Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 89. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 300  —  89. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.


    Allsherjarnefnd hefur fjallað um málið og fengið umsagnir auk þess sem gestir hafa komið á fundi nefndarinnar eins og rakið er í áliti meiri hlutans. Minni hlutinn leggst gegn því að frumvarpið verði afgreitt sem lög frá Alþingi og rökstyður þá afstöðu sína með eftirfarandi hætti:
     1.      Þær breytingar sem felast í frumvarpinu eru ekki nægilega undirbúnar, greinilegt er að ekki hefur verið haft samráð við þær stofnanir sem málið varðar og ekkert bendir til þess að málið hafi á nokkurn hátt verið unnið í samstarfi við samtök starfsmanna. Undirbúningur að þessu leyti virðist því í fullkomnu ósamræmi við þær verklagsreglur og leiðbeiningar um undirbúning lagafrumvarpa sem finna má í handbók forsætisráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og skrifstofu Alþingis frá nóvember 2007. Einungis hefur verið um að ræða samráð milli ráðuneyta og jafnvel það virðist ekki hafa verið fullnægjandi, sbr. erindi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til allsherjarnefndar dags. 8. júlí sl.
     2.      Breytingarnar í frumvarpinu virðast á margan hátt fálmkenndar og tilviljunarkenndar og sárlega skortir þá heildarsýn á skipulag og tilfærslu innan verkefna Stjórnarráðsins sem boðaðar hafa verið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Í ljósi þess er vandkvæðum bundið að taka afstöðu til einstakra tillagna frumvarpsins þar sem óljóst er hvernig þær munu falla að frekari breytingum sem í einhverjum tilvikum munu jafnvel birtast í nýju lagafrumvarpi strax í haust. Telur minni hlutinn að skynsamlegra hefði verið að ríkisstjórnin legði fram heildstæðar tillögur í þessum efnum þannig að Alþingi hefði möguleika á því að taka afstöðu til þeirra í eðlilegu samhengi. Þess í stað velur ríkisstjórnin leið smáskammtalækninga.
     3.      Ekki hafa komið fram nein fullnægjandi rök fyrir því að þær breytingar sem frumvarpið felur í sér séu svo brýnar að ekki megi bíða með þær þangað til sú heildarendurskoðun, sem vikið er að hér að framan, liggur fyrir. Engin af þeim breytingum sem þar eru lagðar til getur talist bráðaaðgerð til að mæta einhverjum aðsteðjandi vanda. Ef markmið ríkisstjórnarinnar er að leggja fram nýtt frumvarp á haustþingi með öðrum breytingum sem hún telur mikilvægar til framtíðar væri eðlilegra að taka tillögurnar í þessu frumvarpi inn í þá vinnu. Vel getur komið til þess að strax í haust standi þingið frammi fyrir nýjum tillögum um breytingar á þeim lagaákvæðum sem fjallað er um í þessu frumvarpi. Það eru sérkennileg vinnubrögð, ekki síst í ljósi þess sem áður er sagt um skort á rökstuðningi fyrir því að nauðsynlegt sé að afgreiða þetta mál í sumar.
     4.      Miðað við yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar er eitt helsta markmið fyrirhugaðra breytinga á Stjórnarráðinu og stjórnkerfinu almennt að ná fram hagræðingu og sparnaði. Í frumvarpi því sem hér liggur fyrir er ekki að finna neinar tillögur sem stuðla að því að það markmið náist. Þetta kemur meðal annars skýrt fram í kostnaðarmati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem metur áhrifin svo að fyrst og fremst verði um tilflutning útgjalda að ræða milli ráðuneyta og stofnana og auki þannig ekki heildarkostnað ríkissjóðs. Fjárlagaskrifstofa hefur reyndar skýra fyrirvara um að þetta geti breyst vegna breytinga á kostnaði, starfsmannafjölda eða húsnæði, en vegna óvissu um slíka þætti telur skrifstofan að um það verði að fjalla sérstaklega síðar. Hvað sem því líður liggur a.m.k. fyrir, að þetta frumvarp sem slíkt leiðir ekki hagræðingar og sparnaðar eins og ríkisstjórnin segist stefna að.
     5.      Veigamesta efnisbreytingin í frumvarpinu lýtur að tilfærslu málefna og stofnana á sviði efnahagsmála til viðskiptaráðuneytis. Minni hlutinn tekur undir þau sjónarmið að reynsla undanfarinna mánaða kalli á endurskoðun í þeim efnum, aukna samræmingu og samhæfingu, hugsanlega tilfærslu verkefna og stofnana og aðrar breytingar sem leitt geta til þess að þeir kraftar innan stjórnarkerfisins sem með þessi mál hafa að gera nýtist sem best. Minni hlutinn telur hins vegar nauðsynlegt að fyrir liggi mótaðar hugmyndir og tillögur um fyrirkomulag í þeim efnum í samhengi við aðrar boðaðar breytingar áður en einstök skref eru stigin í þeim efnum. Þá telur minni hlutinn óeðlilegt að forræði á sviði efnahagsmála verði fært frá forsætisráðuneyti með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Efnahagsmálin hafa um langt skeið verið mikilvægasta viðfangsefni forsætisráðuneytisins. Eðli málsins samkvæmt snerta þau mál svið allra annarra ráðuneyta að meira eða minna leyti. Verkstjórnarhlutverk forsætisráðherra er því hvað veigamest, einmitt á því sviði. Tillögur um breytingar í þessum efnum eru sérstaklega undarlegar við þær aðstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu. Öllum má vera ljóst að einmitt nú eru efnahagsmálin brýnasta og alvarlegasta viðfangsefni stjórnvalda og skýtur því skökku við að færa forræði þess málaflokks frá forsætisráðherra.
    Með hliðsjón af þessum sjónarmiðum getur minni hlutinn ekki fallist á að þetta frumvarp verði afgreitt á þessu þingi. Minni hlutinn mun ekki leggja fram breytingartillögur að svo stöddu en áskilur sér rétt til að gera frekari athugasemdir eða leggja fram tillögur síðar við meðferð málsins.

Alþingi, 24. júlí 2009.



Birgir Ármannsson,


frsm.


Unnur Brá Konráðsdóttir.


Vigdís Hauksdóttir.