Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 136. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 351  —  136. mál.
Framhaldsnefndarálitum frv. til l. um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.1.     Formáli.
    Afstaða 2. minni hluta helgast í þessu máli af eftirfarandi röksemdum. Í fyrsta lagi leikur mikill vafi á hvort íslenska ríkinu beri yfir höfuð að greiða Icesave-skuldbindingarnar. Í öðru lagi ríkir mikil óvissa um hversu háar fjárhæðir Íslendingum beri að borga. Í þriðja lagi hefur þeirri spurningu á engan hátt verið svarað hvort þeir fyrirvarar sem til stendur að bæta við lagafrumvarpið haldi þegar á reynir og hvort þeir gæti hagsmuna íslensks almennings nægilega vel. Leggur 2. minni hluti áherslu á að til umfjöllunar eru samningar sem eru óaðgengilegir fyrir Íslands hönd. 2. minni hluti taldi skynsamlegast að allt kapp væri lagt á að samningarnir yrðu lagðir til hliðar og að samið yrði upp á nýtt við Hollendinga og Breta. Því miður reyndist ekki meiri hluti fyrir þeirri ákvörðun á Alþingi og var frávísunartillaga 2. minni hluta felld í atkvæðagreiðslu um málið eftir 2. umræðu. Eftir að búið var að fella þann kost að vísa málinu frá vildi 2. minni hluti standa að því að a.m.k. yrðu gerðir fyrirvarar við ríkisábyrgðina sem mundu gæta hagsmuna þjóðarinnar til lengri tíma litið. Sú afstaða er byggð á því sjónarmiði að fyrirvararnir séu skýrir og að hafið sé yfir vafa hvort þeir muni halda. Í því ljósi lagði 2. minni hluti fram breytingartillögur sínar og um tíma var meiri hluti á Alþingi fyrir því að þeir yrðu samþykktir. Stóðu einungis þingmenn Samfylkingarinnar í veginum og hluti Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Einboðið er að þeir fyrirvarar hefðu gætt hagsmuna Íslands mun betur en raunin varð. Eftir að frávísunartillagan hafði verið felld ákvað 2. minni hluti að vísa breytingartillögum sínum til 3. umræðu með þá von í brjósti að þær fengju sanngjarna meðferð í fjárlaganefnd Alþingis. Því miður varð sú ekki raunin. Þrátt fyrir tilburði í rétta átt telur 2. minni hluti enn ekki nægilega langt gengið í breytingartillögum meiri hlutans og telur að breytingartillögur þær sem minni hlutinn lagði fram hafi ekki fengið fullnægjandi umfjöllun í nefndinni.
    Frá því að málið var lagt fram af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur 2. minni hluti háð harða barátta til að upplýsa hversu ósanngjarnir samningarnir eru fyrir Íslands hönd. Má segja að vegna þessarar baráttu séu nú gerðir fyrirvarar við ríkisábyrgðina á Icesave-samningunum. 2. minni hluti lýsir ánægju með þann árangur og bendir á að upphaflega stóð til af hálfu meiri hlutans að samþykkja samningana óbreytta, jafnvel óséða. Skal tekið undir þau sjónarmið að löggjafarvaldið hafi borið sigur úr býtum gagnvart framkvæmdarvaldinu að þessu leyti. Engu að síður verður að benda á þá staðreynd að Alþingi hefur sett niður í meðförum málsins. Gögnum hefur verið leynt, umræðan hefur verið afvegaleidd og beiðnum um aðkomu sérfræðinga sem og framlagningu gagna hefur verið hafnað. Má segja að skýr stefna annars ríkisstjórnarflokksins, og hluta hins, að samþykkja samningana óbreytta hafi ráðið miklu þar um. Að mati 2. minni hluta er þetta til marks um að ekkert hafi unnist í tíð núverandi ríkisstjórnar við að auka virðingu þingsins. Þvert á móti liggi það fyrir eftir aðra umræðu málsins að hún hefur dvínað töluvert.

2.     Ber Íslendingum að borga skuldir innstæðutryggingarsjóðsins?
    Að mati 2. minni hluta hefur verið troðið á þeim sjálfsagða fullveldisrétti sjálfstæðrar þjóðar að fá skorið úr ágreiningsmálum sínum fyrir óháðum dómstóli eða þar til bærum úrlausnaraðila. 2. minni hluti taldi að í fyrirvörum með ríkisábyrgðinni yrði að koma skýrt fram að Ísland nyti áfram þeirra réttinda að fá leyst úr deilumálum sínum. Þess vegna lagði 2. minni hluti fram breytingartillögu við breytingartillögu meiri hlutans þar sem áréttað var að fengist síðar úr því skorið fyrir þar til bærum úrlausnaraðila að ríkisábyrgð gilti ekki, bæri Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta ekki að greiða hærri fjárhæð en til var í sjóðnum við upphaf bankahrunsins. Sami fyrirvari ætti við ef betri réttur skapaðist á sviði Evrópulöggjafar, hún skýrðist eða ef lagaleg skylda til að ábyrgjast innstæður minnkaði eða ef á annan hátt lægi fyrir að ríkisábyrgð væri ekki til staðar. Með þessari breytingartillögu 2. minni hluta eru fyrirvarar þeir sem meiri hlutinn setti fram í breytingartillögum sínum ekki aðeins gerðir skýrari heldur auka þeir líkur þess að Ísland verði ekki eitt látið bera ábyrgð á þeim göllum sem eru á evrópska innstæðutryggingarkerfinu. 2. minni hluti harmar að meiri hluti fjárlaganefndar hafi ekki séð sérstaka ástæðu til að fjalla um málið á milli 2. og 3. umræðu. Umrædd breytingartillaga er eingöngu til þess fallin að styrkja réttarstöðu Íslands og um leið gæta betur að hag almennings.
    Einnig telur 2. minni hluti að ekki aðeins hafi verið tekinn frá þjóðinni rétturinn til að leiða til lykta ágreiningsefnið, heldur hafi þjóðinni einnig verið gert með Icesave-samningunum að gefa frá sér þau friðhelgisréttindi sem hver þjóð meðal þjóða á rétt á. Það er með ólíkindum að auðlindir þjóðarinnar sem og gjaldeyrisvarasjóður landsins hafi verið sett að veði fyrir Icesave-lánum Breta og Hollendinga. 2. minni hluti bendir einnig á að sú mikla barátta sem háð var af hans hálfu skilaði m.a. þeim árangri að í breytingartillögum meiri hlutans er nú girt fyrir að Íslendingar muni sjá á eftir auðlindum sínum og gjaldeyrisvaraforða í hendur Breta og Hollendinga. Þó svo að orða hefði mátt tillöguna betur sér 2. minni hluti ekki ástæðu til að koma með sérstaka breytingartillögu þess efnis.

3.     Óvissa um hversu háar fjárhæðir eigi að borga.
3.1 Útgreiðslur krafna úr þrotbúi Landsbanka Íslands hf.
    Annar minni hluti benti á að við fyrirhugaða útgreiðslu krafna úr þrotabúi Landsbanka Íslands hf. hefðu verið gerð þau mistök að Bretar og Hollendingar stæðu jafnfætis íslenska innstæðutryggingarsjóðnum þegar til greiðslu kæmi. Bentu bæði fremstu sérfræðingar landsins á þessu sviði sem og erlendir sérfræðingar á að það fyrirkomulag stæðist ekki.
    Annar minni hluti lagði í fyrsta lagi fram breytingartillögu þess efnis að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta léti reyna á það fyrir slita- og skiptastjórn þrotabús Landsbanka Íslands hf. hvort kröfur hans gengju við úthlutun framar öðrum hluta krafna vegna sömu innstæðu og hagaði kröfulýsingu sinni þannig að reynt gæti á þennan rétt með málskoti til héraðsdóms eða Hæstaréttar. Telur 2. minni hluti nauðsynlegt að þetta komi skýrt fram í lagafrumvarpinu sjálfu þar sem rétturinn til að höfða dómsmál stofnast ekki að þessari aðgerð undangenginni.
    Í öðru lagi telur 2. minni hluti afar ósanngjarnt að ef dómstólar úrskurða íslenska innstæðutryggingarsjóðnum í hag fái Íslendingar ekki notið þess beint heldur skuli einungis viðræður hefjast á ný við Breta og Hollendinga eins og meiri hlutinn leggur til. 2. minni hluti tekur fram að Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmaður, sem hvað harðast hefur gengið fram um að þetta ákvæði verði sett, benti sjálfur á, á fundi fjárlaganefndar milli 2. og 3. umræðu, að eðlilegra væri að hafa fyrirvarann með þeim hætti sem 2. minni hluti legði til. Er með eindæmum af hverju þessar tillögur Ragnars hafa ekki náð fram að ganga þar sem verið er að setja fyrirvara eftir hans ábendingum.
    Annar minni hluti gerir ekki athugasemd við þá orðalagsbreytingu sem meiri hlutinn leggur til við 3. umræðu en bendir á að hún staðfestir ábendingar 2. minni hluta um óskýrleika þeirra breytingartillagna sem meiri hlutinn lagði til við 2. umræðu.

3.2 Sjónarmið um skuldajöfnun.
    Í breytingartillögum sínum leggur 2. minni hluti til að „ef í ljós kemur að skaði hafi hlotist af aðgerðum breskra og hollenskra stjórnvalda fyrir þrotabú Landsbanka Íslands hf.“ fái Íslendingar notið þess þegar til útgreiðslu úr þrotabúi Landsbankans kemur. Telur 2. minni hluti til að mynda að skýr skaðabótaréttur hafi stofnast þegar Bretar ákváðu að beita svonefndum hryðjuverkalögum til að frysta eigur bankans. Að sama skapi átelur 2. minni hluti meiri hlutann fyrir að kanna ekki til hlítar hvort ábendingar þeirra Þorsteins Einarssonar hrl. og Þórhalls Þorvaldssonar hdl. hafi átt við rök að styðjast. Kom fram skýr ósk um það frá 2. minni hluta að það yrði gert þar sem um gríðarlega mikla hagsmuni er að ræða fyrir íslenskan almenning.
    Annar minni hluti bendir á að Landsbanki Íslands hf. hefur hugsanlega orðið fyrir tjóni sem getur skipt tugum ef ekki hundruðum milljarða króna vegna beitingar breska ríkisins á svonefndum hryðjuverkalögum. Að sama skapi hafi því verið haldið fram að það sé um seinan að láta reyna á þau lög fyrir dómstólum. Þorsteinn og Þórhallur hafa bent á að hægt sé að fá tjón metið með réttum hætti bæði samkvæmt íslenskum og enskum rétti. Þegar það lægi fyrir mætti lýsa einhliða yfir skuldajöfnuði í samræmi við fyrrgreint ákvæði 9. gr. laga nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta. Ekki þyrfti málsókn til. Yrði breska ríkið ósátt við slíkt mat eða skuldajöfnun þyrfti það að hafa frumkvæði að því að hnekkja þessum atriðum.
    Einnig bentu þeir á að teldu menn vafa leika á framangreindri heimild til að beita áðurnefndri 9. gr. mætti kanna hvort ekki væri unnt að treysta aðild tryggingarsjóðsins að skuldajöfnuði með því að framselja honum kröfu Landsbankans. Óháð þessu kynni skilanefnd Landsbankans að hafa rétt til skuldajöfnuðar samkvæmt almennum reglum, gerðu Bretar kröfu í þrotabúið. Skuldajöfnuður væri í öllum aðalatriðum eins í vestrænum rétti. Þá bæri að hafa í huga að hvorki Landsbankinn né íslenska ríkið hefðu fallið frá rétti til málshöfðunar á hendur breska ríkinu og því sjálfsagt að hafa fyrirvara um það atriði í samningnum, þrátt fyrir að Landsbankinn sé ekki aðili að honum. Allt framangreint væri hugsað út frá þeirri forsendu að breska ríkið hafi tekið yfir kröfur innstæðueigenda þar í landi. Að mati 2. minni hluta er nauðsynlegt að vekja athygli á þessum sjónarmiðum og að þeim verði fylgt eftir og þau könnuð nánar. Röksemdafærsla þessi kom fram í blaðagrein áðurnefndra lögmanna og í máli þeirra á fundi nefndarinnar.
    Annar minni hluti er sammála gestum nefndarinnar um að kanna þurfi þessi mál og ýmis atriði því tengd ofan í kjölinn áður en Alþingi afgreiðir ríkisábyrgðina. Þá hafa gestirnir vakið athygli á því að skilanefnd Landsbankans verði að lýsa yfir skuldajöfnuði geri Bretar kröfur í þrotabúið og skilyrði skuldajöfnuðar reynist vera fyrir hendi. 2. minni hluti telur að hér sé á ferðinni svo stórt mál sem geti varðað íslensku þjóðina það verulegum fjárhagslegum hagsmunum að ekki sé réttlætanlegt að ljúka afgreiðslu fjárlaganefndar á málinu án þess að kanna öll sjónarmið eins og með þarf. 2. minni hluti vekur athygli á í því sambandi að mun meiri líkur eru á að eignir þrotabús Landsbanka Íslands hf. dugi fyrir Icesave-skuldinni reynist ofangreind sjónarmið standast skoðun og muni þá ekki reyna í jafnríkum mæli á þá efnahagslegu fyrirvara sem nefndin hefur varið mörgum vikum í að semja. Gætu jafnvel staðið vonir til að ekki þyrfti að reyna á ríkisábyrgðina að lokinni skuldajöfnun gengi endurheimtuáætlun meiri hlutans eftir.

4.     Veikir og óljósir fyrirvarar.
4.1. Óvissa um hvenær ríkisábyrgð fellur niður.
    Eins og skýrt hefur komið fram er það mat 2. minni hluta að tillögur meiri hlutans gangi ekki nógu langt og má segja að sannast hafi að óttinn við að fyrirvararnir væru torskildir og óskýrir hafi reynst á rökum reistur. Er það líka eðlilegt í ljósi þess að það kom skýrt fram við 2. umræðu í þinginu að þingmenn meiri hlutans túlkuðu fyrirvarana hver með sínum hætti. Má segja að himinn og haf hafi verið á milli túlkana annars vegar þeirra sem sögðu fyrirvarana marklausa og ekki breyta samningnum á nokkurn hátt og þeirra sem sögðu að um sterka fyrirvara væri að ræða sem mætti í raun líta á sem gagntilboð til Hollendinga og Breta. Að mati 2. minni hluta má í raun segja að það eina sem er skýrt varðandi framlagða fyrirvara meiri hlutans er að þeir sköpuðu enn meiri óvissu í málinu en fyrir var.
    Í því ljósi bendir 2. minni hluti á að í breytingartillögunum sem hann lagði fram var kveðið skýrt á um að í lok samningstímans félli ríkisábyrgðin úr gildi. Undir þá tillögu hefur meiri hlutinn á vissan hátt tekið með því að setja inn í breytingartillögur sínar að ríkisábyrgðin falli úr gildi 5. júní 2024. Það var þó gert með þeim fyrirvörum sem koma fram í frumvarpinu sjálfu. Telur 2. minni hluti að mikil blekking felist í því að gefa í skyn að ríkisábyrgðin falli niður 5. júní 2024 þar sem skýrt kemur fram í breytingartillögu meiri hlutans að þegar ljóst er „að lánsfjárhæðin ásamt vöxtum verði ekki að fullu greidd í lok lánstímans vegna hinna efnahagslegu viðmiða og skulu aðilar lánasamninganna þá tímanlega eiga með sér viðræður um meðferð málsins og áhrif þess á samningana og skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta“. Má af þessu orðalagi draga þá skýru ályktun að ríkisábyrgðin falli í raun ekki niður heldur verði að semja um hana að nýju við Hollendinga og Breta. Sé hins vegar raunverulegur vilji meiri hlutans að ríkisábyrgðin falli niður eins og 2. minni hluti hefur þegar lagt til er áréttað í breytingartillögum 2. minni hluta að engir fyrirvarar séu á að hún falli niður. Er hér um gríðarlega mikilvægt hagmunamál að ræða fyrir íslenskan almenning þar sem ljóst er að stór hluti af aukningu á hagvexti þjóðarbúsins á árunum 2008–2024 fer í að greiða niður Icesave-skuldbindingarnar. Má gefa sér að almenningur muni bera þær byrðar á tímabilinu en 2. minni hluta þykir ótækt með öllu að standi fjárhæðir enn út af borðinu 5. júní 2024 skuli komandi kynslóðir áfram þurfa að bera á herðum sér þær drápsklyfjar skulda sem meiri hlutinn er nú að leggja á þær.

4.2 Óvissa um gildi fyrirvara.
    Við 2. umræðu um málið vöknuðu þær spurningar hvort þeir fyrirvarar sem settir yrðu við ríkisábyrgðina mundu halda þegar á reyndi. Bent var á að í grein 13.1 í breska samningnum og grein 12.1 í hollenska samningnum kæmi fram að aðeins sé heimilt að gera breytingar á samningunum, bæta við þá eða falla frá þeim með skriflegu samkomulagi milli samningsaðila. Þá segði í grein 6.5 í breska samningnum: „Aðgerðir, aðgerðarleysi, málefni eða atriði sem myndu, ef ekki væri fyrir þessa málsgrein (6.5 mgr.), draga úr skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt þessari grein (6. gr.), leysa það undan þeim eða hafa áhrif á þær, hafa ekki áhrif á skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt þessari grein (6. gr.), þ.m.t. (án takmarkana og hvort sem íslenska ríkið eða öðrum samningsaðila er um það kunnugt eða ekki).“ Eru svo talin upp í nokkrum töluliðum þau atriði sem falla undir greinina.
    Þingmenn lögðu mismunandi skilning í hvort um nýtt tilboð væri að ræða með setningu fyrirvarana eða hvort þeir rúmuðust innan skilmálanna. Er því um grundvallaratriði að ræða þar sem samkvæmt breskri réttarvenju er litið svo á að það eitt verður hluti af samningi sem í honum er. Það er skoðun 2. minni hluta að þegar ríkisábyrgð er komin á samningana á annað borð verði að kanna til hlítar hvort um þá gildi ensk lög og hvort enskir dómstólar úrskurði í ágreiningsmálum eins og skýrt er kveðið á um í samningunum. Var í því ljósi bent á að töluverður munur er á íslenska réttarkerfinu og því breska. Bentu menn í því samhengi einnig á að í grein 6.5 í breska samningnum, sem fjallað var um hér að framan, er skýrt kveðið á um að ríkisábyrgðin eigi að vera óafturkallanleg og skilyrðislaus gagnvart lánveitanda.
    Að mati 2. minni hluta fer ekki á milli mála að aðilar samningsins gera á engan hátt ráð fyrir að sett séu skilyrði fyrir ríkisábyrgðinni. Taldi 2. minni hluti mikilvægt í ljósi þess að hér kynni að koma upp ágreiningur um lagaskil og lögsögu að fenginn yrði sérfræðingur með þekkingu á breskum rétti (e. common law) til að varpa ljósi á þá einkennilegu stöðu sem kynni að koma upp. Því var hafnað af hálfu meiri hlutans sem ber enn á ný vott um þau slælegu vinnubrögð sem hafa verið gegnumgangandi í ferli málsins.

4.3 Óvissa um greiðslur úr þrotabúi Landsbankans.
    Annar minni hluti bendir á að veruleg óvissa ríkir um hvenær fyrstu greiðslur berast frá þrotabúi Landsbanka Íslands hf. Ljóst er að það á eftir að útkljá ýmis dómsmál sem tengjast búinu og umfang þeirra liggur ekki fyrir. Kom það fram í máli skilanefndarmanna, sem komu fyrir nefndina á milli 1. og 2. umræðu, að ekki liggur fyrir hve langan tíma þau taka. Í útreikningum Seðlabanka var gert ráð fyrir að þær skiluðu sér strax á þessu ári en þar sem ríflega hálft árið er liðið má gera ráð fyrir að minna verði greitt niður en áætlanir gerðu ráð fyrir. Verði sú raunin mun vaxtakostnaður hækka höfuðstól lánanna og auka kostnað við uppgreiðslur. Eftir því sem greiðslur dragast mun greiðslubyrði á lokagjalddögum hækka og líkur aukast á að ekki takist að greiða lánið upp árið 2024. Er þetta til marks um þá miklu óvissu sem enn ríkir í málinu og hefur ekki verið eytt með þeim fyrirvörum sem settir hafa verið.

4.4 Frekari ósk um sérfræðiráðgjöf hafnað.
    Annar minni hluti harmar að ekki skuli hafa verið reynt að koma til móts við þær kröfur að fyrirvararnir yrðu skýrir og gættu þar með hagsmuna íslensks almennings. Einnig að ekki skyldi hafa verið tekið undir óskir um að fá sérfræðinga á fund nefndarinnar til að fjalla um breytingartillögur 2. minni hluta. Skal það sérstaklega gagnrýnt að beiðni um að Stefán Már Stefánsson lagaprófessor yrði fenginn á fund nefndarinnar skyldi hafnað. Það er með ólíkindum að einn hæfasti fræðimaður landsins á sviði lögfræði skyldi hunsaður eftir allt hans óeigingjarna framlag til málsins í heild sinni. Bera allir flokkar sem standa að ákvörðun um að taka málið úr nefnd til 3. umræðu ábyrgð á að ekki var leitað fullnægjandi sérfræðiráðgjafar hvað þennan þátt málsins varðar.

5. Nýjar breytingartillögur meiri hlutans.
    Nefndinni barst breytingartillaga frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta sem meiri hluti nefndarinnar leggur fram við 3. umræðu. Fram kom að það sem mestu skiptir til að tryggja stöðu tryggingarsjóðsins væri að þeir fyrirvarar sem settir eru við ríkisábyrgðina með lögum nái einnig til skuldbindinga sjóðsins samkvæmt samningunum. Til að tryggja að greiðsluskylda sjóðsins sæti sömu skilyrðum og ábyrgð ríkisins er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 1. gr. frumvarpsins þess efnis að það sé skilyrði fyrir því að ríkisábyrgð sé veitt samkvæmt lögunum að lánveitendur hafi samþykkt að skuldbindingar tryggingarsjóðsins séu háðar sömu fyrirvörum og ríkisábyrgðin. Af þessu leiðir að í þeim tilvikum þar sem Alþingi getur takmarkað ríkisábyrgðina á grundvelli fyrirvaranna yrði greiðsluskylda tryggingarsjóðsins takmörkuð með sama hætti. 2. minni hluti telur eðlilegt að slíkt ákvæði sé sett inn. Jafnframt er bent á að þótt eðlilegt sé að setja slíkt ákvæði í lagafrumvarpið hafi fyrirvararnir ekki verið lesnir gaumgæfilega yfir af íslenskum og erlendum sérfræðingum. Gætu því enn leynst fjölmörg önnur ákvæði sem þyrfti að breyta og skýra. Telur 2. minni hlutinn þetta til marks um að enn séu fjölmörg atriði óljós og ókönnuð.
    Meiri hlutinn hefur lagt til að nýtt ákvæði komi inn í frumvarpið þar sem sett er það skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir fyrirvarar ríkisábyrgðarinnar samkvæmt lögunum og að þau fallist á þá. Telur 2. minni hluti að ákvæðið sé eðlilegt í ljósi þeirrar miklu óvissu sem fyrirvararnir skapa en óneitanlega vaknar sú spurning hvort þá hefði ekki verið hreinlegra að semja upp á nýtt. 2. minni hluti bendir á að fyrirvararnir nægja ekki til að leiðrétta stöðu Íslands samkvæmt samningunum.

6. Lokaorð.
    Í ljósi þess sem að framan greinir hefur óvissu í málinu síður en svo verið eytt. Þvert á móti hefur hún aukist í mörgum mikilvægustu þáttum málsins. 2. minni hluti gagnrýnir hve mikla áherslu meiri hlutinn hefur lagt á að afgreiða málið út úr nefndinni, þó svo að mikilvægum spurningum sé enn ósvarað og að nefndin hafi ekki gætt þess að fullrannsaka atriði sem varðar brýna þjóðarhagsmuni. 2. minni hluti gagnrýnir einnig að ekki hafi verið komið á fót faglegu rannsóknarteymi sérfræðinga sem falið hafi verið að kanna alla þætti málsins á hverju sérsviði fyrir sig. Með því hefði mátt koma ýmsum þeim ábendingum sem nefndinni hafa borist fyrr í umræðuna. Að mati 2. minni hluta er óviðunandi að það sé háð tilviljun hvort einstaklingar úti í bæ hafi tíma til að skoða einstaka þætti þessa flókna máls í sjálfboðavinnu og skrifa um það viðamiklar greinar til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Má sem dæmi taka, að öllum öðrum ólöstuðum, þá miklu vinnu sem sérfræðingar á vegum Indefence-hópsins hafa lagt fram og hve mörgum álitaefnum sú vinna hefur skilað á borð nefndarinnar.
    Að mati 2. minni hluta er óviðeigandi að tefla fram þeim rökum að Íslendingum beri siðferðileg skylda til að borga Icesave-skuldbindingarnar án þess að látið verði reyna á lagalega skyldu þess því að í reynd eru það afkomendur okkar sem að verulegu leyti munu bera þessa siðferðilegu skyldu í formi verri lífskjara. Getur 2. minni hluti á engan hátt fallist á það að komandi kynslóðum sé gert að bera ábyrgð á mistökum einkafyrirtækis, íslenskra ráðamanna og galla í regluverki Evrópusambandsins. Í því ljósi leggur 2. minni hluti áherslu á að umræðan um Icesave falli ekki niður heldur verði ríkisstjórninni, stofnunum og skilanefndum og þeim aðilum sem fara með þessa miklu hagsmuni veitt strangt aðhald þannig að tryggt verði að hagsmunir þjóðarinnar verði aldrei fyrir borð bornir.
    Þegar litið er á málið í heild sinni er ljóst að hagsmunum Íslendinga hefði verið betur borgið ef staðið hefði verið á þeim rétti sem hún nýtur sem fullvalda þjóð. Þá er ljóst að skynsamlegast hefði verið að leggja samningana til hliðar og freista þess að ná fram sanngjörnum samningum við Breta og Hollendinga þar sem réttarstaða Íslands yrði ekki fyrir borð borin. Að þeirri tillögu felldri og verði ekki tekið tillit til breytingartillagna 2. minni hluta leggur 2. minni hluti því til að frumvarpið verði fellt þar sem þá liggur fyrir að hagsmunum þjóðarinnar er ekki nægilega vel borgið með samþykkt þessa frumvarps.

Alþingi, 27. ágúst 2009.

Höskuldur Þórhallsson.
Fylgiskjal I.

Þorsteinn Einarsson,
Þórhallur H. Þorvaldsson:


Nokkur atriði sem kanna verður til þrautar.

(Morgunblaðið, 24. ágúst 2009.)


    Margt hefur verið ritað og rætt um hverjum beri siðferðileg og lagaleg skylda að greiða það tjón sem þeir aðilar urðu fyrir, er lögðu peninga á svokallaða IceSave-reikninga Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi, í von um skjótari og meiri gróða hjá þeim einkabanka en hjá öðrum bankastofnunum þar í landi. Alþingi telur sig nú þess umkomið að leggja gríðarlegar byrðar á ókomnar kynslóðir Íslendinga, án þess að láta svo lítið að fullnægja þeim augljósa lagalega og siðferðilega rétti landsmanna að fá úr málinu skorið fyrir hlutlausum dómstóli, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.
    Enginn getur dregið í efa að íslenskum stjórnvöldum ber að takmarka tjón sitt, en í umræðunni er oftast talað um að breska ríkið hafi ábyrgst innlán í IceSave þar í landi. En hafa menn athugað ákvæði 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta? Þar segir um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta: „Sjóðnum er heimilt að nýta sér kröfur viðkomandi fjármálafyrirtækis á hendur viðskiptamanni til skuldajafnaðar gegn kröfu viðskiptamanns á greiðslu andvirðis innstæðu.“ Hafi nú breska ríkið yfirtekið kröfur innistæðueigenda í Bretlandi vegna IceSave, má ætla að það hafi þannig fengið stöðu „viðskiptamanns“, sem hefur þá þýðingu að ákvæðinu verði, annaðhvort beint eða með lögjöfnun, beitt um það. Jafnframt er óumdeilt, að fyrsti skuldari innstæðna er Landsbanki Íslands hf. Geti hann ekki greitt kröfurnar kemur til kasta tryggingarsjóðs, svo langt sem ábyrgð hans nær að lögum.
    Sagt er að Landsbanki Íslands hf. telji sig hafa orðið fyrir tjóni sem skipti hundruðum milljarða króna vegna beitingar breska ríkisins á svonefndum hryðjuverkalögum. Menn hafa fullyrt að of seint sé að láta reyna á þau lög fyrir dómstólum. Það gleymist þó, að unnt er, bæði að breskum rétti og íslenskum, að fá það tjón metið með réttum hætti. Síðan mætti lýsa einhliða yfir skuldajöfnuði í samræmi við fyrrgreint ákvæði 9. gr. Hér þarf enga málsókn til. Verði breska ríkið ósátt við slíkt mat eða skuldajöfnuðinn, þarf það að hafa frumkvæði að því að hnekkja þessum atriðum. Þá myndu hryðjuverkalög Breta óhjákvæmilega koma til athugunar í dómsmáli, að frumkvæði þeirra sjálfra.
    Telji menn hins vegar vafa leika á framangreindri heimild til að beita 9. gr. laganna mætti kanna hvort ekki væri unnt að treysta aðild tryggingarsjóðsins að skuldajöfnuði með því að framselja honum kröfu Landsbankans, eftir atvikum með samkomulagi bankans og sjóðsins um að síðar komi til innbyrðis uppgjörs þeirra í millum. Óháð öllu þessu kann skilanefnd Landsbankans að hafa rétt til skuldajafnaðar samkvæmt almennum reglum, geri Bretar kröfu í þrotabúið, sbr. hér síðar. Skuldajöfnuður er í öllum aðalatriðum eins í vestrænum rétti. Spurningin er, hvort um sé að ræða kröfur sem hæfar eru til að mætast. Auk alls þessa verður að hafa í huga að hvorki Landsbankinn né íslenska ríkið hefur fallið frá rétti til málshöfðunar á hendur breska ríkinu, og er sjálfsagt að hafa fyrirvara um það atriði í samningnum, þrátt fyrir að Landsbankinn sé ekki aðili að honum. Allt framanritað var hugsað út frá þeirri forsendu að breska ríkið hefði tekið yfir kröfur innistæðueigenda þar í landi.
    Þegar skoðaðir eru hins vegar samningar Íslendinga, um ábyrgð á þessum kröfum, sést að þeir eru ólíkir eftir því hvort um er að ræða IceSave í Hollandi eða í Bretlandi. Annars vegar er talað um að breski innlánstryggingasjóðurinn hafi leyst kröfur breskra innistæðueigenda til sín, en hins vegar hafi hollenska ríkið, það er seðlabankinn þar í landi, fengið kröfur hollenskra innistæðueigenda framseldar. Skyldi ástæðuna vera að finna í framangreindum hugleiðingum? Nærtækara er þó að ætla, að ástæðan sé sú, að hollenski seðlabankinn sjái um tryggingarkerfið þar í landi, en í Bretlandi sé það í höndum sérstaks innistæðutryggingasjóðs, sem kann að vera sjálfstæð lögpersóna.
    Þá verður að spyrja, hvort slík yfirtaka á innistæðum breskra innistæðueigenda samræmist hlutverki innistæðusjóðsins breska, samkvæmt lögum þar í landi sem hljóta að vera reist á margumræddri tilskipun Evrópusambandsins. Verður að ætla, að innistæðutryggingasjóðurinn breski sé grundvallaður á fjárframlögum bankastofnana, en ekki frá breska ríkinu. Þetta þarf að kanna ofan í kjölinn áður en Alþingi afgreiðir málið. Þá er ljóst að innistæðukröfurnar (þ.e. ekki einungis þær kröfur sem íslenska ríkið ætlar að ábyrgjast heldur allar innistæðurnar sem Bretar ábyrgðust nánast að fullu og Hollendingar að stærstum hluta) eru langstærsti hluti forgangskrafna í bú Landsbankans. Hins vegar hefur verið deilt um hvort endurkrafa íslenska ríkisins njóti forgangs fram yfir kröfur breska ríkisins (eftir atvikum breska innistæðutryggingasjóðsins) vegna ábyrgða Breta á innistæðum umfram 20.887 evrur.
    Hvað sem um þá deilu má segja, verður skilanefnd Landsbankans að lýsa yfir skuldajöfnuði geri Bretar kröfur í þrotabúið og skilyrði skuldajafnaðar reynast vera fyrir hendi. Krafa þrotabús Landsbankans á hendur breska ríkinu er eign þess og vegna annarra kröfuhafa getur skilanefndin ekki leyft þrotabúinu að falla frá skuldajafnaðarrétti, sé hann til staðar, nema íslenska ríkið ábyrgist það tjón sem af því kann að hljótast.
    Eins og áður segir, er afar ólíklegt að peningum úr sjóðum breska innistæðutryggingasjóðsins hafi verið varið til greiðslu fjárhæðar allt að 20.887 evrur fyrir hvern innlánsreikning og enn ólíklegra er að sá sjóður hafi greitt það sem umfram var án fjármagns frá breska ríkinu. Þetta þarf því einnig að kanna sérstaklega með tilliti til möguleika til skuldajöfnuðar.
    Menn hafa talið sig vera þess umkomna að rita út og suður án ábyrgðar um þetta risastóra mál. Við viljum ekki falla í þá gryfju. Málið er hins vegar alvarlegt og varðar miklu, en samkvæmt fréttum frá Alþingi ætla menn að samþykkja samninginn, með nokkrum fyrirvörum, á allra næstu dögum, en því verður ekki trúað að afgreiðsla á dýrasta lagafrumvarpi Íslandssögunnar ráðist af því að einhver vilji komast í sumarfrí vikunni fyrr. Til vonar og vara er þessi grein þó rituð nú, en með þeim formerkjum að málið er ekki lögfræðilega grandskoðað að fullu af okkar hálfu, enda töldum við víst að sjálfsagður fyrirvari um dómstólameðferð hlyti að koma inn í samþykkt Alþingis.
    Ef hugleiðingar þessar eru réttar þá getur það varðað gríðarmiklu að stíga varlega til jarðar. Auk þess höfum við haft af því spurnir að þessi atriði hafi ekki verið athuguð sérstaklega við meðferð málsins hjá nefndum Alþingis og einnig að lítið samráð hafi verið haft við skilanefnd Landsbankans áður en samningurinn var gerður. Menn verða að átta sig á því að Bretar hafa haft her manns til að skoða allar hliðar málsins í því skyni að tryggja sem best sína hagsmuni. Athuga verður betur hvort samningurinn við Breta hindri framangreinda möguleika til skuldajöfnuðar eða að væntanleg skuldajafnaðaryfirlýsing skilanefndar Landsbankans nýtist ekki íslenska ríkinu að fullu.
    Niðurstaða frekari skoðunar á þessum atriðum sem hér eru reifuð, sem og öðrum lögfræðilegum atriðum varðandi samningana báða, gæti meðal annars leitt til þess að frekari fyrirvara verði að setja í samninginn, til dæmis að líta verði svo á að breska ríkið sé væntanlegur kröfuhafi í þrotabú Landsbankans vegna IceSave en ekki þriðji aðili, þannig að skuldajafnaðarréttur sé tryggður.
    Hér er ekkert lögfræðistagl á ferðinni heldur mögulegur blákaldur veruleiki og forspá um mögulegar deilur milli skilanefndar Landsbankans og breska ríkisins. Slíkar deilur milli þrotabús einkafyrirtækis og breska ríkisins geta aldrei leitt til þess að svokallað samfélag þjóðanna láti Íslandi blæða. Skilanefnd ber að sinna skyldu sinni óháð vilja íslenskra stjórnvalda. Menn í öllum stjórnmálaflokkum ættu a.m.k. að vera sammála um að íslenska ríkið ætti ekki að greiða Bretum – eða Hollendingum – meira en Landsbankinn skuldar þeim sem aðalskuldari IceSvave-reikninga. Málið verður að kanna til þrautar. Fyrr má ekki samþykkja fyrirliggjandi frumvarp um ríkisábyrgð.Fylgiskjal II.

Fundargerð fjárlaganefndar með bókun.
47. fundur fjárlaganefndar á 137. löggjafarþingi
haldinn í Austurstræti 8–10, mánudaginn 24. ágúst 2009 kl. 10:07.


Mættir:
Guðbjartur Hannesson formaður
Árni Þór Sigurðsson
Ásbjörn Óttarsson
Ásmundur Einar Daðason
Björn Valur Gíslason
Einar K. Guðfinnsson
Höskuldur Þórhallsson
Kristján Þór Júlíusson
Oddný G. Harðardóttir
Sigmundur Ernir Rúnarsson
Vigdís Hauksdóttir
Þór Saari

Bókað:
1) 136. mál – ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.
    Fulltrúar Tryggingarsjóðs. Jón Guðni Ómarsson, Eiríkur Þorláksson, Sigrún Helgadóttir og Ásgerður Ragnarsdóttir. Áslaug Árnadóttir tók þátt í fundinum með símafundabúnaði þar sem hún gat ekki verið í Reykjavík. Vigdís spyr hvort ætlunin sé að láta skoða skuldajöfnunina frekar og kalla þá menn sem skrifuðu um málið í Morgunblaðið. Gert fundarhlé til hálftólf. Fundur hófst aftur klukkan 15:06.
    Mættir: Eiríkur Svavarsson, Jón Gunnarsson, Þorsteinn Einarsson, Þórhallur Þórvaldsson, Steinunn Guðbjartsdóttir, Ragnar Hall, Eiríkur Elís Þorvaldsson og Ásgerður Ragnarsdóttir. Einnig sat fundinn Eiríkur ritari efnahags- og skattanefndar. Höskuldur óskar eftir atkvæðagreiðslu um hvort Stefán Már Stefánsson komi fyrir nefndina. Leggur í því sambandi fram eftirfarandi bókun: „Undirritaður óskaði eftir að Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor, kæmi fyrir nefndina til að varpa ljósi á álitaefni sem komið hafa fram eftir aðra umræðu.“ Beiðninni var hafnað af meiri hlutanum.

2) Önnur mál.
    Ákveðið var að halda næsta fund kl. 20.00 í kvöld. Fleira var ekki gert og fundi slitið.

Fundi slitið kl. 17:13.