Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 9. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 9  —  9. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um hagsmuni Íslands í loftslagsmálum.

Flm.: Siv Friðleifsdóttir, Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Birgir Ármannsson,


Birkir Jón Jónsson, Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson, Eygló Harðardóttir,
Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson,
Illugi Gunnarsson, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ólöf Nordal,
Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir,
Vigdís Hauksdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gæta ýtrustu hagsmuna Íslands í samningaviðræðum sem nú fara fram á vegum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og stefnt er að því að ljúki á 15. aðildarríkjaþingi samningsins í Kaupmannahöfn í desember á þessu ári. Sérstaklega skal ríkisstjórnin tryggja að efni og tilgangur ákvörðunar 7. aðildarríkjaþings rammasamningsins nr. 14/CP.7 um áhrif einstakra verkefna á útstreymi á skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar („íslenska ákvæðið“) haldi gildi sínu við samningsgerðina. Svigrúm Íslands til frekari nýtingar sjálfbærra orkuauðlinda á grundvelli „íslenska ákvæðisins“ verði viðurkennt.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var áður flutt á 137. og 136. löggjafarþingi. Var hún afgreidd úr umhverfisnefnd á 136. þingi (6. apríl sl.) og lagði meiri hluti nefndarinnar þá til að málið yrði samþykkt að viðbættum nýjum málslið sem er nú lokamálsliður tillögugreinarinnar. Ekki náðist að afgreiða málið á undanförnum þingum og því er það endurflutt.
    Á aðildarríkjaþingi rammasamnings um loftslagsbreytingar sem haldið var á Balí í Indónesíu 2007 var samþykktur svokallaður Balí-vegvísir en samkvæmt honum er ætlunin að ljúka gerð nýs alþjóðlegs samkomulags um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum á þingi samningsaðila í Kaupmannahöfn í desember 2009. Samkomulaginu er meðal annars ætlað að fjalla um frekari skuldbindingar ríkja sem tóku á sig tölusett markmið um útstreymi gróðurhúsalofttegunda á árunum 2008–2012. Skuldbindingar þessar fólust í Kyoto-bókuninni sem samþykkt var árið 1997 en öðlaðist gildi árið 2005. Skuldbindingar Íslands samkvæmt bókuninni felast í því að útstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á landi skuli ekki aukast meira en að hámarki um 10% á árunum 2008–2012 að meðaltali miðað við árið 1990. Einnig er í gildi íslenska ákvæðið svonefnda sem heimilar útstreymi allt 1,6 milljón tonna af gróðurhúsalofttegundinni CO 2 að meðaltali á ári á skuldbindingartímabilinu.
    Ástæður þess að Íslandi er heimilt að auka útstreymið 2008–2012 og að það hefur að auki aðgang að útstreymisheimildum samkvæmt íslenska ákvæðinu eru nokkrar. Í fyrsta lagi var þegar árið 1990 lokið stórum áföngum við hitaveituvæðingu landsins. Landsmenn lögðu á sig verulegar byrðar í því skyni að losna við upphitun með jarðefnaeldsneyti áratugina á undan. Því hafði að verulegum hluta átt sér stað hér á landi umbreyting þar sem endurnýjanlegir orkugjafar komu í stað jarðefnaeldsneytis. Meginmarkmið með væntanlegu nýju alþjóðlegu samkomulagi um loftslagsmál er að önnur ríki grípi til sambærilegra aðgerða. Í öðru lagi er einnig ljóst að lítil hagkerfi hafa mun minni sveigjanleika en þau sem stærri eru til að bregðast við auknum kröfum um samdrátt útstreymis. Evrópusambandið (ESB), sem fer með heildarkvóta fyrir aðildarríkin, hefur brugðist við þessu með því að úthluta útstreymismarkmiðum til einstakra aðildarríkja eftir getu þeirra og aðstæðum og má nefna að t.d. mun útstreymi á Spáni, Portúgal og Grikklandi aukast mun meira en á Íslandi á árunum 2008–2012 frá 1990. Sama mun gerast á næsta tímabili þar sem ESB hefur þegar ákveðið að einstök ríki geti aukið útstreymi til 2020 um allt að 20% frá árinu 2005. Einstök ríki hafa engan slíkan sveigjanleika. Í þriðja lagi geta einstök verkefni haft veruleg áhrif á útstreymi smárra ríkja og getur þannig eitt nýtt fyrirtæki aukið útstreymi landsins um tugi prósenta. Þannig geta skuldbindingar á vegum rammasamnings um loftslagsbreytingar haft veruleg áhrif á hagþróun í smáum ríkjum og komið í veg fyrir að þau geti byggt upp sitt hagkerfi eins og best samræmist getu þeirra og sérstöðu. Í raun hefðu slíkar skuldbindingar hlutfallslega meiri áhrif í smáum hagkerfum en annars staðar og gætu þýtt að byrðum væri skipt á óréttlátan hátt. Í fjórða lagi er alveg skýrt samkvæmt rammasamningnum um loftslagsbreytingar að ríkin hafa óskoraðan rétt yfir auðlindum sínum. Engar takmarkanir eru lagðar á heimildir ríkja þar sem er að finna jarðefnaeldsneyti til að nýta þær auðlindir. Eins og kunnugt er dæla Norðmenn upp olíu og jarðgasi sem aldrei fyrr og sama á við um önnur olíuríki sem tóku á sig skuldbindingar samkvæmt Kyoto-bókuninni. Í fimmta lagi býr Ísland við þá sérstöðu að hér er að finna gnótt endurnýjanlegra orkulinda og það liggur fyrir að það er beinlínis hagfellt fyrir loftslagskerfi heimsins að auka nýtingu slíkra endurnýjanlegra orkulinda. Má auðveldlega sýna fram á að ef sú iðnframleiðsla sem hér fer fram og nýtir raforku úr vatnsafli og jarðvarma flyttist annað mundi útstreymi gróðurhúsalofttegunda í heiminum aukast og um leið neikvæð áhrif á loftslagið. Það hefði skotið algerlega skökku við ef Kyoto-bókunin hefði leitt til þess að leggja óraunhæfar kröfur á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda á þeim stað í heiminum þar sem til er þekking, aðstaða og tæknileg geta til nýtingu þeirra og að auki stundaðar rannsóknir á þessu sviði og unnið að alþjóðlegri miðlun þekkingar og rannsóknaniðurstaðna. Rétt er að hafa í huga að framleiðsla áls þar sem jarðefnaeldsneyti er notað til orkugjafar veldur sex til átta sinnum meiri mengun en hlýst af framleiðslu áls þar sem hreinir endurnýjanlegir orkugjafar eru notaðir, eins og gert er hér á landi.
    Öll þau rök sem hér hafa verið talin upp eru enn í fullu gildi og því er brýn nauðsyn til þess að ríkisstjórnin haldi þeim á lofti og fallist ekki á neina þá niðurstöðu í samningsferli á vegum rammasamnings um loftslagsbreytingar sem rýra möguleika þjóðarinnar til nýtingar auðlinda sinna. Þær má svo nýta eins og talið er samrýmast öðrum markmiðum á hverjum tíma hvort sem um er að ræða markmið í náttúruvernd eða efnahagsmálum. Einnig er rétt að minna á að það er nánast óhugsandi að ákvörðun aðildarríkjaþings rammasamningsins nr. 14/CP.7 hafi einungis verið hugsuð til tímabilsins 2008–2012 og að heimildir sem í henni felast eigi síðan að falla niður. Ákvæðið mun hafa verið nýtt að stórum hluta í lok tímabilsins og það er hlutverk ríkisstjórnarinnar að tryggja að það verði til áfram svo að íslenskt atvinnulíf búi við sambærileg samkeppnisskilyrði og fyrirtæki í nálægum löndum. Það er líka hlutverk ríkisstjórnarinnar að tryggja að íslenska þjóðin geti á hverjum tíma notað auðlindirnar til að tryggja kröftuga uppbyggingu atvinnulífs og búa í haginn fyrir sig og afkomendur sína. Ekki mun af veita.