Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 80. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 258  —  80. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Ásbjörns Óttarssonar um samgönguáætlun.

     1.      Eftir hverju er unnið við yfirstandandi endurskoðun á samgönguáætlun?
    Unnið er að gerð samgönguáætlunar í samræmi við þau markmið sem fram koma í 2. gr. laga um samgönguáætlun, nr. 33/2008. Þar er m.a. mælt fyrir um að:
          Mörkuð sé stefna og markmið fyrir allar greinar samgangna, að teknu tilliti til ferðaþjónustunnar og á grundvelli fjáröflunar og útgjalda allra greina samgangna, þ.e. flugmála, vegamála og siglingamála, þ.m.t. almenningssamgangna, hafnamála, sjóvarna, öryggismála og umhverfismála samgöngugreina.
          Skilgreint það grunnkerfi sem ætlað er að bera meginþunga samgangna og gerð grein fyrir ástandi og horfum í samgöngum í landinu. Við gerð samgönguáætlunar skal m.a. byggt á þeim meginmarkmiðum að samgöngur séu greiðar, hagkvæmar, öruggar og umhverfislega sjálfbærar auk þess sem þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun. Þá skal tekið mið af markmiðum um að ná fram í fyrsta lagi samræmdri forgangsröð og stefnumótun, í öðru lagi að ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og mannafla og í þriðja lagi að ná fram samræmdu skipulagi samgöngugreina og samstarfi stofnana samgönguráðuneytisins og fyrirtækja á þess vegum.
         Á vegum samgönguráðs hafa verið haldnir kynningar- og samráðsfundir um allt land með fulltrúum sveitarfélaga til undirbúnings tólf ára samgönguáætlun 2010–2021.
    Að lokum skal taka mið af því að fjármunir ríkissjóðs nýtist sem best en eins og nú háttar í efnahagslífi Íslendinga er sérstök áhersla á að samþætta gerð samgönguáætlunar við markmið í ríkisfjármálum.

     2.      Hver tekur ákvörðun um framkvæmdir, þar sem sum verk á samgönguáætlun eru boðin út og önnur ekki?
    Almennt eru öll verk á samgönguáætlun boðin út. Verk eru metin með því að bera saman útboðsgögn og innsend tilboð hæfra aðila og besta tilboði síðan tekið.

     3.      Hvenær hyggst ráðherra leggja endurskoðaða samgönguáætlun fyrir Alþingi?
    Fyrirhugað er að leggja fram fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2010–2013 næsta haust. Samgönguáætlun til tólf ára er fyrirhugað að leggja fram á vorþingi 2010.
    Samgönguráðuneytið hefur lagt til við stýrihóp um gerð sóknaráætlana fyrir alla landshluta að í haust verði lagðar fram þær áætlanir sem raunhæft er að samþætta, þar á meðal samgönguáætlun 2010–2013. Með langtímasóknaráætlun sem tilbúin yrði eftir rúmt ár, þar með talið samgönguáætlun 2011–2022, yrði lögð fram endurskoðuð fjögurra ára samgönguáætlun, þá fyrir tímabilið 2011–2014.