Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 124. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 253  —  124. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um Bankasýslu ríkisins.

Frá minni hluta viðskiptanefndar.    Minni hlutinn gerir verulegar athugasemdir við þetta frumvarp. Frumvarpinu er ætlað að leggja áherslu á endurreisn og uppbyggingu öflugs innlends fjármálamarkaðar og stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni á þeim markaði, tryggja gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi og tryggja virka upplýsingamiðlun til Alþingis. Allt eru þetta göfug markmið en erfitt er að sjá hvernig þeim verður náð verði frumvarpið að lögum.
    Minni hlutinn er ekki sannfærður um að þessari umsýslu sé best komið fyrir í nýrri ríkisstofnun. Í minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu kemur fram að flest lönd innan OECD hafa smám saman fært forræði eignarhluta til eins ráðuneytis þannig að umsýslan verði samræmd og mælir OECD með því fyrirkomulagi. Ríkisendurskoðun hefur einnig bent á að stofnuninni sé ætlað að sinna verkefni sem fjármálaráðuneytið virðist að flestu fullfært um að leysa af hendi, og það mun auka útgjöld ríkisins um 70–80 millj. kr. árlega. Slíkt er erfitt að réttlæta nú þegar við blasir miskunnarlaus niðurskurður á útgjöldum ríkisins.
    Minni hlutanum finnst bæði hreinlegra og eðlilegra, sé það á annað borð ætlun ríkisstjórnarinnar að koma á miðstýringu í bankakerfinu, að það verði gert með minni yfirbyggingu úr deild í fjármálaráðuneytinu fremur en að ráðherra handvelji fólk til að stýra nýrri stofnun.
    Bankasýslu ríkisins er ætlað að fylgja eftir eigendastefnu ríkisins en sú stefna liggur ekki fyrir þegar þetta er ritað. Fjölmargir umsagnaraðilar kvörtuðu yfir því að þurfa að veita umsögn þegar eigendastefnuna, sem augljóslega mun hafa mikil áhrif á það hvernig Bankasýslan á að starfa, vantar enn. Fram hefur komið að um eina eigendastefnu verði að ræða fyrir alla banka í eigu ríkisins. Að mati minni hlutans væri æskilegra að ríkið mótaði sér sérstaka eigendastefnu fyrir hverja fjármálastofnun fyrir sig, enda stríðir það gegn samkeppnissjónarmiðum frumvarpsins að hafa eina stefnu fyrir þær allar.
    Nú þegar flestar fjármálastofnanir landsins eru komnar í eigu ríkisins er eðlilegt að fram komi krafa um að fjármálaráðherra hafi ekki bein afskipti af stjórn bankanna. Í samfélaginu er uppi krafa um að ráðherravald verði minnkað. Við fyrstu sýn virðist hlutverk Bankasýslunnar einmitt vera að draga úr ráðherravaldinu, en þegar málið er skoðað nánar má sjá að fjármálaráðherra eru ætluð mikil völd innan stofnunarinnar. Þau völd felast m.a. í því að ráðherra velur þriggja manna stjórn stofnunarinnar sem svo ræður framkvæmdastjóra. Hér telur minni hlutinn eðlilegra að ráðið sé í stjórn og aðrar stöður stofnunarinnar á faglegum forsendum, t.d. hjá ráðningarstofu eða með óháðri valnefnd.

Alþingi, 9. júlí 2009.Guðlaugur Þór Þórðarson,


frsm.


Margrét Tryggvadóttir.


Ragnheiður E. Árnadóttir.Eygló Harðardóttir.