Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 124. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 245  —  124. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um Bankasýslu ríkisins.

Frá meiri hluta viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Árnýju J. Guðmundsdóttur og Ragnar Hafliðason frá Fjármálaeftirliti, Arnar Þór Másson og Hjördísi Vilhjálmsdóttur frá fjármálaráðuneyti, Jón Gunnar Jónsson, Gunnar Viðar frá Landsbankanum, Pál Gunnar Pálsson og Snorra Stefánsson frá Samkeppniseftirlitinu, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Guðjón Rúnarsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Tryggva Pálsson frá Seðlabanka Íslands, Harald Inga Birgisson frá Viðskiptaráði Íslands og Helgu Valfells og Ómar Þór Eyjólfsson frá viðskiptaráðuneyti. Nefndinni bárust umsagnir um frumvarpið frá Félagi löggiltra endurskoðenda, Fjármálaeftirlitinu, Háskólanum á Akureyri, Kauphöll Íslands, Jóni Gunnari Jónssyni, Landsbankanum, Landssamtökum lífeyrissjóða, Neytendasamtökunum, ríkisendurskoðun, ríkisskattstjóra, Samkeppniseftirlitinu, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði á fót sérstök ríkisstofnun sem beri heitið Bankasýsla ríkisins og heyrir hún undir fjármálaráðherra. Stofnuninni verður falið að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum en ríkissjóður er á ný orðinn eigandi að stærstum hluta íslenska fjármálakerfisins í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Líftími stofnunarinnar takmarkast við fimm ár eða þann tíma sem endurreisn og uppbygging fjármálakerfisins varir. Gert er ráð fyrir því að ríkið losi um eignarhald sitt á fjármálafyrirtækjum þegar tækifæri gefst og að eignarráð og eftirlit sem hugsanlega verða áfram á hendi ríkisins eftir þau tímamörk verði með hefðbundnum hætti.
    Nefndin ræddi á fundum sínum það álitaefni hvort koma ætti verkefnum Bankasýslu fyrir í hlutafélagi eða stofnun. Meiri hlutinn telur að stofnun eigi betur við þegar litið er til mikilvægis þess að stofnanir lúti almennum reglum ríkisrekstrar, hafi skilgreindan ramma og skýra ábyrgðarkeðju, þ.e. ráðherra ber endanlega ábyrgð gagnvart almenningi. Þá bendir meiri hlutinn á að stofnanir lúta reglum upplýsinga- og stjórnsýslulaga.
    Í 1. gr. er kveðið á um að Bankasýslu ríkisins er heimilt að setja á fót og fara með eignarhluti ríkisins í félögum sem samræmast hlutverki og markmiðum hennar. Fram kom fyrir nefndinni að hér væri m.a. átt við hlutafélag um eignaumsýslu ríkisins.
    Í 2. og 3. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um stjórn og forstöðu stofnunarinnar. Mælt er fyrir um að þriggja manna stjórn stofnunarinnar, skipuð af fjármálaráðherra, móti áherslur í starfi og fylgist með starfsemi og rekstri stofnunarinnar. Meiri hlutinn leggur til breytingu á 1. mgr. 2. gr. í þá veru að einn varamaður verði skipaður í stjórnina. Meiri hlutinn leggur einnig til þá breytingu á 3. mgr. 2. gr. að viðskiptanefnd verði tilgreind sem sú nefnd sem verði gerð grein fyrir þeim tilmælum sem þar er mælt fyrir um enda fer hún með bankamál.
    Í 1. mgr. 2. gr. er mælt er fyrir um að stjórn Bankasýslunnar verði skipuð af ráðherra til fimm ára eða út líftíma stofnunarinnar verði hann skemmri en fimm ár. Þá er í 1. mgr. 3. gr. mælt fyrir um að forstjóri Bankasýslunnar verði ráðinn af stjórn til fimm ára eða út líftíma hennar verði hann skemmri en fimm ár. Meiri hlutinn leggur til breytingu á þessum tveimur ákvæðum í þá veru að fella tímamarkið brott. Verði frumvarpið svo breytt að lögum skipar fjármálaráðherra stjórn Bankasýslu ríkisins ótímabundið og stjórnin gerir ótímabundinn ráðningarsamning við forstjóra og er í síðarnefnda tilvikinu gert ráð fyrir gagnkvæmum uppsagnarfresti.
    Í 4. gr. eru helstu verkefni Bankasýslunnar talin upp í tíu stafliðum.
    Í a-lið er tekið fram að Bankasýslan fari með eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er tekið fram að Bankasýslan fari með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum og í 4. mgr. að henni sé heimilt að setja á fót og fara með eignarhluti ríkisins í félögum sem samræmast hlutverki og markmiðum hennar. Meiri hlutinn leggur því til breytingar á a-lið til rýmkunar, þ.e. að í stað orðsins fjármálafyrirtækjum komi fyrirtækjum og félögum, sbr. 1. gr.
    Í b- og c-lið er gert ráð fyrir að Bankasýslan sjái um samskipti ríkisins við fjármálafyrirtæki sem ríkið á hlut í og hafi eftirlit með framkvæmd eigendastefnu ríkisins, eins og hún er á hverjum tíma, gagnvart fjármálafyrirtækjum. Meiri hlutinn leggur áherslu á að það sé skýrt að Bankasýslunni er ekki ætlað að taka úr sambandi ábyrgð og valdsvið bankaráða og stjórna í fjármálafyrirtækjum og leggur því til breytingar á frumvarpinu í þá veru að bankasýslan hafi samskipti við stjórnir fjármálafyrirtækja en ekki fjármálafyrirtækin sjálf. Ekki er um það að ræða að með stofnun Bankasýslu ríkisins takmarkist ábyrgð yfirstjórna fjármálafyrirtækja. Þau verða rekin á viðskiptalegum forsendum á ábyrgð bankaráða, stjórna og stjórnenda eins og hver önnur félög og bera þessir aðilar ábyrgð á rekstrinum líkt og stjórnendur fyrirtækja á markaði.
    Í d-lið kemur fram að Bankasýslan fari með atkvæði ríkissjóðs á hluthafafundum fjármálafyrirtækja. Meiri hlutinn leggur einnig til að við stafliðinn bætist að stofnunin fari einnig með hlut ríkisins á fundum stofnfjáreigenda í sparisjóðum þar sem gera má ráð fyrir því að ríkið muni eignast hluti í sparisjóðum.
    Í 5. gr. frumvarpsins er áréttað að Bankasýslan skuli kappkosta að styrkja samkeppni almennt á fjármálamarkaði þrátt fyrir að ríkið eigi nú stærstan hluta á þeim markaði auk þess sem stofnunin mun búa yfir mikilli vitneskju um rekstur einstakra fjármálafyrirtækja. Þrátt fyrir að ríkið setji sér eigendastefnu sem er sameiginleg fyrir fjármálafyrirtæki sem það á hlut í þá áréttar meiri hlutinn þann skilning sinn að slík eigendastefna eigi ekki að hindra eðlilega samkeppni milli fjármálafyrirtækjanna. Þá vill meiri hlutinn árétta að þeir sem fyrir stofnunina starfa eru bundnir trúnaði um upplýsingar sem geta haft áhrif á samkeppni þannig að tryggt sé að samkeppni verði áfram við lýði á íslenskum fjármálamarkaði. Er þetta lagt til m.a. til að tryggja að upplýsingar um rekstur og starfsemi einstakra fjármálafyrirtækja sem stofnunin fær vitneskju um berist ekki til annarra fjármálafyrirtækja. Í þessu samhengi er rétt að árétta að lögfesting frumvarpsins takmarkar ekki gildissvið samkeppnislaga og eftirlit á grundvelli þeirra.
    Í 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins eru ákvæði um hæfisskilyrði stjórnarmanna og forstjóra þar sem segir að þeir megi ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða hlotið dóm í tengslum við atvinnurekstur samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög, lögum um bókhald, lögum um ársreikninga eða lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. Fyrir nefndinni var þeim sjónarmiðum hreyft að upptalningin væri ekki nægilega tæmandi og leggur meiri hlutinn því til breytingu á greininni í þá veru að rýmka ákvæðið þannig að við bætist að stjórnarmenn og forstjóri megi ekki hafa hlotið dóm fyrir brot á þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.

    Í 7. gr. er mælt fyrir um að stjórn Bankasýslunnar skipi þriggja manna valnefnd sem hafi það hlutverk að tilnefna aðila fyrir hönd ríkisins sem hafa rétt til setu í bankaráðum eða stjórnum fjármálafyrirtækja til samræmis við hlutafjáreign ríkisins. Meiri hlutinn telur brýnt að valnefndin tryggi að hlutföll kynjanna í bankaráðum og stjórnum fyrirtækja og félaga verði sem jöfnust og leggur til breytingu í þá veru. Meiri hlutinn áréttar að sama sjónarmið um sem jafnastan hlut karla og kvenna eigi við um þriggja manna stjórn Bankasýslunnar sem ráðherra skipar.
    Í 4. mgr. 7. gr. er mælt fyrir um almenna heimild til að bjóða sig fram til setu í bankaráðum og stjórnum fyrirtækja fyrir hönd ríkisins. Meiri hlutinn leggur til þá breytingu að hver sem er geti boðið sig fram til setu í bankaráðum og stjórnum fyrirtækja með því að senda nefndinni ferilskrá sína. Telur meiri hlutinn í því sambandi nauðsynlegt að taka fram að til þess að ákvæði þetta komi til með að virka í framkvæmd sé nauðsynlegt að auglýsa eða kynna með einhverjum hætti að verið sé að skipa í stjórnir umræddra fyrirtækja og félaga sem ríkið fer með eignarhlut í.
    Þá leggur meiri hlutinn til nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um að fyrir 1. nóvember nk. gefi Bankasýslan ráðherra skýrslu um starfsemi sína í fyrsta sinn, m.a. um hvernig til hefur tekist með stofnun hennar og framkvæmd þeirra verkefna sem undir hana heyra. Samkvæmt 8. gr. frumvarpsins yrði ráðherra veitt slík skýrsla að nýju fyrir 1. júní 2010 og þinginu í kjölfarið og svo árlega eftir það.
    Nefndinni barst álit frá efnahags- og skattanefnd um frumvarpið. Þar var m.a. fjallað um þörfina fyrir að skilgreina framtíðarskipulag innlends fjármálamarkaðar og að ákvarðanir þar að lútandi yrði að taka á faglegum grunni. Einnig var áréttað mikilvægi þess að sjónarmið um jafnrétti karla og kvenna yrðu höfð að leiðarljósi við ákvarðanir valnefndar í bankaráð og stjórnir. Þá benti nefndin á að í 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins væri Bankasýslunni veitt heimild til að fara með hlut ríkisins í félögum sem samræmast hlutverki og markmiðum stofnunarinnar. Er þar m.a. átt við svonefnt eignaumsýslufélag sem efnahags- og skattanefnd hefur haft til umfjöllunar (frumvarp til laga um stofnun opinbers hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja, 1. mál). Kvaðst efnahags- og skattanefnd telja þetta fyrirkomulag veita starfsemi félagsins ríkari vernd gegn pólitískum áhrifum en ef fjármálaráðherra færi með hlut ríkisins. Nefndin gerði við lokaafgreiðslu tillögu um að fjármálaráðherra væri heimilt að framselja eignarhlutinn í eignaumsýslufélaginu til Bankasýslu ríkisins.
    Við umfjöllun um málið í nefndinni var rætt um það hvort Bankasýsla ríkisins yrði að leita eftir samþykki fyrir því fyrir fram hjá Fjármálaeftirlitinu að eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki. Um þetta bendir meiri hlutinn á að í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 125/2008 (neyðarlaganna) er ríkinu veitt heimild til að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækjum. Fjármálaráðuneytið fer með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum á grundvelli þessa ákvæðis. Bankasýslan hefur það hlutverk samkvæmt ákvæðum frumvarpsins að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ekki verður talið að með þessu fyrirkomulagi verði slík breyting á stöðu ríkisins sem eiganda í fjármálafyrirtækjum að sérstaklega þurfi að meta hæfi stofnunarinnar til þess að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtækjum. Eftir sem áður ber fjármálaráðherra ábyrgð eignarhlutanum þótt sérstakri stofnun sé falið að fara með umsýslu hans.
    Á fundum nefndarinnar var nokkuð rætt um eigendastefnu ríkisins sem hefur nýlega verið kynnt í ríkisstjórn. Verði frumvarpið að lögum leggur meiri hlutinn á það áherslu að samhliða lögfestingu þess verði eigendastefnan kynnt fyrir fulltrúum viðskiptanefndar.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar til lagfæringar á orðalagi.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 8. júlí 2009.



Álfheiður Ingadóttir,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Lilja Mósesdóttir.



Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.








Fylgiskjal.


Álit efnahags- og skattanefndar.



    Nefndinni barst hinn 24. júní 2009 erindi frá viðskiptanefnd þar sem óskað var umsagnar um frumvarp til laga um Bankasýslu ríkisins, þskj. 166, 124. mál.
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Arnar Þór Másson og Hjördísi Dröfn Vilhjálmsdóttur frá fjármálaráðuneyti og Mats Josefsson.
    Markmið frumvarpsins er að tryggja fagleg afskipti íslenska ríkisins við endurreisn og uppbyggingu innlends fjármálamarkaðar. Er lagt til að komið verði á fót sjálfstæðri stofnun, Bankasýslu ríkisins, sem fari með eignarhluti í fjármálafyrirtækjum í samræmi við eigendastefnu ríkisins á hverjum tíma. Stofnunin taki á grundvelli þeirrar stefnu virkan þátt í mótun innlends fjármálamarkaðar, t.a.m. með setningu skilyrða fyrir fjárframlagi ríkisins, mati á tækifærum til hagræðingar og vinnslu tillagna um sölu á eignarhlutum ríkisins. Frumvarpið gerir enn fremur ráð fyrir að stofnuninni verði heimilt að stofna eða eiga eignarhluti ríkisins í félögum að því leyti sem það samræmist tilvist hennar.
    Lagt er til að yfirstjórn stofnunarinnar verði faglega skipuð en að í undantekningartilvikum geti fjármálaráðherra beint tilmælum til stjórnar að gættum ákveðnum skilyrðum. Allar meiri háttar ákvarðanir í starfsemi stofnunarinnar skulu bornar skriflega undir stjórn til samþykktar eða synjunar. Stjórninni er falið að koma á fót þriggja manna valnefnd sem tilnefnir fyrir hönd ríkisins aðila til setu í bankaráðum og stjórnum fjármálafyrirtækja. Sérstaklega er kveðið á um rétt almennings til þess að gefa sig fram við valnefndina.
    Undirstrikuð var á fundum nefndarinnar þörfin fyrir að skilgreina framtíðarskipulag innlends fjármálamarkaðar og að ákvarðanir um þetta væru teknar á faglegum grunni. Fram komu sjónarmið um að færa þyrfti ráðningarferli stjórnarmanna Bankasýslu ríkisins fjær pólitísku valdi en frumvarpið gerir ráð fyrir. Einnig að betur færi á að starfsemi stofnunarinnar yrði á formi hlutafélags sem veitti aukið svigrúm við mannaráðningar og létti kostnaði af ríkissjóði. Nýta mætti arð af eignarhlutum fjármálafyrirtækja til að standa undir starfsemi hennar. Á móti bentu fulltrúar fjármálaráðuneytis á að ekki væri líklegt að hagnaður yrði af starfsemi nýju bankanna á næstu missirum.
    Á fundum nefndarinnar var áréttað mikilvægi þess að sjónarmið um jafnrétti kynjanna yrðu höfð að leiðarljósi við ákvarðanir valnefndar.
    Efnahags- og skattanefnd leggur til að viðskiptanefnd taki til skoðunar hvort framangreindar athugasemdir gefi tilefni til breytinga á frumvarpinu. Enn fremur að viðskiptanefnd skoði tengsl frumvarpsins við frumvarp um stofnun opinbers hlutafélags til að stuðla að endurskipulagningu rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja sem efnahags- og skattanefnd hefur til umfjöllunar. Í lokamálsgrein 1. gr. frumvarps til laga um Bankasýslu ríkisins er stofnuninni veitt heimild til að fara með hlut ríkisins í umræddu félagi og telur nefndin að það fyrirkomulag muni veita starfsemi félagsins ríkari vernd gegn pólitískum áhrifum en ef fjármálaráðherra fer með hlutinn.
    Tryggvi Þór Herbertsson, Birkir Jón Jónsson og Pétur H. Blöndal voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. júlí 2009.



Helgi Hjörvar, form.,
Lilja Mósesdóttir,
Magnús Orri Schram,
Álfheiður Ingadóttir,
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.