Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 3. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 3  —  3. mál.
Leiðréttur texti.




Tillaga til þingsályktunar



um nauðsynlegar bráðaaðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

Flm.: Bjarni Benediktsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Árni Johnsen,


Ásbjörn Óttarsson, Birgir Ármannsson, Eyrún Sigþórsdóttir,
Guðlaugur Þór Þórðarson, Illugi Gunnarsson, Jón Gunnarsson,
Kristján Þór Júlíusson, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal,
Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til eftirfarandi aðgerða með hliðsjón af mikilvægi þess að bæta stöðu heimila og fyrirtækja, endurheimta tiltrú á íslenskt efnahagslíf, tryggja hvata til atvinnusköpunar og hagvaxtar og skapa skilyrði til þess að Íslendingar verði að nýju í hópi samkeppnishæfustu þjóða heims:
     Ríkisfjármál.
     1.      Sett verði hagræðingarkrafa á rekstur ríkisins þannig að 5% sparnaður verði í heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfi og 10% sparnaður verði á öðrum sviðum. Ekki verði um flatan niðurskurð að ræða. Forgangsraðað verði í samvinnu við hlutaðeigandi aðila á þann hátt að mikilvæg grundvallarþjónusta skerðist sem minnst. Miðað við fjárlög þessa árs mundi þetta leiða til sparnaðar í ríkisútgjöldum upp á 35–40 milljarða kr. Ekki verði skorin niður útgjöld til framkvæmda.
     2.      Kerfisbreyting verði gerð á skattlagningu lífeyrisgreiðslna. Hægt er að fara fleiri en eina leið í þessu sambandi en það yrði gert í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Afkomubati ríkissjóðs ræðst af því hvaða leið er farin en gert er ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs batni um að lágmarki 35 milljarða kr. við þessa aðgerð.
     3.      Umhverfi atvinnurekstrar verði bætt og hindrunum fyrir erlenda nýfjárfestingu rutt úr vegi. Áætlað er að allt að 5.000 störf geti skapast á næsta ári vegna þessa liðar og að bætt afkoma ríkissjóðs vegna þess verði um 15 milljarðar kr.
     Hagstjórn.
     1.      Endurskoða skal sameiginlega áætlun íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í ljósi breyttra aðstæðna.
     2.      Gefin verði út skuldabréf til 4, 6 og 8 ára í evrum með álagi á þýska ríkisbréfavexti og þau boðin erlendum krónueigendum til kaups.
     3.      Gjaldeyrishöft verði afnumin og krónunni leyft að fljóta.
     4.      Sköpuð verði skilyrði fyrir því að vextir Seðlabanka Íslands lækki umtalsvert.
     5.      Lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verði sett í bið en lánum Norðurlandanna breytt í lánalínur.
     Skuldavandi.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     1.      Leiðrétta verður of mikla skuldsetningu heimilanna í landinu. Mynda skal sérfræðingahóp sem fjalli um leiðir til þess. Hópurinn verði skipaður fulltrúum allra stjórnmálaflokka og aðila vinnumarkaðarins.
     2.      Tekið verði sérstaklega á vanda verst stöddu heimilanna. Úrræðin þurfa að vera aðgengileg, fljótvirk og mannúðleg.
     3.      Stimpilgjöld verði afnumin til að auðvelda fólki að njóta bestu kjara við endurfjármögnun lána.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     4.      Settar verði verklagsreglur við endurskipulagningu skulda atvinnulífsins sem tryggja sanngirni og gagnsæi og þar með jafna meðferð skuldara. Tryggja þarf að hvatar til árangurs verði ekki slævðir. Haft verði að leiðarljósi að samkeppnisstöðu fyrirtækja verði ekki raskað.

Greinargerð.


    Helsta verkefni íslenskra stjórnvalda er að endurvekja tiltrú á íslensku efnahagslífi. Undanfarið ár hefur ekki nýst sem skyldi til að leggja grunn að endurreisninni. Endurskoðun áætlunar stjórnvalda með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur dregist úr hófi, vextir hafa enn ekki lækkað nægjanlega og vandi heimila og fyrirtækja fer vaxandi. Við þessu verður að bregðast.

Ríkisfjármálin.
    Sjálfstæðisflokkurinn telur það eitt af sínum meginhlutverkum að standa vörð um skattfé almennings. Ljóst er að umfang hins opinbera hefur aukist mjög undanfarinn áratug og er nú orðið of mikið. Það er svigrúm til að lækka útgjöldin umtalsvert, t.a.m. niður á sama stig og var á fyrri hluta áratugarins. Það verður að gera á vel ígrundaðan hátt og á lengri tíma en nú er áætlað. Vegna þess mikla tekjutaps sem ríkissjóður hefur orðið fyrir er ljóst að hallanum verður ekki eytt með hagræðingu einni saman. Efla verður skattstofna að nýju þannig að fjárlagagatinu verði lokað sem fyrst.
    Hagræðingu og sparnaði í rekstri hins opinbera verður að ná þannig að mikilvæg þjónusta sé ekki skert meira en brýna nauðsyn ber til. Jafnframt er mikilvægt að ekki komi til flats niðurskurðar og að hagræðing verði unnin í nánu samstarfi við þá sem best til þekkja – starfsmenn og stjórnendur hlutaðeigandi málaflokks. Sem dæmi um ranga aðferðafræði eru aðferðir þær sem ríkisstjórnin vill nota við hagræðingu á Landspítalanum.
    Í efnahagstillögum Sjálfstæðisflokksins frá í júní síðastliðnum eru leiðir til að ná jafnvægi í ríkisfjármálum raktar. Þær felast í hagræðingu og niðurskurði ríkisútgjalda og breikkun skattstofna. Flutningsmenn telja að endurheimta þurfi skattstofna en slíkt verður aðeins gert með því að koma hjólum efnahagslífsins af stað á ný. Skattahækkanir ofan í fyrirhugaðan niðurskurð draga mátt úr heimilum og fyrirtækjum og dýpka og lengja þá efnahagskreppu sem við nú upplifum. Slíkt verður aðeins til þess að íslenskt þjóðfélag festist í vítahring samdráttar og vonleysis.
    Í nefndaráliti minni hluta efnahags- og skattanefndar um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum (118. mál) er fjallað um áhrif niðurskurðar og skattahækkana á verga landsframleiðslu og atvinnu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að bæta þurfi afkomu ríkissjóðs um rúma 63 milljarða kr. á árinu 2010. Í nefndaráliti minni hlutans eru áhrif þess rakin. Landsframleiðsla mun lækka, atvinna minnka og þ.a.l. lækka beinir og óbeinir skattar og bætur hækka að öðru óbreyttu – eftirspurn og skattgrunnar dragast saman.
    Lánsmatsfyrirtækið Moody's tók undir þessa gagnrýni með yfirlýsingu nýverið en þar segir: „Moody's á von á því að eftirspurn verði alllengi að taka við sér ekki síst þegar skattahækkanir og niðurskurður opinberra útgjalda bætast við mikla skuldsetningu heimilanna.“
    Ljóst er að niðurskurður og hagræðing munu leiða til fækkunar starfa hjá hinu opinbera. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að það fólk sem missir atvinnu hjá ríkinu þarf að finna kröftum sínum farveg hjá einkafyrirtækjum. Skattahækkanir eru eingöngu til þess fallnar að hamla fjárfestingu og ráðningu nýrra starfsmanna hjá einkafyrirtækjum. Niðurskurður leiðir þá til fækkunar starfa hjá hinu opinbera og skattahækkun á einkafyrirtæki til þess að þeir sem missa vinnu hjá ríkinu fá ekki störf í einkageiranum. Ekki má því beita þessum tveimur verkfærum á sama tíma við þær aðstæður sem nú ríkja.
    Að framan er rakið hversu alvarlegar afleiðingar það mun hafa fyrir íslenskt efnahagslíf ef skattar verða hækkaðir þegar samdráttur er í efnahagslífinu og á sama tíma er ráðist í mikinn niðurskurð á útgjöldum hins opinbera. Flutningsmenn tillögunnar hafa því bent á aðrar leiðir til að auka tekjur ríkissjóðs. Bent hefur verið á þann möguleika að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóðakerfið í stað útgreiðslna eins og nú er. Tekjur ríkissjóðs aukast um á bilinu 30–40 milljarða kr. á ári við þessa aðgerð sem er um helmingur fyrirhugaðrar bættrar afkomu ríkissjóðs. Þessi kerfisbreyting leggur ekki þyngri byrðar á herðar launafólks og eftirlaunaþega, hvorki í nútíð né framtíð. Eins og flutningsmenn tillögunnar hafa bent á fylgir sá ágalli kerfisbreytingunni að þjóðhagslegur sparnaður mun minnka. Kostirnir yfirvega hins vegar gallana svo að ástæða er til að gaumgæfa leiðina vel. Einnig kemur til greina einfaldari útgáfa þessarar aðgerðar. Hún felst í að afnema núverandi frestun á skattlagningu séreignarsparnaðar en sú ráðstöfun ein mundi skila um 115 milljarða kr. eingreiðslu í ríkissjóð á næsta ári og um 13 milljörðum kr. á ári eftir það.
    Önnur leið sem flutningsmenn vilja fara til að ná jafnvægi í ríkisfjármálum er að stækka skattgrunna. Ríkisstjórnin hefur dregið lappirnar í atvinnumálum og hefur með háttalagi sínu valdið íslensku atvinnulífi stórskaða. Um það bera aðgerðir hennar vitni, nú síðast sú ákvörðun umhverfisráðherra að fella úr gildi þá ákvörðun að Suðvesturlína og Helguvík þurfi ekki að fara í sameiginlegt umhverfismat; neitun ríkisstjórnarinnar um að framlengja viljayfirlýsingu um atvinnuuppbyggingu á Bakka við Húsavík; áformum um nýja orku-, umhverfis- og auðlindaskatta; og engum vilja til samvinnu vegna erlendrar fjárfestingar í heilbrigðismálum. Þá hefur yfirlýsing stjórnarflokkanna um fyrningarleið í sjávarútvegi valdið mikilli óvissu í greininni og skaðað hana. Framangreindar ráðstafanir brjóta allar í bága við stöðugleikasáttmála aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar.
    Nýting náttúruauðlinda felur í sér val. Skynsamleg nýting auðlinda og verndun þeirra er kappsmál Sjálfstæðisflokksins. En sú vernd má þó ekki ganga svo langt að skynsamleg tækifæri séu slegin út af borðinu undir merkjum umhverfisverndar. Jafnvægi verður að ríkja milli verndar og auðlindanýtingar. Ef of strangar kröfur í þessum efnum vinna gegn framförum, draga úr bjartsýni og rýra efnahagshorfur þjóðarinnar geta þessar ákvarðanir hugsanlega unnið gegn skynsamlegri umhverfisstefnu í framtíðinni. Ef of nærri verður höggvið nú gætu þær aðstæður skapast að náttúru- og umhverfisvernd mæti afgangi í framtíðinni. Það ættu þeir að hafa í huga sem leggjast alfarið gegn orkunýtingu.
    Með ýmsum orkutengdum verkefnum, verkefnum sem þegar hafa verið ákveðin og öðrum sem þykja heppileg fyrir einkaframkvæmd er í stöðugleikasáttmálanum áætlað að um 4.000 ný störf verði til beint og sennilega annað eins óbeint. Að áætla 5.000 ný störf eins og hér er gert með því að efnahagsumhverfi fyrir almennan rekstur verði bætt og hindrunum fyrir erlenda nýfjárfestingu rutt úr vegi telja flutningsmenn síst vera ofmat.
    Það á að vera keppikefli stjórnvalda að gera almenningi kleift að fá hlutdeild í þeim ábata sem endurreisn efnahagslífsins mun hafa í för með sér. Til þess að það megi takast þarf að breyta reglum á hlutabréfamarkaði til að endurvekja tiltrú eins og rakið er í efnahagstillögum Sjálfstæðisflokksins frá í júní. Því telja flutningsmenn tillögunnar að endurvekja eigi skattaafslátt til hlutabréfakaupa til að útvega atvinnulífinu rekstrar- og framkvæmdafé og til að endurvekja hlutabréfamarkað á Íslandi.
    Undanfarna áratugi hefur þeirri meginreglu verið fylgt að heildarkvótar í fiskveiðum hafa byggt á svokallaðri aflareglu. Reglan byggist í grunnatriðum á að uppbygging fiskstofnanna ráðist af því hve mikið er tekið af þeim. Þung rök hníga að því að vegna efnahagslegra aðstæðna nú beri að skoða kosti þess að auka tímabundið heildarkvóta í fiskveiðum. Það verður til þess að stofnarnir byggjast ekki jafn hratt upp og ella. En velferðaráhrifin af ráðstöfuninni eru slík að hún er réttlætanleg.
    Flutningsmenn tillögunnar leggja þunga áherslu á að öll aukning heildarkvóta verði innan aflamarkskerfisins. Áætlað hefur verið að með því að stöðva ólympískar veiðar á makríl megi allt að tvöfalda aflaverðmæti hans. Við þessu verður að bregðast. Hámarka þarf arðsemi veiðanna fyrir þjóðarbúið.
    Jafnframt er rétt að benda á þá óhagkvæmni sem hefur verið innleidd með ólympískum strandveiðum. Flutningsmenn telja að ríkisstjórnin eigi þegar í staða að hverfa frá áformum um fyrningu aflaheimilda til að eyða þeirri óvissu um framtíð þessarar mikilvægu atvinnugreinar.
     Tillögur:
     1.      Sett verði hagræðingarkrafa á rekstur ríkisins þannig að 5% sparnaður verði í heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfi og 10% sparnaður verði á öðrum sviðum. Ekki verði um flatan niðurskurð að ræða. Forgangsraðað verði í samvinnu við hlutaðeigandi aðila á þann hátt að mikilvæg grundvallarþjónusta skerðist sem minnst. Miðað við fjárlög þessa árs mundi þetta leiða til sparnaðar í ríkisútgjöldum upp á 35–40 milljarða kr. Ekki verði skorin niður útgjöld til framkvæmda.
     2.      Kerfisbreyting verði gerð á skattlagningu lífeyrisgreiðslna. Hægt er að fara fleiri en eina leið í þessu sambandi en það yrði gert í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Afkomubati ríkissjóðs ræðst af því hvaða leið er farin en gert er ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs batni um að lágmarki 35 milljarða kr. við þessa aðgerð.
     3.      Umhverfi atvinnurekstrar verði bætt og hindrunum fyrir erlenda nýfjárfestingu rutt úr vegi. Áætlað er að allt að 5.000 störf geti skapast á næsta ári vegna þessa liðar og að bætt afkoma ríkissjóðs vegna þess verði um 15 milljarðar kr.
    Bætt afkoma ríkissjóðs ef farið verður að þessum tillögum er um 85–90 milljarðar kr. á næsta ári. Tillögurnar ná markmiðum um bætta afkomu ríkissjóðs og vel það án skattahækkana. Tillögurnar draga að óverulegu leyti fjármuni út úr hagkerfinu og minnka þannig ekki að sama skapi eftirspurn og hagvöxt. Skattstofnar munu því jafna sig fyrr en ella og jafnvægi nást í fjármálum ríkisins. Auk þessa gæti náðst fram á bilinu 27–33 milljarða kr. sparnaður vegna minni vaxtakostnaðar í kjölfar endurskipulagningar gjaldeyrisvarasjóðs og lækkunar vaxta eins og rakið er hér að neðan. Aðgerðirnar miða að því að sækja fram fremur en leggjast í vörn.

Hagstjórn.
    Ísland býr nú eitt vestrænna ríkja við gjaldeyrishöft. Erfitt er að mæla sóun á verðmætum vegna haftanna en ljóst er að hún er gríðarleg. Jafnframt er nær ómögulegt að koma böndum á spillingu og svindl sem þrífst í skjóli haftanna. Reynslan af haftabúskap eftirstríðsáranna var skelfileg og lífsnauðsynlegt er að Ísland feti ekki sama veg nú og gert var þá. Velferðartapið sem höftin leiða yfir Íslendinga er slíkt að leita verður allra leiða til að afnema þau strax. Þetta kennir sagan okkur.
    Vandinn sem Íslendingar standa frammi fyrir er að mikið fjármagn – á bilinu 350–450 milljarðar kr. – bíður þess að komast úr landi. Ef þetta flæði er ekki heft myndast mikill þrýstingur á krónuna sem mundi að öllum líkindum leiða til mikils gengisfalls með tilheyrandi verðbólgu og ójafnvægi ef gjaldeyrishöftin yrðu afnumin án neinna hliðarráðstafana.
    Eftir að krónan var sett á flot og Seðlabanka Íslands sett verðbólgumarkmið árið 2001 náðist nokkur stöðugleiki á gjaldmiðilinn. Verðbólga var nálægt markmiði og krónan virtist þjóna hlutverki sínu ágætlega. Eftir að útlánaþensla hófst í bankakerfinu, t.a.m. í kjölfar breytinga á húsnæðislánamarkaði 2004, myndaðist hins vegar undirliggjandi þrýstingur á verðlag. Seðlabankinn gat tæpast mætt þessum þrýstingi með hefðbundnum peningamálaaðgerðum þar sem fyrirtæki og heimili viku sér undan aukinni vaxtabyrði með því að taka lán í erlendum myntum. Jafnframt er eðli verðtryggingar með þeim hætti að vaxtahækkanir Seðlabanka hafa lítil áhrif á kostnað við langtímalán þar sem vextir eru í megin atriðum fastir. Háir vextir Seðlabankans héldu krónunni sterkri, innflutningsverðlagi lágu og þar með verðbólgu. Við þessar aðstæður hófust vaxtamunarviðskipti með alvarlegum afleiðingum.
    Í stórum dráttum fólust þessi vaxtamunarviðskipti í því að erlendir bankar hófu útgáfu skuldabréfa í íslenskum krónum sem síðan voru seld til erlendra fjárfesta. Íslensku bankarnir þjónuðu sem milliliður í þessum viðskiptum og skiptu vaxtamuninum sem ríkti milli erlendra gjaldmiðla og þess íslenska með erlendum útgefendum – um leið náðu bankarnir í fjármagn sem þeir síðan lánuðu til íslenskra fyrirtækja og heimila. Þessi iðja leiddi í sjálfu sér til þenslu – peningastefnan lenti í sjálfheldu. Lántaka í erlendri mynt stórjókst og neysla bar öll einkenni þess að heimilin væru haldin gengisglýju. Fyrirtæki og heimili trúðu því að gengið mundi ekki breytast eins og raun bar vitni sem leiddi til auðsáhrifa – meiri neyslu og fjárfestingar en raunhagkerfið gaf tilefni til.
    Í aðdraganda hruns bankakerfisins féll krónan um 50% gagnvart erlendum myntum og eftir hrunið versnaði staðan enn frekar og gjaldmiðlakreppa skall á Íslandi af fullum þunga. Þetta leiddi til þess að sett voru á gjaldeyrishöft til að hefta útflæði erlends gjaldeyris sem safnast hafði upp í vaxtamunarviðskiptum. Stöðva þarf þetta útflæði með öðrum ráðum en höftum, t.a.m. með uppboðum, þar sem höft hafa í för með sér gríðarlegan eyðileggingarmátt eins og rakið er hér að framan.
    Ein þeirra leiða sem minnkað gæti þrýsting á krónuna er að íslenska ríkið gefi út langtímaskuldabréf í evrum með vöxtum sem eru aðlaðandi fyrir erlendu fjárfestana og ásættanlegir fyrir ríkið. Þessi leið minnkar þrýsting á útflæði við afnám gjaldeyrishafta. Með styrkingu krónunnar í framtíðinni lækkar sú upphæð sem íslenska ríkið þyrfti að borga í krónum. Krónurnar sem ríkið fær á móti skuldabréfunum gæti það notað til að fjármagna ríkissjóðshalla og framkvæmdir ríkisfyrirtækja. Reynsla Ísraelsmanna snemma á áttunda áratugnum af þessari leið varðar hér veginn.
    Áður en höftum er létt þarf raunhæf efnahagsáætlun að liggja fyrir. Þannig verður dregið úr þeirri hættu að innlendir aðilar skipti sparnaði sínum í erlenda mynt vegna vantrúar á íslenskt efnahagslíf. Tilvist haftanna ein og sér sendir út þau skilaboð að gjaldmiðilinn þjóni ekki hlutverki sínu og því mun afnám þeirra sennilega auka tiltrú á gjaldmiðilinn og auka gjaldeyrisstreymi til landsins sem í sjálfu sér styrkir krónuna. Þá verður að hafa í huga að höftin fæla frá erlenda fjárfesta en erlend fjárfesting er mikilvæg til að skapa auknar gjaldeyristekjur. Erlend fjárfesting styrkir gjaldmiðilinn og styrkir krónuna með öflugum og heilbrigðum hætti. Jafnframt skilar gjaldeyrir vegna vöruviðskipta sér þá betur til landsins. Allar tilraunir til að styrkja krónuna með gjaldeyrisinngripum eru dæmdar til að mistakast eins og reynsla annarra þjóða sýnir. Íslendingar hafa ekki efni á að eyða dýrmætum gjaldeyri til að fjármagna fjármagnsflótta.
    Í kjölfar þess að krónum sem bíða þess að komast úr landi hefur verið breytt í langtímaskuldabréf minnkar þrýstingurinn á gjaldmiðilinn og svigrúm myndast til vaxtalækkana. Engin rök eru fyrir núverandi vaxtastigi önnur en viðnám við fjármagnsflótta. Gjaldeyrishöftin nægja ekki ein og sér, til þess er lekinn of mikill. Leiðin til að lækka vexti og afnema gjaldeyrishöft er því sú að fram verði sett trúverðug stefna í efnahagsmálum, fjármálum hins opinbera verði komið í fastar skorður og að lokið verði við uppbyggingu fjármálakerfisins. Fyrr næst ekki sá trúverðugleiki sem stöðvar fjármagnsflótta. Mikilvægt er að þessi bréf séu stöðluð og passi inn í hefðbundin viðskiptakerfi til að seljanleiki þeirra á alþjóðlegum eftirmarkaði sé tryggður.
    Með því að fara þessa leið minnkar þörfin fyrir gjaldeyrisvarasjóð og um leið þörfin fyrir lán frá AGS og Norðurlöndunum. Sennilega nægja lánin frá Norðurlöndunum, Færeyjum og Póllandi til að mynda gjaldeyrisvarasjóð eftir að þrýstingur á gengið hefur verið minnkaður. Öllu máli skiptir að sýna á trúverðugan hátt fram á að hægt verði að mæta stórum afborgunum af erlendum lánum ríkisins árið 2011. Til að halda vaxtakostnaði í lágmarki er hér lagt til að lán frá Norðurlöndunum verði á formi lánalína. Jafnframt verði lánin frá AGS ekki tekin nema þau bjóðist sem lánalínur.
    Lánin frá AGS og Norðurlöndunum nema um 5,1 milljarði bandaríkjadala. Ætlun er að þau verði geymd í gjaldeyrisvarasjóði og beri þar vexti. Áætlað hefur verið að vaxtamunur verði um 2% á ári. Ef sú er raunin gæti hreinn vaxtakostnaður á ári numið um 102 milljónum bandaríkjadala eða um 12,5 milljörðum kr. á ári. Ef hins vegar væri hægt að takmarka þörfina eftir lánum við lán Norðurlandanna og að þau væru á formi lánalína með 0,5% álagi mætti lækka vaxtakostnaðinn í um 1,6 milljarða kr. á ári.
    Íslenskt efnahagslíf hefur búið við afar háa stýrivexti í langan tíma og það hefur haft gríðarlega slæm áhrif. Háir vextir til langs tíma virka sem kyrkingaról fyrir atvinnulífið. Löngu er komið að endimörkum hvað vextina varðar. Því er hægfara lækkun vaxta ekki fær leið. Vextir verða að lækka strax og hratt.
    Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því hve mikil áhrif vaxtalækkunar verði á ríkissjóð, heimilin og fyrirtækin í landinu. Lánasýsla ríkisins mun að öllum líkindum bjóða út á bilinu 150–200 milljarða kr. á næsta ári. Hvert prósentustig þar mundi lækka vaxtakostnað um 1,5–2 milljarða kr. Víxlaútgáfa sem næmi um 50–70 milljörðum kr. mundi síðan leiða til 500–750 milljóna kr. sparnaðar fyrir hvert prósentustig í vaxtalækkun.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Miðað við fjárþörf ríkissjóðs á næsta ári má þannig áætla að sparnaður ríkissjóðs við hverja prósentustigslækkun vaxta sé á bilinu 2–2,75 milljarðar kr. Því mundi 8 prósentustiga vaxtalækkun spara ríkissjóði á bilinu 16–22 milljarða kr. í vaxtakostnað á næsta ári.
    Áhrifin á heimilin og fyrirtækin yrðu eins og gefur að skilja gríðarleg. Sem dæmi má nefna að yfirdráttarlán heimila og fyrirtækja nema nú tæplega 200 milljörðum kr. og eins prósentustigs vaxtalækkun mundi því spara um 2 milljarða kr. á ári í vaxtagreiðslur. Miðað við 8 prósentustiga lækkun vaxta mætti því búast við um 16 milljarða kr. lægri vaxtakostnaði vegna yfirdráttarlána í hagkerfinu.
    Áhrif lækkunar vaxta hefði síðan jákvæð áhrif á hagkerfið í heild vegna lægri fjármagnskostnaðar fyrirtækja og mundi að öðru jöfnu leiða til aukinna umsvifa í hagkerfinu með auknum skatttekjum hins opinbera og fjölgun starfa.
    Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að framgreindar aðgerðir þarf að framkvæma í réttri röð. Fyrst þarf að setja fram trúverðuga áætlun í ríkisfjármálum. Þá þarf að gefa út ríkisbréfin og létta þar með þrýstingi á gengi krónunnar. Lækka síðan vexti og að síðustu afnema gjaldeyrishöft.
     Tillögur:
     1.      Endurskoða skal sameiginlega áætlun íslenskra stjórnvalda og AGS í ljósi breyttra aðstæðna.
     2.      Gefin verði út skuldabréf til 4, 6 og 8 ára í evrum með álagi á þýska ríkisbréfavexti og þau boðin erlendum krónueigendum til kaups.
     3.      Gjaldeyrishöft verði afnumin og krónunni leyft að fljóta.
     4.      Sköpuð verði skilyrði fyrir því að vextir Seðlabanka Íslands lækki umtalsvert.
     5.      Lán AGS verði sett í bið en lánum Norðurlandanna breytt í lánalínur.
    Með því að setja fram trúverðuga áætlun sem byggist á framangreindum tillögum um aðgerðir efnahagsmálum er það staðföst trú flutningsmanna að hún muni heppnast.

Skuldavandinn.
    Forsenda fyrir breiðri sátt í samfélaginu er að treysta að nýju stöðu heimilanna. Alvarleg skuldastaða íslenskra heimila krefst þess að við henni verði brugðist tafarlaust – algjör forsendubrestur hefur orðið og nauðsynlegt er að gripið verði til ráðstafana til þess að koma í veg fyrir óþarfa gjaldþrot og eyða þeirri óvissu sem staða heimilanna er nú háð. Helstu orsakir vandans eru gengishrun krónunnar, atvinnuleysi, lækkun launa, verðbólga og háir vextir. Fyrirsjáanlega mun hluti heimila ekki geta risið undir þeim byrðum sem þau standa frammi fyrir í dag. Ekki getur talist sanngjarnt að skuldarinn verði einn látinn bera hallann af þessum forsendubresti.
    Ef ekki verður gripið til aðgerða vegna vanda skuldsettra heimila dregst endurreisn efnahagslífsins enn á langinn, þar sem gjaldþrot, greiðsluerfiðleikar og atvinnuleysi ásamt vonleysi verður viðvarandi en ekki tímabundin staðreynd. Of mikil skuldsetning heimilanna hefur alvarlegar samfélagslegar afleiðingar. Vegna þessarar alvarlegu stöðu verða stjórnvöld að leggja til leiðir til að endurskipuleggja skuldir heimilanna og gera þeim kleift að standa við skuldbindingar sínar. Ákvörðunin er pólitísk og snýst um að dreifa byrðum vegna efnahagshrunsins á annan hátt en nú er stefnt að. Mikilvægt er að stuðla að yfirvegaðri umræðu og ábyrgum lausnum með það að markmiði að skapa sem mesta sátt um aðgerðirnar.
    Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur boðað koma að nokkru leiti til móts við greiðsluvanda heimilanna. Þær ganga hins vegar allt of skammt. Vandinn liggur í því að tillögurnar taka ekki nægjanlega á vanda of skuldsettra heimila þar sem algjör óvissa ríkir um hvort eða hve stór hluti lána þeirra verður að lokum afskrifaður. Það er mikilvægt markmið að tryggja að heimilin í landinu geti staðið undir greiðslubyrði lána sinna. Það dugar þó ekki eitt og sér ef afborganir leiða ekki til þess að höfuðstóll lánanna lækki. Afleiðing framangreindra vandamála leiðir til óvissu um stöðu heimilanna, heldur fasteignamarkaðinum í heljargreipum og deyfir hvatann til að standa í skilum. Nauðsynlegt er að vinda ofan af þessari stöðu.
    Eftirfarandi meginatriði ætti að hafa í huga við lausn á skuldavanda heimilanna:
     *      Að viðhalda þeirri ríku hefð að fjölskyldur búi í eigin húsnæði.
     *      Að aðgerðir tryggi hag lántakenda ekki síður en lánveitenda.
     *      Að aðgerðir séu almennar.
     *      Að viðhalda greiðsluvilja m.a. með hvötum til uppgreiðslu skulda.
     *      Að tryggja að aðgerðir séu ekki vinnuletjandi.
     *      Að tryggja að aðgerðir leiði ekki til stórkostlegra skattahækkana.
     *      Aðgerðir þurfa að vera auðskiljanlegar og gagnsæjar.
     *      Að tryggja að aðgerðir leiði ekki til landflótta.
     *      Að koma í veg fyrir frekara hrun á fasteignamarkaði.
    Undanfarna mánuði hafa komið fram fjölmargar tillögur til lausnar á skuldavanda heimilanna. Margar þeirra byggja á þeim meginmarkmiðum sem sett eru fram hér að ofan. Allar hugmyndir sem fram hafa komið hafa sína kosti og galla, allt frá flötum niðurskurði til sértækra aðgerða. Flutningsmenn telja, að skynsamasta leiðin til bæta stöðu heimilanna vegna of mikillar skuldsetningar sé að mynda þverpólitíska sátt um aðgerðir sem hafa ofangreind meginatriði að leiðarljósi. Skorað er á stjórnvöld að kalla að borðinu fulltrúa allra þingflokka og helstu hagsmunaaðila með það að markmiði að finna viðunandi lausn sem kæmi til framkvæmda eigi síðar en um næstu áramót.
    Ljóst er að þær aðgerðir sem gripið verður til leysa ekki að fullu þann vanda sem til staðar er. Hluti fjölskyldna mun engu að síður lenda í innheimtuaðgerðum og einhverjir verða gjaldþrota. Því verður jafnframt að endurskoða núverandi úrræði með það í huga að þau taki til breiðari hóps, séu mannúðlegri, einfaldari, skilvirkari og hraðvirkari. Í því tilliti er full ástæða til að horfa til tillagna ASÍ og Hagsmunasamtaka heimilanna. Einnig er nauðsynlegt að endurskoða gjaldþrotalögin með það í huga að gera einstaklingum kleift að "byrja aftur" fyrr en núverandi löggjöf gerir ráð fyrir.
    Í umræðu um stöðu fyrirtækjanna hefur sjónum verið beint í of miklum mæli að stærstu fyrirtækjum landsins og eignarhaldsfélögum. Það liggur fyrir að langflest störf eru hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum og þessum fyrirtækjum hefur ekki verið sinnt nægjanlega vel af nýju bönkunum. Þessu verður tafarlaust að breyta.
    Mikilvægt er að sett verði fram skýr og samræmd aðferðafræði hvernig standa skuli að endurskipulagningu fyrirtækjanna. Tryggja verður að allir sitji við sama borð, að ferlið sé gagnsætt og fyrirsjáanlegt og að hvatar til árangurs verði ekki slævðir. Haft verði að leiðarljósi að samkeppnisstaða verði ekki bjöguð og að eigendum og starfsfólki verði gert kleift að eignast fyrirtækin þegar skýrt fyrirfram skilgreindir áfangar nást, t.a.m. með áskriftarfyrirkomulagi (e. warrants). Þannig viðhelst verðmæti fyrirtækjanna sem felst í þekkingu og atorku starfsmanna og eigenda, tengslum og viðskiptavild. Jafnframt er hvötum sem leiða til árangurs þá viðhaldið. Þá ber að hafa í huga að nýsköpun krefst áhættufjármagns og mikilvægt er að liðka fyrir því að sá kraftur sem býr í fjármagni fari til atvinnu- og verðmætasköpunar.
    Hvað varðar skuldavanda fyrirtækjanna er hraðvirkasta, ódýrasta og skynsamlegasta leiðin að útfæra lausnir innan bankanna. Það sparar bæði tíma og peninga. Stjórnvöld verða þó að leggja línurnar um hvers konar aðgerða á að grípa til að gæta jafnræðis við meðferð mála.
     Tillögur:
     1.      Leiðrétta verður of mikla skuldsetningu heimilanna í landinu. Mynda skal sérfræðingahóp sem fjalli um leiðir til þess. Hópurinn verði skipaður fulltrúum allra stjórnmálaflokka og aðila vinnumarkaðarins.
     2.      Tekið verði sérstaklega á vanda verst stöddu heimilanna. Úrræðin þurfa að vera aðgengileg, fljótvirk og mannúðleg.
     3.      Stimpilgjöld verði afnumin til að auðvelda fólki að njóta bestu kjara við endurfjármögnun lána.
     4.      Settar verði verklagsreglur við endurskipulagningu skulda atvinnulífsins sem tryggja sanngirni og gagnsæi og þar með jafna meðferð skuldara. Tryggja þarf að hvatar til árangurs verði ekki slævðir. Haft verði að leiðarljósi að samkeppnisstöðu fyrirtækja verði ekki raskað.
Fylgiskjal.


Minnisblað vegna verklegra framkvæmda.
(16. júní 2009.)


    Eftirfarandi minnispunktar eru settir saman til að reyna að varpa ljósi á þær verklegu framkvæmdir sem eru eða kunna að vera framundan á næstu árum. Ýmsar tölur í því samhengi eru áætlaðar og þarf að fara nánar í saumana á þeim.
    Það er ekki að ástæðulausu að horft er til fjárfestinga þegar ræddar eru leiðir til að blása lífi í efnahagslífið. Ágætt er að líta til tveggja sjónarmiða sem eiga annars vegar við til skamms tíma og hins vegar til lengri tími. Til skamms tíma eru það öðru fremur störf á framkvæmdatíma sem eru undir – þegar fjárfestingar og framkvæmdir dragast saman fækkar mjög störfum einkum á vissum sviðum iðnaðar. Það kemur fram sem samdráttur í efnahagslífinu samstundis og er auðvitað erfiður. Mikill samdráttur í fjárfestingum er hins vegar enn alvarlegri þegar til lengri tíma er litið.
    Fjárfesting er í eðli sínu ekkert annað en að fé er lagt til hliðar í formi sparnaðar (gegnum innlán, erlent lánsfé eða frá lífeyrissjóðum) og notað til fjárfestinga. Þeim er síðan ætlað að skapa aukna framleiðslugetu í framtíðinni og þar með aukna verðmætasköpun og betri lífskjör til lengri tíma litið. Án fjárfestinga er erfitt að viðhalda og auka framleiðslustig hagkerfisins (á því hangir neyslu og velferðastigið einnig). Ótal rannsóknir sýna skýrt samband milli fjárfestinga og sparnaðar og hagvaxtar hins vegar.
    Af þessum sökum er mikilvægt að minna á mikilvægi þess að opna eins og kostur er á aðkomu erlendra fjárfesta að framkvæmdum á Íslandi en ekki síður að skapa skilyrði fyrir innlenda fjárfesta til að koma sínu fé í „góða vinnu“. Með því móti má reyna sporna gegn þeim alvarlega samdrætti sem þegar er hafinn til skamms tíma en einnig stuðla að aukinni framleiðslugetu og verðmætasköpun í framtíðinni.
    Verklegum framkvæmdum er skipt í þrennt í minnisblaði þessu. Í fyrsta lagi framkvæmdir þar sem aflað hefur verið tilskilinna leyfa þó svo enn kunni að vera fyrir hendi óvissuþættir; í öðru lagi framkvæmdir sem hafa verið til skoðunar og unnt væri að hleypa af stað með einkaframkvæmd og loks orkutengdar framkvæmdir sem eru til umfjöllunar á ýmsum stigum í dag.
    Til að setja hluti í samhengi er hér að neðan birt mynd sem sýnir yfirlit um fjárfestingar á liðnum árum og spá um fjárfestingar fram til 2011 á verðlagi hvers árs fyrir sig skv. þjóðhagsáætlun. Þar er gert ráð fyrir framkvæmdum við Helguvík og endurnýjun álversins í Straumsvík. Gert er ráð fyrir að þessar fjárfestingar muni bera uppi stóran hluta fjárfestingar atvinnuveganna á árunum 2010 og 2011.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Eins og sjá má er fallið í fjárfestingum mikið á spátímabilinu. Gert er ráð fyrir heildarfjárfestingu á árinu 2009 upp á liðlega 250 milljarða króna samanborið við um 350 milljarða 2008 og 400 milljarða þegar hæst lét 2006. Þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins gerir ráð fyrir að fjárfestingar næsta árs verði 290 milljarðar króna og 340 milljarðar 2011.
    Ef horft er á fjárfestingu fyrsta ársfjórðungs 2009 stefnir raunar í enn meiri samdrátt. Þannig var heildarfjárfesting fjórðungsins um 50 milljarðar króna samanborið við tæplega 80 milljarða á sama tímabili 2008. Vægi 1. ársfjórðungs í fjárfestingum ársins hefur verið um 22% s.l. ár og skv. því stefnir í um 220 milljarða króna fjárfestingu á þessu ári.

Framkvæmdir sem þegar liggja fyrir.
    Hér ber helst að telja álver í Helguvík og tengdar framkvæmdir, endurnýjun álversins í Straumsvík og tengdar framkvæmdir og gagnaver Verne Holding. Þá eru settar hér inn fjárhæðir Vegagerðar skv. núgildandi vegaáætlun ásamt fjárfestingum Framkvæmdasýslu og Reykjavíkurborgar fyrir 2009.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Búðarhálsvirkjun gæti allt eins fallið undir verkefni sem hentað gætu einkafjármögnun en er talin upp hér þar sem einnig hefur verið rætt um aðra kosti við fjármögnun hennar.
    Á árunum 2010 og 2011 eru þessar fjárfestingar um 50% af áætluðum fjárfestingum atvinnuveganna skv. þjóðhagsspá. Það er svipað hlutfall og var á árunum 2005–2008 og því spurning hvort þetta sé raunhæft. Þá er nokkuð ljós að miklu skiptir um efnahagsþróun að þessi verkefni nái að ganga fram en enn er t.d. óljóst með stækkun Alcan sem og framgang stækkunar við Helguvík.

Orkutengd verkefni á teikniborðinu.
    Hér að neðan gefur að líta helstu verkefni sem rædd hafa verið í þessu samhengi. Framkvæmdatími er settur fram skv. hugmyndum fjárfesta en líkt og komið hefur fram er hann í mörgum tilvikum óraunhæfur þar sem orka er ekki fyrir hendi í þessi verkefni nema að óverulegum hluta. Þá er rétt að taka fram að kostnaðaráætlun á orkuver er mjög gróft áætlaður í þessu samhengi enda óljóst hvaða kosti væri verið að ræða um.
    Stærsti óvissuþáttur varðandi möguleg ný verkefni lýtur að mögulegri orkuöflun til þeirra. Ljóst er að tímarammi þar er mjög knappur miðað við þær hugmyndir sem væntanlegir fjárfestar hafa sett fram um æskilegan framkvæmdatíma.
    Líkast til er lítið sem ekkert gert ráð fyrir þessum fjárfestingum í þjóðhagsspá en þó þarf að fá það staðfest. Fjárfestingar af þessari stærðargráðu, þó svo aðeins hluti þeirra næði fram að ganga, hefði því veruleg áhrif á hagstærðir á þessu tímabili. Áætluð landsframleiðsla skv. þjóðhagsspá er 1.450 milljarðar árið 2010 og 1.546 milljarðar árið 2011.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Fjárfestingar sem hægt væri að færa í einkaframkvæmd.
    Hér er yfirlit yfir nokkrar fjárfestingar sem ræddar hafa verið í þessu samhengi. Heildarumfang þeirra er um 20 ma. króna á ári sem ætti að vera vel viðráðanleg stærð.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    ATH! Búðarhálsvirkjun á heima í þeim flokki sem myndi henta fyrir einkafjármögnun, þar sem fjármögnun þess verkefnis er ókláruð af hendi Landsvirkjunar.

Samantekt.
    Á heildina litið gæti hér verið um að ræða fjárfestingaverkefni upp á 280–380 milljarða króna á ári næstu 3 árin. Það gefur þó auga leið að ekki er hægt að gera ráð fyrir að öll verkefnin verði að veruleika. Eins þarf að kafa dýpra í einstök verkefni til að fá nákvæmari mynd af umfangi þeirra.
    Ljóst er að það mun hafa veruleg áhrif á efnahagsframvindu næstu ára, takist að koma einhverjum hluta þessara framkvæmda á legg. Yrði helmingur þeirra framkvæmda sem hér eru talin upp undir orkufrekum verkefnum og einkaframkvæmd að veruleika þýddi það viðbótar fjárfestingar upp á um 100 milljarða króna á ári að jafnaði næstu þrjú árin. Þetta nemur um 6–7% af áætlaðri landsframleiðslu hvers árs um sig á þessu tímabili.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.