Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 114. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Prentað upp.

Þskj. 235  —  114. mál.
Leiðrétting.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um kjararáð og fleiri lögum.

Frá efnahags- og skattanefnd.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gunnar Björnsson og Björn Rögnvaldsson frá fjármálaráðuneyti, Jónas Þór Guðmundsson frá kjararáði, Magnús Guðmundsson og Gissur Pétursson frá Félagi forstöðumanna ríkisstofnana og Ragnar Árnason frá Samtökum atvinnulífsins. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Hagstofu Íslands, kjararáði, ríkisskattstjóra, Dómarafélagi Íslands, Fræðagarði, Nýsköpunarsjóði, Íbúðalánasjóði, Læknafélagi Íslands, Samkeppniseftirlitinu, Fjármálaeftirlitinu, Samtökum atvinnulífsins, Seðlabanka Íslands, fjármálaráðuneyti og Landsvirkjun.
    Í frumvarpinu er lagt til að kjararáði verði falið að úrskurða um starfskjör eftirtalinna aðila:
     a.      Framkvæmdastjóra hlutafélaga, sem eru í meirihlutaeigu ríkisins, þ.m.t. Ríkisútvarpsins ohf.
     b.      Framkvæmdastjóra annars konar félaga, einkaréttarlegs eðlis, í meirihlutaeigu ríkisins, þ.m.t. Landsvirkjunar.
     c.      Framkvæmdastjóra félaga sem eru í meirihlutaeigu félaga skv. a- og b-lið.
     d.      Forstöðumanna eftirtalinna ríkisstofnana: Samkeppniseftirlitsins, Seðlabanka Íslands, Byggðastofnunar, Fjármálaeftirlitsins, Íbúðalánasjóðs, Nýsköpunarsjóðs.
    Í frumvarpinu er enn fremur lagt til að föst laun fyrir dagvinnu, annarra en forseta Íslands, verði ekki hærri en föst laun forsætisráðherra.
    Nefndin ræddi einkum gildissvið frumvarpsins og áhrif þess með hliðsjón af umræddu launaþaki.
    Á fundum nefndarinnar kom fram gagnrýni á gildissvið frumvarpsins og því haldið fram að það væri ekki nægilega vel afmarkað, einkum með tilliti til þeirrar ríkisvæðingar sem orðið hefur í kjölfar bankahrunsins. Nefndin leggur til að ákvæði 1. gr. frumvarpsins verði ekki látið ná til dótturfélaga móðurfélaga sem nefnd eru í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Til að skýra hugsunina sem liggur að baki yrði kjararáði samkvæmt þessu falið að úrskurða um starfskjör forstjóra Landsvirkjunar og einnig framkvæmdastjóra dótturfélags í þess eigu, Landsvirkjunar Invest hf. Starfskjör framkvæmdastjóra félags sem væri í eigu Landsvirkjunar Invest hf. eða Landsvirkjunar ásamt Landsvirkjun Invest hf. eða Landsvirkjunar Invest og annars dótturfélags Landsvirkjunar heyrði hins vegar ekki undir úrskurðarvald ráðsins. Nefndin leggur einnig til að framkvæmdastjórar félaga sem viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins yfirtaka til að tryggja fullnustu kröfu, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, færist ekki undir ákvarðanir ráðsins.
    Nefndin hvetur fjármálaráðuneyti til að afhenda kjararáði uppfærðan lista yfir öll félög einkaréttarlegs eðlis sem heyra undir gildissvið frumvarpsins skv. 1. gr., einnig að fjármálaráðherra verði falið að úrskurða ef upp rís vafi um hvort félag falli undir gildissviðið. Þá leggur nefndin til í ljósi umsagnar Fjármálaeftirlitsins að orðið „framkvæmdastjóri“ verði notað í stað orðsins „forstöðumaður“.
    Nefndin ítrekar að í frumvarpinu er lagt til að forstöðumenn tilgreindra ríkisstofnana verði felldir undir úrskurðarvald kjararáðs. Í áliti meiri hluta efnahags- og skattanefndar frá 6. desember 2007 sem gefið var í tengslum við setningu laga nr. 168/2007 kom fram sá skilningur að vegna 5. gr. starfsmannalaga féllu forstöðumenn ríkisstofnana almennt undir úrskurðarvald ráðsins en að sérsjónarmið gætu leitt til annarrar niðurstöðu, sbr. t.d. úrskurð kjararáðs frá 11. apríl 2007 sem varðar laun og starfskjör framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að draga úr launakostnaði ríkisins og í 2. gr. kemur fram að föst laun fyrir dagvinnu skuli ekki vera hærri en föst laun forsætisráðherra. Það er skilningur nefndarinnar að í þessu ákvæði felist að föst laun fyrir venjulega dagvinnu eigi ekki að vera hærri en starfskjör forsætisráðherra sem samkvæmt lögum um kjararáð samanstanda af föstum launum fyrir venjulega dagvinnu og öðrum launum sem starfinu fylgja og öðrum starfskjörum. Nefndin telur því að frumvarpið útiloki ekki með öllu að heildarstarfskjör annarra sem undir ráðið heyra verði hærri en forsætisráðherra.
    Áhyggjur komu fram við umfjöllun nefndarinnar um að áhrif frumvarpsins á gildandi ráðningarsamninga væru óljós. Ætti það ekki aðeins við gagnvart þeim sem stjórna stofnun eða félagi sem frumvarpið tekur til heldur gæti það haft óbein áhrif á starfskjör undirmanna. Ríkinu væru aðrar leiðir færar við að lækka laun í gegnum val sitt á stjórnum hlutaðeigandi stofnana og félaga.
    Áhyggjur komu einnig fram um að frumvarpið hefði í för með sér skerðingu á sjálfstæði dómsvaldsins og réttindi minni hluta hluthafa umfram það sem stjórnarskráin heimilar og að það takmarkaði réttindi launafólks til að semja um starfskjör sín og möguleika ríkisins til að ráða til sín hæft starfsfólk. Enn fremur komu fram ábendingar um að frumvarpið gæti haft neikvæð áhrif á sjálfstæði Seðlabankans og Samkeppniseftirlitsins.
    Nefndin virðir framangreind sjónarmið en telur í ljósi núverandi efnahagsaðstæðna að í frumvarpinu sé fólgin eðlileg skammtímaráðstöfun sem ætlað er að draga úr launakostnaði ríkisins með skjótum hætti og þannig að samræmis sé gætt. Nefndin leggur samt sem áður áherslu á að við framkvæmd úrskurða kjararáðs verði gætt réttra aðferða við slit þeirra starfskjarasamninga sem þeir koma í staðinn fyrir og að áunnin réttindi starfsmanna verði ekki skert afturvirkt. Nefndin telur að frumvarpið samrýmist grunnreglum um sjálfstæði dómsvaldsins og að orðalag 2. gr. veiti kjararáði svigrúm til að taka tillit til þeirrar sérstöðu.
    Við umfjöllun nefndarinnar gerði kjararáð athugasemd við 6. gr. frumvarpsins og tók fram að ráðið ákvarðaði ekki biðlaun og eftirlaun fyrir embættismenn. Nefndin leggur því til að ákvæði b-liðar 28. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, verði breytt þannig að starfskjör seðlabankastjóra fari almennt eftir lögum um kjararáð með þeim fyrirvara að ákvörðun um biðlaun, eftirlaun og önnur atriði sem varða fjárhagslega hagsmuni hans verði í höndum bankaráðs bankans. Bankaráðið mun áfram ákveða laun og önnur starfskjör aðstoðarseðlabankastjóra og fulltrúa í peningastefnunefnd.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Við 1. gr.
                  a.      Í stað orðsins „forstöðumanna“ komi: framkvæmdastjóra.
                  b.      Við bætist þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Ákvæði 1. málsl. tekur ekki til félags sem nefnt er dótturfélag móðurfélagsins í 2. mgr. 2. gr. laga um hlutafélög og 2. mgr. 2. gr. laga um einkahlutafélög. Ákvæði 1. málsl. tekur ekki heldur til félaga sem viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins eða dótturfélög þessara fjármálafyrirtækja yfirtaka til að tryggja fullnustu kröfu. Í vafatilvikum úrskurðar fjármálaráðuneyti um hvort kjararáð eigi úrskurðarvald samkvæmt þessari málsgrein.
     2.      Við 6. gr. Greinin orðist svo:
                  B-liður 28. gr. laganna orðast svo: Ákveða laun og önnur starfskjör aðstoðarseðlabankastjóra og fulltrúa í peningastefnunefnd, þ.m.t. rétt til biðlauna og eftirlauna. Kjararáð ákveður laun og önnur starfskjör seðlabankastjóra önnur en rétt til biðlauna og eftirlauna og önnur atriði sem varða fjárhagslega hagsmuni hans sem bankaráðið ákveður.
     3.      Við 11. gr. Greinin falli brott.
     4.      Við 12. gr. Orðin „eða hlutafélagi sem ríkissjóður á helmingshlut eða meira í og lýtur endurskoðun skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 86/1997, um Ríkisendurskoðun“ falli brott.

    Tryggvi Þór Herbertsson, Birkir Jón Jónsson og Pétur H. Blöndal voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. júlí 2009.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Lilja Mósesdóttir.


Magnús Orri Schram.



Álfheiður Ingadóttir.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Valgeir Skagfjörð.