Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 163. máls.
137. löggjafarþing 2009.
Þskj. 357  —  163. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um skilanefndir.

     1.      Hver skipar og hvernig er skipað í skilanefndir?
    Þær skilanefndir sem nú eru starfandi voru skipaðar á grundvelli 100. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, áður en henni var breytt með lögum nr. 44/2009. Samkvæmt þágildandi 100. gr. a var Fjármálaeftirlitinu heimilt, samhliða því sem ákvörðun var tekin um að víkja stjórn fjármálafyrirtækis frá, að skipa því fimm manna skilanefnd til að fara með allar heimildir stjórnar samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga. Á grundvelli framangreinds ákvæðis skipaði Fjármálaeftirlitið skilanefndir í Landsbanka Íslands hf., Glitni banka hf., Kaupþingi banka hf., Straumi-Burðarási fjárfestingarbanka hf., Sparisjóðabanka Íslands hf. og Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis þegar aðstæður voru orðnar það knýjandi að Fjármálaeftirlitið taldi þörf á að grípa til sérstakra ráðstafana, sbr. skilyrði í þágildandi 1. og 3. mgr. 100. gr. a.
    Í ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009 var jafnframt kveðið á um að Fjármálaeftirlitið skipi menn í skilanefndir ef sæti verður laust en þó einungis ef þörf er á með tilliti til þeirra verkefna sem nefnd á ólokið.

     2.      Hver eru verkefni, markmið, ábyrgð og valdsvið skilanefndar?
    Um hlutverk skilanefnda er fjallað í 3. tölul. ákvæðis til bráðabirgða V í lögum um fjármálafyrirtæki, sbr. 3. tölul. ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 44/2009. Þar segir: „Skilanefnd fjármálafyrirtækis, sem Fjármálaeftirlitið hefur skipað fyrir gildistöku laga þessara á grundvelli 5. gr. laga nr. 125/2008, skal með óbreyttu heiti halda áfram störfum og gegna því hlutverki sem slitastjórn er ætlað í 3. mgr. 9. gr., 2. málsl. 4. mgr. 101. gr., 1. málsl. 5. mgr. 102. gr. og 1.–3. mgr. 103. gr. laganna, sbr. 1., 5., 6. og 7. gr. laga þessara.“
    Með vísan til framangreinds er skilanefndum m.a. ætlað að:
          Annast, þrátt fyrir afturköllun starfsleyfis, tiltekna leyfisbundna starfsemi fjármálafyrirtækis, að svo miklu leyti sem hún er nauðsynleg vegna ráðstöfunar hagsmuna fyrirtækisins.
          Taka við þeim réttindum og skyldum sem stjórn fyrirtækisins og hluthafafundur eða fundur stofnfjáreigenda höfðu á hendi, sbr. þó 3. mgr. 103. gr. laganna.
          Leggja mat á, þegar kröfulýsingarfrestur er á enda, hvort horfur séu á að eignir fjármálafyrirtækis nægi til að standa undir skuldbindingum þess.
          Ráðstafa hagsmunum fyrirtækisins eftir sömu reglum og gilda um bústjórn skiptastjóra við gjaldþrotaskipti með þeim frávikum sem leiðir af ákvæði 103. gr. laganna.
          Hafa að markmiði að fá sem mest fyrir eignir fjármálafyrirtækis, þar á meðal að bíða eftir efndatíma á útistandandi kröfum fremur en að koma þeim fyrr í verð, nema sýnt megi telja að hagsmunir kröfuhafa og eftir atvikum hluthafa séu meiri af því að ráðstafa slíkum réttindum á fyrri stigum til að ljúka megi slitameðferð. Í þeim tilvikum er heimilt að virða að vettugi ályktun kröfuhafafundar sem er andstæð þessu markmiði.
          Boða til kröfuhafafundar í sama skyni og skiptastjóri heldur skiptafundi um bústjórn við gjaldþrotaskipti. Ef horfur eru á að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja fyrir skuldbindingum þess skal skilanefnd samhliða kröfuhafafundum efna til funda með hluthöfum til að kanna hug þeirra um ráðstöfun hagsmuna þess.

     3.      Gagnvart hverjum eru skilanefndirnar ábyrgar?
    Skilanefndir fara með þau réttindi og skyldur sem stjórn fyrirtækisins og hluthafafundar eða fundur stofnfjáreigenda höfðu á hendi, sbr. 2. málsl. 4. mgr. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki, og bera með því ábyrgð á þeirri forsendu, þá einkum og sér í lagi gagnvart kröfuhöfum. Skv. XIX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, hafa kröfuhafar ýmis úrræði gagnvart skilanefndum. Til að mynda kemur fram í 124. gr. laganna að ákvarðanir skiptafundar um ráðstafanir, sem eru enn ógerðar, binda skiptastjóra samkvæmt því sem segir í 127. gr., en þar er kveðið á um að skiptastjóri sé bundinn af ákvörðun ályktunarfærs skiptafundar ef allir fundarmenn hafa verið á einu máli.

     4.      Eftir hvaða viðmiðum og/eða reglum er farið við skipun skilanefndar?
    Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu var við skipun skilanefnda leitast við að skipa endurskoðendur og lögfræðinga með starfsreynslu og/eða þekkingu á fjármálastarfsemi og eftir atvikum á skiptarétti. Þá var einnig lögð áhersla á að hluti fulltrúa skilanefnda þekkti til starfsemi viðkomandi fjármálafyrirtækis og var því leitað til fyrrum starfsmanna bankanna til að tryggja það að framkvæmd ákvarðana eftirlitsins gengi hratt og skilmerkilega fyrir sig.

     5.      Hvernig og hve oft gera skilanefndir grein fyrir störfum sínum?
    Í upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu kemur fram að í upphafi hafi skilanefndir gert grein fyrir störfum sínum mánaðarlega með skýrslu til eftirlitsins og á fundum en við gildistöku laga nr. 44/2009, 2. apríl, sl., hafi því verklagi verið breytt. Fjármálaeftirlitið hafi nú eftir sem áður heimild til að fá aðgang að öllu bókhaldi, fundargerðum, skjölum og öðrum gögnum er varða starfsemi eftirlitsskyldra aðila.

     6.      Hver hefur eftirlit með störfum skilanefnda?
    Fjármálaeftirlitinu er falið það hlutverk að fylgjast með að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða samþykktir sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Þær skilanefndir sem enn eru að störfum hafa m.a. það hlutverk að fara með réttindi og skyldur stjórnar og hluthafafundar eftirlitsskyldra aðila og hefur Fjármálaeftirlitið því eftirlit með störfum skilanefnda á þeim grunni.

     7.      Hafa fulltrúar í skilanefnd þurft að hætta störfum og ef svo er, af hverju?
    Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu hafa verið gerðar breytingar á skilanefndum m.a. í kjölfar þess að fulltrúar í þeim hafi ráðið sig til annarra starfa. Þá óskaði Fjármálaeftirlitið eftir því fyrir nokkru að fyrrverandi starfsmenn bankanna sætu ekki lengur í skilanefndum þar sem ekki var lengur talin þörf á þekkingu þeirra á starfsemi viðkomandi banka.