Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 136. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 348  —  136. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Frumvarpinu var vísað til nefndarinnar að lokinni 2. umræðu. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Magnús Árna Skúlason og Eirík Svavarsson frá Indefence-hópnum, Guðmund Árnason og Indriða H. Þorláksson frá fjármálaráðuneyti, Martin S. Eyjólfsson og Einar Gunnarsson frá utanríkisráðuneyti, Áslaugu Árnadóttur, Jón Guðna Ómarsson, Sigrúnu Helgadóttur og Ásgerði Ragnarsdóttur frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta og lögfræðingana Þorstein Einarsson, Þórhall Þorvaldsson, Steinunni Guðbjartsdóttur, Ragnar Hall og Eirík Elís Þorvaldsson.

Styrking á fyrirvörum.
    Nefndin fjallaði um þá fyrirvara sem bætt var við frumvarpið við 2. umræðu og fékk meðal annarra fulltrúa frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta á sinn fund. Þeir töldu mikilvægt að ríkisábyrgðin tæki ekki gildi nema ljóst væri að staða sjóðsins yrði tryggð. Af þessu leiðir að komi til þess að Alþingi takmarki ríkisábyrgðina á grundvelli fyrirvaranna verður greiðsluskylda tryggingarsjóðs takmörkuð með sama hætti.
    Þá var óskað eftir að nefndin skýrði betur með hvaða hætti skyldi farið með hugsanlegar eftirstöðvar á greiðslum í lok samningstímans 2024.
    Breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar taka á þessum atriðum, sbr. eftirfarandi skýringar við þær.

Skýringar við breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar við 3. umræðu.
    Meiri hlutinn gerir nokkrar breytingartillögur við frumvarpið.
    Lagt er til að í 1. gr. verði áréttað að gildistími ríkisábyrgðarinnar sé til 5. júní 2024 þegar inna á af hendi lokagreiðslu lánanna samkvæmt ákvæðum samninganna. Einnig er vísað til þeirra fyrirvara sem kveðið er á um varðandi ríkisábyrgðina. Þar skipta líkast til mestu máli efnahagslegu viðmiðin í 3. gr. Samkvæmt fyrirliggjandi spám um endurheimtur úr búi Landsbanka Íslands hf. og útreikningum Seðlabanka Íslands munu lánin greiðast upp að fullu á lánstímanum en líklegt verður að teljast að greiðsluferill verði nokkuð annar en samkvæmt ákvæðum lánasamninganna eins og áður hefur verið gerð grein fyrir. Allt að einu er gert ráð fyrir að lokagreiðsla eigi sér stað 5. júní 2024 miðað við fyrirliggjandi áætlun um 75% úthlutun upp í forgangskröfur úr þrotabúi Landsbankans og fyrirliggjandi spár um þróun hagvaxtar. Í breytingartillögu við 3. gr. er tekið á því hvernig fer ef þessar forsendur bresta.
    Þá er lagt til að sérstaklega verði tekið fram í 1. gr. að skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar sé að lánveitendum verði kynntir fyrirvarar við ríkisábyrgðina samkvæmt lögunum og að þeir fallist á þá. Tilgangurinn er að tryggt verði að lánveitendur séu í raun bundnir af fyrirvörunum ef ágreiningur rís um túlkun samninganna. Enn fremur er lagt til að tekið verði fram að lánveitendur viðurkenni að skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta séu háðar sömu fyrirvörum og ríkisábyrgð samkvæmt lögunum. Þetta atriði er mikilvægt til að tryggja að tryggingarsjóðurinn sitji ekki einn eftir með skuldir samkvæmt lánasamningunum ef á fyrirvarana reynir. Ákvæðið á að gera stjórn tryggingarsjóðsins kleift að staðfesta lánasamningana fyrir sitt leyti.
    Lögð er til sú breyting á 3. gr. að tekið verði af skarið um að greiðsluskylda ríkissjóðs vegna lánasamninganna verði aldrei meiri en sem nemur hámarki ríkisábyrgðar á hverju ári samkvæmt viðmiðum 3. mgr. greinarinnar. Stefni í að lánsfjárhæðin ásamt vöxtum verði ekki að fullu greidd í lok lánstímans skuli aðilar lánasamninganna eiga með sér viðræður um meðferð málsins og áhrif þess á samningana og skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Samkvæmt fyrirliggjandi spám um endurheimtur úr búi Landsbanka Íslands hf. og útreikningum Seðlabanka Íslands munu lánin verða greidd upp á lánstímanum. Ef svo ólíklega færi að það gengi ekki eftir mundu aðilar eiga viðræður um hvernig taka bæri á þeirri stöðu. Mikilvægt er að slíkar viðræður fari fram eins fljótt og við verður komið eftir að tilefni skapast. Þannig aukast líkur á hagfelldu samkomulagi fyrir alla aðila málsins. Í texta breytingartillögunnar er vísað til þeirrar stöðu þegar líkur standa til að lán verði ekki að fullu greidd árið 2024. Ljóst er að einnig þarf að ræða við samningsaðila vegna hámarks á greiðslum einstakra ára þótt það sé ekki líklegt til að hafa áhrif á lokagreiðslu.
    Lagt er til að í 4. gr. verði áréttað að í viðræðum milli aðila í kjölfar þess að á fyrirvara reyni skv. 2. mgr. 4. gr. verði m.a. fjallað um hvernig farið skuli með eignir úr búi Landsbanka Íslands hf. Ekki þarf að taka fram að þær viðræður munu taka mið af gildandi lögum hér á landi um slit fjármálafyrirtækja.
    Nefndin ræddi einnig hvort tilefni væri til að styrkja enn frekar hina lagalegu fyrirvara, einkum þann er lýtur að því hvernig megi fá úr því álitaefni skorið hvort aðildarríki EES- samningsins beri ábyrgð gagnvart innstæðueigendum vegna lágmarkstryggingar. Í áliti meiri hlutans við 2. umræðu um málið var vikið að þessu sérstaklega og tekið fram að íslensk stjórnvöld mundu leita leiða í þessu sambandi. Meiri hlutinn telur að sá fyrirvari sem samþykktur var við 2. umræðu sé fullnægjandi og ekki sé tilefni til frekari breytinga á ákvæðinu en ítrekar þó réttmæti þess að íslensk stjórnvöld kanni hvort og þá hvernig megi fá úr þessari óvissu skorið á viðhlítandi hátt.

Hugmyndir um skuldajöfnun.
    Nefndin tók til umfjöllunar ábendingar eða hugmyndir um möguleikann á að nýta hugsanlegan rétt til skuldajöfnunar í Icesave-málinu.
    Fram hefur komið sú gagnrýni að með Icesave-samningunum væri íslenska ríkið að afsala sér mögulegum bótarétti sem til hefði stofnast þegar bresk yfirvöld nýttu heimildir í hryðjuverkalögum og kyrrsettu íslenskar eignir þar í landi. Sérstaklega hefur verið vísað til ákvæðis 9.4 í samningnum við breska ríkið.
    Bent var á að íslensk yfirvöld hefðu fengið mat sérfræðinga á réttarstöðu sinni í kjölfar hinna harkalegu aðgerða Breta þar sem dregið hefði verið í efa að íslenska ríkið gæti höfðað mál til viðurkenningar á bótarétti sínum. Íslenska ríkið hefði hins vegar áskilið sér rétt til að styðja við málshöfðanir íslenskra lögaðila, þ.e. Landsbanka Íslands hf. og Kaupþings hf., að gættum skilyrðum sem fram koma í 2. gr. laga nr. 172/2008, um heimild til fjárhagslegrar fyrirgreiðslu úr ríkissjóði í tengslum við málshöfðun fyrir erlendum dómstólum vegna íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana erlendra stjórnvalda á tímabilinu 1. október til 1. desember 2008. Það er álit meiri hlutans að skilanefnd og slitastjórn Landsbanka Íslands hf. séu þeir aðilar sem ættu að láta reyna á skaðabótaskyldu vegna hryðjuverkalaganna fremur en íslenska ríkið og hefur afgreiðsla Icesave-lánasamninganna engin áhrif á þann rétt slitastjórnar og skilanefndar.

Kynning á fyrirvörum.
    Á fundi í nefndinni var óskað upplýsinga um hvernig íslensk stjórnvöld hefðu staðið að því að kynna þá fyrirvara sem samþykktir voru fyrir breskum og hollenskum yfirvöldum. Fulltrúar fjármálaráðuneytis og utanríkisráðuneytis gerðu nefndinni grein fyrir samskiptum stjórnvalda við erlendu samningsaðilana. Nefndinni bárust einnig afrit af tölvupóstum fjármálaráðuneytis og Seðlabanka Íslands við samningsaðila í Bretlandi og Hollandi auk þess sem lögð var fram greinargerð á ensku um hina efnahagslegu fyrirvara í frumvarpinu.

Leiðrétting á töflu varðandi efnahagslega fyrirvara.
    Eftir 2. umræðu barst nefndinni leiðrétting frá Seðlabanka Íslands á töflu sem birt var í nefndaráliti meiri hlutans. Í eftirfarandi leiðréttri töflu eru áætlanir um stöðu Icesave-lánanna í lok áranna 2015–2024, vaxtagreiðslur, afborganir og heildargreiðslur á árunum 2016–2024. Tekið er tillit til þess að á árunum 2016 og 2024 eru tvær greiðslur af lánunum en á árunum 2017–2023 eru fjórar greiðslur. Miðað er við forsendur um hagvöxt og gengi í grunnspá Seðlabankans í maí síðastliðnum. Gerð er grein fyrir þessari spá í Peningamálum 2009/2.

Staða Icesave-lána 2015–2024, vextir, afborganir og greiðslur.


Eining: milljarðar 2015 2016 2017 2018 2019 2020 2021 2022 2023 2024
Ef miðað er við samninginn og grunnforsendur:
Staða lána 350,0 333,5 291,9 249,6 206,5 161,3 113,7 66,0 21,0 0,0
Afborgun 22,0 44,1 44,5 45,0 45,4 45,1 44,0 42,1 20,3
Greiðsla 31,6 61,5 59,7 57,8 55,8 52,9 49,1 44,7 20,7
Vextir 9,6 17,4 15,1 12,8 10,4 7,8 5,2 2,6 0,4
Ef miðað er við reikniregluna (4% og 2%) og grunnforsendur:
Staða lána 350,0 353,1 342,6 323,4 294,4 251,4 190,4 110,1 21,0 0,0
Hámarksgreiðsla 12,4 32,9 40,7 49,4 58,6 69,5 82,8 98,3 56,3
Greiðsla 12,4 32,9 40,7 49,4 58,6 69,5 82,8 73,0 20,7
Vextir 9,7 19,1 18,4 17,1 15,2 12,5 8,7 3,9 0,4

    Í þeim útreikningum sem sýndir eru í töflunni hefur verið miðað við að þegar hámarksgreiðslan er bindandi (þ.e. öll árin nema 2023 og 2024) hefur greiðslunum verið dreift á gjalddagana 5. mars, 5. júní, 5. september og 5. desember í sömu hlutföllum og áætlaðar greiðslur voru samkvæmt fyrirliggjandi samkomulagi.
    Engin bein fyrirmæli eru um það hvernig hámarksgreiðslan sem fundin er út fyrir árið í heild eigi að dreifast á gjalddagana. Ein aðferð gæti verið að greiða í samræmi við upphaflegu lánasamningana 5. mars, 5. júní o.s.frv. uns hámarkinu væri náð.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 25. ágúst 2009.



Guðbjartur Hannesson,


form., frsm.


Björn Valur Gíslason.


Ásmundur Einar Daðason.



Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Árni Þór Sigurðsson.


Oddný G. Harðardóttir.



Þór Saari,


með fyrirvara.