Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 114. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 303  —  114. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um kjararáð og fleiri lögum.

(Eftir 2. umr., 24. júlí.)



I. KAFLI


Breyting á lögum um kjararáð, nr. 47/2006, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Kjararáð skal einnig ákveða laun og starfskjör framkvæmdastjóra hlutafélaga og annars konar félaga, einkaréttareðlis, sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins og félaga sem eru að meiri hluta í eigu félaga sem undir þessa málsgrein falla. Ákvæði 1. málsl. tekur ekki til félags sem nefnt er dótturfélag móðurfélagsins í 2. mgr. 2. gr. laga um hlutafélög og 2. mgr. 2. gr. laga um einkahlutafélög. Ákvæði 1. málsl. tekur ekki heldur til félaga sem viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins eða dótturfélög þessara fjármálafyrirtækja yfirtaka til að tryggja fullnustu kröfu. Í vafatilvikum úrskurðar fjármálaráðuneyti um hvort kjararáð eigi úrskurðarvald samkvæmt þessari málsgrein.

2. gr.

    Við 1. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr málsliður er verður 2. málsl., svohljóðandi: Við ákvörðun sína skal kjararáð gæta þess að föst laun fyrir dagvinnu, annarra en forseta Íslands, verði ekki hærri en föst laun forsætisráðherra skv. 3. gr.

II. KAFLI
Breyting á lögum um Ríkisútvarpið ohf., nr. 6/2007, með síðari breytingum.
3. gr.

    Orðin „ákveða laun hans og önnur starfskjör“ í 1. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna falla brott.

4. gr.

    1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Útvarpsstjóri er framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins ohf. og skal uppfylla skilyrði 2. mgr. 8. gr. Kjararáð ákveður starfskjör útvarpsstjóra. Útvarpsstjóri er jafnframt æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar.

III. KAFLI
Breyting á samkeppnislögum, nr. 44/2005, með síðari breytingum.
5. gr.

    1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Forstjóri Samkeppniseftirlitsins skal ráðinn af stjórn stofnunarinnar og setur hún honum starfslýsingu. Kjararáð ákveður starfskjör forstjóra. Forstjóri annast daglega stjórnun á starfsemi og rekstri stofnunarinnar.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, með síðari breytingum.
6. gr.

     B-liður 28. gr. laganna orðast svo: Ákveða laun og önnur starfskjör aðstoðarseðlabankastjóra og fulltrúa í peningastefnunefnd, þ.m.t. rétt til biðlauna og eftirlauna. Kjararáð ákveður laun og önnur starfskjör seðlabankastjóra önnur en rétt til biðlauna og eftirlauna og önnur atriði sem varða fjárhagslega hagsmuni hans sem bankaráðið ákveður.

V. KAFLI
Breyting á lögum um Byggðastofnun, nr. 106/1999.
7. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Kjararáð ákveður starfskjör forstjóra.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi,
nr. 87/1998, með síðari breytingum.

8. gr.

    3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna orðast svo: Kjararáð ákveður starfskjör forstjóra.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum.
9. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist nýr málsliður er verður 2. málsl., svohljóðandi: Kjararáð ákveður starfskjör framkvæmdastjóra.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins,
nr. 61/1997, með síðari breytingum.

10. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 2. mgr., svohljóðandi:
    Kjararáð ákveður starfskjör framkvæmdastjóra.

IX. KAFLI
Breyting á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum.

11. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 79. gr. a laganna orðast svo: Félagsstjórn í félagi sem ber skylda til að kjósa sér endurskoðanda skv. 1.–3. mgr. 98. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, skal samþykkja starfskjarastefnu félagsins varðandi laun og aðrar greiðslur til forstjóra og annarra æðstu stjórnenda félagsins, svo og stjórnarmanna þess, þó ekki laun og aðrar greiðslur til forstjóra hlutafélags sem er að meiri hluta í eigu ríkissjóðs og forstjóra hlutafélags í eigu þess.

X. KAFLI
Breyting á lögum um Landsvirkjun, nr. 42/1983, með síðari breytingum.
12. gr.

    1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
    Stjórn Landsvirkjunar ræður forstjóra er veitir fyrirtækinu forstöðu. Kjararáð ákveður starfskjör forstjóra. Forstjóri skal eiga sæti á stjórnarfundum.

XI. KAFLI
Gildistaka.
13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.