Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 8. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 8  —  8. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um yfirlýsingu um fyrningu aflaheimilda.

Flm.: Illugi Gunnarsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson,


Guðlaugur Þór Þórðarson, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ólöf Nordal,
Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að lýsa yfir því að horfið verði frá fyrirhugaðri fyrningu aflaheimilda sem getið er um í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var áður flutt á síðasta þingi (121. mál 137. löggjafarþings).
    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sendi 3. júní sl. bréf til þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi og óskaði eftir tilnefningu þeirra í starfshóp sem ætlað er að endurskoða fiskveiðilöggjöfina. Jafnframt hefur ýmsum hagsmunasamtökum í sjávarútvegi verið boðið að tilnefna fulltrúa í starfshópinn. Í bréfi ráðherra kemur fram að hópnum sé ætlað það hlutverk að láta „vinna nauðsynlegar greiningar og setji að því loknu fram valkosti um leiðir til úrbóta þannig að greininni séu sköpuð góð rekstrarskilyrði til langs tíma, en jafnframt að sátt náist um stjórn fiskveiða“. Starfshópi þessum er ætlað að skila álitsgerð fyrir 1. nóvember nk. og á grundvelli tillagna hópsins mun ráðherra ákveða tilhögun við endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar.
    Í ljósi þessa er nauðsynlegt að hafa í huga að ein af forsendum þess að slíkt endurmat geti farið fram er að ekki sé fyrir fram búið að ákveða hver niðurstaðan skuli vera. Því er nauðsynlegt að ríkisstjórnin lýsi yfir því að horfið verði frá svokallaðri fyrningarleið í sjávarútvegi. Standi ákvörðun um fyrningu aflaheimilda óhögguð má ljóst vera að hverfandi líkur eru á því að hægt sé að ná sátt um stjórnkerfi fiskveiða.
    Yfirlýsing um fyrningu aflaheimilda í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar hefur nú þegar valdið umtalsverðum skaða í íslensku efnahagslíf. Mikil óvissa um framtíðarhorfur í sjávarútvegi hefur myndast þar sem sterk rök hníga að því að gangi áform ríkisstjórnarinnar eftir muni þau valda umfangsmiklum gjaldþrotum í sjávarútvegi. Fréttir berast af því að útgerðarfyrirtæki haldi að sér höndum, lánveitendur treysti sér ekki til að lána fyrirtækjunum vegna yfirvofandi gjaldþrots þeirra og hætta er á því að eigendur fyrirtækja í greininni reyni að taka eigið fé út úr rekstrinum.
    Við þær erfiðu aðstæður sem nú eru í efnahagslífi þjóðarinnar er mikilvægt að sjávarútvegurinn hafi sem best rekstrarskilyrði. Þannig getur hann verið öflug viðspyrna í sókn þjóðarinnar í átt til betri lífskjara. Áform ríkisstjórnarinnar um fyrningu aflaheimilda ganga þvert gegn þeirri stefnu.