Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 169. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 334  —  169. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, og lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991, með síðari breytingum.

Flm.: Gunnar Bragi Sveinsson, Birkir Jón Jónsson, Einar K. Guðfinnsson,


Eygló Harðardóttir, Guðmundur Steingrímsson, Höskuldur Þórhallsson,
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Siv Friðleifsdóttir, Vigdís Hauksdóttir.


1. gr.
Breyting á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001.

    1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna orðast svo: Seðlabanki Íslands tekur við innlánum frá innlánsstofnunum en til þeirra teljast viðskiptabankar, sparisjóðir, útibú erlendra innlánsstofnana og aðrar stofnanir og félög sem heimilt er lögum samkvæmt að starfrækja innlánsdeildir eða taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar.

2. gr.
Breyting á lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991.

    Orðin „og hún telst hvorki innláns- né lánastofnun í skilningi laga um Seðlabanka Íslands“ í 4. mgr. 2. gr. a laganna falla brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að skýrð sé staða stofnana og félaga sem með lögum er heimilað að starfrækja sérstakar innlánsdeildir eða að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar. Lagt er til að orðalagi 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laga um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, verði breytt þannig að vafalaust sé að ákvæðið taki til þessara stofnana og félaga. Í 2. gr. a laga um samvinnufélög, nr. 22/1991, er slíkum félögum heimilt að starfrækja sérstakar innlánsdeildir sem taka mega við innlögnum frá félagsmönnum og viðskiptaaðilum. Lagt er til að felld verði úr lögum sú takmörkun 4. mgr. nefndrar lagagreinar að innlánsdeildin teljist ekki innlánsstofnun í skilningi laga um Seðlabanka Íslands.
    Innlánsdeildum er nauðsyn, eins og sparisjóðum og bönkum, að geta átt í innstæðuviðskiptum við Seðlabankann til að tryggja stöðu innstæðueigenda. Hér er því um jafnræðismál að ræða milli þeirra sem hafa heimild til að taka við fjármunum til ávöxtunar frá almenningi og eykur þar með öryggi viðskiptaaðila innlánsdeildar. Innlánsdeildir starfa samkvæmt lögum og lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins og greiða í sérstakan tryggingarsjóð.