslenska ríkisins) breska tryggingarsjóðnum, með óafturkræfum hætti, heimild til þess, dregið á lánið fyrir hönd Tryggingarsjóðs innstæðueigenda í einni eða fleiri útgreiðslum, sem breski tryggingarsjóðurinn getur óskað eftir með afhendingu rétt útfylltrar útgreiðslubeiðni til lánveitanda í samræmi við uppgjörssamninginn.
2.2.3    Útgreiðslubeiðni verður að leggja fyrir lánveitanda eigi síðar en kl. 11.00 f.h. (að Lundúnatíma) á fyrirhuguðum útgreiðsludegi.
2.2.4    Breski tryggingarsjóðurinn getur, fyrir hönd Tryggingarsjóðs innstæðueigenda, dregið á lánið í samræmi við þessa málsgrein (mgr. 2.2):
     (a)    til að ganga frá greiðslum sem eru nauðsynlegar eða æskilegar í einhverjum þeim tilgangi sem fram kemur í mgr. 2.1 og
     (b)    fram til (og þannig að enginn útgreiðsludagur verði eftir) 30. mars 2012 og skal þá samanlagður höfuðstóll ekki vera hærri en fjárhæð lánsins.
2.3    Framkvæmd útgreiðslu
2.3.1    Lánveitandi lætur breska tryggingarsjóðnum í té hverja útgreiðslu til ráðstöfunar á útgreiðsludegi að því tilskildu að:
     (a)    samningur þessi hafi öðlast gildi í samræmi við 3. gr. og
     (b)    vanefndatilvik hafi ekki komið til eða geti komið til sem afleiðing af því að fyrirhuguð útgreiðsla á sér stað.
    Sérhver útgreiðsla skal færð inn á bankareikning breska tryggingarsjóðsins (eða, þegar um er að ræða útgreiðslu sem á að nota til að endurgreiða fjárhæð, sem breski tryggingarsjóðurinn hefur fengið að láni hjá breska fjármálaráðuneytinu, með því að skuldajafna slíka útgreiðslu á móti fjárhæðinni sem þegar hefur verið fengin að láni).
2.3.2    Aðeins breski tryggingarsjóðurinn getur óskað eftir og fengið andvirði útgreiðslu og Tryggingarsjóður innstæðueigenda hefur, þrátt fyrir (og með fyrirvara um) skuldbindingar sínar sem lántakandi að láninu, engan rétt eða kröfu til að óska eftir eða fá andvirði útgreiðslu.
2.4    Staðfesting á útgreiðslum
2.4.1    Lánveitandi mun, eins fljótt og sanngjarnt getur talist eftir að útgreiðsla hefur átt sér stað, tilkynna Tryggingarsjóði innstæðueigenda og íslenska ríkinu um:
     (a)    fjárhæð útgreiðslunnar og útgreiðsludag og
     (b)    fjárhæð heildarhöfuðstólsins um leið og útgreiðsla hefur átt sér stað.
2.4.2    Það að ákvæði mgr. 2.4.1 hafi ekki verið uppfyllt skal á engan hátt takmarka skyldur eða skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og íslenska ríkisins samkvæmt samningi þessum.
3    GILDISTAKA
3.1    Fyrirvarar

    Samningur þessi öðlast gildi þegar:
     (a)    Tryggingarsjóður innstæðueigenda hefur afhent lánveitanda, á því formi og með þeim efnistökum sem hann telur fullnægjandi, eftirfarandi skjöl (á ensku eða, ef þau eru ekki á ensku, skal þeim fylgja löggilt þýðing á ensku):
         (i)    frumrit þessa samnings, dagsett og undirritað með viðeigandi hætti af hálfu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og íslenska ríkisins,
         (ii)    frumrit af uppgjörssamningnum, dagsett og undirritað með viðeigandi hætti af hálfu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda,
         (iii)    samþykkt stjórnar eða aðra viðeigandi heimild Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til að framkvæma fyrir sitt leyti þennan samning og uppgjörssamninginn og uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt honum og
         (iv)    lögfræðiálit lögmannsstofunnar Lex, sem eru lögfræðilegir ráðgjafar Tryggingarsjóðs innstæðueiganda að því er varðar íslensk lög, og lögfræðiálit ríkislögmanns, meðal annars að því er varðar hæfi og tilhlýðilegar heimildir Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og íslenska ríkisins, hvors um sig, eftir því sem við á, og gilda undirritun hvers fjármálaskjals sem þau eiga aðild að,
     (b)    Alþingi hefur samþykkt að íslenska ríkið taki á sig ábyrgð samkvæmt þessum samningi og samþykkt hver þau lög önnur eða heimildir sem þarf til að tryggja að skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og íslenska ríkisins samkvæmt þessum samningi og uppgjörssamningnum séu lögmætar, gildar, bindandi og framfylgjanlegar (og skal íslenska ríkið afhenda lánveitanda eintak af sérhverjum slíkum lögum eða heimildum þegar þau hafa verið leidd í lög eða samþykkt) og
     (c)    Tryggingarsjóður innstæðueigenda og breski tryggingarsjóðurinn hafa náð samkomulagi um framsal krafna (sem mun öðlast gildi um leið og þessi samningur) sem samrýmist ákvæðum í mgr. 4.2 í uppgjörssamningnum.
3.2    Frestur (e. long stop date)
    Ef ekki hefur verið gengið frá þeim aðgerðum, sem um getur í mgr. 3.1, fyrir lok sumarþings 2009 er lánveitanda heimilt að rifta þessum samningi með því að senda Tryggingarsjóði innstæðueigenda tilkynningu um það og afrit til íslenska ríkisins.
4    ENDURGREIÐSLA
4.1    Endurgreiðsla
    Tryggingarsjóður innstæðueigenda mun endurgreiða lánveitanda allar útgreiðslur sem innt er af hendi í samræmi við þennan samning með því að greiða heildarhöfuðstólinn.
4.2    Endurgreiðsla með fjármagni úr Landsbankanum
    Fái Tryggingarsjóður innstæðueigenda einhverja fjárhæð vegna krafna innstæðueigenda Landsbankans eða krafna sem voru áður í eigu innstæðueigenda Landsbankans eða á annan hátt í tengslum við gjaldþrot Landsbankans skal hann greiða þá fjárhæð, innan fimm virkra daga, til lánveitanda og hollenska ríkisins (sem er lánveitandi samkvæmt lánssamningnum við Holland) í réttum hlutföllum við eftirstandandi höfuðstól á þeim tíma samkvæmt þessum samningi og lánssamningnum við Holland (með fyrirvara um námundun). Hver sú fjárhæð, sem lánveitandi tekur við samkvæmt þessari málsgrein (mgr. 4.2.2), skal notuð til greiðslu inn á heildarhöfuðstólinn.
4.2.1    Sérhver endurgreiðsla af heildarhöfuðstólnum samkvæmt þessari málsgrein (mgr. 4.2) sem er innt af hendi eftir sjöunda ársdag samningsins, skal:
     (a)    einnig taka til allra áfallinna vaxta af honum en vera án endurgjalds (e. penalty) og
     (b)    með fyrirvara um mgr. 9.3, lækka fjárhæð heildarhöfuðstólsins sem nemur fjárhæð endurgreiðslunnar og hana skal nýta til að greiða inn á hverja afborgun sem eftir stendur, fyrst inn á elsta hlutann (e. be applied towards each of the remaining Repayment Instalments in order of maturity).
4.3    Afborgunaráætlun
4.3.1    Eftir sjöunda ársdag samningsins skal Tryggingarsjóður innstæðueigenda byrja að endurgreiða það sem þá stendur eftir af heildarhöfuðstólnum í þrjátíu og tveimur afborgunum á ársfjórðungsfresti.
4.3.2    Tryggingarsjóður innstæðueigenda greiðir afborgun á hverjum ársdegi samningsins og þegar þrír, sex og níu mánuðir eru liðnir frá ársdegi samningsins og skal fyrsta afborgun koma til greiðslu þremur mánuðum eftir sjöunda ársdag samningsins.
4.3.3    Hver afborgunargreiðsla samkvæmt þessari málsgrein (mgr. 4.3) tekur einnig til allra áfallinna vaxta en án endurgjalds.
4.4    Valfrjáls innborgun
4.4.1    Með fyrirvara um mgr. 4.4.2 er Tryggingarsjóði innstæðueigenda heimilt hvenær sem er, ef hann veitir lánveitanda skriflegan fyrirvara sem er a.m.k. þrír virkir dagar, að ákveða að greiða heildarhöfuðstólinn fyrir fram, að fullu eða að hluta, en ef heildarhöfuðstóllinn er greiddur að hluta skal greiðslan nema a.m.k. £1.000.000 (ein milljón sterlingspunda) eða, ef greitt er minna, fjárhæð hvers konar umframgreiðslu (e. Excess) (sbr. skilgreiningu í mgr. 7.2 í uppgjörssamningnum).
4.4.2    Á sama tíma og Tryggingarsjóður innstæðueigenda greiðir hvers konar valfrjálsa innborgun samkvæmt mgr. 4.4.1 skal hann (nema þessi valfrjálsa innborgun hafi verið vegna umframgreiðslu eins og um getur í mgr. 4.4.1) greiða valfrjálsa, hlutfallslega innborgun inn á þann höfuðstól sem eftir stendur af lánssamningi við Holland þannig að sama hlutfall sé greitt inn á höfuðstólinn sem eftir stendur samkvæmt þessum samningi og samkvæmt lánssamningi við Holland (með fyrirvara um námundun).
4.4.3    Hvers konar innborgun á heildarhöfuðstólinn samkvæmt þessari málsgrein (mgr. 4.4) skal:
     (a)    einnig taka til áfallinna vaxta af honum en vera án endurgjalds og
     (b)    með fyrirvara um mgr. 9.3, lækka fjárhæð heildarhöfuðstólsins sem nemur fjárhæð innborgunarinnar og nýta til að greiða hlutfallslega inn á hverja afborgun sem eftir stendur.
4.4.4    Ekki er hægt að fá aftur að láni fjárhæð sem greidd hefur verið fyrir fram.
5    VEXTIR
5.1    Vextir
    Heildarhöfuðstóllinn ber 5,55 prósent vexti á ári frá (og að meðtöldum) fyrsta útgreiðsludegi fram að (en að undanskildum) greiðsludegi síðustu afborgunar (eða, eftir atvikum, innborgunar) sem greidd er lánveitanda.
5.2    Vaxtagreiðslur
5.2.1    Fram að sjöunda ársdegi samningsins (og að honum meðtöldum) skulu áfallnir vextir af útgreiðslum leggjast við (og þannig verða hluti af) heildarhöfuðstólnum á hverjum ársdegi samningsins.
5.2.2    Eftir sjöunda ársdag samningsins greiðir Tryggingarsjóður innstæðueigenda áfallna vexti af láninu á hverjum ársdegi samningsins og þegar þrír, sex og níu mánuðir eru liðnir frá ársdegi samningsins.
5.3    Vextir vegna vanskila
    Greiði Tryggingarsjóður innstæðueigenda ekki á gjalddaga einhverja þá fjárhæð sem honum ber að greiða samkvæmt þessum samningi reiknast vextir af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga fram að greiðsludegi samkvæmt því vaxtastigi sem tilgreint er í mgr. 5.1, að viðbættum 0,30 prósentustigum á ári. Slíkir vextir skulu leggjast við heildarhöfuðstólinn eða koma til greiðslu (eftir atvikum) á þeim dögum, sem um getur í mgr. 5.2, og á greiðsludegi gjaldföllnu fjárhæðarinnar.
5.4    Talning daga
    Vextir, sem reiknast af láninu samkvæmt þessum samningi, falla á lánið daglega og eru reiknaðir á grundvelli raunverulegs fjölda liðinna daga og telst árið vera 365 dagar.
6    ÁBYRGÐ OG SKAÐLEYSI
6.1    Gildistaka
    Ákvæði þessarar greinar (6. gr.) um ábyrgð og skaðleysi öðlast gildi á sjöunda ársdegi samningsins.
6.2    Ábyrgð og skaðleysi
    Íslenska ríkið:
     (a)    ábyrgist óafturkallanlega og skilyrðislaust gagnvart lánveitanda að Tryggingarsjóður innstæðueigenda muni standa á tilhlýðilegan hátt og á réttum tíma við allar skuldbindingar sínar samkvæmt þeim fjármálaskjölum sem hann er aðili að,
     (b)    skuldbindur sig óafturkallanlega og skilyrðislaust til að greiða lánveitanda, þegar krafa er gerð um slíkt, þær fjárhæðir sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda greiðir ekki á gjalddaga samkvæmt eða í tengslum við fjármálaskjöl sem hann á aðild að, eins og það væri frumlántakandi (e. principal obligor) og
     (c)    skuldbindur sig óafturkallanlega og skilyrðislaust til þess að halda lánveitandanum skaðlausum, þegar krafa er gerð um slíkt, vegna alls kostnaðar, taps eða skaða sem lánveitandinn kann að verða fyrir ef einhver af þeim skuldbindingum, sem íslenska ríkið ábyrgist samkvæmt fjármálaskjölunum, er eða verður óframfylgjanleg, ógild eða ólögmæt. Fjárhæðin, sem kostnaðurinn, tapið eða skaðinn nemur, skal vera jafnhá þeirri fjárhæð sem lánveitandinn hefði ella átt rétt á að endurheimta.
6.3    Samfelld ábyrgð og skaðleysi
    Sú ábyrgð og skaðleysi, sem þessi grein (6. gr.), felur í sér, er samfelld og gildir þar til þær greiðslur, sem Tryggingarsjóði innstæðueigenda ber að inna af hendi samkvæmt fjármálaskjölunum, hafa verið greiddar að fullu, án tillits til hvers konar innáborgana eða niðurfellingar (e. discharge) í heild eða að hluta. Slík ábyrgð og skaðleysi fellur fyrst úr gildi (með fyrirvara um mgr. 6.4) þegar allar fjárhæðir, sem Tryggingarsjóði innstæðueigenda ber að greiða samkvæmt fjármálaskjölunum, hafa verið greiddar lánveitanda að fullu og öllu og eru komnar í vörslu hans.
6.4    Endurnýjun kröfu
    Ef einhverri greiðslu af hendi Tryggingarsjóðs innstæðueigenda eða einhverri lækkun (e. discharge) af hendi lánveitanda í þágu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda eða íslenska ríkisins er rift eða hún færð niður:
     (a)    skal ábyrgð Tryggingarsjóðs innstæðueigenda eða íslenska ríkisins (eftir því sem við á) haldast líkt og greiðslan, lækkunin, riftunin eða niðurfærslan hefði ekki komið til og
     (b)    á lánveitandi rétt á að endurheimta virði eða fjárhæð slíkrar greiðslu eða lækkunar af hendi Tryggingarsjóðs innstæðueigenda eða íslenska ríkisins (eftir því sem við á) líkt og greiðslan, lækkunin, riftunin eða niðurfærslan hefði ekki komið til.
6.5    Fallið frá vörnum
    Aðgerðir, aðgerðarleysi, málefni eða atriði sem myndu, ef ekki væri fyrir þessa málsgrein (mgr. 6.5), draga úr skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt þessari grein (6. gr.), leysa það undan þeim eða hafa áhrif á þær, hafa ekki áhrif á skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt þessari grein (6. gr.), þ.m.t. (án takmarkana og hvort sem íslenska ríkið eða öðrum samningsaðila er um það kunnugt eða ekki):
     (a)    hvers konar frestur, eftirgjöf (e. waiver) eða samþykki sem veitt er eða nauðasamningur sem gerður er við Tryggingarsjóð innstæðueigenda, íslenska ríkið eða annan aðila,
     (b)    tilslökun gagnvart Tryggingarsjóði innstæðueigenda, íslenska ríkinu eða öðrum aðila samkvæmt skilmálum nauðasamnings eða samkomulags við kröfuhafa einhvers þeirra,
     (c)    þótt gripið sé til hvers konar réttinda gagnvart Tryggingarsjóði innstæðueigenda, íslenska ríkinu eða öðrum aðila eða tryggingar í eignum þeirra, að mismunur sé á þeim réttindum eða tryggingu, að þeim sé stofnað í hættu, að skipst sé á þeim, þau endurnýjuð, að leyst sé undan þeim eða að neitað sé eða vanrækt að veita fyrrgreindum réttindum eða tryggingu vernd, taka þau upp eða framfylgja þeim, eða að ekki sé farið að hvers konar formsatriðum eða annarri kröfu að því er varðar hvers konar gerning eða að ekki takist að innleysa fullt virði hvers konar tryggingar,
     (d)    vanhæfi eða skortur á valdheimildum, umboði eða réttarstöðu lögaðila eða niðurlagning eða breyting á stöðu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda, íslenska ríkisins eða annars aðila,
     (e)    hvers konar breyting, aðilaskipti að kröfuréttindum (e. novation), viðbót við, rýmkun á, endurtekning (e. restatement) (óháð því hversu áríðandi það er eða þótt það sé meira íþyngjandi) eða skipti á einhverju fjármálaskjali, þ.m.t. (án takmarkana) hvers konar breyting á markmiði fjármálaskjalsins, rýmkun þess eða hækkun á láninu eða að fjármálaskjal bætist við,
     (f)    það að ekki reynist unnt að framfylgja hvers konar skuldbindingum aðila samkvæmt fjármálaskjali eða öðru skjali, þær reynast ólögmætar eða ógildar, eða
     (g)    gjaldþrot, endurskipulagning eða svipuð málsmeðferð gagnvart Landsbanka, Tryggingarsjóði innstæðueigenda eða öðrum aðila.
6.6    Milliliðalaus úrræði
    Íslenska ríkið fellur hér með, með óafturkræfum hætti, frá hverjum þeim rétti sem það kann að hafa til að fara fram á að lánveitandi grípi áður til aðgerða gegn öðrum aðila eða framfylgi öðrum réttindum eða gangi að tryggingu eða krefjist greiðslu kröfu gagnvart öðrum aðila áður en hann gerir kröfu á íslenska ríkið samkvæmt þessari grein (6. gr.). Þessi eftirgjöf réttar gildir þrátt fyrir öll lög eða ákvæði fjármálaskjals sem kunna að kveða á um annað.
6.7    Frestun réttinda íslenska ríkisins
    Þar til allar fjárhæðir, sem Tryggingarsjóði innstæðueigenda eða íslenska ríkinu ber að greiða samkvæmt fjármálaskjölunum eða í tengslum við þau, hafa verið greiddar að fullu á óafturkræfan hátt mun íslenska ríkið ekki, nema lánveitandi gefi fyrirmæli um annað, nýta sér rétt til skaðabóta, kröfuhafaskipta eða samábyrgðar sem það kann að hafa vegna þess að það hefur staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt fjármálaskjölunum (og fái íslenska ríkið greiðslu eða úthlutun í tengslum við slíkan rétt mun það tafarlaust afhenda lánveitanda slíka greiðslu eða úthlutun).
6.8    Viðbótartrygging
    Ábyrgðin og skaðleysið, sem kveðið er á um í þessari grein (6. gr.), kemur til viðbótar við, og er ekki skert af, hvers konar annarri ábyrgð, skaðleysi eða tryggingu, sem lánveitandi eða annar aðili nýtur nú eða öðlast síðar.
6.9    Meðferð á kröfuhöfum Landsbankans
    Íslenska ríkið mun ekki grípa til neinna aðgerða sem gætu leitt til þess að kröfuhafar (eða einhver hópur þeirra) Landsbankans (þ.m.t., til að taka af allan vafa, kröfuhafar (eða einhver hópur þeirra) Landsbankans í London) hljóti meðferð sem andstæð er almennt viðurkenndum, alþjóðlegum eða evrópskum meginreglum um meðferð kröfuhafa í alþjóðlegri slitameðferð.
7    SAMBÆRILEG MEÐFERÐ OG JÖFN MEÐFERÐ
7.1    Sambærileg meðferð
    Geri Tryggingarsjóður innstæðueigenda eða íslenska ríkið einhvers konar samkomulag eða samning um fjármögnun (annan en lánssamninginn við Holland) við einhvers konar fjármögnunaraðila (þ.m.t., án takmarkana, ríki, alþjóðastofnun eða einkaaðila) í þeim tilgangi að fjármagna kröfur innstæðueigenda hjá íslenskum banka og sá fjármögnunaraðili nýtur, samkvæmt viðkomandi samkomulagi eða samningi um fjármögnun (skoðað í heild sinni), almennt hagstæðari meðferðar en lánveitandinn samkvæmt þessum samningi eða nýtur einhvers konar tryggingar, skulu Tryggingarsjóður innstæðueigenda og íslenska ríkið láta lánveitandann njóta sömu hagstæðu meðferðar eða svipaðrar tryggingar (og skulu Tryggingarsjóðurinn og íslenska ríkið láta skjalfesta það á nauðsynlegan eða æskilegan hátt).
7.2    Jöfn meðferð
7.2.1    Í þessari málsgrein (mgr. 7.2) er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     „Umframgreiðsla“: hvers konar greiðsla umfram 20.887 evrur vegna kröfu eða krafna innstæðueiganda hjá Landsbankanum (að frátöldum, til að taka af allan vafa, fyrrum innstæðueiganda hjá Landsbankanum sem varð innstæðueigandi hjá NBI), annars en innstæðueiganda hjá Landsbankanum í London og
     „Annar tryggingarsjóður“: hvers konar innlánatryggingakerfi sem komið er á fót og er opinberlega viðurkennt á Íslandi að því er varðar tilskipun 94/19/EB (þ.m.t. hvers konar breytingar á henni eða endurútgáfa hennar eða hvaðeina sem kemur í stað hennar), annað en Tryggingarsjóður innstæðueigenda.
7.2.2    Ef:
     (a)    Tryggingarsjóður innstæðueigenda, annar tryggingarsjóður eða íslenska ríkið greiðir umframgreiðslu eða
     (b)    Tryggingarsjóður innstæðueigenda eða annar tryggingarsjóður hefur yfir nægilegu fé að ráða til að greiða umframgreiðslu,
    mun Tryggingarsjóður innstæðueigenda greiða (eða sjá til þess að viðkomandi annar tryggingarsjóður greiði) fjárhæð, sem er jafnhá umframgreiðslunni, til hvers og eins af innstæðueigendum hjá Landsbankanum í London, þó að því tilskildu að hafi lánveitandinn eða breski tryggingarsjóðurinn greitt innstæðueiganda hjá Landsbankanum í London, vegna kröfu þessara innstæðueigenda hjá Landsbankanum í London samkvæmt lögum nr. 98/1999, fjárhæð sem er umfram 20.887 evrur skuli greiðslan samkvæmt þessari málsgrein (mgr. 7.2) renna til lánveitandans eða breska tryggingarsjóðsins eftir því sem við á.
8    ÁBYRGÐ LÁNVEITANDANS OG BRESKA TRYGGINGARSJÓÐSINS
    Hvorki lánveitandi né breski tryggingarsjóðurinn munu verða ábyrgir fyrir neinum kostnaði, tapi eða skaða sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda eða íslenska ríkið verða fyrir í tengslum við samning þennan eða uppgjörssamninginn eða á annan hátt í tengslum við Landsbankann fyrir undirritunardag þessa samnings.
9    GREIÐSLUR OG SKULDAJÖFNUN
9.1    Greiðslur
    Sérhver greiðsla Tryggingarsjóðs innstæðueigenda eða íslenska ríkisins samkvæmt þessum samningi skal greidd á gjalddaga, og nema þeirri upphæð sem er á gjalddaga þann dag, inn á uppgjörsreikning lánveitanda (eða á annan þann hátt sem lánveitandi kann að tilgreina).
9.2    Gjaldmiðill
    Tryggingarsjóður innstæðueigenda og íslenska ríkið skulu inna af hendi hverja greiðslu, sem þeim ber að greiða samkvæmt þessum samningi, í sterlingspundum og skulu þær vera frjálsar til ráðstöfunar og til millifærslu.
9.3    Hlutagreiðslur
    Ef greiðsla frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda eða íslenska ríkinu til lánveitanda nægir ekki til að unnt sé að mæta öllum greiðslum, sem eru á þeim tíma fallnar í gjalddaga samkvæmt þessum samningi, af hálfu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda eða íslenska ríkisins, eftir því sem við á, til lánveitanda rennur sú greiðsla:
     (a)    í fyrsta lagi til greiðslu kostnaðar og útgjalda sem lánveitandi hefur stofnað til samkvæmt þessum samningi,
     (b)    í öðru lagi til greiðslu á þeim hluta heildarhöfuðstólsins sem er kominn á gjalddaga og
     (c)    í þriðja lagi til greiðslu áfallinna vaxta sem eru komnir á gjalddaga samkvæmt þessum samningi en eru ógreiddir.
9.4    Skuldajöfnun og frádráttur
9.4.1    Allar greiðslur, sem Tryggingarsjóði innstæðueigenda eða íslenska ríkinu ber að greiða samkvæmt þessum samningi, skulu reiknaðar út og inntar af hendi:
     (a)    án, og lausar undan frádrætti vegna, hvers konar takmarkana, gagnkrafna eða skuldajöfnunar, og
     (b)    án nokkurs frádráttar eða án þess að einhverju sé haldið eftir vegna skatta, álagningar, álaga (e. impost), tolla eða annarra gjalda af svipuðu tagi nema þess sé krafist að lögum.
9.4.2    Sé Tryggingarsjóði innstæðueigenda eða íslenska ríkinu skylt að beita frádrætti eða halda einhverju eftir, eins og um getur í b-lið mgr. 9.4.1, hækkar fjárhæð greiðslunnar sem þeim ber að greiða þannig að fjárhæðin verður, eftir að dregið hefur verið frá eða haldið eftir, jafnhá greiðslunni sem bæri að greiða ef enginn frádráttur hefði átt sér stað eða engu hefði verið haldið eftir.
10    SKAÐLEYSI
    Tryggingarsjóður innstæðueigenda skal, innan tíu virkra daga frá því að krafa er gerð um það, sjá til þess að lánveitanda sé haldið skaðlausum vegna kostnaðar, taps eða skaða sem hann hefur orðið fyrir í tengslum við eða af ástæðum er varða:
     (a)    umbreytingu á einni mynt yfir í aðra samkvæmt fjármálaskjölunum,
     (b)    vanefndatilvik eða það þegar Tryggingarsjóður innstæðueigenda eða íslenska ríkið stendur ekki við einhverjar af skuldbindingum sínum samkvæmt fjármálaskjölunum eða
     (c)    viðhald réttinda, veitingu verndar réttinda eða framfylgd réttinda lánveitanda samkvæmt fjármálaskjölunum.
11    SÉRSTAKAR YFIRLÝSINGAR OG ÁBYRGÐIR
    Tryggingarsjóður innstæðueigenda lýsir því yfir og ábyrgist það sem fram kemur í þessari grein (11. gr.) gagnvart lánveitanda á þeim degi sem samningur þessi er gerður og hann skal vera skuldbundinn til að gera slíkt á ný þann dag sem hann gerir uppgjörssamninginn:
     (a)    hann er sjálfseignarstofnun, sem er tilhlýðilega stofnuð og telst gild að íslenskum lögum, hann getur átt eignir og starfað á þann hátt sem hann gerir, og
     (b)    skuldbindingarnar, sem lýst er yfir, í hverju því fjármálaskjali sem hann er aðili að, að hann takist á hendur, eru eða verða, með fyrirvara um hvers konar almennar meginreglur laga, sem takmarka skuldbindingar hans og sérstaklega er vísað til í lögfræðiálitinu, sem um getur í iv. lið í a-lið 3. gr., lögmætar, gildar, bindandi og framfylgjanlegar.
12    VANEFNDATILVIK
12.1    Vanefndatilvik
    Sérhvert eftirfarandi atriða telst vera vanefndatilvik:
12.1.1     Greiðslufall: Tryggingarsjóður innstæðueigenda eða íslenska ríkið stendur ekki við greiðslu á gjalddaga á þeirri fjárhæð, sem greiða ber samkvæmt fjármálaskjölunum, á þeim stað og í þeim gjaldmiðli sem greiða ber, nema greiðslufallið megi að öllu leyti rekja til stjórnsýslulegrar eða tæknilegrar yfirsjónar og að fjárhæðin greiðist eigi síðar en fimm virkum dögum eftir gjalddaga.
12.1.2     Vanefnd á öðrum skuldbindingum: Tryggingarsjóður innstæðueigenda eða íslenska ríkið, hvort um sig, stendur ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt fjármálaskjölunum og ræður ekki, þótt það sé hægt, fullnægjandi bót á þeim vanefndum að mati lánveitanda innan tíu virkra daga frá því að þær verða.
12.1.3     Riftun greiðslna: Einhverri greiðslu, sem reidd hefur verið af hendi af hálfu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda eða íslenska ríkisins í samræmi við fjármálaskjölin, er rift, henni vikið til hliðar, hún ógilt eða lækkuð.
12.1.4     Ósannar yfirlýsingar: Hvers konar yfirlýsing, sem er sett fram eða talin er hafa verið sett fram í fjármálaskjali eða í skjali sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda eða íslenska ríkið hafa afhent í tengslum við fjármálaskjal, er eða reynist hafa verið röng eða villandi í veigamiklum atriðum þegar hún var sett fram eða talin hafa verið sett fram.
12.1.5     Vanefnd á öðrum lánum íslenska ríkisins: Íslenska ríkið (eða stjórnvald eða ráðuneyti á Íslandi) stendur ekki við hvers konar greiðslu á erlendum lánaskuldbindingum sínum á gjalddaga (eða innan þess gjaldfrests sem er upphaflega veittur í samningi um slíkar erlendar lánaskuldbindingar) eða hvers konar erlendar lánaskuldbindingar koma fyrr til greiðslu en á yfirlýstum gjalddaga vegna vanefnda (hvernig sem þeim er lýst), þó með þeim fyrirvara að ekki kemur til vanefndatilviks samkvæmt þessari málsgrein (mgr. 12.1.5) nema heildarfjárhæð erlendu lánaskuldbindingarinnar, sem ekki hefur verið greitt af á gjalddaga eða sem hefur komið fyrr til greiðslu, sé hærri en 10.000.000 sterlingspund eða jafngildi hennar í öðrum gjaldmiðlum.
12.1.6     Vangeta til að greiða skuldir: Tryggingarsjóður innstæðueigenda er ófær um eða viðurkennir vangetu sína til að greiða (að teknu tilliti til hvers konar stuðnings sem hann á kost á) skuldir sínar þegar þær falla í gjalddaga, frestar (hvort heldur er af frjálsum vilja eða án eigin tilverknaðar) því að greiða af skuldum sínum eða hefur, vegna yfirstandandi eða fyrirsjáanlegra fjárhagserfiðleika, samningaviðræður við einn eða fleiri lánardrottna sinna með það í huga að endurskipuleggja skuldir sínar eða umbreyta þeim.
12.1.7     Fylgni við lög: Tryggingarsjóður innstæðueigenda eða íslenska ríkið:
     (a)    fer ekki að kröfum tilskipunar 94/19/EB að því er varðar innstæðueigendur hjá Landsbankanum í veigamiklum atriðum eða
     (b)    fer ekki að lögum sem hann eða það heyrir undir, við aðstæður þar sem slík vanræksla gæti skert að verulegu leyti getu hans eða þess til að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt fjármálaskjölunum.
12.1.8     Jafnréttháar kröfur: Greiðsluskuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda samkvæmt fjármálaskjölunum verða ekki lengur a.m.k. jafnréttháar núverandi og síðari kröfum allra annarra lánardrottna hans eða greiðsluskuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt fjármálaskjölunum verða ekki lengur a.m.k. jafnréttháar núverandi eða síðari erlendum lánaskuldbindingum þess, í báðum tilvikum öðrum en kröfum sem hafa forgang samkvæmt gildandi lögum á þeim degi þegar samningur þessi er gerður.
12.1.9     Ógilding eða neitað að efna samning: Eitthvert ákvæði fjármálaskjals er ekki eða hættir að vera lögmætt, gilt, bindandi og framfylgjanlegt eða Tryggingarsjóður innstæðueigenda eða íslenska ríkið neitar að efna það með einhverjum hætti.
12.1.10     Tryggingarsjóður: Tryggingarsjóður innstæðueigenda er leystur upp eða hættir eða einhver sú breyting verður á íslenskum lögum sem hefur eða mun hafa þau áhrif að Tryggingarsjóðurinn hættir að vera eina innlánatryggingarkerfið að því er varðar innstæðueigendur hjá Landsbankanum sem er opinberlega viðurkennt á Íslandi að því er varðar tilskipun 94/19/EB (þ.m.t. hvers konar breytingar á henni eða endurútgáfa hennar eða hvaðeina sem kemur í stað hennar).
12.1.11     Breytingar á íslenskum lögum: Breyting sem verður á íslenskum lögum og hefur eða myndi hafa veruleg neikvæð áhrif á getu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda eða íslenska ríkisins til að inna greiðslur sínar, hvors um sig, af hendi eða standa við aðrar skuldbindingar samkvæmt fjármálaskjölunum sem þau eru aðilar að.
12.2    Tilkynning um vanefndatilvik
    Ef Tryggingarsjóður innstæðueigenda eða íslenska ríkið verður þess áskynja að átt hafi sér stað vanefndatilvik mun hann eða það tilkynna lánveitanda um slíkan atburð eins fljótt og auðið er, ásamt því að greina í smáatriðum frá þeim atburðum eða aðstæðum sem teljast vanefndatilvik og þeim ráðstöfunum til úrbóta sem gripið er til.
12.3    Afleiðingar vanefndatilviks
    Þegar vanefndatilvik á sér stað og hvenær sem er eftir það er lánveitanda heimilt, með tilkynningu til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og með afriti til íslenska ríkisins og breska tryggingarsjóðsins:
     (a)    að segja upp láninu og tekur uppsögnin þegar gildi og/eða
     (b)    að lýsa því yfir að allur heildarhöfuðstóllinn eða hluti hans, ásamt áföllnum vöxtum, og allar aðrar uppsafnaðar eða útistandandi fjárhæðir samkvæmt fjármálaskjölunum falli í gjalddaga og komi til greiðslu þegar í stað og skulu þær þá gjaldfalla og koma til greiðslu þegar í stað.
13    ALLUR SAMNINGURINN, BREYTINGAR
13.1    Breytingar
13.1.1    Aðeins er heimilt að gera breytingar á samningi þessum, bæta við hann eða falla frá honum með skriflegu samkomulagi milli samningsaðila.
13.1.2    Áhrif hvers konar breytingar, viðbótar eða eftirgjafar, í samræmi við mgr. 13.1.1, munu ná til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda.
13.2    Breytingar á samningsaðilum
    Enginn samningsaðili getur framselt réttindi sín eða skuldbindingar samkvæmt samningi þessum, flutt þau eða íþyngt öðrum með þeim.
14    TILKYNNINGAR
14.1    Skrifleg samskipti
    Öll samskipti, sem eiga að fara fram samkvæmt eða í tengslum við samning þennan, skulu fara fram skriflega á ensku og, nema annað sé tekið fram, vera í formi bréfs eða símbréfs (þau má afrita og senda með tölvupósti en slíkt telst ekki vera gild afhending). Senda skal afrit af öllum tilkynningum til lánveitanda til breska tryggingarsjóðsins og afrit af öllum tilkynningum til breska tryggingarsjóðsins til lánveitanda.
14.2    Heimilisföng
    Heimilisfang og bréfasímanúmer (og deildin eða embættismaðurinn, ef um það er að ræða, sem orðsendingunni skal beint til) vegna allra samskipta sem eiga að fara fram samkvæmt eða í tengslum við samning þennan skal vera:
     (a)    þegar lánveitandi á í hlut, HM Treasury, 1 Horse Guards Road, London SW1A 2HQ, United Kingdom og +44 (0)20 7270 5764 (b.t.: Tom Scholar),
     (b)    þegar breski tryggingarsjóðurinn á í hlut, Financial Services Compensation Scheme, 7th Floor, Lloyds Chamber, 1 Portsoken Street, London E1 8BN, United Kingdom og +44 (0)20 7892 7637 (b.t.: Loretta Minghella, aðalframkvæmdastjóra),
     (c)    þegar Tryggingarsjóður innstæðueigenda á í hlut, Borgartún 26, 3. hæð, 105 Reykjavík, Ísland, og +354 590 2606 (b.t.: framkvæmdastjóra) og
     (d)    þegar íslenska ríkið á í hlut, Fjármálaráðuneytið, Arnarhvoli, Lindargötu, 150 Reykjavík, Ísland og +354 562 8280 (b.t.: ráðuneytisstjóra),
    eða, í hverju tilviki fyrir sig, sérhvert það annað heimilisfang eða bréfasímanúmer (eða deild eða embættismaður) sem einhverjum hinna fyrrnefndu er heimilt að tilkynna um til hinna með minnst fimm virkra daga fyrirvara.
14.3    Afhending
    Tilkynningar, sem eru afhentar viðtakanda, sendar í pósti eða með símbréfi, teljast hafa verið afhentar á tilhlýðilegan hátt:
     (a)    ef þær eru skildar eftir á heimilisfangi aðilans sem á að fá þær, á þeim tíma þegar þær eru skildar eftir (eða, ef þær eru skildar eftir á degi sem er ekki virkur dagur, þá kl. 8.15 f.h. (að staðartíma) næsta virka dag),
     (b)    ef þær eru sendar með alþjóðlegum ábyrgðarpósti, á öðrum virkum degi eftir að þær eru póstlagðar, og
     (c)    ef þær eru sendar með bréfasíma, þegar bréfasíminn sem tekur við þeim hefur staðfest viðtöku (eða, ef þær eru sendar á degi sem er ekki virkur dagur, þá kl. 8.15 f.h. (að staðartíma) næsta virka dag),
    og að því tilskildu að fullnægjandi sé, þegar færa skal sönnur á að tilkynning hafi verið send samkvæmt samningi þessum eða í tengslum við hann, að sanna að tilkynningin hafi verið afhent á heimilisfangið eða að rétt heimilisfang hafi verið ritað á umslagið með tilkynningunni og að það hafi verið sent með alþjóðlegum ábyrgðarpósti (eftir atvikum).
15    ÖNNUR ÁKVÆÐI
15.1    Sjálfstæði einstakra greina (e. severability)
    Verði eitthvert ákvæði samnings þessa ólögmætt, ógilt, óskuldbindandi eða óframfylgjanlegt að einhverju leyti samkvæmt lögum skal það ekki á neinn hátt hafa áhrif á eða skerða lögmæti, gildi, bindandi áhrif og framfylgd ákvæðanna sem eftir standa.
15.2    Úrræði
    Þótt lánveitandi láti hjá líða að nýta sér eða tafir verða á því að hann nýti einhvern þann rétt eða úrræði sem hann hefur samkvæmt lögum eða samkvæmt eða í samræmi við samning þennan, mun það ekki skerða þann rétt eða úrræði eða vera eða teljast vera eftirgjöf eða frávik frá þeim rétti eða því úrræði eða útiloka að þau verði nýtt hvenær sem er síðar og engin einstök nýting þess réttar eða úrræðis eða nýting að hluta til útilokar aðra eða frekari nýtingu á þeim rétti eða úrræði eða nýtingu annars réttar eða úrræðis. Hver þau réttindi eða heimild, sem lánveitanda er heimilt að nýta sér samkvæmt samningi þessum eða ákvörðun sem lánveitanda er heimilt að taka (þ.m.t., án takmarkana, aðgerð, málefni eða atriði sem lánveitandi samþykkir, tilgreinir, ákvarðar, ákveður eða tilkynnir Tryggingarsjóði innstæðueigenda og/eða íslenska ríkinu), má lánveitandi nýta sér eða grípa til, algjörlega og án nokkurra takmarkana, að eigin geðþótta á hverjum tíma og er ekki skuldbundinn til að gefa ástæður fyrir því.
15.3    Samhljóða eintök
    Samning þennan má gera í eins mörgum samhljóða eintökum og verða vill og samningsaðilarnir geta gert hann í aðgreindum samhljóða eintökum og hefur það sömu áhrif og ef undirskriftirnar á samhljóða eintökunum væru á einu eintaki þessa samnings. Hvert samhljóða eintak telst vera frumrit af samningi þessum en saman mynda þau einn og sama gerninginn.
16    BREYTTAR AÐSTÆÐUR
16.1    Þegar breytingar verða á aðstæðum
    Þessi grein (16. gr.) á við sýni nýjasta IV. greinar úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á stöðu Íslands að skuldaþoli þess hafi hrakað til muna miðað við slíkt mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 19. nóvember 2008.
16.2    Fundur til að fjalla um breyttar aðstæður
    Lánveitandi fellst á að, ef aðstæður samkvæmt þessari grein (16. gr.) koma upp og íslenska ríkið óskar eftir því, verði efnt til fundar og staðan rædd og íhugað hvort, og þá hvernig, breyta skuli samningi þessum til að hann endurspegli þá breytingu á aðstæðum sem um er að ræða.
17    GILDANDI LÖG OG LÖGSAGA
17.1    Gildandi lög
    Ensk lög gilda um samning þennan og sérhvert það málefni, kröfu eða ágreiningsefni sem kemur upp vegna eða í tengslum við hann, hvort sem þau réttindi, sem þau byggjast á, eru innan eða utan samninga (e. contractual or non-contractual), og skulu túlkuð í samræmi við þau.
17.2    Lögsaga
17.2.1    Sérhvert það málefni, krafa eða ágreiningsefni sem kemur upp vegna eða í tengslum við samning þennan, hvort sem þau réttindi, sem þau byggjast á, eru innan eða utan samninga, þar á meðal málefni, krafa eða ágreiningsefni varðandi tilvist, lögmæti eða riftun samnings þessa („ ágreiningsefni“) skulu einungis lúta lögsögu enskra dómstóla.
17.2.2    Samningsaðilar eru sammála um að viðeigandi og hentugast sé að enskir dómstólar leysi úr ágreiningi og til samræmis við það mun enginn samningsaðili halda fram hinu gagnstæða.
17.2.3    Málsgrein þessi (mgr. 17.2) er aðeins í þágu lánveitandans. Af því leiðir að ekki er hægt að koma í veg fyrir að lánveitandi höfði dómsmál vegna ágreiningsefna fyrir öðrum dómstólum sem lögsögu hafa. Að því marki sem lög heimila getur lánveitandi höfðað mál samtímis í mörgum lögsögum.
17.3    Birting stefnu
    Með fyrirvara um hvers konar aðrar aðferðir við stefnubirtingu, sem eru heimilar samkvæmt viðeigandi lögum, tilnefnir Tryggingarsjóður innstæðueigenda og íslenska ríkið, hvort um sig, hér með, með óafturkræfum hætti, sendiráð Íslands að 2A Hans Street, SW1X 0JE London, Englandi, sem umboðsaðila sinn vegna stefnubirtinga að því er varðar hvers konar málsmeðferð fyrir enskum dómstólum í tengslum við hvers konar fjármálaskjöl og fellst á að láti umboðsaðilinn tilkynningu um slíkt hjá líða ógildi það ekki viðkomandi málsmeðferð.
18    FALLIÐ FRÁ FRIÐHELGISRÉTTINDUM
    Tryggingarsjóður innstæðueigenda og íslenska ríkið fallast, hvort um sig, almennt á að þeim sé birt hvers konar stefna í tengslum við ágreining sem upp kann að koma og að sjá fyrir hvers konar lausnum og úrræðum í því tilliti, þ.m.t. með aðför eða fullnustu í hvaða eignum sem er (óháð notum þeirra eða ætluðum notum) samkvæmt hvers konar úrskurði eða dómi. Ef Tryggingarsjóður innstæðueigenda, íslenska ríkið eða eignir þeirra eru friðhelgar eða eiga rétt á friðhelgi, í hvaða lögsögu sem er, gagnvart birtingu stefnu eða annarra gagna sem varða hvers konar ágreining, eða eru friðhelgar eða eiga rétt á friðhelgi gagnvart lögsögu, málshöfðun, dómi, fullnustu, fjárnámi (hvort heldur er fyrir dómi, við framkvæmd fullnustu eða á annan hátt) eða öðrum lögfræðilegum úrræðum, er hér með fallið frá þeim rétti með óafturkræfum hætti, að því marki sem heimilt er samkvæmt lögum viðkomandi lögsögu. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og íslenska ríkið fallast, hvort um sig, einnig með óafturkræfum hætti á að beita ekki slíkri friðhelgi fyrir sig eða eignir sínar.
Eyðublað 1         Eyðublað fyrir útgreiðslubeiðni

Frá:              Breska tryggingarsjóðnum
Til:             Umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins
Dagsett:               [Dagsetning]

Ágæti viðtakandi,

Samningur um lán að andvirði allt að £2.350.000.000,
dagsettur 5. júní 2009 („samningurinn“)

1    Vísað er til samningsins. Hugtök sem skilgreind eru í samningnum hafa sömu merkingu í þessari útgreiðslubeiðni.
2    Þetta er útgreiðslubeiðni.
3    Farið er fram á útgreiðslu fyrir hönd Tryggingarsjóðs innstæðueigenda, samkvæmt eftirfarandi skilyrðum:
     (a)    Dagsetning útgreiðslu:        [dagsetning]
     (b)    Fjárhæð (í sterlingspundum):    [fjárhæð]
4    Útgreiðsluna skal leggja inn á [tilgreina bankareikning breska tryggingarsjóðsins].
5    [Vinsamlegast yfirfærið, jafnskjótt og andvirði útgreiðslunnar hefur verið lagt inn á fyrrnefndan reikning, jafnháa fjárhæð af þeim reikningi inn á [ tilgreinið reikninginn sem innstæðueigendur hjá Landsbankanum í London munu fá trygginguna greidda út af].
Virðingarfyllst,
Breski tryggingarsjóðurinn
Nafn:
Starfsheiti:


Nafn:
Starfsheiti:


SAMNING ÞENNAN GERÐU, ÞANN DAG SEM SEGIR Í UPPHAFI SAMNINGS ÞESSA:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.        Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta á Íslandi    
Nafn:         Áslaug Árnadóttir
Starfsheiti:    stjórnarformaður    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.        Íslenska ríkið
Nafn:         Indriði H. Þorláksson
Starfsheiti:    ráðuneytisstjóri

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.        Umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins    
Nafn:         Gary Roberts
Starfsheiti:    Fulltrúi með tilhlýðilegt umboð
Fylgiskjal II.

Óopinber þýðing – Enski textinn gildir

Lánssamningur
milli
Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta á Íslandi
og
Íslands
og
Hollands,
dagsettur 5. júní 2009

Lánssamningur
SAMNINGUR ÞESSI, DAGSETTUR 5. JÚNÍ 2009, ER GERÐUR MILLI:

1)    TRYGGINGARSJÓÐS INNSTÆÐUEIGENDA OG FJÁRFESTA Á ÍSLANDI, sem er sjálfseignarstofnun sem stofnuð er samkvæmt íslenskum lögum („ Tryggingarsjóður innstæðueigenda“), sem lántakanda,
2)    ÍSLANDS („ íslenska ríkisins“) sem ábyrgðaraðila og
3)    HOLLANDS („ hollenska ríkisins“) sem lánveitanda.
BAKGRUNNUR:
A)    Tryggingarsjóður innstæðueigenda ábyrgist kröfur innstæðueigenda hjá Landsbankanum í Amsterdam á hendur Landsbankanum, samkvæmt lögum nr. 98/1999 sem innleiddu tilskipun 94/19/EB, sem nemur allt að 20.887 evrum fyrir hvern innstæðueiganda.
B)    Seðlabanki Hollands hefur greitt út tryggingar til innstæðueigenda hjá Landsbankanum í Amsterdam vegna krafna þeirra á hendur Landsbankanum og Tryggingarsjóði innstæðueigenda samkvæmt lögum nr. 98/1999 og í staðinn hafa þessir innstæðueigendur Landsbankans í Amsterdam framselt Seðlabanka Hollands þessar kröfur. Seðlabanki Hollands hefur samþykkt meirihluta umsókna um útgreiðslu tryggingar og lauk við að greiða þær út 2. júní 2009. Bankinn hefur hafnað minnihluta umsókna frá innstæðueigendum Landsbankans í Amsterdam um útgreiðslu tryggingar, annaðhvort að fullu eða að hluta til. Hluti þessara innstæðueigenda hjá Landsbankanum í Amsterdam hefur andmælt synjun Seðlabanka Hollands. Synjun Seðlabanka Hollands lýtur endurskoðun dómstóla og á þeim degi, sem þessi samningur er gerður, er óvíst að hvaða marki Seðlabanki Hollands gæti þurft að hlíta niðurstöðu dómstóla um útgreiðslu tryggingar vegna þessara krafna.
C)    Hollenska ríkið hefur forfjármagnað, og mun forfjármagna enn frekar, útgreiðslur Seðlabanka Hollands á tryggingum vegna krafna innstæðueigenda hjá Landsbankanum í Amsterdam á hendur Landsbankanum og Tryggingarsjóði innstæðueigenda samkvæmt lögum nr. 98/1999 og tengdan kostnað. Samningsaðilar hafa orðið ásáttir um að Tryggingarsjóður innstæðueigenda endurgreiði hollenska ríkinu þá forfjármögnun. Það er vilji samningsaðila að sú fjárhæð sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda endurgreiðir hollenska ríkinu verði ákvörðuð endanlega í þessum samningi.
SÁTT HEFUR NÁÐST UM EFTIRFARANDI:
1    SKILGREININGAR OG TÚLKUN
1.1    Skilgreiningar
    Í samningi þessum hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér segir:
     „Lög nr. 98/1999“: íslensk lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, miðað við 11. október 2008.
     „Ársdagur samningsins“ (e. anniversary date): sérhver ársdagur undirritunardags samningsins.
     „Virkur dagur“: hver sá dagur (annar en laugardagur eða sunnudagur) þegar bankar eru opnir fyrir almenn viðskipti í Reykjavík og Amsterdam.
     „Breyting á íslenskum lögum“: gildistaka laga, reglugerða eða stjórnvaldsfyrirmæla eða hvers konar breyting á lögum, reglugerðum eða stjórnvaldsfyrirmælum, í öllum tilvikum á Íslandi, að undanskildum hverjum þeim lögum, reglugerðum eða stjórnvaldsfyrirmælum, eða breytingu á þeim, sem er krafist að séu sett eða tekin upp samkvæmt reglugerð eða tilskipun Evrópubandalagsins (hvort heldur er beint eða á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið).
     „Tilskipun 94/19/EB“: tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EB frá 30. maí 1994 um innlánatryggingakerfi, miðað við 11. október 2008 (nema annað sé tekið fram).
     „Seðlabanki Hollands“: De Nederlandsche Bank N.V. (DNB).
     „Erlendar lánaskuldbindingar“: hvers konar lán, skuldir eða aðrar skuldbindingar sem þegar hefur verið stofnað til eða kann að verða stofnað til í framtíðinni, sem:
     a)    skal greiða aðilum búsettum utan Íslands eða, ef um er að ræða skuldabréf, skuldaskjal, skuldaviðurkenningar, verðbréfainneign eða önnur verðbréf, þar sem a.m.k. 25 hundraðshlutar af heildarhöfuðstól eru boðin eða voru upphaflega boðin aðilum búsettum utan Íslands, eða
     b)    eru tilgreindar í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum eða, ef þær eru tilgreindar í íslenskum krónum, eru samkvæmt skilmálum þar sem greiðsla höfuðstóls, aukaframlags (e. premium) (ef um það er að ræða) eða vaxta getur verið eða skal vera í öðrum gjaldmiðli eða miðast við annan gjaldmiðil,
    þ.m.t., til að taka af allan vafa:
         i.    hvers konar lántökur, skuldir eða aðrar skuldbindingar gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og
         ii.    hvers konar lántökur, skuldir eða aðrar skuldbindingar samkvæmt lánssamningnum við Bretland.
     „Fjármálaskjöl“: þessi samningur og sérhver annar samningur eða skjal sem samningsaðilar tilgreina sem fjármálaskjal.
    „ Umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins“: umboðsmenn fjármálaráðuneytis Hins sameinaða konungsríkis Stóra-Bretlands og Norður-Írlands.
     „Landsbanki“: Landsbanki Íslands hf., fjármálafyrirtæki sem stofnað er samkvæmt íslenskum lögum.
     „Landsbankinn í Amsterdam“: útibú Landsbankans í Amsterdam.
     „Innstæðueigandi hjá Landsbankanum í Amsterdam“: aðili sem hefur lagt fjármuni inn á innlánsreikning eða á með öðrum hætti innstæðu hjá Landsbankanum í Amsterdam og á samsvarandi kröfu á hendur Landsbankanum sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda hefur ábyrgst samkvæmt lögum nr. 98/1999.
     „Innstæðueigandi hjá Landsbankanum“: aðili sem hefur lagt fjármuni inn á innlánsreikning eða á með öðrum hætti innstæðu hjá Landsbankanum og á samsvarandi kröfu á hendur Landsbankanum sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda hefur ábyrgst samkvæmt lögum nr. 98/1999 (þ.m.t., til að taka af allan vafa, sérhver innstæðueigandi hjá Landsbankanum í Amsterdam).
     „Lán“: lánið, sem um getur í mgr. 2.2 ( Lánið), eða sú fjárhæð höfuðstóls sem eftir stendur á hverjum tíma af því láni.
    „ Samningsaðilar“: Tryggingarsjóður innstæðueigenda, íslenska ríkið og hollenska ríkið.
     „Afborgun“: með fyrirvara um mgr. 4.3.3 í mgr. 4.3 ( Valfrjáls innborgun), fjárhæð sem er jöfn höfuðstól lánsins á sjöunda ársdegi samningsins, deilt með 32.
     „Vanefndatilvik“: hver sá atburður eða aðstæður sem tilgreindar eru sem slíkar í 11. gr. ( Vanefndatilvik).
     „Lánssamningur við Bretland“: lánssamningur sem gerður hefur verið eða verður gerður milli Tryggingarsjóðs innstæðueigenda, íslenska ríkisins og umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins.
1.2    Hagur þriðju aðila
1.2.1    Aðrir aðilar en samningsaðilar skulu ekki, nema annað sé tekið fram, hafa rétt samkvæmt lögum um samningsréttindi þriðju aðila frá 1999 (e. Contracts (Rights of Third Parties) Act 1999) til að framfylgja neinum skilmála eða skilyrði þessa samnings.
1.2.2    Seðlabanki Hollands nýtur hags af (e. has the benefit of) og getur framfylgt hverjum þeim réttindum, sem honum eru veitt eða hverjum þeim skilmála eða skilyrði sem lýst er yfir að hann njóti hags af í þessum samningi.
1.2.3    Þrátt fyrir ákvæði mgr. 1.2.2 er ekkert í þessum samningi sem leggur skyldur á aðila sem á ekki aðild að þessum samningi.
1.3    Skýringar
1.3.1    Í þessum samningi skal litið svo á, nema annað leiði af samhenginu, að:
     a)    vísanir til aðila taki einnig til síðari handhafa réttinda hans, lögmætra framsalshafa og lögmætra afsalsþega,
     b)    vísanir til hvers konar skjals (eða ákvæðis í því) séu vísun til þess skjals (eða ákvæðis í því) eins og því hefur á hverjum tíma verið breytt (e. amend), bætt við það (e. supplement), frávik gert frá því (e. vary), gerð aðilaskipti kröfuhafa á því (e. novate), það framselt öðrum (e. assign) eða því skipt út (e. replace) (í heild eða að hluta) og
     c)    vísanir til hvers konar reglna (e. statute) eða annarra lagaákvæða taki einnig til breytinga á þeim, endurútgáfu (e. re-enactment) þeirra eða þess sem kann að koma í þeirra stað (e. substitution).
1.3.2    Ef fjárhæð, sem greiða ber samkvæmt eða í tengslum við fjármálaskjal, fellur í gjalddaga á degi sem er ekki virkur dagur, eða ef tímabili, sem útreikningur á slíkri fjárhæð er miðaður við, lýkur á degi sem er ekki virkur dagur skal fjárhæðin, fyrir tilstilli þessarar málsgreinar (mgr. 1.3.2), þess í stað greiðast eða tímabilinu ljúka á næsta virka degi nema sá virki dagur falli innan næsta almanaksmánaðar en í því tilviki skal fjárhæðin í staðinn greiðast eða tímabilinu ljúka á næsta virka degi fyrir þann dag.
2    LÁNIÐ
2.1    Endurgreiðsla
2.1.1    Á grundvelli:
     a)    framsals Seðlabanka Hollands á kröfum á hendur Landsbankanum sem innstæðueigendur hjá Landsbankanum í Amsterdam höfðu áður framselt Seðlabanka Hollands í tengslum við útgreiðslu hans á tryggingum vegna þeirra krafna, að fjárhæð allt að 20.887 evrur í hverju tilviki, eins og um getur í c-lið í mgr. 3.1.1 í 3. gr. ( Gildistaka),
     b)    útgreiðslna Seðlabanka Hollands á tryggingum til innstæðueigenda hjá Landsbankanum í Amsterdam vegna krafna þeirra á hendur Landsbankanum og Tryggingarsjóði innstæðueigenda samkvæmt lögum nr. 98/1999 eins og um getur í bakgrunnslið B og
     c)    forfjármögnunar hollenska ríkisins á útgreiðslum Seðlabanka Hollands á tryggingum vegna krafna innstæðueigenda hjá Landsbankanum í Amsterdam eins og um getur í bakgrunnslið C,
    skuldbindur Tryggingarsjóður innstæðueigenda sig til að endurgreiða hollenska ríkinu þá forfjármögnun.
2.1.2    Fjárhæð endurgreiðslunnar nemur 1.329.242.850 evrum (einum milljarði þrjú hundruð tuttugu og níu milljónum tvö hundruð fjörtíu og tvö þúsund átta hundruð og fimmtíu evrum).
2.1.3    Engar frekari kröfur
     a)    Hollenska ríkið skal ekki eiga neina kröfu (og afsalar sér óafturkallanlega kröfum sem það hefði átt ef ekki væri fyrir þessa málsgrein) á hendur Tryggingarsjóði innstæðueigenda eða íslenska ríkinu í tengslum við útgreiðslur Seðlabanka Hollands á tryggingum vegna krafna innstæðueigenda hjá Landsbankanum í Amsterdam, eins og um getur í bakgrunnslið B hér að framan, aðrar en kröfur hollenska ríkisins samkvæmt þessum samningi.
     b)    Hvorki Tryggingarsjóður innstæðueigenda né íslenska ríkið munu gera kröfu (og afsala sér óafturkallanlega kröfum sem þau hefðu átt ef ekki væri fyrir þessa málsgrein) eða hefja málsókn, þ.m.t. skaðabótamál gegn hollenska ríkinu eða Seðlabanka Hollands, í tengslum við:
         i.    útgreiðslur Seðlabanka Hollands á tryggingum vegna krafna innstæðueigenda hjá Landsbankanum í Amsterdam, eins og um getur í bakgrunnslið B hér að framan (þ.m.t. synjanir á slíkum kröfum), eða
         ii.    hvers konar kröfu innstæðueiganda hjá Landsbankanum í Amsterdam sem Seðlabanki Hollands hefur ekki greitt út tryggingu fyrir (hver sem ástæðan kann að vera).
     c)    Seðlabanki Hollands nýtur hags af og getur framfylgt b-lið hér að framan.
2.2    Lánið
    Endurgreiðslan, sem um getur í mgr. 2.1.2 í mgr. 2.1 (Endurgreiðslur), skal vera útistandandi sem lán frá hollenska ríkinu til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda að fjárhæð (með fyrirvara um mgr. 5.2 ( Greiðsla vaxta)) 1.329.242.850 evrur (einn milljarður þrjú hundruð tuttugu og níu milljónir tvö hundruð fjörtíu og tvö þúsund átta hundruð og fimmtíu evrur) í samræmi við og samkvæmt þessum samningi.
3    GILDISTAKA
3.1.1    Samningur þessi öðlast gildi þegar:
     a)    Tryggingarsjóður innstæðueigenda hefur afhent hollenska ríkinu, á því formi og með þeim efnistökum sem það telur fullnægjandi, eftirfarandi skjöl (á ensku eða, ef þau eru ekki á ensku, skal þeim fylgja löggilt þýðing á ensku):
         i.    frumrit þessa samnings, dagsett og undirritað með viðeigandi hætti af hálfu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og íslenska ríkisins,
         ii.    samþykkt stjórnar eða aðra viðeigandi heimild Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til að framkvæma fyrir sitt leyti þennan samning og uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt honum og
         iii.    lögfræðiálit lögmannsstofunnar Lex, sem eru lögfræðilegir ráðgjafar Tryggingarsjóðs innstæðueiganda að því er varðar íslensk lög, og lögfræðiálit ríkislögmanns, meðal annars að því er varðar hæfi og tilhlýðilegar heimildir Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og íslenska ríkisins, hvors um sig, eftir því sem við á, og gilda undirritun hvers fjármálaskjals sem þau eiga aðild að,
     b)    Alþingi hefur samþykkt að íslenska ríkið taki á sig ábyrgð samkvæmt þessum samningi og samþykkt hver þau lög önnur eða heimildir sem þarf til að tryggja að skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og íslenska ríkisins samkvæmt þessum samningi séu lögmætar, gildar, bindandi og framfylgjanlegar (og skal íslenska ríkið afhenda hollenska ríkinu eintak af sérhverjum slíkum lögum eða heimildum þegar þau hafa verið leidd í lög eða samþykkt) og
     c)    Tryggingarsjóður innstæðueigenda og Seðlabanki Hollands hafa náð samkomulagi um framsal krafna sem samrýmist mgr. 3.1.2.
3.1.2    Í samkomulaginu um framsal krafna, sem um getur í mgr. 3.1.1, skal kveðið á um, með þeim fyrirvara að þessi samningur öðlist gildi:
     a)    að Seðlabanki Hollands framselji Tryggingarsjóði innstæðueigenda, vegna þeirrar skuldbindingar Tryggingarsjóðsins að endurgreiða Hollandi, eins og fram kemur í mgr. 2.1 ( Endurgreiðsla), allar kröfur innstæðueigenda hjá Landsbankanum í Amsterdam á hendur Landsbankanum sem framseldar höfðu verið Seðlabanka Hollands í tengslum við útgreiðslu tryggingar af hans hálfu vegna þessara krafna, í hverju tilviki allt að 20.887 evrur,
     b)     jafnréttháar kröfur
         i.    að svo miklu leyti sem Seðlabanki Hollands heldur eftir, í kjölfar framsalsins sem um getur í a-lið hér að framan, einhverjum hluta kröfu (vegna þess að krafan nam hærri heildarfjárhæð en 20.887 evrum) skal sá hluti kröfunnar, sem hefur verið framseldur til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda, metinn, eftir ítrustu heimild gildandi laga, jafngildur í öllu tilliti þeim hluta kröfunnar sem Seðlabanki Hollands heldur eftir og
         ii.    ef annaðhvort Tryggingarsjóður innstæðueigenda eða Seðlabanki Hollands endurheimtir, hver sem ástæðan kann að vera (þ.m.t., án takmarkana, ef Tryggingarsjóði innstæðueigenda er veitt hvers konar forgangsstaða samkvæmt íslenskum lögum), í kjölfar framsals á hluta tiltekinnar kröfu til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda, hærra hlutfall vegna þeirrar kröfu en hinn aðilinn skal Tryggingarsjóður innstæðueigenda eða Seðlabanki Hollands (eftir því sem við á) greiða Seðlabanka Hollands eða Tryggingarsjóði innstæðueigenda, eftir því sem við á, jöfnunargreiðslur eins fljótt og því verður við komið og eftir því sem þörf er á til að tryggja að hvor aðili um sig, Tryggingarsjóður innstæðueigenda og Seðlabanki Hollands, endurheimti sama hlutfall vegna þessarar kröfu og hinn aðilinn, og
     c)    að Seðlabanki Hollands samþykki að hann skuli ekki eiga neina kröfu (og afsalar sér óafturkallanlega kröfum sem hann hefði átt ef ekki væri fyrir það samkomulag) á hendur Tryggingarsjóði innstæðueigenda eða íslenska ríkinu í tengslum við útgreiðslur Seðlabanka Hollands á tryggingum vegna krafna innstæðueigenda hjá Landsbankanum í Amsterdam, eins og um getur í bakgrunnslið B hér að framan, og að bæði Tryggingarsjóður innstæðueigenda og íslenska ríkið njóti hags og sé heimilt að framfylgja því samkomulagi.
3.1.3    Ef ekki hefur verið gengið frá þeim aðgerðum, sem um getur í mgr. 3.1.1, fyrir lok sumarþings 2009 er hollenska ríkinu heimilt að rifta þessum samningi með því að senda Tryggingarsjóði innstæðueigenda tilkynningu um það og afrit til íslenska ríkisins.
4    ENDURGREIÐSLA
4.1    Endurgreiðsla með fjármagni úr Landsbankanum
4.1.1    Fái Tryggingarsjóður innstæðueigenda einhverja fjárhæð vegna krafna innstæðueigenda Landsbankans eða krafna sem voru áður í eigu innstæðueigenda Landsbankans eða á annan hátt í tengslum við gjaldþrot Landsbankans skal hann greiða þá fjárhæð, innan fimm virkra daga, til hollenska ríkisins og umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins í réttum hlutföllum við eftirstandandi höfuðstól á þeim tíma samkvæmt þessum samningi og lánssamningnum við Bretland (með fyrirvara um námundun).
4.1.2    Sérhver endurgreiðsla af láninu samkvæmt þessari málsgrein (mgr. 4.1) sem er innt af hendi eftir sjöunda ársdag samningsins:
     a)    tekur einnig til allra áfallinna vaxta af láninu og
     b)    lækkar, með fyrirvara um mgr. 8.3 ( Hlutagreiðslur), höfuðstól lánsins sem nemur fjárhæð endurgreiðslunnar og er nýtt til að greiða hlutfallslega inn á hverja afborgun sem eftir stendur.
4.2    Afborgunaráætlun
4.2.1    Eftir sjöunda ársdag samningsins skal Tryggingarsjóður innstæðueigenda byrja að endurgreiða það sem þá stendur eftir af höfuðstóli lánsins í 32 afborgunum á ársfjórðungsfresti.
4.2.2    Tryggingarsjóður innstæðueigenda greiðir afborgun á hverjum ársdegi samningsins og þegar þrír, sex og níu mánuðir eru liðnir frá ársdegi samningsins og skal fyrsta afborgun koma til greiðslu þremur mánuðum eftir sjöunda ársdag samningsins.
4.3    Valfrjáls innborgun
4.3.1    Með fyrirvara um mgr. 4.3.2 er Tryggingarsjóði innstæðueigenda heimilt hvenær sem er, ef hann veitir hollenska ríkinu skriflegan fyrirvara sem er a.m.k. þrír virkir dagar, að ákveða að greiða lánið fyrir fram, að fullu eða að hluta (en greiða skal a.m.k. 1.000.000 evra (eina milljón evra) ef lánið er greitt að hluta).
4.3.2    Á sama tíma og Tryggingarsjóður innstæðueigenda greiðir hvers konar valfrjálsa innborgun samkvæmt mgr. 4.3.1 skal hann greiða valfrjálsa, hlutfallslega innborgun inn á þann höfuðstól sem eftir stendur af lánssamningi við Bretland þannig að sama hlutfall sé greitt inn á höfuðstólinn sem eftir stendur samkvæmt þessum samningi og samkvæmt lánssamningi við Bretland (með fyrirvara um námundun).
4.3.3    Valfrjáls innborgun á lánið samkvæmt þessari málsgrein (mgr. 4.3):
     a)    tekur einnig til áfallinna vaxta af láninu en vera án endurgjalds (e. penalty) og
     b)    lækkar, með fyrirvara um mgr. 8.3 ( Hlutagreiðslur), höfuðstól lánsins sem nemur fjárhæð innborgunarinnar og er nýtt til að greiða hlutfallslega inn á hverja afborgun sem eftir stendur.
5    VEXTIR
5.1    Vextir
5.1.1    Lánið ber 5,55 prósent vexti á ári.
5.1.2    Vextir falla á höfuðstól lánsins eins og hann stendur hverju sinni frá 1. janúar 2009.
5.2    Vaxtagreiðslur
5.2.1    Fram að sjöunda ársdegi samningsins (og að honum meðtöldum) skulu áfallnir vextir af láninu leggjast við lánið (og verða þannig hluti af höfuðstól þess) á hverjum ársdegi samningsins.
5.2.2    Eftir sjöunda ársdag samningsins greiðir Tryggingarsjóður innstæðueigenda áfallna vexti af láninu á hverjum ársdegi samningsins og þegar þrír, sex og níu mánuðir eru liðnir frá ársdegi samningsins.
5.3    Vextir vegna vanskila
    Greiði Tryggingarsjóður innstæðueigenda ekki á gjalddaga einhverja þá fjárhæð sem honum ber að greiða samkvæmt þessum samningi reiknast vextir af gjaldfallinni fjárhæð frá gjalddaga fram að greiðsludegi samkvæmt því vaxtastigi sem tilgreint er í mgr. 5.1 ( Vextir), að viðbættum 0,30 prósentustigum á ári.
5.4    Talning daga
    Vextir, sem reiknast af láninu samkvæmt þessum samningi, falla á lánið daglega og eru reiknaðir á grundvelli raunverulegs fjölda liðinna daga og telst árið vera 365 dagar.
6    ÁBYRGÐ OG SKAÐLEYSI
6.1    Gildistaka
    Ákvæði þessarar greinar (6. gr.) um ábyrgð og skaðleysi öðlast gildi á sjöunda ársdegi samningsins.
6.2    Ábyrgð og skaðleysi
    Íslenska ríkið:
6.2.1    ábyrgist óafturkallanlega og skilyrðislaust gagnvart hollenska ríkinu að Tryggingarsjóður innstæðueigenda muni standa á tilhlýðilegan hátt og á réttum tíma við allar skuldbindingar sínar samkvæmt þeim fjármálaskjölum sem hann er aðili að,
6.2.2    skuldbindur sig óafturkallanlega og skilyrðislaust til að greiða hollenska ríkinu, þegar krafa er gerð um slíkt, þær fjárhæðir sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda greiðir ekki á gjalddaga samkvæmt eða í tengslum við fjármálaskjöl sem hann á aðild að, eins og það væri frumlántakandi (e. principal obligor) og
6.2.3    skuldbindur sig óafturkallanlega og skilyrðislaust til þess að halda hollenska ríkinu skaðlausu, þegar krafa er gerð um slíkt, vegna alls kostnaðar, taps eða skaða sem hollenska ríkið kann að verða fyrir ef einhver af þeim skuldbindingum, sem íslenska ríkið ábyrgist samkvæmt fjármálaskjölunum, er eða verður óframfylgjanleg, ógild eða ólögmæt. Fjárhæðin, sem kostnaðurinn, tapið eða skaðinn nemur, skal vera jafnhá þeirri fjárhæð sem hollenska ríkið hefði ella átt rétt á að endurheimta.
6.3    Samfelld ábyrgð og skaðleysi
    Sú ábyrgð og skaðleysi, sem þessi grein (6. gr.), felur í sér, er samfelld og gildir þar til þær greiðslur, sem Tryggingarsjóði innstæðueigenda ber að inna af hendi samkvæmt fjármálaskjölunum, hafa verið greiddar að fullu, án tillits til hvers konar innáborgana eða niðurfellingar (e. discharge) í heild eða að hluta. Slík ábyrgð og skaðleysi fellur fyrst úr gildi (með fyrirvara um mgr. 6.4) þegar allar fjárhæðir, sem Tryggingarsjóði innstæðueigenda ber að greiða samkvæmt fjármálaskjölunum, hafa verið greiddar til hollenska ríkisins að fullu og öllu og eru komnar í vörslu þess.
6.4    Endurnýjun kröfu
    Ef einhverri greiðslu af hendi Tryggingarsjóðs innstæðueigenda eða íslenska ríkisins eða einhverri lækkun (e. discharge) af hendi hollenska ríkisins í þágu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda eða íslenska ríkisins er rift eða hún færð niður:
6.4.1    skal ábyrgð Tryggingarsjóðs innstæðueigenda eða íslenska ríkisins (eftir því sem við á) haldast líkt og greiðslan, lækkunin, riftunin eða niðurfærslan hefði ekki komið til og
6.4.2    á hollenska ríkið rétt á að endurheimta virði eða fjárhæð slíkrar greiðslu eða lækkunar af hendi Tryggingarsjóðs innstæðueigenda eða íslenska ríkisins (eftir því sem við á) líkt og greiðslan, lækkunin, riftunin eða niðurfærslan hefði ekki komið til.
6.5    Fallið frá vörnum
    Aðgerðir, aðgerðarleysi, málefni eða atriði sem myndu, ef ekki væri fyrir þessa málsgrein (mgr. 6.5), draga úr skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt þessari grein (6. gr.), leysa það undan þeim eða hafa áhrif á þær, hafa ekki áhrif á skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt þessari grein (6. gr.), þ.m.t. (án takmarkana og hvort sem íslenska ríkið eða öðrum samningsaðila er um það kunnugt eða ekki):
6.5.1    hvers konar frestur, eftirgjöf (e. waiver) eða samþykki sem veitt er eða nauðasamningur sem gerður er, við Tryggingarsjóð innstæðueigenda, íslenska ríkið eða annan aðila,
6.5.2    tilslökun Tryggingarsjóðs innstæðueigenda, íslenska ríkisins eða annars aðila samkvæmt skilmálum nauðasamnings eða samkomulags við kröfuhafa einhvers þeirra,
6.5.3    þótt gripið sé til hvers konar réttinda gagnvart Tryggingarsjóði innstæðueigenda, íslenska ríkinu eða öðrum aðila eða tryggingar í eignum þeirra, að mismunur sé á þeim réttindum eða tryggingu, að þeim sé stofnað í hættu, að skipst sé á þeim, þau endurnýjuð, að leyst sé undan þeim eða að neitað sé eða vanrækt að veita fyrrgreindum réttindum eða tryggingu vernd, taka þau upp eða framfylgja þeim, eða að ekki sé farið að hvers konar formsatriðum eða annarri kröfu að því er varðar hvers konar gerning eða að ekki takist að innleysa fullt virði hvers konar tryggingar,
6.5.4    vanhæfi eða skortur á valdheimildum, umboði eða réttarstöðu lögaðila eða niðurlagning eða breyting á stöðu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda, íslenska ríkisins eða annars aðila,
6.5.5    hvers konar breyting, aðilaskipti að kröfuréttindum (e. novation), viðbót við, rýmkun á, endurtekning (e. restatement) (óháð því hversu áríðandi það er eða þótt það sé meira íþyngjandi) eða skipti á einhverju fjármálaskjali, þ.m.t. (án takmarkana) hvers konar breyting á markmiði fjármálaskjalsins, rýmkun þess eða hækkun á láninu eða að fjármálaskjal bætist við,
6.5.6    það að ekki reynist unnt að framfylgja hvers konar skuldbindingum aðila samkvæmt fjármálaskjali eða öðru skjali, þær reynast ólögmætar eða ógildar, eða
6.5.7    gjaldþrot, endurskipulagning eða svipuð málsmeðferð gagnvart Landsbanka, Tryggingarsjóði innstæðueigenda eða öðrum aðila.
6.6    Milliliðalaus úrræði
    Íslenska ríkið fellur hér með, með óafturkræfum hætti, frá hverjum þeim rétti sem það kann að hafa til að fara fram á að hollenska ríkið grípi áður til aðgerða gegn öðrum aðila eða framfylgi öðrum réttindum eða gangi að tryggingu eða krefjist greiðslu kröfu gagnvart öðrum aðila áður en það gerir kröfu á íslenska ríkið samkvæmt þessari grein (6. gr.). Þessi eftirgjöf réttar gildir þrátt fyrir öll lög eða ákvæði fjármálaskjals sem kunna að kveða á um annað.
6.7    Frestun réttinda íslenska ríkisins
    Þar til allar fjárhæðir, sem Tryggingarsjóði innstæðueigenda eða íslenska ríkinu ber að greiða samkvæmt fjármálaskjölunum eða í tengslum við þau, hafa verið greiddar að fullu á óafturkræfan hátt mun íslenska ríkið ekki, nema hollenska ríkið gefi fyrirmæli um annað, nýta sér rétt til skaðabóta, kröfuhafaskipta eða samábyrgðar sem það kann að hafa vegna þess að það hefur staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt fjármálaskjölunum (og fái íslenska ríkið greiðslu eða úthlutun í tengslum við slíkan rétt mun það tafarlaust afhenda hollenska ríkinu slíka greiðslu eða úthlutun).
6.8    Viðbótartrygging
    Ábyrgðin og skaðleysið, sem kveðið er á um í þessari grein (6. gr.), kemur til viðbótar við, og er ekki skert af, hvers konar annarri ábyrgð, skaðleysi eða tryggingu, sem hollenska ríkið eða annar aðili nýtur nú eða öðlast síðar.
6.9    Meðferð á kröfuhöfum Landsbankans
    Íslenska ríkið mun ekki grípa til neinna aðgerða sem gætu leitt til þess að kröfuhafar (eða einhver hópur þeirra) Landsbankans (þ.m.t., til að taka af allan vafa, kröfuhafar (eða einhver hópur þeirra) Landsbankans í Amsterdam) hljóti meðferð sem andstæð er almennt viðurkenndum, alþjóðlegum eða evrópskum meginreglum um meðferð kröfuhafa í alþjóðlegri slitameðferð.
7    SAMBÆRILEG MEÐFERÐ OG JÖFN MEÐFERÐ
7.1    Sambærileg meðferð
    Geri Tryggingarsjóður innstæðueigenda eða íslenska ríkið einhvers konar samkomulag eða samning um fjármögnun (annan en lánssamninginn við Bretland) við einhvers konar fjármögnunaraðila (þ.m.t., án takmarkana, ríki, alþjóðastofnun eða einkaaðila) í þeim tilgangi að fjármagna kröfur innstæðueigenda hjá íslenskum banka og sá fjármögnunaraðili nýtur, samkvæmt viðkomandi samkomulagi eða samningi um fjármögnun (skoðað í heild sinni), almennt hagstæðari meðferðar en hollenska ríkið samkvæmt þessum samningi eða nýtur einhvers konar tryggingar, munu Tryggingarsjóður innstæðueigenda og íslenska ríkið láta hollenska ríkið njóta sömu hagstæðu meðferðar eða svipaðrar tryggingar (og munu Tryggingarsjóðurinn og íslenska ríkið láta skjalfesta það á nauðsynlegan eða æskilegan hátt).
7.2    Jöfn meðferð
7.2.1    Í þessari málsgrein (mgr. 7.2) er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     „Umframgreiðsla“: hvers konar greiðsla umfram 20.887 evrur vegna kröfu eða krafna innstæðueiganda hjá Landsbankanum (að frátöldum, til að taka af allan vafa, fyrrum innstæðueiganda hjá Landsbankanum sem varð innstæðueigandi hjá NBI hf.), annars en innstæðueiganda hjá Landsbankanum í Amsterdam.
     „Annar tryggingarsjóður“: hvers konar innlánatryggingakerfi sem komið er á fót og er opinberlega viðurkennt á Íslandi samkvæmt tilskipun 94/19/EB (þ.m.t. samkvæmt hvers konar breytingu á henni, nýrri lagasetningu sem byggir á henni eða lögum sem koma í hennar stað), annað en Tryggingarsjóður innstæðueigenda.
7.2.3    Ef:
     a)    Tryggingarsjóður innstæðueigenda, annar tryggingarsjóður eða íslenska ríkið greiðir umframgreiðslu eða
     b)    Tryggingarsjóður innstæðueigenda eða annar tryggingarsjóður hefur yfir nægilegu fé að ráða til að greiða umframgreiðslu,
    mun Tryggingarsjóður innstæðueigenda greiða (eða sjá til þess að viðkomandi annar tryggingarsjóður greiði) fjárhæð, sem er jafnhá umframgreiðslunni, til hvers og eins af innstæðueigendum hjá Landsbankanum í Amsterdam, þó að því tilskildu að hafi hollenska ríkið eða Seðlabanki Hollands greitt innstæðueiganda hjá Landsbankanum í Amsterdam, vegna kröfu þessara innstæðueigenda hjá Landsbankanum í Amsterdam samkvæmt lögum nr. 98/1999, fjárhæð sem er umfram 20.887 evrur á kröfu muni greiðslan samkvæmt þessari málsgrein (mgr. 7.2) renna til hollenska ríkisins eða Seðlabanka Hollands eftir því sem við á.
8    GREIÐSLUR OG SKULDAJÖFNUN
8.1    Greiðslur
    Sérhver greiðsla Tryggingarsjóðs innstæðueigenda eða íslenska ríkisins samkvæmt þessum samningi skal greidd á gjalddaga, og nema þeirri upphæð sem er á gjalddaga þann dag, inn á bankareikning á nafni hollenska ríkisins nr. 600113019 (BIC: MIFINL2G; IBAN: NL10FLOR0600113019) hjá Seðlabanka Hollands.
8.2    Gjaldmiðill
    Tryggingarsjóður innstæðueigenda og íslenska ríkið skulu inna af hendi hverja greiðslu, sem þeim ber að greiða samkvæmt þessum samningi, í evrum og skulu þær vera frjálsar til ráðstöfunar og til millifærslu.
8.3    Hlutagreiðslur
    Ef greiðsla frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda eða íslenska ríkinu til hollenska ríkisins nægir ekki til að unnt sé að mæta öllum greiðslum, sem eru á þeim tíma fallnar í gjalddaga samkvæmt þessum samningi, af hálfu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda eða íslenska ríkisins, eftir því sem við á, til hollenska ríkisins rennur sú greiðsla:
8.3.1    í fyrsta lagi til greiðslu kostnaðar og útgjalda sem hollenska ríkið hefur stofnað til samkvæmt þessum samningi,
8.3.2    í öðru lagi til greiðslu á þeim hluta lánsins sem er kominn á gjalddaga og
8.3.3    í þriðja lagi til greiðslu áfallinna vaxta sem eru komnir á gjalddaga samkvæmt þessum samningi en eru ógreiddir.
8.4    Skuldajöfnun og frádráttur
8.4.1    Allar greiðslur, sem Tryggingarsjóði innstæðueigenda eða íslenska ríkinu ber að greiða samkvæmt þessum samningi, skulu reiknaðar út og inntar af hendi:
     a)    án, og lausar undan frádrætti vegna, hvers konar takmarkana, gagnkrafna eða skuldajöfnunar, og
     b)    án nokkurs frádráttar eða án þess að einhverju sé haldið eftir vegna skatta, álagningar, álaga (e. impost), tolla eða annarra gjalda af svipuðu tagi nema þess sé krafist að lögum.
8.4.2    Sé Tryggingarsjóði innstæðueigenda eða íslenska ríkinu skylt að beita frádrætti eða halda einhverju eftir, eins og um getur í b-lið mgr. 8.4.1, hækkar fjárhæð greiðslunnar sem þeim ber að greiða þannig að fjárhæðin verður, eftir að dregið hefur verið frá eða haldið eftir, jafnhá greiðslunni sem bæri að greiða ef enginn frádráttur hefði átt sér stað eða engu hefði verið haldið eftir.
9    SKAÐLEYSI
    Tryggingarsjóður innstæðueigenda skal, innan tíu virkra daga frá því að krafa er gerð um það, sjá til þess að hollenska ríkinu sé haldið skaðlausu vegna kostnaðar, taps eða skaða sem það hefur orðið fyrir í tengslum við eða af ástæðum er varða:
9.1.1    umbreytingu á einni mynt yfir í aðra samkvæmt fjármálaskjölunum,
9.1.2    vanefndatilvik eða það þegar Tryggingarsjóður innstæðueigenda eða íslenska ríkið stendur ekki við einhverjar af skuldbindingum sínum samkvæmt fjármálaskjölunum eða
9.1.3    viðhald réttinda, veitingu verndar réttinda eða framfylgd réttinda hollenska ríkisins samkvæmt fjármálaskjölunum.
10    SÉRSTAKAR YFIRLÝSINGAR
    Tryggingarsjóður innstæðueigenda lýsir því yfir og ábyrgist það sem fram kemur í þessari grein (10. gr.) gagnvart hollenska ríkinu á þeim degi sem samningur þessi er gerður:
10.1.1    hann er sjálfseignarstofnun, sem er tilhlýðilega stofnuð og telst gild að íslenskum lögum, hann getur átt eignir og starfað á þann hátt sem hann gerir, og
10.1.2    skuldbindingarnar, sem lýst er yfir, í hverju því fjármálaskjali sem hann er aðili að, að hann takist á hendur, eru eða verða, með fyrirvara um hvers konar almennar meginreglur laga, sem takmarka skuldbindingar hans og sérstaklega er vísað til í lögfræðiálitinu, sem um getur í 3. gr. ( Gildistaka), lögmætar, gildar, bindandi og framfylgjanlegar.
11    VANEFNDATILVIK
11.1    Vanefndatilvik
    Sérhvert eftirfarandi atriða telst vera vanefndatilvik:
11.1.1     Greiðslufall: Tryggingarsjóður innstæðueigenda eða íslenska ríkið stendur ekki við greiðslu á gjalddaga á þeirri fjárhæð, sem greiða ber samkvæmt fjármálaskjölunum, á þeim stað og í þeim gjaldmiðli sem greiða ber, nema greiðslufallið megi að öllu leyti rekja til stjórnsýslulegrar eða tæknilegrar yfirsjónar og að fjárhæðin greiðist eigi síðar en fimm virkum dögum eftir gjalddaga.
11.1.2     Vanefnd á öðrum skuldbindingum: Tryggingarsjóður innstæðueigenda eða íslenska ríkið, hvort um sig, stendur ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt fjármálaskjölunum og ræður ekki, þótt það sé hægt, fullnægjandi bót á þeim vanefndum að mati hollenska ríkisins innan tíu virkra daga frá því að þær verða.
11.1.3     Riftun greiðslna: Einhverri greiðslu, sem reidd hefur verið af hendi af hálfu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda eða íslenska ríkisins í samræmi við fjármálaskjölin, er rift, henni vikið til hliðar, hún ógilt eða lækkuð.
11.1.4     Ósannar yfirlýsingar: Hvers konar yfirlýsing, sem er sett fram eða talin er hafa verið sett fram í fjármálaskjali eða í skjali sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda eða íslenska ríkið hafa afhent í tengslum við fjármálaskjal, er eða reynist hafa verið röng eða villandi í veigamiklum atriðum þegar hún var sett fram eða talin hafa verið sett fram.
11.1.5     Vanefnd á öðrum lánum íslenska ríkisins: Íslenska ríkið (eða stjórnvald eða ráðuneyti á Íslandi) stendur ekki við hvers konar greiðslu á erlendum lánaskuldbindingum sínum á gjalddaga (eða innan þess gjaldfrests sem er upphaflega veittur í samningi um slíkar erlendar lánaskuldbindingar) eða hvers konar erlendar lánaskuldbindingar koma fyrr til greiðslu en á yfirlýstum gjalddaga vegna vanefnda (hvernig sem þeim er lýst), þó með þeim fyrirvara að ekki kemur til vanefndatilviks samkvæmt þessari málsgrein (mgr. 11.1.5) nema heildarfjárhæð erlendu lánaskuldbindingarinnar, sem ekki hefur verið greitt af á gjalddaga eða sem hefur komið fyrr til greiðslu, sé hærri en 10.000.000 sterlingspund eða jafngildi hennar í öðrum gjaldmiðlum.
11.1.6     Vangeta til að greiða skuldir: Tryggingarsjóður innstæðueigenda er ófær um eða viðurkennir vangetu sína til að greiða, að teknu tilliti til hvers konar stuðnings sem hann á kost á, skuldir sínar þegar þær falla í gjalddaga, frestar (hvort heldur er af frjálsum vilja eða án eigin tilverknaðar) því að greiða af skuldum sínum eða hefur, vegna yfirstandandi eða fyrirsjáanlegra fjárhagserfiðleika, samningaviðræður við einn eða fleiri lánardrottna sinna með það í huga að endurskipuleggja skuldir sínar eða umbreyta þeim.
11.1.7     Fylgni við lög: Tryggingarsjóður innstæðueigenda eða íslenska ríkið:
     a)    fer ekki að kröfum tilskipunar 94/19/EB að því er varðar innstæðueigendur hjá Landsbankanum í veigamiklum atriðum eða
     b)    fer ekki að lögum sem hann eða það heyrir undir, við aðstæður þar sem slík vanræksla gæti skert að verulegu leyti getu hans eða þess til að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt fjármálaskjölunum.
11.1.8     Jafnréttháar kröfur: Greiðsluskuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda samkvæmt fjármálaskjölunum verða ekki lengur a.m.k. jafnréttháar núverandi og síðari kröfum allra annarra lánardrottna hans eða greiðsluskuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt fjármálaskjölunum verða ekki lengur a.m.k. jafnréttháar núverandi eða síðari erlendum lánaskuldbindingum þess, í báðum tilvikum öðrum en kröfum sem hafa forgang samkvæmt gildandi lögum á þeim degi þegar samningur þessi er gerður.
11.1.9     Ógilding eða neitað að efna samning: Eitthvert ákvæði fjármálaskjals er ekki eða hættir að vera lögmætt, gilt, bindandi og framfylgjanlegt eða Tryggingarsjóður innstæðueigenda eða íslenska ríkið neitar að efna það með einhverjum hætti.
11.1.10     Tryggingarsjóður: Tryggingarsjóður innstæðueigenda er leystur upp eða hættir eða einhver sú breyting verður á íslenskum lögum sem hefur eða mun hafa þau áhrif að Tryggingarsjóðurinn hættir að vera eina innlánatryggingarkerfið að því er varðar innstæðueigendur hjá Landsbankanum sem er opinberlega viðurkennt á Íslandi að því er varðar tilskipun 94/19/EB (þ.m.t. hvers konar breytingar á henni eða endurútgáfa hennar eða hvaðeina sem kemur í stað hennar).
11.1.11     Breytingar á íslenskum lögum: Hvers konar breyting sem verður á íslenskum lögum og hefur eða myndi hafa veruleg neikvæð áhrif á getu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda eða íslenska ríkisins til að inna greiðslur sínar, hvors um sig, af hendi eða standa við aðrar skuldbindingar samkvæmt fjármálaskjölunum sem þau eru aðilar að.
11.2    Tilkynning um vanefndatilvik
    Ef Tryggingarsjóður innstæðueigenda eða íslenska ríkið verður þess áskynja að átt hafi sér stað vanefndatilvik mun hann eða það tilkynna hollenska ríkinu um slíkan atburð eins fljótt og auðið er, ásamt því að greina í smáatriðum frá þeim atburðum eða aðstæðum sem teljast vanefndatilvik og þeim ráðstöfunum til úrbóta sem gripið er til.
11.3    Afleiðingar vanefndatilviks
    Þegar vanefndatilvik á sér stað og hvenær sem er eftir það er hollenska ríkinu heimilt, með tilkynningu til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og með afriti til íslenska ríkisins, að lýsa því yfir að allt lánið eða hluti þess, ásamt áföllnum vöxtum, og allar aðrar uppsafnaðar eða útistandandi fjárhæðir samkvæmt fjármálaskjölunum falli í gjalddaga og komi til greiðslu þegar í stað.
12    BREYTINGAR
12.1    Breytingar
    Aðeins er heimilt að gera breytingar á samningi þessum, bæta við hann eða falla frá honum með skriflegu samkomulagi milli samningsaðila.
12.2    Breytingar á samningsaðilum
    Enginn samningsaðili getur framselt réttindi sín eða skuldbindingar samkvæmt samningi þessum, flutt þau eða íþyngt öðrum með þeim.
13    TILKYNNINGAR
13.1    Skrifleg samskipti
    Öll samskipti, sem eiga að fara fram samkvæmt eða í tengslum við samning þennan, skulu fara fram skriflega á ensku og, nema annað sé tekið fram, vera í formi bréfs eða símbréfs (þau má afrita og senda með tölvupósti en slíkt telst ekki vera gild afhending).
13.2    Heimilisföng
    Heimilisfang og bréfasímanúmer hvers samningsaðila (og deildin eða embættismaðurinn, ef um það er að ræða, sem orðsendingunni skal beint til) vegna allra samskipta sem eiga að fara fram samkvæmt eða í tengslum við samning þennan skal vera:
13.2.1    það sem er tilgreint við nafn hans á undirskriftarsíðum samnings þessa eða
13.2.2    sérhvert það annað heimilisfang eða bréfasímanúmer eða deild eða embættismaður sem samningsaðili tilkynnir hinum samningsaðilunum um með minnst fimm virkra daga fyrirvara.
13.3    Afhending
    Tilkynningar, sem eru afhentar viðtakanda, sendar í pósti eða með símbréfi, teljast hafa verið afhentar á tilhlýðilegan hátt:
13.3.1    ef þær eru skildar eftir á heimilisfangi aðilans sem á að fá þær, á þeim tíma þegar þær eru skildar eftir (eða, ef þær eru skildar eftir á degi sem er ekki virkur dagur, þá kl. 8.15 f.h. (að staðartíma) næsta virka dag),
13.3.2    ef þær eru sendar með alþjóðlegum ábyrgðarpósti, á öðrum virkum degi eftir að þær eru póstlagðar, og
13.3.3    ef þær eru sendar með bréfasíma, þegar bréfasíminn sem tekur við þeim hefur staðfest viðtöku (eða, ef þær eru sendar á degi sem er ekki virkur dagur, þá kl. 8.15 f.h. (að staðartíma) næsta virka dag),
    og að því tilskildu að fullnægjandi sé, þegar færa skal sönnur á að tilkynning hafi verið send samkvæmt samningi þessum eða í tengslum við hann, að sanna að tilkynningin hafi verið afhent á heimilisfangið eða að rétt heimilisfang hafi verið ritað á umslagið með tilkynningunni og að það hafi verið sent með alþjóðlegum ábyrgðarpósti (eftir atvikum).
14    ÖNNUR ÁKVÆÐI
14.1    Sjálfstæði einstakra greina (e. severability)
    Verði eitthvert ákvæði samnings þessa ólögmætt, ógilt, óskuldbindandi eða óframfylgjanlegt að einhverju leyti samkvæmt lögum skal það ekki á neinn hátt hafa áhrif á eða skerða lögmæti, gildi, bindandi áhrif og framfylgd ákvæðanna sem eftir standa.
14.2    Úrræði
    Þótt hollenska ríkið láti hjá líða að nýta sér eða tafir verða á því að það nýti einhvern þann rétt eða úrræði sem hann hefur samkvæmt lögum eða samkvæmt eða í samræmi við samning þennan, mun það ekki skerða þann rétt eða úrræði eða vera eða teljast vera eftirgjöf eða frávik frá þeim rétti eða því úrræði eða útiloka að þau verði nýtt hvenær sem er síðar og engin einstök nýting þess réttar eða úrræðis eða nýting að hluta til útilokar aðra eða frekari nýtingu á þeim rétti eða úrræði eða nýtingu annars réttar eða úrræðis. Hver þau réttindi eða heimild, sem hollenska ríkinu er heimilt að nýta sér samkvæmt samningi þessum eða ákvörðun sem hollenska ríkinu er heimilt að taka (þ.m.t., án takmarkana, aðgerð, málefni eða atriði sem hollenska ríkið samþykkir, tilgreinir, ákvarðar, ákveður eða tilkynnir Tryggingarsjóði innstæðueigenda og/eða íslenska ríkinu), má hollenska ríkið nýta sér eða grípa til, algjörlega og án nokkurra takmarkana, að eigin geðþótta á hverjum tíma og er ekki skuldbundið til að gefa ástæður fyrir því.
14.3    Samhljóða eintök
    Samning þennan má gera í eins mörgum samhljóða eintökum og verða vill og samningsaðilarnir geta gert hann í aðgreindum samhljóða eintökum og hefur það sömu áhrif og ef undirskriftirnar á samhljóða eintökunum væru á einu eintaki þessa samnings. Hvert samhljóða eintak telst vera frumrit af samningi þessum en saman mynda þau einn og sama gerninginn.
15.    BREYTTAR AÐSTÆÐUR
15.1.1    Þessi grein (15. gr.) á við sýni nýjasta IV. greinar úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á stöðu Íslands að skuldaþoli þess hafi hrakað til muna miðað við slíkt mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 19. nóvember 2008.
15.1.2    Hollenska ríkið fellst á að, ef aðstæður samkvæmt þessari grein (15. gr.) koma upp og íslenska ríkið óskar eftir því, verði efnt til fundar og staðan rædd og íhugað hvort, og þá hvernig, breyta skuli samningi þessum til að hann endurspegli þá breytingu á aðstæðum sem um er að ræða.
16    GILDANDI LÖG OG LÖGSAGA
16.1    Gildandi lög
    Ensk lög gilda um samning þennan og skal hann túlkaður í samræmi við þau.
16.2    Lögsaga
16.2.1    Ágreiningsefni varðandi samning þennan, þ.m.t. ágreiningur um tilvist hans, gildi eða riftun („ ágreiningsefni“) lúta einungis lögsögu enskra dómstóla.
16.2.2    Þar eð samningur þessi og lánasamningurinn við Bretland eru sambærilegir eru samningsaðilar sammála um að viðeigandi og hentugast sé að enskir dómstólar leysi úr ágreiningi og til samræmis við það mun enginn samningsaðili halda fram hinu gagnstæða.
16.2.3    Málsgrein 16.2.1 er aðeins í þágu hollenska ríkisins. Af því leiðir að ekki er hægt að koma í veg fyrir að hollenska ríkið höfði dómsmál vegna ágreiningsefna fyrir öðrum dómstólum sem lögsögu hafa. Að því marki sem lög heimila getur hollenska ríkið höfðað mál samtímis í mörgum lögsögum.
16.2.4    Með fyrirvara um hvers konar aðrar aðferðir við stefnubirtingu, sem eru heimilar samkvæmt viðeigandi lögum, tilnefnir Tryggingarsjóður innstæðueigenda hér með, með óafturkræfum hætti, sendiráð Íslands að 2A Hans Street, SW1X 0JE London, Englandi, sem umboðsaðila sinn vegna stefnubirtinga að því er varðar hvers konar málsmeðferð fyrir enskum dómstólum í tengslum við hvers konar fjármálaskjöl og fellst á að láti umboðsaðilinn tilkynningu um slíkt hjá líða ógildi það ekki viðkomandi málsmeðferð.
16.3    Fallið frá friðhelgisréttindum
    Tryggingarsjóður innstæðueigenda og íslenska ríkið fallast, hvort um sig, almennt á að þeim sé birt hvers konar stefna í tengslum við ágreining sem upp kann að koma og að sjá fyrir hvers konar lausnum og úrræðum í því tilliti, þ.m.t. með aðför eða fullnustu í hvaða eignum sem er (óháð notum þeirra eða ætluðum notum) samkvæmt hvers konar úrskurði eða dómi. Ef Tryggingarsjóður innstæðueigenda, íslenska ríkið eða eignir þeirra eru friðhelgar eða eiga rétt á friðhelgi, í hvaða lögsögu sem er, gagnvart birtingu stefnu eða annarra gagna sem varða hvers konar ágreining, eða eru friðhelgar eða eiga rétt á friðhelgi gagnvart lögsögu, málshöfðun, dómi, fullnustu, fjárnámi (hvort heldur er fyrir dómi, við framkvæmd fullnustu eða á annan hátt) eða öðrum lögfræðilegum úrræðum, er hér með fallið frá þeim rétti með óafturkræfum hætti, að því marki sem heimilt er samkvæmt lögum viðkomandi lögsögu. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og íslenska ríkið fallast, hvort um sig, einnig með óafturkræfum hætti á að beita ekki slíkri friðhelgi fyrir sig eða eignir sínar.
     SAMNING ÞENNAN GERÐU, ÞANN DAG SEM SEGIR Í UPPHAFI SAMNINGS ÞESSA:

Fylgiskjal III.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd
ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta
frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum
til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

    Með frumvarpi þessu er leitað eftir heimild Alþingis til að veita Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta ábyrgð á láni sjóðsins frá breska og hollenska ríkinu. Lánið er til að standa straum af endurgreiðslu til hinna erlendu ríkja á því fé sem þau hafa lagt fram til að greiða innstæðueigendum hjá útibúum Landsbankans hf. í Bretlandi og Hollandi þá lágmarkstryggingu, 20.887 evrur, sem kveðið er á um í lögum nr. 98/1999. Tryggingarsjóður innstæðueiganda og fjárfesta var stofnaður á grundvelli laganna þegar tilskipanir 94/19/EB um innlánstryggingar og 97/7/EB um tryggingakerfi fyrir fjárfesta voru innleiddar á Íslandi á grundvelli EES-samningsins.
    Samkvæmt samningum við Breta og Hollendinga ábyrgist ríkissjóður greiðslur samkvæmt lánasamningum Tryggingarsjóðs eftir 2016 sem eru umfram það fé sem sjóðurinn á í vændum sem handhafi forgangskrafna í þrotabú Landsbankans hf. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum með frumvarpinu er mikil óvissa um áhrif samninganna á útgjöld ríkissjóðs eftir 2016. Heildarskuldbindingin samkvæmt samningunum er um 705 milljarðar kr. miðað við núverandi gengi krónunnar, sem er um 49% af vergri landsframleiðslu (VLF) árið 2009. Fram til 2016 munu eignir úr þrotabúi Landsbankans greiðast inn á höfuðstól lánsins og ræðst það af greiðslum úr þrotabúinu hversu hátt lán Tryggingarsjóðsins verður. Í athugasemdunum eru reiknuð út áhrifin á höfuðstól lánsins miðað við forsendur um að 60–90% af forgangskröfum endurheimtist. Miðað við 60% endurheimtur krafna yrði skuldbindingin 521 milljarður kr. eða 26% af VLF 2016 og 309 milljarðar kr. eða 15% af VLF miðað við 90% endurheimtur á forgangskröfum. Ef gert ráð fyrir að meðaltal þessara forsendna um endurheimtur forgangskröfuhafa komi til eða að 75% af kröfum endurheimtist gætu um 415 milljarðar kr. fallið á ríkissjóð vegna skuldbindinga Tryggingarsjóðsins eða um 21% af VLF árið 2016. Þessi fjárhæð kæmi til greiðslu í 32 greiðslum á átta árum ásamt árlegum 5,55% vöxtum. Árleg greiðsla af höfuðstól yrði þannig um 50 milljarðar kr. og vaxtagreiðslur fallandi frá 22 milljörðum kr. Þar sem greiðslutímabil fastra afborgana hefst 5. júní 2016 falla tvær afborganir á það ár og á árið 2024 en fjórar afborganir á önnur ár.
    Miðað við þessar forsendur gætu stærðargráður á þessum greiðslum orðið eftirfarandi:
Ár Greiðsla af höfuðstól Vextir Samtals
2016 25 11,0 36,0
2017 50 19,3 69,3
2018 50 16,5 66,5
2019 50 13,8 63,8
2020 50 11,0 61,0
2021 50 8,3 58,3
2022 50 5,5 55,5
2023 50 2,8 52,8
2024 25 1,4 26,4

    Verði endurheimtur forgangskrafna 75% eins og gert er ráð fyrir í þessu dæmi munu greiðslur vegna Icesave verða um 3,7% af VLF árið 2016 en verða komnar niður í 2,7% af VLF árið 2023.
    Þrátt fyrir að hér hafi verið reynt að leggja mat á hugsanleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs á komandi árum er óvissan í þessum samningum veruleg. Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir miðað við þær forsendur sem að framan eru raktar að greiðslur úr ríkissjóði gætu orðið á bilinu 60–70 milljarðar kr. árlega á árabilinu 2017 til 2023, en helmingur þeirrar upphæðar árin 2016 og 2024. Vakin er athygli á því að lánið er fært hjá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og greiðir sjóðurinn afborganir og vexti af því. Komi til þess að á ríkisábyrgðina reyni færast árlegar greiðslur úr ríkissjóði sem svara til afborgana og vaxta til Tryggingarsjóðsins í einu lagi og til gjalda á útgjaldahlið ríkissjóðs.