Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 89. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 298  —  89. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pál Þórhallsson og Halldór Árnason frá forsætisráðuneyti, Þórunni J. Hafstein og Jón Magnússon frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Áslaugu Árnadóttur og Jónínu Lárusdóttur frá viðskiptaráðuneyti, Guðmund Árnason, Angantý Einarsson og Arnar Þór Másson frá fjármálaráðuneyti, Tryggva Axelsson frá Neytendastofu, Rósmund Guðnason og Magnús Sigmund Magnússon frá Hagstofu Íslands, Franklín Georgsson og Svein Margeirsson frá Matís ohf. og Eirík Blöndal frá Bændasamtökum Íslands.
    Umsagnir bárust frá Neytendastofu, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, Kauphöll Íslands, Byggðastofnun, tollstjóranum í Reykjavík, Hagstofu Íslands, Íbúðalánasjóði, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum fjármálafyrirtækja, Framkvæmdasýslu ríkisins, Ríkisendurskoðun, Samtökum atvinnulífsins, Matís ohf., ríkisskattstjóra, Ríkisútvarpinu ohf., sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Viðskiptaráði Íslands, Félagi íslenskra stórkaupmanna, Fjármálaeftirlitinu, Keflavíkurflugvelli ohf., Fasteignaskrá Íslands, Neytendasamtökunum, Bændasamtökum Íslands og Seðlabanka Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum vegna breytinga á heitum ráðuneyta og tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands. Flestar breytingarnar lúta að flutningi verkefna til efnahags- og viðskiptaráðuneytis, þ.e. málefna Seðlabanka Íslands og Hagstofu Íslands frá forsætisráðuneyti, og flutningi málefna er varða ársreikninga, endurskoðun og bókhald frá fjármálaráðuneyti. Auk þess er lagt til að stofnuð verði sjálfstæð rannsóknareining innan Hagstofu Íslands sem hafi það hlutverk að fylgjast með afkomu þjóðarbúsins, semja þjóðhagsspár og áætlanir og birta þær opinberlega. Þá er mælt fyrir um flutning verkefna til dómsmála- og mannréttindaráðueytis, þ.e. flutning á málefnum sveitarstjórnarkosninga frá samgönguráðuneyti, flutning á málefnum fasteignamats og fasteignaskráningu frá fjármálaráðuneyti og flutning neytendamála frá viðskiptaráðuneyti o.fl.
    Fyrir nefndinni kom fram að þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu væru fyrsti þátturinn í þeim stjórnkerfisumbótum sem ráðist verður í á næstu mánuðum og árum. Þær varða tilfærslu verkefna milli ráðuneyta sem ætlað er að bæta stjórnsýslu og þjónustu við atvinnulíf og almenning. Meiri hlutinn leggur áherslu á mikilvægi þess að vandað sé til þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu svo ekki sé hætta á að mannauður og þekking fari forgörðum.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að efla og styrkja viðskiptaráðuneyti sem verður efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Þá verður dóms- og kirkjumálaráðuneyti dóms- og mannréttindamálaráðuneyti. Breytingarnar í frumvarpinu endurspeglast í breytingum á heitum ráðuneyta. Meiri hlutinn telur mikilvægt að fækka ráðuneytum, styrkja þau og samræma verkefni. Fyrir nefndinni kom fram að verkefni ráðuneyta skarast og koma mörg ráðuneyti því að sömu málaflokkum og því getur yfirsýn og samhæfing tapast eins og í tilfelli Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Meiri hlutinn lítur svo á að frumvarpið sé áfangi í átt að skilvirkara Stjórnarráði en áréttar mikilvægi þess að sem fyrst komi fram frumvarp sem lýtur að heildarsýn á Stjórnarráðið, sýn sem byggist á hagræðingu, skilvirkni, fækkun ráðuneyta og styrkingu þeirra.
    Fram kom að til þess að tryggja sem best framkvæmd þeirra breytinga sem gera þarf hefur verið sett á fót verkefnisstjórn um stjórnkerfisumbætur þar sem í eiga sæti ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis, auk sérfræðinga ráðuneytisins og fjármálaráðuneytis og fulltrúar þeirra ráðuneyta sem verkefnaflutningur varðar. Þá muni auk þess verða haft samráð við aðila vinnumarkaðarins, Samband íslenskra sveitarfélaga og aðra hagsmunaaðila. Meiri hlutinn telur mjög mikilvægt að slíkt samráð verði haft svo að unnt verði að skapa sátt um nauðsynlegar breytingar á næstu mánuðum og árum.
    Á fundum nefndarinnar kom einnig fram að á vegum forsætisráðuneytis væri starfandi vinnuhópur sem miðaði að því að útbúa sóknaráætlun fyrir alla landshluta og samræma ýmsar áætlanir sem stjórnvöld standa fyrir. Þannig verði hugsanlega til atvinnu- og þjónustusvæði sem hafa hagnýta skírskotun. Meiri hlutinn telur mikilvægt að við þá vinnu verði einnig haft náið samráð við hagsmunaaðila.
    Nefndin ræddi nokkuð um þær breytingar sem fela í sér flutning eignarhalds ríkisins í opinberum hlutafélögum, svo sem Ríkisútvarpinu ohf., Matvælarannsóknum hf. og hlutafélagi um rekstur Keflavíkurflugvallar, frá fagráðuneytum til fjármálaráðuneytis. Markmiðið með breytingunum er m.a. að tryggja að ríkið hafi eina samræmda eigendastefnu til að auka trúverðugleika og einingu um hlutverk þess sem eiganda. Þessi þróun hefur verið innan ríkja OECD og áherslan þar með lögð á ríkið sem eiganda. Fram kom að með breytingunum mætti draga verulega úr þeirri hættu sem felst í að sami aðili sé í eigandafyrirsvari tiltekins félags auk þess að hafa faglegt eftirlit með starfsemi eða starfsumhverfi þess. Þeim sjónarmiðum var hreyft fyrir nefndinni að með þessu gæti samvinna og samráð fagráðuneyta við viðkomandi stofnanir minnkað og komið niður á faglegri vinnu. Meiri hlutinn leggur af því tilefni áherslu á að með þessum breytingum sé einungis verið að færa hlutabréfið til fjármálaráðuneytis en vald yfir málefnasviðum, reglusetning á þeim og faglegt samstarf við stofnanir verður hjá viðkomandi fagráðuneyti. Meiri hlutinn ítrekar mikilvægi þess að við skipan og tilnefningar stjórnarmanna í félög, sem eru að hluta eða í heild í opinberri eigu, verði gætt að faglegum sjónarmiðum og litið til fagþekkingar viðkomandi þannig að tryggt verði að breytingarnar verði ekki til þess fallnar að veikja samvinnu ráðuneytanna við stofnanirnar.
    Fyrir nefndinni komu fram upplýsingar, sem varða flutning eignarhalds á Matvælarannsóknum hf. frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti til fjármálaráðuneytis, um að hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti gæti þurft að grípa til umfangsmikilla aðgerða á ýmsum sviðum til þess að mæta þeim erfiðu fjárhagsaðstæðum sem nú eru. Þannig gæti reynst óhjákvæmilegt að ráðast í gagngerar breytingar á uppbyggingu stofnana, sem getur þýtt formbreytingu á hluta starfseminnar og að Matvælarannsóknir hf. gætu orðið órjúfanlegur hluti af þeirri leið sem valin verður. Meiri hlutinn telur að þegar litið sé til þessa sé rétt að fresta þessari breytingu þar sem að hún kann að flækja málin og gera nauðsynlegar breytingar erfiðari. Meiri hlutinn leggur því til að 66. gr. frumvarpsins falli brott.
    Meiri hlutinn ræddi einnig þær breytingar sem lagðar eru til á neytendamálum en að meginstefnu til á sá málaflokkur að færast frá viðskiptaráðuneyti yfir í dómsmála- og mannréttindaráðuneyti fyrir utan þá lagabálka sem snúa að fjármálamarkaðinum, en þeir verða áfram á verksviði efnahags- og viðskiptaráðuneytis enda þótt alltaf megi búast við einhverri skörun við neytendamálaflokkinn, sbr. lög um rafrænar undirskriftir og rafræn viðskipti. Undir neytendamálaflokkinn falla ýmis lög á verksviði Neytendastofu og talsmanns neytenda. Í skýrslu, sem unnin var fyrir viðskiptaráðuneytið af þremur stofnunum Háskóla Íslands, Félagsvísindastofnun, Hagfræðistofnun og Lagastofnun um úttekt á stöðu neytendamála á Íslandi, Ný sókn í neytendamálum, komu fram tillögur að breytingum á skipan neytendamála sem byggjast að nokkru á norrænni fyrirmynd. Tillögur skýrsluhöfunda voru að sameina Neytendastofu og embætti talsmanns neytenda. Fram kom að ekki hefði unnist tími til að vinna úr þessum tillögum í viðskiptaráðuneyti vegna mikilla anna í tengslum við bankahrunið. Meiri hlutinn telur að þær tillögur sem settar eru fram í skýrslunni séu til þess fallnar að styrkja þennan málaflokk sem fer sífellt stækkandi og er t.d. ákveðin þungamiðja í rétti nágrannaríkjanna sem og í Evrópusambandslöggjöf. Með sameiningunni mætti einnig ná fram nokkurri hagræðingu og telur nefndin því mikilvægt að á vegum nýs dóms- og mannréttindamálaráðuneytis verði farið í að skoða þær tillögur sem koma fram í skýrslunni.
    Þá var einnig rætt um málefni Hagstofu Íslands en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hún færist undir efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Þá er í frumvarpinu lagt til að við Hagstofu Íslands verði starfrækt sjálfstæð rannsóknareining sem verði aðskilin frá þeirri hagskýrslustarfsemi sem fyrir er og verði henni ætlað að fylgjast með afkomu þjóðarbúsins, semja þjóðhagsspár og áætlanir og birta opinberlega. Þessi vinna fer nú fram á efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis og er í frumvarpinu gert ráð fyrir að sá hluti hennar verði fluttur til Hagstofunnar. Í lögum og reglum um hagskýrslustarfsemi er lögð áhersla á faglegt sjálfstæði hagstofa, að þær séu hlutlausar og beiti viðeigandi verklagi. Einnig er lögð áhersla á gæði hagskýrslna, trúnað og gagnsæi í vinnubrögðum. Meiri hlutinn leggur áherslu á að skýran greinarmun þarf að gera á söfnun og úrvinnslu upplýsinga annars vegar og stefnumörkun og ályktunum sem byggjast á tölfræðinni hins vegar. Fyrir nefndinni kom fram að mjög mikilvægt væri að þessi sjálfstæða rannsóknareining verði aðskilin algerlega frá hagskýrslugerðinni og að hún heyri þannig beint undir hagstofustjóra. Meiri hlutinn telur því nauðsynlegt að gerðar verði breytingar á skipuriti stofnunarinnar samhliða þessum breytingum og enn fremur að settar verði mjög skýrar verklagsreglur byggðar á lögum og alþjóðlegum reglum um samskipti þessarar sjálfstæðu rannsóknareiningar og annarra rannsakenda við Hagstofuna.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar lagfæringar á frumvarpinu en í 1. gr. þess eru lagðar til breytingar á 4. gr. laga um Stjórnarráð Íslands þar sem ráðuneyti eru talin upp í stafrófsröð á eftir forsætisráðuneyti. Meiri hlutinn telur rétt að halda núverandi tilhögun laganna og leggur því til breytingu á frumvarpinu í þá átt. Meiri hlutinn leggur auk þess til að við frumvarpið bætist tveir nýir kaflar. Sá fyrri varðar breytingar á lögum um lögbann og dómsmál til verndar heildarhagsmunum neytenda sem falla eiga undir verksvið dómsmála- og mannréttindaráðuneytis og hinn síðari varðar breytingar á lögum um neytendalán sem eftir breytingar á ráðuneytum heyra undir efnahags- og viðskiptaráðherra í stað viðskiptaráðherra. Þá leggur meiri hlutinn til smávægilegar lagfæringar á frumvarpinu sem þarfnast ekki skýringa.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali.
    Sigríður Ingibjörg Ingadóttir skrifar undir álitið með fyrirvara.

Alþingi, 24. júlí 2009.



Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


form., frsm.


Atli Gíslason.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


með fyrirvara.



Ásmundur Einar Daðason.


Róbert Marshall.


Þráinn Bertelsson.