Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 156. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Prentað upp.

Þskj. 317  —  156. mál.
Leiðrétting.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 92/2008, um framhaldsskóla.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þóri Ólafsson og Baldur Guðlaugsson frá menntamálaráðuneyti, Guðbjörgu Aðalbergsdóttur frá Félagi íslenskra framhaldsskóla, Ásgeir Guðmundsson, Hreiðar Má Árnason og Sindra Snæ Einarsson frá Sambandi íslenskra framhaldsskólanema og Önnu Maríu Gunnarsdóttur og Ásdísi Ingólfsdóttur frá Kennarasambandi Íslands. Umsögn barst frá Rafiðnaðarsambandi Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að gildistöku ákvæðis í lögum um framhaldsskóla, um að skólum sé óheimilt að innheimta efnisgjöld fyrir efni sem nemendum er látið í té samkvæmt einhliða ákvörðun skóla, verði frestað til ársins 2012.
    Með 45. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla, voru gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla þrengdar frá því sem var í eldri lögum um framhaldsskóla, nr. 80/1996. Í 2. mgr. 7. gr. þeirra laga var gert ráð fyrir því að heimilt væri að innheimta efnisgjald af nemendum sem nytu verklegrar kennslu vegna efnis sem skóli léti þeim í té og þeir þyrftu að nota í námi sínu. Hámark gjaldsins var ákveðið 50.000 kr. á skólaári eða 25.000 kr. á önn. Í b-lið 1. mgr. 45. gr. gildandi laga er almennt við það miðað að innheimta efnisgjalds sé ekki heimil fyrir efni sem nemendum er látið í té samkvæmt einhliða ákvörðun skóla. Þó sé heimilt að innheimta efnisgjald fyrir efni sem skóli lætur nemendum í té ef nemandi hefur af því ávinning eða sérstök not. Á árinu 2008 munu framhaldsskólar hafa innheimt um 200 millj. kr. í formi efnisgjalda. Að óbreyttu er ljóst að lagagreinin mun leiða til aukins kostnaðar fyrir framhaldsskóla umfram þær kröfur sem gerðar hafa verið um hagræðingu innan skólanna. Í þessu ljósi er lagt til að ákvæði 2. mgr. 7. gr. eldri laga um heimildir framhaldsskóla til innheimtu efnisgjalda gildi tímabundið eða út skólaárið 2011–2012.
    Meiri hlutinn bendir á að í lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008, er m.a. að finna tvö ákvæði sem ætlað er að draga úr kostnaði nemenda við að stunda nám í framhaldsskólum. Í 45. gr. er dregið úr heimildum skólanna til að innheimta efnisgjöld af nemendum. Þá er í 51. gr. kveðið á um að í fjárlögum ár hvert skuli tilgreind sú fjárhæð sem veitt er til að mæta kostnaði nemenda vegna námsgagna. Ljóst er að framhaldsskólarnir þurfa nú í ljósi efnahagsástandsins að taka á sig umtalsverðan niðurskurð á fjárveitingum eins og aðrar ríkisstofnanir. Ekki er gert ráð fyrir að dregið verði úr kjarnaþjónustu skólanna en niðurskurður verði á öðrum þáttum. Afnám efnisgjalda fyrir efni sem skóli lætur nemendum í té og þeir þurfa að nota í námi sínu hefði í för með sér enn þrengri fjárhag skólanna þar sem ekki er gert ráð fyrir að mæta þeim með nýjum framlögum í fyrirliggjandi fjárlagatillögum. Með því að framlengja ákvæði laganna frá 1996 um efnisgjöld væri skólunum hlíft við enn harðari niðurskurði. Meiri hlutinn áréttar að ekki sé verið að taka upp nýja gjaldtöku hjá verknámsnemendum heldur framlengja óbreytt ástand. Einnig er áréttað að gjaldið á að mæta raunverulegum kostnaði og ekki er gert ráð fyrir hækkun á gjaldinu þó að efni sem notað er til verklegrar kennslu í framhaldsskólum hafi hækkað frá ákvörðun gjaldsins í eldri lögum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Unnur Brá Konráðsdóttir og Margrét Tryggvadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 30. júlí 2009.



Oddný G. Harðardóttir,


form., frsm.


Ásmundur Einar Daðason.


Árni Þór Sigurðsson.



Skúli Helgason.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.