Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 166. máls.

Þskj. 320  —  166. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009.)




1. gr.

    Við 103. gr. laganna bætast fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Til tryggingar greiðslu væntanlegrar skattkröfu, fésektar og sakarkostnaðar í málum er sæta rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins er heimilt að krefjast kyrrsetningar hjá skattaðila og öðrum þeim er grunur um refsiverða háttsemi skv. 109. gr. beinist að ef hætta þykir á að eignum verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun. Með sama hætti er heimilt að krefjast kyrrsetningar hjá aðilum sem bera ábyrgð á skattgreiðslum skv. 116. gr.
    Tollstjóri annast rekstur mála skv. 8. mgr. og skal skattrannsóknarstjóri tilkynna honum um aðgerðir þar að lútandi. Tollstjóra er heimill aðgangur að hvers konar upplýsingum og gögnum sem skattyfirvöld, fjármálastofnanir og aðrir aðilar búa yfir, sbr. 94. gr., og snerta ráðstafanir samkvæmt þessari grein. Um framkvæmd og gildi kyrrsetningar fer sem um kyrrsetningu fjármuna almennt sé að ræða, með þeim undantekningum að tryggingu þarf ekki að setja, mál þarf ekki að höfða til staðfestingar kyrrsetningu og gjöld skal ekki greiða fyrir ráðstafanirnar.
    Tollstjóri skal þegar hefjast handa um að skattaðili leggi fram fullnægjandi tryggingar eða ráðstafi að öðrum kosti ekki eignum sínum, sbr. 6. mgr. 113. gr.
    Kyrrsetning fellur niður ef rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins leiðir ekki til þess að skattar skattaðila verði hækkaðir eða honum eða öðrum þeim er grunur um refsiverða háttsemi skv. 109. gr. beinist að verði gerð fésekt. Sá er kyrrsetning beinist að á þá heimtingu á að felldar verði úr gildi þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið til tryggingar kyrrsetningunni. Kyrrsetning fellur á sama hátt niður ef inntar eru af hendi þær greiðslur sem kyrrsetning á að tryggja.

2. gr.

    Við 109. gr. laganna bætist ný málsgrein, er verður 7. mgr., svohljóðandi:
    Hver sá sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi ráðstafar eignum í bága við 6. mgr. 113. gr. skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

3. gr.

    Við 113. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Til tryggingar greiðslu væntanlegrar skattkröfu, fésektar og sakarkostnaðar vegna rannsóknaraðgerða skattrannsóknarstjóra ríkisins skv. 103. gr. getur tollstjóri krafist þess að skattaðili leggi fram yfirlýsingu banka eða fjármálastofnunar eða aðrar tryggingar sem tollstjóri telur fullnægjandi, ella sé skattaðila óheimilt að ráðstafa eignum sínum með sölu þeirra, veðsetningu eða öðrum löggerningum.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með hruni íslensku bankanna í október 2008 var fótunum kippt undan íslensku efnahagslífi og um leið urðu kaflaskipti á nánast öllum sviðum íslensks samfélags. Óhjákvæmilegt reyndist fyrir stjórnvöld að bregðast við því ástandi sem myndaðist með róttækum aðgerðum, m.a. neyðarlögum, sem engan veginn dugðu þó til að koma í veg fyrir það gífurlega tjón sem varð við hrunið og við blasir nú hjá einstaklingum, fyrirtækjum og opinberum aðilum. Þá hafa fregnir á undanförnum vikum og mánuðum af milljarða fjármagnsflutningum frá Íslandi inn á bankareikninga í þekktum skattaskjólum af hálfu forsvarsmanna fjármálafyrirtækja sem annarra vakið upp ótal spurningar um íslensk lög og rétt. Þær raddir verða því sífellt háværari sem segja að auka þurfi verulega við refsiheimildir stjórnvalda, m.a. til kyrrsetningar og/eða haldlagningar eigna þeirra aðila sem taldir eru bera ábyrgð á tjóninu og verða dæmdir sem slíkir.
    Stjórnvöld hafa þegar brugðist við þessum kröfum með ýmsum hætti með það að markmiði að rannsaka hvað úrskeiðis fór og hvort einhver brot hafi verið framin sem varði refsingu. Þannig hefur verið sett á fót rannsóknarnefnd Alþingis og embætti sérstaks saksóknara, auk þess sem Fjármálaeftirlitið hefur verið eflt. Þá hafa skattyfirvöld fengið auknar heimildir til upplýsingaöflunar, jafnt frá fjármálastofnunum og öðrum þeim sem skattaráðgjöf stunda.
    Hjá skattyfirvöldum er þegar í gangi umfangsmikið starf sem miðar að því að kanna hvort farið hafi verið á svig við skattalög í tengslum við hrun bankanna eða starfsemi þeirra og þá hvort tekjum hafi verið skotið undan og refsiverð brot framin. Fyrir liggur að mál af þessum toga eru oftar en ekki mjög flókin og taka því eðli máls samkvæmt oft langan tíma. Í ljósi þess hefur jafnframt verið settur á laggirnar sérstakur starfshópur skattyfirvalda undir stjórn skattrannsóknarstjóra ríkisins í því skyni að hraða rannsókn á hugsanlegum skattalagabrotum í tengslum við fall bankanna sem kostur er, hvort sem er hjá eigendum, stjórnendum eða starfsmönnum þeirra, eða félögum sem þeim tengjast.
    Ljóst er að með löngum málsmeðferðartíma skapast ákveðin hætta á að eignum sé komið undan enda er skattaðilum oftast ljóst þegar við upphaf meðferðar máls að til endurákvörðunar opinberra gjalda muni koma auk fésektar sé grunur uppi um refsiverð brot. Sú hætta er ekki síst talin til staðar nú við þær sérstöku aðstæður sem hér ríkja. Af þeim sökum er talið nauðsynlegt að veita skattyfirvöldum auknar heimildir til varnar því að þeir aðilar sem málið varðar geti komið sér undan greiðslum opinberra gjalda og mögulegra fésekta vegna skattalagabrota með því að færa eignir sínar í hendur annarra. Í frumvarpi þessu er að finna tillögur þess efnis, þ.e. um kyrrsetningu eigna og aðrar tryggingarráðstafanir vegna rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að heimilt verði að kyrrsetja eignir aðila sem eru til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Mál er sæta rannsókn vegna gruns um brot gegn skattalögum eru oft afar vandmeðfarin og taka auk þess eðli máls samkvæmt mun lengri tíma en venjulegar skattákvarðanir. Með löngum rannsóknartíma er hætt við að eignum sé komið undan enda er skattaðilum oftast ljóst þegar við upphaf rannsóknar að til endurákvörðunar opinberra gjalda muni koma og lögbundnum fésektum verði beitt. Er því mikilvægt að tryggt sé að þeir sem eru til rannsóknar geti ekki með skipulegum hætti komið eignum undan. Er ákvæðinu ætlað er að koma í veg fyrir það. Með ákvæðinu er greiðsla í ríkissjóð vegna yfirvofandi skattkröfu ríkisins, fésektarkröfu og annars útlagðs kostnaðar er ríkið kann að hafa af meðferð máls, svo sem verjendakostnað, mun betur tryggð. Gert er ráð fyrir að kyrrsetningu sé heimilt að beita gagnvart skattaðilanum sjálfum og öðrum þeim er bera ábyrgð á skattgreiðslum hans skv. 116. gr., sem og öðrum þeim er grunur um refsiverða háttsemi beinist að og kann þar af leiðandi að verða gert að greiða fésekt vegna refsiverðra brota.
    Hér er tekið mið af 88. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, þar sem lögreglu er fengin heimild til kyrrsetningar eigna. Skv. 7. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, fer skattrannsóknarstjóri ríkisins við rannsókn mála eftir lögum um meðferð sakamála, með takmörkunum þó. Er því nærtækt að slík heimild verði fengin vegna rannsóknar mála hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins og kyrrsetningu beitt strax á stigi rannsóknar hjá því embætti.
    Lagt er til að tollstjóri fari fram með kyrrsetningarkröfuna að undangenginni sérstakri tilkynningu skattrannsóknarstjóra ríkisins til tollstjóra. Lagt er til að reglur um kyrrsetningu fjármuna almennt gildi um kyrrsetningu samkvæmt greininni, en þar er einkum vísað til laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Þó er gert ráð fyrir að reglur um tryggingu fyrir kyrrsetningu, málshöfðun og lögboðin gjöld vegna ráðstafananna taki ekki til kyrrsetningar tollstjóra. Er það í samræmi við áðurgreint ákvæði 88. gr. laga um meðferð sakamála.
    Þá er lagt til að ráðstafanir samkvæmt greininni falli niður um leið og ljóst er að rannsókn skattrannsóknarstjóra muni ekki leiða til hækkunar á sköttum eða fésektar. Að sama skapi getur skattaðili fengið kyrrsetningarráðstafanir felldar brott með því að inna af hendi greiðslur sem kyrrsetningu er ætlað að tryggja. Er þar með sama hætti tekið mið af ákvæði 88. gr. laga um meðferð sakamála.

Um 2. gr.

    Í greininni er mælt fyrir um refsinæmi ráðstöfunar sem fer gegn þeim ákvæðum sem mælt er fyrir um í 3. gr. frumvarpsins og lagt er til að verði 6. mgr. 113. gr. laganna. Ákvæðinu er ætlað að tryggja skaðlausa heimtu opinberra gjalda vegna eftirlits- og rannsóknaraðgerða skattyfirvalda. Með því að gera ráðstöfun eigna óheimila og refsiverða er leitast við að koma í veg fyrir að það ástand skapist að allar eigur skattaðila komist á annarra hendur áður en meðferð máls lýkur.

Um 3. gr.

    Mál vegna eftirlits- og rannsóknaraðgerða skattyfirvalda eru oft umfangsmikil og málsmeðferðartími langur. Þá hafa skattaðilar ríkan rétt til andmæla á grundvelli stjórnsýsluréttar. Of mörg dæmi eru um að aðilar hafi notað slíkan rétt til að tefja málsmeðferð og skaða niðurstöðu máls þannig að hagsmunir hins opinbera séu fyrir borð bornir. Í greininni er lagt til að innheimtumaður ríkissjóðs geti krafið skattaðila um tryggingar fyrir greiðslu yfirvofandi skattkröfu vegna eftirlits- eða rannsóknaraðgerða skattyfirvalda. Ber þá skattaðila að leggja fram yfirlýsingu banka eða fjármálastofnunar eða aðrar tryggingar sem innheimtumaður ríkissjóðs telur fullnægjandi til tryggingar skaðlausum efndum. Verði skattaðili ekki við þeirri beiðni er honum óheimilt að ráðstafa eignum sínum með sölu þeirra, veðsetningu eða öðrum löggerningum að viðlagðri refsiábyrgð skv. 2. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003,
um tekjuskatt, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að bætt verði í lög um tekjuskatt ákvæði sem ætlað er að koma í veg fyrir að skattaðilar geti komið sér undan greiðslum opinberra gjalda með því að flytja eða færa eignir úr sinni vörslu í hendur annarra. Þannig verður skattaðila, eftir að skattrannsóknarstjóri tilkynnir um rannsókn, óheimilt að ráðstafa eignum sínum með sölu þeirra, veðsetningu eða öðrum löggerningum, hafi tollstjóri krafist tryggingar, nema fyrir liggi tryggingar sem innheimtumaður ríkissjóðs telur fullnægjandi, til tryggingar skaðlausum efndum væntanlegrar skattkröfu. Þetta á einnig við ef skattaðila hefur verið tilkynnt um eftirlitsaðgerðir ríkisskattstjóra eða skattstjóra.
    Tollstjóra, sem innheimtumanni ríkissjóðs, verður heimilt að krefjast kyrrsetningar hjá skattaðila eða öðrum þeim sem kunna að bera fésektarábyrgð til að tryggja væntanlegar skattkröfur ef hætta þykir á að eignum verði skotið undan eða þær glatist eða rýrni í verði. Sömu reglur gilda um kyrrsetningar samkvæmt þessu frumvarpi eins og um kyrrsetningar fjármuna almennt, með þeim undantekningum að tryggingu þarf ekki að setja, mál þarf ekki að höfða til staðfestingar og ekki verða greidd gjöld fyrir ráðstafanirnar. Kyrrsetningin fellur niður ef rannsóknin leiðir ekki til þess að skattar skattaðila verði hækkaðir eða honum eða öðrum sem refsiábyrgð kunna að bera verði gerð fésekt.
    Óvissa er um í hvaða mæli grípa þarf til þessara úrræða á næstunni. Skattyfirvöld kunna að þurfa að taka til rannsóknar ýmis mál þar sem á þau kynni að reyna í kjölfar efnahagshrunsins sl. haust. Ef um nokkurn fjölda mála af þessum toga yrði að ræða gæti þurft að fjölga starfsmönnum við innheimtuaðgerðir tollstjóra tímabundið um einn til tvo. Um er að ræða tiltölulega lítinn kostnaðarauka fyrir málaflokkinn sem gert er ráð fyrir að rúmist innan útgjaldaramma ráðuneytisins.