Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 147. máls.

Þskj. 241  —  147. mál.Frumvarp til laga

um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á undanþágum
frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn og innleiðingar á
reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002
frá 28. janúar 2002 auk afleiddra gerða.

(Lagt fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009.)
I. KAFLI
Breytingar á lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum.
1. gr.

    Síðari málsliður 1. gr. laganna orðast svo: Þessu skal ná með innra eftirliti, áhættugreiningu, rekjanleika afurða og vara, varúðaraðgerðum, fræðslu, upplýsingamiðlun, rannsóknum, neytendavernd og opinberu eftirliti.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Lög þessi taka til framleiðslu og dreifingar matvæla á öllum stigum. Þau taka ekki til frumframleiðslu til einkanota eða til vinnslu, meðferðar eða geymslu á matvælum til einkaneyslu. Lögin ná þó til allra efna og hluta sem ætlað er að koma í snertingu við matvæli á einkaheimilum. Jafnframt ná lögin til fæðubótarefna. Lögin taka til matvælaeftirlits hérlendis og um borð í skipum í höfnum og á leið til hafna hérlendis. Sama á við um loftför á flugvöllum hérlendis.
     b.      Síðari málsliður 2. mgr. orðast svo: Það sama gildir um plöntur, fyrir uppskeru, sbr. lög um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum, fóður, sbr. lög um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, og lifandi dýr nema þau séu alin til markaðssetningar til manneldis.

3. gr.

    Skilgreining á hugtakinu „matvæli“ í 4. gr. laganna fellur brott en jafnframt bætast við eftirfarandi skilgreiningar í viðeigandi stafrófsröð:
     1.      Áhættugreining er ferli sem er samsett af þremur innbyrðis tengdum þáttum, þ.e. áhættumati, áhættustjórnun og áhættukynningu.
     2.      Frumframleiðsla er framleiðsla, eldi eða ræktun undirstöðuafurða ásamt uppskeru, mjöltum og eldi dýra fram að slátrun. Frumframleiðsla tekur einnig til dýra og fiskveiða og nýtingar villigróðurs.
     3.      Fæðubótarefni eru matvæli sem eru ætluð sem viðbót við venjulegt fæði og eru með hátt hlutfall af vítamínum, steinefnum eða annars konar efnum sem hafa næringar- eða lífeðlisfræðileg áhrif.
     4.      Markaðssetning er að hafa umráð yfir matvælum með sölu fyrir augum, þ.m.t. að bjóða þau til sölu eða afhendingar í öðru formi, gegn gjaldi eða endurgjaldslaust, og sjálf salan, dreifingin eða önnur form afhendingar.
     5.      Matvæli eru hvers konar efni eða vörur, hvort sem þau eru fullunnin, unnin að hluta eða óunnin, sem fólki er ætlað að neyta eða sem eðlilegt er að vænta að fólk neyti. Hugtakið „matvæli“ tekur einnig til drykkja, tyggigúmmís og hvers kyns efna, þ.m.t. neysluvatns, sem bætt er af ásettu ráði í matvæli við framleiðslu þeirra, vinnslu eða meðferð, svo og fæðubótarefna.
     6.      Matvælafyrirtæki er fyrirtæki eða einstaklingur sem rekur starfsemi í tengslum við framleiðslu, vinnslu eða dreifingu matvæla á einhverju stigi, hvort sem það starfar í ágóðaskyni eður ei, og hvort sem það er einkarekið eða opinbert fyrirtæki.
     7.      Neysluvatn er vatn í upphaflegu ástandi eða eftir meðhöndlun, án tillits til uppruna þess og hvort sem það kemur úr dreifikerfi, tönkum, flöskum eða öðrum ílátum, og er ætlað til neyslu eða matargerðar, einnig allt vatn sem notað er í matvælafyrirtækjum, nema unnt sé að sýna fram á að gæði þess vatns sem notað er hafi ekki áhrif á heilnæmi framleiðslunnar.
     8.      Neytandi er sá sem notar matvæli ekki sem lið í rekstri eða starfsemi matvælafyrirtækis.
     9.      Opinberir eftirlitsaðilar eru Matvælastofnun eða heilbrigðisnefndir sveitarfélaga í samræmi við 6. og 22. gr.
     10.      Rekjanleiki er sá möguleiki að rekja uppruna og feril matvæla, dýra sem gefa af sér afurðir til manneldis og efna sem nota á eða vænst er að verði notuð í eða í snertingu við matvæli í gegnum öll stig framleiðslu, vinnslu og dreifingar.
     11.      Stjórnandi matvælafyrirtækis er einstaklingur eða lögaðili sem er ábyrgur fyrir því að farið sé að kröfum samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum um matvæli í matvælafyrirtækjum undir hans stjórn.
     12.      Smásala er meðhöndlun og/eða vinnsla matvæla og geymsla þeirra á staðnum þar sem þau eru seld eða afhent neytanda, þ.m.t. dreifingarstöðvar, matsölufyrirtæki, mötuneyti starfsfólks, veitingahús og önnur samsvarandi matarþjónusta ásamt verslunum og dreifingarstöðvum stórmarkaða og heildsölumarkaðir.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      A-liður orðast svo: frumframleiðslu.
     b.      Á eftir a-lið koma þrír nýir stafliðir, svohljóðandi:
        b.     innflutningi og útflutningi búfjárafurða,
        c.     kjötvinnslum og kjötpökkunarstöðvum, að undanskildum kjötvinnslum sem starfræktar eru í smásöluverslunum,
        d.     mjólkurstöðvum og eggjavinnslu.

5. gr.

    Við IV. kafla laganna bætast þrjár nýjar greinar, 8. gr. a – 8. gr. c, svohljóðandi:

    a. (8. gr. a.)
    Óheimilt er að markaðssetja matvæli sem ekki eru örugg, þ.e. heilsuspillandi eða óhæf til neyslu.
    Við ákvörðun um hvort matvæli séu örugg skal hafa hliðsjón í fyrsta lagi af því hvernig neytendur nota matvælin venjulega á hverju stigi framleiðslu og dreifingar og í öðru lagi af upplýsingum sem neytendum eru veittar, þ.m.t. upplýsingar á merkimiða, eða öðrum upplýsingum sem neytendur hafa almennt aðgang að, þar sem fram kemur hvernig þeir geti forðast tiltekin matvæli eða tiltekinn matvælaflokk sem getur haft skaðleg áhrif á heilsuna.
Við ákvörðun um hvort matvæli séu heilsuspillandi skal hafa hliðsjón í fyrsta lagi af líklegum, bráðum áhrifum og/eða skammtímaáhrifum og/eða langtímaáhrifum þessara matvæla á heilsu þeirra sem neyta þeirra og einnig á næstu kynslóðir, í öðru lagi líklegum, uppsöfnuðum eituráhrifum og í þriðja lagi sérstöku næmi ákveðins hóps neytenda fyrir tilteknum matvælum ef matvælin eru ætluð þeim hópi.
    Við ákvörðun um hvort matvæli séu óhæf til neyslu skal hafa hliðsjón af því hvort matvælin séu óviðunandi til neyslu með tilliti til fyrirhugaðrar notkunar eða vegna mengunar eða vegna þess að þau eru rotin, spillt eða skemmd.
    Stjórnandi matvælafyrirtækis, sbr. 8. gr. b, og opinberir eftirlitsaðilar samkvæmt lögum þessum skulu í störfum sínum tryggja eins og kostur er að ekki berist á markað matvæli sem geta valdið matarsjúkdómum. Til að tryggja ýtrasta matvælaöryggi og vernda líf og heilsu manna og dýra skal ráðherra setja reglugerð þar sem að kveðið er almennt á um sýnatökur, vottorðagjöf og skilyrði markaðssetningar matvæla til að fyrirbyggja að þau geti valdið matarsjúkdómum.

    b. (8. gr. b.)
    Stjórnandi matvælafyrirtækis ber ábyrgð á að uppfylltar séu kröfur laga og stjórnvaldsreglna sem gilda um starfsemi þess á hverjum tíma. Stjórnandi ber ábyrgð á öllum stigum framleiðslu og dreifingar í fyrirtækjum undir hans stjórn og skal sannprófa að þessum kröfum sé fullnægt.

    c. (8. gr. c.)
    Ef stjórnandi matvælafyrirtækis álítur eða hefur ástæðu til að álíta að matvæli, sem hann hefur flutt inn, framleitt eða dreift, séu ekki í samræmi við kröfur um öryggi matvæla og hann hefur ekki lengur beint forræði yfir þeim skal hann tafarlaust gera ráðstafanir til að taka umrædd matvæli af markaðnum og tilkynna það hlutaðeigandi opinberum eftirlitsaðila. Ef varan er komin í hendur neytenda skal stjórnandinn upplýsa þá á skilvirkan og nákvæman hátt um ástæðurnar fyrir því að varan var tekin af markaðnum og, ef nauðsyn krefur, innkalla vörur sem neytendum hafa þegar verið afhentar ef aðrar ráðstafanir nægja ekki til þess að tryggja víðtæka heilsuvernd.
    Álíti stjórnandi matvælafyrirtækis eða hafi hann ástæðu til að álíta að tiltekin matvæli, sem hann hefur markaðssett, geti verið heilsuspillandi skal hann þegar í stað tilkynna það hlutaðeigandi opinberum eftirlitsaðila. Stjórnendur skulu tilkynna yfirvöldum um aðgerðir til að fyrirbyggja hættu fyrir neytandann og jafnframt eiga allt það samstarf við yfirvöld sem dregið getur úr eða eytt áhættu vegna viðkomandi matvæla.

6. gr.

    9. gr. laganna orðast svo:
    Matvælafyrirtæki skulu hafa starfsleyfi frá viðkomandi opinberum eftirlitsaðila, sbr. 20. gr., og skulu þau sækja um starfsleyfi áður en starfsemi hefst. Matvælafyrirtæki sem annast frumframleiðslu matjurta eða sauðfjár- og hrossarækt þurfa ekki starfsleyfi en þurfa að tilkynna Matvælastofnun um starfsemi sína áður en hún hefst. Heimilt er að binda starfsleyfi tilteknum skilyrðum, sbr. ákvæði í 2.–4. mgr.
    Gefa skal út starfsleyfi til tiltekins tíma enda uppfylli starfsemin skilyrði laga og stjórnvaldsreglna sem um hana gilda. Óheimilt er að hefja starfsleyfisskylda starfsemi hafi starfsleyfi fyrir hana ekki verið gefið út. Stjórnanda ber að veita opinberum eftirlitsaðila upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á starfsemi sem varðað geta ákvæði starfsleyfis með hæfilegum fyrirvara. Opinberum eftirlitsaðila er heimilt að endurskoða starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna, svo sem ef breytingar verða á rekstrinum, vegna tækniþróunar eða breytinga á reglum um öryggi matvæla eða framkvæmd matvælaeftirlits.
    Þrátt fyrir 2. mgr. er heimilt að gefa út starfsleyfi til bráðabirgða þannig að matvælafyrirtæki gefist ráðrúm til nauðsynlegra úrbóta á starfsemi sinni enda sé um smávægilegar athugasemdir opinbers eftirlitsaðila að ræða.
    Í starfsleyfi skal tilgreina stjórnanda og staðsetningu starfsemi, tegund hennar, skilyrði, gildistíma og endurskoðun starfsleyfis, auk ákvæða um eftirlit, umgengni, hreinlæti og innra eftirlit eftir því sem við á hverju sinni.
    Þrátt fyrir skilgreiningu á matvælafyrirtæki í 4. gr. er ráðherra heimilt að undanskilja frá starfsleyfis- eða tilkynningarskyldu aðila sem ekki stunda starfsemi í ágóðaskyni en þeir skulu þó uppfylla önnur skilyrði þessara laga og stjórnvaldsreglna sem settar eru með heimild í þeim.
    Í sérlögum er heimilt að kveða á um sérstök skilyrði fyrir útgáfu starfsleyfis fyrir starfsemi einstakra matvælafyrirtækja.
    Ef einnig er kveðið á um starfs- eða vinnsluleyfisskyldu í sérlögum eða lögum um eftirlit með fóðri fyrir starfsemi sem fellur undir ákvæði þessara laga er opinberum eftirlitsaðila heimilt að gefa út eitt starfsleyfi á grundvelli hvorra tveggja laganna.

7. gr.

    1. og 2. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Matvælafyrirtæki skulu haga starfsemi sinni í samræmi við reglur um almenna hollustuhætti og tryggja að matvæli óhreinkist ekki eða spillist á annan hátt.
    Stjórnendur matvælafyrirtækja bera ábyrgð á því að sett sé á fót og starfrækt innra eftirlit með starfseminni, byggt á meginreglum hættugreiningar, til að fyrirbyggja að matvæli geti valdið matarsjúkdómum og til þess að tryggja að matvæli séu að öðru leyti í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Innra eftirlit fyrirtækisins skal miðast við eðli og umfang starfseminnar og byggjast á reglum sem ráðherra ákveður í reglugerð. Starfsfólk, sem starfar við framleiðslu matvæla eða dreifir þeim, skal gæta hreinlætis við störf sín. Það skal hafa þekkingu á meðferð matvæla. Stjórnendur matvælafyrirtækja bera ábyrgð á að starfsfólkinu sé veitt fræðsla. Ráðherra er heimilt að setja reglur um að þeir sem starfa við framleiðslu og dreifingu matvæla skuli sækja námskeið um meðferð matvæla þar sem sérstök áhersla er lögð á innra eftirlit og öryggi matvæla. Ef opinberir aðilar annast námskeiðahald er heimilt að taka gjald sem nemur raunkostnaði við það.

8. gr.

    Við 1. mgr. 11. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Óheimilt er að flytja til landsins eða markaðssetja matvæli eða fæðubótarefni sem innihalda lyf eða lyfjavirk efni sem falla undir ákvæði lyfjalaga.

9. gr.

    Á eftir 13. gr. laganna kemur ný grein sem verður 13. gr. a, svohljóðandi:
    Á öllum stigum framleiðslu og dreifingar skal vera fyrir hendi möguleiki á að rekja feril matvæla, dýra sem gefa af sér afurðir til manneldis og hvers kyns efna sem nota á eða vænst er að verði notuð í matvæli.
    Stjórnendur matvælafyrirtækja skulu geta tilgreint alla einstaklinga og lögaðila sem hafa afhent þeim matvæli, dýr sem gefa af sér afurðir til manneldis eða hvers kyns efni sem nota á eða vænst er að verði notuð í matvæli. Einnig skulu stjórnendur geta tilgreint fyrirtæki sem þeir hafa afhent vörur sínar. Í þessu skyni skulu umræddir stjórnendur hafa yfir að ráða kerfum og verklagsreglum til að gera framangreindar upplýsingar aðgengilegar opinberum eftirlitsaðilum að beiðni þeirra. Þá skulu matvæli vera merkt og auðkennd á viðeigandi hátt til að auðveldara verði að rekja feril þeirra með aðstoð viðeigandi skjala eða upplýsinga í samræmi við framangreindar kröfur.

10. gr.

    Heiti IV. kafla laganna verður: Matvælaöryggi, framleiðsla, markaðssetning og rekjanleiki.

11. gr.

    Á eftir 18. gr. laganna kemur ný grein sem verður 18. gr. a, svohljóðandi:
    Leitast skal við að vernda hagsmuni neytenda og gefa neytendum kost á upplýstu vali með tilliti til matvælanna sem þeir neyta. Þannig skal leitast við að fyrirbyggja framleiðslu og markaðssetningu svikinna matvæla, sviksamlegar eða villandi starfsvenjur og aðrar starfsvenjur sem gætu villt um fyrir neytendum.
    Óheimilt er að villa um fyrir neytendum með merkingu, auglýsingu og framsetningu matvæla, þ.m.t. lögun þeirra, útliti eða umbúðum og umbúðaefni, hvernig þeim er fyrir komið og í hvaða umhverfi þau eru sýnd, sem og upplýsingum sem eru veittar um þau.

12. gr.

    Heiti VII. kafla laganna verður: Framkvæmd, neytendavernd og fræðslustarfsemi.

13. gr.

    1. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
    Framleiðsla og dreifing matvæla er háð leyfi heilbrigðisnefndar skv. 9. gr. Þegar ákvæði þessi eiga við um starfsemi sem er undir opinberu eftirliti Matvælastofnunar skv. 6. gr. er leyfisveiting í höndum þeirrar stofnunar.

14. gr.

    Við 22. gr. laganna bætast fjórar nýjar málsgreinar svohljóðandi:
    Ef bæði Matvælastofnun og heilbrigðisnefnd hafa eftirlitsskyldur með sama matvælafyrirtæki, sbr. 1. mgr. þessarar greinar, skal ráðherra úrskurða hvor aðilinn skuli fara með opinbert eftirlit og veita leyfi skv. 20. gr.
    Matvælaeftirlit skal m.a. byggjast á áhættugreiningu og skal áhættumat unnið á hlutlausan og gagnsæjan hátt á grundvelli vísindalegra upplýsinga og gagna. Í þessum tilgangi skipar ráðherra ráðgefandi nefnd sem veitir vísindalega ráðgjöf um áhættumat að beiðni ráðherra eða Matvælastofnunar.
    Matvælastofnun hefur yfirumsjón með matvælaeftirliti og skal sjá um að vöktun og rannsóknir vegna þessa eftirlits séu framkvæmdar. Í yfirumsjón felst samræming matvælaeftirlits þannig að framkvæmdin sé með sama hætti á landinu öllu.
    Matvælastofnun skal koma á samvinnu þeirra er að málum þessum starfa og skal í slíkum tilvikum sérstaklega gæta að hagkvæmni í eftirliti og fyrirbyggja tvíverknað og skörun eftir því sem frekast er unnt. Stofnunin skal hafa nána samvinnu við heilbrigðisnefndir og heilbrigðisfulltrúa og veita þá ráðgjöf og þjónustu varðandi matvælaeftirlit sem hún getur og aðstæður krefjast. Þá skal stofnunin vinna að samræmingu krafna sem gerðar eru til starfsemi á sviði matvælaeftirlits og að því að slíkum kröfum sé framfylgt. Til þess að stuðla sem best að því að þessu markmiði verði náð gefur stofnunin út leiðbeiningar og viðmiðunarreglur um framkvæmdina sem heilbrigðisnefndum ber að fylgja.

15. gr.

    23. gr. laganna orðast svo:
    Opinberum eftirlitsaðila er heimilt að fela aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum um faggildingu o.fl. að annast tiltekin verkefni við framkvæmd eftirlits samkvæmt lögum þessum og skal gerður um það sérstakur samningur í hverju tilviki. Þeir skulu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd eftirlitsins og leynt á að fara.
    Faggiltir aðilar skulu rækja eftirlit sitt á vegum opinbers eftirlitsaðila sem fylgist með starfi þeirra og sannreynir að þeir ræki skyldur sínar á fullnægjandi hátt, enda skulu þeir veita honum upplýsingar um starfsemi og ástand fyrirtækja á þann hátt sem hann ákveður.
    Verði misbrestur á að hinir faggiltu aðilar ræki almennt skyldur sínar samkvæmt samningi sínum við opinberan eftirlitsaðila, vanræki þeir upplýsingaskyldu sína eða gefi rangar upplýsingar veitir hann þeim áminningu eða riftir við þá samningi ef sakir eru miklar.
    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um skilyrði og störf faggiltra aðila samkvæmt lögum þessum.
    Jafnframt getur ráðherra sett reglur um hvernig innra eftirlit matvælafyrirtækja, sem starfrækt er samkvæmt vottuðu gæðakerfi, getur verið þáttur í opinberu matvælaeftirliti.
    Þá er ráðherra heimilt að ákveða að tilteknar rannsóknastofur, sem hlotið hafa faggildingu á viðkomandi rannsóknar- eða prófunarsviði, skuli vera tilvísunarrannsóknastofur.

16. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Matvælaframleiðendum og dreifendum“ í 1. mgr. kemur: Matvælafyrirtækjum.
     b.      Í stað orðanna „Eftirlitsaðilar og þeir sem framleiða matvæli eða dreifa þeim“ í 3. mgr. kemur: Heilbrigðisnefnd, aðilar sem hafa faggildingu og fara með tiltekin eftirlitsverkefni og matvælafyrirtæki.

17. gr.

    25. gr. laganna orðast svo:
    Fyrir eftirlit samkvæmt lögum þessum skulu matvælafyrirtæki greiða eftirlitsgjald sem ekki er hærra en raunkostnaður við eftirlitið til að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum við matvælaeftirlitið:
     a.      launum starfsfólks sem sinnir störfum vegna eftirlits,
     b.      öðrum kostnaði vegna starfsfólks, þ.m.t. vegna aðstöðu, áhalda, búnaðar, þjálfunar, ferðalaga og tengds kostnaðar,
     c.      kostnaði við greiningu á rannsóknastofu og sýnatöku.
    Opinber eftirlitsaðili framkvæmir viðbótareftirlit, þar á meðal rannsóknir, með matvælum þegar tiltekin starfsemi matvælafyrirtækis eða matvæli eru ekki talin uppfylla þær almennu og eðlilegu kröfur sem gerðar eru til meðferðar eða heilbrigðis matvæla vegna vísbendinga um smitefni, mengun eða brot gegn heilbrigðis- eða starfsreglum eða skyldra atvika. Raunkostnað af viðbótareftirliti ber matvælafyrirtæki. Framkvæma má viðbótareftirlit þrátt fyrir að afurðir eða vara hafi þegar hlotið heilbrigðisvottun.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd og inntak eftirlits og skal hann gefa út gjaldskrá fyrir eftirlitið að fengnum tillögum Matvælastofnunar. Með sama hætti skulu sveitarfélögin gefa út gjaldskrá fyrir eftirlitsskylda starfsemi heilbrigðisnefnda vegna matvælaeftirlits.
    Við gerð reglugerðar og gjaldskrár skal taka tillit til eftirfarandi atriða:
     a.      hvers konar fyrirtæki um er að ræða og viðkomandi áhættuþátta,
     b.      hagsmuna fyrirtækja með litla framleiðslu,
     c.      hefðbundinna aðferða við framleiðslu, vinnslu og dreifingu,
     d.      þarfa fyrirtækja með aðsetur á svæðum sem líða fyrir tilteknar landfræðilegar takmarkanir.
Ráðherra skal afla umsagnar hlutaðeigandi hagsmunasamtaka og kynna þeim efni og forsendur reglugerðar og/eða gjaldskrár með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara. Hafi umsagnir þeirra ekki borist ráðherra að mánuði liðnum er honum þó heimilt að setja reglugerð og gjaldskrá án umsagna þeirra.
    Eftirlitsgjald skal greiða samkvæmt framlögðum reikningi opinbers eftirlitsaðila.
    Innheimta má eftirlitsgjaldið með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Opinberum eftirlitsaðilum er heimilt að krefjast dráttarvaxta af ógreiddri fjárkröfu vegna eftirlits frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.
    Ákvæði þessarar greinar gilda eftir því sem við á um innheimtu gjalds fyrir eftirlit á landamærastöðvum með innflutningi frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Þá skulu ákvæði þessarar greinar einnig gilda eftir því sem við á um eftirlitsgjöld opinbers eftirlitsaðila vegna eftirlits sem hann felur faggiltum aðilum að framkvæma skv. 23. gr.

18. gr.

    27. gr. laganna fellur brott.

19. gr.

    Við lögin bætast þrjár nýjar greinar sem verða 27. gr. a – 27. gr. c, svohljóðandi:

    a. (27. gr. a.)
    Matvælastofnun er heimil skyndiskoðun og sýnataka til rannsókna á búfjár- og sjávarafurðum sem fluttar eru til Íslands frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins enda sé rökstuddur grunur um að matvælin séu heilsuspillandi eða óhæf til neyslu eða geti valdið dýrasjúkdómum. Þegar nauðsyn krefur getur opinber eftirlitsaðili lagt fyrir stjórnanda matvælafyrirtækis að hann tilkynni honum, með hæfilegum fyrirvara, um flutning matvæla til landsins frá EES-ríkjum.
    Viðtakandi búfjár- og sjávarafurða skal halda dagbók yfir mótteknar sendingar og ganga úr skugga um að samræmi sé milli þeirra og meðfylgjandi skjala. Varðveita skal vottorð og önnur skilríki þeim viðkomandi í eitt ár svo að unnt sé að framvísa þeim að kröfu opinbers eftirlitsaðila.

    b. (27. gr. b.)
    Allur innflutningur búfjárafurða, sjávarafurða og lifandi ferskvatns- eða sjávardýra frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins skal fara um landamærastöðvar.
    Tilkynna skal Matvælastofnun fyrir fram um slíkan innflutning þar sem getið er um magn, tegund, áfangastað og hvenær áætlað er að sending berist.
    Á landamærastöðvum eða í þeim höfnum sem heimild hafa fengið fyrir innflutningi skal fara fram athugun á skjölum og samanburður á þeim og sendingu til að sannreyna uppruna hennar og ákvörðunarstað.
    Matvælastofnun skal kanna ástand afurðanna og taka sýni til rannsókna á rannsóknastofu. Skal Matvælastofnun í þeim efnum fylgja gildandi reglum um tíðni skoðunar og sýnatökur. Komi í ljós við skynmat eða rannsókn að þær séu óhæfar til manneldis skal eyða þeim. Heimilt er þó að endursenda afurðina að fengnu leyfi yfirvalda í framleiðslulandi eða taka hana til annarra nota enda sé það talið öruggt.
    Innflytjandi er ábyrgur fyrir þeim kostnaði sem getur fallið til við að endursenda vöru, geyma hana, taka til annarra nota eða eyða henni.
    Um innflutning sjávarafurða og lifandi sjávardýra vísast að öðru leyti til 22. og 23. gr. og 25.–27. gr. laga nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða.

    c. (27. gr. c.)
    Matvælafyrirtæki sem markaðssetja matvæli sem falla undir ákvæði 27. gr. a og 27. gr. b skulu starfrækja innra eftirlit og byggja á hættugreiningu, sbr. ákvæði 10. gr., til að fyrirbyggja að matvæli geti valdið matarsjúkdómum og til þess að tryggja að matvæli séu að öðru leyti í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim.

20. gr.

    28. gr. laganna orðast svo:
    Þegar hætta er talin á að matvæli geti valdið alvarlegu heilsutjóni er ráðherra heimilt að fyrirskipa nauðsynlegar varúðar- og varnaðaraðgerðir.
    Í sérstökum tilvikum þar sem mat á fyrirliggjandi upplýsingum leiðir í ljós möguleika á heilsuspillandi áhrifum en vísindaleg óvissa ríkir áfram er ráðherra heimilt að samþykkja nauðsynlegar bráðabirgðaráðstafanir til að tryggja heilsu almennings vegna hugsanlegra heilsuspillandi áhrifa.
    Ráðstafanir, sem eru samþykktar á grundvelli 2. mgr., skulu vera í réttu hlutfalli við markmið þeirra og ekki hamla viðskiptum meira en nauðsynlegt er. Ráðstafanirnar skulu endurskoðaðar innan eðlilegs tíma miðað við eðli þeirrar áhættu fyrir líf eða heilsu manna sem greind hefur verið og þá tegund vísindalegra upplýsinga sem þarf til að eyða vísindalegri óvissu og til að framkvæma umfangsmeira áhættumat.
    Varúðar- og varnaraðgerðir geta náð til alls landsins eða hluta þess. Skal ráðherra hafa samráð við Matvælastofnun og sóttvarnalækni áður en til aðgerða er gripið.

21. gr.

    Við lögin bætist ný grein sem verður 28. gr. a, svohljóðandi:
    Leiki rökstuddur grunur á að tiltekin matvæli hafi í för með sér áhættu fyrir heilbrigði manna skulu hlutaðeigandi opinberir eftirlitsaðilar upplýsa almenning um eðli áhættunnar fyrir heilsu manna. Slíkar ráðstafanir opinbers eftirlitsaðila skulu miðast við eðli, alvarleika og umfang þeirrar áhættu sem um er að ræða. Tilgreina skal eins nákvæmlega og unnt er matvælin sem um er að ræða, tegund matvæla, þá áhættu sem kann að vera á ferðum og ráðstafanir sem hafa verið gerðar eða verða gerðar á næstunni til að fyrirbyggja, draga úr eða eyða þessari áhættu.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um opinbera birtingu niðurstaðna vegna eftirlits sem fram fer skv. 1. mgr.
    Jafnframt er ráðherra heimilt að setja með reglugerð reglur um birtingu niðurstaðna almenns matvælaeftirlits eða upplýsinga sem falla undir 18. gr. a. Ráðherra getur m.a. ákveðið að kæra fresti ekki réttaráhrifum opinberrar birtingar og jafnframt ákveðið að vissum upplýsingum sé haldið leyndum. Slíkar reglur skulu kveða á um framsetningu og inntak birtingarinnar, m.a. að birtingin sé rafræn og á hvaða tímamarki skuli birta slíkar upplýsingar. Heimilt er að birta niðurstöður eftirlits er varða eitt matvælafyrirtæki eða fleiri eftir atvikum.

22. gr.

    29. gr. laganna fellur brott.

23. gr.

    Í stað 30. gr. laganna koma fimm nýjar greinar, sem verða 30. gr. og 30. gr. a – 30. gr. d, svohljóðandi:

    a. (30. gr.)
    Opinberum eftirlitsaðila er heimilt að stöðva starfsemi að hluta eða í heild ef rökstuddur grunur er um að matvæli séu heilsuspillandi, óhæf til neyslu eða valdi tjóni á öðrum hagsmunum.
    Sama gildir ef um er að ræða starfsemi sem starfar án tilskilins leyfis eða hefur ekki sinnt tilkynningarskyldu skv. 9. gr.
    Einnig er opinberum eftirlitsaðila heimilt að gefa fyrirmæli um afmengun matvæla, stöðva eða takmarka framleiðslu og markaðssetningu matvæla og leggja hald á þau þegar rökstuddur grunur er um að matvælin uppfylli ekki ákvæði laga þessara eða stjórnvaldsreglna settra samkvæmt þeim. Þegar opinberir eftirlitsaðilar leggja hald á matvæli er þeim heimil förgun þeirra sé það talið nauðsynlegt.
    Þá getur opinber eftirlitsaðili jafnframt, til að knýja á um aðgerðir samkvæmt lögum þessum, stjórnvaldsreglum eða eigin fyrirmælum samkvæmt þessum ákvæðum, beitt eftirfarandi aðgerðum:
     a.      veitt áminningu,
     b.      veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta.
    Stöðvun starfsemi og förgun á vörum skal því aðeins beitt að um alvarlegt tilvik eða ítrekað brot sé að ræða eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests og er heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf. Sé um slík brot að ræða getur opinber eftirlitsaðili afturkallað leyfi viðkomandi matvælafyrirtækis til reksturs skv. 9. gr., sbr. 20. gr.

    b. (30. gr. a.)
    Þegar stjórnandi sinnir ekki fyrirmælum innan tiltekins frests getur opinber eftirlitsaðili ákveðið matvælafyrirtæki dagsektir þar til úrbætur hafa verið framkvæmdar. Dagsektir sem Matvælastofnun ákveður renna í ríkissjóð en dagsektir sem heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna ákveða skulu renna til rekstraraðila heilbrigðiseftirlits á viðkomandi svæði. Hámark dagsekta skal ákveðið í reglugerð sem ráðherra setur. Jafnframt er opinberum eftirlitsaðila heimilt að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef fyrirmæli um framkvæmd eru vanrækt og skal kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af viðkomandi opinberum eftirlitsaðila en innheimtast síðar hjá hlutaðeigandi matvælafyrirtæki. Kostnað og dagsektir má innheimta með fjárnámi án undanfarandi dóms eða sáttar.

    c. (30. gr. b.)
    Opinberum eftirlitsaðila skal heimill aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal töku sýna og myndatöku, að öllum þeim stöðum sem lög þessi og stjórnvaldsreglur ná yfir og er heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf. Einnig er opinberum eftirlitsaðila heimilt að taka sýni þar sem starfsemi fer fram og lög þessi og stjórnvaldsreglur settar samkvæmt þeim ná til.
    Stjórnendum er skylt að veita aðstoð við framkvæmd eftirlitsins og veita allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með framkvæmd laganna og ber þeim endurgjaldslaust að afhenda sýni sem talin eru nauðsynleg vegna eftirlits. Þá getur opinber eftirlitsaðili ákveðið að matvælafyrirtæki skuli greiða allan kostnað vegna þvingunarúræða sem framkvæmd eru samkvæmt lögum þessum og má innheimta slíkan kostnað með fjárnámi án dóms eða sáttar.

    d. (30. gr. c.)
    Telji Matvælastofnun svo alvarlega hættu stafa af tiltekinni starfrækslu eða notkun að aðgerð þoli enga bið er henni heimilt til bráðabirgða að stöðva starfsemi eða notkun þegar í stað, með aðstoð lögreglu ef þurfa þykir, en tilkynna skal það hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd.
    Matvælastofnun skal sjá um samhæfingu aðgerða samkvæmt lögum þessum þegar upp kemur bráð eða alvarleg matarsýking, matareitrun eða önnur vá svipaðs eðlis. Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga skulu þegar í stað tilkynna Matvælastofnun um slík mál og skal stofnunin að höfðu samráði við viðkomandi heilbrigðisnefnd taka ákvörðun um nauðsynlegar ráðstafanir. Starfsmenn Matvælastofnunar og heilbrigðisnefndir skulu jafnframt tilkynna um slík mál til yfirlæknis viðkomandi heilsugæslu og sóttvarnalæknis, sbr. 4. og 5. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 11. gr. sóttvarnalaga, nr. 19/1997.

    e. (30. gr. d.)
    Við meðferð mála skv. 30. gr., 30. gr. a, 30. gr. b og 30. gr. c skal fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaga og öðrum reglum stjórnsýsluréttar.

24. gr.

    30. gr. a laganna verður 30. gr. e.

25. gr.

    Heiti XI. kafla laganna verður: Varúðarráðstafanir, þvingunarúrræði og valdsvið.

26. gr.

    31. gr. laganna orðast svo:
    Brot gegn ákvæðum þessara laga og stjórnvaldsreglum settum samkvæmt þeim varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.
    Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á stjórnanda eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Þó skal lögaðili ekki sæta refsingu ef um óhapp er að ræða. Einnig má, með sömu skilyrðum, gera lögaðila sekt ef stjórnandi eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa gerast sekir um brot.
    Mál út af brotum skv. 1. og 2. mgr. skulu sæta meðferð samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

27. gr.

    Heiti XII. kafla laganna verður: Viðurlög.

28. gr.

    Á undan 32. gr. laganna kemur ný grein sem verður 31. gr. a, svohljóðandi:
    Ráðherra setur nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga með reglugerðum. Þar skal m.a. kveðið nánar á um framleiðslu og markaðssetningu matvæla, hollustuhætti í matvælaiðnaði, rekjanleika matvæla og umbúða, merkingar matvæla, notkun fullyrðinga í merkingum matvæla, efnainnihald matvæla, viðmiðunarmörk fyrir örverufræðilega þætti og aðskotaefni, neysluvatn, umbúðir og pökkun, erfðabreytt matvæli og merkingar þeirra, tilkynningarskyldu þeirra sem framleiða eða flytja inn umbúðir fyrir matvæli og efni eða efnablöndur sem nota á við framleiðslu og dreifingu matvæla, matvælaeftirlit, innra eftirlit matvælafyrirtækja, um sölu framleiðanda af eigin framleiðslu beint til neytenda, um innflutning dýraafurða frá þriðju ríkjum og starfsemi landamærastöðva, hraðviðvörunarkerfi og stjórnun vegna neyðartilvika og skipun ráðgefandi nefndar sem veitir vísindalega ráðgjöf um áhættumat.
    Einnig er ráðherra heimilt að innleiða með reglugerð reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002, frá 28. janúar 2002, um almennar meginreglur og kröfur um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 27. október 2007 nr. 134/2007. Reglugerðir EB sem teknar verða upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fela í sér breytingar eða viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002, frá 28. janúar 2002, er einnig heimilt að innleiða með reglugerð. Sama gildir um reglugerðir sem settar eru með tilvísun í reglugerðina.
    Þá er ráðherra heimilt að innleiða með reglugerð reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 852/2004, frá 29. apríl 2004, um hollustuhætti í matvælaiðnaði, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 853/2004, frá 29. apríl 2004, um sérstakar reglur um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 854/ 2004, frá 29. apríl 2004, um sértækar reglur um skipulag opinbers eftirlits með afurðum úr dýraríkinu, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 882/2004, frá 29. apríl 2004, um opinbert eftirlit til að tryggja sannprófun þess að lög um fóður og matvæli og reglur um dýraheilbrigði og velferð dýra séu virtar, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 27. október 2007 nr. 137/2007. Reglugerðir EB sem teknar verða upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fela í sér breytingar eða viðbætur við framangreindar reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins (EB) er einnig heimilt að innleiða með reglugerð. Sama gildir um reglugerðir sem settar eru með tilvísun í þessar reglugerðir EB.
    Ráðherra er jafnframt heimilt að innleiða með reglugerð tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2004/41/EB frá 21. apríl 2004, um niðurfellingu tiltekinna tilskipana sem varða hollustuhætti í tengslum við matvælaiðnað og heilbrigðisskilyrði við framleiðslu og markaðssetningu tiltekinna afurða úr dýraríkinu sem eru ætlaðar til manneldis og um breytingu á tilskipunum ráðsins 89/662/EBE og 92/118/EBE og ákvörðun ráðsins 95/408/EB, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 27. október 2007 nr. 137/2007.

29. gr.

    Heiti XIII. kafla laganna verður: Reglugerðarheimild, gildistaka o.fl.

30. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ráðherra er heimilt að fresta innleiðingu efnisákvæða reglugerða sem getið er í 3. mgr. 31. gr. a og varða kjöt, mjólk og egg til 1. maí 2011. Sama gildir um hráar afurðir úr þessum matvælategundum og aðrar unnar afurðir úr mjólk.

II. KAFLI
Breytingar á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim,
nr. 25/1993, með síðari breytingum.

31. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist eftirfarandi skilgreining, í stafrófsröð: Aukaafurðir úr dýrum: Heil hræ, skrokkar, skrokkhlutar, líffæri eða aðrar afurðir af dýrum sem ekki eru hæfar eða ætlaðar til manneldis.

32. gr.

    10. gr. laganna orðast svo:
    Til að hindra að dýrasjúkdómar berist til landsins er óheimilt að flytja til landsins eftirtaldar vörutegundir:
     a.      hráar og lítt saltaðar sláturafurðir, bæði unnar og óunnar, alidýraáburð og rotmassa blandaðan alidýraáburði,
     b.      kjötmjöl, beinamjöl, blóðmjöl og fitu sem fellur til við vinnslu þessara efna,
     c.      hey og hálm,
     d.      hvers konar notaðar umbúðir, reiðtygi, vélar, tæki, áhöld og annað sem hefur verið í snertingu við dýr, dýraafurðir og dýraúrgang,
     e.      hvers konar notaðan búnað til stangveiða.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er ráðherra heimilt að leyfa innflutning á vörum þeim sem taldar eru upp í a–e-lið, að fengum meðmælum Matvælastofnunar, enda þyki sannað að ekki berist smitefni með þeim er valda dýrasjúkdómum. Ráðherra getur ákveðið með reglugerð að ákvæði 1. mgr. skuli ekki gilda fyrir einstakar vörutegundir sem þar eru taldar upp ef varan sótthreinsast við tilbúning eða sérstök sótthreinsun er framkvæmd fyrir innflutning og vörunni fylgir fullnægjandi vottorð um uppruna, vinnslu og sótthreinsun. Ráðherra er heimilt að banna með auglýsingu innflutning á vörum sem hætta telst á að smitefni geti borist með og hætta telst geta stafað af varðandi heilbrigði dýra.
    Um framkvæmd þessarar greinar fer einnig eftir ákvæðum samningsins um beitingu ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna í 1. viðauka A við samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

33. gr.

    13. gr. laganna orðast svo:
    Aukaafurðir dýra, sem ekki eru ætlaðar til manneldis, skal meðhöndla, geyma, flytja, vinna eða eyða á þann hátt að ekki valdi hættu á útbreiðslu smitefna eða annarra skaðlegra efna. Þeir sem meðhöndla, geyma, flytja eða vinna aukaafurðir dýra skulu sækja um leyfi Matvælastofnunar áður en starfsemin hefst. Ef aukaafurðir dýra teljast til úrgangs gilda um starfsemina ákvæði laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.
    Vinnslu-, geymslu-, lífgas- og myltingarstöðvar, svo og stöðvar fyrir milliefni og líffituefni, sem ætlað er að vinna aukaafurðir úr dýrum, þ.m.t. stöðvar sem annast vinnslu úr sjávar- og eldisafurðum, skulu hafa starfsleyfi frá Matvælastofnun áður en rekstur hefst.
    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um aukaafurðir dýra sem ekki eru ætlaðar til manneldis, svo sem meðferð slíkra aukaafurða, flokkun og starfsleyfi vegna þeirra, sbr. 29. gr. a.

34. gr.

    Við 25. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er heimilt með reglugerð að skilgreina arfgerðir þeirra líflamba sem má ekki flytja yfir varnarlínur, þegar um er að ræða endurnýjun bústofns eftir niðurskurð vegna riðuveiki.

35. gr.

    Á eftir 29. gr. laganna kemur ný grein sem verður 29. gr. a, svohljóðandi:
    Heimilt er ráðherra að innleiða með reglugerð, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/2002 frá 3. október 2002 um heilbrigðisreglur um aukaafurðir úr dýrum sem ekki eru ætlaðar til manneldis, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 27. október 2007 nr. 135/2007 og nr. 136/2007. Reglugerðir EB sem teknar verða upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fela í sér breytingar eða viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/2002 er einnig heimilt að innleiða með reglugerð. Sama gildir um reglugerðir sem settar eru með tilvísun í reglugerðina.

III. KAFLI
Breytingar á lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr,
nr. 66/1998, með síðari breytingum.

36. gr.

    1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Dýralæknar samkvæmt lögum þessum eru þeir dýralæknar er lokið hafa prófi frá dýralæknaháskóla sem er viðurkenndur af íslenskum stjórnvöldum. Jafnframt teljast þeir dýralæknar sem heimild hafa til að starfa hér á landi undir starfsheiti heimalands síns í samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins eða stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setur nánari reglur um leyfisveitingu, menntunarkröfur og viðurkenndar menntastofnanir. Ef um er að ræða próf frá dýralæknaháskóla sem er utan Evrópska efnahagssvæðisins og Sviss skal leita umsagnar dýralæknaráðs áður en leyfi er veitt samkvæmt lögunum.

37. gr.

    11. gr. laganna orðast svo:
    Matvælastofnun skal hafa sex umdæmisskrifstofur og við hverja þeirra skal héraðsdýralæknir ráðinn til starfa, en einnig er heimilt að ráða dýralækna og aðra eftirlitsmenn til aðstoðar ef þess er þörf vegna eftirlits og sjúkdómavarna. Skrifstofur Matvælastofnunar skulu vera í eftirfarandi umdæmum:
     1.      Suðvesturumdæmi: Garðabær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Kjósarhreppur, Kópavogsbær, Mosfellsbær, Reykjavíkurborg, Seltjarnarneskaupstaður, Sveitarfélagið Álftanes, Grindavíkurbær, Reykjanesbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður og Sveitarfélagið Vogar.
     2.      Vesturumdæmi: Akraneskaupstaður, Árneshreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Borgarbyggð, Dalabyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur, Kaldrananeshreppur, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Hvalfjarðarsveit, Ísafjarðarbær, Reykhólahreppur, Skorradalshreppur, Snæfellsbær, Stykkishólmsbær, Strandabyggð, Súðavíkurhreppur, Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð.
     3.      Norðvesturumdæmi: Akrahreppur, Blönduósbær, Bæjarhreppur, Húnavatnshreppur, Húnaþing vestra, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður og Sveitarfélagið Skagaströnd.
     4.      Norðausturumdæmi: Akureyrarkaupstaður, Arnarneshreppur, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Fjallabyggð, Grímseyjarhreppur, Grýtubakkahreppur, Hörgárbyggð, Langanesbyggð, Norðurþing, Skútustaðahreppur, Svalbarðshreppur, Svalbarðsstrandarhreppur, Tjörneshreppur og Þingeyjarsveit.
     5.      Austurumdæmi: Borgarfjarðarhreppur, Breiðdalshreppur, Djúpavogshreppur, Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður, Sveitarfélagið Hornafjörður og Vopnafjarðarhreppur.
     6.      Suðurumdæmi: Ásahreppur, Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Hveragerðisbær, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Skaftárhreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Sveitarfélagið Árborg, Sveitarfélagið Ölfus og Vestmannaeyjabær.
    Héraðsdýralæknar skulu eingöngu sinna opinberum eftirlitsstörfum og hafa m.a. eftirlit með sláturdýrum, sláturafurðum og afurðastöðvum, eftirlit með heilbrigði, hirðingu, aðbúnaði og aðstöðu nautgripa á búum þar sem framleidd er mjólk til sölu og lyfjanotkun vegna búfjár, sbr. ákvæði 4. mgr. 11. gr. lyfjalaga. Einnig ber þeim að hafa með höndum framkvæmd sóttvarnaaðgerða í sínum umdæmum. Þeir skulu annast eftirlit með velferð búfjár í samræmi við lög um búfjárhald. Þá ber þeim að hafa eftirlit með búfé og öðrum dýrum eftir því sem lög ákveða. Matvælastofnun getur falið héraðsdýralækni og öðrum starfsmönnum umdæmisskrifstofu stofnunarinnar að annast verkefni í öðrum umdæmum þegar þörf er á og einnig önnur eftirlitsverkefni sem stofnuninni eru falin.
    Að fengnum tillögum Matvælastofnunar setur ráðherra reglur um gjald sem skal innheimt fyrir eftirlit og skoðanir héraðsdýralækna og annarra dýralækna og eftirlitsmanna sem starfa við umdæmisskrifstofur stofnunarinnar.

38. gr.

    12. gr. laganna orðast svo:
    Til að tryggja almenna þjónustu við dýraeigendur skal dýralæknir jafnan vera á bakvakt utan venjulegs dagvinnutíma á hverju vaktsvæði, sbr. 3. mgr. Héraðsdýralæknar, hver í sínu umdæmi, skipuleggja bakvaktir í samráði við sjálfstætt starfandi dýralækna sem þar starfa og er heimilt að skipta bakvakt innan sama vaktsvæðis milli fleiri dýralækna samtímis. Við skipulagningu bakvakta er ætlast til að tekið sé mið af vegalengdum og umfangi þjónustu innan viðkomandi vaktsvæða. Komi upp ágreiningur um skiptingu bakvakta innan vaktsvæða skal leita úrskurðar Matvælastofnunar.
    Fyrir bakvaktaþjónustu greiðist samkvæmt samningi Dýralæknafélags Íslands við Matvælastofnun, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og fjármálaráðuneyti.
    Vaktsvæði dýralækna eru sem hér greinir:
     1.      Garðabær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Kjósarhreppur, Kópavogsbær, Mosfellsbær, Reykjavíkurborg, Seltjarnarneskaupstaður, Sveitarfélagið Álftanes, Grindavíkurbær, Reykjanesbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður og Sveitarfélagið Vogar.
     2.      Akraneskaupstaður, Borgarbyggð, Hvalfjarðarsveit og Skorradalshreppur.
     3.      Eyja- og Miklaholtshreppur, Grundarfjarðarbær, Helgafellssveit, Snæfellsbær og Stykkishólmsbær.
     4.      Dalabyggð og Reykhólahreppur.
     5.      Árneshreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Kaldrananeshreppur, Strandabyggð, Súðavíkurhreppur, Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð.
     6.      Akrahreppur, Blönduósbær, Bæjarhreppur, Húnavatnshreppur, Húnaþing vestra, Skagabyggð, Sveitarfélagið Skagafjörður og Sveitarfélagið Skagaströnd.
     7.      Akureyrarkaupstaður, Arnarneshreppur, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Fjallabyggð, Grímseyjarhreppur, Grýtubakkahreppur, Hörgárbyggð og Svalbarðsstrandarhreppur.
     8.      Langanesbyggð, Norðurþing, Skútustaðahreppur, Svalbarðshreppur, Tjörneshreppur og Þingeyjarsveit.
     9.      Borgarfjarðarhreppur, Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður og Vopnafjarðarhreppur.
     10.      Breiðdalshreppur og Djúpavogshreppur.
     11.      Sveitarfélagið Hornafjörður.
     12.      Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur.
     13.      Ásahreppur, Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Hveragerðisbær, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Sveitarfélagið Árborg, Sveitarfélagið Ölfus og Vestmannaeyjabær.

39. gr.

    13. gr. laganna orðast svo:
    Í því skyni að tryggja dreifðum byggðum reglubundna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu skal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setja reglugerð um hvernig tryggja skal starfsaðstöðu og greiðslu staðaruppbótar og/eða ferðakostnaðar dýralæknis sem tekur að sér að veita slíka þjónustu. Við ákvörðun um hvar þörf er á opinberum greiðslum fyrir dýralæknaþjónustu skal ráðherra hafa samráð við Dýralæknafélag Íslands, Bændasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og Matvælastofnun.

40. gr.

    14. gr. laganna orðast svo:
    Matvælastofnun skal eftir þörfum ráða sérgreinadýralækna til að sinna verkefnum m.a. á sviði sóttvarna, dýravelferðar, dýralyfja, dýraheilbrigðis og heilbrigðis dýraafurða.
    Sérgreinadýralæknar skulu vinna að bættu heilbrigði búfjár og sjúkdómavörnum með sértækum aðgerðum, almennri fræðslu, forvarnastarfi og eftirliti með framkvæmd sóttvarnaaðgerða. Sérgreinadýralæknar skulu hafa frumkvæði að sýnatökum, rannsóknum og öðrum aðgerðum til að stuðla að heilbrigði og velferð dýra og öryggi búfjárafurða.

41. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Störf héraðsdýralækna hjá Matvælastofnun eru lögð niður við gildistöku þessara laga. Viðkomandi starfsmönnum skulu boðin störf hjá Matvælastofnun. Ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, gildir ekki um störf sem ráðið er í samkvæmt þessu ákvæði.
    Ráðherra er heimilt að fela héraðsdýralækni að sinna tímabundið almennri þjónustu við dýraeigendur á tilteknu svæði ef heilbrigði eða velferð dýra er stefnt í hættu enda fáist ekki dýralæknar til að sinna slíkri þjónustu við dýraeigendur á umræddu svæði. Heimild ráðherra samkvæmt þessari málsgrein fellur úr gildi 1. nóvember 2013.

IV. KAFLI
Breytingar á lögum um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu,
heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum,
nr. 96/1997, með síðari breytingum.

42. gr.

    Við lögin bætist ný grein sem verður 4. gr. a, svohljóðandi:
    Lög nr. 93/1995, um matvæli, gilda um slátrun og sláturafurðir. Sama á við um reglugerðir sem settar eru með heimild í þeim lögum.

43. gr.

    11. gr. laganna orðast svo:
    Heilbrigðisskoðun skal fara fram á öllum sláturdýrum áður en slátrað er. Skoðunina skal framkvæma innan 24 klukkustunda frá komu í sláturhús og innan 24 klukkustunda fyrir slátrun. Þá skal heilbrigðisskoðun á öllum sláturafurðum fara fram í sláturhúsinu áður en frekari vinnsla fer fram eða þær eru afhentar til dreifingar. Að skoðun lokinni skal merkja allar sláturafurðirnar samkvæmt reglugerð er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setur um heilbrigðisskoðun og merkingu á sláturafurðum að fengnum tillögum Matvælastofnunar.
    Fyrir eftirlit samkvæmt lögum þessum skulu sláturleyfishafar greiða eftirlitsgjald sem ekki er hærra en raunkostnaður við eftirlitið til að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum við eftirlitið:
     a.      launum starfsfólks sem sinnir störfum vegna eftirlits,
     b.      öðrum kostnaði vegna starfsfólks, þ.m.t. vegna aðstöðu, áhalda, búnaðar, þjálfunar, ferðalaga og tengds kostnaðar,
     c.      kostnaði við greiningu á rannsóknastofu og sýnatöku.
    Matvælastofnun framkvæmir viðbótareftirlit, þar á meðal rannsóknir, með sláturafurðum og sláturdýrum þegar tiltekin starfsemi eða afurðir sláturleyfishafa eða framleiðanda eru ekki taldar uppfylla þær almennu og eðlilegu kröfur sem gerðar eru til meðferðar eða heilbrigðis sláturafurða vegna vísbendinga um smitefni, mengun eða brot gegn heilbrigðis- eða starfsreglum eða skyldra atvika. Raunkostnað af viðbótareftirliti ber sláturleyfishafi eða framleiðandi, eftir því hvaða starfsemi sætir viðbótareftirliti. Framkvæma má viðbótareftirlit þrátt fyrir að sláturafurðir hafi þegar hlotið heilbrigðisvottun.
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd og inntak eftirlits og skal gefa út gjaldskrá fyrir eftirlitið að fengnum tillögum Matvælastofnunar. Ráðherra skal kynna Landssamtökum sláturleyfishafa og Bændasamtökum Íslands efni og forsendur reglugerðar og gjaldskrár með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara og óska eftir umsögnum þeirra. Hafi umsagnir þeirra ekki borist ráðherra að mánuði liðnum er honum þó heimilt að setja reglugerð og gjaldskrá án umsagna þeirra. Miða skal við að gjaldskrá verði gefin út með eins árs millibili og taki mið af rekstraruppgjöri eftirlits fyrir heilt rekstrarár.
    Við gerð reglugerðar og gjaldskrár skal ráðherra taka tillit til eftirfarandi atriða:
     a.      hvers konar slátrun er um að ræða og viðkomandi áhættuþátta,
     b.      hagsmuna sláturleyfishafa með litla framleiðslu,
     c.      hefðbundinna aðferða við framleiðslu, vinnslu og dreifingu,
     d.      þarfa sláturleyfishafa með aðsetur á svæðum sem líða fyrir tilteknar landfræðilegar takmarkanir.
    Eftirlitsgjald skal greiða samkvæmt framlögðum reikningi Matvælastofnunar. Innheimta má eftirlitsgjaldið með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Matvælastofnun er heimilt að krefjast dráttarvaxta af ógreiddri fjárkröfu vegna eftirlits frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi. Einnig er heimilt að taka gjald vegna raunkostnaðar við sýnatöku og rannsóknir á sláturdýrum og afurðum sem slátrað er með heimild í 4. mgr. 5. gr.
    Ákvæði þessarar greinar gilda eftir því sem við á um innheimtu gjalds fyrir eftirlit á landamærastöðvum með innflutningi frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Þá skulu ákvæði þessarar greinar einnig gilda eftir því sem við á um eftirlitsgjöld Matvælastofnunar vegna eftirlits sem hún felur faggiltum aðilum að framkvæma samkvæmt lögum þessum.

44. gr.

    13. gr. laganna fellur brott.

45. gr.

    Á eftir 17. gr. laganna kemur ný grein, 17. gr. a, svohljóðandi:
    Ráðherra setur með reglugerð ákvæði um meðferð aukaafurða úr sláturdýrum sem skal vera í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/2002, frá 3. október 2002, um heilbrigðisreglur um aukaafurðir úr dýrum sem ekki eru ætlaðar til manneldis.

46. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um slátrun og sláturafurðir.

V. KAFLI
Breytingar á lögum um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða,
nr. 55/1998, með síðari breytingum.

47. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Skilgreining á „fiskafurðum“ í 1. mgr. orðast svo: Fiskafurðir: Matvæli sem unnin eru að öllu leyti eða að hluta úr sjávarafla og hafbeitar-, vatna- og eldisfiski.
     b.      Skilgreining á „sjávarafurðum“ í 1. mgr. orðast svo: Sjávarafurðir: Sjávarafli og fiskafurðir eins og skilgreint er hér að framan.
     c.      Skilgreining á „neysluvatni“ í 2. mgr. orðast svo: Neysluvatn: Vatn í upphaflegu ástandi eða eftir meðhöndlun, án tillits til uppruna þess og hvort sem það kemur úr dreifikerfi, tönkum, flöskum eða öðrum ílátum og er ætlað til neyslu, eða matargerðar, einnig allt vatn sem notað er í matvælafyrirtækjum, nema unnt sé að sýna fram á að gæði þess vatns sem notað er hafi ekki áhrif á heilnæmi framleiðslunnar.
     d.      Við 2. mgr. bætast eftirfarandi skilgreiningar á hugtökum í viðeigandi stafrófsröð:
                  1.      Smásala: Meðhöndlun og/eða vinnsla sjávarafurða og geymsla þeirra á staðnum þar sem þær eru seldar eða afhentar neytanda, þ.m.t. dreifingarstöðvar, matsölufyrirtæki, mötuneyti starfsfólks, veitingahús og önnur samsvarandi matarþjónusta ásamt verslunum, dreifingarstöðvum stórmarkaða og heildsölumarkaðir.
                  2.      Stjórnandi: Einstaklingur eða lögaðili sem er ábyrgur fyrir því að farið sé að kröfum samkvæmt lögum og stjórnvaldsreglum í fyrirtækjum sem annast meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða undir hans stjórn.

48. gr.

    Á eftir 4. gr. laganna kemur ný grein, 4. gr. a, svohljóðandi:
    Lög nr. 93/1995, um matvæli, gilda um sjávarafurðir. Sama á við um reglugerðir sem settar eru með heimild í þeim lögum.

49. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „íslensk yfirvöld“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: lög og stjórnvaldsreglur.
     b.      Í stað orðanna „af íslenskum yfirvöldum“ í 2. mgr. kemur: í lögum og stjórnvaldsreglum.
     c.      Í stað orðanna „íslensk yfirvöld heimila“ í 3. mgr. kemur: heimiluð eru í lögum og stjórnvaldsreglum.

50. gr.

    1. mgr. 9. gr. laganna fellur brott.

51. gr.

    Við 2. málsl. 11. gr. laganna bætist: og skulu merkingar að öðru leyti vera í samræmi við 13. gr. a laga um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum.

52. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Orðin „framleiðslustöðvar dýrafóðurs úr sjávarafurðum“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      2. og 3. mgr. orðast svo:
                  Fiskiskip sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni, sbr. lög um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, önnur en vinnsluskip, aðgerðarþjónustur og kæli- og frystigeymslur, svo og fiskmarkaðir sem aðeins selja sjávarafla í heildsölu, skulu hafa starfsleyfi.
                  Matvælastofnun veitir vinnsluleyfi og starfsleyfi samkvæmt þessari grein að uppfylltum kröfum um hreinlæti, hönnun og búnað, sbr. 15. gr. ef við á. Í vinnsluleyfum skal tilgreina þær vinnslugreinar sem þau ná til.

53. gr.

    Í stað orðanna „Forsvarsmenn vinnslustöðva“ í 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: Stjórnendur vinnslustöðva, skipa og annarra starfsstöðva.

54. gr.

    16. gr. laganna orðast svo:
    Matvælastofnun er heimilt að fela aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum um faggildingu o.fl. að annast tiltekin verkefni við framkvæmd eftirlits samkvæmt lögum þessum og skal gerður um það sérstakur samningur í hverju tilviki. Þeir skulu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd eftirlitsins og leynt á að fara. Faggiltir aðilar skulu rækja eftirlit sitt á vegum Matvælastofnunar sem fylgist með starfi þeirra og sannreynir að þeir ræki skyldur sínar á fullnægjandi hátt, enda skulu þeir veita Matvælastofnun upplýsingar um starfsemi og ástand fyrirtækja á þann hátt sem Matvælastofnun ákveður.
    Verði misbrestur á að hinir faggiltu aðilar ræki almennt skyldur sínar samkvæmt samningi sínum við stofnunina, vanræki þeir upplýsingaskyldu sína eða gefi rangar upplýsingar veitir Matvælastofnun þeim áminningu eða riftir við þá samningi ef sakir eru miklar.
    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um skilyrði og störf faggiltra aðila samkvæmt lögum þessum.
    Jafnframt getur ráðherra sett reglur um hvernig innra eftirlit, sem starfrækt er samkvæmt vottuðu gæðakerfi, getur verið þáttur í opinberu matvælaeftirliti.

55. gr.

    17. gr. laganna orðast svo:
    Stjórnendum vinnslustöðva, skipa og annarra starfsstöðva er skylt að veita Matvælastofnun og þeim faggiltu aðilum sem falin eru tiltekin verkefni varðandi eftirlit samkvæmt samningi við Matvælastofnun allar þær upplýsingar og þá aðstoð sem nauðsynleg er við framkvæmd eftirlits og skoðunar, þ.m.t. aðgang að hverjum þeim stað þar sem sjávarafurðir eru unnar eða geymdar. Matvælastofnun og faggiltir aðilar fara með upplýsingar þær sem leynt eiga að fara sem trúnaðarmál.

56. gr.

    Orðin „eða fóðurs“ í 1. mgr. 20. gr. laganna falla brott.

57. gr.

    21. gr. laganna orðast svo:
    Matvælastofnun er heimil skyndiskoðun og sýnataka til rannsókna á lifandi fiski og sjávarafurðum sem fluttar eru til Íslands frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins enda sé rökstuddur grunur um að fiskurinn eða afurðirnar séu heilsuspillandi eða óhæfar til neyslu.
    Viðtakandi sjávarafurða og lifandi fisks skal halda dagbók yfir mótteknar sendingar og ganga úr skugga um að samræmi sé milli þeirra og meðfylgjandi skjala. Varðveita skal vottorð og önnur skilríki þeim viðkomandi í eitt ár svo að unnt sé að framvísa þeim að kröfu Matvælastofnunar.

58. gr.

    22. gr. laganna orðast svo:
    Allur innflutningur lifandi fisks og sjávarafurða frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins skal fara um landamærastöðvar.
    Tilkynna skal Matvælastofnun fyrir fram um slíkan innflutning þar sem getið er um magn, tegund, áfangastað og hvenær áætlað er að sending berist.
    Á landamærastöðvum eða í þeim höfnum sem heimild hafa fengið fyrir innflutningi skal fara fram athugun á skjölum og samanburður á þeim og sendingu til að sannreyna uppruna hennar og ákvörðunarstað.
    Matvælastofnun skal kanna ástand afurðanna og taka sýni til rannsókna á rannsóknastofu. Skal Matvælastofnun í þeim efnum fylgja gildandi reglum um tíðni skoðana og um sýnatökur. Komi í ljós við skynmat eða rannsókn að þær séu óhæfar til manneldis skal eyða þeim. Heimilt er þó að endursenda afurðina að fengnu leyfi yfirvalda í framleiðslulandi eða að nýta hana í mjöl enda sé hún laus við eiturefni.
    Innflutningur á sjávarafurðum frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins er aðeins heimill frá þeim framleiðendum og vinnsluskipum sem hlotið hafa viðurkenningu þess efnis að framleiðsla og eftirlit með sjávarafurðum uppfylli kröfur Evrópska efnahagssvæðisins. Ráðherra getur í reglugerð kveðið á um að slíkt skuli einnig eiga við um fiskiskip þar sem aðeins fer fram frysting um borð á heilum eða hausskornum fiski eða heilfrysting rækju.
    Innflytjandi er ábyrgur fyrir þeim kostnaði sem getur fallið til við að endursenda vöru, geyma hana, taka hana til annarra nota eða eyða henni.

59. gr.

    Orðin „eða að nýta hana í fiskimjöl“ í 4. málsl. 2. mgr. 26. gr. laganna falla brott.

60. gr.

    28. gr. laganna fellur brott ásamt fyrirsögn á undan greininni.

61. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 30 gr. laganna fellur brott.

62. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: M.a. skal ráðherra setja gjaldskrá fyrir útgáfu starfsleyfa og útgáfu vinnsluleyfa, staðfestinga og vottorða vegna framkvæmdar á lögum þessum, svo og fyrir skráningu og móttöku umsókna.
     b.      2. mgr. fellur brott.

63. gr.

    Á eftir 31. gr. laganna kemur ný grein, 31. gr. a, svohljóðandi:
    Fyrir eftirlit samkvæmt lögum þessum skulu framleiðendur greiða eftirlitsgjald sem ekki er hærra en raunkostnaður við eftirlit til að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum við eftirlitið:
     a.      launum starfsfólks sem sinnir störfum vegna eftirlits,
     b.      öðrum kostnaði vegna starfsfólks, þ.m.t. vegna aðstöðu, áhalda, búnaðar, þjálfunar, ferðalaga og tengds kostnaðar,
     c.      kostnaði við greiningu á rannsóknastofu og sýnatöku.
    Matvælastofnun framkvæmir viðbótareftirlit með sjávarafurðum, eldisafurðum og aukaafurðum þegar tiltekin starfsemi eða afurðir eru ekki taldar uppfylla þær almennu og eðlilegu kröfur sem gerðar eru til meðferðar eða heilbrigðis afurða vegna vísbendinga um smitefni, mengun eða brot gegn heilbrigðis- eða starfsreglum eða skyldra atvika. Raunkostnað af viðbótareftirliti ber framleiðandi eftir því hvaða starfsemi sætir viðbótareftirliti. Framkvæma má viðbótareftirlit þrátt fyrir að afurðir hafi þegar hlotið heilbrigðisvottun.
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd og inntak eftirlits Matvælastofnunar og faggiltra aðila og skal gefa út gjaldskrá fyrir eftirlitið að fengnum tillögum Matvælastofnunar. Ráðherra skal kynna hlutaðeigandi hagsmunasamtökum efni og forsendur reglugerðar og gjaldskrár með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara og óska eftir umsögnum þeirra. Hafi umsagnir þeirra ekki borist ráðherra að mánuði liðnum er honum þó heimilt að setja reglugerð og gjaldskrá án umsagna þeirra.
    Við gerð reglugerðar og gjaldskrár skal ráðherra taka tillit til eftirfarandi atriða:
     a.      hvers konar fyrirtæki er um að ræða og viðkomandi áhættuþátta,
     b.      hagsmuna fyrirtækja með litla framleiðslu,
     c.      hefðbundinna aðferða við framleiðslu, vinnslu og dreifingu,
     d.      þarfa fyrirtækja með aðsetur á svæðum sem líða fyrir tilteknar landfræðilegar takmarkanir.
    Eftirlitsgjald skal greiða samkvæmt framlögðum reikningi Matvælastofnunar.
    Innheimta má eftirlitsgjald með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Matvælastofnun er heimilt að krefjast dráttarvaxta af ógreiddri fjárkröfu vegna eftirlits frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.
    Einnig er heimilt að taka gjald vegna raunkostnaðar við sýnatöku og rannsóknir á afurðum.
    Ákvæði þessarar greinar gilda eftir því sem við á um innheimtu gjalds fyrir eftirlit á landamærastöðvum með innflutningi frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Þá skulu ákvæði þessarar greinar einnig gilda eftir því sem við á um eftirlitsgjöld Matvælastofnunar vegna eftirlits sem hún felur faggiltum aðilum að framkvæma skv. 16. gr.

64. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um sjávarafurðir.

VI. KAFLI
Breytingar á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru,
nr. 22/1994, með síðari breytingum.

65. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Tilgangur laga þessara er að tryggja svo sem kostur er öryggi og heilnæmi fóðurs og gæði áburðar og sáðvöru.

66. gr.

    Á eftir 2. gr. laganna kemur ný grein, 2. gr. a, svohljóðandi:
    Í lögum þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     1.      Aukaafurðir úr dýrum eru heil hræ, skrokkar, skrokkhlutar, líffæri eða aðrar afurðir af dýrum sem ekki eru hæfar eða ætlaðar til manneldis.
     2.      Aukefni eru efni, efnablöndur eða örverur önnur en fóðurefni eða forblöndur sem eru notaðar í fóður eða vatn í því skyni að:
       a.      bæta eiginleika fóðurs eða dýraafurða eða
       b.      bæta frumefnum í fóðrið og stuðla að því að ná tilteknum næringarmarkmiðum eða mæta sérstakri tilfallandi næringarþörf dýra eða
       c.      fullnægja næringarþörf dýra eða bæta búfjárframleiðslu, einkum með því að hafa áhrif á örveruflóru meltingarvegarins eða niðurbrotshæfni fóðurs eða
       d.      koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum áhrifum búfjárhalds eða bæta umhverfi dýra eða
       e.      verjast hníslum og/eða vefsvipungum.
     3.      Áhættugreining er ferli sem er samsett af þremur innbyrðis tengdum þáttum, þ.e. áhættumati, áhættustjórnun og áhættukynningu.
     4.      Forblöndur eru blöndur aukefna í fóðri eða blöndur eins eða fleiri aukefna í fóðri við fóðurefni eða vatn, sem notuð eru sem burðarefni, ekki ætluð til nota beint sem fóður.
     5.      Fóður er hvers konar efni eða vörur, einnig aukefni, hvort sem þau eru fullunnin, unnin að hluta eða óunnin, sem ætluð eru til fóðrunar dýra. Til fóðurs teljast einnig vörur unnar úr fiski eða fiskúrgangi.
     6.      Fóður-, áburðar- eða sáðvörufyrirtæki er fyrirtæki eða einstaklingur sem starfar við framleiðslu, vinnslu, geymslu, flutning eða dreifingu fóðurs, áburðar og sáðvöru, þ.m.t. framleiðsla, vinnsla eða geymsla framleiðanda á slíkum vörum til notkunar á eigin bújörð, hvort sem fyrirtækið er rekið í ágóðaskyni eður ei og hvort sem það er einkarekið eða opinbert fyrirtæki.
     7.      Markaðssetning fóðurs er að hafa umráð yfir fóðri með sölu fyrir augum, þ.m.t. að bjóða það til sölu eða afhendingar í öðru formi, gegn gjaldi eða endurgjaldslaust, og sjálf salan, dreifingin eða önnur form afhendingar.
     8.      Rekjanleiki fóðurs er sá möguleiki að rekja feril fóðurs, dýra sem gefa af sér afurðir til manneldis og efna sem nota á eða vænst er að verði notuð í fóður og matvæli í gegnum öll stig framleiðslu, vinnslu og dreifingar.
     9.      Stjórnandi fóður-, áburðar- eða sáðvörufyrirtækis er einstaklingur og lögaðili sem er ábyrgur fyrir því að farið sé að kröfum samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum um fóður, áburð eða sáðvöru í fyrirtækjum undir þeirra stjórn.

67. gr.

    2. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.

68. gr.

    4. gr. laganna orðast svo:
    Fóður-, áburðar- eða sáðvörufyrirtæki skulu tilkynna Matvælastofnun um starfsemi sína áður en starfsemi hefst. Óheimilt er að skrá fóður-, áburðar- eða sáðvörufyrirtæki sem ekki sýna fram á fullnægjandi aðstöðu fyrir þá starfsemi sem tilkynnt er um.
    Fóðurfyrirtæki sem nota aukefni eða forblöndur í fóðurvörur eða vinna fóður úr aukaafurðum dýra skulu hafa starfsleyfi frá Matvælastofnun, og skulu þau sækja um starfsleyfi áður en starfsemi hefst. Heimilt er að skilyrða starfsleyfi. Ef einnig er kveðið á um starfsleyfisskyldu í lögum um matvæli eða sérlögum fyrir starfsemi sem fellur einnig undir ákvæði þessara laga skal Matvælastofnun gefa út eitt starfsleyfi á grundvelli laganna.
    Gefa skal út starfsleyfi til tiltekins tíma, enda uppfylli starfsemin skilyrði laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem um hana gilda. Óheimilt er að hefja starfsleyfisskylda starfsemi hafi starfsleyfi fyrir hana ekki verið gefið út. Stjórnanda ber að veita Matvælastofnun upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á starfsemi sem varðað geta ákvæði starfsleyfis með hæfilegum fyrirvara. Matvælastofnun er heimilt að endurskoða starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna, svo sem ef breytingar verða á rekstrinum eða vegna tækniþróunar eða breytinga á reglum um öryggi fóðurs eða framkvæmd fóðureftirlits.

69. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 6. gr. a, svohljóðandi:
    Leiki rökstuddur grunur á að tiltekið fóður, áburður eða sáðvara hafi í för með sér áhættu fyrir heilbrigði manna eða dýra skal Matvælastofnun upplýsa almenning um eðli áhættunnar fyrir heilsu dýra eða manna. Slíkar ráðstafanir Matvælastofnunar skulu miðast við eðli, alvarleika og umfang áhættunnar. Tilgreina skal eins nákvæmlega og unnt er fóður, áburð og sáðvöru sem um er að ræða, tegund vörunnar, þá áhættu sem kann að vera á ferðum og ráðstafanir sem hafa verið gerðar eða verða gerðar á næstunni til að fyrirbyggja, draga úr eða eyða þessari áhættu.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um opinbera birtingu niðurstaðna eftirlits skv. 1. mgr.
    Jafnframt er ráðherra heimilt að setja með reglugerð reglur um birtingu niðurstaðna almenns eftirlits með fóðri, áburði eða sáðvöru. Ráðherra getur m.a. ákveðið að kæra fresti ekki réttaráhrifum opinberrar birtingar og jafnframt ákveðið að vissum upplýsingum sé haldið leyndum. Slíkar reglur skulu kveða á um framsetningu og inntak birtingarinnar, m.a. að birtingin sé rafræn og á hvaða tímamarki skuli birta slíkar upplýsingar. Heimilt er að birta niðurstöður eftirlits er varða eitt fyrirtæki eða fleiri í senn eftir atvikum.

70. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Til þess að tryggja framkvæmd laga þessara setur ráðherra reglugerðir um atriði sem lög þessi ná til og varða fóður, áburð og sáðvöru. Þar skal m.a. kveðið nánar á um framleiðslu og markaðssetningu, hollustuhætti í framleiðslu, rekjanleika fóðurs, merkingar og vörulýsingar, efnainnihald, sýnatökur, viðmiðunarmörk fyrir örverufræðilega þætti og óæskileg efni, umbúðir og pökkun, erfðabreytt fóður og merkingar þess, eftirlit Matvælastofnunar, innra eftirlit, meðferð aukaafurða dýra, innflutning fóðurs, áburðar og sáðvöru frá þriðju ríkjum og starfsemi landamærastöðva vegna fóðurs, hraðviðvörunarkerfi og stjórnun vegna neyðartilvika.
    Ráðherra er heimilt að innleiða með reglugerð reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002, frá 28. janúar 2002, um almennar meginreglur og kröfur um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 27. október 2007 nr. 134/2007. Reglugerðir EB sem teknar verða upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fela í sér breytingar eða viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002, frá 28. janúar 2002, er einnig heimilt að innleiða með reglugerð. Sama gildir um reglugerðir sem settar eru með tilvísun í reglugerðina.
    Ráðherra er heimilt að innleiða með reglugerð reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 183/2005, frá 12. janúar 2005, um hollustuhætti í fóðuriðnaði, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 27. október 2007 nr. 138/2007. Reglugerðir EB sem teknar verða upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fela í sér breytingar eða viðbætur við framangreinda reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) er einnig heimilt að innleiða með reglugerð. Sama gildir um reglugerðir sem settar eru með tilvísun í reglugerðina.
    Ráðherra er heimilt að innleiða með reglugerð reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 882/2004, frá 29. apríl 2004, um opinbert eftirlit til að tryggja sannprófun þess að lög um fóður og matvæli og reglur um dýraheilbrigði og velferð dýra séu virtar, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 27. október 2007 nr. 137/2007. Reglugerðir EB sem teknar verða upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fela í sér breytingar eða viðbætur við framangreindar reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins (EB) er einnig heimilt að innleiða með reglugerð. Sama gildir um reglugerðir sem settar eru með tilvísun í þessar reglugerðir EB.
    Ráðherra er heimilt að innleiða með reglugerð reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/2002, frá 3. október 2002, um heilbrigðisreglur um aukaafurðir úr dýrum sem ekki eru ætlaðar til manneldis, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 27. október 2007 nr. 135/2007 og nr. 136/2007. Reglugerðir EB sem teknar verða upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fela í sér breytingar eða viðbætur við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/2002 er einnig heimilt að innleiða með reglugerð. Sama gildir um reglugerðir sem settar eru með tilvísun í reglugerðina.

71. gr.

    Fyrirsögn II. kafla laganna verður: Skráningarskylda og starfsleyfi, eftirlit og reglugerðarheimild.

72. gr.

    Á eftir 7. gr. laganna kemur nýr kafli, III. kafli, Reglur um fóður, með tíu nýjum greinum, 7. gr. a – 7. gr. j, svohljóðandi, og breytast önnur kaflanúmer samkvæmt því:

    a. (7. gr. a.)
    Óheimilt er að markaðssetja fóður sem ekki er öruggt eða gefa dýrum sem gefa af sér afurðir til manneldis. Fóður telst ekki öruggt til fyrirhugaðrar notkunar ef það er álitið heilsuspillandi fyrir menn og dýr eða verður þess valdandi að dýrafurðir verða óhæfar til manneldis. Ef fóður, sem staðfest hefur verið að standist ekki kröfur um öryggi fóðurs, er hluti af framleiðslueiningu, lotu eða sendingu fóðurs í sama flokki eða með sömu einkenni skal gert ráð fyrir að ekkert fóður í þeirri framleiðslueiningu, lotu eða sendingu standist kröfurnar nema ítarlegt mat hafi leitt í ljós að engar vísbendingar séu um að afgangurinn af framleiðslueiningunni, lotunni eða sendingunni standist ekki kröfur um öryggi fóðurs.

    b. (7. gr. b.)
    Dýraprótein sem unnið er úr aukaafurðum úr dýrum má ekki nota í fóður eða til fóðurgerðar fyrir dýr sem alin eru upp til manneldis. Einungis er heimilt að nota slík dýraprótein til að framleiða fóður fyrir loðdýr, gæludýr og önnur dýr sem ekki eru alin til manneldis, og þá aðeins ef efnasamsetning, framleiðsluaðferðir, geymsla, flutningur og aðrar sérkröfur vegna þessara aukaafurða eru í samræmi við ákvæði reglugerðar sem ráðherra skal setja um slíkar afurðir.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að nota dýraprótein sem unnið er úr fiski sem fóður eða til fóðurgerðar fyrir búfé og eldisfisk.
    Þó er bannað að fóðra dýr á dýrapróteini sem er unnið úr dýrum eða afurðum dýra af sömu tegund.
    Ráðherra setur með reglugerð ákvæði um notkun á fóðri og áburði sem búinn er til úr aukaafurðum úr dýrum. Þar er ráðherra heimilt að flokka þessar afurðir í áhættuflokka allt eftir því hversu mikil hætta stafar af þeim varðandi útbreiðslu á smitsjúkdómum, sem og að banna notkun á einstökum flokkum ef slíkt reynist nauðsynlegt til að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma.

    c. (7. gr. c.)
    Fóðureftirlit skal m.a. byggjast á áhættugreiningu og skal áhættumat unnið á hlutlausan og gagnsæjan hátt á grundvelli vísindalegra upplýsinga og gagna. Í þessum tilgangi skipar ráðherra ráðgefandi nefnd sem veitir vísindalega ráðgjöf um áhættumat. Stjórnendur fóðurfyrirtækja skulu innleiða, koma á og viðhalda framleiðsluaðferðum sem byggjast á meginreglum um hættugreiningu.

    d. (7. gr. d.)
    Stjórnandi fóðurfyrirtækis ber ábyrgð á að uppfylltar séu kröfur laga og stjórnvaldsreglna sem gilda um starfsemi þess á hverjum tíma. Stjórnandi ber ábyrgð á öllum stigum framleiðslu, vinnslu og dreifingar í fyrirtæki undir hans stjórn og skal sannprófa að þessum kröfum sé fullnægt.

    e. (7. gr. e.)
    Ef stjórnandi fóðurfyrirtækis álítur eða hefur ástæðu til að álíta að fóður, sem hann hefur flutt inn, framleitt, tilreitt, unnið eða dreift, sé ekki í samræmi við kröfur um öryggi fóðurs skal hann tafarlaust gera ráðstafanir til að taka umrætt fóður af markaðnum og tilkynna það Matvælastofnun. Í þessum tilvikum eða þar sem framleiðslueiningin, lotan eða vörusendingin stenst ekki kröfur um öryggi fóðurs skal farga fóðrinu nema Matvælastofnun fallist á aðra lausn. Stjórnandi skal upplýsa notendur fóðursins á skilvirkan og nákvæman hátt um ástæðurnar fyrir því að það var tekið af markaðnum og, ef nauðsyn krefur, innkalla vörur sem þeim hafa þegar verið afhentar ef aðrar ráðstafanir nægja ekki til þess að tryggja víðtæka heilsuvernd.
    Stjórnandi fóðurfyrirtækis, sem ber ábyrgð á smásölu eða dreifingarstarfsemi sem hefur ekki áhrif á umbúðir, merkingu, öryggi eða heilnæmi fóðursins, skal gera ráðstafanir, innan þeirra marka sem ráðast af viðkomandi starfsemi, til að taka vörur af markaðnum ef þær eru ekki í samræmi við kröfur um öryggi fóðurs og stuðla að öryggi fóðurs með því að veita þær upplýsingar sem þarf til að rekja feril tiltekins fóðurs í samvinnu við framleiðendur, vinnsluaðila og/eða Matvælastofnun.
    Álíti stjórnandi fóðurfyrirtækis eða hafi hann ástæðu til að álíta að tiltekið fóður, sem hann hefur markaðssett, standist ekki kröfur um öryggi fóðurs skal hann þegar í stað tilkynna það Matvælastofnun. Stjórnendur skulu tilkynna yfirvöldum um aðgerðir til að fyrirbyggja hættu vegna notkunar þessa fóðurs. Þeir skulu jafnframt eiga allt það samstarf við yfirvöld sem dregið getur úr eða eytt áhættu vegna viðkomandi fóðurs.
    Þegar nauðsyn krefur getur Matvælastofnun lagt fyrir stjórnanda fóðurfyrirtækis að hann tilkynni henni, með hæfilegum fyrirvara, um flutning fóðurs til landsins frá EES-ríkjum.

    f. (7. gr. f.)
    Á öllum stigum framleiðslu, vinnslu og dreifingar skal vera fyrir hendi möguleiki á að rekja feril fóðurs dýra sem gefa af sér afurðir til manneldis og hvers kyns efna sem nota á eða vænst er að verði notuð í fóður. Stjórnandi fóðurfyrirtækis skal geta tilgreint alla einstaklinga og lögaðila sem hafa afhent því fóður og hvers kyns efni sem nota á eða vænst er að verði notuð í fóður. Einnig skal stjórnandi geta tilgreint fyrirtæki sem fóðurfyrirtækið hefur afhent vörur sínar. Í þessu skyni skulu umræddir stjórnendur hafa yfir að ráða kerfum og verklagsreglum til að gera framangreindar upplýsingar aðgengilegar Matvælastofnun að beiðni hennar. Þá skulu fóðurvörur vera merktar og auðkenndar á viðeigandi hátt til að auðveldara verði að rekja feril þeirra með aðstoð viðeigandi skjala eða upplýsinga í samræmi við fyrrgreindar kröfur.

    g. (7. gr. g.)
    Í sérstökum tilvikum þar sem mat á fyrirliggjandi upplýsingum leiðir í ljós möguleika á heilsuspillandi áhrifum fóðurs en vísindaleg óvissa ríkir áfram er ráðherra heimilt að samþykkja nauðsynlegar bráðabirgðaráðstafanir til að tryggja heilsu almennings vegna hugsanlegra heilsuspillandi áhrifa fóðurs.
    Ráðstafanir, sem eru samþykktar á grundvelli 1. mgr., skulu vera í réttu hlutfalli við markmiðið og ekki hamla viðskiptum meira en nauðsynlegt er. Ráðstafanirnar skulu endurskoðaðar innan eðlilegs tíma miðað við eðli þeirrar áhættu fyrir líf eða heilsu manna sem greind hefur verið og þá tegund vísindalegra upplýsinga sem þarf til að eyða vísindalegri óvissu og til að framkvæma umfangsmeira áhættumat.
    Varúðar- og varnaraðgerðir skv. 1. mgr. geta náð til alls landsins eða hluta þess. Skal ráðherra hafa samráð við Matvælastofnun áður en til slíkra aðgerða er gripið.

    h. (7. gr. h.)
    Fóðurfyrirtæki og aðilar sem starfa við rannsóknir og greiningu á fóðri skulu tilkynna Matvælastofnun ef í fóðri greinast örverur sem geta borist í dýr og þannig valdið sjúkdómum í mönnum sem eru tilkynningarskyldir samkvæmt ákvæðum sóttvarnalaga, nr. 19/1997, eða reglna settra með stoð í þeim lögum.

    i. (7. gr. i.)
    Allur innflutningur fóðurs frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem inniheldur dýraafurðir skal fara um landamærastöðvar.
    Tilkynna skal Matvælastofnun fyrir fram um slíkan innflutning þar sem getið er um magn, tegund, áfangastað og hvenær áætlað er að sending berist.
    Á landamærastöðvum eða í þeim höfnum sem heimild hafa fengið fyrir innflutningi skal fara fram athugun á skjölum og samanburður á þeim og sendingu til að sannreyna uppruna hennar og ákvörðunarstað.
    Matvælastofnun skal kanna ástand fóðursins og taka sýni til rannsókna á rannsóknastofu. Skal hún í þeim efnum fylgja gildandi reglum um tíðni skoðana og sýnatökur. Komi í ljós við skynmat eða rannsókn að fóðrið sé heilsuspillandi og verði þess valdandi að dýraafurðir verði óhæfar til manneldis skal eyða því. Heimilt er þó að endursenda fóðrið að fengnu leyfi yfirvalda í útflutningslandi eða taka það til annarra nota enda sé það talið öruggt. Innflytjandi er ábyrgur fyrir þeim kostnaði sem getur fallið til við að endursenda vöru, geyma hana, taka til annarra nota eða eyða henni.

    j. (7. gr. j.)
    Matvælastofnun er heimilt að fela aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum um faggildingu o.fl. að annast tiltekin verkefni við framkvæmd fóðureftirlits samkvæmt lögum þessum og skal gerður um það sérstakur samningur í hverju tilviki. Þeir skulu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd eftirlitsins og leynt á að fara.
Faggiltir aðilar skulu rækja eftirlit sitt á vegum Matvælastofnunar sem fylgist með starfi þeirra og sannreynir að þeir ræki skyldur sínar á fullnægjandi hátt, enda skulu þeir veita stofnuninni upplýsingar um starfsemi og ástand fyrirtækja á þann hátt sem hún ákveður.
    Verði misbrestur á að hinir faggiltu aðilar ræki almennt skyldur sínar samkvæmt samningi sínum við Matvælastofnun, vanræki þeir upplýsingaskyldu sína eða gefi rangar upplýsingar veitir stofnunin þeim áminningu eða riftir við þá samningi ef sakir eru miklar.
    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um skilyrði og störf faggiltra aðila samkvæmt lögum þessum.
    Jafnframt getur ráðherra sett reglur um hvernig innra eftirlit fóðurfyrirtækja, sem starfrækt er samkvæmt vottuðu gæðakerfi, getur verið þáttur í opinberu fóðureftirliti.
    Þá er ráðherra heimilt að ákveða að tilteknar rannsóknastofur, sem hlotið hafa faggildingu á viðkomandi rannsóknar- eða prófunarsviði, skuli vera tilvísunarrannsóknastofur.

73. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Fyrir eftirlit samkvæmt lögum þessum skulu fóður-, áburðar- og sáðvörufyrirtæki greiða eftirlitsgjald sem ekki er hærra en raunkostnaður við eftirlitið til að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum við eftirlit með fóðri, áburði eða sáðvöru:
     a.      launum starfsfólks sem sinnir störfum vegna eftirlits,
     b.      öðrum kostnaði vegna starfsfólks, þ.m.t. vegna aðstöðu, áhalda, búnaðar, þjálfunar, ferðalaga og tengds kostnaðar,
     c.      kostnaði við greiningu á rannsóknastofu og sýnatöku.
    Matvælastofnun framkvæmir viðbótareftirlit, þar á meðal rannsóknir, með vöru þegar tiltekin starfsemi eða vara fyrirtækis er ekki talin uppfylla þær almennu og eðlilegu kröfur sem gerðar eru til meðferðar eða heilbrigðis vara vegna vísbendinga um smitefni, mengun eða brot gegn heilbrigðis- eða starfsreglum eða skyldra atvika. Raunkostnað af viðbótareftirliti ber fóður-, áburðar- eða sáðvörufyrirtæki. Framkvæma má viðbótareftirlit þrátt fyrir að vara hafi þegar hlotið heilbrigðisvottun.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um framkvæmd og inntak eftirlits og skal hann gefa út gjaldskrá fyrir eftirlitið að fengnum tillögum Matvælastofnunar. Ráðherra skal afla umsagnar hlutaðeigandi hagsmunasamtaka og kynna þeim efni og forsendur reglugerðar og/eða gjaldskrár með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara. Hafi umsagnir þeirra ekki borist ráðherra að mánuði liðnum er honum þó heimilt að setja reglugerð og gjaldskrá án umsagna þeirra.
    Við gerð reglugerðar og gjaldskrár skal ráðherra taka tillit til eftirfarandi atriða:
     a.      hvers konar fyrirtæki um er að ræða og viðkomandi áhættuþátta,
     b.      hagsmuna fyrirtækja með litla framleiðslu,
     c.      hefðbundinna aðferða við framleiðslu, vinnslu og dreifingu,
     d.      þarfa fyrirtækja með aðsetur á svæðum sem líða fyrir tilteknar landfræðilegar takmarkanir.
    Eftirlitsgjald skal greiða samkvæmt framlögðum reikningi Matvælastofnunar. Innheimta má eftirlitsgjaldið með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Matvælastofnun er heimilt að krefjast dráttarvaxta af ógreiddri fjárkröfu vegna eftirlits frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.
    Þá skulu ákvæði þessarar greinar einnig gilda eftir því sem við á um eftirlitsgjöld Matvælastofnunar vegna eftirlits sem hún felur faggiltum aðilum að framkvæma samkvæmt þessum lögum.

74. gr.

    Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, 8. gr. a, svohljóðandi:
    Ráðherra skal setja gjaldskrá vegna útgáfu starfsleyfa og vottorða vegna framkvæmdar á lögum þessum, svo og vegna skráningar og móttöku umsókna. Gjaldskrá skal taka mið af kostnaði sem hlýst af útgáfu starfsleyfa og vottorða, skráningu og móttöku umsókna og leyfisveitingum og má ákvörðun gjalds ekki vera hærri en sá kostnaður.

75. gr.

    Fyrirsögn III. kafla laganna er verður IV. kafli verður: Eftirlitsgjald vegna fóðurs, áburðar og sáðvöru.

76. gr.

    Í stað 9. gr. laganna koma sex nýjar greinar sem verða 9. gr. og 9. gr. a – 9. gr. e, svohljóðandi:

    a. (9. gr.)
    Matvælastofnun er heimilt að stöðva starfsemi að hluta eða í heild ef rökstuddur grunur er um að fóður, áburður eða sáðvara sé heilsuspillandi fyrir menn og dýr og verði þess valdandi að matvæli af dýrum sem gefa af sér afurðir til manneldis verða óhæf til manneldis. Sama gildir ef um er að ræða starfsemi sem starfar án tilskilins leyfis eða hefur ekki sinnt tilkynningarskyldu skv. 4. gr.
    Einnig er Matvælastofnun heimilt að gefa fyrirmæli um afmengun fóðurs, stöðva eða takmarka framleiðslu og markaðssetningu fóðurs, áburðar eða sáðvöru og leggja hald á slíka vöru þegar rökstuddur grunur er um að varan uppfylli ekki ákvæði í vörulýsingu eða ákvæði laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim. Þegar Matvælastofnun leggur hald á fóður, áburð eða sáðvöru er þeim heimil förgun vörunnar sé það talið nauðsynlegt.
    Þá getur Matvælastofnun jafnframt, til að knýja á um aðgerðir samkvæmt lögum þessum, reglugerðum eða eigin fyrirmælum samkvæmt þessum ákvæðum, beitt eftirfarandi aðgerðum:
     1.      veitt áminningu,
     2.      veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta.
    Stöðvun starfsemi og förgun á vörum skal því aðeins beitt að um alvarlegri tilvik eða ítrekað brot sé að ræða eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests og er heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf. Sé um slík brot að ræða getur Matvælastofnun afturkallað leyfi viðkomandi fyrirtækis til reksturs skv. 4. gr.

    b. (9. gr. a.)
    Þegar stjórnandi sinnir ekki fyrirmælum innan tiltekins frests getur Matvælastofnun ákveðið fyrirtæki dagsektir þar til úrbætur hafa verið framkvæmdar. Dagsektir renna í ríkissjóð og skal hámark þeirra ákveðið í reglugerð sem ráðherra setur. Jafnframt er Matvælastofnun heimilt að láta vinna verk á kostnað hins vinnuskylda ef fyrirmæli um framkvæmd eru vanrækt og skal kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af Matvælastofnun en innheimtast síðar hjá hlutaðeigandi fyrirtæki. Kostnað og dagsektir má innheimta með fjárnámi án dóms eða sáttar.

    c. (9. gr. b.)
    Matvælastofnun skal heimill aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal töku sýna og myndatöku, að öllum þeim stöðum sem lög þessi, reglugerðir og samþykktir ná yfir og er heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf.
    Einnig er Matvælastofnun heimilt að taka sýni þar sem starfsemi fer fram og lög þessi, reglugerðir settar samkvæmt þeim og samþykktir ná til.
    Stjórnanda er skylt að veita aðstoð við framkvæmd eftirlitsins og veita allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með framkvæmd laganna og ber honum endurgjaldslaust að afhenda sýni sem talin eru nauðsynleg vegna eftirlits. Þá getur Matvælastofnun ákveðið að fyrirtæki skuli greiða allan kostnað vegna þvingunarúræða sem framkvæmd eru samkvæmt lögum þessum og má innheimta slíkan kostnað með fjárnámi án dóms eða sáttar.

    d. (9. gr. c.)
    Telji Matvælastofnun svo alvarlega hættu stafa af tiltekinni starfrækslu eða notkun að aðgerð þoli enga bið er henni heimilt til bráðabirgða að stöðva starfsemi eða notkun þegar í stað, með aðstoð lögreglu ef þurfa þykir.

    e. (9. gr. d.)
    Við meðferð mála skv. 9. gr., 9. gr. a, 9. gr. b og 9. gr. c skal fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaga og öðrum reglum stjórnsýsluréttar.

    f. (9. gr. e.)
    Brot gegn ákvæðum þessara laga og stjórnvaldsreglum settum samkvæmt þeim varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að tveimur árum.
    Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á stjórnanda eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann. Þó skal lögaðili ekki sæta refsingu ef um óhapp er að ræða. Einnig má, með sömu skilyrðum, gera lögaðila sekt ef stjórnandi eða starfsmenn hans eða aðrir einstaklingar sem í þágu hans starfa gerast sekir um brot.
    Mál út af brotum skv. 1. og 2. mgr. skulu sæta meðferð sakamála.

77. gr.

    Fyrirsögn IV. kafla laganna er verður V. kafli verður: Þvingunarúrræði og refsiákvæði.

VII. KAFLI
Staðfesting og gildistaka.
78. gr.

    Ríkisstjórninni er heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvarðanir sameiginlegu EES- nefndarinnar frá 26. október 2007 nr. 133/2007, nr. 134/2007, nr. 135/2007, nr. 136/2007, nr. 137/2007 og nr. 138/2007.

79. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2009 að undanskildum II.–IV. kafla sem öðlast gildi 1. maí 2011. Þó tekur 43. gr. í IV. kafla laganna gildi 1. september 2009.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.     Inngangur.
    Hinn 23. október 2007 heimilaði ríkisstjórnin staðfestingu á sex ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sem fela í sér breytingar á viðaukum og bókunum við EES-samninginn. Efnislega var um að ræða endurskoðun á undanþágu Íslands frá I. kafla í viðauka I við EES-samninginn og upptöku löggjafar Evrópusambandsins (hér eftir skammstafað ESB) um matvæli og fóður inn í EES-samninginn.
    Framangreindar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar voru staðfestar af nefndinni 26. október 2007 með fyrirvara um samþykki Alþingis. Lagafrumvarp þetta kveður á um þær lagabreytingar sem nauðsynlegar eru vegna framangreindra breytinga á EES-samningnum og innleiðingar fyrrgreindrar EES-löggjafar um matvæli og fóður.
    Frumvarp þetta er í samræmi við efnisákvæði ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar að öðru leyti en því að innflutningsbann á hráu kjöti skv. 10. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, helst og er ekki afnumið. Sama á við um alidýraáburð og rotmassa sem er blandaður alidýraáburði en slíkur innflutningur er óheimill. Innflutningsbanni er viðhaldið með það að markmiði að tryggja núverandi stöðu sjúkdómavarna vegna dýra og manna, og er þá ekki síst höfð í huga langvarandi einangrun búfjárstofna okkar sem reynslan hefur sýnt að geta verið sérlega næmir fyrir sjúkdómum sem litlum skaða valda í öðrum löndum.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar eru eftirfarandi:
     a.      Ákvörðun nr. 133/2007 sem varðar endurskoðun á þeim undanþágum sem Ísland hefur haft frá I. kafla í viðauka I við EES-samninginn, en þar er að finna þær ESB-gerðir sem taka til heilbrigðis dýra og dýraafurða. Samþykkt þessarar ákvörðunar að því er varðar Ísland hefur í för með sér að Ísland mun framvegis framfylgja reglum ESB á þessu sviði að því er varðar búfjárafurðir til viðbótar við núverandi framkvæmd á reglunum er snerta sjávarafurðir. Þessar breytingar á EES-samningnum munu auka frelsi til innflutnings og útflutnings búfjárafurða á grundvelli heilbrigðiskrafna. Frumvarp þetta er í samræmi við efnisákvæði þessarar ákvörðunar nr. 133/2007 að öðru leyti en því að innflutningsbann á hráu kjöti skv. 10. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, helst og er ekki afnumið.
     b.      Ákvarðanir nr. 134/2007 og nr. 137/2007 sem varða heildarendurskoðun á matvælalöggjöf ESB. Önnur varðar reglugerð (EB) nr. 178/2002/EB um matvælalöggjöf, fæðuöryggi og Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA). Hin fjallar um reglugerðir EB og varðar opinbert eftirlit með matvælum og fóðri og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla. Tekið skal fram að þær EB-reglugerðir sem hér um ræðir koma í stað tilskipana sem þegar er að finna í EES-samningnum, að undanskildum nýjum skuldbindingum Íslands að því er varðar búfjárafurðir, en þær er þó einnig þegar að finna í EES-samningnum þar sem Noregur hefur ekki notið þeirra undantekninga sem íslensk stjórnvöld gera. Ýmsar veigamiklar breytingar felast hins vegar í nýrri og endurskoðaðri löggjöf ESB á þessu sviði sem innleiða þarf hér á landi og koma í framkvæmd við eftirlit með matvælum og fóðri.
     c.      Ákvarðanir nr. 135/2007 og nr. 136/2007 sem fjalla um aukaafurðir eða úrgang frá dýrum sem ekki er ætlaður til manneldis. Frumvarp þetta er í samræmi við efnisákvæði þessarar ákvörðunar nr. 135/2007 að öðru leyti en því að innflutningsbann á alidýraáburði og rotmassa sem er blandaður alidýraáburði helst skv. 10. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Innflutningsbann er því ekki afnumið.
     d.      Ákvörðun nr. 138/2007 sem fjallar um innleiðingu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 183/2005, um hollustuhætti í fóðuriðnaði, auk afleiddra gerða.
    Í frumvarpinu eru grundvallaratriði sem varða gildissvið, skilgreiningar, matvælaöryggi, skipan opinbers eftirlits, ábyrgð matvælafyrirtækja, leyfisveitingar, gjaldtöku, valdsvið og þvingunarúrræði. Frekari framkvæmd byggist síðan á setningu reglugerða um fjölmörg efnismikil atriði sem óraunhæft er að setja öll í lagatexta en sem löggjafinn tekur afstöðu til með afgreiðslu frumvarpsins. Vísast hér t.d. til 28. gr. frumvarpsins þar sem ráðherra fær heimild til að innleiða reglugerðir (EB) nr. 178/2002, 852/2004, 853/2004, 854/2004 og 882/2004. Reglugerðir þessar verða innleiddar í samræmi við orðanna hljóðan og þar verður því ekkert fellt burt. Öll ákvæði þar varðandi opinbert eftirlit öðlast þar með gildi hér á landi. Það sama á við um gjaldskrárákvæði í þessum reglugerðum.

II.     Undanþága Íslands frá kafla I í viðauka I við EES-samninginn ákvörðun nr. 133/2007.
    Í I. kafla í viðauka I við EES-samninginn er að finna þær EB-gerðir sem taka til heilbrigðis dýra og dýraafurða. Þessar gerðir fjalla um kjöt og kjötafurðir, fisk og fiskafurðir, mjólk, egg og afurðir úr þeim, dýrasjúkdóma, verslun með lifandi dýr, flutning á sæði og erfðavísum milli ríkja og um hormóna. Af heilbrigðisástæðum, einkum í þágu sjúkdómavarna, var á sínum tíma samið um að Ísland hefði undanþágu frá upptöku allra gerða í þessum kafla. Síðar voru reglur varðandi fiskafurðir teknar yfir.
    Framkvæmdastjórn ESB setti það sem skilyrði fyrir yfirtöku á nýju matvælalöggjöfinni og þátttöku í Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) að fyrrgreind undanþága varðandi búfjárafurðir yrði endurskoðuð. Meginrökin fyrir þessu voru að ekki yrði lengur hægt að greina á milli búfjárafurða, sjávarafurða og annarra matvæla með sama hætti og áður, eftir að ný matvælalöggjöf ESB öðlast gildi, þar sem þær samræmdu reglur ná yfir matvælakeðjuna í heild sinni, án þess að skilja á milli einstakra tegunda matvæla. Með samþykkt ríkisstjórnarinnar var fallist á að hefja viðræður við ESB um endurskoðun á undanþágu Íslands og lauk þeim með endanlegu samkomulagi á sumarmánuðum 2007. Endurspeglar þessi ákvörðun niðurstöðu þess samkomulags.
    Í ákvörðun nr. 133/2007 vegna endurskoðunar á undanþágu er gert ráð fyrir almennum aðlögunartíma, allt að 18 mánuðum frá gildistöku ákvörðunarinnar, til að innleiða gerðir er varða búfjárafurðir. Helstu atriði ákvörðunar 133/2007 og afleiðingar hennar eru eftirfarandi:
    A. Frelsi til innflutnings búfjárafurða á að aukast samkvæmt ákvörðuninni. Búfjárafurðir eiga að fá sömu lagalegu stöðu hvað heilbrigðisreglur varðar og fiskur og fiskafurðir hafa haft. Hluti þeirra vörutegunda sem hefur verið óheimilt að flytja til landsins eða einungis er heimilt að flytja inn með sérstakri heimild á að heimila samkvæmt ákvörðuninni á grundvelli heilbrigðiskrafna EES-löggjafar. Samkvæmt hinni nýju löggjöf verður Ísland hluti af innri markaði ESB hvað matvæli varðar, en ekki þriðja ríki eins og hingað til hefur verið. Ákvörðunin gerir ráð fyrir að settar verði upp landamærastöðvar vegna kjöt- og mjólkurvara eins og gert hefur verið með fisk vegna innflutnings frá ríkjum utan EES-svæðisins. Eins og áður segir er frumvarp þetta í samræmi við efnisákvæði ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 133/2007, að öðru leyti en því að innflutningsbann á hráu kjöti skv. 10. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, helst og er ekki afnumið.
    B. Á Íslandi verður áfram heimilt að fóðra búfé með fiskimjöli þrátt fyrir gildandi bann þess efnis innan ESB.
    C. Ísland getur áfram bannað innflutning á beina-, blóð- og kjötmjöli.
    D. Ísland þarf að innleiða sérstakar reglur sem varða líflömb á bæjum þar sem skorið hefur verið niður vegna riðu, en að öðru leyti heldur Ísland að mestu undanþágu sinni frá löggjöf ESB um dýraheilbrigði.
    E. Ekki er gert ráð fyrir að reglur um dýravelferð verði teknar yfir, nema hvað varðar aðbúnað og aðferðir við slátrun dýra.
    F. Ekki er vikið frá banni Íslands á innflutningi lifandi dýra þar sem enn eru talin standa rök til slíks banns á grundvelli heilbrigðisástæðna.
    G. Breytingin hefur engin áhrif á það fyrirkomulag sem er við lýði á innflutningi búfjárafurða að því er varðar tolla.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að matvælalöggjöf ESB muni taka gildi hérlendis með samþykkt þessa frumvarps. Þannig verða sömu heilbrigðiskröfur gerðar til matvælaframleiðslu hérlendis og á EES-svæðinu. Þetta á jafnt við um búfjárafurðir, þ.e. kjöt, mjólk og egg, og sjávarafurðir. Jafnframt munu gilda sömu lagareglur um matvælaeftirlit með þessum afurðum hérlendis og á EES-svæðinu að öðru leyti en því að innflutningseftirlit með hráu kjöti frá EES-svæðinu verður eins og verið hefur. Þegar um er að ræða hrátt kjöt þarf að framvísa fullgildum heilbrigðisvottorðum og eftir atvikum framkvæma sýnatökur enda hefur áður verið aflað innflutningsleyfis. Slík leyfi eru nú nær eingöngu veitt fyrir frosið kjöt, og ekki er gert ráð fyrir breytingum þar á. Hvað varðar alidýraáburð og rotmassa sem er blandaður alidýraáburði helst innflutningsbann, og eftirlitsreglur, því óbreytt. Íslensk yfirvöld hafa frest til 1. maí 2011 til þess að innleiða þær gerðir ákvörðunarinnar sem gilda um búfjárafurðir, kjöt, mjólk og egg. Þennan tíma þarf að nota til að aðlaga ýmis stjórnvaldsfyrirmæli að löggjöf ESB og breyta lagaframkvæmd. Unnið er að því að fá svokallaðar „viðbótartryggingar“ vegna salmonellu sem þýðir að ESB tekur tillit til þess hve salmonellusýkingar eru fátíðar á Íslandi. Slíkar viðbótartryggingar þýða að takmarka má tiltekinn innflutning til að fyrirbyggja útbreiðslu tiltekinna matarsýkinga.

III.     Reglugerð Evrópusambandsins um matvælalöggjöf, fæðuöryggi og Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) ákvörðun nr. 134/2007.
    Ákvörðun nr. 134/2007 fjallar um reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 auk afleiddra gerða. Undirbúningur reglugerðar (EB) nr. 178/2002, um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla, átti sér langan aðdraganda hjá ESB. Fyrst var gefin út svokölluð grænbók á árunum 1996–1997 og síðar hvítbók 1999. Þessi skjöl voru send til fjölmargra ríkja til umsagnar, m.a. Íslands. Reglugerðin tók gildi í febrúar 2002 innan ESB, en gildistöku tiltekinna ákvæða hennar var þó frestað fram til 1. janúar 2005.
    Með reglugerðinni voru settar heildarreglur um fæðuöryggi frá frumframleiðslu til markaðssetningar matvæla og var einnig kveðið á um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA). EFSA er ætlað mikilvægt hlutverk, m.a. að gefa út vísindaleg álit og áhættumat um allt er varðar matvæli og heilbrigði dýra.
    Með reglugerðinni er leitast við að gera regluverk um framleiðslu matvæla einfaldara og skilvirkara. Gildir reglugerðin á öllum stigum framleiðslu, vinnslu og dreifingar matvæla og fóðurs. Lögð er áhersla á að samræma löggjöf og eftirlit með matvælum „frá hafi og haga til maga“. Skulu sömu reglur gilda um hollustuhætti óháð því hvort um er að ræða framleiðslu eða dreifingu á kjöti, fiski, matjurtum eða unnum matvælum.
    Meginmarkmið reglugerðarinnar er að efla fæðuöryggi og tryggja þannig hnökralaus viðskipti með örugg matvæli á innri markaðinum. Hagsmunir neytenda eru settir í öndvegi og munu reglur um rekjanleika matvæla leika stórt hlutverk. Með þeim mun verða mögulegt að rekja feril matvæla á öllum stigum framleiðslu og dreifingar. Ábyrgð framleiðenda og dreifingaraðila gagnvart neytendum matvæla er dregin skýrt fram. Þá er lögð mikil áhersla á skjót viðbrögð í alvarlegum tilfellum, en ESB hefur sætt gagnrýni fyrir seinagang þegar upp hafa komið atvik sem krafist hafa skjótra viðbragða. Með reglugerðinni er reynt að bregðast við því með ýmsu móti. Er m.a. gert ráð fyrir sérstökum neyðarráðstöfunum og almennri áætlun fyrir áfallastjórnun sem nær bæði til matvæla og fóðurs.
    Reglugerðin gerir ráð fyrir að ráðstafanir sem aðildarríkin og framkvæmdastjórnin (ESB) samþykkja viðvíkjandi matvælum og fóðri skuli að jafnaði byggjast á áhættugreiningu.
    Með reglugerðinni er kveðið á um stofnun EFSA. Stofnun þessi hefur nú starfað í fimm ár, safnað saman upplýsingum frá aðildarríkjunum, samræmt vinnu þeirra, framkvæmt áhættumat og gert tillögur til úrbóta þegar þess var þörf. Stofnunin er ráðgefandi og hefur hvorki löggjafar- né eftirlitshlutverk. Hins vegar er ljóst að bæði framkvæmdastjórn og aðildarríki ESB hafa leitað eftir áliti EFSA og tekið tillit til stofnunarinnar og þess starfs sem þar er unnið. Almennt er talið að stofnunin muni gegna lykilhlutverki á fæðuöryggissviðinu og starf hennar muni hafa mikil áhrif á lagasetningu, starfshætti sem varða eftirlit og einnig framleiðslu og markaðssetningu matvæla í framtíðinni. Ísland mun taka fullan þátt í starfi og stjórn stofnunarinnar. Kostnaðarhlutdeild Íslands í rekstri EFSA er áætlaður 73.592 evrur á ársgrundvelli.
    Rétt er að geta þess að þær reglur sem hér um ræðir, svo og gildandi reglur EES-samningsins, gera ráð fyrir að unnt sé að grípa til neyðarráðstafana undir sérstökum kringumstæðum. Í reglugerð 178/2002/EB er fjallað um slíkar heimildir í 53. og 54. gr. Almenna reglan er að ef upp koma sjúkdómar eða annað hættuástand sem getur haft áhrif á heilsu manna eða dýra er ætlast til að viðkomandi ríki og/eða framkvæmdastjórn ESB grípi strax til viðeigandi varúðarráðstafana. Telji eitthvert ríki á EES-svæðinu að þessar ráðstafanir séu ekki nægilegar til að vernda heilsu manna og dýra getur það gripið til neyðarráðstafana, svo sem að stöðva innflutning á ákveðnum vörum. Skýrt skal tekið fram að við framkvæmd slíkra neyðarráðstafana er rík sönnunarbyrði lögð á viðkomandi ríki að rökstyðja nauðsyn framkvæmdarinnar og skal ákvörðunin byggð á áhættumati. Ef fullnægjandi vísindaleg gögn liggja ekki fyrir er í vissum tilvikum hægt að grípa til tímabundinna varúðarráðstafana, sbr. 7. gr. (varúðarregla), en slíkar ákvarðanir ber að endurskoða eins fljótt og unnt er.

IV.     Löggjöf um opinbert eftirlit og um hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla ákvörðun nr. 137/2007.
    Ákvörðunin kveður á um upptöku tveggja reglugerða um hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla og tveggja reglugerða um opinbert eftirlit með fóðri og matvælum. Með þessum reglugerðum var löggjöf ESB á þessu sviði samræmd og einfölduð því gerðirnar koma í stað sautján eldri tilskipana sem felldar voru úr gildi. Löggjöfin tekur til fóðurframleiðslu og til allrar matvælaframleiðslu, þ.m.t. fisks og fiskafurða, og nær yfir matvælakeðjuna í heild frá frumframleiðslu til tilbúinna matvæla. Lögð er áhersla á að neytendum séu tryggð örugg matvæli, að matvælaframleiðendur og dreifingaraðilar beri ábyrgð á framleiðslu sinni, eftirlit opinberra aðila byggist á áhættumati, rekjanleiki fóðurs og matvæla sé tryggður og að öll stjórnsýsla sé gegnsæ.
    Samkvæmt nýju löggjöfinni verður opinbert fóðureftirlit víðtækara en áður því nú skal hafa eftirlit með öllum sem framleiða, flytja eða höndla með fóður. Þetta þýðir m.a. að allir bændur og öll flutningsfyrirtæki falla undir fóðureftirlit Matvælastofnunar, en það er breyting frá því sem nú er.
    Nýja löggjöfin mun hafa lítil áhrif varðandi byggingar og búnað mjólkurstöðva, sláturhúsa og kjötpökkunarstöðva því allar mjólkurstöðvar nema ein, langflest sauðfjársláturhús og mörg stórgripasláturhús hafa nú þegar útflutningsleyfi á ESB-markað og hafa því þurft að uppfylla ákvæði þessarar löggjafar hingað til. Áhrif löggjafarinnar verða hins vegar meiri fyrir opinbert eftirlit og verða þau t.d. mikil fyrir heilbrigðisskoðun á sláturafurðum þegar þau ákvæði verða komin að fullu til framkvæmda. Það mun hafa í för með sér meiri viðveru kjötskoðunarlækna eða menntaðs aðstoðarfólks og þar með meiri kostnað. Þannig þarf að auka heilbrigðisskoðun í alifuglasláturhúsum og bæta verulega menntun aðstoðarfólks við heilbrigðisskoðun í sauðfjársláturhúsum. Í viðbót við núverandi eftirlit Matvælastofnunar með salmonellu í alifugla- og svínakjöti þarf að koma á eftirliti með salmonellu í nautakjöti og eggjum svo að unnt verði að fá viðbótartryggingar vegna salmonellusmits í innfluttum vörum. Jafnframt þarf að auka aðskotaefnaeftirlit með alifuglakjöti og með eggjum. Það liggur ljóst fyrir að aukið eftirlit leiðir til aukins kostnaðar.
    Ísland mun þurfa að gera eftirlitsáætlun til fleiri ára í senn (multi annual) fyrir allt opinbert eftirlit með fóðri og matvælum. Þetta er nýmæli hér á landi og mun hafa í för með sér aukinn kostnað. Áætlun þessi skal vera samræmd fyrir allt eftirlit í fæðukeðjunni frá frumframleiðslu til tilbúinna matvæla og skal hún einnig ná til fóðureftirlits.
    Samkvæmt löggjöfinni má ekki vera hætta á hagsmunaárekstrum eftirlitsaðila og eftirlitsþola. Margir héraðsdýralæknar sinna í dag bæði opinberu eftirliti og almennri dýralæknaþjónustu og því þarf að breyta lögum um dýralækna þannig að héraðsdýralæknar sinni aðeins eftirliti og ekki dýralæknaþjónustu.
    Gert er ráð fyrir að síðar verði samið um að Ísland geti krafist viðbótartrygginga vegna salmonellusmits í innfluttum dýraafurðum þegar Ísland hefur sýnt fram á að það hafi aðgerðaáætlun þar að lútandi. Sérstök yfirlýsing frá íslenskum stjórnvöldum um þetta atriði fylgir ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku viðkomandi gerða í EES-samninginn.
    Íslensk yfirvöld hafa frest til 1. maí 2011 til þess að innleiða þær gerðir ákvörðunarinnar sem gilda um búfjárafurðir, kjöt, mjólk og egg. Þennan tíma þarf að nota til að aðlaga lög og stjórnvaldsfyrirmæli að löggjöf ESB og til þess að breyta lagaframkvæmd.
    Helstu reglugerðir (EB) sem ákvörðun nr. 137/2005 fjallar um eru:

Reglugerð nr. 852/2004 frá 29. apríl 2004 um hollustuhætti í matvælaiðnaði.
    Reglugerðin fjallar almennt um öll matvæli og er beint að matvælafyrirtækjum og stjórnendum þeirra sem bera frumábyrgð á að tryggja að allar kröfur séu uppfylltar til að tryggja matvælaöryggi í allri matvælakeðjunni frá hafi og haga til maga. Fyrirtæki sem framleiða matvæli úr dýraafurðum verða jafnframt að fara eftir reglugerð (EB) nr. 853/2004.
    Hlutverk lögbærs eftirlitsaðila er að sannreyna að fyrirtækið uppfylli kröfur reglugerðarinnar og skal eftirlitsaðili gera það samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 882/2004 og þegar um dýraafurðir er að ræða jafnframt samkvæmt reglugerð (EB) nr. 854/2004 sem fjallað er um hér síðar. Skýrt er tekið fram að innflutt matvæli verða að uppfylla kröfur samkvæmt reglugerð (EB) nr. 178/2002 og öðrum EB-gerðum vegna matvæla. Hér er átt við matvæli frá þriðju ríkjum, þ.e. ríkjum utan EES.
    Gildissvið reglugerðarinnar er frá hafi og haga til maga nema á eftirfarandi sviðum þar sem ætlast er til að ríkin setji sér eigin reglur:
          Frumframleiðslu til eigin nota svo sem fiskur, villibráð, heimaslátrun, berjatínsla og grænmeti.
          Unnum afurðum úr frumframleiðslu til eigin nota.
          Sölu framleiðanda á litlu magni af eigin framleiðslu beint til neytenda eða í litlar verslanir á heimasvæði sem selja beint til neytenda.

Reglugerð nr. 853/2004 um sérstakar reglur um hollustuhætti sem varða matvæli úr dýraríkinu.
    Reglugerðin fjallar um heilbrigðisákvarðanir fyrir fyrirtæki sem framleiða matvæli af dýrauppruna; kjöt, fisk, mjólk og egg. Helsta markmið reglugerðarinnar er að setja ítarlegri reglur fyrir matvæli af dýrauppruna og er hún til fyllingar reglugerð (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti í matvælaiðnaði. Verið er að samþætta og einfalda reglur um framleiðslu matvæla sem nú er að finna í mörgum mismunandi gerðum.

Reglugerð nr. 854/2004 um sérstakar reglur um opinbert eftirlit með afurðum úr dýraríkinu sem eru ætlaðar til manneldis.
    Reglugerðin snýr að yfirvöldum sem hafa eftirlit með framleiðendum matvæla af dýrauppruna. Eftirlit yfirvalda skal ná til allra mikilvægra þátta sem varða heilbrigði fólks og þar sem við á heilbrigði dýra og dýravelferð. Yfirvöld skulu framkvæma sérstakar skoðanir til að tryggja þessa þætti. Reglugerðin er til fyllingar reglugerð (EB) nr. 882/2004 sem fjallað er um hér á eftir.

Reglugerð nr. 882/2004 frá 29. apríl 2004 um opinbert eftirlit til að tryggja sannprófun þess að lög um fóður og matvæli og reglur um dýraheilbrigði og velferð dýra séu virtar.
    Helsta gildissvið er opinbert eftirlit í ESB-löndum með fóðri, dýraheilbrigði og dýravelferð og sambærilegt eftirlit við innflutning til ESB frá þriðju ríkjum. Skoða verður ákvæði þessarar gerðar með hliðsjón af ákvæðum matvælareglugerðar (EB) nr. 178/2002, heilbrigðisreglugerða nr. 852/2004, 853/2004, 854/2004 og reglugerðar (EB) nr. 183/2005 um fóðurheilbrigði.

V.     Aukaafurðir úr matvælum ákvarðanir nr. 135/2007 og 136/2007.
    Ákvörðun nr. 135/2007 innleiðir reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/2002 auk afleiddra gerða. Reglugerð (EB) nr. 1774/2002 (Animal by-products) er víðtæk og fjallar um reglur til verndar heilbrigði dýra og manna. Í reglugerðinni er að finna ákvæði um söfnun, flutning, meðhöndlun, markaðssetningu, vinnslu og notkun eða förgun á úrgangi frá dýrum sem ekki er ætlaður til manneldis (aukaafurðir). Jafnframt gilda reglurnar um úrgang sem fellur til við alþjóðlega flutningastarfsemi, sem og almennan eldhúsúrgang.
    Þetta frumvarp er í samræmi við efnisákvæði ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 135/2007 að öðru leyti en því að innflutningsbann á alidýraáburði og rotmassa sem er blandaður aliýraáburði skv. 10. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, helst og er ekki afnumið.
    Með setningu reglugerðar hér á landi um meðferð og nýtingu á slátur- og dýraleifum nr. 820/2007 voru margar af efnisreglum reglugerðar (EB) nr. 1774/2002 innleiddar í íslenskt lagaumhverfi. Regluverkið í gerðinni er þó bæði mun víðtækara og ítarlegra en í reglugerð nr. 820/2007.
    Í reglugerð (EB) nr. 1774/2002 er einnig að finna ákvæði sem skylda alla sem senda, flytja eða taka við aukaafurðum úr dýrum að halda skrá yfir sendingarnar. Mikinn fjölda viðskiptaskjala (heilbrigðisvottorða) er að finna í reglugerðinni og ljóst að skjalavinna fyrir hagsmunaaðila og hið opinbera mun aukast umtalsvert hér á landi við innleiðingu þessarar reglugerðar.
    Samkvæmt reglugerð (EB) nr. 1774/2002 verða íslensk yfirvöld skuldbundin til þess að farga úrgangi sem tilkominn er vegna riðu með brennslu. Jafnframt verður að álykta svo að yfirvöldum sé skylt að sjá til þess að slík aðstaða sé fyrir hendi, en svo er ekki hér á landi. Ákvörðun nr. 136/2007 fjallar jafnframt um afleiddar gerðir reglugerðar (EB) nr. 1774/2002.
    Íslensk yfirvöld hafa frest til 1. maí 2011 til þess að innleiða þær gerðir ákvörðunarinnar sem gilda um búfjárafurðir, kjöt, mjólk og egg. Þennan tíma þarf að nota til að aðlaga stjórnvaldsfyrirmæli að löggjöf ESB og til þess að breyta lagaframkvæmd. Efnisákvæði reglugerðar (EB) nr. 1774/2002 um aukaafurðir vegna fisks og fóðurs öðlast gildi 1. september 2009.

VI.     Löggjöf um hollustuhætti í fóðuriðnaði ákvörðun nr. 138/2007.
    Ákvörðunin innleiðir í íslenska löggjöf reglugerð (EB) nr. 183/2005 frá 12. janúar 2005 um hollustuhætti í fóðuriðnaði.
    Reglugerðin fjallar um fóður og er beint að fóðurfyrirtækjum og stjórnendum þeirra sem bera frumábyrgð á að tryggja að allar kröfur séu uppfylltar til að tryggja fóðuröryggi. Fóðuröryggi er grundvöllur matvælaöryggis en dýraheilbrigði hefur stóru hlutverki að gegna í hollustu matvæla. Fóðurfyrirtæki eru tilkynningarskyld til yfirvalda og sum þurfa á starfsleyfi að halda. Þetta er nauðsynlegt m.a. til að tryggja rekjanleika fóðurs á öllum stigum. Reglugerðin nær til fóðurframleiðslu og eftir atvikum til markaðssetningar eða útflutnings fóðurs. Hlutverk lögbærs eftirlitsaðila er að sannreyna að fyrirtækið uppfylli kröfur reglugerðarinnar og skal eftirlitsaðili gera það samkvæmt ákvæðum reglugerðar (EB) nr. 882/ 2004. Fóðurfyrirtækjum ber hins vegar að hafa kerfi innra eftirlits með sama hætti og matvælafyrirtæki.

VII. Efnislegar breytingar frá fyrri frumvörpum.
    Frumvörp með sama heiti voru lögð fram á 135. og 136. löggjafarþingi. Við framlagningu frumvarpsins á 136. löggjafarþingi voru gerðar nokkrar efnislegar breytingar frá fyrra frumvarpi. Helstu breytingar voru eftirfarandi:
          Ákvæði frumvarpsins um fæðubótarefni hafa verið gerð skýrari þannig að fæðubótarefni sem innhalda lyf eða lyfjavirk efni er óheimilt að flytja til landsins eða markaðssetja.
          Í 2. gr. frumvarpsins er það áréttað að lög nr. 93/1995, um matvæli, taka til matvælaeftirlits hérlendis og um borð í skipum í höfnum og á leið til hafna hérlendis. Sama á við um loftför á flugvöllum hérlendis.
          Hugtakinu „eftirlitsaðili“ er breytt í „opinber eftirlitsaðili“. Þetta er gert til aðgreiningar frá sjálfstætt starfandi eftirlitsaðila (e. control body) sem er hugtak notað í reglugerðum ESB um faggiltan aðila sem fær úthlutað eftirlitsverkefnum af Matvælastofnun. Í sumum tilvikum er heitið „Matvælastofnun“ einnig notað í stað „eftirlitsaðili“ í þeim tilvikum þegar stofnunin fer ein með opinbert eftirlit.
          Ákvæði um starfsleyfisskyldu sauðfjár- og hrossaræktar eru felld út úr frumvarpinu, en þessar búgreinar þurfa þess í stað að tilkynna Matvælastofnun um starfsemi sína.
          Skilgreining reglugerða EB um áhættugreiningu er tekin upp í frumvarpið.
          Í 6. og 68. gr. frumvarpsins er heimild til að gefa út eitt starfsleyfi enda þótt starfsleyfisskyldan byggist á fleiri en einum lögum.
          Í 14. gr. frumvarpsins er tekið á skörun á hlutverki opinberra eftirlitsaðila og einnig er lögð áhersla á að matvælaeftirlit skuli byggjast á áhættugreiningu og áhættumati. Ráðherra skal skipa ráðgefandi nefnd sem vinna skal að áhættumati á hlutlausan hátt. Sama á við um fóðureftirlit skv. c-lið 72. gr. frumvarpsins.
          Gert er ráð fyrir að Matvælastofnun hafi eftirlit með kjötvinnslum og kjötpökkunarstöðvum að undanskilinni slíkri starfsemi í smásöluverslun. Jafnframt er gert ráð fyrir að Matvælastofnun hafi eftirlit með mjólkurstöðvum og eggjavinnslu. Heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna hafa sinnt eftirliti vegna framangreindrar starfsemi, nema þegar kjötvinnsla er tengd sláturhúsi, en þá er hún undir eftirliti Matvælastofnunar. Stofnunin hefur einnig eftirlit með mjólkurstöðvum vegna útflutnings.
          Í 14. gr. frumvarpsins eru tekin upp sams konar efnisákvæði og eru í 19. gr. laga nr. 7 frá 1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, vegna yfirumsjónarhlutverks Matvælastofnunar gagnvart heilbrigðisnefndum og starfa stofnunarinnar við samræmingu matvælaeftirlits.
          Í síðustu málsgrein a-liðar 5. gr. frumvarpsins er áréttað að stjórnandi matvælafyrirtækis og eftirlitsaðilar skulu í störfum sínum huga sérstaklega að því að ekki berist á markað matvæli sem geta valdið matarsjúkdómum. Ráðherra skal setja reglugerð þar sem kveðið er á um sýnatökur og skilyrði markaðssetningar matvæla sem geta valdið matarsjúkdómum. Skyldur matvælafyrirtækja eru einnig áréttaðar í c-lið 19. gr.
          Í 15. gr. frumvarpsins hefur verið bætt við ákvæðið um faggilta aðila til samræmis við ákvæði 54. gr. þar sem fjallað er um eftirlit með sjávarafurðum. Vegna fóðureftirlits hefur sambærilegu ákvæði verið bætt við 72. gr. frumvarpsins.
          Í 15., 54. og 72. gr. hefur einnig verið sett inn ákvæði um að ráðherra geti ákveðið að vottað innra eftirlit matvæla- og fóðurfyrirtækja geti með tilteknum skilyrðum orðið þáttur í opinberu eftirliti.
          Gerðar eru breytingar á 17., 43., 63. og 73. gr. frumvarpsins um eftirlitsgjöld. Texti um lágmarksgjöld er felldur niður. Ákvæði 27. gr. reglugerðar (EB) nr. 882/2004 um lágmarksgjöld mun þannig gilda um þessi gjöld.
          Þá er felld út úr 17., 43., 63. og 73. gr. frumvarpsins heimild eftirlitsaðila til að afturkalla starfsleyfi vegna vanskila eftirlitsgjalda. Jafnframt eru gerðar aðrar minni háttar breytingar á ákvæðinu til samræmis við 27. gr. reglugerðar (EB) nr. 882 frá 2004.
          Í 17. gr. er það gert skýrara að sveitarfélög skulu gefa út gjaldskrá fyrir eftirlitsskylda starfsemi heilbrigðisnefnda vegna matvælaeftirlits á grundvelli laga nr. 93 frá 1995 um matvæli og ákvæða reglugerðar (EB) nr. 882 frá 2004.
          Í 19. og 72. gr. frumvarpsins er lögð sú skylda á stjórnanda matvæla- og fóðurfyrirtækis að hann tilkynni opinberum eftirlitsaðila með hæfilegum fyrirvara um flutning matvæla eða fóðurs til landsins frá EES-ríkjum ef brýna nauðsyn ber til þannig að opinber eftirlitsaðili geti skipulagt eftirlitið.
          Í 23. gr. frumvarpsins, sbr. breytingar á 30. gr. a, er kveðið á um að dagsektir sem Matvælastofnun ákveður renni í ríkissjóð en dagsektir sem heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna ákveða skulu renna til rekstraraðila heilbrigðiseftirlits á viðkomandi svæði. Hámark dagsekta skal ákveðið í reglugerð sem ráðherra setur.
          Í 41. gr. frumvarpsins, sem er ákvæði til bráðabirgða, er ráðherra heimilt með reglugerð, að ákveða skiptingu og fjölda umdæma skv. 11. gr. laganna aðra en þar greinir í þeim tilgangi að unnt sé að gera breytingar á umdæmum í áföngum. Fjöldi umdæma og svæðaskipting skv. 11. gr. skal þannig koma til framkvæmda í síðasta lagi 1. nóvember 2013.
          Ráðherra er jafnframt heimilt skv. 41. gr frumvarpsins að fela héraðsdýralækni að sinna tímabundið almennri þjónustu við dýraeigendur á tilteknu svæði ef heilbrigði eða velferð dýra er stefnt í hættu enda fáist ekki dýralæknar til að sinna slíkri þjónustu við dýraeigendur á umræddu svæði. Heimild ráðherra samkvæmt þessu ákvæði fellur úr gildi 1. nóvember 2013.
          Í 33. gr. frumvarpsins er það sérstaklega tilgreint að ef aukaafurðir dýra teljast til úrgangs gilda um starfsemina ákvæði laga nr. 55 frá 2003, um meðhöndlun úrgangs.
          Í 38. gr. er gert ráð fyrir því að dýralæknar sinni bakvakt utan venjulegs vinnutíma á landinu öllu. Vaktsvæðin eru þrettán.
          Í 68. gr. frumvarpsins segir að ef kveðið sé á um starfsleyfisskyldu í lögum um matvæli eða sérlögum fyrir starfsemi sem fellur einnig undir ákvæði laga um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru skuli Matvælastofnun gefa út eitt starfsleyfi á grundvelli laganna. Samsvarandi ákvæði er í lögum um matvæli, nr. 93/1995.
          Í h-lið 72. gr. frumvarpsins er fóðurfyrirtækjum og aðilum sem starfa við rannsóknir og greiningu á fóðri gert skylt að tilkynna Matvælastofnun ef í fóðri greinast örverur sem geta borist í dýr og þannig valdið sjúkdómum í mönnum sem eru tilkynningarskyldir samkvæmt ákvæðum sóttvarnalaga, nr. 19/1997, eða reglna settra með stoð í þeim lögum.
    Við framlagningu þessa frumvarps eru gerðar nokkrar efnislegar breytingar frá fyrra frumvarpi sem lagt var fram á 136. löggjafarþingi. Helstu breytingar eru eftirfarandi:
          Frumvarp þetta er í samræmi við efnisákvæði ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar að öðru leyti en því að innflutningsbann á hráu kjöti skv. 10. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, helst og er ekki afnumið. Sama á við um alidýraáburð og rotmassa sem er blandaður alidýraáburði en slíkur innflutningur er óheimill.
          2. mgr. 10. gr. laga nr. 25/1993 verður óbreytt efnislega. Matvælastofnun var heimilt að leyfa innflutning samkvæmt ákvæði eldra frumvarps. Ráðherra hefur þetta vald núna samkvæmt frumvarpinu og er 2. mgr. 10. gr. laga nr. 25/1993 þannig breytt í fyrra horf.
          Í síðustu málsgrein a-liðar 5. gr. frumvarpsins er áréttað með skýrari hætti en áður að tryggja skuli matvælaöryggi og vernda skuli heilsu manna og dýra. Ráðherra skal setja reglugerð þar sem kveðið er almennt á um sýnatökur, vottorðagjöf og skilyrði markaðssetningar matvæla til að fyrirbyggja að þau geti valdið matarsjúkdómum.
          2. mgr. 41. gr. frumvarpsins, sem er ákvæði til bráðabirgða, er felld burtu en þar var ráðherra heimilt með reglugerð að ákveða skiptingu og fjölda umdæma skv. 11. gr. laganna aðra en þar greinir í þeim tilgangi að unnt væri að gera breytingar á umdæmum í áföngum. Matvælastofnun er gert að spara umtalsverða fjármuni í sínum rekstri og talið hagkvæmt að að gera umræddar breytingar á skemmri tíma en eldra frumvarp gerði ráð fyrir.
          Gildistöku 43. gr. frumvarpsins sem fjallar um eftirlitskostnað vegna slátrunar er breytt sbr. 79. gr frumvarpsins. Ákvæðið tekur gildi 1. september 2009 en þetta er annað tímamark en gildir um önnur ákvæði IV. kafla sem taka gildi 1. maí 2011. Ástæða þessa er sú að brýnt þykir, m.a. vegna tilmæla frá umboðsmanni Alþingis, að leiðrétta kjötskoðunargjald þannig að greiddur sé raunkostnaður af eftirliti með öllum tegundum búfjár.
          Skýrt er kveðið á um heimild ráðherra til að setja reglugerð um erfðabreytt matvæli og merkingar þeirra. Sama á við um fóður, sbr. 28. og 70. gr.
          Jafnframt er það áréttað að matvæli mega ekki innihalda lyf eða lyfjavirk efni með sama hætti og fæðubótarefni, sbr. 8. gr. frumvarpsins.

VIII.     Helstu efnisatriði frumvarpsins eftir köflum.
    Í I. og VI. kafla frumvarpsins eru tekin upp ýmis mikilvæg ákvæði reglugerðar (EB) nr. 178/2002 í lög um matvæli, nr. 93/1995, og í lög um fóður, nr. 22/1994. Hér er um að ræða skilgreiningar hugtaka og ákvæði um öryggi matvæla og fóðurs, ábyrgð stjórnenda matvæla- og fóðurfyrirtækja, rekjanleika matvæla og fóðurs, varúðarreglur og upplýsingar til almennings. Í þessum köflum eru gjaldskrárákvæði vegna matvæla og fóðurs í samræmi við ákvæði reglugerðar (EB) nr. 882/2004. Nánar er fjallað um ákvæði frumvarpsins vegna eftirlitsgjalda í VII. kafla þessara athugasemda. Jafnframt er gert ráð fyrir ákvæði um viðbrögð við matarsýkingum og matareitrunum. Gert er ráð fyrir ítarlegri reglugerðarheimild í frumvarpinu þar sem ráðherra er veitt heimild til þess að innleiða helstu reglugerðir EB vegna matvæla- og fóðurlöggjafar auk breytingagerða.
    Í II. kafla frumvarpsins er fjallað um breytingar á 10. gr. laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, nr. 25/1993, með síðari breytingum. Með þessari lagabreytingu er innflutningsbann vegna heilbrigðiskrafna flestra vara, þó ekki hrás kjöts, sem rekja má til afurða úr dýraríkinu fellt brott. Meginreglan verður sú að heimilt verður að flytja þessar vörur til landsins uppfylli varan skilyrði Evrópusambandsins um heilbrigðisvottun. Jafnframt er í þessum kafla ákvæði um smithættu vegna aukaafurða dýra sem ekki eru ætluð til manneldis. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að innflutningur á alidýraáburði og rotmassa sem er blandaður alidýraáburði er óheimill. Ráðherra er jafnframt veitt heimild til þess að setja reglugerðir um flutning líflamba og innleiðing reglugerðar (EB) nr. 1774/2002.
    Í III. kafla er fjallað um breytingar á lögum um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, nr. 66/1998, með síðari breytingum. Í reglugerð (EB) nr. 882/2004 er aðildarríkjum EES gert skylt að tryggja að ekki geti orðið hagsmunaárekstrar við opinbert eftirlit eftirlitsaðila, þar á meðal dýralækna. Frumvarpið gerir því ráð fyrir nauðsynlegum lagabreytingum til að uppfylla kröfur reglugerðarinnar um aðskilnað opinbers eftirlits og faglegrar/klínískrar þjónustu dýralækna. Í tengslum við þessar breytingar verða verulegar breytingar á starfssvæðum héraðsdýralækna. Ný skipan kallar á breytingar á störfum héraðsdýralækna og endurspegla ákvæði þessa kafla þessar breytingar. Í kaflanum er ákvæði til bráðbirgða sem fjallar um niðurlagningu starfa héraðsdýralækna.
    Í IV. kafla frumvarpsins er fjallað um breytingar á lögum um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, nr. 96/1997, með síðari breytingum. Um er að ræða lagabreytingar vegna reglugerðar (EB) nr. 882/2004 um opinbert eftirlit til að tryggja að uppfylltar séu kröfur laga um fóður og matvæli og um reglur varðandi dýraheilbrigði og dýravernd. Lagabreytingarnar varða fresti vegna heilbrigðisskoðunar í sláturhúsum og gjaldskrárákvæði vegna eftirlits. Í IX. kafla þessara athugasemda er gerð sérstök grein fyrir ákvæðum frumvarpsins vegna eftirlitsgjalda.
    Í V. kafla frumvarpsins er fjallað um breytingar á lögum um framleiðslu, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, nr. 55/1998, með síðari breytingum. Lagabreytingarnar fela í sér að ákvæði laganna eru aðlöguð að þeim reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins sem gerð er grein fyrir í almennum athugasemdum og eru tilefni þessa frumvarps, einkum reglugerðum (EB) nr. 178/2002 og 882/2004. Í samræmi við VI. kafla frumvarpsins eru efnisákvæði um fiskimjöl felld út úr lögunum enda munu lög nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, gilda um fiskimjöl, sbr. hér síðar.
    Einnig er leitast við að tryggja að ákvæði laganna geti einnig gilt um aukaafurðir úr sjávarafurðum og eldisafurðum sem eru ætlaðar til manneldis.
    Í VI. kafla frumvarpsins eru ákvæði um breytingar á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994, með síðari breytingum. Lagabreytingarnar fela í sér að ákvæði laganna eru löguð að þeim reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins sem gerð er grein fyrir í almennum athugasemdum og eru tilefni þessa frumvarps, einkum reglugerðum (EB) nr. 178/2002, 183/2005 og 882/2004. Það nýmæli er í þessum kafla frumvarpsins að fiskimjöl er nú skilgreint sem fóður þannig að lög nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, og EES-löggjöf um fóður gildir um fiskimjöl. Núgildandi reglur um fiskimjöl er að finna í lögum um framleiðslu, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, nr. 55/1998.
    Einnig er leitast við að tryggja að ákvæði laganna geti gilt um aukaafurðir úr dýraafurðum sem ekki eru ætlaðar til manneldis, sbr. reglugerð (EB) nr. 1774/2002.
    Í VII. kafla frumvarpsins eru ákvæði um heimild ríkisstjórnarinnar til að staðfesta þær ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér eru til umfjöllunar. Umræddar ákvarðanir voru samþykktar af íslenskum stjórnvöldum með stjórnskipulegum fyrirvara vegna þeirra lagabreytinga sem ákvarðanirnar kalla á. Í VII. kafla frumvarpsins er einnig að finna gildistökuákvæði. Lögin munu taka gildi 1. september 2009 hvað varðar allar matvælategundir aðrar en kjöt, mjólk og egg. Hvað þessar matvælategundir varðar og afurðir úr kjöti, mjólk og eggjum taka lögin gildi eigi síðar en 1. maí 2011. Gildistökuákvæðin miðast við þann tíma sem ESB-gerðir þær sem frumvarpinu er ætlað að heimila innleiðingu á taka gildi hér á landi sem er mismunandi eftir einstökum matvælategundum.

IX.     Gjaldskrárákvæði laga nr. 93/1995, nr. 22/1994, nr. 96/1997 og nr. 55/1998.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á gjaldtökuákvæðum 25. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, og 11. gr. laga nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum. Frumvarpið gerir ráð fyrir sambærilegu ákvæði í lögum nr. 93/1995, um matvæli, lögum nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, og einnig í lögum nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða.
    Gjald er tekið vegna kostnaðar við heilbrigðiseftirlit hjá matvæla- og fóðurfyrirtækjum og í sláturhúsum. Þessi fjögur ákvæði frumvarpsins eru í samræmi við reglugerð (EB) nr. 882/ 2004.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setji gjaldskrá fyrir eftirlitið sem byggist á eftirlitsgjöldum sem ekki eru hærri en raunkostnaður við eftirlitið. Gert er ráð fyrir því að sveitarfélögin setji gjaldskrár fyrir matvælaeftirlit viðkomandi heilbrigðisnefndar sem byggist á gjaldtökuákvæði 25. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli. Þetta er í samræmi við efnisákvæði 12. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og a-liðar 4. tölul. 27. gr. reglugerðar (EB) 882/2004. Í dag eru eftirlitsgjöld reiknuð með ýmsum hætti. Í tilviki eftirlits með sláturafurðum ákveður Alþingi með lögum þá krónutölu sem greiða skal fyrir eftirlit með hverju kílói innvegins kjöts í sláturhúsi.
    Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir samræmdu ákvæði um gjaldtöku fyrir landamæraeftirlit með innflutningi frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins.
    Með frumvarpinu er nánar tilgreint hvaða kostnaði tekjum af eftirlitsgjaldinu er ætlað að standa undir.

X.     Eftirlitsaðilar með matvælum og fóðri.
    Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna hafa eftirlit með matvælum samkvæmt lögum nr. 93/1995, um matvæli, sbr. I. kafla frumvarpsins. Matvælastofnun hefur jafnframt eftirlit með matvælum samkvæmt lögum nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, skv. IV. kafla frumvarpsins, og lögum nr. 55/1998, um framleiðslu, vinnslu og dreifingu sjávarafurða.
    Matvælastofnun hefur auk eftirlits með matvælum eftirlit með fóðri samkvæmt lögum nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.
    Verkaskipting milli Matvælastofnunar og heilbrigðisnefnda í matvælaeftirliti er nú þannig að Matvælastofnun fer með eftirlit með frumframleiðslu búfjárafurða, eftirlit með sláturhúsum og kjötvinnslum sem þeim tengjast og eftirlit með sjávarafurðum og eldisfiski, allt að smásölu, jafnframt mjólkurbúum vegna útflutnings. Þá fer stofnunin með allt inn- og útflutningseftirlit með matvælum. Heilbrigðisnefndir fara því með eftirlit með innlendum matvælavinnslum, þ.m.t. kjötvinnslum utan sláturhúsa og einnig mjólkurbúum, auk þess að hafa eftirlit með dreifingu og smásölu matvæla. Verkefni þessi eru skilgreind í 6. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli. Af þessu má sjá að kjötvinnslur eru ýmist undir eftirliti Matvælastofnunar eða heilbigðisnefndar og að mjólkurbú eru undir eftirliti beggja aðila.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að einn og sami aðili fari með eftirlit með mjólkurbúum og eggjavinnslu og það sama gildi um kjötvinnslur og kjötpökkunarstöðvar, að undanskildum vinnslum sem eru í smásöluverslunum, sbr. ákvæði 4. gr. frumvarpsins. Fyrir kjötframleiðslu er þetta þá sama verkaskipting og gildir í dag fyrir sjávarafurðir. Er lagt til að þetta eftirlit verði í höndum Matvælastofnunar og er þá horft til þess að þessi fyrirtæki dreifa vöru um allt land og fá nú einnig heimild til að dreifa vörum til ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. Eftirlit með annarri matvælavinnslu en vinnslu sjávar- og búfjárafurða verður þá undir eftirliti heilbrigðisnefnda ásamt frekari dreifingu og sölu matvæla, að undanskildu inn- og útflutningseftirliti sem Matvælastofnun fer áfram með. Vísast hér jafnframt til athugasemda um 4. gr. frumvarpsins sem er breyting á 6. gr. matvælalaga. Eftirlitsverkefni Matvælastofnunar verða þannig tilgreind í 6. gr. matvælalaga, en annað eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla annast heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna skv. 22. gr. sömu laga. Þetta eftirlit heilbrigðisnefndanna er undir yfirumsjón Matvælastofnunar skv. 14. gr. frumvarpsins.
    Fyrir liggur ítarlegt kostnaðarmat Matvælastofnunar vegna frumvarpsins þar sem farið er yfir kostnaðarþætti sem falla til vegna frumvarpsins.
    Matvælastofnun og heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna skulu skv. 17. gr. frumvarpsins innheimta gjöld vegna matvælaeftirlits sem miðast við raunkostnað þess. Ráðherra setur gjaldskrá vegna eftirlits Matvælastofnunar en viðkomandi sveitarfélag setur gjaldskrá fyrir matvælaeftirlit heilbrigðisnefndar. Samkvæmt þessu munu eftirlitsþolar greiða raunkostnað vegna eftirlits og því ætti ekki að falla aukinn kostnaður á sveitarfélögin vegna breytinga á matvælaeftirliti heilbrigðisnefnda.
    Samkvæmt 15., 54. og 72. gr. frumvarpsins er opinberum eftirlitsaðilum heimilt að úthluta tilteknum aðilum sérverkefnum sem tengjast opinberu eftirliti. Matvælastofnun og heilbrigðisnefnd mega úthluta sérverkefnum til tiltekins aðila ef hann hefur þá sérþekkingu, búnað og grunnvirki sem þarf til að annast þau verkefni sem honum hefur verið úthlutað. Slíkur aðili þarf að hafa yfir að ráða nægu starfsfólki með viðeigandi menntun og hæfi. Hann þarf að vera óhlutdrægur og engir hagsmunaárekstrar mega eiga sér stað að því er varðar framkvæmd þeirra verkefna sem honum hefur verið úthlutað. Eftirlitsaðilinn skal hafa fengið faggildingu í samræmi við Evrópustaðal. Nánar er fjallað um skilyrði framangreindrar úthlutunar verkefna til faggiltra aðila í 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 882/2004. Gert er ráð fyrir að Matvælastofnun nýti sér heimild sína til að úthluta verkefnum til aðila sem uppfylla skilyrði 5. gr. þannig að faggiltir aðilar geti áfram sinnt eftirliti með matvælum, t.d. í sjávarútvegi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Meginmarkmið matvælalöggjafar Evrópusambandsins er matvælaöryggi. Til að ná þessu markmiði er kveðið á um opinbert eftirlit með framleiðslu og markaðssetningu matvæla. Jafnframt eru reglur um rekjanleika dýraafurða og annarra matvæla auk ákvæða um vernd neytenda matvæla. Yfirvöld geta einnig gripið til varúðar- og varnaraðgerða til að tryggja heilsu almennings vegna hugsanlegra heilsuspillandi áhrifa matvæla. Lagt er til að síðari málsliður 1. gr. laganna sem breytt er með 1. gr. frumvarpsins endurspegli þessar áherslur löggjafarinnar og kveði á um innra eftirlit, áhættugreiningu, rekjanleika afurða og vara og neytendavernd, auk heimildar til varnaraðgerða, enda mikilvæg úrræði til að ná markmiðum laganna.

Um 2. gr.


    Orðalagi 1. mgr. 2. gr. laganna er breytt til samræmis við 3. tölul. 1. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002. Síðasti málsliður 1. mgr. er þó óbreyttur frá núgildandi lögum. Í síðasta málslið 2. mgr. 2. gr. er skýrt kveðið á um að lögin gildi ekki um plöntur fyrir uppskeru og lifandi dýr nema þau séu meðhöndluð til markaðssetningar til manneldis. Þetta er í samræmi við b–c-lið 2. gr. reglugerðar (EB) nr. 178/2002. Núgildandi lög um matvæli gilda ekki um fóður. Gert er ráð fyrir því í þessu frumvarpi að svo verði áfram enda þótt reglugerð (EB) nr. 178/2002 gildi bæði um matvæli og fóður. Fóðurlöggjöf reglugerðar (EB) nr. 178/2002 er innleidd með breytingum á lögum nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Sérstaklega er tekið fram í ákvæðinu að frumvarpið taki til fæðubótarefna. Núgildandi lög hafa ekki kveðið skýrt á um þetta, en fæðubótarefni teljast til matvæla samkvæmt EES-löggjöf. Í lögunum er það áréttað að lögin gilda um matvælaeftirlit um borð í skipum og loftförum sem staðsett eru hérlendis og í skipum á leið til landsins.

Um 3. gr.


    Í ákvæðinu eru skilgreind nokkur hugtök sem notuð eru í frumvarpinu. Hugtakið matvæli er skilgreint upp á nýtt í samræmi við skilgreiningu reglugerðar (EB) nr. 178/2002. Fæðubótarefni eru nú skilgreind sem matvæli. Skilgreining á hugtakinu áhættugreining er tekin upp í lögin enda notast við hugtakið í 14. gr. frumvarpsins sem breytir 22. gr. laga nr. 93/1995. Skilgreiningin er í samræmi við reglugerð (EB) nr. 178/2002. Við innleiðingu þessarar reglugerðar, sbr. heimild í 28. gr. frumvarpsins, munu koma fram nánari skilgreiningar á þeim þáttum sem hugtakið áhættugreining nær yfir.
    Í frumvarpinu er jafnframt skilgreining á því hvað séu fæðubótarefni. Um frekari skýringar á ákvæðum laganna um fæðubótarefni vísast til athugasemda við 8. gr. frumvarpsins. Nauðsynlegt þótti að skilgreina hugtakið „opinber eftirlitsaðili“ sérstaklega og „neysluvatn“, en það er skilgreint eins og í tilskipun (EB) nr. 98/83/EB. Aðrar skilgreiningar frumvarpsins eru samhljóða skilgreiningum í reglugerð (EB) nr. 178/2002. Ekki er talið að aðrar skilgreiningar í núverandi lögum stangist á við hugtök sem notuð eru í matvælalöggjöf Evrópusambandsins.

Um 4. gr.


    Hér er a-lið gildandi ákvæðis 6. gr. laganna eins og hann er með þeim breytingum sem gerðar voru á lögunum með lögum nr. 167/2007, um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands, skipt í tvo stafliði til einföldunar og glöggvunar í framkvæmd. Frumframleiðsla er skilgreind í 3. gr. frumvarpsins. Með frumframleiðslu í 4. gr. frumvarpsins er m.a. átt við framleiðslu matjurta og er þá átt við það ferli sem verður frá og með uppskeru og geymslu þar til kemur að pökkun og dreifingu. Pökkun og dreifing matjurta er því samkvæmt þessu háð eftirliti heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna. Með frumframleiðslu eggja er átt við ferlið sem verður frá útungun dags gamalla alifugla og við eldi þeirra, svo og tínslu neyslueggja, þvott, flokkun, pökkun og geymslu eggja á framleiðslustað. Egg lúta því eftirliti heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna þegar þau yfirgefa framleiðslustað. Varðandi aðrar búfjárafurðir felur hugtakið frumframleiðsla í sér mjöltun og eldi dýra til slátrunar, ásamt flutningi og öðru sem þetta varðar, áður en kemur til frekari vinnslu.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir nýjum efnisákvæðum vegna eftirlits með mjólkurstöðvum, kjötvinnslum, kjötpökkunarstöðvum og eggjavinnslu. Í dag er málum þannig háttað að Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga (HES) veitir mjólkurstöðvum starfsleyfi og hefur eftirlit með þeim, nema þegar um er að ræða fyrirtæki sem hafa leyfi til útflutnings, en þá fer MAST einnig með eftirlit með þeim fyrirtækjum. Varðandi kjötvinnslur fer Matvælastofnun með eftirlit með vinnslum sem tengdar eru sláturhúsum en HES fer með eftirlit með öðrum kjötvinnslum. Sú tilhögun er viðhöfð til að fyrirbyggja að tveir eftirlitsaðilar fari með eftirlit í sama fyrirtæki, en dýralæknar hjá MAST fara með eftirlit í sláturhúsum. Framangreind skipan mála gerir það að verkum að tveir eftirlitsaðilar hafa eftirlit með fyrirtækjum sem leyfi hafa til útflutnings. Þetta gerir það að verkum að misræmi getur orðið í framkvæmd eftirlits. Samkvæmt ákvæðum 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 854/2004 um sértækar reglur um skipulag opinbers eftirlits með afurðum úr dýraríkinu skulu opinberir eftirlitsdýralæknar fara með eftirlit með hluta kjötvinnsla og kjötpökkunarstöðva (e. cutting plants) sem setja ferskar kjötvörur á markað. MAST hefur opinbera eftirlitsdýralækna sem starfa á umdæmisskrifstofum stofnunarinnar um allt land. Sama gildir ekki um heilbrigðiseftirlitið, en þar starfa dýralæknar við matvælaeftirlit á sumum eftirlitssvæðum, en ekki öðrum. Samkvæmt þessu gerir frumvarpið ráð fyrir að Matvælastofnun verði falið eftirlit með kjötvinnslum og kjötpökkunarstöðvum, að undanskildum slíkum vinnslum tengdum smásöluverslun. Verkaskiptingin gagnvart HES yrði þá hin sama og gildir um sjávarafurðir samkvæmt núgildandi ákvæðum 6. gr. matvælalaga, nr. 93/1995. Til samræmis við þetta ætti sama fyrirkomulag að gilda um eftirlit með mjólkurstöðvum og vinnslu eggja. Í nýjum d-lið 6. gr. er jafnframt vísað til „eggjavinnslu“ til áréttingar því sem áður var sagt um frumframleiðslu eggja í a-lið hér að framan. Eggjavinnsla er söfnun, pökkun og vinnsla afurða úr eggjum, sbr. 10. þátt III. viðauka reglugerðar (EB) nr. 853/2004. Vakin er athygli á að þau matvælafyrirtæki sem hér um ræðir dreifa vöru um allt land og eiga nú einnig að fá heimild til frjálsrar dreifingar matvæla á EES. Því er eðlilegt að samræma eftirlit með þessum fyrirtækjum með því að fela það einum aðila.

Um 5. gr.


    Lagt er til að við lögin bætist þrjú ný ákvæði, 8. gr. a, 8. gr. b og 8. gr. c, í samræmi við 17. og 19. gr. reglugerðar (EB) nr. 178/2002.
     Um a-lið (8. gr. a).
    Ákvæðið skilgreinir örugg matvæli. Matvæli sem ekki eru örugg skal ekki markaðssetja. Matvæli skulu ekki teljast örugg ef þau eru álitin heilsuspillandi eða óhæf til neyslu. 2.–4. mgr. ákvæðisins gefur nánari leiðbeiningar um það hvað má telja örugg, heilsuspillandi eða óneysluhæf matvæli.
    Rétt þykir að huga sérstaklega að markaðssetningu matvæla sem geta innihaldið örverur sem kunna að valda matarsjúkdómum. Er hér t.d. átt við kjötvörur sem gætu innihaldið örverur eins og salmonellu og kampýlóbakter. Íslensk matvælaframleiðsla stendur mjög vel hvað varðar fyrirbyggjandi aðgerðir til að tryggja að t.d. alifuglar mengaðir þessum örverum berist ekki á markað. Í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 137/2007, um breytingu á EES-samningnum, kemur fram að Ísland muni sækja um svokallaðar viðbótartryggingar vegna salmonellu sem geri það að verkum að unnt verður að krefjast vottorða með vörum sem berast hingað frá EES. Ekki er hins vegar hægt að sækja um slíkar tryggingar vegna kampýlóbakter. Telja verður ákvæði 5. gr. frumvarpsins fullnægjandi ef til þess kemur að taka þurfi matvæli af markaði vegna hættu á heilsutjóni.
    Í 9. tölul. 14. gr. reglugerðar nr. 178/2002 er vísað til 28. og 30. gr. Rómarsamningsins. Efnisákvæði 11. gr. EES-samningsins er samsvarandi 30. gr. Rómarsamningsins en í 11. gr. segir:
    „11. gr. Sbr. 30. gr. Rs.
    Magntakmarkanir á innflutningi, svo og allar ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif, eru bannaðar milli samningsaðila.“
    Í 13. gr. EES-samningsins segir jafnframt:
    „13. gr. Sbr. 36. gr. Rs.
    Ákvæði 11. og 12. gr. koma ekki í veg fyrir að leggja megi á innflutning, útflutning eða umflutning vara bönn eða höft sem réttlætast af almennu siðferði, allsherjarreglu, almannaöryggi, vernd lífs og heilsu manna eða dýra eða gróðurvernd, vernd þjóðarverðmæta, er hafa listrænt, sögulegt eða fornfræðilegt gildi, eða vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar og viðskipta. Slík bönn eða höft mega þó ekki leiða til gerræðislegrar mismununar eða til þess að duldar hömlur séu lagðar á viðskipti milli samningsaðila.“
    Samkvæmt 13. gr. EES-samningsins má leggja á innflutning, útflutning eða umflutning vara bönn eða höft sem réttlætast af vernd lífs og heilsu manna eða dýra eða gróðurvernd þrátt fyrir að magntakmarkanir eða samsvarandi ráðstafanir á innflutningi séu almennt bannaðar skv. 11. gr. EES-samningsins. 9. tölul. 14. gr. reglugerðar nr. 178/2002 verður þannig að skýra í samræmi við þetta efnisákvæði. Við beitingu 13. gr. EES-samningsins verður að gæta ýmissa sjónarmiða. Þannig ber að huga að „meðalhófsreglunni“. Í henni felst að aðgerð verður að vera nauðsynleg til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt og að ekki skuli farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til með hliðsjón af þeim markmiðum.
    Í ljósi framansagðs þykir eðlilegt að kveða skýrt á í frumvarpinu um skyldur bæði matvælafyrirtækja og eftirlitsaðila til að fyrirbyggja að vörur sem valdið geta matarsýkingum berist á markað. Því er lagt til að í 4. mgr. nýrrar 8. gr. a laganna komi eftirfarandi ákvæði: „Stjórnandi matvælafyrirtækis, sbr. 8. gr. b, og opinberir eftirlitsaðilar samkvæmt lögum þessum skulu í störfum sínum tryggja eins og kostur er að ekki berist á markað matvæli sem geta valdið matarsjúkdómum. Til að tryggja ýtrasta matvælaöryggi og vernda líf og heilsu manna og dýra skal ráðherra setja reglugerð þar sem kveðið er almennt á um sýnatökur, vottorðagjöf og skilyrði markaðssetningar matvæla til að fyrirbyggja að þau geti valdið matarsjúkdómum.“ Ákvæðið leggur þá skyldu á ráðherra að setja nánari ákvæði um markaðssetningu þessarar matvöru með það að markmiði að fyrirbyggja markaðssetningu matvæla sem ekki eru örugg vegna örvera sem valdið geta matarsjúkdómum. Samkvæmt ákvæðinu er hugtakið matarsjúkdómar samheiti yfir eitranir og sýkingar í fólki sem stafa af neyslu matvæla.
     Um b-lið (8. gr. b).
    Stjórnendur matvælafyrirtækja eins og þeir eru skilgreindir í frumvarpinu bera ábyrgð á því að starfsemin sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Stjórnanda ber einnig að sannprófa að starfsemin sé í samræmi við lög og reglur sem um reksturinn gilda. Stjórnandi er í bestri aðstöðu til að þróa öruggt kerfi fyrir afhendingu matvæla og til að tryggja að matvæli, sem hann afhendir, séu örugg. Af þessum sökum er eðlilegt að stjórnandi matvælafyrirtækis beri frumábyrgð á öryggi matvæla. Stjórnandi hefur einnig skyldu skv. 8. gr. c til að afturkalla vöru af markaði og láta eftirlitsaðila vita ef hann hefur grun um að matvæli sem hann hefur framleitt, unnið eða dreift séu ekki í samræmi við öryggiskröfur matvæla.
    Um c-lið (8. gr. c).
    Í ákvæðinu er orðalag núverandi ákvæðis matvælalaga um ábyrgð framleiðenda matvæla lagað að reglugerð (EB) 178/2002 að því marki sem það er talið nauðsynlegt, sbr. 17. gr. reglugerðarinnar. Talið er að núverandi orðalag ákvæðisins samræmist ákvæði reglugerðarinnar nokkuð vel, einnig að teknu tilliti til reglugerða EB sem settar hafa verið í kjölfar hennar svo sem reglugerðar (EB) nr. 852/2004.

Um 6. gr.


    Í ákvæðinu er lögð til sú almenna regla að matvælafyrirtæki skuli hafa starfsleyfi frá viðkomandi eftirlitsaðila, sbr. 20. gr. laganna, og sækja um slíkt leyfi áður en starfsemi hefst. Gert er ráð fyrir að heimilt verði að binda starfsleyfi tilteknum skilyrðum ef eftirlitsaðili telur ástæðu til. Gefa skal út starfsleyfi til tiltekins tíma enda uppfylli starfsemin skilyrði laga og stjórnvaldsreglna sem um hana gilda. Gert er ráð fyrir að óheimilt sé að hefja starfsleyfisskylda starfsemi hafi starfsleyfi fyrir hana ekki verið gefið út. Enn fremur er gert ráð fyrir að stjórnanda beri að veita eftirlitsaðila upplýsingar um fyrirhugaðar breytingar á starfsemi sem varðað geta ákvæði starfsleyfis með hæfilegum fyrirvara. Þá er gert ráð fyrir að eftirlitsaðila sé heimilt að endurskoða starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna, svo sem ef breytingar verða á rekstrinum, vegna tækniþróunar eða breytinga á reglum um öryggi matvæla eða framkvæmd matvælaeftirlits.
    Í greininni er fjallað nánar um þá þætti sem skulu koma fram í starfsleyfi og um leið skilyrði sem sett eru vegna veitingar þeirra. Ákvæði frumvarpsins eru jafnframt talin ná yfir tilvik þar sem eftirlitsaðilar gefa starfsleyfi til skemmri tíma eða til bráðabirgða, t.d. þegar fyrirtæki er að hefja rekstur, en eftirlitsaðili metur það svo að ekki séu öll skilyrði uppfyllt til fulls. Engu síður sé mögulegt að leyfa fyrirtækinu að hefja rekstur þar sem það sem á vanti varði ekki matvælaöryggi, enda verði úr því bætt innan skamms tíma í samræmi við skilyrði í starfsleyfi. Að þeim tíma liðnum og þegar staðfest er að bætt hafi verið úr verði gefið út fullt starfsleyfi til lengri tíma.
    Núverandi staða vegna búfjárafurða hefur verið sú að nautgripa-, svína- og alifuglarækt eru starfsleyfisskyldar greinar, en sauðfjár- og hrossarækt ekki. Lagt er til að þetta fyrirkomulag haldist óbreytt þannig að þeir aðilar sem stunda sauðfjár- og hrossarækt í atvinnuskyni til matvælaframleiðslu skuli ekki vera starfsleyfisskyldir. Þessar búgreinar skulu þó tilkynna Matvælastofnun um starfsemi sína. Þeir bændur sem sinna ræktun matjurta eru ekki starfsleyfisskyldir heldur þurfa einungis að tilkynna Matvælastofnun um starfsemi sína. Ekki er talin ástæða til þess að krefjast starfsleyfis vegna þessarar ræktunar við núverandi aðstæður.
    Í greininni er gert ráð fyrir að ráðherra geti með reglugerð undanskilið frá starfsleyfisskyldu tómstundabændur, þ.e. þá aðila sem ekki halda sauðfé, geitfé og hross í ágóðaskyni heldur sér til ánægju. Þeir verði þó eftir sem áður skyldir til að vera með sín dýr á skrá hjá viðkomandi búfjáreftirliti og lúta öllum öðrum lögum og stjórnvaldsfyrirmælum, svo sem um einstaklingsmerkingar og fleiri atriði sem varða dýraheilbrigði og dýravernd og heilbrigði sláturdýra, kjósi þeir að senda dýr til slátrunar.
    Loks er gert ráð fyrir að í sérlögum sé heimilt að kveða á um sérstök skilyrði fyrir útgáfu starfsleyfis fyrir starfsemi einstakra matvælafyrirtækja. Ef einnig er kveðið á um starfs- eða vinnsluleyfisskyldu í sérlögum eða lögum um eftirlit með fóðri fyrir starfsemi sem fellur undir ákvæði þessara laga er eftirlitsaðila heimilt að gefa út eitt starfsleyfi á grundvelli hvorra tveggja laganna.

Um 7. gr.


    Hugtakið „matvælafyrirtæki“ kemur í stað orðanna „Þeir sem framleiða matvæli og dreifa þeim“. Einnig er hér tekið upp ákvæði um innra eftirlit sambærilegt við það sem nú er í 15. gr. laga nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, þar sem gert er ráð fyrir að stjórnandi matvælafyrirtækis beri ábyrgð á að sett sé á fót og starfrækt innra eftirlit með framleiðslu og starfsemi matvælafyrirtækja og skal það byggt á meginreglum hættugreiningar þar sem innleidd löggjöf ESB kveður á um slíkt. Með því er átt við að matvælafyrirtæki greini hættuþætti og mikilvæga stýristaði í framleiðslu og við dreifingu matvæla. Þá er þar ákvæði um að matvælafyrirtækjum sé skylt að fara eftir reglum um almenna hollustuhætti en þar er einkum átt við reglugerðir (EB) nr. 852/2004 og 853/2004 sem heimilað er að innleiða með 28. gr. frumvarpsins og gerð er grein fyrir í almennum athugasemdum með frumvarpinu. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 8. gr.


    Fæðubótarefni geta innihaldið lyf eða lyfjavirk efni sem falla undir ákvæði lyfjalaga. Slík fæðubótarefni verður hins vegar óheimilt að flytja til landsins eða markaðssetja skv. 8. gr. frumvarpsins sem breytir 1. mgr. 11. gr. gildandi laga. Í Evrópulöggjöf teljast fæðubótarefni til matvæla. Samkvæmt þessu telst vara sem hefur verið markaðssett og kynnt sem fæðubótarefni og inniheldur lyfjavirkt efni eða efnasamband ólöglegt fæðubótarefni. Samkvæmt lögunum verður það skýrt að ef fæðubótarefni innihalda lyf eða lyfjavirk efni á eftirlitsaðili að taka á málum á grundvelli matvælalaga. Samráð skal hafa við þá sem fara með eftirlit samkvæmt lyfjalögum. Þeir sem fara með matvælaeftirlit taka þá vöru af markaði ef varan inniheldur lyf eða lyfjavirkt efni eða ætla má að hún geti verið hættuleg til neyslu eða blekki neytendur varðandi eðli eða áhrif vörunnar, samkvæmt mati Matvælastofnunar eða heilbrigðisnefnda sveitarfélagana, að höfðu samráði við Lyfjastofnun.

Um 9. gr.


    Miklu skiptir að hægt sé að rekja feril matvæla. Í þessu skyni gerir matvælalöggjöf Evrópusambandsins ráð fyrir víðtæku kerfi rekjanleika í matvælafyrirtækjum til þess að hægt sé að afturkalla vörur á markvissan og nákvæman hátt eða veita neytendum eða eftirlitsmönnum upplýsingar og komast þannig hjá óþarfa röskun þegar upp koma vandamál í tengslum við öryggi matvæla. Ákvæðið kveður á um grunnreglu reglugerðar (EB) nr. 178/ 2002 í 18. gr. um rekjanleika matvæla, dýra sem gefa af sér afurðir til manneldis og efna sem notuð eru í matvæli. Stjórnandi eins og hann er skilgreindur þarf að hafa vitneskju um birgja og aðra þá sem útvega hráefni til matvælaframleiðslu eða matvælavinnslu. Þessa vitneskju þarf stjórnandinn að hafa tiltæka ef eftirlitsaðilar óska þessara upplýsinga. Matvælafyrirtæki, að innflytjanda meðtöldum, getur þurft að staðfesta frá hvaða fyrirtæki það hefur fengið tiltekin matvæli, dýr eða efni sem sett eru í matvæli til að tryggja rekjanleika á öllum stigum ef rannsókn fer fram. Þá skulu stjórnendur matvælafyrirtækja einnig geta tilgreint hverjum þeir hafa afhent sínar framleiðsluvörur.

Um 10. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 11. gr.


    Ákvæðið kveður á um hagsmunavernd neytenda matvæla og er samsvarandi 8. gr. reglugerðar (EB) nr. 178/2002. 2. mgr. ákvæðisins er samsvarandi 16. gr. reglugerðar (EB) nr. 178/2002.

Um 12. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 13. gr.


    Gert er ráð fyrir að leyfisveitingar verði bæði í höndum Matvælastofnunar og heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna og að leyfisveitandi verði sú stofnun sem fer með eftirlit með starfsemi viðkomandi matvælafyrirtækis. Um eftirlit heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna og Matvælastofnunar gildir 22. gr. laga nr. 93/1995, sbr. 6. gr. sömu laga.

Um 14. gr.


    Í 1. mgr. er ákvæði sem heimilar ráðherra að ákveða hvaða opinber aðili skuli fara með eftirlit og veita starfsleyfi ef tveir aðilar hafa lögbundna eftirlitsskyldu í sama matvælafyrirtæki á grundvelli matvælalaga. Markmiðið er að tryggja að aðeins einn aðili fari með matvælaeftirlit í hverju fyrirtæki.
    Opinbert matvælaeftirlit skal framkvæmt með viðeigandi aðferðum sem þróaðar hafa verið í þeim tilgangi, þ.m.t. kerfisbundinni vöktun og eftirliti, svo sem skoðunum, sannprófunum, úttektum og töku og prófun sýna. Byggt skal á meginreglum um áhættugreiningu. Tíðni opinbers eftirlits skal vera regluleg og í réttu hlutfalli við áhættuna, að teknu tilliti til niðurstaðna úr eftirliti rekstraraðila matvælafyrirtækja, samkvæmt eftirlitsáætlunum, byggðum á greiningu á hættu og mikilvægum stýristöðum. Þá er í ákvæðinu nýmæli um að ráðherra eða Matvælastofnun geti leitað til ráðgefandi nefndar sem veita mundi þessum aðilum vísindalega ráðgjöf um áhættumat.
    Efnisákvæði 2. og 3. mgr. ákvæðisins eru efnislega samhljóða 2. mgr. 18. gr. og 19. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Samkvæmt 22. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, hefur Matvælastofnun yfirumsjón með eftirliti heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna. Eðlilegt þykir að skýrt sé hvað við er átt með hugtakinu yfirumsjón. Matvælastofnun skal þannig samræma allt matvælaeftirlit í landinu og gefa út leiðbeiningar og viðmiðunarreglur um framkvæmd matvælaeftirlits sem heilbrigðisnefndirnar skulu lúta.

Um 15. gr.


    Hér er kveðið á um heimild til að fela faggiltum skoðunarstofum að framkvæma tiltekin verkefni við framkvæmd eftirlits samkvæmt lögunum og einnig að fela rannsóknastofum tiltekin verkefni við rannsóknir samkvæmt lögunum. Samkvæmt matvælalögum geta þetta verið verkefni á vegum Matvælastofnunar eða heilbrigðisnefnda. Sambærilegt ákvæði varðandi eftirlit er í 16. gr. laga nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, sbr. 54. gr. frumvarpsins, en breyta verður þessu ákvæði um hlutverk faggiltra skoðunarstofa samkvæmt lögunum til samræms við þau ákvæði sem um þær gilda í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 882/2004.
    Í 5. mgr. kemur fram nýtt ákvæði um með hvaða hætti innra eftirlit matvælafyrirtækja getur verið þáttur í opinberu eftirliti. Ráðherra getur sett reglugerð á grundvelli ákvæðisins sem t.d. gæti falið í sér að dregið yrði úr tíðni opinbers eftirlits hjá matvælafyrirtækjum sem starfa eftir vottuðu gæðakerfi og hafa uppfyllt settar kröfur um innra eftirlit og hollustuhætti.
    Í 6. mgr. ákvæðisins er kveðið á um heimild ráðherra til að ákveða að tilteknar rannsóknastofur verði svokallaðar tilvísunarrannsóknastofur. Til að tryggja áreiðanlegar og sambærilegar rannsóknaniðurstöður hvar sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins hafa tilteknar rannsóknastofur innan Evrópu verið tilnefndar sem svokallaðar tilvísunarrannsóknastofur og er ein slík útnefnd á hverju fagsviði til að bera ábyrgð á þróun aðferða og miðlun upplýsinga og tryggja að samræmi sé í niðurstöðum milli landa. Ætlast er til að innan hvers aðildarlands sé sett upp svipað kerfi, þ.e. ein tilvísunarrannsóknastofa í hverju landi sinni sama hlutverki á landsvísu og tilvísunarrannsóknastofa Evrópusambandsins (ESB) sinnir fyrir ESB. Tilvísunarrannsóknarstofur ESB eru ákveðnar sérstaklega af ESB, en yfirvöld í hverju landi fyrir sig ákveða tilvísunarrannsóknastofur á landsvísu og tilkynna ESB. Hvort tveggja er birt með sérstökum ákvörðunum fyrir hvert rannsókna- eða prófunarsvið.

Um 16. gr.


    24. gr. laga nr. 93/1995 er breytt í samræmi við hugtakið „matvælafyrirtæki“. Einnig er kveðið á um hvaða aðilar það eru sem hafa skyldu til að tilkynna Matvælastofnun um upplýsingar sem þeir gætu haft undir höndum og varða öryggi matvæla.

Um 17. gr.


    Ákvæðið er í samræmi við meginreglur um gjaldtökuheimildir hér á landi og einnig 27. gr. reglugerðar (EB) nr. 882/2004. Byggt er á því að eftirlitsgjöld miðist við raunkostnað við eftirlitið. Þetta er í samræmi við efnisákvæði a-liðar 4. tölul. 27. gr. reglugerðar (EB) nr. 882/2004. Ákvæðið gildir um eftirlit sem framkvæmt er af Matvælastofnun og eins af heilbrigðisnefndum sveitarfélaga. Í ákvæðinu er hugtakið opinber eftirlitsaðili notað en það er skilgreint í 3. gr. frumvarpsins.
    Um 1. mgr.
    Í a–c-liðum 1. mgr. er fjallað um þá kostnaðarþætti sem eftirlitsgjaldið skal standa straum af. Stafliðirnir eru nær orðrétt þeir sömu og greinir í VI. viðauka við reglugerð nr. 882/2004 þar sem fjallað er um viðmiðanir sem taka skal tillit til við útreikning gjalda. Einnig má vísa til II. viðauka við reglugerðina þar sem fjallað er um viðmiðanir fyrir þjálfun starfsfólks sem gefur leiðbeiningar um hugtakið „þjálfun“ í b-lið. Hluti kostnaðar sem tilgreindur er í b-lið verður lagður á öll matvælafyrirtæki eftir hlutfallstölu.
    Um 2. mgr.
    Í 2. mgr. er fjallað um viðbótareftirlit umfram almennt og eðlilegt matvæla- eða heilbrigðiseftirlit. Hvað fellur undir „almennt og eðlilegt“ matvæla- eða heilbrigðiseftirlit fer eftir því hversu mikið eftirlit er talið nauðsynlegt á hverjum tíma í regluverki sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og fyrirmælum eða leiðbeiningum Matvælastofnunar. Um það verður ekki fjölyrt hér enda fer það eftir óræðum breytum er einkum varða sjúkdómaástand og sjúkdómavarnir eða aðra starfsemi matvælafyrirtækja. Hér má vísa til V. bálks reglugerðar nr. 882/2004 þar sem fjallað er um eftirlitsáætlanir.
    Ákvæðið er í samræmi við fyrirmæli 28. gr. reglugerðar (EB) nr. 882/2004 um kostnað við opinbert viðbótareftirlit. Í þeirri grein er sú skylda lögð á lögbært yfirvald að innheimta gjald fyrir viðbótareftirlit umfram eðlilega eftirlitsstarfsemi hjá þeim matvælafyrirtækjum sem eru ábyrg fyrir því að ekki er farið að tilskildum ákvæðum eða hjá matvælafyrirtæki sem á eða hefur vörurnar í sinni vörslu þegar viðbótareftirlitinu er sinnt. Í reglugerðinni er eðlileg eftirlitsstarfsemi talin sú venjubundna eftirlitsstarfsemi sem krafist er samkvæmt lögum, þ.e. innlendum lögum eða lögum Evrópusambandsins, og má hér vísa til fyrirmæla um innlendar eftirlitsáætlanir í V. bálki reglugerðarinnar. Opinbert viðbótareftirlit umfram eðlilega eftirlitsstarfssemi skv. 28. gr. reglugerðarinnar felur í sér rannsóknarkostnað, m.a. töku og greiningu sýna, auk annars eftirlits sem krafist er til að kanna umfang vandamáls, til að sannprófa hvort gerðar hafi verið úrbætur eða til að finna og/eða færa sönnur á að ekki sé farið að tilskildum ákvæðum. Erfitt er að sjá hversu oft ástæða verður til að sinna viðbótareftirliti eða fella kostnað af því á matvælafyrirtæki.
    Með fyrirmælum um viðbótareftirlit er tryggt að matvælafyrirtæki (framleiðandi, innflytjandi, dreifingaraðili eða sláturleyfishafi) sem smitefni hefur greinst hjá þarf sjálft að bera þann kostnað sem af viðbótarsýnatökum og prófunum hlýst.
    Fyrirkomulagið er til samræmis við þá ábyrgð sem Evrópusambandið leggur á matvælafyrirtæki vegna sjúkdómavarna. Má hér vísa t.d. til 4. þáttar reglugerðar (EB) nr. 178/2002 um almennar meginreglur og kröfur samkvæmt lögum um matvæli, um stofnun Matvælaöryggisstofnunar Evrópu og um málsmeðferð vegna öryggis matvæla.
    Um 3. mgr.
    Í 3. mgr. er ráðherra heimilað að setja reglugerð og gjaldskrá til að útfæra nánar framkvæmd eftirlits og innheimtu fyrir það. Slík gjaldskrá mun gilda fyrir eftirlit Matvælastofnunar. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, setja sveitarstjórnir gjaldskrá fyrir matvælaeftirlit heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna. Samkvæmt þeirri grein bera sveitarfélögin ábyrgð á fjármálum og rekstri heilbrigðiseftirlits á viðkomandi svæði og því óeðlilegt að ráðherra setji þeim gjaldskrá. Í 3. mgr. felst að sveitarstjórnir skulu nú setja heilbrigðisnefndum sveitarfélaganna gjaldskrá fyrir matvælaeftirlit á grundvelli 25. gr. matvælalaga og viðeigandi ákvæða í reglugerð (EB) nr. 882/2004. Mælt er fyrir um eðlilegt samráð sem ráðherra ber að viðhafa við hlutaðeigandi hagsmunasamtök í matvælaiðnaði við gerð reglugerðar og gjaldskrár með heimild í frumvarpsgreininni.
    Um 4. mgr.
    Samkvæmt 4. mgr. skal ráðherra líta til ákveðinna sjónarmiða við gerð reglugerðar og gjaldskrár. Þessi sjónarmið eru tekin upp úr 27. gr. reglugerðar (EB) nr. 882/2004.
    Rétt er að taka fram að þrátt fyrir að ráðherra kjósi að taka sérstakt tillit til hagsmuna fyrirtækja með litla framleiðslu eða fyrirtækja sem líða fyrir landfræðilega einangrun eru hagsmunir annarra matvælafyrirtækja í samkeppnislegu tilliti tryggðir með a.m.k. tvennum hætti.
    Í fyrsta lagi er eftirlitsgjaldið þjónustugjald sem felur í sér að óheimilt verði að fella halla vegna lægri tekna af eftirliti hjá sumum matvælafyrirtækjum á önnur matvælafyrirtæki. Fjármagn til þess að bæta Matvælastofnun tekjutap verði að koma með sérstökum greiðslum úr ríkissjóði eða af fjárlögum stofnunarinnar.
    Í öðru lagi er í I. kafla IV. viðauka við reglugerð (EB) nr. 882/2004 lagt bann við að innheimt séu lægri eftirlitsgjöld fyrir eftirlit með matvælaframleiðslu en þar greinir. Því getur aldrei komið til þess að eftirlitsgjöld verði felld niður.
    Um 5. mgr.
    Í 5. mgr. er kveðið á um hvenær skal greiða gjald vegna eftirlits. Matvælafyrirtæki skal greiða gjald vegna eftirlits þegar eftirlitsaðili leggur fram reikning vegna þess.
     Um 6. mgr.
    Í 6. mgr. er lagt til að heimilað verði að innheimta eftirlitsgjald með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Einnig er heimilað að innheimta dráttarvexti komi til vanefnda. Um núverandi fyrirkomulag greiðslna má vísa til 5. gr. reglugerðar nr. 336/2005 um innheimtu gjalds vegna heilbrigðiseftirlits með sláturafurðum.
    Um 7. mgr.
    Í 7. mgr. er vísað til þess að efnisákvæði greinarinnar gildi eftir því sem við á um gjöld vegna eftirlits á landamærastöðvum.
     Um 8. mgr.
    Í 8. mgr. er vísað til þess að ákvæði 25. gr. skulu einnig gilda eftir því sem við á um eftirlit sem Matvælastofnun felur faggiltum aðilum að framkvæma skv. 15. gr. frumvarpsins.

Um 18. gr.


    Í 27. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, er kveðið á um heimild til innheimtu á nauðsynlegum rannsóknarkostnaði hjá framleiðanda eða dreifanda matvæla. Heimild til gjaldtöku þessa kostnaðar er nú í 17. gr. þessa frumvarps, nánar til tekið í 2. mgr. 25. gr. laga um matvæli og því ekki þörf á þessu ákvæði.

Um 19. gr.


    Um a-lið (27. gr. a).
    Ákvæðið er að mestu samhljóða 21. gr. laga nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, og einnig er tekið mið af ákvæði 6. tölul. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 882/2004. Þó er 1. mgr. 21. gr. laga nr. 55/1998 felld brott úr ákvæðinu en þar sagði: „Innflytjandi sjávarafurða sem fluttar eru til Íslands frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins skal tilkynna Matvælastofnun um komu sendinga með hæfilegum fyrirvara.“ Þetta ákvæði er ekki í samræmi við meginreglu EES-löggjafarinnar um frjálst flæði vöru innan svæðisins. Eftirlitsaðilum er þannig óheimilt að skylda innflytjanda til að tilkynna um komu allra sendinga. Eftirlitsaðilum er einungis heimilt að skoða umræddar afurðir í flutningi milli landa þegar um rökstuddan grun er að ræða um óörugg matvæli. Hins vegar er ákvæði í 6. tölul. 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 882/2004 sem heimilar EES-ríki sem tekur við vöru frá öðru ríki á svæðinu að gera kröfu um tilkynningu á komu matvæla til landsins ef nauðsyn krefur. Slík heimild kemur því fram í ákvæðinu og gæti verið beitt af hálfu opinbers eftirlitsaðila til að skipuleggja eftirlit með matvælum þar sem grunur er um eða ætla má að matvæli geti verið menguð. Um skýringu á ákvæðinu vísast að öðru leyti til athugasemda við frumvarp til laga nr. 55/1998, sbr. Alþingistíðindi, A-deild, 122. löggjafarþing, þskj. 929, 544. mál.
    Um b-lið (27. gr. b).
    Ákvæðið fjallar um landamærastöðvar og innflutning frá löndum utan EES. Um athugasemdir við greinina vísast til 22., 25. og 26. gr. laga nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, og greinargerðar með frumvarpi til þeirra laga, sbr. Alþingistíðindi, A-deild, 122. löggjafarþing, þskj. 929, 544. mál.
    Um c-lið (27. gr. c).
    Ákvæðið er sett inn til að ítreka skyldur þeirra aðila sem flytja til landsins matvæli frá EES og þriðju ríkjum. Eftirlitsaðilar geta á grundvelli ákvæðisins gert kröfu um að þessir aðilar hafi matvælaöryggi sérstaklega til hliðsjónar í sínu innra eftirliti. Í þessu felst m.a. að fyrrnefndir aðilar hlutist til um að sýni séu tekin til rannsókna áður en matvælum er dreift á markað þegar slíkt er talið nauðsynlegt til að tryggja öryggi matvælanna.

Um 20. gr.


    Í 1. mgr, er núgildandi ákvæði 28. gr. matvælalaga sem varðar viðbrögð við hættu á alvarlegu heilsutjóni vegna matvæla og þar sem engin vísindaleg óvissa ríkir, þ.e. þar sem orsakir og afleiðingar eru vel þekktar. Ákvæði greinarinnar varðar að öðru leyti lögfestingu á varúðarreglu sem hægt er að beita þegar vísindaleg óvissa ríkir.
    Lagt er til að varúðarregla 7. gr. reglugerðar (EB) 178/2002 verði lögfest. Rétt þykir að kveðið sé á um það í lögum hvenær heimilt er að grípa til varúðarráðstafana án þess að fyrirliggjandi séu óyggjandi gögn um að viðkomandi vara muni hafa í för með sér heilsuspillandi áhrif. Skilyrði fyrir beitingu reglunnar er þó að slík áhrif séu möguleg. Í sumum tilvikum er vafi um heilsuspillandi áhrif matvæla en þó hætta á heilsutjóni vegna þeirra. Ákvæðið heimilar ráðherra að framkvæma nauðsynlegar ráðstafanir. Ákvæðið tilgreinir ekki heimilar ráðstafanir heldur er sagt að þær skuli vera í réttu hlutfalli við markmið þeirra og ekki hamla viðskiptum meira en nauðsynlegt er. Ráðstafanirnar skulu endurskoðaðar innan eðlilegs tíma enda er um tímabundnar ákvarðanir að ræða. Ákvæði þetta þarf að túlka í samræmi við þá meginreglu matvælalöggjafar EB að markaðshindrandi aðgerðir eða aðgerðir sem leiða til ójafnra samkeppnisskilyrða eru ekki leyfðar nema í sérstökum undantekningartilvikum. Varúðarreglan byggist á því að við þessar sérstöku aðstæður, sem verða til þegar ekki er hægt að eyða vísindalegri óvissu en hætta er á að matvæli valdi heilsutjóni, geti verið nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að fyrirbyggja hugsanlega heilsufarsvá fyrir þjóðfélagsþegnana. Ráðherra skal hafa samráð við Matvælastofnun og sóttvarnalækni áður en hann grípur til aðgerða samkvæmt greininni.

Um 21. gr.


    Lagt er til að lögfest verði í matvælalögum ákvæði í samræmi við 10. gr. reglugerðar (EB) nr. 178/2002 þar sem kveðið er á um skyldu stjórnvalda til að upplýsa almenning um eðli þeirrar áhættu sem er fyrir hendi. Ákvæðið leggur þá skyldu á herðar eftirlitsaðilum, Matvælastofnun eða heilbrigðisnefndum sveitarfélaganna að upplýsa almenning um tiltekna hættu sem stafar af matvælum.
    Í 2. og 3. mgr. ákvæðisins eru ný ákvæði sem heimila ráðherra að setja reglugerð þar sem fram koma nánari reglur um birtingu upplýsinga eða niðurstaðna eftirlits hjá matvælafyrirtækjum eða upplýsinga sem varða neytendur og falla undir 18. gr. a.
    2. mgr. fjallar um niðurstöður eftirlits vegna atvika er falla undir 1. mgr. Komi upp tilvik við eftirlit þar sem rökstuddur grunur er um að tiltekin matvæli hafi í för með sér áhættu fyrir heilbrigði manna er heimilt að birta slíkar upplýsingar.
    Í 3. mgr. er gert er ráð fyrir því að eftirlitsaðilum sé heimilt að birta tilteknar upplýsingar eða allar niðurstöður úr eftirliti þannig að neytendum séu ljósar niðurstöðurnar. Í 18. gr. a eru efnisreglur um neytendavernd og sviksamlegt athæfi. Nauðsynlegt getur reynst að upplýsa almenning um tiltekin tilvik til þess að vernda hagsmuni neytenda og því nauðsynlegt að settar séu reglur um slíkt.

Um 22. gr.


    Í 29. gr. laga nr. 93/1995 segir að eftirlitsaðila sé heimilt að stöðva eða takmarka framleiðslu og dreifingu matvæla og leggja hald á þau þegar rökstuddur grunur er um að matvæli uppfylli ekki ákvæði laganna eða reglugerða settra samkvæmt þeim. Þetta efnisákvæði er nú 3. mgr. 30. gr.

Um 23. gr.


    Með ákvæðinu er lagt til að lögfest verði sambærileg ákvæði um þvingunarúrræði og eru í lögum nr. 7/1998 þar sem þau ákvæði sem nú eru í matvælalögum veita Matvælastofnun ekki sömu heimildir og þau veittu Umhverfisstofnun áður en verkefni hennar við matvælaeftirlit voru flutt til Matvælastofnunar með lögum nr. 167/2007, um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands. Einnig felst í ákvæðinu að verið er að samræma viðurlagaákvæðin ákvæðum um viðurlög sem fram koma í þeim reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins sem stefnt er að því að mynda grundvöll fyrir innleiðingu á með frumvarpi þessu.
    Samkvæmt 30. gr. a skulu dagsektir sem Matvælastofnun ákveður renna í ríkissjóð en dagsektir sem heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna ákveða skulu renna til rekstraraðila heilbrigðiseftirlits á viðkomandi svæði. Þetta fyrirkomulag vegna dagsekta sem heilbrigðisnefndir ákveða er í samræmi við 1. mgr. 27. gr. laga nr. 7/1998.
    Þá er í ákvæðinu það nýmæli að eftirlitsaðili getur ákveðið að eftirlitsskyldir aðilar skuli greiða allan kostnað vegna þvingunarúrræða sem framkvæmd eru samkvæmt lögum þessum og má innheimta slíkan kostnað með fjárnámi án undanfarandi dóms eða sáttar. Það er jafnframt nýmæli að stjórnanda matvælafyrirtækis er skylt að veita aðstoð við framkvæmd eftirlitsins. Þykir þetta eðlileg krafa þar sem um umfangsmiklar aðgerðir er að ræða. Loks er gert ráð fyrir að Matvælastofnun geti í tilteknum bráðatilvikum farið inn á verksvið heilbrigðisnefnda, sbr. 30. gr. c.
    Samkvæmt 30. gr. d verður heimilt að vísa ákvörðunum Matvælastofnunar og heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem fer með úrskurðarvald vegna þessara ákvarðana. Til að gætt sé samræmis milli málsmeðferðar ákvarðana Matvælastofnunar annars vegar og heilbrigðisnefnda hins vegar kveður frumvarpið á um sams konar meðferð á ákvörðunum Matvælastofnunar og heilbrigðisnefndanna í þessu tilliti. 31. gr. laga nr. 7/1998 kvað á um heimild til að vísa ákvörðunum heilbrigðisnefnda til sérstakrar úrskurðarnefndar. Þau ákvæði gilda því ekki lengur vegna ákvarðana heilbrigðisnefndanna sem falla undir gildissvið matvælalaganna.
    Um skýringar við greinina vísast að öðru leyti til athugasemda við 26.–30. gr. í frumvarpi til laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. Alþingistíðindi, A-deild, 1997– 98, 122. löggjafarþing, þskj. 197, 194. mál, og eldri laga um sama efni, svo og reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 882/2004.

Um 24. og 25. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 26. gr.


    Brot gegn ákvæðum laganna geta haft í för með sér mikla hættu og valdið heilsutjóni á mönnum og dýrum, svo og skaðað ýmsa aðra hagsmuni. Er því talið nauðsynlegt að efla varnaðaráhrif laganna með því að leggja til þyngri viðurlög við brotum á þeim. Með ákvæðinu er lagt til að tekið verði upp ákvæði um tiltekin viðurlög við brotum á lögunum og að um meðferð þeirra fari samkvæmt lögum um meðferð sakamála. Um skýringu á ákvæðinu vísast að öðru leyti til athugasemda við 33. gr. í frumvarpi til laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. Alþingistíðindi, A-deild, 122. löggjafarþing 1997–98, þskj. 197, 194. mál.

Um 27. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 28. gr.


    Orðalag 1. mgr. er lagað að þeim nýmælum sem kveðið er á um í reglugerð (EB) nr. 178/ 2002 og afleiddum gerðum. Jafnframt eru tilvísanir í reglugerð (EB) nr. 178/2002 og reglugerðir sem settar voru í kjölfar þeirrar reglugerðar, m.a. um hollustuhætti og eftirlit í matvælaiðnaði. Rétt þykir að hafa í lögunum tilvísanir í þessar megingerðir matvælalöggjafar Evrópusambandsins þannig að reglugerðarheimildir verði skýrar hvað þessar tilteknu gerðir varðar. Þessar tilvísanir eru í 2.–3. mgr. 31. gr. a.

Um 29. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 30. gr.


    Ákvæði til bráðabirgða fjallar um gildistöku en lögin taka gildi 1. september 2009 hvað varðar allar matvælategundir aðrar en kjöt, mjólk og egg. Í ákvörðunum sameiginlegu EES- nefndarinnar er sérstakur aðlögunartími fyrir innleiðingu á efnisákvæðum um búfjárafurðir. Hvað þessar matvælategundir varðar, þ.e. kjöt, mjólk, egg og hráar afurðir úr þessum matvælategundum, var samið um 18 mánaða aðlögunartíma. Jafnframt gildir aðlögunartíminn um unnar vörur úr mjólk. Um skýringar á því hvenær aðlögunartímanum lýkur vísast til athugasemda við 79. gr.

Um 31. gr.


    Við 4. gr. laganna bætist skilgreining vegna aukaafurða dýra, sbr. 13. gr. laganna.

Um 32. gr.


    Fyrsta málsgrein laganna mun taka allnokkrum breytingum.
    A-liður núgildandi 10. gr. er umskrifaður til samræmis við endurskoðun á undanþágunni sem Ísland hefur haft frá I. kafla I. viðauka EES-samningsins. Innflutningsbann á hráu kjöti helst og er ekki afnumið. Þannig segir í ákvæðinu að „hráar og lítt saltaðar sláturafurðir, bæði unnar og óunnar“ sé óheimilt að flytja til landsins. Jafnframt heldur gildi sínu bann við innflutningi á alidýraáburði og rotmassa sem blandaður er alidýraáburði.
    Rétt þykir að gera nokkra grein fyrir einstökum breytingum sem felldar verða niður, sem og ástæðum þess að ekki er vikið frá núgildandi 10. gr. að öllu leyti.
    Megingrundvöllur breytinganna er að flestar vörur sem rekja má til afurða úr dýraríkinu eru felldar brott, enda verður meginreglan sú að heimilt verði að flytja þessar vörur til landsins uppfylli þær evrópsk skilyrði um heilbrigðisvottun.
    Þrátt fyrir framangreinda meginreglu helst innflutningsbann á hráu kjöti og er það ekki afnumið. Þannig segir í ákvæðinu að „hráar og lítt saltaðar sláturafurðir, bæði unnar og óunnar“ sé óheimilt að flytja til landsins. Jafnframt heldur gildi sínu bann við innflutningi á alidýraáburði og rotmassa sem blandaður er alidýraáburði. Innflutningsbanni er viðhaldið með það að markmiði að tryggja núverandi stöðu sjúkdómavarna vegna dýra og manna, og er þá ekki síst höfð í huga langvarandi einangrun búfjárstofna okkar sem reynslan hefur sýnt að geta verið sérlega næmir fyrir sjúkdómum sem litlum skaða valda í öðrum löndum.
    Jafnframt verður áfram óheimill innflutningur á kjötmjöli, beinamjöli og blóðmjöli. Ástæður þess eru að einstökum ríkjum er áfram heimilt að banna innflutning þessara vara samkvæmt undanþágum sem sérstaklega eru samþykktar fyrir Ísland með bókun við breytingu á I. viðauka EES-samningsins. Í a-lið er sérstaklega tilgreint að fitu sem til fellur við vinnslu á kjöt-, beina- og blóðmjöli er einnig óheimilt að flytja inn. Matvælastofnun hefur gætt þess að í mjólkurdufti sem flutt hefur verið inn sé fitufasinn eingöngu úr jurta- eða mjólkurfitu. Markmiðið er að koma í veg fyrir að duftið innihaldi fitu sem komi úr kjöt- og beinamjölsverksmiðjum því þá er hætta á að sú fita sé menguð af kúariðusmitefni.
    Samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 133/2007 munu Íslendingar áfram verða undanþegnir þeim gerðum í I. viðauka sem varða lifandi dýr, fyrir utan fisk og fiskeldi, ásamt gerðum sem varða fósturvísa, eggfrumur og sæði úr dýrum.
    Þótt EB-reglugerðirnar fjalli ekki um vörur óskyldar dýraríkinu þótti rétt að fella úr upptalningu greinarinnar hluti sem hafa lítið raunhæft gildi, svo sem stráteppi og strákörfur. Ákvæðin um bann við innflutningi reiðtygja og annars sem notað hefur verið við geymslu og flutninga á dýrum og dýraafurðum, sem og búnað til stangveiða, halda þó gildi sínu.
    Um einstakar vörur sem teknar eru út úr greininni munu eftirfarandi reglur gilda:
     Fóðurvörur unnar úr afurðum eða úrgangi spendýra og fugla sem ekki hafa hlotið viðeigandi hitameðferð. Með nokkurri einföldun má segja að öllum afurðum af dýrum sem annaðhvort eru sjálfdauð eða grunur leikur á að geti verið sýkt skuli fargað, en falli þær undir a- eða b-lið 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar sem hlutar sláturdýra sem megi nota til manneldis eða dýra sem sýni engin merki um sjúkdóma megi nota sláturafurðirnar til vinnslu tæknilegra afurða, svo sem í fóður. Skilyrði er þó að við slíka vinnslu sé gætt viðurkenndra eftirlits- og vinnsluaðferða sem skilgreindar eru í reglugerðinni.
    Ósótthreinsuð skinn og húðir, dýrahár, ull, fiður, fjaðrir og dúnn. Meginreglan um að óheimilt sé að flytja inn ósótthreinsuð skinn og húðir mun í sjálfu sér gilda áfram. Hins vegar er lagt til að um innflutning þessarar vöru fari eins og annarrar vöru úr dýraríkinu. Með því er átt við að uppfylli vinnsla húðanna kröfur VI. kafla VIII. viðauka reglugerðar EB nr. 1774/ 2002 verði innflutningur heimill. Er þar nánar mælt fyrir um nokkuð mismunandi meðferð húða og skinna af hóf- og klaufdýrum, veiðidýrum og loðdýrum og á ull, fiðri og burstum úr dýrahárum.
     Blóð og blóðafurðir. Um þær er fjallað í tveimur köflum reglugerðar EB nr. 1774/2002, annars vegar um hreinar slíkar vörur og hins vegar ef nota á þær í tæknilegum tilgangi, t.d. vegna lyfja. Um fyrri flokkinn gildir að innflutningur eftir að varan er unnin samkvæmt fyrir fram ákveðnu vinnsluferli er heimill. Innflutningur í tæknitilgangi er einnig heimill en þarf að hlíta mun strangara eftirliti og vinnslu.
     Ógerilsneydd mjólk, vörur unnar úr henni og hrá egg. Svipaðar reglur munu gilda um þessar vörur og flest annað í þessum flokki, þ.e. innflutningur verður einungis leyfður að uppfylltum reglum um uppruna og heilbrigðisvottorð og undir eftirliti. Sérstaklega þarf að huga að salmonelluvörnum í þessu samhengi.

Um 33. gr.


    Í þessu lagaákvæði er það áréttað að aukaafurðir dýra, sem ekki eru ætlaðar til manneldis, svo sem hræ dýra, sláturúrgangur og sláturafurðir, skal meðhöndla, geyma, flytja, vinna eða eyða á þann hátt að ekki valdi hættu á útbreiðslu smitefna eða annarra skaðlegra efna. Þeir sem meðhöndla, geyma, flytja eða vinna aukaafurðir dýra skv. 1. mgr. skulu sækja um leyfi Matvælastofnunar áður en starfsemin hefst. Samkvæmt lögunum er það hlutverk Matvælastofnunar að sinna eftirliti með útbreiðslu smitefna sem leynst geta í aukaafurðum dýra og koma í veg fyrir smit slíkra efna. Ef aukaafurðir dýra teljast hins vegar til úrgangs gilda um starfsemina ákvæði laga nr. 55 frá 2003, um meðhöndlun úrgangs. Meðhöndlun úrgangs eins og hann er skilgreindur í lögunum lýtur forræði umhverfisráðherra.
    Í 2. mgr. er ákvæði sem kveður á um starfsleyfisskyldu tiltekinna stöðva sem vinna eða geyma aukaafurðir úr dýrum sem ekki eru ætlaðar til manneldis. Hér er um að ræða stöðvar fyrir milliefni, geymslustöðvar, vinnslustöðvar fyrir efni í 1. og 2. flokki, vinnslustöðvar fyrir líffituefni í 1. og 2. flokki, lífgasstöðvar og myltingarstöðvar og efni í 3. flokki, m.a. úrgang úr sjávar- og eldisafurðum. Ákvæðið byggist á III. kafla reglugerðar EB nr. 1774/2002, sbr. 10.–15. gr. reglugerðarinnar. Um skilgreiningar á umræddum vinnslu- og geymslustöðvum vísast til reglugerðarinnar. Þar sem ákvæði framangreindrar ESB-reglugerðar eru fyrst og fremst sett á grundvelli sjónarmiða um sjúkdómavarnir er gert ráð fyrir að þetta ákvæði verði í lögum nr. 25/1993. Eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir að það gildi einnig um stöðvar sem vinna úrgang úr sjávar- og eldisafurðum. Matvælastofnun gefur út leyfi vegna starfsemi fyrrgreindra stöðva. Hafa verður í huga að reglur um eyðingu úrgangs sem á sér stað í brennslustöðvum lúta valdsviði umhverfisráðuneytisins og eftirliti Umhverfisstofnunar.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að ráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um meðferð aukaafurða dýra, sbr. 29. gr. a, en þar er kveðið á um innleiðingu reglugerðar (EB) nr. 1774/2002.

Um 34. gr.


    Með samþykkt ákvörðunar nr. 133/2007 frá 26. október 2007 samþykkti Ísland að innleiða sérstakar reglur sem varða flutning á líflömbum til þeirra bæja þar sem skorið hefur verið niður vegna riðuveiki og sem lokið hafa tveggja ára banni við fjárbúskap eftir niðurskurð. Í reglugerð ESB nr. 999/2001 um riðuveiki koma fram ákvæði sem lúta að þessum þætti varðandi arfgerðir kinda. Ísland fékk samþykktar undanþágur frá flestum þessara ákvæða ef undan eru skilin þau sem varða flutning líflamba sem bera áhættuarfgerðarþáttinn VRQ. Kindur af þessari arfgerð eru taldar næmari fyrir riðusmiti en aðrar kindur. Með ákvæðinu verður ráðherra heimilt að banna flutning á líflömbum sem eru með VRQ-arfgerðarþáttinn. Á undanförnum árum hafa ekki verið teknir inn hrútar á sæðingastöðvar sem bera þessa arfgerð. Þetta mun þýða að rannsaka verður þau líflömb sem ætluð eru til sölu af líflambasvæðum til að tryggja að lömb af þessari arfgerð verði ekki flutt til umræddra bæja. Rannsóknir þessar er unnt að gera hérlendis.

Um 35. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að ný grein bætist við lögin, sem verður 29. gr. a, þar sem ráðherra verði veitt heimild til að innleiða í heild sinni ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/2002 sem fjallar um meðferð aukaafurða úr dýrum. Þar sem ákvæði fyrrgreindrar EES-reglugerðar eru fyrst og fremst sett á grundvelli sjónarmiða um sjúkdómavarnir er gert ráð fyrir að þetta ákvæði verði í lögum nr. 25/1993. Gert er ráð fyrir að ákvæðið gildi m.a. um sláturhús en einnig um stöðvar sem vinna úrgang úr sjávar- og eldisafurðum.

Um 36. gr.


    Ákvæðið fjallar um þá sem teljast dýralæknar samkvæmt íslenskum lögum. Samkvæmt núgildandi lögum mega þeir einir sem lokið hafa prófi frá dýralæknaháskóla sem er viðurkenndur af íslenskum stjórnvöldum kalla sig dýralækna.
    Gert er ráð fyrir að ákvæðið taki með skýrum hætti til erlendra dýralækna sem heimild hafa til að starfa hér í samræmi við reglur Evrópska efnahagssvæðisins eða stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu og að ráðherra verði veitt heimild til að setja nánari reglur um leyfi slíkra dýralækna hér á landi.

Um 37. gr.


    Með lögum nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, voru gerðar viðamiklar skipulagsbreytingar á dýralæknisumdæmum og þeim fækkað úr 31 í 14. Vegna stjórnsýslu- og samkeppnislaga var talið brýnt að skilja að, eins og aðstæður leyfðu, eftirlits- og dýralæknisþjónustu sama aðila. Það var ekki talið samrýmast góðri stjórnsýslu að sami aðili gæfi út starfsleyfi og hefði jafnframt tekjur af þjónustu við hina leyfisskyldu starfsemi. Af þessum sökum var lögfest að héraðsdýralæknar í þremur stærstu umdæmunum, þ.e. í Gullbringu- og Kjósar-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðar- og Suðurlandsumdæmum, sinntu eingöngu eftirlitsstörfum, en héraðsdýralæknar í öðrum umdæmum gætu samhliða eftirlitsstörfum sinnt almennri dýralæknisþjónustu, þ.m.t. vaktþjónustu. Lagt er til með frumvarpi þessu að það skref sem tekið var árið 1998 verði stigið til fulls og umdæmum héraðsdýralækna fækkað úr 16 í 6, svo og að þessir héraðsdýralæknar sinni einvörðungu eftirlitsstörfum. Eftirlitsdýralæknar munu einnig starfa í þessum umdæmum og verða sumir ráðnir í fullt starf sem opinberir eftirlitsmenn, en einnig verður heimilt að ráða þá í hlutastarf sem opinbera eftirlitsaðila undir stjórn og á ábyrgð héraðsdýralækna.
    Í kjölfar breytinga á I. viðauka EES-samningsins mun Ísland verða að innleiða í íslenska löggjöf reglugerð Evrópusambandsins (EB) nr. 882/2004 um opinbert eftirlit til að tryggja sannprófun þess að lög um fóður og matvæli og reglur um dýraheilbrigði og velferð dýra séu virtar. Í reglugerðinni er kveðið á um hvaða kröfur eru gerðar til opinbers eftirlits með fóðri, matvörum, dýraheilbrigði og dýravelferð og samkvæmt reglugerðinni er aðildarríkjunum gert skylt að tryggja að ekki geti orðið hagsmunaárekstrar milli þeirra og opinbers eftirlits, sbr. b-lið 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. Ákvæði reglugerðarinnar eru í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar um vanhæfi. Samkvæmt núgildandi lögum sinna héraðsdýralæknar í öllum umdæmum nema í Gullbringu- og Kjósar-, Skagafjarðar- og Eyjafjarðar- og Rangárvalla- og Árnessýslu opinberu eftirliti gagnvart bændum og afurðum þeirra, þ.m.t. eftirliti með aðbúnaði dýra, dýraheilbrigði og dýravernd. Jafnframt selja þessir héraðsdýralæknar bændum þjónustu sína sem almennir dýralæknar, en slíkt býður upp á möguleika á alls kyns hagsmunaárekstrum sem taka verður fyrir.
    Samkeppnissjónarmið mæla jafnframt með því að skilja á milli opinbers eftirlits og almennrar dýralæknisþjónustu. Samkvæmt núgildandi skipulagi á verkefnum og umdæmum héraðsdýralækna eru þeir í mörgum tilfellum að bjóða sömu þjónustu og sjálfstætt starfandi dýralæknar. Slíkt skekkir samkeppnisstöðu sjálfstætt starfandi dýralækna þar sem héraðsdýralæknar fá samhliða þjónustugjöldum greidd laun frá hinu opinbera.
    Kröfur um aðskilnað opinbers eftirlits og faglegrar/klínískrar þjónustu byggist þannig bæði á skuldbindingum samkvæmt alþjóðasamningum, almennum vanhæfisreglum stjórnsýsluréttarins og samkeppnissjónarmiðum. Fjöldi og stærð umdæma var ákveðinn með eftirfarandi sjónarmið í huga:
     a.      Næg verkefni séu fyrir héraðsdýralækni í hverju umdæmi.
     b.      Verkefni þessi séu m.a. eftirlit með:
                  1.      Sláturhúsum, kjötfrystihúsum og kjötpökkunarstöðvum.
                  2.      Mjólkur- og kjötframleiðslu.
                  3.      Svínabúum.
                  4.      Alifuglabúum.
                  5.      Fiskeldisstöðvum.
                  6.      Loðdýrabúum.
                  7.      Garnaveikibólusetningu.
                  8.      Sæðingastöðvum.
                  9.      Einangrunarstöðvum.
                  10.      Kjötmjölsverksmiðjum og myltingarstöðvum.
        Enn fremur annist héraðsdýralæknar lögboðna útflutningsskoðun hrossa og sinni dýraverndarmálum og framkvæmd sóttvarnaraðgerða vegna smitsjúkdóma.
     c.      Landfræðileg skipting milli umdæma sé eðlileg og hagkvæm og samgöngur góðar.
                  1.      Suðvesturumdæmi. Óbreytt umdæmi frá núgildandi fyrirkomulagi.
                  2.      Vesturumdæmi. Þar eru fjögur umdæmi felld saman í eitt. Landfræðileg mörk eru eðlileg og samgöngur góðar nema á Vestfjörðum. Í umdæminu er ekkert sláturhús, talsverður kúabúskapur og sauðfjárrækt, sæðingastöð, einangrunarstöð fyrir frjóegg og bólusett er við garnaveiki í sumum hlutum umdæmisins. Á Vestfjörðum er búskapur frekar dreifður. Þar er sjúkdómastaða góð (ekki riða og ekki garnaveiki) svo að eftirlitsverkefni eru ekki mikil. Verkefni eru fyrir héraðsdýralækni og eftirlitsdýralækna í umdæminu.
                  3.      Norðvesturumdæmi. Felld eru saman tvö umdæmi miðað við núgildandi fyrirkomulag. Landfræðilega er skiptingin eðlileg, samgöngur góðar. Skilin gagnvart Norðurlandsumdæmi eystra ættu að ráðast af því hvernig samgöngur eru bestar. Í umdæminu eru þrjú stór sauðfjársláturhús þar sem einnig er slátrað stórgripum. Sláturhúsin eru öll með útflutningsleyfi og krefjast stöðugrar viðveru eftirlitsdýralæknis í sauðfjársláturtíð og þegar stórgripum er slátrað. Kúabúskapur er allnokkur og mikill sauðfjár- og hrossabúskapur. Riðu- og garnaveikisvæði. Þörf er á héraðsdýralækni og eftirlitsdýralæknum.
                  4.      Norðausturumdæmi. Tvö umdæmi eru felld saman í eitt miðað við núgildandi kerfi. Fjögur sláturhús, mikill kúabúskapur, sauðfjárrækt, svínarækt og alifuglarækt. Verkefni fyrir héraðsdýralækni og eftirlitsdýralækna. Landfræðileg skipting er eðlileg, umdæmið er stórt en samgöngur frekar góðar.
                  5.      Austurumdæmi. Þrjú umdæmi felld saman í eitt. Landfræðilega er þetta stórt umdæmi, samgöngur allgóðar, tvö sláturhús, hreindýrakjötpökkunarstöð og ferjuhöfn. Riðu- og garnaveikisvæði. Verkefni fyrir héraðsdýralækni og eftirlitsdýralækna.
                  6.      Suðurumdæmi. Óbreytt nema Skaftárhreppur fellur undir það. Landfræðilega fellur hann betur að Suðurumdæmi en að Austurumdæmi. Riðu- og garnaveikisvæði.
    Sérstakt nýmæli er í frumvarpinu, að héraðsdýralæknar skuli hafa eftirlit með lyfjanotkun búfjár og annarra dýra. Í 4. mgr. 11. gr. lyfjalaga, nr. 93/1994, er tekið fram að Matvælastofnun skuli hafa eftirlit með ávísunum dýralyfja og ástæða þykir til að tilgreina sérstaklega þá starfsmenn Matvælastofnunar sem annast slíkt eftirlit. Jafnframt er vísað til laga um búfjárhald vegna starfa eftirlitsdýralækna á sviði dýravelferðar.

Um 38. gr.


    Í frumvarpinu er lagt til að skilið verði að fullu á milli opinbers eftirlits héraðsdýralækna annars vegar og almennrar klínískrar þjónustu dýralækna hins vegar. Því þarf að tryggja bakvaktir dýralækna vegna almennrar klínískrar þjónustu utan venjulegs vinnutíma á öllum vaktsvæðum. Eingöngu er gert ráð fyrir greiðslu fyrir bakvaktir utan venjulegs dagvinnutíma.

Um 39. gr.


    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að störf héraðsdýralækna sem sinna bæði opinberu eftirliti og almennri dýralæknaþjónustu verði lögð niður. Þetta á við um héraðsdýralæknana sem nú eru staðsettir í Borgarnesi, Stykkishólmi, Búðardal, á Ísafirði, Hvammstanga, Blönduósi, Húsavík, Egilsstöðum, Breiðdalsvík, Höfn og á Kirkjubæjarklaustri. Í stað þess koma stærri opinber eftirlitssvæði þar sem Matvælastofnun hefur umdæmisskrifstofur og ákveður stofnunin staðsetningu héraðsdýralækna og annarra eftirlitsaðila sem þar verða ráðnir til opinberra eftirlitsstarfa og sóttvarna. Með þessari breytingu verður jafnframt nauðsynlegt að tryggja almenna dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum landsins með öðrum hætti en verið hefur. Markmiðið er að tryggja dýraeigendum um allt land nauðsynlega dýralæknaþjónustu og þar með, m.a. af dýraverndarástæðum, að veik og slösuð dýr fái rétta meðhöndlun eins fljótt og kostur er.
    Ólíklegt er að dýralæknar fáist til starfa þar sem dýrafjöldi er takmarkaður og verkefni við lækningu dýra fremur fá. Til að ná markmiðum greinarinnar um að tryggja dreifðum byggðum reglubundna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu verður að stuðla að því að fyrir hendi verði nauðsynleg starfsaðstaða fyrir sjálfstætt starfandi dýralækna á Snæfellsnesi, í Dalasýslu, á Vestfjörðum, í Austur- og Vestur-Húnavatnssýslum, í Suður- og Norður-Þingeyjarsýslum, í Norður- og Suður-Múlasýslum og í Austur- og Vestur-Skaftafellssýslum. Jafnframt þarf hið opinbera að greiða einhverja staðaruppbót og/eða kostnað við ferðir dýralækna á þessum stöðum. Að öðrum kosti er ekki tryggt að dýralæknaþjónustan verði nægileg til að tryggja heilbrigði og velferð dýra.
    Þar sem samkvæmt framanrituðu er verið að gera verulegar breytingar á dýralæknakerfinu með því að fækka héraðsdýralæknum sem áður hafa annast þjónustu við dýraeigendur er talið nauðsynlegt að gefin verði út reglugerð um hvernig dýraeigendum í hinum dreifðu byggðum landsins verði tryggð dýralæknaþjónusta. Gert er ráð fyrir því að ráðherra skuli hafa samráð við Dýralæknafélag Íslands, Bændasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og Matvælastofnun.

Um 40. gr.


    Í núgildandi lögum kemur fram að ráða skuli sérmenntaða dýralækna, einn á hverju sérsviði sem tilgreind eru í lögunum. Í stað þess að tilgreina á hvaða sérsviði viðkomandi dýralæknar starfa er nú lagt til að Matvælastofnun ráði sérgreinadýralækna og hafi tækifæri til breytinga á verkaskiptingu milli þeirra. Starfsskyldur þeirra verða einnig samkvæmt þessum tillögum skilgreindar í starfslýsingum, en ekki í erindisbréfum eins og verið hefur.
    Eftir sem áður verða ýmis sérsvið tilgreind í lögunum. Þar er t.d. átt við sérsvið eins og sóttvarnir, dýravelferð og dýralyf. Starf sóttvarnadýralæknis er afar mikilvægt og má líkja við starf lækna sem sinna sóttvörnum, nema hvað annað starfið varðar sóttvarnir vegna dýrasjúkdóma og hitt sjúkdóma í mönnum. Aðgerðir vegna fuglaflensu, sem eins og mál standa er fyrst og fremst dýrasjúkdómur, skýra betur en margt annað þörfina fyrir þessi störf. Þá eru dýravelferðarmál fjölmörg, geta varðað aðbúnað og velferð búfjár og reynast oft erfið úrlausnar. EES-löggjöf um dýralyf hefur verið innleidd hér á landi og nú er verið að taka inn í íslenska löggjöf nýjar EES-reglur sem varða skráningu á notkun dýralyfja í búfjárrækt, eftirlit með notkun þeirra og útskolun áður en kemur til slátrunar eða annarrar nýtingar afurða vegna matvælavinnslu. Ekki hefur verið unnt að sinna þessum málaflokki sem skyldi og nú bætast við aukin verkefni. Úrbætur eru því nauðsynlegar.

Um 41. gr.


    Hér er um að ræða ákvæði til bráðabirgða. Vegna breytinga á umdæmum héraðsdýralækna er gert ráð fyrir að öll núverandi stöðugildi héraðsdýralækna við Matvælastofnun verði lögð niður en þau eru sextán í dag. Hins vegar er kveðið á um að starfsmönnunum skuli boðin störf hjá Matvælastofnun og að ekki þurfi að auglýsa þau störf skv. 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Gert er ráð fyrir því að sex dýralæknum verði boðin störf héraðsdýralækna í sex nýjum umdæmum en allt að tíu dýralæknum boðin störf eftirlitsdýralækna eða önnur störf hjá Matvælastofnun.
    Ráðherra er heimilt að leyfa héraðsdýralækni að sinna almennri þjónustu við dýraeigendur á tilteknu svæði ef heilbrigði eða velferð dýra er stefnt í hættu enda fáist ekki dýralæknir til að sinna slíkri þjónustu við dýraeigendur á umræddu svæði. Hér er um að ræða undantekningu frá þeirri meginreglu að héraðsdýralæknum sé óheimilt, vegna hagsmunatengsla, að sinna almennri dýralæknaþjónustu í sínu umdæmi. Eftirfarandi skilyrði eru sett fyrir framangreindri heimild. Í fyrsta lagi er það skilyrði að heilbrigði eða velferð dýra sé stefnt í hættu. Í öðru lagi er skilyrðið að dýralæknir fást ekki til þess að starfa eingöngu við almennar dýralækningar á svæðinu. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að heimild ráðherra verði tímabundin þar til viðeigandi lausn fæst. Það gefur augaleið að heimild ráðherra tekur einungis til dreifðari byggða landsins. Gert er ráð fyrir því að þegar skipting umdæma verður að fullu komin til framkvæmda verði ekki þörf á þessu ákvæði þar sem opinberir eftirlitsdýralæknar verða starfandi í öllum sex umdæmum héraðsdýralækna og munu sem slíkir sinna almennri dýralæknisþjónustu á viðkomandi svæði ef ekki fæst sjálfstætt starfandi dýralæknir í umdæmið.

Um 42. gr.


    Í ákvæðinu er sérstaklega tekið fram að lögin um matvæli, nr. 93/1995, gildi um efni laga nr. 96/1997. Í matvælalögum eru mikilvæg ákvæði sem gilda um öll matvæli, þar á meðal skv. 2. gr. laga um matvæli, og gilda þau eftir atvikum um lifandi dýr ef þau eru meðhöndluð til markaðssetningar til manneldis.

Um 43. gr.


    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 854/2004 kveður á um heilbrigðisskoðun innan 24 klukkustunda frá komu í sláturhús og innan 24 stunda fyrir slátrun. Ákvæði um þetta er að finna í I. viðauka, I. þætti, II. kafla, B.1.b) lið reglugerðarinnar. Eldra ákvæði laga nr. 96/1997 kvað á um að slátrun skyldi fara fram innan 12 klukkustunda frá heilbrigðisskoðun og til slátrunar. Í eldra ákvæði var jafnframt kveðið á um undanþágu frá heilbrigðisskoðun ef upplýsingar um eldi, heilbrigði og lyfjagjöf fylgja sláturgrip í sláturhús samkvæmt reglum sem settar eru af Matvælastofnun. Þessi undanþága fellur brott en jafnframt er kveðið á um að Matvælastofnun geti sett nánari reglur um heilbrigðisskoðun sláturdýra sem geta falið í sér undanþágur frá framangreindum tímafresti. Að öðru leyti er 1. mgr. óbreytt.
    2.–8. mgr. eru efnislega samhljóða 25. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli. Þó er tveimur málsgreinum bætt við ákvæðið í lögum nr. 96/1997.
    Annars vegar er bætt við málsgrein sem fjallar um eftirlit vegna slátrunar á býli. Með 6. mgr. er Matvælastofnun heimilað að taka eftirlitsgjald vegna raunkostnaðar við sýnatöku og rannsóknir vegna slátrunar sem framkvæmd er með heimild í 4. mgr. 5. gr. laganna, þ.e. slátrun eigenda lögbýla á eigin búfé til eigin neyslu. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 17. gr. þessa frumvarps þar sem fram koma tillögur um efni gjaldtökuákvæðis fyrir eftirlit í 25. gr. laga nr. 93/1995. Hins vegar er bætt við einni málsgrein sem segir að miða skuli við að gjaldskrá verði gefin út með eins árs millibili og taki mið af rekstraruppgjöri heilbrigðiseftirlits fyrir heilt rekstrarár. Slíkt ákvæði er ekki að finna í matvælalögunum.
    Í 79. gr. frumvarpsins er kveðið á um gildistöku þessa ákvæðis. Ákvæðið tekur gildi 1. september 2009 en þetta er annað tímamark en gildir um önnur ákvæði IV. kafla sem taka gildi 1. maí 2011. Ástæða þessa er sú að brýnt þykir, meðal annars vegna tilmæla frá umboðsmanni Alþingis, að leiðrétta kjötskoðunargjald (sem tekið er fyrir heilbrigðiseftirlit í sláturhúsum), þannig að greiddur sé raunkostnaður af eftirliti með öllum tegundum búfjár. Gjaldinu hefur ekki verið breytt í sjö ár og er nú vangreitt fyrir sumar búfjártegundir meðan oftekið er gjald af öðrum.

Um 44. gr.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um brottfall 13. gr. laga nr. 96/1997. Með fyrirmælum 43. gr. frumvarpsins er lagagrein þessi gerð óþörf, enda er Matvælastofnun heimilað með því ákvæði að framkvæma sérstakt viðbótareftirlit.

Um 45. gr.


    Hér er kveðið á um að ráðherra setji reglugerð, m.a. um meðferð aukaafurða úr dýrum sem óhjákvæmilega munu falla til í sláturhúsum, og að hún verði í samræmi við ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/2002.

Um 46. gr.


    Oft hefur komið til tals á undanförnum árum að heiti laga nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, með síðari breytingum, sé óþarflega langt og stirt. Lagt er til að lögin verði þess í stað nefnd lög um slátrun og sláturafurðir. Orðið slátrun er ekki skilgreint í lögum nr. 96/1997 en orðið er þó víða að finna í lögunum. Orðið myndar einnig orðstofna hugtaka sem skilgreind eru í 3. gr. laganna. Samkvæmt Íslenskri orðabók merkir sögnin að slátra að „lóga, aflífa“. Þá er tilgangur laganna, sbr. 1. gr. laganna, að tryggja gæði, heilnæmi og hollustu sláturafurða og að þær séu ómengaðar og framleiddar við fullnægjandi aðstæður, metnar og flokkaðar.
    Þar sem umfjöllunarefni laganna snýr allt að aðgerðum tengdum slátrun og sláturafurðum þykir hið nýja heiti fela í sér fullnægjandi vísbendingu um efni þeirra.

Um 47. gr.


    Í 3. gr. laga nr. 55/1998 er gildissvið þeirra skilgreint þannig að það nái yfir sjávarafurðir og hafbeitar-, vatna- og eldisfisk. Hafbeitar-, vatna- og eldisfiskur kemur hins vegar ekki fram í skilgreiningum og því falla þessar afurðir utan ákvæða í þessum lögum og öðrum lögum þar sem aðeins er vísað til sjávarafurða. Til að bæta úr þessu er hafbeitar-, vatna- og eldisfiski bætt inn í skilgreiningu á „fiskafurðum“, en þær falla undir skilgreiningu sjávarafurða. Þar með er í lögum þessum nægilegt að fjalla um sjávarafurðir þar sem skilgeining þeirra nær bæði yfir sjávarafla og fiskafurðir. Í samræmi við þetta má einnig einfalda heiti laganna í lög um sjávarafurðir.
    Í samræmi við fóðurlöggjöf Evrópusambandsins er gerð sú breyting að fiskimjöl lúti íslenskri fóðurlöggjöf en falli ekki undir lög nr. 55/1998. Núverandi fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt af Eftirlitsstofnun EFTA sem telur eðlilegt að reglur EES um fóður gildi um fiskimjöl. Í því sambandi er mikilvægt að reglur EES um fóðureftirlit gildi um fiskimjöl. Í samræmi við þetta er skilgreiningu um sjávarafurðir breytt þannig að orðin „vörur unnar úr fiski eða fiskúrgangi“ falli brott úr skilgreiningunni. Á sama hátt breytist skilgreining laga nr. 22/1994 um fóður. Jafnframt eru greinar laga nr. 55/1998 um fóður og fiskimjöl felldar brott úr lögunum, sbr. grein þessa og 50.–52. gr. frumvarpsins.
    Þá er í ákvæðinu jafnframt lagt til að breytt verði skilgreiningum á hugtökum í lögum nr. 55/1998 og bætt við nýjum skilgreiningum á hugtökum í samræmi við ákvæði reglugerðar (EB) nr. 178/2002 sem fjallað er um í almennum athugasemdum með frumvarpi þessu.

Um 48. gr.


    Í ákvæðinu er tekið sérstaklega fram að lögin um matvæli, nr. 93/1995, gildi um efni laga nr. 55/1998. Í matvælalögum eru mikilvæg ákvæði sem gilda um öll matvæli, þar á meðal skv. 2. gr., og gilda þau eftir atvikum um lifandi dýr ef þau eru meðhöndluð til markaðssetningar til manneldis.

Um 49. gr.


    Með greininni er leitast við að aðlaga ákvæðið betur að reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002, 852/2004, 853/2004, 854/2004 og 882/2004.

Um 50. gr.


    Ákvæði þetta er liður í því að fella brott ákvæði um fiskimjöl og fóður í lögum um sjávarafurðir, eins og lagt er til að lög nr. 55/1998 verði nefnd eftir gildistöku laganna, sbr. m.a. athugasemdir við 52. og 56. gr.

Um 51. gr.


    Hér er verið að samræma ákvæði laganna að því er varðar merkingar umbúða ákvæðum í lögum nr. 93/1995, um matvæli, og með því tryggja að uppfylltar séu kröfur EES-samningsins um það efni. Lög um innleiðingu EES-löggjafar um umbúðir í matvælalögum hafa nú þegar verið sett, þ.e. lög nr. 29/2008, 326. mál 135. löggjafarþings.

Um 52. gr.


    Í ákvæðinu felst hluti af þeim breytingum sem gerðar eru með frumvarpi þessu á hlutverki faggiltra skoðunarstofa, sbr. 54. gr. frumvarpsins, svo og því að fella brott úr ákvæðum laga nr. 55/1998 öll ákvæði sem varða fiskimjöl og fóður. Eins og fram hefur komið er gert ráð fyrir að ákvæði fóðurlaga muni framvegis gilda um fiskimjöl og fóður úr fiskúrgangi.
    Lagt er til að í 2. mgr. 14. gr. verði aðgerðarþjónustum og kæli- og frystigeymslum bætt í hóp þeirrar starfsemi sem skal hafa starfsleyfi. Þessi starfsemi þarf vinnsluleyfi samkvæmt núgildandi lögum en eiginleg vinnsla fer þó ekki fram. Í lögum nr. 55/1998 er gerður greinarmunur á vinnsluleyfi annars vegar og starfsleyfi hins vegar. Hingað til hafa einungis fiskiskip að undanskildum vinnsluskipum, svo og fiskmarkaðir, þurft starfsleyfi; öll önnur starfsemi hefur þurft vinnsluleyfi. Eðlismunur þessara leyfa felst í að til starfsleyfanna eru gerðar minni kröfur varðandi innra eftirlit. Þannig hafa starfsleyfishafar ekki þurft að gera hættugreiningu (HACCP-greiningu). Þar sem engin eiginleg vinnsla fer fram í frysti- og kæligeymslum er talið eðlilegt að gera einungis kröfu um starfsleyfi.
    Þar sem slæging (aðgerð) fer fram um borð í fiskiskipum sem hafa starfsleyfi er talið eðlilegt að gera sömu kröfur til innra eftirlits aðila sem gerir sömu athöfn í landi. Ekki hefur verið litið á slægðan fisk sem unna afurð.
    Sömuleiðis er lögð til svohljóðandi breyting á 3. mgr. 14. gr. Í stað setningarinnar „Vinnsluleyfi skal binda vinnslu tilgreindra afurða“ komi setningin „Í vinnsluleyfum skal tilgreina þær vinnslugreinar sem þau ná til“. Breyting á orðalagi gerir kleift að einfalda númerakerfi vinnsluleyfa. Með þessu yrði hægt að tilgreina alla starfsemi sem fram fer í sama húsnæði (sömu skoðunareiningu) undir einu vinnsluleyfisnúmeri.
    

Um 53. gr.


    Með greininni er verið að aðlaga ákvæði laganna betur að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002. Um skilgreiningu á stjórnanda vísast til 2. gr. laganna, sbr. og 47. gr. þessa frumvarps.

Um 54. gr.


    Rétt þykir að breyta því hlutverki sem faggiltar skoðunarstofur hafa haft við eftirlit samkvæmt lögunum í samræmi við þau ákvæði sem um þær gilda í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 882/2004. Samkvæmt gildandi lögum er öllum starfs- og vinnsluleyfishöfum skylt að hafa samning við faggilta skoðunarstofu til að annast framkvæmd eftirlits með starfsemi þeirra en Matvælastofnun hefur hins vegar haft yfirumsjón með starfi þeirra. Hér er hins vegar gert ráð fyrir að lögbært stjórnvald, í þessu tilviki Matvælastofnun, geti falið faggiltum eftirlitsaðilum tiltekin verkefni við framkvæmd eftirlitsins enda uppfylli þeir tiltekin skilyrði til þess. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji þessi skilyrði með reglugerð. Heimild til að framselja faggiltum eftirlitsaðilum vald til eftirlits er nokkuð þrengri í framangreindri reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 882/2004 en í gildandi lögum og því óhjákvæmilegt að gera þessar breytingar.
    2. mgr. 16. gr. laganna skv. 54. gr. frumvarpsins er efnislega sambærileg gildandi 5. mgr. 16. gr. laganna. 3. mgr. 16. gr. laganna skv. 54. gr. frumvarpsins er efnislega sambærileg gildandi 6. mgr. 16. gr. laganna.

Um 55. gr.


    Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að skoðunarstofa geri samning við starfs- eða vinnsluleyfishafa. Frumvarpið gerir ráð fyrir að Matvælastofnun geti falið faggiltum eftirlitsaðilum tiltekin verkefni við framkvæmd eftirlitsins enda uppfylli þeir tiltekin skilyrði til þess. Af þessum sökum er lagt til í frumvarpinu að í stað orðanna „Forsvarsmönnum starfs- og vinnsluleyfishafa, sbr. 14. gr., er skylt að veita Matvælastofnun og samningsbundinni skoðunarstofu ...“ komi: „Stjórnendum vinnslustöðva, skipa og annarra starfsstöðva er skylt að veita Matvælastofnun og þeim faggiltu aðilum sem falin eru tiltekin verkefni varðandi eftirlit samkvæmt samningi við Matvælastofnun ...“.

Um 56. gr.


    Eins og áður hefur komið fram er í frumvarpinu miðað við að felld verði brott úr ákvæðum laga nr. 55/1998 öll ákvæði um fiskimjöl en gert ráð fyrir að fiskimjöl verði eftir gildistöku laganna skilgreint sem fóður en ekki sjávarafurð. Í 47. gr. frumvarpsins er skilgreiningu á sjávarafurðum breytt í samræmi við það og einnig skilgreiningu á fóðri, sbr. 66. gr. Eftir gildistöku laganna er gert ráð fyrir að lög nr. 22/1994 og stjórnvaldsreglur um fóður muni framvegis gilda um fiskimjöl og eru gerðar ráðstafanir til að tryggja það við breytingar á þessum kafla frumvarpsins, m.a. í 52. gr., sem fjallar um breytingar á lögum um sjávarafurðir.

Um 57. og 58. gr.


    Ákvæði 57. gr. er að mestu samhljóða 21. gr. laganna. Þó er 1. mgr. felld brott úr ákvæðinu en þar sagði: „Innflytjandi sjávarafurða sem fluttar eru til Íslands frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins skal tilkynna Matvælastofnun um komu sendinga með hæfilegum fyrirvara.“ Þetta ákvæði er ekki í samræmi við meginreglu EES-löggjafarinnar um frjálst flæði vöru innan svæðisins. Eftirlitsaðilum er þannig óheimilt að skylda innflytjanda til að tilkynna um komu sendinga. Eftirlitsaðilum er einungis heimilt að skoða umræddar afurðir í flutningi milli landa þegar um rökstuddan grun er að ræða um óörugg matvæli.
    Ákvæði 58. gr. fjallar um landamærastöðvar og innflutning frá löndum utan EES og er ákvæðið að mestu sambærilegt við 22. gr. gildandi laga.
    Að öðru leyti er vakin athygli á að ákvæðin eru að mestu samhljóða ákvæði 19. gr. frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir að sambærileg ákvæði verði lögfest í matvælalögum, nr. 93/1995. Þá er gert ráð fyrir að í i-lið 72. gr. (7. gr. i) verði lögfest sambærilegt ákvæði og 58. gr. í lögum nr. 22/1994, um fóður, áburð og sáðvöru, sem varðar innflutning fóðurs sem inniheldur dýraafurðir.
    Að öðru leyti vísast um efni ákvæðanna til frumvarps til laga nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, sbr. Alþingistíðindi, A-deild, 122. löggjafarþing, þskj. 929, 544. mál.

Um 59. gr.


    Hér eiga við sömu athugasemdir og fram koma við 56. gr.

Um 60. gr.


    Lagt er til að fellt verði brott sérákvæði um gjöld fyrir landamæraeftirlit með afurðum frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins sem nú eru í 28. gr. laganna. Í stað þess er gert ráð fyrir þeim gjöldum í almennu gjaldtökuákvæði fyrir eftirlit samkvæmt lögunum og að ráðherra setji um það gjaldskrá, sbr. nýtt ákvæði sem lagt er til að lögfest verði í 31. gr. a, sbr. 63. gr. frumvarpsins.

Um 61. gr.


    Í 2. málsl. 1. mgr. 30. gr. laganna segir „Fái skip ekki vinnsluleyfi eða starfsleyfi, sbr. 14. gr., eða sé svipt því er Matvælastofnun heimilt að svipta það veiðileyfi.“ Lagt er til að þetta ákvæði falli brott. Fiskistofa veitir skipum veiðileyfi og ekki er eðlilegt að önnur stofnun svipti skipin þeim leyfum.

Um 62. gr.


    Ákvæðið hefur að geyma nánari útfærslu á gjaldtökuheimildum fyrir tiltekna þjónustu Matvælastofnunar og einnig fyrir eftirlit með framkvæmd laganna.
    Áréttað er að ráðherra skuli með gjaldskrá setja ákvæði um gjaldtöku fyrir útgáfu vottorða, vinnsluleyfa og starfsleyfa, svo og móttöku og skráningu umsókna.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir efnislega sambærilegu ákvæði í 26. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, og 8. gr. a laga nr. 22/1994. Slíkt ákvæði er í 31. gr. laga nr. 55/1998.

Um 63. gr.


    Hér er lagt til að nýtt ákvæði bætist við lögin, þ.e. að í nýrri grein, 31. gr. a, verði lögfest sambærilegt ákvæði um gjaldtöku fyrir eftirlit og gert er ráð fyrir að lögfest verði í 25. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli. Um skýringu á ákvæðinu vísast að öðru leyti til athugasemda við 17. gr. þessa frumvarps.

Um 64. gr.


    Hér er lagt til að gerðar verði breytingar á heiti laga nr. 55/1998 til að gera ákvæði laganna auðveldari í framkvæmd en sömu ástæður eru fyrir breytingunni og gerð hefur verið grein fyrir í athugasemd við 46. gr. um ástæður fyrir tillögu að breytingu á lögum nr. 96/1997 þar sem eldra heitið hefur þótt óþarflega langt og stirt í framkvæmd. Einnig má vísa til athugasemda við 47. gr. frumvarpsins.

Um 65. gr.


    Lagt er til að 1. gr. laganna verði breytt þannig að tilgangur laganna sé í samræmi við löggjöf Evrópusambandsins. Lagt er til að ákvæðið verði svohljóðandi: „Tilgangur laganna er að tryggja svo sem kostur er öryggi og heilnæmi fóðurs og gæði áburðar og sáðvöru.“

Um 66. gr.


    Í ákvæðinu eru skilgreind nokkur hugtök sem notuð eru í frumvarpinu. Hugtakið fóður er skilgreint upp á nýtt í samræmi við skilgreiningu reglugerðar nr. 178/2002. Fiskimjöl er samkvæmt því skilgreint sem fóður enda segir í skilgreiningunni: „Til fóðurs teljast einnig vörur unnar úr fiski og fiskúrgangi.“ Skilgreining á hugtakinu áhættugreining er tekin upp í lögin enda notast við hugtakið í c-lið 72. gr. frumvarpsins (7. gr. c). Skilgreiningin er í samræmi við reglugerð (EB) nr. 178/2002. Við innleiðingu þessarar reglugerðar, sbr. heimild í 70. gr. frumvarpsins, munu koma fram nánari skilgreiningar á þeim þáttum sem hugtakið áhættugreining nær yfir. Skilgreining á aukefni er í samræmi við reglugerðir (EB) nr. 1831/2003 og 183/2005. Aukaafurðir dýra eru skilgreindar í ákvæðinu. Skilgreiningin er byggð á skilgreiningu reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/2002. Skilgreiningin er víðtæk og er henni ætlað að ná yfir aukaafurðir dýra sem ekki eru ætlaðar til eða eru ekki hæfar til manneldis. Aðrar skilgreiningar í þessari grein frumvarpsins eru samhljóða skilgreiningum í reglugerð (EB) nr. 138/2005 og 178/2002. Ekki er talið að aðrar skilgreiningar í gildandi lögum um þetta efni stangist á við hugtök sem notuð eru í matvælalöggjöf Evrópusambandsins.

Um 67. gr.


    Ákvæðið fellir brott 2. mgr. 3. gr. gildandi laga en samkvæmt greininni skipaði landbúnaðarráðherra tvær nefndir, annars vegar fóðurnefnd og hins vegar sáðvöru- og áburðarnefnd, til fjögurra ára í senn sem höfðu það hlutverk að vera ráðgefandi um framkvæmd eftirlits samkvæmt lögum. Þar sem þessar nefndir hafa ekki verið starfandi um nokkurn tíma og þar sem EES-löggjöf gildir um fóður, áburð og sáðvöru er ekki talinn tilgangur með áframhaldandi starfi slíkra nefnda.

Um 68. gr.


    Ákvæðið kveður á um tilkynningarskylda starfsemi og hvaða fyrirtæki þurfa starfsleyfi. Meginreglan er sú að fóður-, áburðar- og sáðvörufyrirtæki þurfa að tilkynna starfsemi sína til Matvælastofnunar. Þessi fyrirtæki þurfa að sýna fram á fullnægjandi aðstöðu fyrir þá starfsemi sem tilkynnt er um. Fóðurfyrirtæki sem nota aukefni eða forblöndur í fóðurvörur eða vinna fóður úr aukaafurðum dýra skulu hafa starfsleyfi frá Matvælastofnun. Þessi ákvæði eru í samræmi við reglugerð (EB) nr. 882/2004. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 6. gr. frumvarpsins eftir því sem við á. Ef gefa skal út starfsleyfi samkvæmt lögum um matvæli eða sérlögum fyrir starfsemi sem fellur einnig undir ákvæði laga um eftirlit með fóðri, áburði eða sáðvöru er Matvælastofnun heimilt samkvæmt þessu ákvæði að gefa út eitt starfsleyfi á grundvelli hvorra tveggja laganna.

Um 69. gr.


    Ákvæðið er í samræmi við 10. gr. reglugerðar (EB) nr. 178/2002 og 21. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um skyldu stjórnvalda til að upplýsa almenning um eðli hættu sem er fyrir hendi. Ákvæðið leggur þá skyldu á herðar eftirlitsaðila að upplýsa almenning um tiltekna hættu sem stafar af fóðri.
    Í 2. og 3. mgr. ákvæðisins eru ný ákvæði sem kveða á um birtingu upplýsinga eða niðurstaðna vegna eftirlits með fóðri, áburði eða sáðvöru. Ákvæðin eru sambærileg við 2. og 3. mgr. nýrrar 28. gr. a laga nr. 93/1995 í 21. gr. frumvarpsins.

Um 70. gr.


    Í ákvæðinu er að finna reglugerðarheimild til að kveða nánar á um framleiðslu og markaðssetningu, hollustuhætti í framleiðslu, rekjanleika fóðurs, merkingar og vörulýsingar, efnainnihald, sýnatökur, viðmiðunarmörk fyrir örverufræðilega þætti og aðskotaefni, umbúðir og pökkun, erfðabreytt fóður og merkingar þess, eftirlit eftirlitsaðila, innra eftirlit, meðferð aukaafurða dýra, innflutning fóðurs, áburðar og sáðvöru frá þriðju ríkjum og starfsemi landamærastöðva vegna fóðurs, hraðviðvörunarkerfi og stjórnun vegna neyðartilvika. M.a. er heimild til að útfæra efnisákvæði um hraðviðvörunarkerfi og stjórnun vegna neyðartilvika í reglugerð í samræmi við efnisákvæði IV. kafla reglugerðar (EB) nr. 178/2002. Orðalag ákvæðisins er öðru leyti lagað að þeim nýmælum sem kveðið er á um í reglugerð (EB) nr. 178/2002. Einnig er tekið mið af því að í kjölfar reglugerðarinnar verða settar ítarlegar reglur, m.a. um hollustuhætti í fóðuriðnaði. Rétt þykir þó að hafa í lögunum tilvísanir í megingerðir fóðurlöggjafar Evrópusambandsins þannig að reglugerðarheimildir verði skýrar hvað þessar tilteknu gerðir varðar. Þessar tilvísanir eru í 2. og 3. mgr. 7. gr. laganna.

Um 71. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 72. gr.


    Lagt er til að við lögin bætist nýr kafli með tíu nýjum ákvæðum, 7. gr. a – 7. gr. j.
    Um a-lið (7. gr. a).
    Ákvæðið skilgreinir öruggt fóður. Fóður sem ekki er öruggt skal ekki markaðssetja. Fóður skal ekki teljast öruggt ef það er álitið heilsuspillandi fyrir menn og dýr.
    Um b-lið (7. gr. b).
    Ákvæðið er í samræmi við reglur reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1774/ 2002. Reglugerðin heimilar í undantekningartilvikum notkun aukaafurða dýra í dýrafóður. Ákvæðið tekur til tiltekinna unninna aukaafurða dýra svo sem fiskimjöls svo dæmi sé tekið. Skv. 2. mgr. er heimilt að nota fiskimjöl sem fóður fyrir búfé og eldisfisk. Þetta orðalag tryggir að auk jórturdýra verði heimilt að nota fiskimjöl í fóður fyrir t.d. svín og alifugla.
     Um c-lið (7. gr. c).
    Opinbert fóðureftirlit skal fara fram með viðeigandi aðferðum sem þróaðar hafa verið í þeim tilgangi, þ.m.t. kerfisbundinni vöktun og eftirliti, svo sem skoðunum, sannprófunum, úttektum og töku og prófun sýna. Byggt skal á meginreglum um áhættugreiningu. Tíðni opinbers eftirlits skal vera regluleg og í réttu hlutfalli við áhættuna, að teknu tilliti til niðurstaðna úr eftirliti rekstraraðila fóðurfyrirtækja, samkvæmt eftirlitsáætlunum, byggðum á greiningu á áhættu og mikilvægum stýristöðum. Þá er í ákvæðinu nýmæli um að ráðherra eða Matvælastofnun geti leitað til ráðgefandi nefndar sem veita mundi þessum aðilum vísindalega ráðgjöf um áhættumat.
    Í 3. málsl. ákvæðisins er fjallað um skyldu stjórnenda fóðurfyrirtækja, þ.m.t. að þeir beri ábyrgð á að sett sé á fót og starfrækt innra eftirlit með framleiðslu og starfsemi fóðurfyrirtækja og skal það byggt á meginreglum hættugreiningar, en með því er átt við að fóðurfyrirtæki greini hættuþætti og mikilvæga stýristaði.
    Um d-lið (7. gr. d).
    Stjórnendur fóðurfyrirtækja eins og þeir eru skilgreindir í frumvarpinu bera ábyrgð á því að starfsemin sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Stjórnendum ber einnig að sannprófa að starfsemin sé í samræmi við lög og reglur sem um reksturinn gilda. Stjórnandi er í bestri aðstöðu til að þróa öruggt kerfi fyrir afhendingu fóðurs og til að tryggja að fóður, sem hann afhendir, sé öruggt. Af þessum sökum er eðlilegt að stjórnandi fóðurfyrirtækis beri frumábyrgð á öryggi fóðurs.
     Um e-lið (7. gr. e).
    Ákvæðið er að mestu sambærilegt að efni við 8. gr. c sem lagt er til að verði lögfest í lögum um matvæli og kveðið er á um í 5. gr. þessa frumvarps. Um athugasemdir vísast til athugasemda við 5. gr. frumvarpsins. Um síðustu málsgrein 7. gr. e vísast til athugasemda við 19. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um efnisákvæði 27. gr. a í lögum nr. 93/1995.
     Um f-lið (7. gr. f).
    Miklu skiptir að hægt sé að rekja feril fóðurs eins og matvæla. Í þessu skyni gerir matvælalöggjöf Evrópusambandsins ráð fyrir víðtæku kerfi rekjanleika í fóðurfyrirtækjum til þess að hægt sé að afturkalla vörur á markvissan og nákvæman hátt eða veita neytendum eða eftirlitsmönnum upplýsingar og komast þannig hjá óþarfa röskun þegar upp koma vandamál í tengslum við öryggi fóðurs. Ákvæðið kveður á um grunnreglu reglugerðar (EB) nr. 178/2002 sem þar kemur fram í 18. gr. um rekjanleika fóðurs, dýra sem gefa af sér afurðir til manneldis og efna sem notuð eru í matvæli. Stjórnandi eins og hann er skilgreindur þarf að hafa vitneskju um birgja og aðra þá sem útvega hráefni til fóðurframleiðslu eða vinnslu. Þessa vitneskju þarf stjórnandinn að hafa tiltæka ef eftirlitsaðilar óska þessara upplýsinga. Fóðurfyrirtæki, að innflytjanda meðtöldum, getur þurft að staðfesta frá hvaða fyrirtæki það hefur fengið tiltekið fóður eða efni sem sett eru í fóður til að tryggja rekjanleika á öllum stigum ef rannsókn fer fram. Einnig skal stjórnandi geta tilgreint fyrirtæki sem fóðurfyrirtækið hefur afhent vörur sínar.
    Um g-lið (7. gr. g).
    Lagt er til að varúðarregla 7. gr. reglugerðar (EB) nr. 178/2002 verði lögfest eins og gert var í 18. gr. þessa frumvarps um matvæli. Rétt þykir að kveðið sé á um það í lögum hvenær heimilt er að grípa til varúðarráðstafana án þess að fyrirliggjandi séu óyggjandi gögn um að viðkomandi vara muni hafa í för með sér heilsuspillandi áhrif. Skilyrði fyrir beitingu reglunnar er þó að slík áhrif séu möguleg. Í sumum tilvikum er vafi um heilsuspillandi áhrif fóðurs en þó hætta á heilsutjóni vegna þeirra. Ákvæðið heimilar ráðherra að framkvæma nauðsynlegar ráðstafanir í slíkum tilvikum. Ákvæðið tilgreinir ekki heimilar ráðstafanir heldur er kveðið á um að þær skuli vera í réttu hlutfalli við markmið þeirra og ekki hamla viðskiptum meira en nauðsynlegt er. Ráðstafanirnar skulu endurskoðaðar innan eðlilegs tíma enda er um tímabundnar ákvarðanir að ræða. Ákvæði þetta þarf að túlka í samræmi við þá meginreglu matvælalöggjafar EB að markaðshindrandi aðgerðir eða aðgerðir sem leiða til ójafnra samkeppnisskilyrða eru ekki leyfðar nema í sérstökum undantekningartilvikum. Varúðarreglan byggist á því að við þessar sérstöku aðstæður sem verða til þegar ekki er hægt að eyða vísindalegri óvissu en hætta er á að fóður valdi heilsutjóni geti verið nauðsynlegt að gera ráðstafanir til að fyrirbyggja hugsanlega heilsufarsvá fyrir þjóðfélagsþegnana.
     Um h-lið (7. gr. h).
    Á liðnum árum hafa komið upp tilfelli þar sem reglubundið eftirlit með eldi kjúklinga og svína hefur leitt í ljós að þeir voru orðnir mengaðir af salmonellu. Að lokinni faraldsfræðilegri rannsókn á uppruna sýkinganna hefur verið hægt að útiloka aðra möguleika en þann að mengunin hafi komið með fóðri. Við nánari athuganir hefur komið í ljós að sama tegund af salmonellu hafði greinst í fóðurverksmiðju sem seldi kjúklingabúinu fóðrið, en hvorki verksmiðjan eða rannsóknastofan taldi sig þurfa að tilkynna viðkomandi eftirlitsaðila um þessar niðurstöður þar sem ákvæði í 3. mgr. 24. gr. í lögum um matvæli, nr. 93/1995, næði aðeins til matvæla en ekki til fóðurs. Rétt er að taka fram að rannsóknir á fóðri til að sannreyna að fóðrið hafi valdið sýkingum í kjúklingum og svínum er mjög erfið. Það er helst með faraldsfræðilegum niðurstöðum sem hægt er að leiða sterkar líkur að því að svo hafi verið. Með ákvæðinu er tryggt samræmi hvað varðar tilkynningarskyldu þegar sjúkdómsvaldandi örverur greinast í matvælum og fóðri.
     Um i-lið (7. gr. i).
    Ákvæðið er að mestu efnislega samhljóða 19. gr. frumvarpsins sem bætir nýju ákvæði við matvælalögin, 27. gr. b. Á sama hátt og gildir um búfjár- og sjávarafurðir frá ríkjum utan EES ber að fara með fóður og fóðurvörur, sem innihalda dýraafurðir, um landamærastöðvar enda er fóðrið innflutt frá ríkjum utan EES.
     Um j-lið (7. gr. j).
    Ákvæðið er að mestu efnislega samhljóða 15. gr. frumvarpsins sem bætir nýju ákvæði við 23. gr. matvælalaga. Hér er verið að innleiða sambærileg ákvæði fyrir fóður og gilda munu um matvæli á grundvelli reglugerðar (EB) nr. 882/2004. Vísast því til athugasemda um 15. gr. frumvarpsins.

Um 73. gr.


    Hér er lagt til að lögfest verði í lögum nr. 22/1994 sambærilegt ákvæði um gjaldtöku fyrir eftirlit og gert er ráð fyrir að verði lögfest m.a. í 25. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli. Um skýringu á ákvæðinu vísast að öðru leyti til athugasemda við 17. gr. þessa frumvarps.

Um 74. gr.


    Ákvæðið varðar gjaldtöku vegna starfsleyfa og sérstakrar þjónustu sem hagsmunaaðilar leita eftir, svo sem vegna útgáfu vottorða, staðfestinga eða afgreiðslu umsókna. Efnislega sambærilegt ákvæði er í 26. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli.

Um 75. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 76. gr.


    Með ákvæðinu er lagt til að lögfest verði sambærileg ákvæði um þvingunarúrræði og eru í lögum nr. 7/1998. Þannig verða þvingunarúrræði vegna fóðureftirlits þau sömu og þvingunarúrræði vegna matvælaeftirlits, sbr. lög um matvæli. Einnig felst í ákvæðinu að verið er að samræma viðurlagaákvæðin ákvæðum um viðurlög í reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins sem stefnt er að því að mynda grundvöll fyrir innleiðingu á með frumvarpi þessu. Þá er það nýmæli að lagt er til að eftirlitsaðili geti ákveðið að eftirlitsskyldir aðilar skuli greiða allan kostnað vegna þvingunarúrræða sem framkvæmd eru samkvæmt lögum þessum og má innheimta slíkan kostnað með fjárnámi án undanfarandi dóms eða sáttar. Það er jafnframt nýmæli að stjórnanda fyrirtækis er skylt að veita aðstoð við framkvæmd eftirlitsins. Þykir þetta eðlileg krafa þar sem um umfangsmiklar aðgerðir er að ræða.
    Um skýringar við greinina vísast að öðru leyti til athugasemda við 26.–30. gr. í frumvarpi til laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. Alþingistíðindi, A-deild, 122. löggjafarþing 1997–98, þskj. 197, 194. mál.
    Þá er lagt til að lögfest verði sambærilegt ákvæði og í 31. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli. Brot gegn ákvæðum laganna geta haft í för með sér mikla hættu og valdið heilsutjóni á mönnum og dýrum, svo og skaðað ýmsa aðra hagsmuni. Er því talið nauðsynlegt að efla varnaðaráhrif laganna með því að leggja til þyngri viðurlög við brotum á þeim. Með ákvæðinu er lagt til að tekið verði upp ákvæði um tiltekin viðurlög við brotum á lögunum og að um meðferð þeirra fari samkvæmt lögum um meðferð sakamála. Jafnframt er með þessu ákvæði leitast við að samræma ákvæði laganna þeim ákvæðum um viðurlög sem fram koma í EB- reglugerðum sem verið er að leggja grundvöll að innleiðingu á með frumvarpi þessu, sbr. almennar athugasemdir hér að framan.

Um 77. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 78. gr.


    Ákvæðið fjallar um heimild Alþingis fyrir ríkisstjórnina til staðfestingar á þeim ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér eru til umfjöllunar. Sameiginlega EES-nefndin tók umræddar ákvarðanir með fyrirvara um samþykki Alþingis. Eðlilegt þykir að hafa sérstakt ákvæði í frumvarpinu sem kveður á um samþykki Alþingis hvað þessar ákvarðanir varðar.

Um 79. gr.


    Þær ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér eru til umfjöllunar og taldar eru upp í 78. gr. frumvarpsins lúta að ákvæðum 1. tölul. 103. gr. EES-samningsins. Í 1. tölul. segir: „Ef ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar getur einungis verið bindandi fyrir samningsaðila eftir að hann hefur uppfyllt stjórnskipuleg skilyrði skal ákvörðunin ganga í gildi á þeim degi sem getið er í henni, ef sérstakur dagur er tiltekinn, að því tilskildu að hlutaðeigandi samningsaðili hafi tilkynnt hinum samningsaðilunum fyrir þann dag að stjórnskipuleg skilyrði hafi verið uppfyllt. Hafi tilkynningin ekki farið fram fyrir umræddan dag gengur ákvörðunin í gildi fyrsta dag annars mánaðar eftir síðustu tilkynningu.“
    Tilteknar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér eru til umfjöllunar heimila íslenskum yfirvöldum að fresta innleiðingu á tilteknum efnisákvæðum ákvarðananna. Þannig fela ákvarðanir nr. 133, 135, 136 og 137 í sér sérstakt 18 mánaða aðlögunartímabil sem nota á m.a. til að innleiða efnisákvæði sem varða búfjárafurðir. Ákvörðun nr. 134/2007 sem varðar innleiðingu reglugerðar (EB) nr. 178/2002 eða önnur þau ákvæði sem falla ekki undir 18 mánaða aðlögunartímann taka gildi þegar stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt samkvæmt EES-samningnum. Samkvæmt efni sínu áttu þessi ákvæði að taka gildi 27. október 2007. Þar sem það tímamark er liðið þarf að skoða síðasta málslið 1. tölul. 103. gr. EES-samningsins en þar segir: „Hafi tilkynningin ekki farið fram fyrir umræddan dag gengur ákvörðunin í gildi fyrsta dag annars mánaðar eftir síðustu tilkynningu.“
    Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. september 2009 sem þýðir að efnisákvæði sem ekki lúta aðlögunarfresti taka þá gildi. Ef stjórnskipulegum fyrirvara verður aflétt þá tekur 18 mánaða aðlögunartíminn að líða frá 1. nóvember 2009 að telja, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Þannig lýkur 18 mánaða aðlögunartímanum 1. maí 2011.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn og innleiðingar
á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002
frá 28. janúar 2002 auk afleiddra gerða.

    Í október 2007 heimilaði ríkisstjórnin með fyrirvara um samþykki Alþingis staðfestingu á sex ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sem fela í sér breytingar á viðauka og bókunum við EES-samninginn. Frumvarp þetta byggist að mestu á þeirri samþykkt. Með frumvarpinu er verið að taka inn í íslenska löggjöf gerðir Evrópusambandsins um matvæli og fóður að öðru leyti en því að innflutningsbann á hráu kjöti skv. 10. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, er ekki afnumið og sama á við um alidýraáburð og rotmassa sem er blandaður alidýraáburði en slíkur innflutningur verður sem fyrr óheimill. Frumvarpið gerir ráð fyrir að með samþykkt þess muni matvælalöggjöf ESB taka gildi hérlendis. Þannig verði sömu heilbrigðiskröfur gerðar til matvælaframleiðslu hérlendis og á EES-svæðinu. Þetta á jafnt við um búfjárafurðir, þ.e. kjöt, mjólk og egg sem sjávarafurðir. Jafnframt munu að mestu gilda sömu lagareglur um matvælaeftirlit með þessum afurðum hérlendis og á EES-svæðinu.
    Í frumvarpinu er m.a. gert ráð fyrir að störf héraðsdýralækna sem sinna bæði opinberu eftirliti og almennri dýralæknaþjónustu verði lögð niður en í þeirra stað komi stærri opinber eftirlitssvæði þar sem Matvælastofnun hefur umdæmisskrifstofur. Í frumvarpinu er kveðið á um að starfsmönnunum skuli boðin störf hjá Matvælastofnun og að ekki þurfi að auglýsa þau störf skv. 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Við undirbúning þessa frumvarps unnu Matvælastofnun og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið kostnaðaráætlun um ný og breytt verkefni á þessu sviði. Helstu breytingarnar eru eftirfarandi: Í fyrsta lagi er komið í veg fyrir hagsmunaárekstra eftirlitsaðila og eftirlitsþola. Flestir héraðsdýralæknar sinna bæði opinberu eftirliti og almennri dýralæknaþjónustu við framleiðendur. Samkvæmt frumvarpinu verður að aðskilja þá starfsemi, en það kallar á breytingar á umdæmisskrifstofum Matvælastofnunar. Við þessa breytingu er gert ráð fyrir að umdæmisskrifstofur verði sex talsins, en þær eru nú 14. Jafnframt er gert ráð fyrir að kostnaður af rekstri þeirra falli að fullu á Matvælastofnun en stofnunin greiðir nú hlut í 11 skrifstofum af 14. Einnig er gert ráð fyrir að héraðsdýralæknar verði starfsmenn Matvælastofnunar sem sinni eingöngu opinberum eftirlitsstörfum. Því verða héraðsdýralæknar að hætta einkarekstri. Ekki er gert ráð fyrir að dýralæknum sem starfa fyrir stofnunina fækki við þessar breytingar. Í öðru lagi er gert ráð fyrir að Ísland þurfi að sækja um viðbótartryggingu vegna salmonellusmits í innfluttum dýraafurðum (svo sem kjöti og eggjum). Til að geta gert það þarf að sýna fram á að salmonella sé fátíð í umræddum afurðum á Íslandi og til þess þarf stofnunin að fá samþykkta eftirlitsáætlun og gera umfangsmiklar rannsóknir, byggðar á sýnatökum. Jafnframt er gert ráð fyrir gerð gæðahandbókar, vinnu við eftirlits- og sýnatökuáætlanir og gerð innri úttektar á starfsemi Matvælastofnunar, Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og skoðunarstofa. Í þriðja lagi er nú gert ráð fyrir að taka inn í íslenska löggjöf reglur er varða aðskotaefni og lyfjaleifar. Í fjórða lagi er gert ráð fyrir aukinni vinnu við Evrópugerðir og löggjöf við fund fastanefnda og vinnuhópa ESB um fæðukeðjuna og dýraheilbrigði, fund með EFTA og tíðari eftirlitsferðir Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) til Íslands. Þá er reiknað með kostnaði vegna breytinga og reksturs á tölvuskráningarkerfi auk þátttökugjalds að Matvælaöryggisstofnun Evrópu.
    Í tengslum við kostnaðarþætti frumvarpsins voru í fjáraukalögum 2008 veittar 28,4 m.kr. til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og 62,5 m.kr. í fjárlögum 2009. Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að útgjöld Matvælastofnunar muni aukast um allt að 12,2 m.kr. árið 2010 vegna þeirra kostnaðarliða sem snúa að þessu frumvarpi og verði 66,7 m.kr. Við þá fjárhæð bætist 70 m.kr. framlag sem veitt var í fjárlögum 2007 vegna kostnaðar við upptöku Íslands á gerðum í I. kafla I. viðauka við EES-samninginn, um viðskipti með dýraafurðir. Samtals er því áætlað að útgjöld Matvælastofnunar vegna þessara lagabreytinga verði um 136,7 m.kr. á ári þegar þær eru að fullu komnar fram. Auk þess má gera ráð fyrir að Ísland þurfi árlega að greiða 73.592 evrur í þátttökugjald að Matvælaöryggisstofnun en það gera um 13 m.kr. m.v. að skráð gengi evru sé 177 kr. eins og þar var 25. maí 2009.