Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 156. máls.

Þskj. 274  —  156. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 92/2008, um framhaldsskóla.

(Lagt fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009.)
1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði b-liðar 1. mgr. 45. gr. er framhaldsskólum eftir sem áður heimilt skólaárin 2009–2010, 2010–2011 og 2011–2012 að innheimta af nemendum sem njóta verklegrar kennslu efnisgjald fyrir efni sem skóli lætur nemendum í té og þeir þurfa að nota í námi sínu. Skal það taka mið af raunverulegum efniskostnaði. Efnisgjald skal þó aldrei vera hærra en 50.000 kr. á skólaári eða 25.000 kr. á önn. Halda skal bókhald um fjárreiður þessar. Um endurskoðun gilda sömu reglur og um annan rekstur.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með 45. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla, voru gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla þrengdar frá því sem var í lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla. Í 2. mgr. 7. gr. þeirra laga var gert ráð fyrir því að heimilt væri að innheimta efnisgjald af nemendum sem nytu verklegrar kennslu vegna efnis sem skóli léti þeim í té og þeir þyrftu að nota í námi sínu. Hámark gjaldsins var ákveðið 50.000 kr. á skólaári eða 25.000 kr. á önn. Í b-lið 1. mgr. 45. gr. gildandi laga er almennt við það miðað að innheimta efnisgjalds sé ekki heimil fyrir efni sem nemendum er látið í té samkvæmt einhliða ákvörðun skóla. Þó er heimilt að innheimta efnisgjald fyrir efni sem skóli lætur nemendum í té ef nemandi hefur af því ávinning eða sérstök not.
    Fram til þessa hafa verknámsskólar getað mætt útgjöldum vegna efniskaupa í verknámi. Á árinu 2008 munu framhaldsskólar hafa innheimt um 200 millj. kr. í formi efnisgjalda. Að óbreyttum lögum er ljóst að lagabreytingin mun leiða til aukins kostnaðar fyrir verknámsskóla umfram þær kröfur sem gerðar hafa verið um hagræðingu innan framhaldsskólans. Í þessu ljósi er lagt til að ákvæði 2. mgr. 7. gr. eldri laga um heimildir framhaldsskóla til innheimtu efnisgjalda gildi tímabundið eða út skólaárið 2011–2012.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 92/2008,
um framhaldsskóla.

    Með frumvarpinu er lagt til að gildistöku ákvæðis í lögunum, um að skólum sé óheimilt að innheimta efnisgjöld fyrir efni sem nemendum er látið í té samkvæmt einhliða ákvörðun skóla, verð frestað til ársins 2012. Samkvæmt bókhaldi 2008 voru tekjur framhaldsskóla af efnisgjöldum um 200 m.kr. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að fjárhæð efnisgjalds megi ekki vera meira en sem nemur 25 þús. kr. á önn á hvern nemenda, en það er sú fjárhæð sem ákveðin var í eldri lögum um framhaldsskóla.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni leiða af sér aukin útgjöld ríkissjóð né að þurfi að koma til breytinga á fjárheimildum menntamálaráðuneytisins. Verði frumvarpið hins vegar ekki samþykkt munu tekjur framhaldsskólanna lækka um 200 m.kr. og rekstrarstaða þeirra versna sem því nemur.