Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 138. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 292  —  138. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um embætti sérstaks saksóknara, nr. 135/2008, með síðari breytingum, og lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 23. júlí.)



I. KAFLI
Breyting á lögum um embætti sérstaks saksóknara, nr. 135/2008,
með síðari breytingum.

1. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Dómsmálaráðherra skipar sérstakan saksóknara og skal hann veita forstöðu rannsóknar- og saksóknaraembætti skv. 1. gr. Þá skipar dómsmálaráðherra þrjá sjálfstæða saksóknara við embætti sérstaks saksóknara. Sérstakur saksóknari og saksóknarar við embætti hans skulu allir fullnægja skilyrðum til skipunar í embætti héraðsdómara, en heimilt er þó að víkja frá 70 ára aldurshámarki sem um héraðsdómara gildir. Ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, um fimm ára skipunartíma og biðlaunarétt taka ekki til þessara starfsmanna. Skipun þeirra fellur niður þegar embætti sérstaks saksóknara verður lagt niður eða sameinað annarri ríkisstofnun, sbr. 7. gr., en þeir skulu þá halda óbreyttum launakjörum í þrjá mánuði frá þeim tíma. Nú velst dómari til einhverra þessara starfa og skal þá dómsmálaráðherra veita honum leyfi frá störfum á skipunartímanum.
    Sérstakur saksóknari hefur stöðu og almennar heimildir lögreglustjóra samkvæmt lögreglulögum og lögum um meðferð sakamála og fer hann með stjórn lögreglu sem starfar við embætti hans. Sérstakur saksóknari og saksóknarar við embætti hans eru ákærendur samkvæmt lögum um meðferð sakamála. Sérstakur saksóknari skiptir verkum með sér og saksóknurum við embættið. Fela má saksóknara að fara með stjórn á rannsókn máls. Að rannsókn lokinni úthlutar sérstakur saksóknari máli til sín eða annars saksóknara við embættið og skal sá taka ákvörðun um saksókn, gefa eftir atvikum út ákæru í máli og flytja það nema sérstakur saksóknari feli öðrum flutning málsins skv. 4. mgr. Sérstakur saksóknari eða saksóknari við embætti hans tekur ákvörðun um kæru til Hæstaréttar í málum sem hann höfðar. Sérstakur saksóknari hefur umsjón með störfum annarra saksóknara við embættið og gætir samræmis í störfum þeirra. Hann getur þegar sérstaklega stendur á tekið í sínar hendur mál sem hann hefur úthlutað saksóknara til meðferðar eða falið öðrum saksóknara að fara með það.
    Sérstakur saksóknari ræður aðra starfsmenn embættisins en saksóknara. Við ráðningu þeirra gildir ekki 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
    Í héraði flytur sérstakur saksóknari eða saksóknari við embætti hans þau mál sem hann höfðar, svo og kærumál vegna þeirra fyrir Hæstarétti. Sérstakur saksóknari getur einnig falið saksóknarfulltrúum við embættið, lögreglustjóra, héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni að flytja þau mál fyrir héraðsdómi. Sé lögmanni falið að flytja mál hefur hann sömu skyldur og ákærandi. Ríkissaksóknari tekur ákvörðun um áfrýjun héraðsdóms og fer um flutning slíkra mála fyrir Hæstarétti eftir almennum reglum, en einnig er honum heimilt að fela það verk sérstökum saksóknara eða saksóknara við embætti hans.
    Ef háttsemi felur í sér annað eða önnur brot en þau sem sérstakur saksóknari fer með skv. 1. gr. tekur ríkissaksóknari ákvörðun um hvort hann fari með málið. Rísi vafi um valdsvið sérstaks saksóknara gagnvart öðrum ákærendum skal ríkissaksóknari leysa á sama hátt úr honum.

2. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Saksóknarar, lögreglumenn og löglærðir starfsmenn sérstaks saksóknara við embættið fara með lögregluvald skv. 1. mgr. 9. gr. lögreglulaga.

3. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða í lögunum fellur brott.

II. KAFLI
Breyting á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum.

4. gr.

    Við 1. mgr. 26. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Nú telur ríkissaksóknari sig vanhæfan til að fara með ótilgreind mál á afmörkuðu sviði um tiltekinn tíma og setur þá dómsmálaráðherra annan löghæfan mann til að gegna hlutverki ríkissaksóknara í slíkum málum.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.